Átakið VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM hlýtur Tilberann 2017

Átakið VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM hlýtur Tilberann 2017

Átakið VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM hlýtur Tilberann 2017

Tilberinn 2017 var veittur laugardaginn 28. október á hátíð Dags Myndlistar í höfuðstöðvum Sambands Íslenskra Myndlistarmanna. Tilberann hlaut átakið VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM, með Jónu Hlíf Halldórsdóttur, formann SÍM, í forsvari.

Þetta er í þriðja sinn sem Tilberinn er veittur, en Helga Óskarsdóttir, myndlistarkona, hönnuður, galleristi og útgefandi, hlaut viðurkenninguna 2016, og Freyja Eilíf Logadóttir, myndlistarmaður og eigandi viðburðarýmisins Ekkisens, hlaut hana árið 2015.

Á bak við Tilberann standa Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir og Sigrún Sirra Sigurðardóttir, myndlistarkonur.

Um Tilberann:

Tilberinn er viðurkenning sem veitt er árlega þeim sem þykja hafa sýnt útsjónarsemi, dugnað, hugrekki og staðfestu á sviði myndlistar og auðgað þannig menningar- og listalíf landsins. Honum fylgir jafnframt orða sem heiðursverðlaunahafinn er sæmdur til frambúðar.

Tilberinn sjálfur dvelur hjá verðlaunahafanum í eitt ár til hvatningar og innblásturs. Tilberann geta hlotið myndlistarmenn og aðrir sem starfa við fagið,  þ.e. einstakir  listamenn, sýningar, útgáfur eða sýningastaðir. Sérstaklega er horft til þeirra sem hafa áorkað miklu af litlum efnum – þeirra sem tekist hefur að magna upp úr vanefnum seið í anda gullgerðarmanna.

Gripurinn sjálfur er framkallaður í þeim sama anda, en Tilberinn er gerður úr endurunnum áldósum sem safnað var af listamönnum frá listamönnum, sýningarstöðum og listmenntastofnunum.

Um verðlaunin þessu sinni var eftirfarandi sagt varðandi forsendur viðurkenningarinnar:

Átakið VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM, með Jónu Hlíf í fararbroddi, markar upphaf stéttarbaráttu myndlistarfólks á Íslandi. SÍM er nú orðið það öfluga verkalýðsfélag sem okkur sárvantaði – myndlistarfólk er ekki lengur eins og hafnarverkafólk á kreppuárunum, sem var skömmtuð vinna í korter fyrir greiðasemi, bundið launaleynd.

Það kerfi sem við myndlistarfólk höfum búið við allt of lengi var tímaskekkja í anda þess sem fyrstu sveitakrakkarnir á mölinni upplifðu á 4. áratug síðustu aldar.

Það er ótrúlegur munur að hafa stéttarfélag á bak við sig sem tekur slaginn fyrir heildina, samanborið við að standa einn, með óljósar hugmyndir um réttindi, gildi og verð ,,vörunnar og vinnunnar” í samningaviðræðum við sýningarstaði. Við viljum jú öll sýna, og það hefur verið viðkvæðið og okkar trú að það sé heiður og upphefð að fá að sýna verkin sín. Nú í krafti átaksins VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM hefur loksins skapast grundvöllur þar sem vinna myndlistarmanna er virt að verðleikum, til jafns við önnur störf.

Ljósmynd af aðstandendum og handhöfum Tilberans: Erling Klingenberg
Vefsíða átaksins Við borgum myndlistarmönnum.

Tíðir, reki, grip, frjósemi og skjól eru hugtök sem snerta vinningstillögu að nýju útilistaverki á hafnarsvæðinu

Tíðir, reki, grip, frjósemi og skjól eru hugtök sem snerta vinningstillögu að nýju útilistaverki á hafnarsvæðinu

Tíðir, reki, grip, frjósemi og skjól eru hugtök sem snerta vinningstillögu að nýju útilistaverki á hafnarsvæðinu

Í vikunni voru tilkynnt úrslit í samkeppni um nýtt útilistaverk við Miðbæjarhöfnina í Reykjavík sem Faxaflóahafnir efndu til fyrr á þessu ári. Tillagan sem bar sigur úr býtum ber heitið Tíðir, en bak við hana standa Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, og Gísli Pálsson fornleifafræðingur. Hlutdeild kvenna í starfssemi og sögu hafnarinnar var þema samkeppninnar, en  um þessar mundir á Miðbæjarhöfnin 100 ára afmæli.

Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður og Gísli Pálsson fornleifafræðingur.

29 myndlistarmenn, einstaklingar og hópar, gáfu kost á sér í samkeppnina sem haldin var í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Fimm aðilar voru valdir í forvali til að taka þátt í lokaðri samkeppni. Þeir voru auk vinningshópsins, Guðrún Vera Hjartardóttir, Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg), Hildur Bjarnadóttir og Ólafur Sveinn Gíslason, Jónína Guðnadóttir og Sveinn Bjarki Þórarinsson.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: “Tíðir er umhverfisverk, villigarður, þar sem tekist er á við frumkrafta náttúrunnar og unnið með villigróður í bland við manngert umhverfi borgarinnar.

Í verkinu er vísað í störf kvenna á mótum lands og sjávar. Sjónum er ekki einungis beint að hefðbundnum störfum eins og að stakka fiski, beitningu og uppskipun, heldur einnig að því að hirða strandnytjar til að veita líkn gegn sulti og veikindum. Garðurinn myndar tákn fyrir konuna sem skapar umgjörð, hlúir að og veitir skjól.

Styrkur verksins liggur í því hvað það er marglaga, það vísar í söguna en tekur jafnframt á málefnum samtímans og vísar til framtíðar. Verkið er í stöðugri umbreytingu vegna áhrifa frá umhverfi sínu, rétt eins og staða og störf kvenna hafa tekið breytingum í gegnum tíðina.

Verkið Tíðir er nýr viðkomustaður í borginni, vin þar sem vegfarendur geta dvalið og notið. Verkið er minnisvarði um framlag kvenna og um leið hið síbreytilega landslag sjávarsíðu Reykjavíkur.”

artzine hafði samband við Huldu Rós Guðnadóttur myndlistar og kvikmyndagerðarkonu og spurði hana út í hugmyndina að baki tillögunni og hvaða þýðingu það hefði fyrir hana að taka þátt í þessu verkefni.

