Hin fallna kona leikur frjáls í Vinabæ

Hin fallna kona leikur frjáls í Vinabæ

Hin fallna kona leikur frjáls í Vinabæ

Óperan La Traviata eignast nýtt líf í sýningunni Free Play, einskonar innsetningu á mörkum myndlistar, óperu og raftónlistar sem sett verður upp í Vinabæ og er aðeins um eina sýningu að ræða. Listrænir stjórnendur verksins eru Borghildur Indriðadóttir, Hrafnhildur Gissurardóttir og Hrafnhildur Árnadóttir sópran, sem jafnframt flytur hlutverk Víólettu á sviðinu. Í stað hljómsveitar skapar Sveinbjörn Thorarenssen, einnig þekktur sem Hermigervill, hljóðheim verksins í samstarfi við sópransöngkonuna. Blaðamaður artzine hitti á Hrafnhildarnar tvær og Sveinbjörn og ræddi verkið.

„Við vildum draga fram rafið, pönkið og nútímann sem felst í óperunni. Í sýningunni eiga sér snertiflöt myndlist, raftónlist og klassísk ópera og reynum við að gera þessum ólíku miðlum jafnhátt undir höfði,” segir Hrafnhildur Gissurardóttir. Úr varð lifandi innsetning, þar sem Hrafnhildur Árnadóttir syngur aríur Víólettu við draumkennda raftónlist. Leikmyndin er plastfyllt svið sem minnir á abstrakt vinnusvæði þar sem öll verkfæri innsetningarinnar eru sýnileg. Búningur Hrafnhildar, hannaður af Þórunni Maríu Jónsdóttur, er hugsaður sem nokkurskonar framhald af innsetningunni. Í upphafi er tilvísun í óperuna greinileg en sú tilvísun strípast af þegar líður á. Hópurinn að baki Free Play segir bingósalinn eiga margt sameiginlegt með fagurfræði David Lynch og Aki Kaurismäki og var salurinn sem verk leikstjóranna hópnum innblástur við gerð Free Play.

La Traviata er ein frægasta ópera Verdi, enda er hún samin af einstakri ástríðu og einlægni. Umfjöllunarefni óperunnar vakti þó mikla hneykslan þegar hún var fyrst flutt. Verkið fjallar um Víólettu, konu sem Hrafnhildur G. lýsir sem einangraðri og þjakaðri konu: „Hún upplifði mikla skömm, en var með hreint hjarta. La Traviata þýðir auðvitað „hin fallna kona“ upp á íslensku, og þegar verkið var frumflutt í Feneyjum á nítjöndu öld þótti verkið allt of syndsamlegt. Tónskáldið vildi að óperan ætti sér stað í samtíma hans, en það þótti höggva allt of nærri almenningi. “Verdi var óhræddur við að brjóta hefðir – hann var algjör pönkari.

Myndskeið og klipping: Saga Sig og Valgerður Árnadóttir

Í hugum flestra er óperan með hefðbundnari formum, en þó eru umdeildar jaðarpersónur oft miðpunktar óperanna. Sem dæmi má til viðbótar við Víólettu nefna persónu Carmen í samnefndu verki Bizet og Elektru í samnefndu verki Strauss. Ef til vill var óperan eini farvegur þess tíma til að raddir kvenna eins og þeirra fengju að heyrast.

Hrafnhildur Árnadóttir hefur ekki áður sungið hlutverk Víólettu, en segir það lengi hafa verið sitt draumahlutverk innan óperunnar. „Það er hvirfilbylur innra með Víólettu. Hún á margt sameiginlegt með nútímakonum að því leyti að hún er með þunga byrði að bera, hún glímir við veikindi og erfiðleika en setur upp grímu og lætur eins og allt sé í lagi. Einnig plagar hana óttinn við að vera ástfangin, kvilli sem líka plagar okkur nútímafólkið, bæði konur og karla. Ástin á að vera það stórkostlegasta sem til er en á sama tíma erum við skíthrædd við hana og reynum því mörg að forðast hana á ýmsan hátt, með djammi, glysi og glaumi.“ Sveinbjörn bætir við að í þessari uppsetningu fái Víóletta sviðið loks óáreitt: „Allt sem gerist á sviðinu er frá hennar sjónarhóli, þar sem hún flýtur á skýi óöryggis og óhamingju.“

Þó er hér ekki um staðfæringu á La Traviata að ræða, enda er sagan í takt við allt sem er að gerast í samfélagi okkar að við hana þarf engu að bæta, að mati hópsins. „Steríótýpan um hina föllnu og afvegaleiddu konu á enn þá við í dag.”segir Hrafnhildur G.

