Megiði Lifa á Áhugaverðum Tímum

Megiði Lifa á Áhugaverðum Tímum

Megiði Lifa á Áhugaverðum Tímum

La Biennale di Venezia, eða Feneyjartvíæringurinn eins og Íslendingar þekkja hann, er feneysk listastofnun sem heldur tvíæringa ekki bara á sviði myndlistar heldur einnig á sviði kvikmynda, arkítektúrs, tónlistar, leikhúss og dans. Myndlistartvíæringurinn var stofnaður af borgarráði Feneyja árið 1895 á tíma þar sem þjóðarsýningar voru vinsælar, svokallaðar Expo sýningar, og voru til þess gerðar að sýna afrek þjóðanna. Þjóðarafrekssýningar voru til að byrja með tækni og tækjasölusýningar og afurð þess andrúmslofts sem varð til í kjölfar iðnbyltingarinnar og undanfara hennar. Eitt helsta markmið Feneyjartvíæringsins í upphafi var að koma samtímalist á sölumarkað. Í dag er það hinsvegar í anda þess sem þykir viðeigandi að salan fer ekki lengur fram í sjálfum Feneyjum heldur einna helst á listmarkaðsmessunni Art Basel í Sviss sem haldin er mánuði eftir að Feyneyjartvíæringurinn opnar. Vegna fjármögnunarstrúktúrs tvíæringsins er nær ógjörningur fyrir listamenn að taka þátt í sýningum án stuðnings stærri gallería og safnara.

Feneyjartvíæringurinn varð strax geysivinsæll og fyrsti þjóðarskálinn, Belgía, var tilbúinn árið 1907 í Giardini garðinum þar sem tvíæringurinn var haldinn. Saga tvíæringsins og alls konar breytingar og uppákomur sem hann hefur gengið í gegnum hefur verið mjög í takt við pólítíska sögu 20. aldarinnar og þróun samtímalistarinnar samfara henni. Tvíæringurinn hefur verið mikilvægur vettvangur þess að kynna í fyrsta skipti – í gömlu listmiðju Evrópu – list svæða og þjóða utan meginsvæðis Evrópu. Þannig hefur hann þjónað miðlægu hlutverki í að stækka svæði samtímalistarinnar frá því að vera þröngt skilgreint sem athafnasvæði stærstu þjóða Evrópu og síðar New York. Ísland tók í fyrsta skipti þátt árið 1960, eða 16 árum eftir sjálfstæði, með þjóðarskála sem Kjarval og Ásmund Sveinsson sýndu í. Það var ekki fyrr en árið 1982 sem íslenskur skáli varð reglulegur þátttakandi. Fyrir þann tíma höfðu nokkrir íslenskir listamenn einnig tekið þátt í skálum hinna Norðurlandanna sem héldu áfram að líta til með íslenska skálanum vegna skorts á fjármögnun til yfirsetu. Það fyrirkomulag var ekki gallalaust og þegar Steina Vasulka tók til dæmis þátt árið 1997 var skálinn opinn skemur en í viku vegna þess að tækin hættu að ganga. Það breyttist þegar Rúri þrýsti á breytingar þegar hún tók þátt í byrjun 21. aldar. Ísland á sér ekki neinn fastan skála heldur hefur verið á hinum ýmsu stöðum og á ennþá langt í land á að fá sambærilegan fjárstuðning frá íslenska ríkinu og skálar hinna Norðurlandanna.

Auk þjóðarskálana hefur frá 1972 verið haldin alþjóðleg sýning með ákveðið meginþema og sýningarsjóra og er það sú sýning sem nýtur hvað mestrar athygli í dag og er haldin bæði í Giardini garðinum og á hafnarsvæðinu Arsenale. Á meðan þjóðarskálafyrirbærið hefur fengið á sig vaxandi gagnrýni, í takt við gagnrýni á þjóðernishyggju í kjölfar stríðs og þjóðarmorðshamfara 20. aldarinnar og ræktun þekkingar á afleiðingum og virkni nýlendutímans, þá hefur alþjóðlega sýningin orðið æ mikilvægari. Hún er rædd og krufin til mergjar í öllum helstu fjölmiðlum heims. Sigurður Guðmundsson, Ragnar Kjartansson og Ólafur Elíasson eru einir af fáum íslenskum listamönnum sem ratað hafa í þá sýningu. Í ár bættist við íslenski-svissneski listamaðurinn Christoph Büchel og eins og von var á með Büchel þá er verkið hans ‘Barca Nostra’ það umdeildasta sem boðið var upp á. ‘Barca Nostra’ er flókið og marglaga ferilsverk sem hófst í fyrra á Manifesta tvíæringnum á Sikiley og toppurinn á ísjakanaum – sem verkið er – birtist á Feneyjartvíæringnum sem sjálft skipsflakið ‘Barca Nostra’. Það er lítill fiskibátur sem sökk í Miðjarðarhafi árið 2015 með þeim afleiðingum að um þúsund flóttamenn drukknuðu fastir í agnarsmárri flutningalestinni. Skipsflakið er staðsett við samlokubarinn á Arsenale sýningarsvæðinu þar sem gestir setjast niður og spjalla og njóta sólargeislanna um leið og horft er yfir hið fallega víggirta skipasmíða-, og sjóherssvæði sem byggt var á miðöldum og lagði grundvöll að verslunar- og herveldi Feneyja. Það er engin tilviljun að margir þekkja feneysku murano glerperlurnar úr handverki frumbyggja víða um heim þar sem þær urðu að einum helsta gjaldmiðli í heimsversluninni. Svæðið er gríðarstórt og staðsetningin og arkitektúrinn minnir á hvernig arðrán Evrópubúa á auðlindum heimsins hefur auðgað menningar- og efnahagslíf Evrópu allt til dagsins í dag. Miðaldaborgarríkið Feneyjar hefur verið nefnt fyrsta alþjóðlega fjármálamiðstöðin og skipasmíðin og herinn voru hjartað í því kerfi. Mikilfengleiki Arsenale minnir þannig í allri sinni fegurð á aldagamalt samstarf kaupmanna og hersins í útþenslu og auðvaldsdrifinni yfirráðastefnu.

Verk Christoph Büchel ´Barca Nostra´ við samlokubarinn á Arsenale höfninni í Feneyjum.

Büchel staðsetur aldrei skýringar við verkin sín og það er einmitt það sem gagnrýnisraddir hafa helst nefnt sem ástæðu þess að virkni verksins hafi ekki orðið það sem þeir gera ráð fyrir að hafi verið ætlun listamannsins. Úganski rithöfundurinn Siima Itabazza hefur til dæmis stofnað undirskriftarsöfnun á change.org þar sem hún fer fram á að skipsflakið verði fjarlægt á þeim forsendum að engar textaskýringar fylgi með nálægt verkinu. Hún telur að með því þá smækkist bátsflakið í hlut, áningarstað og bakgrunn fyrir sjálfur. Vissulega hjálpar staðsetningin til. Báturinn fellur eins og flís við rass í umhverfinu sem ennþá er í notkun sem skipaleið. Það var í raun ekki fyrr en að það spurðist út að skipið væri verk að gestir fóru að spá í það. En já orðrómur eða afspurn hefur lengi verið hluti af virkni verka í samtímalistaheiminum og flest verka lifa í rauninni þannig mest sitt líf. Samkvæmt Büchel sjálfum er ástæðan fyrir því að sleppa nafnspjaldi og skýringum við verkin sú að hann vill ekki að persóna og orðspor listamannsins dragi athygli frá verkinu sjálfu. Á vettvangi eins og Feneyjartvíæringnum, þar sem orðspor listamanna spilar stórt hlutverk, er hægt að setja skýringaleysið í samhengi. Fjöldi verka er svo yfirgnæfandi að fólk les skýringar og nöfn í flýti og tekur inn fagurfræði og virkni verka á mjög hraðsoðinn hátt. Í þannig aðstæðum þurfa verkin helst að virka án tafa og með hjálp nafnspjaldsins. Hvað gerist með virkni áhorfanda í slíkum aðstæðum? Er það á ábyrgð listamanns og sýningarstjóra að útskýra verkið tafarlaust eða gæti það verið á ábyrgð áhorfenda að taka sér tíma til að kynna sér verk sem eru flóknari og marglaga, samhengi staðsetningar þess og viðtöku? Um þetta má vissulega deila. Viðtaka sumra gesta á verkinu sem fyrst og fremst hlut sem ber að dæma án þess að kynna sér samhengið er mjög afhjúpandi. Stór orð hafa verið notuð sögð í miklum vandlætingartón þar sem persóna listamannsins hefur verið dregin í svaðið og verkið fordæmt sem óhugnanlegt, ógeðslegt og óviðeigandi. Það er að vissu leyti skiljanlegt. Eins og Siima Itabazza bendir á þá notuðu margir bátinn, fjöldagröfina, sem bakgrunn fyrir ljósmyndatöku eða töluðu fjálglega um skipið sem hlut, litasamsetningu þess og form. Í þessu samhengi má spyrja sig hvort þessi afhjúpun sé ekki einmitt virkni verksins. Hvernig verkið er túlkað og hvernig fjallað er um það. Það virkaði sem spegill á tvíræringinn sjálfan og gesti þess, þiggjendur forréttinda heimsins. Skýringar á stríðum dagsins í dag, efnahagslegu niðurbroti, pólitískum ofsóknum og hamförum vegna hnattrænnar hlýnunar – aðalástæður flótta – má rekja tilbaka til útþenslutíma Evrópu og iðnbyltingarinnar í kjölfarið.