Í ár eru um 7 ár síðan ég byrjaði að beina sjónum mínum af höfninni og höfnum almennt og listrannsóknarverkefnið Keep Frozen varð til smám saman á löngu ferli. Á þessum tíma hef ég öðlast bæði breiðan þekkingargrundvöll á höfnum og hvað er í gangi á þeim vettvangi almennt og einnig sérstaklega í miðbæjarhöfninni í Reykjavík. Þessi þekking er á margan hátt rökvís og félagsfræðileg en fyrst og fremt fagurfræðileg skynjun eða hugsun/sýn sem varð til við það að stunda myndlist. Það er mjög ánægjulegt að geta nýtt þessa samansöfnuðu reynslu og þekkingu sem hefur orðið til á löngum tíma og nýtt í eitthvað sem hugsanlega verður áþreifanlegt kennileiti í Reykjavíkurborg á þessum stað sem er mér svo kær. Þar sem Daníelslippur stóð áður. Eins og ég sagði á málþinginu, þar sem tilkynnt var hverjir höfðu unnið, þá á ég í raun tilvist mína að þakka Faxaflóahöfnum. Þetta er því ekki einungis faglegt heldur mjög persónulegt.

Ég vinn mjög mikið í samstarfi – er með einhverja ólæknanlega löngun í að læra af öðru fólki og kynnast alls konar sviðum. Myndlistarstarfið getur verið einmannalegt og samstarf ýtir manni úr eigin búbblu og víkkar út allt sjóndeildarsviðið. Það er mjög krefjandi – það er ekki endilega auðvelt fyrir myndlistarmanninn að vera í skapandi samstarfi – en það er áskorun og tækifæri til að stækka ef maður nálgast áskorunina á uppbyggilegan hátt. Svo má ekki gleyma að það er stærra samhengi sem er mikilvægara en mitt eigið persónulega svið og það er samhengi myndlistar sem fags. Samtímamyndlistin snertir svo margt og getur svo margt og möguleikar hennar til að tengja mismunandi svið og fög saman eru ein af hennar sterkustu hliðum. Þegar ég kom auga á auglýsinguna þá lá beinast við að ég hefði samband við Gísla Pálsson fornleifafræðing sem hafði að undirlagi Aldísar Snorradóttur flutt fyrirlestur á Keep Frozen ráðstefnu sem haldin var í LHÍ í febrúar á síðasta ári. Við komum þarna saman fullt af fólki sem tengdust rannsóknum í listum og rannsóknum á höfnum og kynntumst sjónarhorni hvers annars. Það sem Gísli hafði fram að færa opnaði augun mín fyrir svo mörgu og svo er hann svo kreatívur bæði í starfi og einkalífi. Ég var að leita eftir tækifæri til að vinna með honum og þar sem hann er sérfræðingur í fornleifafræði Reykjavíkurhafnar og sjávarsíðu Íslands almennt þá þurfti ég ekki að hugsa mig um. Það var síðan svo skemmtilegt að við höfðum bæði Hildigunni Sverrisdóttur arkitekt í huga sem þriðja aðila. Gísli þekkti hana af góðu og ég hafði tekið eftir henni og því sem hún hefur verið að segja og starfa í mörg ár. Klárari og hugmyndaríkari arkitekt er erfitt að finna. Það er mér mjög mikils virði að hafa haft þetta tækifæri til að vinna með þeim og innblásturinn og þekkingin sem ég öðlaðist hefur haft mikil áhrif á mig og á eftir að koma meira í ljós í framtíðinni.

Þú hefur áður unnið verk sem tengist hafnarstarfseminni þegar þú gerðir kvikmyndina Keep Frozen. Þema samkeppninar er óður til þáttöku kvenna í atvinnustarfssemi hafnarsvæðisins, hvaða merkingu hafði það fyrir þig?

Þemað kveikti strax í mér. Í rannsóknum mínum hafði ég komist að því að kjarnann í fagurfræði hafnanna er að finna í vinnunni sem fer þar fram og þá meina ég verkamannavinnunni. Ég hafði líka tekið eftir því að í sambandi við miðbæjarhöfnina þá er verkamannavinnan ósýnileg mörgum bæjarbúum. Margir halda að iðnaðarstarfsemi sé farin af svæðinu þegar raunin er sú að þetta er stærsta fiskihöfn landsins. Vinnan fer fram fyrri luktum dyrum eða á þeim tíma dags sem fæstir eru á röltinu. Með stuðningi Kvikmyndasjóðs hafði ég þegar fengið tækifæri til að gera minnisverk um atvinnuþátttöku karla með myndinni Keep Frozen sem ég hef varið síðasta ári í að ferðast með á kvikmyndahátíðir. Þá var það falin vinna karla í keðju verðmætasköpunar eða löndunarvinnan. Núna hef ég tækifæri til að minnast atvinnuþátttöku kvenna en eins og margoft hefur verið bent á þá hefur sú vinna yfirleitt ekki verið metin að verðleikum.

Við vildum gera samfélagsverk. Búa til stað sem gengur út á samskipti og samveru á öðrum forsendum en söluforsendum. Stað þar sem hægt væri að skoða söguna og framtíðina og vera í núinu. Einnig vildum við skapa verk sem væri í samtali við það sem er að gerast í alþjóðlegu samtímalistinni og tæki á þeim viðfangsefnum sem brenna hvað brýnast á heiminum í dag og snerta sjávarlínuna, atvinnuþátttöku og fleira. Hugmyndin byrjaði með löngun til að búa til villigarð. Ég dregst mjög að villigörðum og í ofur-borgarskipulagi þá hef ég trú á að villigarður verði eins og vin sem fólk mun sækja í og finna til gleði.

Það getur hver og einn lesið í form og virkni og séð það sem viðkomandi vill sjá út úr því. Mér finnst skemmtilegra að upplifun af verkinu sjálfu og rýn í það skapi umræður um vísanir frekar en að ég fari að njörva vísanir í stein með stórum yfirlýsingum hér. Hér eru tíðir, reki, grip, frjósemi, skjól, nytjajurtaræktun, samvera, fljótandi tilraunastarfsemi, lausnamiðuð hugsun, verkfræðiáskorun, hnattrænt samhengi og eins og ég segi form og virkni.

Það er við hæfi að spyrja í ljósi þess að krafan um að borga listamönnum fyrir vinnu sína hefur verið hávær undanfarið og ýmsir sigrar verið að vinnast í þeirri baráttu. Er ykkur hugmyndasmiðunum ætluð mannsæmandi laun fyrir vinnu ykkar við þetta verkefni?

