A – DASH: Eitthvað-sem-tengir-hluti-saman

21.10. 2017 | Viðtöl

Eva Ísleifsdóttir listamaður er búsett í Aþenu á Grikklandi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2008 og með MA gráðu frá Edinburgh College of Art árið 2012. Árið 2016, eftir vinnustofudvöl í Aþenu, opnaði Eva ásamt fjórum samþenkjandi listamönnum listamannarekið rými og vinnustofur sem bera nafnið A – DASH. Eva tók brosandi á móti blaðamanni artzine á kaffihúsi Kjarvalsstaða og svaraði nokkrum spurningum um starfsemina þar.  

Hvað getur þú sagt mér um A – DASH?

A – DASH samanstendur af sýningarrými og listamannavinnustofum í hverfi sem heitir Exarchia, einnig kallað anarkistahverfið og er í Aþenu. Húsið sjálft er byggt árið 1890 í neo-klassískum byggingarstíl. Þetta er mjög gamalt hús, friðað hús. Í byrjun árs 2015 gafst mér kostur á tveggja mánaða vinnustofudvöl í Aþenu. Við dvölina varð ég hrifin af borginni og sá þarna fyrir mér möguleika á að opna sýningarrými og vera með studio. Mig vantaði nefnilega studio. Stelpan sem var með mér í residensíunni, Noemi, var með sömu pælingar svo við ákváðum að plana þetta saman. Við byrjuðum að skoða húsnæði og senda út fyrirspurnir, en þá hafði hún Zoe, sem er núna ein af okkur fjórum, samband. Við höfðum kynnst henni í gegnum residensíuna, en hún er listamaður eins og við. Hún sagði við okkur: „Heyriði, ég á þetta hús í Exarchia! Með varann á því það er það rosalega illa farið. Það hefur verið tómt í tíu ár og ekkert hefur verið gert við það“.


A – DASH húsið er í hverfi sem heitir Exarchia, einnig kallað anarkistahverfið. Húsið var byggt árið 1890 í neo-klassískum byggingarstíl og er friðað.

Við fórum og kíktum á húsið og það var allt brotið og bramlað, veggirnir alveg að hrynja og alveg ógeðslegt. Og við bara: „Heyrðu, þetta er málið!“ segir Eva brosandi. Að þessu hlæjum við.

Fullkomið tækifæri?

Já, gjörsamlega fullkomið. Það hentaði rosalega vel fyrir það sem við vorum að velta fyrir okkur. Í þessu ferli töluðum við við aðra listakonu, hana Catrionu Gallagher, um að vera með. Þarna myndaðist listamannahópur okkar fjögurra, en í honum eru Zoe Hatziyannaki, Catriona Gallagher, Noemi Niederhauser og ég.

Listakonurnar sem standa að A – DASH: Eva, Zoe Hatziyannaki, Noemi Niederhauser og Catriona Gallagher.
Ljósmynd: Angelos Giotopoulos

Við ákváðum að fara á fullt í að gera við húsið þannig að það yrði studio- og sýningarhæft. Og þannig varð verkefnið A – DASH að veruleika.

Þarna eru studio en þetta er líka residensía ekki satt?

Já, það er resedensía þarna. Við ákváðum að hafa eitt herbergi í húsinu sem residensíu. Þetta er í rauninni mjög sjálfstætt. Við bjóðum upp á möguleikann á því að sýna í rýminu, eða vera með einhverja eventa. Það geta allir sótt um í þessa residensíu með því að senda bara e-mail. Það eru engir frestir, eða þannig. Þetta geta verið rithöfundar, skáld, myndlistarmenn og svo framvegis.

Vinnuaðstaða fyrir listamenn

Eva segir frá því hvernig listamennirnir fjórir hafi ákveðið að hafa náttúrulega framvindu á málum varðandi rekstur residensíunnar. Þær hafa fram að þessu sjálfar látið orð út ganga til samlanda sinna, enda koma þær hver frá sínu landinu. Með þessu hafa þær fengið hjálp víðsvegar að frá ungum listamönnum sem hafa lagt leiðir sínar til Aþenu. Til að mynda fékk A – DASH til sín lærlinga, Gylfa Freeland Sigurðsson og Geirþrúði Einarsdóttir, sem löggðu þeim lið ásamt Brynjari Helgassyni og Benjamin Cohen.

Svo það er alveg ýmislegt sem fer þarna fram?

Alls konar! Með þessu batteríi langaði okkur í grunninn að búa til eitthvað sem er ekki endilega búið að plana ár fram í tímann, heldur hafa þetta svolítið í flúx.

Einmitt, svona organískt.

Nákvæmlega. Allt húsið er líka í stöðugri umbreytingu. Ef við fáum fjármagn þá gerum við meira við og hlutirnir breytast smátt og smátt. Við skildum t.d. einn upprunalegan vegg eftir óbreyttan. Upphaflega voru veggirnir handmálaðir, svo við ákáðum að skilja sumt eftir upprunalegt þannig að hægt væri að sjá sögu hússins.


