Tíðir, reki, grip, frjósemi og skjól eru hugtök sem snerta vinningstillögu að nýju útilistaverki á hafnarsvæðinu

28.10. 2017 | Viðtöl

Í vikunni voru tilkynnt úrslit í samkeppni um nýtt útilistaverk við Miðbæjarhöfnina í Reykjavík sem Faxaflóahafnir efndu til fyrr á þessu ári. Tillagan sem bar sigur úr býtum ber heitið Tíðir, en bak við hana standa Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, og Gísli Pálsson fornleifafræðingur. Hlutdeild kvenna í starfssemi og sögu hafnarinnar var þema samkeppninnar, en  um þessar mundir á Miðbæjarhöfnin 100 ára afmæli.

Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður og Gísli Pálsson fornleifafræðingur.

29 myndlistarmenn, einstaklingar og hópar, gáfu kost á sér í samkeppnina sem haldin var í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Fimm aðilar voru valdir í forvali til að taka þátt í lokaðri samkeppni. Þeir voru auk vinningshópsins, Guðrún Vera Hjartardóttir, Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg), Hildur Bjarnadóttir og Ólafur Sveinn Gíslason, Jónína Guðnadóttir og Sveinn Bjarki Þórarinsson.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: “Tíðir er umhverfisverk, villigarður, þar sem tekist er á við frumkrafta náttúrunnar og unnið með villigróður í bland við manngert umhverfi borgarinnar.

Í verkinu er vísað í störf kvenna á mótum lands og sjávar. Sjónum er ekki einungis beint að hefðbundnum störfum eins og að stakka fiski, beitningu og uppskipun, heldur einnig að því að hirða strandnytjar til að veita líkn gegn sulti og veikindum. Garðurinn myndar tákn fyrir konuna sem skapar umgjörð, hlúir að og veitir skjól.

Styrkur verksins liggur í því hvað það er marglaga, það vísar í söguna en tekur jafnframt á málefnum samtímans og vísar til framtíðar. Verkið er í stöðugri umbreytingu vegna áhrifa frá umhverfi sínu, rétt eins og staða og störf kvenna hafa tekið breytingum í gegnum tíðina.

Verkið Tíðir er nýr viðkomustaður í borginni, vin þar sem vegfarendur geta dvalið og notið. Verkið er minnisvarði um framlag kvenna og um leið hið síbreytilega landslag sjávarsíðu Reykjavíkur.”

artzine hafði samband við Huldu Rós Guðnadóttur myndlistar og kvikmyndagerðarkonu og spurði hana út í hugmyndina að baki tillögunni og hvaða þýðingu það hefði fyrir hana að taka þátt í þessu verkefni.

Í ár eru um 7 ár síðan ég byrjaði að beina sjónum mínum af höfninni og höfnum almennt og listrannsóknarverkefnið Keep Frozen varð til smám saman á löngu ferli. Á þessum tíma hef ég öðlast bæði breiðan þekkingargrundvöll á höfnum og hvað er í gangi á þeim vettvangi almennt og einnig sérstaklega í miðbæjarhöfninni í Reykjavík. Þessi þekking er á margan hátt rökvís og félagsfræðileg en fyrst og fremt fagurfræðileg skynjun eða hugsun/sýn sem varð til við það að stunda myndlist. Það er mjög ánægjulegt að geta nýtt þessa samansöfnuðu reynslu og þekkingu sem hefur orðið til á löngum tíma og nýtt í eitthvað sem hugsanlega verður áþreifanlegt kennileiti í Reykjavíkurborg á þessum stað sem er mér svo kær. Þar sem Daníelslippur stóð áður. Eins og ég sagði á málþinginu, þar sem tilkynnt var hverjir höfðu unnið, þá á ég í raun tilvist mína að þakka Faxaflóahöfnum. Þetta er því ekki einungis faglegt heldur mjög persónulegt.

Ég vinn mjög mikið í samstarfi – er með einhverja ólæknanlega löngun í að læra af öðru fólki og kynnast alls konar sviðum. Myndlistarstarfið getur verið einmannalegt og samstarf ýtir manni úr eigin búbblu og víkkar út allt sjóndeildarsviðið. Það er mjög krefjandi – það er ekki endilega auðvelt fyrir myndlistarmanninn að vera í skapandi samstarfi – en það er áskorun og tækifæri til að stækka ef maður nálgast áskorunina á uppbyggilegan hátt. Svo má ekki gleyma að það er stærra samhengi sem er mikilvægara en mitt eigið persónulega svið og það er samhengi myndlistar sem fags. Samtímamyndlistin snertir svo margt og getur svo margt og möguleikar hennar til að tengja mismunandi svið og fög saman eru ein af hennar sterkustu hliðum. Þegar ég kom auga á auglýsinguna þá lá beinast við að ég hefði samband við Gísla Pálsson fornleifafræðing sem hafði að undirlagi Aldísar Snorradóttur flutt fyrirlestur á Keep Frozen ráðstefnu sem haldin var í LHÍ í febrúar á síðasta ári. Við komum þarna saman fullt af fólki sem tengdust rannsóknum í listum og rannsóknum á höfnum og kynntumst sjónarhorni hvers annars. Það sem Gísli hafði fram að færa opnaði augun mín fyrir svo mörgu og svo er hann svo kreatívur bæði í starfi og einkalífi. Ég var að leita eftir tækifæri til að vinna með honum og þar sem hann er sérfræðingur í fornleifafræði Reykjavíkurhafnar og sjávarsíðu Íslands almennt þá þurfti ég ekki að hugsa mig um. Það var síðan svo skemmtilegt að við höfðum bæði Hildigunni Sverrisdóttur arkitekt í huga sem þriðja aðila. Gísli þekkti hana af góðu og ég hafði tekið eftir henni og því sem hún hefur verið að segja og starfa í mörg ár. Klárari og hugmyndaríkari arkitekt er erfitt að finna. Það er mér mjög mikils virði að hafa haft þetta tækifæri til að vinna með þeim og innblásturinn og þekkingin sem ég öðlaðist hefur haft mikil áhrif á mig og á eftir að koma meira í ljós í framtíðinni.

Þú hefur áður unnið verk sem tengist hafnarstarfseminni þegar þú gerðir kvikmyndina Keep Frozen. Þema samkeppninar er óður til þáttöku kvenna í atvinnustarfssemi hafnarsvæðisins, hvaða merkingu hafði það fyrir þig?

Þemað kveikti strax í mér. Í rannsóknum mínum hafði ég komist að því að kjarnann í fagurfræði hafnanna er að finna í vinnunni sem fer þar fram og þá meina ég verkamannavinnunni. Ég hafði líka tekið eftir því að í sambandi við miðbæjarhöfnina þá er verkamannavinnan ósýnileg mörgum bæjarbúum. Margir halda að iðnaðarstarfsemi sé farin af svæðinu þegar raunin er sú að þetta er stærsta fiskihöfn landsins. Vinnan fer fram fyrri luktum dyrum eða á þeim tíma dags sem fæstir eru á röltinu. Með stuðningi Kvikmyndasjóðs hafði ég þegar fengið tækifæri til að gera minnisverk um atvinnuþátttöku karla með myndinni Keep Frozen sem ég hef varið síðasta ári í að ferðast með á kvikmyndahátíðir. Þá var það falin vinna karla í keðju verðmætasköpunar eða löndunarvinnan. Núna hef ég tækifæri til að minnast atvinnuþátttöku kvenna en eins og margoft hefur verið bent á þá hefur sú vinna yfirleitt ekki verið metin að verðleikum.

Við vildum gera samfélagsverk. Búa til stað sem gengur út á samskipti og samveru á öðrum forsendum en söluforsendum. Stað þar sem hægt væri að skoða söguna og framtíðina og vera í núinu. Einnig vildum við skapa verk sem væri í samtali við það sem er að gerast í alþjóðlegu samtímalistinni og tæki á þeim viðfangsefnum sem brenna hvað brýnast á heiminum í dag og snerta sjávarlínuna, atvinnuþátttöku og fleira. Hugmyndin byrjaði með löngun til að búa til villigarð. Ég dregst mjög að villigörðum og í ofur-borgarskipulagi þá hef ég trú á að villigarður verði eins og vin sem fólk mun sækja í og finna til gleði.

Það getur hver og einn lesið í form og virkni og séð það sem viðkomandi vill sjá út úr því. Mér finnst skemmtilegra að upplifun af verkinu sjálfu og rýn í það skapi umræður um vísanir frekar en að ég fari að njörva vísanir í stein með stórum yfirlýsingum hér. Hér eru tíðir, reki, grip, frjósemi, skjól, nytjajurtaræktun, samvera, fljótandi tilraunastarfsemi, lausnamiðuð hugsun, verkfræðiáskorun, hnattrænt samhengi og eins og ég segi form og virkni.

Það er við hæfi að spyrja í ljósi þess að krafan um að borga listamönnum fyrir vinnu sína hefur verið hávær undanfarið og ýmsir sigrar verið að vinnast í þeirri baráttu. Er ykkur hugmyndasmiðunum ætluð mannsæmandi laun fyrir vinnu ykkar við þetta verkefni?

Þetta er mjög góð spurning og ég fagna henni. Ég segi nú bara verum hávær og mér er efst í huga ómetanlegt starf Jónu Hlífar Halldórsdóttur formanns SÍM í þessum málum. Hún er virkilega að toga íslenska myndlistarsenu mörg skref inn í samtímann með því að leiða þessa baráttu. Nú er það þannig með þetta verkefni að það hefur unnið ákveðna samkeppni en eftir á að semja við okkur hugmyndasmiðina um höfundalaun. 

Við fórum á fund Faxaflóahafna nú í vikunni og erum öll sammála um að fyrsta mál á dagskrá, ef að stjórnin ákveður að leggja út í þessa framkvæmd, verður að semja við okkur höfunda um þóknun. Þessi fundur var mjög góður og tengiliðir okkar fagmenn fram í fingurgóma á sínu sviði. Við efumst ekki um að Faxaflóahafnir muni borga okkur viðeigandi þóknun sem er í samræmi við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum þegar kennileiti sem þetta eru byggð. Ég sé mína ábyrgð sem mikla þar sem það er fordæmagefandi og ég hef engan áhuga á að ‘undirbjóða’ kollega mína og grafa þannig undan myndlistarlífinu í landinu. Ég gæti heldur ekki lifað af ef ég gerði slíkt. Þú veist borgað húsaleigu og mat. Ef ég fæ að ráða þá verður það auðvitað gegnsætt hvaða þóknun við fáum enda tel ég það hagsmuni myndlistarinnar. Sjáum til hvort það verði ekki hægt.

artzine þakkar Huldu fyrir spjallið og óskar henni og hópnum öllum innilega til hamingju með frábæra vinningstillögu.

Hér að ofan er myndskeið af Huldu að halda stutta ræðu þegar tilkynnt hafði verið um úrslitin.

Líf Magneudóttir var formaður dómnefndar og kynnti hún niðurstöður dómnefndar á árlegu málþingi Faxaflóahafna sem haldið var í Hörpu.

Auk Lífar sátu í dómnefndinni Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður, Hildur Gunnlaugsdóttir, skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna, Ólöf Nordal, myndlistarmaður og Sindri Leifsson, myndlistarmaður. Dómnefndin naut ráðgjafar Vignis Albertssonar byggingafræðings. Í forvalsnefnd sátu Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Guðrún Erla Geirsdóttir, myndlistarmaður og Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður og rithöfundur. Trúnaðarmaður SÍM í samkeppninni var Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, myndlistarmaður.

Hér má sjá allar tillögurnar: Keppnistillögur

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This