Þetta er mjög góð spurning og ég fagna henni. Ég segi nú bara verum hávær og mér er efst í huga ómetanlegt starf Jónu Hlífar Halldórsdóttur formanns SÍM í þessum málum. Hún er virkilega að toga íslenska myndlistarsenu mörg skref inn í samtímann með því að leiða þessa baráttu. Nú er það þannig með þetta verkefni að það hefur unnið ákveðna samkeppni en eftir á að semja við okkur hugmyndasmiðina um höfundalaun. 

Við fórum á fund Faxaflóahafna nú í vikunni og erum öll sammála um að fyrsta mál á dagskrá, ef að stjórnin ákveður að leggja út í þessa framkvæmd, verður að semja við okkur höfunda um þóknun. Þessi fundur var mjög góður og tengiliðir okkar fagmenn fram í fingurgóma á sínu sviði. Við efumst ekki um að Faxaflóahafnir muni borga okkur viðeigandi þóknun sem er í samræmi við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum þegar kennileiti sem þetta eru byggð. Ég sé mína ábyrgð sem mikla þar sem það er fordæmagefandi og ég hef engan áhuga á að ‘undirbjóða’ kollega mína og grafa þannig undan myndlistarlífinu í landinu. Ég gæti heldur ekki lifað af ef ég gerði slíkt. Þú veist borgað húsaleigu og mat. Ef ég fæ að ráða þá verður það auðvitað gegnsætt hvaða þóknun við fáum enda tel ég það hagsmuni myndlistarinnar. Sjáum til hvort það verði ekki hægt.

artzine þakkar Huldu fyrir spjallið og óskar henni og hópnum öllum innilega til hamingju með frábæra vinningstillögu.

Hér að ofan er myndskeið af Huldu að halda stutta ræðu þegar tilkynnt hafði verið um úrslitin.

Líf Magneudóttir var formaður dómnefndar og kynnti hún niðurstöður dómnefndar á árlegu málþingi Faxaflóahafna sem haldið var í Hörpu.

Auk Lífar sátu í dómnefndinni Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður, Hildur Gunnlaugsdóttir, skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna, Ólöf Nordal, myndlistarmaður og Sindri Leifsson, myndlistarmaður. Dómnefndin naut ráðgjafar Vignis Albertssonar byggingafræðings. Í forvalsnefnd sátu Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Guðrún Erla Geirsdóttir, myndlistarmaður og Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður og rithöfundur. Trúnaðarmaður SÍM í samkeppninni var Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, myndlistarmaður.

Hér má sjá allar tillögurnar: Keppnistillögur

Fullkomlega Óheiðarleg í SÍM salnum

Fullkomlega Óheiðarleg í SÍM salnum

Fullkomlega Óheiðarleg í SÍM salnum

Sýningin Fullkomlega Óheiðarleg opnaði í SÍM salnum, sal Sambands íslenskra myndlistarmanna í Hafnarstræti, miðvikudaginn 11. október síðastliðinn. Fullkomlega Óheiðarleg er samsýning tíu myndlistamanna sem útskrifuðust frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Flest hafa þau sótt framhaldsnám í myndlist erlendis og sýna nú í fyrsta skipti saman, tæpum tíu árum síðar.

Titill sýningarinnar varð til í samtali hópsins og hver má draga sína ályktun af honum. Fullkomlega Óheiðarleg eða Ófullkomlega Heiðarleg, allt eftir samhengi. Titillinn er í raun sjálfstætt verk sem túlka má á margan hátt. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Etienne de France, Eva Ísleifs, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Logi Bjarnason, Páll Haukur Björnsson, Rakel McMahon, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Unndór Egill Jónsson og Una Sigurðardóttir. Sýningarstjóri er Ástríður Magnúsdóttir. Hugmyndin að sýningunni kviknaði í samtali hópsins um þörf mannsins til þess að skilja tilvist sína og staðsetja sjálfan sig hvort sem er í stórbrotnu samhengi við sólina eða smávægilegu samhengi egósins.

Frá opnuninni.

Á sýningunni má finna verk unnin í ýmsa miðla. Skúlptúrverk eftir Pál Hauk Björnsson þar sem hann kannar mörk vídjómiðilsins. Páll vinnur gjarnan í miðla sem háðir eru tíma og rúmi og krefjast beinnar íhlutunar af hálfu áhorfenda. Ljósmyndaverk eftir Rakel McMahon nefnist Reality in other words. Verkið er skrásetning á gjörningi sem Rakel framdi í Mengi í maí mánuði.

Verk Rakelar McMahon.

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir og Logi Bjarnason sýna bæði málverk en vinna með málverkið á ólíkan hátt sem endurspeglar fjölbreytileika málverksins í samtíma. Í verki Loga, Mantra, leitast hann við að spyrja tilvistarlegra spurninga eins og Etienne de France gerir einnig í vídjóverki sínu Exploration of a Failure. Unndór Egill Jónsson sýnir verkið Spíta / A Piece of Wood, sem unnið er í við, nánar tiltekið eik og hnotu. Þar mætir hið villta og náttúrlega hinu tamda og mannlega. Verkið er tilraun til að endurgera lífrænt efni. Úr fjærlægð virkar spítan eins og náttúruleg spíta en þegar betur að gáð er spítan augljóslega samsett. Teikningar eftir Unu Sigurðardóttur eru hluti af seríu sem nefnist Gender/Politics og er innblásin af sjónarspili alþjóðastjórnmála, sviðsetningu valdhafa á sjálfum sér og hvernig samansafn leiðtoga undirstrikar kynjahallann og í raun heft aðgengi kvenna að valdi. Serían er tilraun til að varpa húmorísku ljósi á þennan veruleika og skynja þannig undarlegheitin sem í honum býr. Pólitískt mynd- og hljóðverk eftir Steinunni Gunnlaugsdóttur ber titilinn AÐSEND – UNDir regnboga og samanstendur af hljóðverki og fréttaúrklippu af netinu sem er prentuð á gler. Úrklippan er frétt af Vísi.is þar sem sagt er frá því að fyrsti kísilmálmurinn, sem framleiddur er í nýrri verksmiðju United Silicon í Helguvík og þar af leiðandi fyrsti kísilmálmurinn sem framleiddur er á Íslandi, sé tilbúinn og kominn um borð í skip á leið úr landi. Í hljóðverkinu má heyra í aðal gullgerðarverkfæri verksmiðjunnar; Ljósbogaofninum Ísabellu.


