Þegar margir punktar sameinast í röð verður til lína

23.10. 2017 | Viðtöl

Nú stendur yfir í vestursal Kjarvalsstaða einkasýning Önnu Líndal myndlistarkonu. Anna á farsælan feril að baki í myndlistinni, en hún vakti fyrst athygli upp úr 1990 með áleitnum verkum sem fjölluðu um hugmyndir samfélagsins um stöðu konunnar. Eins og Anna segir sjálf í viðtalinu mætti segja að verk hennar hafi í fyrstu fjallað um heimilið, síðan hafi hún fært sig út í samfélagið og í dag er öll jörðin undir. Blaðamaður artzine hitti Önnu á Kjarvalsstöðum og spjallaði við hana um feril hennar og nýju verkin á sýningunni, sem ber nafnið Leiðangur.

Geturðu sagt mér frá tilurð og uppsetningu sýningarinnar?

„Ólöf safnstjóri Listasafns Reykjavíkur hafði samband við mig og kom í vinnustofuheimsókn. Hún hafði ekki sagt mér tilefni heimsóknarinnar og það kom mér skemmtilega á óvart að hún hafði í huga yfirlitssýningu á öllum ferlinum. Mér fannst þetta strax mjög spennandi verkefni og er nú búin að vera að vinna að þessari sýningu í eitt og hálft ár. Listasafn Reykjavíkur stóð líka að útgáfu mjög veglegrar sýningarskrár, undirbúningurinn hjá mér fólst aðallega í að vinna nýju verkin og finna til ljósmyndir og titla af verkum fyrir sýningarskrána.

Var erfitt að velja verk á sýninguna?

„Það var ekkert svo erfitt. Frá upphafi höfðum við frekar skýra verkaskiptingu. Ólöf er sýningarstjóri og hún valdi eldri verkin. Síðan er stór hluti sýningarinnar ný verk sem ég hef unnið síðustu tvö ár. Við höfðum þetta þannig að við vorum með fleiri verk en færri til að velja úr, á endanum létum við ráðast í uppsetningunni hvaða verk yrðu með. Við vorum mjög samstiga og fannst mikilvægara að sýningin myndi flæða vel frekar en að sýna öll verkin sem við vorum búnar að velja. Samt vildum við að hér kæmu fram verk sem snertu á öllum ferlinum.“

Þegar þú lítur yfir ferilinn,  sérðu þá einhvers konar skil?

„Já ég sé það. Það er áhugavert að sjá verkin saman, áður fannst mér vera ein skil en nú finnst mér þau vera tvö. Það eru kannski nokkuð hrein skil þarna um 2000. Þar á undan vinn ég með feminískar áherslur, þar sem ég fjalla um konuna í samfélaginu og þær kröfur sem eru gerðar til hennar, þessar hefðir sem allir hafa sætt sig við að séu eðlilegar. Þarna er ég að kortleggja hversdagslífið til að freista þess að rata ósködduð um það.

En eftir aldamótin, þá fer ég að skoða náttúruhamfarir og manneskjuna í náttúrunni. Frá um 2000 til um 2009 er ég að skrásetja mælingar vísindamanna og vinna úr því. Á þessu tímabili er ég prófessor uppi í Listaháskóla en síðan lýkur þeirri stöðu og þá finnst mér nýtt tímabil taka við. Verkin verða rannsóknartengdari. Árið 2009 fór ég í vinnustofudvöl í Kaupmannahöfn. Þar fékk ég þúsund fermetra verksmiðjurými með tíu metra lofthæð til að setja upp innsetningu. Við það tækifæri ákvað ég að draga saman öll þau verk sem ég hafði gert um Vatnajökul og Grímsvötn. Mig langaði til að bæta nýju elementi við og þá komu strapparnir inn, strappar eru notaðir í leiðöngrum, til að halda öllu saman, ég notaði þá til að halda sýningunni saman.

Á þessum tíma fór ég að sakna akademískrar samræðu. Mig langaði að skoða betur listrannsóknir sem mér hafa lengi þótt spennandi, en í þeim kemur fram ný krafa á listamenn. Ég fór til Antwerpen í alþjóðlegt nám í listrannsóknum árin 2011 til 2012. Hluti af því námi var miðlun og þá gerði ég fyrsta bókverkið mitt. Í tengslum við það varð Samhengissafnið til og það finnst mér vera upphafið á nýju tímabili. Í gegnum bókverkin get ég stigið eitt skref til baka frá verkum mínum og skilgreint fyrir mér að hverju ég er að vinna. Aðferðafræðin hefur breyst, mér finnst eins og ég hafi náð einu hænuskrefi lengra í þá átt sem mig langar að fara.“

Hefur Samhengissafnið verið sýnt áður?

„Ég sýndi það í Harbinger 2012 og gaf þá út bókverk samhliða því sem hét Línur. Þá notaði ég tilvitnun í Alberti, (Leon Battista Alberti, fræðimaður á 15. öld, innsk. blm.) þar sem hann talar um punkta sem búa til línur sem síðan verða vefnaður.

Ég lít á hvern hlut í Samhengissafninu sem einn punkt, en þetta eru allt hlutir sem hafa skipt mig máli á mismunandi máta. Ég er ekki með neinar fastar reglur, þetta er opið og þróast. Þarna eru hlutir sem ég hef sankað að mér á ferðalögum, síðan koma líka inn hlutir úr eldri verkum, valið byggir á tengingu sem skiptir mig máli. Þarna er ég líka að vinna með skala, í Samhengissafninu er korktappi sem hefur velkst um í sjónum og það hafa safnast á hann hrúðurkarlar. Korktappinn fær sinn stall í safninu og síðan er þarna líka  ellefu metra breitt landakort á sýningunni, þannig verður til mismunandi skali milli verkanna. Það gerist líka á milli strappanna og tvinnakeflanna, þar verður til samræða í skala.“

Hvað geturðu sagt mér um bókverkin í Samhengissafninu?

„Þau skipta mig miklu máli. Ég gaf t.d. út bókverk með nýja verkinu, Leiðangri, en bókverkin eru mín aðferð til þess að ná utan um það sem ég er að gera. Ég vinn þetta samhliða. Bókverkið getur staðið sem sérstök eining og síðan stendur verkið sjálfstætt, en þau styðja hvort annað. Það er mikil textavinna í bókverkinu og mér hefur alltaf fundist textavinna mjög erfið, stundum held ég að maður sæki bara alltaf í það sem manni finnst erfitt. En ég fæ geysilega mikið út úr þessu basli við textann.

Með þessari vinnuaðferð er ég að reyna að meitla hugmyndirnar sem ég er að vinna með í verkinu. Þarna finnst mér koma fram þessi nýja aðferðafræði, sem ég var að tala um. Listrannsóknirnar gáfu mér ný tæki til að nota, sem mér finnast skemmtileg. Þessi leið gefur mér víðari aðkomu að eigin verkum og listsköpun. Maður er bara sjálfur manns eigin innblástur, að finna nýjar vinnuaðferðir og nálgun á viðfangsefnin er ein leið til að halda sköpunargleðinni.“

Er framsetning Samhengissafnsins breytileg, er til dæmis skápurinn sem hér hýsir verkið hluti af því?

„Hér er skápurinn hluti af verkinu en ég gæti síðan sett safnið upp annars staðar á annan máta. Sumt af þessu hef ég líka sýnt sem sjálfstæð verk. Ég get t.d. tekið korktappann úr hillunni og sýnt hann sem sjálfstætt verk. Og öfugt, sett sjálfstætt verk inn í Samhengissafnið.

Þetta gefur mér mikið frelsi og það var mér mikill léttir að forma Samhengissafnið.  Allt í einu náði ég samhenginu sem ég hafði alltaf verið að leita að. Stundum hafði mér fundist verkin mín koma úr misjöfnum áttum og þarna fann ég aðferð til þess að láta þetta allt þjóna mínum hugmyndum. Eins og fyrstu verkin fjölluðu um að kortleggja samfélagið til þess að rata um það og framkalla þessar huldu reglur, þá er Samhengissafnið kannski það sama nema að þarna er ég að finna mína leið innan myndlistarinnar til þess að hafa það frelsi sem skiptir mig svo miklu máli.“

Þegar ég skoða verk eins og Samhengissafnið og Leiðangur, vaknar sú spurning hvaða hlutverk fagurfræðin leikur í verkum þínum?

„Fagurfræði skiptir máli. Mér finnst mikilvægt að myndlist hafi rödd í samfélaginu en líka mikilvægt að tala innan fagsins, að ná að tala í báðar áttir. Fagurfræðin er vonandi til staðar. Í bókverkinu tala ég um hvað það er auðvelt að skynja náttúruna en erfitt að koma þeirri skynjun í orð. Kannski er þarna einhver tenging, ég hugsa aldrei um fagurfræðina í verkunum,  hún bara kemur. Til dæmis þegar ég saumaði út landakortið Leiðangur, þá var ég ekki búin að velja einhvern litaskala áður, ég byrja bara á einum lit og svo vel ég hvern lit eftir því hvernig síðasti litur hefur verið, ég rek mig bara áfram í því. Og í þessu verki vissi ég ekki hvernig mælilínurnar voru í raun og veru því það átti eftir að finna út mínar mælilínur. Þetta eru línur sem hafa verið mældar þegar ég hef verið á Vatnajökli, ég var með rosalega mikið af mælingum. Ég gerði mér ekki grein fyrir hvar þær myndu enda og hversu hátt þær færu. Í þessu tilfelli er það eitthvað sem ég hef enga stjórn á. En síðan, eins og allir sem vinna í myndlist vita, er stöðugur höfuðverkur hvernig framsetningin verður í rýminu. Þetta er allt fagurfræði og skiptir máli, líka það sem er skilið eftir, fær ekki að vera með.“

Þú sagðir áðan að þér fyndist mikilvægt að fara í báðar áttir, – hvaða erindi finnst þér verkin eiga við samfélagið?