Þessi tragíski karakter kemur vel fram í hljóðheimi Sveinbjörns og Hrafnhildar. Þó að í klassískum uppsetningum á La Traviata sé mikið partý á sviðinu segir Sveinbjörn tónlistina sem hann hefur skapað enga partítónlist, enda sé tónlistin sköpuð út frá innri hugarheimi Víólettu. „í tónlistinni eru falin einkenni óperunnar sem brjótast svo fram á réttum tíma og nóg af skruðningum og óhljóðum í bland við kristalfegurð“, segir Sveinbjörn. Hann segir hafa verið áhugaverða reynslu að vinna í fyrsta sinn með óperusöngkonu: „Ég fékk algjört sjokk fyrst þegar við komum inn í stúdíó saman. Óperur eru auðvitað aldrei teknar upp í litlu rými heldur í óperuhúsum og inní lítilli stúdíókompu var hávaðinn ærandi! Um leið og hún byrjaði að syngja þurfti ég að grípa fyrir eyrun, og hún sprengdi náttúrulega alla skala á hljóðnemunum og allt það. En eftir þetta byrjunarsjokk gátum við farið að leika okkur með óperusönginn, og meðal annars að setja auto-tune á sönginn og allskonar skemmtilegt.“ Í sýningunni gefst áhorfendum því gullið tækifæri til að kynnast því sem Sveinbjörn veðjar á að verði næsta æði í poppheiminum: Óperusöngur með „auto-tune“.

Free Play hefur verið í vinnslu síðastliðið ár, en ferlið byrjaði með samtali þeirra Borghildar og Hrafnhildanna tveggja, en þær hafa allar sterka tengingu við óperuna á einn eða annan hátt. Þær eru nýfluttar frá Þýskalandi og Hollandi, löndum sem hafa lengi haldið merkjum óperunnar á lofti. Hrafnhildur G. segir frá sinni upplifun af óperuheiminum: „Ég starfaði sem sýningarstjóri í Amsterdam og bjó beint á móti óperuhúsinu þar. Ég var svo síðustu mánuði mína þar farin að fara reglulega í óperuna og pæla mikið í henni. Ég fór að fá leið á að sitja yfir myndlistarsýningum. Jafnvel þó ég væri að koma á framfæri ungum listamönnum sem mér fannst ótrúlega spennandi fannst mér eins og vantaði líf í sýningarnar eftir að þær voru opnaðar. Ég varð því spennt fyrir lifandi innsetningum og performansi, að geta sósað öllum formum saman.“

Það gera höfundarnir í hópnum svo sannarlega í Free Play en bakgrunnur þeirra spannar allt frá arkítektúr og sýningarstjórnun yfir í klassískan óperusöng. Þó fannst þremenningunum þær verða að fara út fyrir hið hefðbundna óperuhús til að ná þessum markmiðum sínum: „Ef þú tekur óperuna ekki úr sínu hefðbundna umhverfi verður hún alltaf glamúr. Til að geta yfirleitt séð óperu í Evrópu þarf maður yfirleitt að labba inn í eitthvað í líkingu við kastala, en við vildum berstrípa óperuna af þessum glamúr.“ Vinabær varð í framhaldinu fyrir valinu sem svið fyrir harmsögu Víólettu. „Fyrir utan það hversu heillandi bingósalur Vinabæjar er þá passar nafnið vel við einmanaleika Víólettu, en hún kallaði heimaborg sína París til dæmis „yfirfulla eyðimörk“.

Verkið verður aðeins sýnt í Vinabæ á laugardaginn klukkan 17, en hópurinn stefnir á að finna verkinu fleiri farvegi í framtíðinni. „Við komumst svo nýlega að því að Íslenska Óperan er að fara að setja þetta upp á næsta ári í Hörpu, sem er skemmtileg tilviljun. Svo það verður gaman fyrir óperuunnendur að bera verkin saman“ segir Hrafnhildur G að lokum.