Verk Evu Ísleifsdóttir

Katrín Inga J. Hjördísardóttir er með útiverk í garði sýningarsalarins, sem hún nefnir Einlæg tilraun. Verkið er einlæg tilraun listakonunnar til að endurgera útskriftarverk sitt frá árinu 2008 með auknu hugrekki og meiri krafti en hún bjó yfir þá. Eva Ísleifsdóttir sem býr og starfar í Grikklandi er með uppákomu sem rekast má á víðsvegar um miðbæ Reykjavíkur; plaköt sem prentuð voru í tvö hundruð eintökum og dreift um bæinn eins og öðrum auglýsingum fyrir ýmsa viðburði og uppákomur. Á plakatinu stendur: Ég á ekkert. Setningin, sem er einnig titill verksins, er tilvistarlegs eðlis. Hún vekur upp spurningar og áhorfandinn þarf að kljást við hana. Hún er persónuleg en á sama tíma ópersónuleg. Er þetta áróður, tilkynning eða hróp á hjálp? Verkið er spurning á sama tíma og það er fullyrðing. Verkin á sýningunni Fullkomlega Óheiðarleg eru ólík en samt sem áður eru nokkur sameiginleg stef sem virða má fyrir sér í ólíkum miðlum. Sýningin stendur til 24. október og er opin alla virka daga frá 10-16. Verk Katrínar Ingu stendur áfram í bakgarði SÍM um óákveðinn tíma.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Ástríður Magnúsdóttir

Nánari upplýsingar um sýninguna:

https://www.facebook.com/events/125585801414420/

http://sim.is/syningar-og-vidburdir/

Heimasíður listamanna:

Etienne de France: http://www.etiennedefrance.com

Eva Ísleifs: http://www.evaisleifsdottir.com

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir: http://cargocollective.com/johannakristbjorg

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir: http://dottir.info

Logi Bjarnason: http://logib.tumblr.com

Páll Haukur Björnsson: http://pallhaukur.com

Rakel McMahon: http://www.rakelmcmahon.com

Steinunn Gunnlaugsdóttir: http://www.sackofstones.com

Þegar margir punktar sameinast í röð verður til lína

Þegar margir punktar sameinast í röð verður til lína

Þegar margir punktar sameinast í röð verður til lína

Nú stendur yfir í vestursal Kjarvalsstaða einkasýning Önnu Líndal myndlistarkonu. Anna á farsælan feril að baki í myndlistinni, en hún vakti fyrst athygli upp úr 1990 með áleitnum verkum sem fjölluðu um hugmyndir samfélagsins um stöðu konunnar. Eins og Anna segir sjálf í viðtalinu mætti segja að verk hennar hafi í fyrstu fjallað um heimilið, síðan hafi hún fært sig út í samfélagið og í dag er öll jörðin undir. Blaðamaður artzine hitti Önnu á Kjarvalsstöðum og spjallaði við hana um feril hennar og nýju verkin á sýningunni, sem ber nafnið Leiðangur.

Geturðu sagt mér frá tilurð og uppsetningu sýningarinnar?

„Ólöf safnstjóri Listasafns Reykjavíkur hafði samband við mig og kom í vinnustofuheimsókn. Hún hafði ekki sagt mér tilefni heimsóknarinnar og það kom mér skemmtilega á óvart að hún hafði í huga yfirlitssýningu á öllum ferlinum. Mér fannst þetta strax mjög spennandi verkefni og er nú búin að vera að vinna að þessari sýningu í eitt og hálft ár. Listasafn Reykjavíkur stóð líka að útgáfu mjög veglegrar sýningarskrár, undirbúningurinn hjá mér fólst aðallega í að vinna nýju verkin og finna til ljósmyndir og titla af verkum fyrir sýningarskrána.

Var erfitt að velja verk á sýninguna?

„Það var ekkert svo erfitt. Frá upphafi höfðum við frekar skýra verkaskiptingu. Ólöf er sýningarstjóri og hún valdi eldri verkin. Síðan er stór hluti sýningarinnar ný verk sem ég hef unnið síðustu tvö ár. Við höfðum þetta þannig að við vorum með fleiri verk en færri til að velja úr, á endanum létum við ráðast í uppsetningunni hvaða verk yrðu með. Við vorum mjög samstiga og fannst mikilvægara að sýningin myndi flæða vel frekar en að sýna öll verkin sem við vorum búnar að velja. Samt vildum við að hér kæmu fram verk sem snertu á öllum ferlinum.“

Þegar þú lítur yfir ferilinn,  sérðu þá einhvers konar skil?

„Já ég sé það. Það er áhugavert að sjá verkin saman, áður fannst mér vera ein skil en nú finnst mér þau vera tvö. Það eru kannski nokkuð hrein skil þarna um 2000. Þar á undan vinn ég með feminískar áherslur, þar sem ég fjalla um konuna í samfélaginu og þær kröfur sem eru gerðar til hennar, þessar hefðir sem allir hafa sætt sig við að séu eðlilegar. Þarna er ég að kortleggja hversdagslífið til að freista þess að rata ósködduð um það.

En eftir aldamótin, þá fer ég að skoða náttúruhamfarir og manneskjuna í náttúrunni. Frá um 2000 til um 2009 er ég að skrásetja mælingar vísindamanna og vinna úr því. Á þessu tímabili er ég prófessor uppi í Listaháskóla en síðan lýkur þeirri stöðu og þá finnst mér nýtt tímabil taka við. Verkin verða rannsóknartengdari. Árið 2009 fór ég í vinnustofudvöl í Kaupmannahöfn. Þar fékk ég þúsund fermetra verksmiðjurými með tíu metra lofthæð til að setja upp innsetningu. Við það tækifæri ákvað ég að draga saman öll þau verk sem ég hafði gert um Vatnajökul og Grímsvötn. Mig langaði til að bæta nýju elementi við og þá komu strapparnir inn, strappar eru notaðir í leiðöngrum, til að halda öllu saman, ég notaði þá til að halda sýningunni saman.