Í þessu samhengi má hinsvegar ekki heldur gleyma hver Christoph Büchel er. Sem hvítur evrópskur og karlkyns listamaður á miðjum aldri sem er á mála hjá einu helsta galleríi samtímalistheimsins kemst hann ekki hjá því að tilheyra þessum forréttindahópi. Það er ekki hægt að skoða þetta ferilsverk án þess að íhuga það fyrirbæri sem nefnt hefur verið í eftirnýlendufræðum sem byrði hvíta mannsins og hjálparkomplex hvíta mannsins og í raun framhald af nýlenduhugsuninni. Siima Itabazza bendir á að þar sem listamaðurinn sé hvítur karlmaður þá sé verkið frá hennar bæjardyrum séð í raun framhald af ofbeldi hvítra og sjálfteknum rétti þeirra til að ráðstafa líkömum og dauða blökkumanna fyrir neyslu áhorfenda. Verkið getur þannig ekki verið sjálfstætt frá skapara þess þó Büchel reyni að fjarlægja sig. Í félagslega gagnrýnum verkum verður alltaf að skoða staðsetningu listamannsins sjálfs. Hver er hans staða? Er hann að tala fyrir sjálfan sig eða fyrir ‘aðra’ eða kannski bæði? Hvaða strúktúrar eru það sem gefur honum vald til að tala fyrir ‘aðra’? Hvernig er samstarfi hans við þessa ‘aðra’ háttað? Hvað segir þessi gjörningur um þá strúktúra sem stjórna sýnileika í listheiminum? Á hverja er hlustað? Hverjir fá athygli? Hvaða forsendur hafa þeir? Um hvern er skrifað? Hver er að sýna? Hver getur sýnt þér? Samkvæmt sýningarskrá eru samstarfsaðilar m.a. Arci Porco Rosso, samtök ungra vinstri-, og aðgerðarsinna í Palermo sem hafa verið að aðstoða hælileitendur og flóttamenn. Þrem flóttamönnum er síðan þakkað sérstaklega. Það eru þeir Batch Mballow, Amadou Niang og Kamal El Karkouri. Blaðamaður hitti einmit Amadou, ásamt íslenskum samstarfsaðilum í framleiðsluteyminu, á kirkjutorgi í Palermo í fyrrasumar þar sem þau höfðu sett upp borð og voru að kynna verkefnið fyrir borgarbúum og leitast við að fjármagna það í leiðinni.

Þá vakna spurningar í sambandi við réttinn til að sýna fjöldagröf. Hvenær er staður/hlutur fjöldagröf sem tilheyrir fyrst og fremst aðstandendum fórnarlamba harmleiksins og hvenær verður fjöldagröfin að tákni eða minnismerki sem tilheyrir öllum? Hvar liggja mörkin? Það eru til önnur dæmi um fjöldagrafatúrisma, bæði í Auschwitz og í Chernobyl svo nefnd séu þekkt dæmi innan Evrópu. Um þessar mundir eru nýyfirstaðnar Evrópusambandsþingkosningar með tilheyrandi vel meinandi kosningaáróðri þeirra sem vilja halda Evrópu sameinaðri í friði og samstarfi. Friður innan Evrópu og efnahagssamstarf hefur verið á kostnað þeirra sem standa fyrir utan þessi landamæri. Flóttamennirnir – flest börn – halda áfram að deyja í miklum mæli við landamærin þó svo athygli fjölmiðla sé farin annað. Uppgangur þjóðernispopúlista og fasista á þjóðþingum Evrópulanda tryggir að Evrópumúrinn muni styrkjast frekar en veikjast á næstu misserum. Það sem hefur verið kallað lausn á flóttamannavandanum hefur í raun þýtt að mörg þúsund manns hafa verið látnir drukkna í Miðjarðarhafinu eða deyja á vélarvana bátum sem enginn kom til hjálpar. Miðjarðarhafið er orðið hættulegustu landamæri heims og í raun sjófjöldagröf. Samt halda ferðamenn áfram að njóta hafsins og taka myndir af sér með fjöldagröfina í bakgrunni. Ítölsk stjórnvöld og Evrópusambandið hafa fundið ýmsar leiðir til að gera björgunaraðgerðir að glæp og margir sem hafa sinnt þessar grundvallarsiðferðiskyldu sjófarenda eiga nú yfir sér margra ára fangelsisdóm. Til að gera hlutina verri þá hefur Evrópusambandið styrkt líbönsku stjórnina í að ná í fólk á flótta hvort sem er á sjó eða landi. Það hefur verið staðfest af Sameinuðu Þjóðunum að flóttamenn fastir í Líbýu verða oftar en ekki þrælasölu að bráð og jafnvel er talað um skipulagða glæpi með líffærasölu. Þetta hefur viðgengist án þess að viðeigandi alþjóðastofnanir hafi spyrnt við fótum en nýjustu fréttirnar eru þær að hópur mannréttindalögfræðinga hafi nú stefnt Evrópusambandinu fyrir Alþjóðaglæpadómstólinn í Haag fyrir glæpi gegn mannkyninu eða með öðrum orðum fyrir að bera beina ábyrgð á dauða þessa fólks. Feneyjatvíæringinn, sem haldinn er við þessi landamæri, sækir ekki einungis heim baráttufólk á sviði mannréttinda heldur koma þarna saman alls konar fólk sem á það þó sameiginlegt að tilheyra forréttindahópi heimsins. Þó þessir gestir séu að öllu jöfnu frjálslyndir og fordæmi harða afstöðu til flóttamanna þá verður ekki hjá því komist að horfast í augu við að þetta sama fólk eru valdhafar Evrópu hvort sem verið er að tala um bein völd eða áhrif vegna auðæfa eða þekkingar, menntunar og stöðu í samfélaginu.

Það er allavega ekki vafamál að eins og listmarkaðurinn almennt hefur Feneyjartvíæringurinn verið vettvangur hvítra karllistamanna og á það við hvort sem litið er á meginsýninguna eða listamenn sem sýnt hafa í þjóðarskálanum. Íslenska þátttakan er þar engin undantekning. Eftir langa röð karlmanna var það árið 1997 sem fyrsti íslenski kvenlistamaðurinn var fulltrúi Íslands en það var áðurnefnd Steina Vasulka sem hafði umbylt myndbandslistinni í heiminum tveim áratugum fyrr. Á 21. öldinni hafa svo Rúri og Gabríela Friðriksdóttir tekið þátt, einnig Libia Castro ásamt Ólafi Ólafssyni og svo Katrín Sigurðardóttir. Hrafnhildur Arnardóttir er 6. konan sem er fulltrúi Íslands á meðan á yfir annan tug karllistamanna hafa fengið að spreyta sig í íslenska skálanum. Það var því ekki að undra að það vakti mikla athygli í ár þegar listamannalisti Ralph Rugoff var gerður opinber að yfir 50% listamannanna er fólk sem kennir sig ekki við karlkynið í sýningu sem bar titilinn ‘May You Live In Interesting Times’. Þar tekur sýningarstjórinn skref í anda tvíæringsins að stækka athafnasvæði samtímalistarinnar. Í þetta sinn þvert á kynjuð landamæri markaðarins. Þessari grein verður slaufað með myndaröð af verkum nokkurra þessa listafólks sem vöktu athygli blaðamanns.

Svissneski skúlptúristinn Carol Bove var uppgötvun blaðamanns á þessum tvíæringi. Skúlptúrarnir hennar eru viðsnúningur á hreinum línum módernískra skúlptúra þar sem hún notar fagur- og merkingarfræði beygjunnar, dældarinnar, snúningsins, togsins, krumpsins, veltingsins og annars umbrots sem sitt tungumál. Litapalletta skúlptúranna skapar þá tálsýn að stálið sem hún notar sé í raun mjúkt og sveigjanlegt efni og skúlptúrarnir krefjast þess að líkami, auga og hugur áhorfenda séu á sveif um og í kringum verkið.

Nabuqi er ung kínversk listakona einnig notar stál í verki sínu en á annan hátt. Hún notar fundna hluti og býr til sviðsetningar þar sem hún leikur sér að eftirlíkingum í rannsókn á því hvernig við tengjumst umhverfi okkar. Í verkinu ‘Destination’ frá 2018 notar hún auglýsingaskilti, með fótósjopp fegraðri mynd af suðrænni pálmatrés-paradís, og einnig gerviplöntur, í verki sem leikur sér að samspili fantasíu og eftirlíkinga. Loforð eru gefin án þess að tækifæri gefist til að efna þau.

Mesta athygli blaðamanns í Arsenale hlutanum fönguðu ljósmyndaverk Zanele Muholi ‘Somnyama Ngonyama, Hail the Dark Lioness’ sem sett voru upp sem risastór veggfóður víðs vegar um sýningarsvæðið á meðan þau voru sett upp sem minni innrammaðar ljósmyndir í Giardini sýningarskálanum. Zanele vill láta kalla sig sjónrænan aðgerðarsinna frekar en listamann og er hvorki karlkyns né kvenkyns heldur kynsegin. Verk háns skoða kynþátt, kynvitund og kynhneigð með því að beina sjónum að blökkufólki sem er samkynhneigt, trans eða intersex. Með því að ýkja dimmuna í húðlitnum sínum segist hán vera að endurheimta eigin ‘blökkun’ sem sé sífellt leikin eða framkvæmd af ‘öðrum’, í þessu tilfelil hvítum forréttindahópi heimsins.

Nígeríska listakonan Otobong Nkanga var uppgötvun blaðamanns á Berlínar tvíæringnum árið 2014. Síðan þá hefur blaðamaður rekist á verk hennar á mörgum stöðum enda sló Otobong í gegn á svipuðum tíma. Yfirleitt eru til sýnis innsetningar og skúlptúrverk eftir hana eins og var tilfellið í þetta skipti í Arsenale hlutanum þar sem hún vann með Murano glerið sem Feneyjaborg er hvað þekktust fyrir. Verkið á Berlínar tvíæringnum fjallaði um annað hráefni sem einnig var mikilvægt í nýlenduversluninni eða glimmersteinefnið mica sem var notað meðal annars til að láta kirkjuturna Evrópu glitra í sólinni. Hinsvegar var ánægjulegt að fá að sjá í fyrsta skipti verk hennar teiknuð á pappír í Giardini hluta sýningarinnar. Framlag Otobong til sýningarinnar fékk sérstök verðlaun dómnefndar ásamt framlagi mexíkönsku listakonunnar Teresa Margolles.