„Upphaflega voru veggirnir handmálaðir, svo við ákáðum að skilja sumt eftir upprunalegt þannig að hægt væri að sjá sögu hússins.“

Við erum með hvítt rými niðri í vinnuplássinu, þannig að ef við opnum studióin og annað rými, getum við verið með sýningar sem breiðast um allt húsið. Við erum líka með garð, en núna er hún Catriona að vinna í honum verkið Athina City Gardens ásamt Fanis Kafantaris og fá þau í það plöntur alls staðar að úr borginni.


Athina City Gardens fær plöntur alls staðar að úr borginni.

Er hann eins konar samansafn af plöntum svæðisins?

Já, nákvæmlega. Okkur langar líka á einhverjum tímapunkti að vera með útibíó. Svo væri náttúrulega æðislegt að geta verið með kaffihús þarna, en til þess þarf tilskilið leyfi. Skrifræðið þarna er smá strembið en við erum með frábært spil í hendi sem er hún Zoe. Hún er grísk og hefur séð um megnið af öllu svona dóti.

Svo það er gott að vera með einhvern sem talar góða grísku?

Já, Catriona talar líka grísku, á grískan kærasta. Þannig að þetta er hægt, að læra grískuna!

Hvernig gengur þér?

Ég get pantað eitt rauðvínsglas á barnum og svo ég segi ég bara „já, já, já” og kem mér í vandræði, segir Eva og skellir upp úr.

Hvernig eru sýningarnar sem hafa farið fram þarna? Er einhver tenging á milli þeirra?

Við opnuðum húsið í desember, 2016. Það var alveg tómt og við ákváðum að fagna því að við værum búnar að gera það upp með því að halda bara stórt partý. Húsið gersamlega fylltist af fólki og þetta var yndislegt kvöld. Við vorum með DJ og veigar í boði. Húsið sjálft var í rauninni verkið sem var til sýnis.

Í mars og apríl vorum við svo með sýningu sem hét „I Remember Not Remembering It Very Well“. Þar vorum við með lítið workshop þar sem við buðum fólki að koma og búa til höldur á keramíkbolla sem við höfðum útbúið. Alls voru þetta 100 bollar sem við settum inn í innsetningu sem við smíðuðum og var í aðalsalnum. Við buðum hljómsveit að koma og spila og svo vorum við öll máluð í framan því það var Carnival tími.

Sýningin var í sjálfu sér bæði innsetning og gjörningur. Fólk gat líka komið og keypt keramikbolla eða fengið gefins þá bolla sem það hafði sjálft unnið við. Listaverkið var í rauninni þessi gjörningur.

Með A – DASH verkefninu erum við líka að koma okkar eigin list á framfæri. Við stýrum ekki bara sýningum heldur erum við allar með sýningar og viljum vera sýnilegar. Ein megin ástæðan fyrir því að við settum A-DASH á laggirnar var að okkur vantaði studio og okkur langaði að sýna það sem við vorum að gera.


Myndirnar að ofan eru frá verkefninu „I Remember Not Remembering It Very Well“ þar sem A – DASH hópurinn stóð fyrir workshop þar sem fólki var boðið að koma og búa til höldur á keramíkbolla sem listamennirnir höfðu útbúið.

Hvers kyns sýningar hafa tekið við?

Eftir þessa seinni sýningu var einkasýningin hennar Noemi haldin. Á sýningunni setti hún upp hárgreiðslustofu sem var undir áhrifum frá Kypseli hverfinu sem er í u.þ.b. tuttugu mínútna göngufjarlægð frá Exarchia, þar sem við búum. Hurðirnar í Kypseli eru eins konar flúraðar járngrindur eða grindverk sem eru mjög áhugaverðar í laginu. Á sýningunni tengdi Noemi þessar hurðir við afrískan hárgreiðslustíl, fléttur og vafninga í hári. Hún var með sambærilegt grindverk í sýningarsalnum og fékk hárgreiðslukonur til að flétta sýningargestina svo þeir gengju út sem listaverk – með listaverk í hárinu.

Frá einkasýningu Noemi Niederhauser, en hún setti upp hárgreiðslustofu sem var undir áhrifum frá Kypseli hverfinu. Þar eru hurðirnar eins konar flúraðar járngrindur eða grindverk sem Noemi tengdi við afrískan hárgreiðslustíl.

Þetta hefur verið mjög samfélagslegt verkefni, þar sem sýningargestir taka þátt í verkunum. Fyrir aftan húsnæðið er hæð sem heitir Lykavittos hæð og liggur upp að kirkju. Þaðan er hægt að horfa yfir alla Aþenu. Þar er líka æðislegur veitingastaður sem ég mæli með.

Fólk fór upp í hæðina til að tína plöntur sem seinna meir voru gróðursettar í portinu fyrir Athina Garden City sýninguna. Við erum að safna öllum plöntutegundum á svæðinu til að rækta í garðinum okkar. Þetta var fyrsti kaflinn í þessu ferli. Núna er annar kaflinn á leiðinni, sem verður strúktúrinn inni í portinu, en þriðji kaflinn verður vídeóinnsetning inni í rýminu.


Fólk fór upp í hæðina til að tína plöntur sem seinna meir voru gróðursettar í portinu fyrir Athina Garden City sýninguna

Við höfum verið með breytilega sýningu í gangi sem heitir If it sounds like bacon you’r doing it right. Hún tengist því að einn glugginn á húsinu, niðri í sýningarsalnum, var mjög illa farinn. Það var reyndar búið að negla fyrir hann og setja spónarplötur yfir gatið, en hann var eins og sár á veggnum. Áður en við fluttum inn og á meðan enginn bjó í húsinu, kom fólk inn og náði sér bara í járn, víra og fleira til að selja á markaði og næla sér í pening. Allt innvolsið var farið úr húsinu, meðal annars þessi gluggi. Þannig að við tókum upp á því að búa til nýjan glugga.

Sérstakt víravirki var búið til fyrir þennan glugga og varð hann að sjálfstæðu sýningarrými.

Öll neðri hæðin er nú alsett víravirkjum, bæði til þess að vernda gegn innbroti og sem varanleg innsetning á húsið að neðanverðu. Við bjuggum til sérstakt víravirki fyrir þennan glugga þannig að hann varð að sjálfstæðu sýningarrými, út á við. Við buðum tólf listamönnum að setja upp verk fyrir gluggann, sem varð svo að If it Sounds like Bacon you’re doing it Right.

Þetta eru bannerar sem eru fyrir glugganum og sjást utan frá, þannig að það er alltaf sýning í gangi. Núna er Benjamin Cohen til dæmis með sýningu. Hann smíðaði replicu af víraverkinu úr við. Svo ljósmyndaði hann replicuna og nú er ljósmyndin af henni fyrir aftan víravirkið sjálft. Mjög conceptual. Það hafa verið hér nokkrir íslenskir listamenn. Prent og Vinir, þeir Sigurður Atli og Leifur Ýmir, hafa til dæmis sýnt hér sem og Kristín Rúnars.

Hvað með þína eigin myndlist, einhverjar sýningar nýlega eða í náinni framtíð?

Já sýningin Noway Different / sýningin mín sem opnaði 7 Oktober. Verkið byggir á innsettningu í sýningarrými A – DASH en þar kom ég kom málverkinu “Guernica” eftir Pablo Picasso fyrir. Málverkið stendur ekki eitt og sér heldur tók ég með sýningarsalinn í Museo Nacional Centro de Arte Reina Sofía á Spáni.


Myn af Evu fyrir framan verk sitt. Ljósmynd: Bryony Dunne


Frá sýningu Evu „Noway Different“ sem byggir á innsettningu í sýningarrými A – DASH þar sem málverkinu “Guernica” eftir Pablo Picasso var komið fyrir.

Verkið er tilraun og stúdía til að endurskoða framsetningu og tilurð verka sem sem byggð eru á einum tímapunkti sögunnar. Samhengi verksins verður til þar sem það er, og verkinu hefur verið komið fyrir í Aþenu í Grikklandi. Í rýminu er einnig lifandi tvöföldun eða framlenging á daglegu lífi upprunalega verksins í Reine Sofia. Verkið er í raun mynd af sjálfu sér.

Eva segir einnig frá því hvernig listasenan hefur blómstrað á Grikklandi eftir 2008 hrunið, talar um það sem náttúrlega framvindu. Það eru nánast engir styrkir sem hægt er að sækja um í Grikklandi sjálfu, en listamenn fá styrki annarsstaðar frá eða framfleyta sér á annan hátt. Það er til að mynda mikið af listamannareknum rýmum í Aþenu um þessar mundir, en þau hafa fengið aukna athygli, sérstaklega eftir að Documenta sýningin var haldin þar í ár. 

Að lokum, hvaðan kemur nafnið, A – DASH?

A – DASH kom til þegar við Noemi vorum að brainstorma með nafn og í hvert skipti sem við komum með tillögu, þá settum við bandstrik á milli orðanna. Við sáum að bandstrikið sjálft væri kannski málið, eitthvað sem tengir hluti saman. Svo er líka hægt að segja „a dash of salt”,„a dash of sugar” og svo framvegis.

Eva er einkar hress og skemmtileg. Yfir henni hvílir ferskleiki sem hún segist hafa öðlast á Grikklandi, „þar sem maturinn er næringarmikill og veðurfarið blítt.“ Blaðamaður artzine þakkaði fyrir viðtalið, endurnærð og-vel–tengd-eftir ljúfa stund með Evu á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir:  Aðalmynd með grein: Þorgerður Ólafsdóttir. Myndir með grein birtar með leyfi A – DASH.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um A – DASH á vefsíðu þeirra: www.a-dash.space og á vefsíðum listamannanna sem reka það.

www.evaisleifdottir.com
www.noemi-niederhauser.ch
www.catrionagallagher.com
www.zoehatziyannaki.com

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This