Salvör Gullbrá Þórarindóttir


Staður: Vinabær, Skipholti 33, 105 Reykjavík.
Tími: 17.00. 

Miða á Free Play má nálgast á Tix.is.
Listrænir stjórnendur: Borghildur Indriðadóttir, Hrafnhildur Gissurardóttir og Hrafnhildur Árnadóttir.
Tónlist: Sveinbjörn Thorarensen, Hermigevill.
Búning Víólettu hannaði Þórunn María Jónsdóttir í samstarfi við listræna stjórnendur.
Hönnun eftir Petru Valdimarsdóttur.
Förðun: Ástrós Erla Benidiktsdóttir .
Ljósmyndir og upptökur eftir Sögu Sig. Aðalmynd með grein: skjáskot úr myndbandi eftir Sögu Sig.
Klipping var í höndum Valgerðar Árnadóttur.

Viðburðurinn á Facebook

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Einkasýning Björns Roth stendur nú yfir í BERG Contemporary við Klapparstíg. Sýning Björns byggir á stórum, expressíonískum olíumálverkum og myndröðum unnum með vatnslitum, verkum þar sem tjáning og tilviljun mætast. Björn Roth, sonur Dieters Roth, á langan feril að baki í myndlistinni. Bæði sem sonur föður síns í samstarfi og sýningarstjórn og í eigin listsköpun.

Eins og fram kemur í texta um Björn sem fylgir sýningunni í BERG, hóf Björn listsköpun sína í tengslum við gjörningalist áttunda og níunda áratugar, en var þegar á níunda áratug orðinn náinn samstarfsmaður föður síns, Dieters. Eftir lát hans árið 1998 hefur Björn stýrt dánarbúinu og unnið áfram að þróun verka sem þeir feðgar sköpuðu saman, í anda þess samruna lífs og listar sem ávallt einkenndi listsköpun Dieters Roth.
Hér sýnir Björn verk sem unnin eru í einveru listamanns en ekki í samstarfi við aðra. Verkin á sýningunni eru unnin á tímabilinu frá 2009 og fram til dagsins í dag. Málverkin eru af öðrum toga en stórar innsetningar Dieters og Björns, þó byggja þau á sameiginlegum grunni.

Listsköpun sjöunda og áttunda áratugarins einkenndist af miklu umróti. Fluxus, gjörningalist og hugmyndalist tröllriðu listheiminum, í takt við umbyltingar í samfélaginu. Segja má að unga kynslóð þessa tíma hafi sameinast um eitt á öllum sviðum samfélagsins: uppreisn. Uppreisn gegn yfirvöldum eins og ´68 kynslóðin sýndi svo eftirminnilega en líka uppreisn gegn hefðbundnum gildum í listsköpun. Fluxus-listamenn lögðu áherslu á að nú gæti allt verið list, listaverk mætti skapa úr hvaða ómerkilega hráefni sem væri og allir mættu kalla sig listamann. Mörk milli listgreina urðu ógreinilegri og ekki síst var hugmyndinni um samruna lífs og listar haldið fagnandi á lofti. Í þessum frjóa jarðvegi urðu til mörg verka Dieters Roth og á áttunda áratugnum hóf Björn Roth þátttöku í framúrstefnulegum og áleitnum gjörningum. Þessi óhefti andi frjálsrar listsköpunar sem sprottin var úr hversdagslífinu yfirgaf aldrei verk Dieters Roth og sameiginleg verk þeirra feðga einkennast meðal annars af því sterka grundvallarviðhorfi að sköpun sé sjálfsagður hluti af lífinu.

Sú tilfinning einkennir einnig verk Björns Roth í BERG. Stór olíumálverk hans eiga rætur sínar að rekja til expressionisma í málverki sem á sér nokkrar birtingarmyndir á tuttugustu öldinni. Hvort sem um var að ræða ljóðrænan expressionisma Kandinsky, slettumálverk Pollock eða hráa bylgju nýja málverksins á áttunda og níunda áratug, bjó ávallt sú hugsun að baki að málverkið væri kjörinn miðill persónulegrar tjáningar, farvegur fyrir tilfinningar listamannsins.