Silfurljónið eru dómefndarverðlaunin sem renna í skaut ungs listamanns sem dómnefnd telur björtustu vonina. Í þetta sinn runnu verðlaunin til Haris Epaminonda sem dvaldi í vinnustofu í Künstlerhaus Bethanien fyrir um áratug með stuðning frá heimalandinu Kýpur sem hafði sent hana árið áður sem fulltrúa sinn á Feneyjartvíæringnum. Haris er í dag 39 ára og hefur gert Berlín að búsetustað sínum. Verkið ‘VOL. XXVII.’ er glæný innsetning í blandaða miðla þar sem hún blandar saman fundum hlutum af bæði af listrænum og hversdagslegum toga og spinnir úr þeim vef sem hefur bæði persónulega og sögulega merkingu en alltaf óræða.

 

Önnur listakona sem búið hefur í Berlín um langt skeið er Hito Steyrl, prófessor við UdK listaháskólann. Hún var jafnframt einn af fulltrúum Þýskalands á Feneyjartvíæringnum árið 2015. Síðan þá hefur stjarna hennar risið hratt og hún er bókstaflega á allra vörum. Verkin hennar að þessu sinni eru á svipuðu formi og verk hennar undanfarin ár eða flóknar margrása vídeóinnsetningar þar sem mikil áhersla er lögð á umgjörð vídeóvarpananna. Þau eru glæný og í Giardini var titillinn ‘This is the Future’ á verki sem tekur yfir heilt stórt rými en í Arsenale var verkið ‘Leonardo´s submarine’ sýnt smærra í sniðum. Báðar innsetningarnar birtast manni í fyrstu andrá sem kitschaðar enda eru myndirnar mótaðar af reikniriti sem minnir á amatör myndfiltera. Í Arsenale varpar Hito fram spurningu um hvaða hlutverk gervigreind muni leika í lífi okkar í framtíðinni með rýmisstórri umgjörð sem vísar í göngustígsstrúktúra sem settir eru upp þegar flóð taka yfir Feneyjar. Í Giardini sitja áhorfendur hinsvegar á nokkrum eins-sæta bekkjum inn í 3ja-rása smágerðri vídóeinnsetningu þar sem hún varpar fram spurningum um aðkomu Feneyjarbúa og Ítala að hernaði þá og nú.

 

Hulda Rós Guðnadóttir


Lesið meira um ‘Barca Nostra’ á Manifesta í Sikiley 2018: https://artzine.is/planetugardurinn-i-raekt-eda-oraekt/

Photocredits: Hulda Rós Guðnadóttir

Cover picture: Bather by Carol Bove, May You Live in Interesting Times, Venice Biennale 2019.

The 58th Venice Biennial is open until November the 14th, 2019.

https://www.labiennale.org/en/art/2019

Listrænt Rorschach-próf í Port.

Listrænt Rorschach-próf í Port.

Listrænt Rorschach-próf í Port.

Upptaka / Unboxing er titill einkasýningar Fritz Hendriks sem var til sýnis í Gallery Port frá 2. Febrúar til 14. febrúar. Titillinn Upptaka / Unboxing nær nánast að lýsa öllum verkum sýningarinnar, sem eru 11 talsins, en í ofureinföldu máli sýnir Fritz áhorfandanum endurtekið kassa sem eru í þann mund að vera opnaðir. Þrátt fyrir takmarkaða sjónræna fjölbreytni og lítið sýningarrými þá er úr miklu að moða frá sýningu Fritz.

Við það að ganga inn í sýningarrýmið fylltist ég strax ánægju við að sjá að rýmið hafði verið endurmálað frá hvítu yfir í fremur pappakassalegan ljósbrúnan sem myndaði góða hliðstæðu við verk sýningarinnar sem eru flest drapplituð og vona ég að fleiri sýningar Gallery Port í framtíðinni geri slíkt hið sama.

(Verk talin frá hægri til vinstri) Fritz Hendrik IV, Upptaka, myndbandsverk, 6:43 mín á lengd. Yfirborð 2, Olía á striga. Kassar, 3D prent, Krossviðarhilla. Leiðarvísir 1 & 2, Olía á striga, 3D prent.

Sýningarskráin er skrifuð af Jóhannesi Dagssyni og setur hún tóninn fyrir heimspekilegu hlið sýningarinnar. Jóhannes nefnir m.a. hugmyndafræði endurtekningar, neysluhyggju samfélagsins og hlutveruleika (objective reality) málverksins sem dæmi um þemu sem Fritz tekst á við.

Fritz notar þrjá mismunandi miðla til takast á við þessi þemu sem eru málverkið, myndband og löng runa af þrívíddar prentuðum kössum. Verkin og miðlar þeirra tala sín á milli og maður finnur fyrir því þegar maður hefst við að skoða sýninguna.

Augu mín leituðu strax til myndbandsverksins sem sýnir í byrjun hendur sem leggja gráan kassa ofan á gráan flöt sem leiðir að upptöku kassans sem stendur yfir í þónokkrar mínútur. Það var áhugavert að byrja áhorfið þegar myndbandið var þegar byrjað þar sem hægra megin við skjáinn standa í enda rýmisins þrívíddar prentuðu kassarnir. Að geta fylgst með kassanum minnka á skjánum og í raunveruleikanum á sama tíma gefur verkinu frekara vægi. Ennfremur, þá eru málverkin á móti skjánum máluð í hálfgerðum trompe l’oeil stíl svo þau líta mjög raunverulega út. Þessi sniðuga heild skapar þetta áðurnefnda tal milli verkanna.

Fritz Hendrik IV, Leiðarvísir 2, Olía á striga, 3D prent.

Þegar ég horfði yfir sýningarrýmið þá leið mér eins og ég væri genginn inn í dystópískan heim þar sem öll menning hefur verið þurrkuð út. Þessi tilfinning skapaðist vegna þeirrar tengingar sem ég geri milli þeirri illsku sem fylgir neysluhyggju og pappakassa sem neysluvöru þ.e.a.s. vörusendingar frá t.d. stórfyrirtækinu Amazon. Það eru jafnframt myndrænar leiðbeiningar fyrir því hvernig eigi að opna kassana á verkunum Leiðarvísir 1 & 2 sem gefa þessum dystópíska heim hálf trúarleg markmið í anda boðorðanna tíu.

Þú skalt opna kassann aftur og aftur þar til hann verður að engu og síðan opna nýjan kassa. Það er tilgangur lífsins. Sýsifos í nýjum búningi neysluhyggjunnar.

Mér var þarnæst hugsað til auglýsingar[1] sem Baldvin Z gerði um jólin 2013 fyrir Bandalag íslenskra listamanna og var hugsuð sem stuðningur við listamannalaunin. Í auglýsingunni eru mjög svipaðir drapplitaðir kassar og í sýningunni nema í formi jólapakka. Einn jólapakki er opnaður sem inniheldur „iPad“ sem virkar ekki sökum þess að enginn smáforrit hafa verið búin til fyrir hann þar sem engin skapandi menning er til.

Ádeila Baldvins Z var sú að án menningar höfum við ekkert til að njóta og því þurfi að styrkja við þá sem skapa hana. Nú 5 árum seinna glímir menning við annarskonar vandamál, aukins hraða sjónmenningar. Aðgengi að sjónmenningu í gegnum internetið hefur aldrei verið meira og nýtt efni er skapað á sekúndu fresti og tiltækt nánast öllum aldurshópum.

Í mjög áhugaverðri grein[2] eftir James Bridle sem nefnist „Something is wrong on the internet,“ er óhugnarlegur afkimi Youtube, stærstu myndbanda gagnaveitu heimsins, skoðaður en það eru myndbönd sem beint er að börnum. Það sem Bridle skoðar fyrst er fyrirbrigði sem kallast „surprise egg videos“ sem sýna manneskju sem opnar mismunandi Kinder Egg fyrir áhorfandann. Eins og margir vita innihalda Kinder súkkulaði egg lítið leikfang úr plasti sem er óvænt fyrir þann sem opnar eggið og vegna þess er eggið eins vinsælt og það er.

Þessi myndbönd standa yfir í þónokkrar mínútur þar sem mörg egg eru opnuð til þess að svipta hulunni af innihaldi þeirra og eru þau til í þúsunda tali og hafa milljónir áhorfenda. Þetta er í raun ekki afkimi heldur spegilmynd af stöðu samtímans þar sem internetið er orðið staðgengill raunveruleikans fyrir marga þar sem hægt að sjá nánast hvaða hlut sem manni dettur í hug á internetinu.

Myndbandsverk Fritz inniheldur nákvæmlega sömu fagurfræði og sjá má í áðurnefndum Youtube myndböndum nema kassinn inniheldur ekkert óvænt heldur er einungis endurtekning af sjálfum sér.

Fritz Hendrik IV, Upptaka, myndbandsverk, 6:43 mín á lengd.

Að sjá kassana fyrir framan sig er því sterk áminning á tækninni sem við búum yfir í dag. Þrívíddar prentun er orðin algeng í listheimi nútímans og fullkomnun þeirrar tækni skín í sýningunni. Það er afar hnyttið og viðeigandi að sjá þessa tækni vera notaða í sýningu sem hæðist að neysluhyggju samtímans.

Fritz Hendrik IV, Kassar, 3D prent, Krossviðarhilla.