„Í fyrstu verkunum, fyrir 2000, vildi ég að fólk sæi þessar huldu reglur sem við höfum samþykkt í okkar samfélagi. Síðan er ég t.d. með verk sem tengist Kárahnjúkavirkjun, sem heitir Í bakgarðinum, sem fjallar um að það skiptir engu máli hvort þú fylgist með eða ekki, þetta á sér stað og það skiptir þig máli. Í nýju verkunum, í verkinu Leiðangur, nota ég Grímsvatnaöskjuna í raun og veru sem tákn fyrir plánetuna jörð og hvernig mælingar hafa þróast. Ég er með tvö landakort, annars vegar frá 1919, þegar fyrsta mannveran sá Grímsvötn svo vitað sé, það voru tveir ungir Svíar. Ári síðar eru þeir búnir að teikna kort af Grímsvötnum, samkvæmt þeirra tíma aðferðum. Hitt kortið sýnir mikinn fjölda af mælingum, þær nýjustu frá 2017. Ég er að velta fyrir mér margþættu hlutverki kortagerðar, hvaða þýðingu hún hefur fyrir einstaklinginn sem býr kortin til en líka fyrir hina sem hafa ekkert um þau að segja. Árið 2011 var í fyrsta skiptið búið að mæla alla plánetuna með gervitunglum, millimeter fyrir millimeter. Það er mikilvæg og merkileg staðreynd, sem er alveg þess virði að velta fyrir sér, hvaða áhrif það hefur á fólk og fugla.

Það væri kannski hægt að segja að í verkum mínum hafi ég byrjað á heimilinu, síðan fært mig út fyrir og nú er öll jörðin undir. Þarna er td. eitt nýtt ljósmyndaverk, Bráðnun, þar sem ég held á jökulís sem bráðnar. Það fjallar um að náttúran er alltaf mæld út frá manninum og það erum við sem erum að bræða jöklana. Þar tala tvær mælingar saman. Ég nota líkamann sem mælitæki, kannski er það feminískt innslag, eða bara húmanískt, önnur aðkoma að mælingum. Jöklamyndin Bráðnun mætir að einhverju leyti gamalli ljósmynd frá 1997, 28 tommur þar sem ég er að mæla á mér mittið. Á sýningunni skapast þannig snertifletir milli gamalla og nýrra verka. Það gerist eitthvað við þannig samtöl.

Mér finnst skipta máli að verkin séu marglaga, að þau vísi í margar áttir. Eins og þetta nýjasta verk, Leiðangur, gerir. Það getur flokkast undir dagbókarverkin, þarna er ég líka að velta fyrir mér áhrifum mælinga á plánetuna alla. Vísindalegar mælingar í Grímsvötnum þróast samhliða tækninýjungum sem eiga sér stað út um gervallan heim. Grímsvatnaaskjan er ekki stór séð utan úr geimi, örsmá eining sem engu að síður er sjálfstætt náttúrukerfi. Í raun smækkuð mynd af jörðinni allri.

Þetta verk felur líka í sér persónulegar minningar.

„Já, í bókverkinu eru augnablik sem skilja eftir punkt í vitundinni og á stöplunum eru kort af mælingum, einn stöpull fyrir hverja ferð sem ég hef farið í Grímsvötn, þau leggjast síðan hvert ofan á annað í stóra verkinu. Það sem gerðist við það að sauma út hvert ár var að þá dvaldi ég í þeirri ferð á meðan. Silfurlitu augnsporin eru til dæmis brúðkaupsferðin, þá fór ég á gönguskíðum yfir Vatnajökul og kom í fyrsta skipti í Grímsvötn. Og rauðu krossarnir þrír eru úr sumarferð, þar var doktorsnemi að safna gögnum, þetta eru þrjár eða fjórar mismunandi gryfjur sem hún tók og ég aðstoðaði hana við.“

Ein spurning að lokum: Ertu safnari? Og er íbúðin eða vinnustofan full af dóti?

„Sko, íbúðin er ekki full af dóti. En vinnustofan er töluvert full af dóti. En ég er samt ekki alveg forfallinn safnari, það breytist líka hverju ég safna. En jú, til dæmis keypti ég blóm fyrir eitt verkanna á sýningunni, verkið Jaðar, og einn angi datt af plöntunni. Hann er strax kominn í þurrkun og er núna í Samhengissafninu. Ég safna út frá því hvað endar þar. Þannig tengist allt á endanum.“

Sýning Önnu Líndal, Leiðangur, stendur á Kjarvalsstöðum til 30. desember. Á sýningartímabilinu býður Listasafn Reykjavíkur upp á leiðsagnir um sýninguna og listasmiðju fyrir börn, en nánari upplýsingar er að finna á vef safnsins.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: Daníel Magnússon, nema mynd af bókverki en hún er birt með leyfi listamanns.

Vefsíða: www.annalindal.com

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This