Á þessum tíma fór ég að sakna akademískrar samræðu. Mig langaði að skoða betur listrannsóknir sem mér hafa lengi þótt spennandi, en í þeim kemur fram ný krafa á listamenn. Ég fór til Antwerpen í alþjóðlegt nám í listrannsóknum árin 2011 til 2012. Hluti af því námi var miðlun og þá gerði ég fyrsta bókverkið mitt. Í tengslum við það varð Samhengissafnið til og það finnst mér vera upphafið á nýju tímabili. Í gegnum bókverkin get ég stigið eitt skref til baka frá verkum mínum og skilgreint fyrir mér að hverju ég er að vinna. Aðferðafræðin hefur breyst, mér finnst eins og ég hafi náð einu hænuskrefi lengra í þá átt sem mig langar að fara.“

Hefur Samhengissafnið verið sýnt áður?

„Ég sýndi það í Harbinger 2012 og gaf þá út bókverk samhliða því sem hét Línur. Þá notaði ég tilvitnun í Alberti, (Leon Battista Alberti, fræðimaður á 15. öld, innsk. blm.) þar sem hann talar um punkta sem búa til línur sem síðan verða vefnaður.

Ég lít á hvern hlut í Samhengissafninu sem einn punkt, en þetta eru allt hlutir sem hafa skipt mig máli á mismunandi máta. Ég er ekki með neinar fastar reglur, þetta er opið og þróast. Þarna eru hlutir sem ég hef sankað að mér á ferðalögum, síðan koma líka inn hlutir úr eldri verkum, valið byggir á tengingu sem skiptir mig máli. Þarna er ég líka að vinna með skala, í Samhengissafninu er korktappi sem hefur velkst um í sjónum og það hafa safnast á hann hrúðurkarlar. Korktappinn fær sinn stall í safninu og síðan er þarna líka  ellefu metra breitt landakort á sýningunni, þannig verður til mismunandi skali milli verkanna. Það gerist líka á milli strappanna og tvinnakeflanna, þar verður til samræða í skala.“

Hvað geturðu sagt mér um bókverkin í Samhengissafninu?

„Þau skipta mig miklu máli. Ég gaf t.d. út bókverk með nýja verkinu, Leiðangri, en bókverkin eru mín aðferð til þess að ná utan um það sem ég er að gera. Ég vinn þetta samhliða. Bókverkið getur staðið sem sérstök eining og síðan stendur verkið sjálfstætt, en þau styðja hvort annað. Það er mikil textavinna í bókverkinu og mér hefur alltaf fundist textavinna mjög erfið, stundum held ég að maður sæki bara alltaf í það sem manni finnst erfitt. En ég fæ geysilega mikið út úr þessu basli við textann.

Með þessari vinnuaðferð er ég að reyna að meitla hugmyndirnar sem ég er að vinna með í verkinu. Þarna finnst mér koma fram þessi nýja aðferðafræði, sem ég var að tala um. Listrannsóknirnar gáfu mér ný tæki til að nota, sem mér finnast skemmtileg. Þessi leið gefur mér víðari aðkomu að eigin verkum og listsköpun. Maður er bara sjálfur manns eigin innblástur, að finna nýjar vinnuaðferðir og nálgun á viðfangsefnin er ein leið til að halda sköpunargleðinni.“

Er framsetning Samhengissafnsins breytileg, er til dæmis skápurinn sem hér hýsir verkið hluti af því?

„Hér er skápurinn hluti af verkinu en ég gæti síðan sett safnið upp annars staðar á annan máta. Sumt af þessu hef ég líka sýnt sem sjálfstæð verk. Ég get t.d. tekið korktappann úr hillunni og sýnt hann sem sjálfstætt verk. Og öfugt, sett sjálfstætt verk inn í Samhengissafnið.

Þetta gefur mér mikið frelsi og það var mér mikill léttir að forma Samhengissafnið.  Allt í einu náði ég samhenginu sem ég hafði alltaf verið að leita að. Stundum hafði mér fundist verkin mín koma úr misjöfnum áttum og þarna fann ég aðferð til þess að láta þetta allt þjóna mínum hugmyndum. Eins og fyrstu verkin fjölluðu um að kortleggja samfélagið til þess að rata um það og framkalla þessar huldu reglur, þá er Samhengissafnið kannski það sama nema að þarna er ég að finna mína leið innan myndlistarinnar til þess að hafa það frelsi sem skiptir mig svo miklu máli.“

Þegar ég skoða verk eins og Samhengissafnið og Leiðangur, vaknar sú spurning hvaða hlutverk fagurfræðin leikur í verkum þínum?

„Fagurfræði skiptir máli. Mér finnst mikilvægt að myndlist hafi rödd í samfélaginu en líka mikilvægt að tala innan fagsins, að ná að tala í báðar áttir. Fagurfræðin er vonandi til staðar. Í bókverkinu tala ég um hvað það er auðvelt að skynja náttúruna en erfitt að koma þeirri skynjun í orð. Kannski er þarna einhver tenging, ég hugsa aldrei um fagurfræðina í verkunum,  hún bara kemur. Til dæmis þegar ég saumaði út landakortið Leiðangur, þá var ég ekki búin að velja einhvern litaskala áður, ég byrja bara á einum lit og svo vel ég hvern lit eftir því hvernig síðasti litur hefur verið, ég rek mig bara áfram í því. Og í þessu verki vissi ég ekki hvernig mælilínurnar voru í raun og veru því það átti eftir að finna út mínar mælilínur. Þetta eru línur sem hafa verið mældar þegar ég hef verið á Vatnajökli, ég var með rosalega mikið af mælingum. Ég gerði mér ekki grein fyrir hvar þær myndu enda og hversu hátt þær færu. Í þessu tilfelli er það eitthvað sem ég hef enga stjórn á. En síðan, eins og allir sem vinna í myndlist vita, er stöðugur höfuðverkur hvernig framsetningin verður í rýminu. Þetta er allt fagurfræði og skiptir máli, líka það sem er skilið eftir, fær ekki að vera með.“

Þú sagðir áðan að þér fyndist mikilvægt að fara í báðar áttir, – hvaða erindi finnst þér verkin eiga við samfélagið?