Upptaka / Unboxing er mjög persónubundin sýning sem er það sem heillar mig við hana. Skrifin hér eru einungis út frá þeim hugsunum sem komu upp á sýningunni sjálfri en ég ímynda mér að persónulegar upplifanir áhorfandans spili stórt hlutverk í mati á sýningunni. Mér leið því eins og ég væri að taka einhverskonar listrænt Rorschach-próf við að skoða sýninguna þar sem verkin ýttu undir einstaklingsmat og ímyndunarafl.

Nú á dögunum var Fritz tilnefndur til Hvatningarverðlauna ársins hjá Íslensku myndlistarverðlaununum fyrir sýninguna Draumareglan sem var sýnd í Kling og Bang. Það verður því spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.

 

Steinn Helgi Magnússon


Myndir: Fritz Hendrik IV

[1] https://www.youtube.com/watch?v=CJh_U6Wx2Ms

[2] https://medium.com/@jamesbridle/something-is-wrong-on-the-internet-c39c471271d2

Úthugsuð merkingarleysa

Úthugsuð merkingarleysa

Úthugsuð merkingarleysa

Það var með mikilli eftirvæntingu að ég steig inn í gallerí i8 á dögunum til að berja nýjustu afurð Ragnars Kjartanssonar augum. Verk sem unnið er fyrir nýbyggingu Kaupmannahafnarháskóla, Maersk turninn, sem hýsir heilbrigðisvísindasvið skólans. Verkið nefnist Fígúrur í landslagi, eins konar óður til klassíska málverksins. Við fyrstu sýn virðist verkið einmitt vera lifandi málverk og vegna skorts á líkingu sem hefur jafn breiða skírskotun: líkt og málverk úr sögunum um galdrastrákinn Harry Potter.

Líkingin er þó heldur ódýr þar sem verkið spannar í heild 168 klukkustundir sem kann að þykja handahófskennd tala en er í raun slétt vika. Ég vil eyða sem fæstum orðum í lýsingu á verkinu, en í skólanum er það sýnt á skjá í anddyri byggingarinnar, í lyftum sem og í skjávörpum í skólastofum þegar þeir eru ekki í notkun vegna kennslu. Verkið endurtekur sig því með vikumillibili. Það sem fyrir augu ber eru einfaldlega fígúrur í læknasloppum sem settar eru inn í leikmynd í formi landslags, rómantísk leiktjöld og leikmunir í formi grjóts og blóma. Hver dagur hefur þannig sína leikmynd og þegar nýr dagur hefst á miðnætti hefst nýr dagur í nýju landslagi innan verksins.

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (fimmtudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Fyrir þá sem hafa kynnt sér verk Ragnars minna Fígúrur í landslagi um margt á eldri verk frá ferli listamannsins. Helst eru það rómantísku leiktjöldin sem maður kannast við úr eldri verkum, t.a.m. minnir Miðvikudagur um mjög á verkið Heimsljós – líf og dauði listamanns, en gestir yfirlitssýningar Ragnars sem haldin var í Hafnarhúsi árið 2017 ættu að vera því verki góðu kunnir. Skali þessa tveggja verka er auk þess óneitanlega sambærilegur. Það er að minnsta kosti á færi fárra að komast í gegnum þessi tvö verk í heild sinni. En það leiðir svo aftur að spurningunni um hvort maður þurfi í raun og veru að innbyrða hverja einustu sekúndu verks á borð við Fígúrur í landslagi. Nær maður til dæmis einhvern tímann að fullskoða málverk?

Uppsetning verksins í sýningarsal i8 er með ögn öðru sniði. Í rýminu eru sjö skjáir svo hver vikudagur fær þannig sinn eigin skjá og rúllar því hver dagur við hlið þess næsta samtímis. Í glugga gallerísins er svo áttunda verkinu varpað, hinu viku langa heildarverki, jafnt dag sem nótt. Með því að sýna hvern dag fyrir sig á sínum eigin skjá verður til hálfgert kraðak í annars stílhreinum sýningarsalnum. Þetta þýða verk með sína hægu framvindu verður því að hálfgerðu áreiti, enda eru augun þannig innréttuð að við leitumst við að elta uppi hreyfingar og maður kemst þar af leiðandi ekki hjá því að hlaupa með augunum frá einum skjás til annars. Svo því sé annars haldið til haga þá eru þetta átta verk í heildina. Hver dagur er eitt verk og heildin er hið áttunda.


RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (miðvikudagur), (fimmtudagur) og (föstudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Eins og áður hefur komið fram er verkið t.a.m. sýnt sem skjávari (e. screensaver) í skólastofum sem og í lyftum skólabyggingarinnar. Fyrirbærin skjávarar og lyftutónlist eru án efa einhverjar þekktustu birtingarmyndir klisja. Ég vil síst af öllu ýja að því að verk Ragnars séu orðin að klisju, en er það ekki einmitt samnefnari listaverka sem standa upp úr í listasögunni að þau hafa verið gerð að klisjum með aðstoð varnings sem hægt er að kaupa í safnbúðum, hvort sem það sé í formi lyklakippa, póstkorta, ísskápssegla eða strandhandklæða?

Það sem kannski skilur Fígúrur í landslagi frá klisjunni er sú staðreynd að verkið staðnar ekki. Það er jú lifandi málverk. Það er nánast lögmál að alltaf mun eitthvað verða eftir fyrir nemendur Kaupmannahafnarháskóla að sjá. Vissulega munu nemendur ekki geta varist því að sjá suma búta aftur og aftur, viku eftir viku. Verkið hefur enda virkni álíka klukku sem bókstaflega fylgir stundatöflu nemenda.

En hvað er listamaðurinn að segja okkur? Listfræðingar, jafnt sem listfræðinemar, verða sífellt fyrir barðinu á spurningum er varða merkingu hinna ýmissa listaverka. Það er jú vel þekkt að listamenn komi einhverjum skilaboðum áleiðis í verkum sínum, að verk séu merkingarþrungin, að í þeim megi finna gagnrýni á núverandi stjórnkerfi eða pólitíkusa, áminning um eyðileggingu náttúrunnar eða heróp femínískra listamanna gegn feðraveldinu, svo dæmi séu tekin. Sjálfur þykist Ragnar eiginlega ekkert vita hvert hann sé að fara með þessu verki svo vitnað sé í nýlegt útvarpsviðtal við hann í Víðsjá Ríkisútvarpsins.[1]

Það er ekkert nýtt að Ragnar láti sig merkingu listaverka sinna litlu varða. Í sýningarskrá sem gefin var út samhliða sýningu hans, The End, á Feneyjartvíæringnum 2009 birtust tölvupóstsamskipti Ragnars og Andjeas Ejiksson. Þar kemst Ragnar m.a. svo að orði: „Ég umfaðma merkingarleysi verka minna vegna þess að ég held að í því felist kjarni sannleika míns.“[2]

Það er staðföst skoðun mín að almenn hylli verka Ragnars megi að einhverju leyti rekja til þessa meinta merkingarleysis. Það gerir áhorfendanum kleift að nálgast verkin án þess að vera þjakaður þeirri pressu að þurfa að ráða í merkingu verksins. Ekki nóg með það að áhorfandinn getur notið verksins án þess að skilja það, þá tel ég að með því að leysa áhorfendann undan viðjum pressunnar til að finna merkingu verksins verður merkingarleysið að einskonar efnahvata. Með öðrum orðum, hugmyndaflug áhorfandans nýtur góðs af því að þurfa ekki að glíma við að ráða í dulmálið.

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (sunnudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Þannig tekst Ragnari meðvitað eða ómeðvitað í sífellu að tala inn í samtímann í verkum sínum. Fólk fær að sjá, eða öllu heldur hugsa það sem það vill. Þannig getur verkið Fígúrur í landslagi til dæmis auðveldlega orðið áminning um þá miklu vá sem steðjar að náttúrunni. Ekki það að okkur birtist einhver heimsendaspá í verkinu. Læknarnir sem eigra um rómantískt landslagið gera það einkar hversdagslega. Þeir eru hvorki á þönum við að bjarga því né heldur virka þeir á nokkurn hátt líkt og vísindamenn sem að eru að krukka í því, að beisla það, mannkyninu til hagsbóta og náttúrunni til óbóta. Læknarnir einfaldlega eru. Hvort sem landslagið er grýtt strönd, frumskógur, snævi þakið fjalllendi, eða eyðimörk þá þurfa fígúrurnar ekkert að aðlagast, hvert landslag út af fyrir sig virkar eins og þeirra náttúrlega umhverfi (e. habitat).

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (laugardagur) og (sunnudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Fyrir einhverja kosmíska tilviljun hefur það líka gerst að hér er sett upp sýning á verki sem pantað var af opinberri stofnun í Kaupmannahöfn á sama tíma og hér á Íslandi á sér stað frumskógarheit umræða um opinber listaverk. Mér þykir leitt að þurfa að draga pálmatrén í fyrirhugaðri Vogabyggð enn og aftur inn í umræðuna, en mér finnst þessi kaldhæðni alheimsins svo ótrúleg og þar að auki rímar hún líka þægilega við stóran hluta ferils Ragnars. Á sama tíma og fréttir eru fluttar af tómum Listskreytingasjóði, hvers allt fjármagn fer í að halda innantóma kaffifundi til þess eins að komast að þeirri niðurstöðu að hafna þurfu öllum umsóknum til sjóðsins vegna fjárskorts[3], þá getum við að minnsta kosti gengið að þessu tímamótaverki Ragnars um stundar sakir, þökk sé frændum okkar, Dönum.

Grétar Þór Sigurðsson


[1] http://www.ruv.is/frett/hviti-sloppurinn-er-geggjad-takn

[2] The End, Ragnar Kjartansson (2009)

[3] http://www.ruv.is/frett/styrktarsjodur-sem-getur-ekki-veitt-styrki

Erótík og Kapítalismi?
 Umfjöllun um sýninguna Desiring Solid Things

Erótík og Kapítalismi?
 Umfjöllun um sýninguna Desiring Solid Things

Erótík og Kapítalismi?
 Umfjöllun um sýninguna Desiring Solid Things

Desiring Solid Things eða með íslenskum orðum það að þrá eftir hlutum í föstu efni er titill sýningar sem stóð yfir í Kling & Bang á Granda, nú á dögunum. Listamennirnir Selma Hreggviðsdóttir og Elísabet Brynhildardóttir sýndu verk sín þar, sem eru afurðir vangaveltna þeirra um þrána eða löngunina og þær flóknu tilfinningar sem manneskja hefur til hlutarins og efnisins.

Heimspekileg og hnittin sýningarskrá sem rituð er af Lauren Hall jafnt sem og lítil einlæg bók voru gefnar út samhliða sýningunni. Bókin, sem mætti kalla samansafn af ástarbréfum til hlutarins eða efnisins frá 12 listamönnum, styrkti sýninguna með gildum og góðum spurningum, staðhæfingum og ályktunum um þetta svokallaða einstefnu samband sem liggur á milli okkar og hlutarins. Það eru einmitt margir þættir sem koma í formúluna sem liggur á milli okkar og hans, eins og tími, rými og meira að segja okkar eigin líkami og vitund. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á þrána okkar og hlutinn þegar við virðum hann fyrir okkur, í návígi eða úr fjarlægð.

Enn sem komið er þá tel ég það deginum ljósara að í þessari grein munum við ekki leggja mesta áherslu á að lýsa sýningunni, efnivið hennar eða miðlum heldur munum við, einmitt eins og listamennirnir, velta fyrir okkur þessu sambandi og hvað það er sem sýningin segir okkur um það. Réttara sagt hvað hún segir við mig. Þar sem ég er höfundur þessarar greinar. Líkt og Hall segir í sýningaskránni þá er það einn kostur að tala í kringum sýninguna með því að einblína á hlutina; leir, flauel, grafít, pappír, spegill, og annar kostur er sá að telja upp öflin; ljós, hljóð, þyngdarafl,  í henni.  Hinsvegar er þriðji kosturinn að tala um sýninguna og reyna að draga ályktanir upp á eigin spýtur.

(Verk talin frá hægri til vinstri) Elísabet Brynhildardóttir, Ég vildi gera rétt, 677 x 196 cm. Blýantur á pappír, 2018. Selma Hreggviðsdóttir, Draumur um efnið. lágmynd: málning og spegill. 2018. Selma, Ég veit þegar það gerist, Blátt flauel, brautir, festingar. 2018.

Sýningin hafði í heild sinni hálf-drungalegt andrúmsloft yfir sér, þar sem ákveðinn tómleiki og vandvirkni réði ríkjum. Birtingarmynd þessara atriða er verk Elísabetar, Ég vildi gera rétt, þar sem hún hefur handteiknað risa rúðunet á pappírsdregill sem náði allt að upp í loft. Allt virtist vera á sínum stað nákvæmlega eins og það átti að vera en þessi nákvæmni og fegurð virtust hylma yfir einhver óheillavænlegri öfl að baki sér. Mögulegur forboði um hvað það er sem leynist í skugganum má finna í verki Selmu, Draumur um efnið, þar sem áhorfandinn sér sjálfan sig í spegilmynd sem er í yfirvaldslegu skjaldarmerki óþekkts afls. Önnur verk Selmu á sýningunni eins og, Staðbundnar aðstæður, stærsta höggmyndin, ákveðnar kringumstæður og Ég veit þegar það gerist, vísa að vissu leyti til þessa óróleika og óöryggis sem liggur undir upphafningunni sem um er rætt.

Ef framsetning sýningarinnar er að uppbyggingu eins og vísir á klukku sem hverfist um tímann, líkt og Hall kemur að orði í sýningarskrá, þá sló innsetning Elísabetar, Þeir stilla sér ekki upp, lokaslagið í samhljómi við restina af sýningunni. Gestaframkoma tveggja persóna úr þekktu dægurefni, Star Trek og Vertigo,  áttu sér stað þar. Tilkoma þeirra tveggja og dautt augnaráð þeirra segir okkur ýmislegt um hlutina sem við þráum og samband okkar við þá, ef það má yfirhöfuð kalla það samband. Þær eru á sama tíma hlutgerðir einstaklingar og á einhvern hátt persónugerðir hlutir af sköpurum sínum sem lýsir þeim flóknu og þversagnakenndu  tilfinningum og væntingum sem felst í því að þrá hluti. Þetta samband er óumflýjanlega aldrei gagnkvæmt.

Snúum okkur nú að stærra samhenginu sem mögulega er vísað til og gamla góða orðatiltækisins sem segir okkur að list eigi það til að endurspegla samfélagið sem við lifum í.  Sýningin er að vissu leyti ákveðin satíra um raunveruleikann eins og við þekkjum hann. Hver og ein manneskja keppist við að safna að sér ógrynni hluta sem virka sem stöðutákn í samfélaginu, hvort sem hún er var um það eða ekki.  Það er einmitt þráin í hluti sem hefur orðið yfirþyrmandi afl í nútímasamfélagi. Samband okkar við hluti einkennist af þessari þrá sem er uppfull af drifkrafti og von um betra líf en leiðir oftast til vonleysis og tómleikatilfinningar sem við þekkjum öll svo vel. Það mætti segja að þessi tómleiki stafi af innihaldsleysinu sem því fylgir að öðlast áþreifanlega hluti. Við hugsum ekki um samhengi eða orsakasambönd merkra og oft á tíðum sorglegra atburða vegna þess að við erum öll of upptekin við okkar eigin markmið og löngun okkar til að eignast ákveðna hluti. Kapítalisminn ræður ríkjum og neysluhyggjan styður við hann í gegnum firringu okkar allra. En nóg um það hér.

 Elísabet Brynhildardóttir, Þeir stilla sér ekki upp, Innsetning: tvö vídeóverk, gifsskúlptúrar og teiknaður leir. 2018.

Þau þrjú rými sem mynduðu Desiring Solid Things voru öll afar frábrugðin hvort öðru en innihald hvers þeirra virkuðu sem ólíkar hliðar á sama teningi. Verkin og kostgæfileg staðsetning þeirra leggja áherslu á líkama okkar í sambandi við þau. Ýmist með spegli, mörgum sjónarhornum eða höggmyndum sem eru varlega staðsettar á gólfinu án stöpuls til upphafningar. Það myndaðist ólíkur dans í hverju rými með því að virða verkin fyrir sér. Reynslan gæti verið talin holdleg næstum munaðargjörn þegar maður hefur í huga rýmið, líkamann og þrána eða löngunina eftir hlutum í föstu efni. Ég hugsaði til Sontag og spurði mig hvort um væri að ræða einhverskonar erótík með list í þessum rýmum. En þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör og hugmyndin lak út í rýmið.

Eins og með flestar sýningar þá koma upp ótal vangaveltur og spurningar upp eftir inntöku. Desiring Solid Things er engin undantekning hvað það varðar. Hún gaf ekki of mikið upp við fyrstu kynni, skildi þar af leiðandi fullnægjandi rými eftir fyrir ímyndunaraflið. Ekki nóg með það þá sýnir bókin sem gefin var út í tilefni sýningarinnar hversu ótalmargar áttir má fara með hugmyndina sem liggur að baki henni. Svo eitthvað sé nefnt minnast höfundar ákveðinna ástarbréfa þar á yfirnáttúrulega litanæmni bænarækja (e. Mantis Shrimp) og æskuleikföng sem hafa enn ekki fallið í gleymskunnar dá í vangaveltum sínum um þrá eftir hlutum í föstu efni.  Enn fremur þá höfum við hér í þessari grein tilgátur sem tengja hana við tómleikann, kapítalisma og erótík. Sýningin stóð yfir frá 8. desember til 20. janúar síðastliðinn í Kling & Bang á Granda. Ég vona að sem flestir gerðu sér ferð í Marshall húsið og mynduðu sínar eigin skoðanir út frá hugleiðingum um sýninguna á meðan á henni stóð.

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir


Photo credit  // Ljósmyndari : Vigfús Birgisson

Featured image: Selma Hreggviðsdóttir, Staðbundnar aðstæður, stærsta höggmyndin, ákveðnar kringumstæður (Hnitbjörg) 2018.

Veruleikinn frá vana til undrunar: Róf Haralds Jónssonar

Veruleikinn frá vana til undrunar: Róf Haralds Jónssonar

Veruleikinn frá vana til undrunar: Róf Haralds Jónssonar

Fyrir þá sem, eins og undirritaðan, hafa myndað sér þá óviljandi venju að slá takt eða telja skrefin í huganum þegar gengið er og hugurinn sé ekki upptekinn við veigameiri hugsanir, kunna fyrstu kynnin við nýjustu sýningu Haralds Jónssonar myndlistarmanns að virka fremur náin. Eins og létt óvænt snerting, sakleysislega uppáþrengjandi og nærgætin á sama tíma. Er maður nálgaðist innganginn á Kjarvalsstöðum virtist skrefaupptalningin í höfðinu verða smám saman háværari, jafnvel tvöfaldast og loks bergmála í ytra rýminu. Allt gerðist þetta á örfáum sekúndum, áður en maður áttaði sig á hljóðinnsetningunni í portinu, þar sem heyra mátti unga stúlku telja hressilega.

 Haraldur Jónsson fagnar um þessar mundir þrjátíu ára ferli en yfirlitssýningin Róf, á vegum Listasafns Reykjavíkur, kemur til með að gera þeirri sérstöðu sem hann hefur skapað sér í íslensku listalífi skil á slíkum tímamótum. Rýmið í víðum skilningi – ytri jafnt sem innri rými og tengsl manns við þau – hefur í gegnum tíðina verið Haraldi hugleikið. Ýmisskonar rými voru nýtt í gerð sjálfrar sýningarinnar, en verkin á henni er að finna á víð og dreif í safnhúsinu, svo sem á almannafæri og jafnvel á netinu, á Instagram-síðu Haraldar. Gjörningar koma einnig við sögu á sýningunni, en deila mætti nánar um hverskonar rými slíkt listform eignar sér: Staðinn sem gjörningurinn gerist á, tímann sem hann fyllir, víddir minnisins um leið og honum er lokið, eða – reyndar ekki ólíkt öðrum listformum – áhorfendurna sjálfa sem „hljómbotn“.

 Gengið er inn í Vestursal safnins á milli veggja þakinna með hundruðum orða yfir tilfinningar. Tilfinningaveggfóður heitir þetta verk en sjálfur títill sýningarinnar, sem mætir augnaráði gestanna einmitt fyrir enda gangsins, kynni á sinn hátt að lýsa því breiða rófi hugar- og likamsástanda sem þar birtist. Þegar komið er inn í salinn blasir við lífleg uppsetning allskyns fjölbreyttra gripa – annarskonar róf. Haraldur hefur allajafna leitað til ólíkra miðla og fundið listrænu iðju sinni margbreytilegar birtingarmyndir. Listrænni rannsókn sem hefur á hinn bóginn sýnt langvarandi áhuga fyrir ákveðnum viðfangsefnum. Markús Þór Andrésson sýningarstjóri ritar í kynningartexta að viss „áhugi á mörkum hins innra og hins ytra – og leiðunum þar á milli“ einkenni þau verk Haraldar sem fást við lykilviðfangsefnið líkamann. Sjá má hvernig slíkt grundvallaratriði var útfært í uppbyggingu sýningarinnar í heild sinni, sem snýst í kringum fjögur meginþemu: Líkama, tilfinningar, skynjun, tungumál. Nú ef líkaminn felur í sér innra rými, ef hann er okkar tengiliður við ytri heiminn, og skilja má hann sem sjálf mörkin milli hins innra og hins ytra, þá eru tilfinningar, skynjun og tungumál vissulega mismunandi leiðir þar á milli. 

 Einnig mætti skilgreina sem höfuðáttirnar í leiðangri um verkin reynslu, efni og tungumál. Algeng aðferð hjá Haraldi virðist vera sú að framkalla skynjanir og sýna okkur hluti í öðru formi en því sem við höfum vanalega reynslu af. Til að mynda er „leikið“ með að hlutgera óefnisleg fyrirbæri og skipta út beinni reynslu af einhverju fyrir hugtak hins sama, semsagt miðla reynslunni í gegnum tungumálið. Þetta er ef til vill einskonar viðleitni um (ó)þýðanleika merkingarinnar, þvert á skynfæri og vitsmuni.

Eitt fyrsta dæmi um þetta má finna í seríunum Anatomy of feelings, Diagrams of feelings, Emoscans og Emograms. Þessar ólíku myndaraðir eru afrakstur rannsókna sem Haraldur hefur lagt ítrekað stund á í gegnum tíðina, og ganga hver á sinn hátt út á það að myndgera tilfinningar. Þetta fer frá einfaldari stílfærðum teikningum yfir í aðrar heldur flóknar og óreiðukenndar, og enn aðrar myndir unnar með tölvu. Hér á ferð eru verk Haraldar sem sennilega búa við sterkari listsögulega hefð að baki sér. Auðvelt er til dæmis að rekja skyldleika við viðleitni abstraktlistamanna síðustu aldar til að setja fram sálarlíf sitt með sjónrænum hætti, en líka við „ósjálfráðu“ teikningaraðferðir súrrealistanna sem áttu að ná fram ósvikinni tjáningu. Hið myndgerða ástand er þó viljandi lagt fyrir áhorfandann hér, svo hann geti þreifað sig í gegnum það eins og einhverskonar skúlptúr, rými eða margræðan texta, og mögulega fundið einhverja samsvörun innra við sig.

Upp úr holdlegra sviði okkar líkömnuðu tilveru sprettur hins vegar 37°C. Þetta eru tveir nær jafnlitaðir rauðir fletir, hvor í lítillega frábrugðnum litbrigðum. Haraldur notaði sýni úr eigin blóði og vísar títillinn til hitastigs þess. Hann blandaði svo staðlaðri listrænni framsetningu á myndefni (sem í þessu tilfelli er sjálft hráefnið í myndina) saman við vísindalega staðreynd um það, og ýjaði hugsanlega um leið að samsvörun milli hitastigs hins efnislega fyrirbæris og skynjunar heita litarins. Einblínt er á birtingarmyndir blóðsins, án þess að hluturinn sjálfur sé nokkurn tíma nefndur eða komi augljóslega fram í verkinu. Ef við leiðum hugann að hugmyndum um blóð sem groddalegt og jafnvel truflandi fyrirbæri, gróflega birtingu líkamsverunnar og lífssins (ólíkt læknisfræðilegu samhengi þar sem blóðið er undirsett hreinlæti og finnur sér farveg í pípum og hylkjum, sbr. Blóðnám), þá kann vel að virðast sem svo að við einskorðun við tiltekin einkenni þess og síðan ummyndun í mynd og listhlut („æðri veru“), hafi viss „uppleysing“ hlutarins hafi átt sér stað á sama tíma og birtingar hans eru hlutgerðar.

 Ummyndun fyrirbæra kemur gjarnan fram í vinnu Haraldar með tómið, en hann hefur til dæmis oft beint athygli sinni að myrkri og þögn. Slík verk fá mann til að virða fyrir sér fjarverunni og virkja um leið með öflugum hætti ímyndunaraflið, en þetta líkist aðferðafræði sem John Cage varð þekktur fyrir. Almennt höfum við ekki beina reynslu af fjarveru, heldur speglast hún í einhverju sem er ekki til staðar, þ.e.a.s. sem skortur. Á sýningunni birtist hún hins vegar í Breiðtjaldi, vegglangri slengju af svörtu hljóð- og ljóseinangrandi efni. Þrátt fyrir svipmót með einlita abstrakt málverkum er aðalatriðið hér ekki hvað þessi jafni flötur gefur af sér, þvert á móti það að hann gleypir hljóð og ljós, getur sem sagt beinlínis komið í veg fyrir skynjanir.

 Íkónísk að þessu leyti – og í raun innan ferils Haraldar almennt – eru þó sérstaklega verkin Krumpað myrkur og Fontar. Verkin eiga það sameiginlegt að byggjast á einföldu innsæi, sem gerir þeim kleift að koma til skila með óvenju skilvirkum og áhrifamiklum hætti. Krumpað myrkur samanstendur af krumpuðum svörtum örkum, í einni hrúgu sem tekur yfir horn salarins. Myrkrið er hér sem sagt hvorki frádrægt (skortur á ljósi) né alltumlykjandi ástand, heldur jákvæð, áþreifanleg og afmörkuð nærvera. Haraldur hlutgerir óefnislegt fyrirbæri, hvort sem útkoman verði túlkuð sem bókstaflegt myrkur, hugarástand, rými eða sá táknræni gerningur að losa sig við eitthvað. Eins og í 37°C er liturinn í hlutverki sjónræns vísis sem, ásamt titlinum, gerir kleift að þekkja fyrirbærið sem verkið vísar í.

 Það er hins vegar tungumálið sem hlutgerist í Fontum. Listamaðurinn mótaði séríslensku stafina Þ og Ð úr hljóðeinangrandi tjörutex-plötum, færði sem sagt letur í þrívíddarform, steypti hljóð og hugtak í hlut, efni. Stafir (hvort sem um ræðir tölu- eða bókstafir) teljast ekki til náttúrulegra fyrirbæra sem fyrirfinnast í umheiminum, heldur eru þeir sértekningar sem nýtast mannverunni við að lýsa heiminum; þeir eru ekki einungis „einföld“ hljóð, að jöfnu við önnur, heldur skilgreindar og samþykktar eindir sem byggja upp orð, hinar mærkingarbæru einingar tungumálsins. Þeir eru alfarið afurð manna, og við mætum þeim ekki í umhverfinu nema sem grafíska framsetningu og töluð hljóð í rýminu – opinskáa merkingu, í stað opna og óræða sem liggur ósögð í aðstæðum og hlutum. En í tilfelli Fonta verður staða stafanna enn átakanlegri, því sérstæði Þs og Ðs gerir þá jafnframt að hluta af sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar, að menningarlegu atriði. Því áleitnari verður þar af leiðandi sú þversögn sem listamaðurinn skapar með því að hlutgera stafina í hljóðeinangrandi efni: Þversögn milli eðlis hljóðsins og virkni framleiðsluefnisins, sem felur í sér táknræna – og kaldhæðnislega – sjálfseyðingu.

 Tungumálið sjálft virkar þannig sem rými til að útfæra umræddar umbreytingar. En það að snúa ýmsum fyrirbærum í orð, sem sagt í hugtök og hljóð, og síðan þeim sömu í bókstafi og letur – þetta er margrætt ferli, sem getur í senn táknað hlutgerð eða uppleysingu. Helst hlutur, eða frekar skynjun og „merking“ þess, óbreyttur í gegnum þessar myndbreytingar? Haraldur hugar að þessu á sérstakan hátt einnig í heitum verkanna, en hann nýtir sér gjarnan víddirnar, mætti segja „merkingarauðinn“, sem felst í margræðni þeirra orða sem bera fleiri en eina merkingu (sbr. Leiðslur, Svipir, Fontar, o.s.fr.). Tungumálin eru auk þess mörg og gerólík, þar af leiðandi verða því fleiri myndirnar sem eitt og sama fyrirbærið getur birst í, a.m.k. í mannasamskiptum. Þannig lætur Haraldur til dæmis tvítyngda einstaklinga skrifa á glugga safnsins orðið „fiðrildi“ í mismunandi tungumálum. Það er ekki hin lifandi vera, með skrautlega útliti sínu, sem staðnæmst á yfirborð glersins, heldur letur, orð (hug-myndir) sem vísa til hennar, orð sem eru svo ólík sín á milli að spurning getur vaknað um hvort mismunandi form þeirra kunni að standa í einhverjum tengslum við breytileg litbrigði í sjálfri hugmyndinni um hlutinn.

 Drengur fer með orðalista yfir gerðir af tilfinningalegu ástandi, með eintóna og hlutlausri rödd; önnur rödd heyrist nefna nákvæm litbrigði í myrkrinu. Í hljóðinnsetningunni Herbergi, nú á salernum safnsins, telur ungi drengurinn upp hvert orð á fætur öðru, en merking þeirra gengur sennilega úr greipum honum í sumum tilfellum. Hann er þar að auki nýlega læs og lendir hér og þar í erfiðleikum við lesturinn. Tilfinningarnar, í formi orða og hljóða, birtast þá sem mállegar einingar sem hinn mælandi kljáist við, hann þarf að þekkja hugtakið í gegnum letrið og bera það svo fram í gegnum líkama sinn, svo það komist til eyrna á hlustanda. Tungumál er skúlptúr – hugsanlega abstrakt skúlptúr, sem vísar í allskyns fyrirbæri. Í Myrkurlampa er slíkum skúlptúr komið fyrir í myrkvað rými. Þar stendur gesturinn og kallar fram skynjun af þeim margvíslegu litbrigðum sem hvísluð eru til hans, reynir að afmarka merkingu þessara ítarlegu heita, oft rík samskynrænum tilvísum – „ferskjugul“, „kaffibrúnt“, o.s.fr. Ef við lítum aftur, í þessu samhengi, á Tilfinningaveggfóður finnum við þar athyglisverða „þversögn“ sem felst víða í verkum Haraldar. Yfirþyrmandi massi tilfinninga er steyptur fyrir áhorfandanum í formi orða, og skapast togstreita af augljósri fjarlægð búin til milli táknvísis og táknmiðs, milli sléttra flata orða og hins margbrotna landslags mannlegs ástands sem glittir þar í. Listamaðurinn veldur ekki beinni upplifun með skynrænum leiðum, hann lætur tungumálið miðla henni – á sama tíma geta hin mældu orð breyst í sviðsetta skynjanlega hluti.

 Ofannefndu dæmin þrjú vekja náttúrulega athygli á ósamræminu – að eðli og birtingu til – milli tilfinninga og þeirra tungumálalegu eininga sem þær eru iðulega smækkaðar í, fyrir sakir skilvirks miðlanleika þeirra í samskiptum. Á meðan slíkt kynni að vera engin ný uppgötvun, er staðreyndin hins vegar sú að hið sama gleymist auðveldlega í vanabundna sambandi okkar við veruleikann, og Haraldur sýnir það á afar glöggan hátt.

 Sömu verkin gætu þó jafnframt virkað eins og umdeilanlegar tilraunir til að jafna út upplifanir – á borð við kenndir og liti – sem kunna að vera misjanflega tilfinningalega hlaðnar og áhrifamiklar. Eins og til að gefa okkur færi á að nálgast þær, hafa nokkurskonar reynslu af þeim og e.t.v. jafnvel fella dóm, af hlutlægni – laus við beina upplifun og samhengisbundna þætti sem geta haft áhrif á hana. Eiginleg hugmyndareynsla. Svo áhrifarík fyrirbæri væru með slíkri framsetningu færð nær þeirri röð einhæfra og hlutlausra tala sem mætir gestum við innganginn. Heldur öfugt, því stúlkan veitir „innihaldslausu“ talningu sinni mun meira og líflegra skap en tilfellið er annarsstaðar.

 Við gætum reyndar farið svo langt og að segja að einmitt hljóðverkið Bil, þar sem gefst að heyra lófaklapp og blístur í gangi safnsins, sé það tjáningarmesta þrátt (og einmitt) fyrir merkingarfræðilega sneidda, margræða inntak sitt. Hér standa frásagnarmáti gegn inntaki, skynjun gegn vitund – tvennskonar merking á ferðinni. Skýrgreind en „flöt“ hugtök víkja fyrir óræðari en „upphleyptum“ líkamlegum tjáskiptum.

 Merkingin í óræðninni og óorðað inntak skynjunarinnar koma við sögu í ýmsum verkum á sýningunni. Þú og ég heitir til dæmis speglaborð sem á blandast samhengislausar setningar og teikningar; þær mynda mörg dularfull brot sem virka eins og sprottin upp úr óþekktum frásögnum. Erfiðleikinn í að lesa nokkuð röklegt úr þessum samsettu myndum kann einmitt að benda til þess að hér á ferð séu tilraunir til að ná utan um og lýsa annarskonar inntaki, eins og skynjunum og óljósum hugrenningatengslum. Aftur kemur þetta fram í TSOYL (skammstöfun fyrir The Story of Your Life), ljósmyndaverkefni sem Haraldur byrjaði á árið 1987 og heldur enn áfram. Myndefnið er margbreytilegt, en það sem ljósmyndirnar eiga sameiginlegt er einmitt hvað það þykir tilviljunarkennt og ósviðsett. Þær virka eins og gripið hafi verið fram í fyrir einhverju ferli, inn í óþekkta frásögn eða aðstæður. Eins hversdagslegar og þessar myndir eru í grunninn, það er eitthvað óútskýrt við þær – þær birtast fyrir okkur beint og án samhengis, sem er eins og falið fyrir utan ramma þeirra, fyrir aftan myndina sjálfa. Haraldur smellur af þegar hann tekur eftir óvæntum atriðum eða óvenjulegum uppákomum sem beinlínis rjúfa hjúp vanans í sambandi manns við veruleikann – eða stífla „færiband“ móttöku og lesturs manns á umhverfinu. Náskyld efnistök er að finna í þeim tugum myndbanda sem Haraldur hefur reglulega sett inn á Instagram-síðu sína undanfarin þrjú ár. Hvert myndband er þar titlað með einföldu orði, en segja má að útkoman sker sig oft (sérstaklega með tilkomu titlanna) ekki síður í átt að öðrum verkum listamannsins – t.d. Heimskautaávöxtum og Stjörnuhverfi – þar sem aðstæður eru myndaðar og kenndar við önnur óskyld fyrirbæri, sem nokkur svipur er þó með. Ruglingur og samruni, hugarflug og innsæisstökk spila hér inn, í hugleiðingu um túlkun á raunveruleikanum sem er þó á mörkum vana og firringar. Í öllum tilfellum leiðir svipuð reynsla og sú sem er uppistaðan í ofannefnd verk til enduruppgötvunar umhverfisins síns.

Við nefndum í upphafi að líkaminn, okkar frumlægi veruháttur, er fyrsti tengiliður okkar við umheiminn. Í gegnum hann eiga sér stað vensl ytri og innri rýma – nokkuð sem Haraldur hugleiðir í sínum mörgu verkum sem hafa ýmiskonar op að viðfangsefni. Meðal verkanna sem fjalla um líkamann er Svipir, myndbandsverk þar sem föst innrömmun á andliti listamannsins sýnir hann breyta ítrekað um andlitssvip, með hægum hreyfingum. Myndskeiðið er athyglisvert ekki fyrir það eina að lýsa því rófi tilfinninga og framkoma sem gefið er í skyn af andlitinu, með allri margræðni og hárfínum blæbrigðum sem bregða fyrir á milli greinilegri, „fastmótaðri“ svipa. Verkið sýnir þar með einnig dæmi um samskipti milli líkama, óorðuð boðskipti sem bergmála í líkama viðtakandans áður en þeim verði miðlað til vitundarinnar. Tala mætti um ákveðið „andrúmsloft“ andlitsins, hér svipt samhengi og sett fram á svipaðan hátt og á rannsóknarstofu.

Auðvelt er að sjá hvernig díalektík og samskipti innra og ytra fléttast saman við annan lykilþráð í list Haraldar, þ.e.a.s. þátttöku áhorfandans. Líkt og ýmsir þátttökumiðaðir gjörningar (Leiðsla, Litun, o.fl.), sem eru beinlínis háðir spili áhorfenda, hefur Haraldur unnið innsetningar sem áhorfandinn gengur inn í og er þar „virkjaður“. Hér eins og víðar í list Haraldar er markmiðið það að láta áhorfendur enduruppgötva sjálfa sig í umheiminum, enduruppgötva hluti og önnur fyrirbæri, jafnvel listina sjálfa.

Segja má að þátttökuþráðurinn sé spunninn í tvær áttir á sýningunni. Sum verkin virka sem „skynjunarvélar“: Apparat eða umgjörð sem virkja gestinn. Þannig eru verk á borð við Myrkurlampi ekki sjálfstæðar, lokaðar einingar heldur umgerðir sem fullgerast aðeins með tilkomu áhorfenda. Þetta þátttökumiðaða eðli margra verka birtist hvað glöggvast í gjörningnum Blóðnám, sem verður í gangi á tilgreindum tímum yfir sýningartímabilið. Þar er gestum gefið tækifæri á að láta sérfræðing draga úr sér blóð og taka það með sér heim inni í hylki. Til þess að nokkuð verði skapað krefst verkið nærveru, viljugrar þátttöku og framlags gestsins. Það kemur bókstaflega við áhorfandanum til að kalla eitthvað fram í honum – draga eitthvað fram úr honum, sem hann fær síðan að taka með sér. Er þetta ekki grundvallarvirkni í stórum hluta allrar listarinnar? Eins og almennt er tilfellið þá er það sem gesturinn tekur heim frá móti sínu við listina persónulegt og ekki marktækt sem hlutur: Þannig hefur blóðhylkið táknrænt fremur en efnislegt, bókstaflegt gildi. Í endanum verður þetta ekki síður afar hittin aðferð til að benda á mikilvæga þátt líkamans, líkamlegu veru okkar, í reynslu af listinni.

Þráður þátttökunnar togast hins vegar út fyrir sýningarsalina og sjálfan listheiminn, inn í almannarýmið. Þannig er hljóðinnsetninguna Barn að finna á leikvelli á Klambratúni, verk sem aftur veltur á skiptum: Lýsingu á ákveðnu fyrirbæri í fjarveru hins sama. Raunveruleg börn leika sér á svæðinu á daginn og skapa með því tilsvörun fyrir innsetninguna, sem tekur við á kvöldin. Framlenging sýningarinnar inn á samfélagsmiðlana rímar síðan á vissan hátt við titilverk sýningarinnar, Róf, sem listamaðurinn segir vísa í skjámenningu samtímans og það örþunna rými sem fólk er nú farið að dvelja langar stundir í og athafnast. Verkið samanstendur af strimlagluggatjöldum, gulum appelsínugulum og rauðum, sem Haraldur fékk að setja upp í glugga nokkurra húsa á Flókagötu, í samráði við íbúana. Fólkið dregur frá og fyrir að eigin vilja yfir daginn, og stýrir þannig (sam)skiptunum inni- og útirýmis, hvenær og hvernig hvort þeirra opnast fyrir hinu með því að verða sjóninni aðgengilegt. Þannig fremur en verk í eiginlegu almannarými er hér um einskonar jaðarsvæði að ræða. Innsetningin er staðsett í einkarými á sama tíma og henni er þó beint að ytra rýminu, rými „hinna“ – áhorfenda og almennings. Samspilið sem á sér stað hér á mörkunum víkkar út, inn í samfélagslegt samhengi, merkingu hins innra og hins ytra. Og alveg eins og skynjun, tilfinningar og tungumál eru leið þar á milli þar sem um líkamann ræðir, þá er sjálf listin vissulega leið á milli rýma samfélagslíkamans.

Verk Haraldar eru eitthvað sem flestir geta tengt við vegna þess að þau fjalla um tilveru okkar – líkamlegu, tilfinningalegu, en líka vitsmunalegu – í heimi hluta og aðstæðna sem við reynum stöðugt að gera okkur einhverja grein fyrir, og höfum á hættu að festast síðan í. Í list sinni tengir Haraldur saman grunnform þekkingar okkar á heiminum, og þar með á okkur sjálfum: Skynreynslu, hugmyndir, tungumál. Sýningin á Kjarvalsstöðum kemur öllu þessu saman, án þess að útiloka neinn af þeim miðlum sem Haraldur hefur nýtt sér á leiðinni – og ber hér að nefna gjörningadagskrána Afsteypur, þar sem gamlir og nýjir gjörningar í bland verða framdir; né heldur bindur hún sig við rými sýningarsalarins eitt og sér, sem aftur á móti nýtur sín afar fjörlega í uppsetningunni – jafnvel þótt sum verkin kunni að koma fyrir sjónir eins og dálítið í lausu samhengi við hin nærliggjandi. Í ljósi þeirrar stöðu sem texti og yrt tjáning eiga sér í list Haraldar mætti deila um hvort skriftir hans hefðu mögulega getað fengið sitt pláss á sýninguna líka, en geta skal þess að nokkur brot úr skáldverkum hans er að finna í umfangsmikilli sýningarskrá sem gefin var út að gefnu tilefni. Þar finnast einnig fjölbreyttir textar eftir Markús Þór, Sigríði Þorgeirsdóttur, Sjón, og viðtal Katrínar Ómarsdóttur við listamanninn.

List Haraldar Jónssonar einkennist í senn af dýpt og kímni, glettni og glöggsýni. Listamaðurinn stendur fyrir samtímalegri listsköpun sem er bæði áhugaverð og aðgengileg, og þar sem myndmálið virðist búa yfir getu til að vekja forvitni áhorfandans. Spurningin er hvort það endurnýjist þannig hjá gestum sama dýrmæta forvitnin og listamaðurinn virðist sýna gagnvart umheiminum.

Lorenzo Imola


Sýningin stendur til 27.01.2019

Ljósmyndir: Lorenzo Imola og artzine.

Vefsíða: haraldurjonsson.com

 

Hliðar saman hliðar

Hliðar saman hliðar

Hliðar saman hliðar

Ingólfur Arnarson er löngu þekktur á meðal áhugafólks um myndlist fyrir verk sín, bæði hér á landi og erlendis. Í því sambandi skiptir miklu máli langtíma sýning á verkum hans á slóðum Donads Judd í Marfa, Texas. Á yfirstandandi sýningu í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur er fjöldi verka Ingólfs til sýnis um þessar mundir.

Ferill Ingólfs nær til upphafs níunda áratugar síðustu aldar og hefur hann sýnt oft og víða við góðan orðstýr. Í því sambandi ryfjast upp fyrir mér ein eftirminnilegasta sýning hans frá fyrri árum, en hún var haldin í Nýlistasafninu við Vatnsstíg árið 1988. Þar sýndi Ingólfur lágmyndir úr gipsi, en það er díónísiska sýning sem ég hef séð um dagana og bergmálar fegurð hennar enn í höfði mínu eftir öll þessi ár m.a. vegna þess að hann málaði hluta eins gipsverksins með rauðvíni sem léði verkinu fölbleikt yfirbragð. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef gengið ölvuð útaf sýningu án þess að hafa bragðað dropa af víni. Þarna sýndi hann grófgerða steinsteypuhellu sem borin var þunnu gipslagi og má telja það verk upphafið að þeirri list sem hann hefur iðkað síðan.

Ingólfur hefur sýnt verk sín á fjölda sýninga það sem af er öldinni. Skemmst er að minnast samsýningar hans og Eggerts Péturssonar í Gallarí Gesti í nóvember árið 2016 en þar sýndu þeir um eitthundrað ljósmyndir. Þetta var þátttökuverk í anda Fluxus og gátu gestir díft höndunum í ljósmyndabunkann og gripið stakar myndir eða bunka af þeim til íhugunar.

Sýningin ber titilinn, Jarðhæð og er í samræmi við það, staðsett á jarðhæð safnsins í félagsskap við grásprengdar súlur, hvíta veggi og stóra glugga sem opna sýn útúr rýminu á götuna; hús og umferð akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda og ekki síður sýn inní rýmið utanfrá .

Þó þessi inn- og útsýn sé gamalkunnug af fyrri sýningum safnsins nær hún að veita þessari sýningu óvænta vídd m.a. vegna þess að innsetningunni er þannig háttað að lágmyndirnar flútta við súlurnar og hverfa á bakvið þær og sjást þá bara teikningarnar nema þeir sem skoða verkin stígi til hliðar eins og tekið er til orða á vorum dögum. Þessi núna-sérðu-en-ekki-núna-reynsla gerist hvort sem áhorfandinn er inní salnum eða skoðar verkin utanfrá í gegnum gluggana. Úr þessu verður svolítill hliðar-saman-hliðar-dans sem gerir gestina að þátttakendum í innsetningunni. Þessar einföldu hreyfingar gagnvart staðsetningum verkanna gæða sýninguna og verkin óvæntu lífi, gagnstæðu fremur tilbreytingarlausu yfirborðinu. Sama má segja um teikningarnar – þær sýna enga þekkjanlega hluti en virka þess í stað eins og flóknar hæggengar hugleiðslustundir, mandölur án hringformsins sem heldur öllu saman með hjálp goðborinna vera. –Táknmynd íhugunar hefur verið brotin upp í frumeindir í takt við umferðarasann utan gluggans.

Það sem kemur mest á óvart er fyrirferðarlítið slædsjó við útgöngudyr salarins. Þar bregður meðal annars fyrir ljósmyndum sem Ingólfur sýndi í Gallerí Gesti. Þegar hér er komið hefst annarskonar dans því nú þurfa gestir að staldra við á meðan bæði litríkar og fálitaðar ljósmyndirnar dansa við augu áhorfenda og halda þeim föngunum.

Ljósmyndirnar eru að nokkru andstæða teikninganna og lágmyndanna vegna fjölbreyttra litastemminga en halda afturámóti uppi litríkum dansi við borgarlandslagið utandyra og undirstrika víðtæka þátttöku í allri innsetningunni. Ljósmyndirnar í slædsýningunni sýna á óyggjandi hátt hversu gott auga Ingólfur hefur fyrir smáatriðum daglegs lífs.

Þegar hugað er að litadírð ljósmyndanna hvarflar að undirritaðri hvort hér sé  vísbending um næstu sýningu Ingólfs og hvort litirnir verði virkjaðir af fullum krafti í framtíðinni. Það er ekki útí hött að gera sér það í hugarlund því samspil lita var mjög áberandi í verkum Judds um tíma. Það yrði altént spennadi að sjá liti og fjölbreytt form ljósmyndanna spretta fram í verkum Ingólfs og kannski vekja upp Díónísos og villta lifsgleði sem forðum.

Sýning Ingólfs í Hafnarhúsinu er enn ein sönnun þess hve mikilmikilvægu hlutverki söfn gegna við að staðfesta tilvist og erindi listafólks umfram það sem sölugallerí gera. – Ekki síst þegar virt söfn kaupa verk listafólks til varðveislu fyrir komandi kynslóðir.

Þó verkin láti lítið yfir sér á yfirborðinu og auðvelt sé að láta sér fátt um finnast og segja að sýningin sé hvorki góð né slæm, litlaus né leiðinleg þá er hér á ferðinni skemmtilegt sjónarspil útsins og innsins, kyrrstöðu, hreyfingar og þátttöku. Þó myndheimur Ingólfs sé á yfirborðinu fyrst og fremst tengdur hugvitinu þá er í þessari sýningu áhugaverð vísun í líkamsvitið.

Ynda Gestsson


Sýningin er opin til 10. Febrúar 2019.

Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest