Átakið VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM hlýtur Tilberann 2017

31.10. 2017 | Uncategorized

Tilberinn 2017 var veittur laugardaginn 28. október á hátíð Dags Myndlistar í höfuðstöðvum Sambands Íslenskra Myndlistarmanna. Tilberann hlaut átakið VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM, með Jónu Hlíf Halldórsdóttur, formann SÍM, í forsvari.

Þetta er í þriðja sinn sem Tilberinn er veittur, en Helga Óskarsdóttir, myndlistarkona, hönnuður, galleristi og útgefandi, hlaut viðurkenninguna 2016, og Freyja Eilíf Logadóttir, myndlistarmaður og eigandi viðburðarýmisins Ekkisens, hlaut hana árið 2015.

Á bak við Tilberann standa Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir og Sigrún Sirra Sigurðardóttir, myndlistarkonur.

Um Tilberann:

Tilberinn er viðurkenning sem veitt er árlega þeim sem þykja hafa sýnt útsjónarsemi, dugnað, hugrekki og staðfestu á sviði myndlistar og auðgað þannig menningar- og listalíf landsins. Honum fylgir jafnframt orða sem heiðursverðlaunahafinn er sæmdur til frambúðar.

Tilberinn sjálfur dvelur hjá verðlaunahafanum í eitt ár til hvatningar og innblásturs. Tilberann geta hlotið myndlistarmenn og aðrir sem starfa við fagið,  þ.e. einstakir  listamenn, sýningar, útgáfur eða sýningastaðir. Sérstaklega er horft til þeirra sem hafa áorkað miklu af litlum efnum – þeirra sem tekist hefur að magna upp úr vanefnum seið í anda gullgerðarmanna.

Gripurinn sjálfur er framkallaður í þeim sama anda, en Tilberinn er gerður úr endurunnum áldósum sem safnað var af listamönnum frá listamönnum, sýningarstöðum og listmenntastofnunum.

Um verðlaunin þessu sinni var eftirfarandi sagt varðandi forsendur viðurkenningarinnar:

Átakið VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM, með Jónu Hlíf í fararbroddi, markar upphaf stéttarbaráttu myndlistarfólks á Íslandi. SÍM er nú orðið það öfluga verkalýðsfélag sem okkur sárvantaði – myndlistarfólk er ekki lengur eins og hafnarverkafólk á kreppuárunum, sem var skömmtuð vinna í korter fyrir greiðasemi, bundið launaleynd.

Það kerfi sem við myndlistarfólk höfum búið við allt of lengi var tímaskekkja í anda þess sem fyrstu sveitakrakkarnir á mölinni upplifðu á 4. áratug síðustu aldar.

Það er ótrúlegur munur að hafa stéttarfélag á bak við sig sem tekur slaginn fyrir heildina, samanborið við að standa einn, með óljósar hugmyndir um réttindi, gildi og verð ,,vörunnar og vinnunnar” í samningaviðræðum við sýningarstaði. Við viljum jú öll sýna, og það hefur verið viðkvæðið og okkar trú að það sé heiður og upphefð að fá að sýna verkin sín. Nú í krafti átaksins VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM hefur loksins skapast grundvöllur þar sem vinna myndlistarmanna er virt að verðleikum, til jafns við önnur störf.

Ljósmynd af aðstandendum og handhöfum Tilberans: Erling Klingenberg
Vefsíða átaksins Við borgum myndlistarmönnum.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This