„Í fyrstu verkunum, fyrir 2000, vildi ég að fólk sæi þessar huldu reglur sem við höfum samþykkt í okkar samfélagi. Síðan er ég t.d. með verk sem tengist Kárahnjúkavirkjun, sem heitir Í bakgarðinum, sem fjallar um að það skiptir engu máli hvort þú fylgist með eða ekki, þetta á sér stað og það skiptir þig máli. Í nýju verkunum, í verkinu Leiðangur, nota ég Grímsvatnaöskjuna í raun og veru sem tákn fyrir plánetuna jörð og hvernig mælingar hafa þróast. Ég er með tvö landakort, annars vegar frá 1919, þegar fyrsta mannveran sá Grímsvötn svo vitað sé, það voru tveir ungir Svíar. Ári síðar eru þeir búnir að teikna kort af Grímsvötnum, samkvæmt þeirra tíma aðferðum. Hitt kortið sýnir mikinn fjölda af mælingum, þær nýjustu frá 2017. Ég er að velta fyrir mér margþættu hlutverki kortagerðar, hvaða þýðingu hún hefur fyrir einstaklinginn sem býr kortin til en líka fyrir hina sem hafa ekkert um þau að segja. Árið 2011 var í fyrsta skiptið búið að mæla alla plánetuna með gervitunglum, millimeter fyrir millimeter. Það er mikilvæg og merkileg staðreynd, sem er alveg þess virði að velta fyrir sér, hvaða áhrif það hefur á fólk og fugla.

Það væri kannski hægt að segja að í verkum mínum hafi ég byrjað á heimilinu, síðan fært mig út fyrir og nú er öll jörðin undir. Þarna er td. eitt nýtt ljósmyndaverk, Bráðnun, þar sem ég held á jökulís sem bráðnar. Það fjallar um að náttúran er alltaf mæld út frá manninum og það erum við sem erum að bræða jöklana. Þar tala tvær mælingar saman. Ég nota líkamann sem mælitæki, kannski er það feminískt innslag, eða bara húmanískt, önnur aðkoma að mælingum. Jöklamyndin Bráðnun mætir að einhverju leyti gamalli ljósmynd frá 1997, 28 tommur þar sem ég er að mæla á mér mittið. Á sýningunni skapast þannig snertifletir milli gamalla og nýrra verka. Það gerist eitthvað við þannig samtöl.

Mér finnst skipta máli að verkin séu marglaga, að þau vísi í margar áttir. Eins og þetta nýjasta verk, Leiðangur, gerir. Það getur flokkast undir dagbókarverkin, þarna er ég líka að velta fyrir mér áhrifum mælinga á plánetuna alla. Vísindalegar mælingar í Grímsvötnum þróast samhliða tækninýjungum sem eiga sér stað út um gervallan heim. Grímsvatnaaskjan er ekki stór séð utan úr geimi, örsmá eining sem engu að síður er sjálfstætt náttúrukerfi. Í raun smækkuð mynd af jörðinni allri.

Þetta verk felur líka í sér persónulegar minningar.

„Já, í bókverkinu eru augnablik sem skilja eftir punkt í vitundinni og á stöplunum eru kort af mælingum, einn stöpull fyrir hverja ferð sem ég hef farið í Grímsvötn, þau leggjast síðan hvert ofan á annað í stóra verkinu. Það sem gerðist við það að sauma út hvert ár var að þá dvaldi ég í þeirri ferð á meðan. Silfurlitu augnsporin eru til dæmis brúðkaupsferðin, þá fór ég á gönguskíðum yfir Vatnajökul og kom í fyrsta skipti í Grímsvötn. Og rauðu krossarnir þrír eru úr sumarferð, þar var doktorsnemi að safna gögnum, þetta eru þrjár eða fjórar mismunandi gryfjur sem hún tók og ég aðstoðaði hana við.“

Ein spurning að lokum: Ertu safnari? Og er íbúðin eða vinnustofan full af dóti?

„Sko, íbúðin er ekki full af dóti. En vinnustofan er töluvert full af dóti. En ég er samt ekki alveg forfallinn safnari, það breytist líka hverju ég safna. En jú, til dæmis keypti ég blóm fyrir eitt verkanna á sýningunni, verkið Jaðar, og einn angi datt af plöntunni. Hann er strax kominn í þurrkun og er núna í Samhengissafninu. Ég safna út frá því hvað endar þar. Þannig tengist allt á endanum.“

Sýning Önnu Líndal, Leiðangur, stendur á Kjarvalsstöðum til 30. desember. Á sýningartímabilinu býður Listasafn Reykjavíkur upp á leiðsagnir um sýninguna og listasmiðju fyrir börn, en nánari upplýsingar er að finna á vef safnsins.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: Daníel Magnússon, nema mynd af bókverki en hún er birt með leyfi listamanns.

Vefsíða: www.annalindal.com

A – DASH: Eitthvað-sem-tengir-hluti-saman

A – DASH: Eitthvað-sem-tengir-hluti-saman

A – DASH: Eitthvað-sem-tengir-hluti-saman

Eva Ísleifsdóttir listamaður er búsett í Aþenu á Grikklandi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2008 og með MA gráðu frá Edinburgh College of Art árið 2012. Árið 2016, eftir vinnustofudvöl í Aþenu, opnaði Eva ásamt fjórum samþenkjandi listamönnum listamannarekið rými og vinnustofur sem bera nafnið A – DASH. Eva tók brosandi á móti blaðamanni artzine á kaffihúsi Kjarvalsstaða og svaraði nokkrum spurningum um starfsemina þar.  

Hvað getur þú sagt mér um A – DASH?

A – DASH samanstendur af sýningarrými og listamannavinnustofum í hverfi sem heitir Exarchia, einnig kallað anarkistahverfið og er í Aþenu. Húsið sjálft er byggt árið 1890 í neo-klassískum byggingarstíl. Þetta er mjög gamalt hús, friðað hús. Í byrjun árs 2015 gafst mér kostur á tveggja mánaða vinnustofudvöl í Aþenu. Við dvölina varð ég hrifin af borginni og sá þarna fyrir mér möguleika á að opna sýningarrými og vera með studio. Mig vantaði nefnilega studio. Stelpan sem var með mér í residensíunni, Noemi, var með sömu pælingar svo við ákváðum að plana þetta saman. Við byrjuðum að skoða húsnæði og senda út fyrirspurnir, en þá hafði hún Zoe, sem er núna ein af okkur fjórum, samband. Við höfðum kynnst henni í gegnum residensíuna, en hún er listamaður eins og við. Hún sagði við okkur: „Heyriði, ég á þetta hús í Exarchia! Með varann á því það er það rosalega illa farið. Það hefur verið tómt í tíu ár og ekkert hefur verið gert við það“.


A – DASH húsið er í hverfi sem heitir Exarchia, einnig kallað anarkistahverfið. Húsið var byggt árið 1890 í neo-klassískum byggingarstíl og er friðað.

Við fórum og kíktum á húsið og það var allt brotið og bramlað, veggirnir alveg að hrynja og alveg ógeðslegt. Og við bara: „Heyrðu, þetta er málið!“ segir Eva brosandi. Að þessu hlæjum við.

Fullkomið tækifæri?

Já, gjörsamlega fullkomið. Það hentaði rosalega vel fyrir það sem við vorum að velta fyrir okkur. Í þessu ferli töluðum við við aðra listakonu, hana Catrionu Gallagher, um að vera með. Þarna myndaðist listamannahópur okkar fjögurra, en í honum eru Zoe Hatziyannaki, Catriona Gallagher, Noemi Niederhauser og ég.

Listakonurnar sem standa að A – DASH: Eva, Zoe Hatziyannaki, Noemi Niederhauser og Catriona Gallagher.
Ljósmynd: Angelos Giotopoulos

Við ákváðum að fara á fullt í að gera við húsið þannig að það yrði studio- og sýningarhæft. Og þannig varð verkefnið A – DASH að veruleika.

Þarna eru studio en þetta er líka residensía ekki satt?

Já, það er resedensía þarna. Við ákváðum að hafa eitt herbergi í húsinu sem residensíu. Þetta er í rauninni mjög sjálfstætt. Við bjóðum upp á möguleikann á því að sýna í rýminu, eða vera með einhverja eventa. Það geta allir sótt um í þessa residensíu með því að senda bara e-mail. Það eru engir frestir, eða þannig. Þetta geta verið rithöfundar, skáld, myndlistarmenn og svo framvegis.

Vinnuaðstaða fyrir listamenn

Eva segir frá því hvernig listamennirnir fjórir hafi ákveðið að hafa náttúrulega framvindu á málum varðandi rekstur residensíunnar. Þær hafa fram að þessu sjálfar látið orð út ganga til samlanda sinna, enda koma þær hver frá sínu landinu. Með þessu hafa þær fengið hjálp víðsvegar að frá ungum listamönnum sem hafa lagt leiðir sínar til Aþenu. Til að mynda fékk A – DASH til sín lærlinga, Gylfa Freeland Sigurðsson og Geirþrúði Einarsdóttir, sem löggðu þeim lið ásamt Brynjari Helgassyni og Benjamin Cohen.

Svo það er alveg ýmislegt sem fer þarna fram?

Alls konar! Með þessu batteríi langaði okkur í grunninn að búa til eitthvað sem er ekki endilega búið að plana ár fram í tímann, heldur hafa þetta svolítið í flúx.

Einmitt, svona organískt.

Nákvæmlega. Allt húsið er líka í stöðugri umbreytingu. Ef við fáum fjármagn þá gerum við meira við og hlutirnir breytast smátt og smátt. Við skildum t.d. einn upprunalegan vegg eftir óbreyttan. Upphaflega voru veggirnir handmálaðir, svo við ákáðum að skilja sumt eftir upprunalegt þannig að hægt væri að sjá sögu hússins.


„Upphaflega voru veggirnir handmálaðir, svo við ákáðum að skilja sumt eftir upprunalegt þannig að hægt væri að sjá sögu hússins.“

Við erum með hvítt rými niðri í vinnuplássinu, þannig að ef við opnum studióin og annað rými, getum við verið með sýningar sem breiðast um allt húsið. Við erum líka með garð, en núna er hún Catriona að vinna í honum verkið Athina City Gardens ásamt Fanis Kafantaris og fá þau í það plöntur alls staðar að úr borginni.


Athina City Gardens fær plöntur alls staðar að úr borginni.

Er hann eins konar samansafn af plöntum svæðisins?

Já, nákvæmlega. Okkur langar líka á einhverjum tímapunkti að vera með útibíó. Svo væri náttúrulega æðislegt að geta verið með kaffihús þarna, en til þess þarf tilskilið leyfi. Skrifræðið þarna er smá strembið en við erum með frábært spil í hendi sem er hún Zoe. Hún er grísk og hefur séð um megnið af öllu svona dóti.

Svo það er gott að vera með einhvern sem talar góða grísku?

Já, Catriona talar líka grísku, á grískan kærasta. Þannig að þetta er hægt, að læra grískuna!

Hvernig gengur þér?

Ég get pantað eitt rauðvínsglas á barnum og svo ég segi ég bara „já, já, já” og kem mér í vandræði, segir Eva og skellir upp úr.

Hvernig eru sýningarnar sem hafa farið fram þarna? Er einhver tenging á milli þeirra?

Við opnuðum húsið í desember, 2016. Það var alveg tómt og við ákváðum að fagna því að við værum búnar að gera það upp með því að halda bara stórt partý. Húsið gersamlega fylltist af fólki og þetta var yndislegt kvöld. Við vorum með DJ og veigar í boði. Húsið sjálft var í rauninni verkið sem var til sýnis.

Í mars og apríl vorum við svo með sýningu sem hét „I Remember Not Remembering It Very Well“. Þar vorum við með lítið workshop þar sem við buðum fólki að koma og búa til höldur á keramíkbolla sem við höfðum útbúið. Alls voru þetta 100 bollar sem við settum inn í innsetningu sem við smíðuðum og var í aðalsalnum. Við buðum hljómsveit að koma og spila og svo vorum við öll máluð í framan því það var Carnival tími.

Sýningin var í sjálfu sér bæði innsetning og gjörningur. Fólk gat líka komið og keypt keramikbolla eða fengið gefins þá bolla sem það hafði sjálft unnið við. Listaverkið var í rauninni þessi gjörningur.

Með A – DASH verkefninu erum við líka að koma okkar eigin list á framfæri. Við stýrum ekki bara sýningum heldur erum við allar með sýningar og viljum vera sýnilegar. Ein megin ástæðan fyrir því að við settum A-DASH á laggirnar var að okkur vantaði studio og okkur langaði að sýna það sem við vorum að gera.


Myndirnar að ofan eru frá verkefninu „I Remember Not Remembering It Very Well“ þar sem A – DASH hópurinn stóð fyrir workshop þar sem fólki var boðið að koma og búa til höldur á keramíkbolla sem listamennirnir höfðu útbúið.

Hvers kyns sýningar hafa tekið við?

Eftir þessa seinni sýningu var einkasýningin hennar Noemi haldin. Á sýningunni setti hún upp hárgreiðslustofu sem var undir áhrifum frá Kypseli hverfinu sem er í u.þ.b. tuttugu mínútna göngufjarlægð frá Exarchia, þar sem við búum. Hurðirnar í Kypseli eru eins konar flúraðar járngrindur eða grindverk sem eru mjög áhugaverðar í laginu. Á sýningunni tengdi Noemi þessar hurðir við afrískan hárgreiðslustíl, fléttur og vafninga í hári. Hún var með sambærilegt grindverk í sýningarsalnum og fékk hárgreiðslukonur til að flétta sýningargestina svo þeir gengju út sem listaverk – með listaverk í hárinu.

Frá einkasýningu Noemi Niederhauser, en hún setti upp hárgreiðslustofu sem var undir áhrifum frá Kypseli hverfinu. Þar eru hurðirnar eins konar flúraðar járngrindur eða grindverk sem Noemi tengdi við afrískan hárgreiðslustíl.

Þetta hefur verið mjög samfélagslegt verkefni, þar sem sýningargestir taka þátt í verkunum. Fyrir aftan húsnæðið er hæð sem heitir Lykavittos hæð og liggur upp að kirkju. Þaðan er hægt að horfa yfir alla Aþenu. Þar er líka æðislegur veitingastaður sem ég mæli með.

Fólk fór upp í hæðina til að tína plöntur sem seinna meir voru gróðursettar í portinu fyrir Athina Garden City sýninguna. Við erum að safna öllum plöntutegundum á svæðinu til að rækta í garðinum okkar. Þetta var fyrsti kaflinn í þessu ferli. Núna er annar kaflinn á leiðinni, sem verður strúktúrinn inni í portinu, en þriðji kaflinn verður vídeóinnsetning inni í rýminu.


Fólk fór upp í hæðina til að tína plöntur sem seinna meir voru gróðursettar í portinu fyrir Athina Garden City sýninguna

Við höfum verið með breytilega sýningu í gangi sem heitir If it sounds like bacon you’r doing it right. Hún tengist því að einn glugginn á húsinu, niðri í sýningarsalnum, var mjög illa farinn. Það var reyndar búið að negla fyrir hann og setja spónarplötur yfir gatið, en hann var eins og sár á veggnum. Áður en við fluttum inn og á meðan enginn bjó í húsinu, kom fólk inn og náði sér bara í járn, víra og fleira til að selja á markaði og næla sér í pening. Allt innvolsið var farið úr húsinu, meðal annars þessi gluggi. Þannig að við tókum upp á því að búa til nýjan glugga.

Sérstakt víravirki var búið til fyrir þennan glugga og varð hann að sjálfstæðu sýningarrými.

Öll neðri hæðin er nú alsett víravirkjum, bæði til þess að vernda gegn innbroti og sem varanleg innsetning á húsið að neðanverðu. Við bjuggum til sérstakt víravirki fyrir þennan glugga þannig að hann varð að sjálfstæðu sýningarrými, út á við. Við buðum tólf listamönnum að setja upp verk fyrir gluggann, sem varð svo að If it Sounds like Bacon you’re doing it Right.

Þetta eru bannerar sem eru fyrir glugganum og sjást utan frá, þannig að það er alltaf sýning í gangi. Núna er Benjamin Cohen til dæmis með sýningu. Hann smíðaði replicu af víraverkinu úr við. Svo ljósmyndaði hann replicuna og nú er ljósmyndin af henni fyrir aftan víravirkið sjálft. Mjög conceptual. Það hafa verið hér nokkrir íslenskir listamenn. Prent og Vinir, þeir Sigurður Atli og Leifur Ýmir, hafa til dæmis sýnt hér sem og Kristín Rúnars.

Hvað með þína eigin myndlist, einhverjar sýningar nýlega eða í náinni framtíð?

Já sýningin Noway Different / sýningin mín sem opnaði 7 Oktober. Verkið byggir á innsettningu í sýningarrými A – DASH en þar kom ég kom málverkinu “Guernica” eftir Pablo Picasso fyrir. Málverkið stendur ekki eitt og sér heldur tók ég með sýningarsalinn í Museo Nacional Centro de Arte Reina Sofía á Spáni.


Myn af Evu fyrir framan verk sitt. Ljósmynd: Bryony Dunne


Frá sýningu Evu „Noway Different“ sem byggir á innsettningu í sýningarrými A – DASH þar sem málverkinu “Guernica” eftir Pablo Picasso var komið fyrir.

Verkið er tilraun og stúdía til að endurskoða framsetningu og tilurð verka sem sem byggð eru á einum tímapunkti sögunnar. Samhengi verksins verður til þar sem það er, og verkinu hefur verið komið fyrir í Aþenu í Grikklandi. Í rýminu er einnig lifandi tvöföldun eða framlenging á daglegu lífi upprunalega verksins í Reine Sofia. Verkið er í raun mynd af sjálfu sér.

Eva segir einnig frá því hvernig listasenan hefur blómstrað á Grikklandi eftir 2008 hrunið, talar um það sem náttúrlega framvindu. Það eru nánast engir styrkir sem hægt er að sækja um í Grikklandi sjálfu, en listamenn fá styrki annarsstaðar frá eða framfleyta sér á annan hátt. Það er til að mynda mikið af listamannareknum rýmum í Aþenu um þessar mundir, en þau hafa fengið aukna athygli, sérstaklega eftir að Documenta sýningin var haldin þar í ár. 

Að lokum, hvaðan kemur nafnið, A – DASH?

A – DASH kom til þegar við Noemi vorum að brainstorma með nafn og í hvert skipti sem við komum með tillögu, þá settum við bandstrik á milli orðanna. Við sáum að bandstrikið sjálft væri kannski málið, eitthvað sem tengir hluti saman. Svo er líka hægt að segja „a dash of salt”,„a dash of sugar” og svo framvegis.

Eva er einkar hress og skemmtileg. Yfir henni hvílir ferskleiki sem hún segist hafa öðlast á Grikklandi, „þar sem maturinn er næringarmikill og veðurfarið blítt.“ Blaðamaður artzine þakkaði fyrir viðtalið, endurnærð og-vel–tengd-eftir ljúfa stund með Evu á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir:  Aðalmynd með grein: Þorgerður Ólafsdóttir. Myndir með grein birtar með leyfi A – DASH.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um A – DASH á vefsíðu þeirra: www.a-dash.space og á vefsíðum listamannanna sem reka það.

www.evaisleifdottir.com
www.noemi-niederhauser.ch
www.catrionagallagher.com
www.zoehatziyannaki.com

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest