Fullkomlega Óheiðarleg í SÍM salnum

24.10. 2017 | Uncategorized

Sýningin Fullkomlega Óheiðarleg opnaði í SÍM salnum, sal Sambands íslenskra myndlistarmanna í Hafnarstræti, miðvikudaginn 11. október síðastliðinn. Fullkomlega Óheiðarleg er samsýning tíu myndlistamanna sem útskrifuðust frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Flest hafa þau sótt framhaldsnám í myndlist erlendis og sýna nú í fyrsta skipti saman, tæpum tíu árum síðar.

Titill sýningarinnar varð til í samtali hópsins og hver má draga sína ályktun af honum. Fullkomlega Óheiðarleg eða Ófullkomlega Heiðarleg, allt eftir samhengi. Titillinn er í raun sjálfstætt verk sem túlka má á margan hátt. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Etienne de France, Eva Ísleifs, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Logi Bjarnason, Páll Haukur Björnsson, Rakel McMahon, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Unndór Egill Jónsson og Una Sigurðardóttir. Sýningarstjóri er Ástríður Magnúsdóttir. Hugmyndin að sýningunni kviknaði í samtali hópsins um þörf mannsins til þess að skilja tilvist sína og staðsetja sjálfan sig hvort sem er í stórbrotnu samhengi við sólina eða smávægilegu samhengi egósins.

Frá opnuninni.

Á sýningunni má finna verk unnin í ýmsa miðla. Skúlptúrverk eftir Pál Hauk Björnsson þar sem hann kannar mörk vídjómiðilsins. Páll vinnur gjarnan í miðla sem háðir eru tíma og rúmi og krefjast beinnar íhlutunar af hálfu áhorfenda. Ljósmyndaverk eftir Rakel McMahon nefnist Reality in other words. Verkið er skrásetning á gjörningi sem Rakel framdi í Mengi í maí mánuði.

Verk Rakelar McMahon.

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir og Logi Bjarnason sýna bæði málverk en vinna með málverkið á ólíkan hátt sem endurspeglar fjölbreytileika málverksins í samtíma. Í verki Loga, Mantra, leitast hann við að spyrja tilvistarlegra spurninga eins og Etienne de France gerir einnig í vídjóverki sínu Exploration of a Failure. Unndór Egill Jónsson sýnir verkið Spíta / A Piece of Wood, sem unnið er í við, nánar tiltekið eik og hnotu. Þar mætir hið villta og náttúrlega hinu tamda og mannlega. Verkið er tilraun til að endurgera lífrænt efni. Úr fjærlægð virkar spítan eins og náttúruleg spíta en þegar betur að gáð er spítan augljóslega samsett. Teikningar eftir Unu Sigurðardóttur eru hluti af seríu sem nefnist Gender/Politics og er innblásin af sjónarspili alþjóðastjórnmála, sviðsetningu valdhafa á sjálfum sér og hvernig samansafn leiðtoga undirstrikar kynjahallann og í raun heft aðgengi kvenna að valdi. Serían er tilraun til að varpa húmorísku ljósi á þennan veruleika og skynja þannig undarlegheitin sem í honum býr. Pólitískt mynd- og hljóðverk eftir Steinunni Gunnlaugsdóttur ber titilinn AÐSEND – UNDir regnboga og samanstendur af hljóðverki og fréttaúrklippu af netinu sem er prentuð á gler. Úrklippan er frétt af Vísi.is þar sem sagt er frá því að fyrsti kísilmálmurinn, sem framleiddur er í nýrri verksmiðju United Silicon í Helguvík og þar af leiðandi fyrsti kísilmálmurinn sem framleiddur er á Íslandi, sé tilbúinn og kominn um borð í skip á leið úr landi. Í hljóðverkinu má heyra í aðal gullgerðarverkfæri verksmiðjunnar; Ljósbogaofninum Ísabellu.


Verk Evu Ísleifsdóttir

Katrín Inga J. Hjördísardóttir er með útiverk í garði sýningarsalarins, sem hún nefnir Einlæg tilraun. Verkið er einlæg tilraun listakonunnar til að endurgera útskriftarverk sitt frá árinu 2008 með auknu hugrekki og meiri krafti en hún bjó yfir þá. Eva Ísleifsdóttir sem býr og starfar í Grikklandi er með uppákomu sem rekast má á víðsvegar um miðbæ Reykjavíkur; plaköt sem prentuð voru í tvö hundruð eintökum og dreift um bæinn eins og öðrum auglýsingum fyrir ýmsa viðburði og uppákomur. Á plakatinu stendur: Ég á ekkert. Setningin, sem er einnig titill verksins, er tilvistarlegs eðlis. Hún vekur upp spurningar og áhorfandinn þarf að kljást við hana. Hún er persónuleg en á sama tíma ópersónuleg. Er þetta áróður, tilkynning eða hróp á hjálp? Verkið er spurning á sama tíma og það er fullyrðing. Verkin á sýningunni Fullkomlega Óheiðarleg eru ólík en samt sem áður eru nokkur sameiginleg stef sem virða má fyrir sér í ólíkum miðlum. Sýningin stendur til 24. október og er opin alla virka daga frá 10-16. Verk Katrínar Ingu stendur áfram í bakgarði SÍM um óákveðinn tíma.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Ástríður Magnúsdóttir

Nánari upplýsingar um sýninguna:

https://www.facebook.com/events/125585801414420/

http://sim.is/syningar-og-vidburdir/

Heimasíður listamanna:

Etienne de France: http://www.etiennedefrance.com

Eva Ísleifs: http://www.evaisleifsdottir.com

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir: http://cargocollective.com/johannakristbjorg

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir: http://dottir.info

Logi Bjarnason: http://logib.tumblr.com

Páll Haukur Björnsson: http://pallhaukur.com

Rakel McMahon: http://www.rakelmcmahon.com

Steinunn Gunnlaugsdóttir: http://www.sackofstones.com

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This