Björn Roth sýnir tvær myndraðir olíumálverka á sýningunni. Þetta eru bæði stór og smærri verk þar sem síbylja línu og og litar myndar óreiðukennda en samtengda heild, formin eru lífræn, gjarnan hringform og litina má tengja við náttúru, leysingar, vatnsflaum. Í verkunum má finna fyrir orkuflæði sem gæti tengst íslenskri náttúru en þetta eru þó ekki náttúrumyndir. Önnur myndröð hefur léttara yfirbragð, hér er olíuliturinn jafnvel notaður áþekkt og vatnslitur og fær að flæða og leka um myndflötinn. Sterkar, hraðar línur skapa teikningu á ljósum grunni. Aðrar olíumyndir minna á kalligrafíu í lausum, stórum og frjálsum pensilstrokum.

Björn sýnir síðan myndraðir unnar með vatnslitum, undir titlunum Taugasallat, Hrákökur, Krapi og Flóð og fyrir utan Flóð er fleiri en ein myndröð undir hverju heiti. Í þessum verkum birtist sá bakgrunnur sem nefndur var áðan bæði í titlum verkanna og í vinnuaðferðum. Titlarnir eru hversdagslegir í anda þeirrar hugmyndar að líf og list séu órjúfanlega tengd, verkin eru líkt og hugleiðing sprottin upp úr hversdagslífinu, upp úr andblæ og stemningu daganna. Myndraðirnar Hrákökur I og II eru lífrænar og sumar líkamlegar, samspil litar og vatns skapar blæbrigði á myndfletinum, hér kemur listamaðurinn af stað ferli sem hann hefur ekki nema að hluta til á valdi sínu.

Ferlislist, list sem leit svo á að þróun sköpunarferlis væri inntak listaverka kom fram upp úr miðri síðustu öld. Sum verka Arte Povera listhreyfingarinnar á Ítalíu einkenndust af slíkri hugsun, þar sem lífrænt ferli er grundvöllur listaverks. Ekki er miðað við endanlega niðurstöðu sem hið eina sanna listaverk, heldur er listaverkið ferli í tíma og rúmi, oft efnafræðilegt ferli á borð við rotnun eða efnafræðilegar umbreytingar. Þetta átti líka við um Fluxus-list Dieters Roth. Þessi ferlishugsun náði að skjóta rótum í listsköpun og birtist í margvíslegum myndum fram í samtímann. Í verkum Björns birtist ferlið annars vegar í efnafræðilegu samspili litar og vatns, en ekki síður, eins og í myndröðinni Flóð, verður til sjónræn frásögn af sköpunarferli þar sem ákveðin stígandi verður í verkinu frá fyrstu mynd til þeirrar síðustu. Ennfremur er vísað til síbreytilegs ferlis náttúrunnar í myndröðunum Blár krapi og Grænn krapi, þar sem litarefni á myndfleti mætast, þykkt og þunnt, gegnsæir litir í samspili við matta svo minnir á áferð krapahröngls.

Titill sýningar Björns kemur frá myndröðum undir samheitinu Taugasallat, eins og til að árétta tengsl tilfinninga og myndverka. Hér sprettur litaflæði frá lífrænum kjarna, af orku og spennu sem kallar fram sprengingu á myndfletinum. Í þessum myndum, eins og í öðrum verkum á sýningunni, birtist samspil einbeittrar sköpunar listamannsins og tilviljunarkennt flæði litarins, sköpun og tilviljun takast á og á einhverjum tímapunkti sleppir listamaðurinn takinu og lífið tekur við.

Sýningin Taugasallat í BERG Contemporary, Klapparstíg 16, stendur til 28. apríl.
Opið þri. – fös. 11-17 og lau. 13-17

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við BERG Contemporary.
Ljósmyndir: Vigfús Birgisson.

Gjörningurinn „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sýndur í þvottahúsi í Laugardalnum

Gjörningurinn „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sýndur í þvottahúsi í Laugardalnum

Gjörningurinn „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sýndur í þvottahúsi í Laugardalnum

Bára Bjarnadóttir og Vala Jónsdóttir eru tvær ungar listakonur sem unnið hafa saman að gjörningaverkinu „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sem sýnt var í þrígang í þvottahúsi í Laugardalnum í Janúar. Í verkinu styðjast listakonurnar við ýmsa miðla t.d. myndskeið, hljóð, ljós, skúlptúr og teikningu sem þær þræða svo saman með listrænni frásögn.

Samstarf Völu og Báru hófst á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði. Þar héldu þær sýningu þar sem kveikjurnar að En við eigum svo margt sameiginlegt fóru fyrst að skjóta rótum.

„Ég held í alvöru að Vala hafi sagt að sig hafi alltaf langað til að halda listasýningu í þvottahúsi“ segir Bára, aðspurð um staðsetningu sýningarinnar, en listakonurnar hafa út frá eigin sögn haft mikinn áhuga á bæði óhefðbundnum og tímabundnum sýningarstöðum.

„Persónulega hef ég mikinn áhuga á heimilislegum stöðum“ bætir Vala við. „Ég finn t.d. sömu galdra í læk og svo stað sem á að reynast ótrúlega hversdagslegur. Sýningin er eins konar saga tilkomu og falls einhvers konar hlutar eða veru, sprottið úr sameiginlegum áhuga okkar á hlutbundinni verufræði. Hún snýst um afleiðingar þess að pota í náttúrlegan hlut með fingrinum eða að fjarlægja skel úr fjöru og setja í rassvasann– að búa til drama úr því að raska náttúru eða ónáttúru.“

„Í gerð verksins pældum við mikið í því hvernig fólk virðist skipta hlutum í náttúrlega og ónáttúrlega hluti. Fólk virðist stundum ekki gera sér grein fyrir því að hlutir, eins og t.d. plast, hafi lífshring“ segir Bára. „Þegar við kaupum okkur lífrænan mat út í búð er á sama tíma fullt af öðrum efnum í honum. Það er ekki allt eins svart og hvítt og við viljum oft halda. Þess vegna fannst okkur áhugavert að blanda saman náttúru og ónáttúru; að vera út í náttúrunni, finna plast eða ryðgaðan hlut sem blandast saman í annað líf. Ætli þetta verkefni hafi ekki verið okkar leið til að binda þessa hluti saman í sögulegu formi sem fjallar samt um eitthvað miklu stærra. Ferlið hefur verið rosalega flókið, stútfullt af veseni og stórum pælingum um lífið, náttúruna og framtíðina.“

Þvottahúsið sem listakonurnar sýndu í var í kjallara í húsi ömmu og afa Völu. Áður en gjörningurinn hófst var gestum boðið upp á gin og tónik sem varð sjálfslýsandi undir fjólubláum UV ljósum sem staðsett voru víðsvegar í dimmu rýminu. Við hlið þvottavélarinnar var lítill skjár sem spilaði myndskeið af rennandi læk. Lækjarniðurinn sem kom frá skjánum hljómaði um litla þvottahúsið er gestir sötruðu á drykkjum sínum.

Eftir fordrykkinn gengu listakonur inn í rýmið og undirstrikuðu byrjun verksins með því að lýsa UV ljósi að áður ósýnilegum texta á vegg. Á veggnum stóð: „En við eigum svo margt sameiginlegt: Kafli 1“ og hófst kaflinn á öðru myndskeiði á flatskjá innan í þvottahúsinu miðju. Myndskeiðið sýndi samruna tveggja hluta, plaststykkis og ryðgaðrar járnstangar, við lagið Collide með Howie Day.

 Í öðrum kafla verksins, sem undirstrikaður var á sama hátt og hinn fyrri, kviknaði á rauðu ljósi í framvasa hettupeysu sem hékk á þvottasnúru. Á sama tíma heyrðist lítil rödd óma um rýmið. Röddin varð að eins konar sögumanni sem velti fyrir sér ýmsum staðreyndum og tengingum er listakonurnar beindu orku að nærliggjandi hlutum í rýminu.

Í komandi köflum var með fjölbreytilegum hætti varpað ljósi á forvitnilegar tengingar milli hins stóra og smáa, náttúrulegra og ónáttúrulega, tilfinninga og staðreynda. Í lok gjörningsins hafði rýmið orðið fyrir magnþrungnum umskiptum – við mikinn fögnuð áhorfenda.

Vala og Bára segja gjörninginn að nokkru leyti vera undir áhrifum bíómynda og dægurmenningar, þar sem popp- og kvikmyndatónlist skjóta upp kollinum margsinnis í gegnum sýninguna. Listakonurnar leika sér að hugmyndinni um farandsgjörning, þar sem þær ættu möguleikann á því að ferðast þvottahúsanna á milli og setja upp sýningar af þessu tagi. Þær stöllur hvetja því lesendur eindregið til þess að hafa samband við þær ef þá dreymir sama draum.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir: með leyfi listamannanna.

Garður Önnu Rúnar í Hafnarhúsinu

Garður Önnu Rúnar í Hafnarhúsinu

Garður Önnu Rúnar í Hafnarhúsinu

Article in english

Það má segja að ,,Garður“ eftir Önnu Rún Tryggvadóttur sé að vissu leyti vatnslitaverk. 14 flöskur hanga á hvolfi og sérstakur rafstýrður búnaður sleppir einum dropa af vatnslit sem fellur á grjót sem hefur verið meðhöndlað á sérstakan hátt með salti og gifsi. Dropinn hefur síðan áhrif á flötinn, umbreytir honum, hann litast, hvarfast og kristallast og verkið er því aldrei eins frá degi til dags.

Garður er vatnslitaverk þar sem hver litur hefur verið einangraður og tekinn úr sínu samhengi, áhrif hans eru rannsökuð, nánast vísindalega eins og á tilraunastofu. Hver dropi er látinn leika einleik í strangri sviðssetningu. Og áhrifin eru auðvitað þau að maður horfir á verkið og hugsar. Maður horfir á verkið eyðileggja smám saman upphaflega yfirborðið en um leið skapast eitthvað alveg nýtt. Og þótt verkið sé í rauninni manngert ferli þá fær það okkur til að hugsa um náttúru, vegna þess að hún stefnir saman náttúrulegum kröftum og sá sem kemur að verkinu frá degi til dags getur ekki sagt að einn daginn sé verkið ,,rétt“ og annan daginn hafi það ,,skemmst“. Verkið er alltaf eins og það á að vera og Garður sýnir okkur einhvernveginn gegnum sína manngerðu ferla hvernig ekkert ástand er ,,rétt“ ástand í náttúrunni.

Listaverkið er síbreytilegt, það er sífellt að eyða því sem fyrir er og um leið skapast eitthvað nýtt. Það eru engin skil. Í rauninni má segja að í verkinu birtist okkur þversögnin sem menn hafa talað um allt frá guðinum Kalí til hagfræðingsins Shumpeter, kenninguna um skapandi eyðileggingu. Að sköpun og eyðing, líf og dauði séu ekki andstæður heldur órjúfanlegar samstæður. Þannig fjallar verkið í rauninni meira um náttúruna heldur en listaverk sem fangar mynd af náttúru. Í rauninni er slíkt verk aðeins sneiðmynd af landslagi á ákveðnu augnabliki á ákveðnum tíma.

Garðurinn fangar kjarna náttúrunnar, efnahvörfin og rofið, þar sem ekkert í náttúrunni er ,,rétt“. Ströndin er eins og hún á að vera, rétt eins og fjallið og fljótið, skógurinn og eyðimörkin, gilið og gljúfrið, allt þetta var eitthvað annað áður en dropar féllu af hinum og umbreyttu landslaginu. Gilið var fjallshlíð, jökull svarf dal ofan í hásléttuna og niður fyrir sjávarmál og hverasvæðið . Allt er háð sífelldri umbreytingu, sífellt flæði, sífellt rof, sífelld efnahvorf, samruni og eyðing.

Það er í rauninni ekki fyrr en maðurinn stígur inn í myndina sem einhverskonar ójafnvægi verður til. Dalur verður ruslahaugur eða fljót verður lífvana eða hæð verður borg og þegar kemur að manninum verður umbreytingin, hin tvíeina sköpun og eyðing allt í einu alls ekki svona augljós. Við hættum að sjá hana og líf okkar virðist snúast um að berjast gegn henni. Gamall bíll, bilað sjónvarp, ónýtur skápur, rispaður geisladiskur, gömul, veik eða dáin manneskja. Þessir hlutir eru ónýtir og ónáttúra í augum okkar, allt í einu er eins og skilin hafi rofnað, það verður augljóst þegar eitthvað hefur eyðilagst og við sjáum ekki að eitthvað nýtt hafi skapast, við skynjum bara ójafnvægi, úr eðlilegur ástandi hefur orðið eitthvað til sem er skilgreint sem skemmd, mengun, bilun.

Þegar eitt hefur breyst í annað sem er í rauninni ekki neitt. Þannig skilur maðurinn eftir sig spor, hauga, rústir og þrávirk efni en það tekur þessa hluti lengri tíma að breytast í annað, dropinn holar steininn og að lokum kemst á annað jafnvægi. En ef við gaumgæfum þá hjálpar Garðurinn okkur að greina og meta umbreytinguna, ryðið sem bólgnar upp við gluggapóstinn á bílnum, kísilinn í vaskinum, hvítar blæðingar í batteríum.

Það er eins og maðurinn hafi staðsett sig fyrir utan og ofan þessa skörun sköpunar og eyðingar og talið sig geta helgað sig sköpuninni í baráttu við eyðinguna, hann helgar lífi sínu baráttunni við eyðinguna, finnur upp efni til að vinna á kísilskán í baðvaskinum, reynir að halda flötinni snyrtilegri og hornréttri, halda eyðingunni og óreiðunni í hæfilegri fjarlægð, eins og sjálf mennskan og mannöldin snúist um að byggja, laga og bæta fyrir þessa eilífu dropa sem falla og tæra og hola steininn.

Góð listaverk hjálpa okkur að skynja heiminn upp á nýtt og þannig hafa þau alltaf fært okkur ný augu eða tæki til að takast á við heiminn, til að skynja hann og skilja. Þau birta okkur stundum hið hversdagslega, hvort sem það er hið hversdaglega hraun sem Kjarval fangaði eða Reykjavík sem Tómas Guðmundsson fangaði í ljóðum sínum eða umbúðirnar sem Warhol fangaði eða hvernig Ragna Róbertsdóttir fangar möl, grjót og salt.

Í garðinum hennar Önnu Rúnar má segja að hún fangi og afhjúpi það sem er innbyggt í öllum listaverkum og öllu efni. Hún fangar forgengileikann en sýnir okkar að hann er alls enginn forgengileiki, það er ekkert upphaf eða endir á neinu. Hún stýrir ferlinu þannig að við sjáum það og skynjum og hugsum um heiminn upp á nýtt. Allt okkar starf verður eyðingunni og umbreytingunni að bráð, vatnslitamynd sem fangar skóginn og fjallið hefur aðeins tekið sneiðmynd af tímanum, náð einum dropa í öllu ferlinu og fangað hann en að lokum mun málverkið gulna, skógurinn mun umbreytast og fjallið molna hægt vegna þess að dropinn holar steininn, spanskgrænan rennur niður andlit þjóðhetjunnar og mengunin tærir marmarastyttur heimsins, vegna þess að allt er alltaf eins og það á að vera.

Andri Snær Magnason


Ljósmyndir: Með leyfi listamanns.

Vefsíða: www.annaruntryggvadottir.net

Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Það er eitthvað við skammdegið. Bleik, síðbúin sólarupprás, rökkurblámi, gullið síðdegissólarlag og síðan tekur við djúpt vetrarmyrkrið lýst upp af marglitum ljósum. Stemning skapast í borginni og kyrrð í náttúrunni. Samsýningin #CURRENTMOOD sem stendur yfir í galleríinu BERG Contemporary við Klapparstíg fangar þessa hauststemningu, þar sem skærir litir stíga fram úr rökkrinu og virka sterkt á áhorfandann. Þau sem sýna eru Haraldur Jónsson, John Zurier, Kees Visser, Páll Haukur Björnsson og Þorgerður Þórhallsdóttir. Listamennirnir eru af ólíkum kynslóðum en ákveðið abstrakt leiðarstef er í verkum þeirra. Á sýningunni er slegið á strengi sem skapa samhljóm, en að auki vísa verk hvers listamanns um sig í ýmsar áttir og tengjast hræringum í listum frá síðustu öld og til samtímans.

Andlegar víddir

Abstraktlistin er rúmlega aldargömul og innan hennar hafa listamenn fetað fjölbreyttar slóðir, stefnur hafa endurnýjast eða liðið undir lok. 1910 kom út rit Wassilys Kandinsky, Über das Geistige in Der kunst, Um andlegan þátt listarinnar, en þar fjallar hann um sjálfstæða tilvist lita og forma, óháð tengingu við sýnilegan raunveruleika. Litir og form voru líkt og tónlist, hélt Kandinsky fram á byltingarkenndan máta á sínum tíma; fólu í sér andlegar víddir. Með samspili lita og forma, uppbyggingu og hrynjandi á myndfleti, var hægt að vekja upp tilfinningar hjá áhorfandanum, ekki ósvipað og þegar hlustað er á tónlist. Málverkið öðlaðist sjálfstætt líf. Kazimir Malevitch gekk skrefi lengra þegar hann málaði svartan ferning á hvítum grunni árið 1915. Ferningurinn táknaði hinn andlega þátt tilverunnar, þar leitaði Malevitch skjóls frá raunveruleikanum, en í náttúrunni eru engin ferhyrnd form. Hið sama var upp á teningnum í sterkri öldu abstraktlistar um miðja tuttugustu öld. Listamenn leituðust við að tjá eitthvað dýpra og meira en yfirborð málverksins hver á sinn hátt, hvort sem um var að ræða lýríska abstraktlist eða geómetríska harðlínustefnu. Og allar götur síðan birtast abstrakt þættir í verkum listamanna, hvort sem listamaðurinn vinnur beinlínis út frá slíkum vangaveltum um form og liti, eða hann notar eiginleika þeirra til að styðja við verk sín.

Skærir tónar á djúpum grunni

Eitt af því sem var upphafsmönnum abstraktlistar hugleikið var hlutverk listarinnar í samfélaginu. Að þeirra mati átti listin ekki að hafa hversdagslegt notagildi heldur vera andlegt athvarf. Listamennirnir sem hér sýna myndu líklega taka undir þetta sjónarmið. Í dag erum við þó kannski opnari fyrir því að erfitt er að greina milli andlegs og veraldlegs notagildis, í stressuðum heimi ávinnur andlegi þátturinn sér sess. Við leitum í andlega þáttinn og fyrir mörgum er myndlistin kjörinn vettvangur, í henni má finna skjól og hvíld, stíga út úr hversdagslegum raunveruleikanum og upplifa eitthvað sem við eigum ekki endilega orð yfir. Það er einmitt þessi stemning sem ríkir á #CURRENTMOOD, tilfinning fyrir því að stíga út úr skammdegismyrkrinu og upplifa annan heim um stund.

Hæglátur taktur

Hér á sér stað áhugavert samspil listamanna sem lært hafa og þroskast á mismunandi tímum og stöðum, allt frá Kees Visser sem mótaðist sem listamaður á áttunda áratug síðustu aldar, til yngsta listamannsins, Þorgerðar Þórhallsdóttur sem lauk meistaranámi í Malmö á síðasta ári. Þorgerður sýnir þrjú vídeóverk.

Í samhengi skammdegis og staðsetningar í miðbænum minnir sorti myndflatarins á borgarmyrkur, ég hugsaði um regnvott malbik sem glampar á í skini götuljósa en verkin eru þó ekki hvað síst abstrakt. Hæg hreyfing og síbreytilegt ljósflökt eru dáleiðandi, eins og að horft sé á sjónræna möntru. Þorgerður hefur á síðustu árum unnið vídeóverk í bland við innsetningar þar sem ljós, skuggar og hreyfing eru í miðpunkti, íhugul verk og falleg. Hér fær einfeldnin að njóta sín og verk hennar slá hæglátan takt í sýningunni. Þetta samspil myrkurs og ljóss kallast á við ljósmyndir Haralds Jónssonar af ljósbrotum á pappír.

Hvikult ljós

Myndröð Haralds eftir endilöngum vegg gallerísins hverfist um birtu og ber nafnið Litrof. Litsterkir ljósgeislar falla á verk úr hvítum pappír og skapa nýtt verk. Myndirnar eru allt frá því að vera í daufum pastellitum til þess að minna á litsterkt sólarlag, sumar eru líkt og abstraktmálverk en aðrar fanga litróf skammdegisbirtunnar með sterku samspili skærrar birtu og djúpra skugga. Þetta eru hrein abstraktverk en sköpuð eins og af tilviljun, máluð með ljósi, af þeirri næmu, ljóðrænu tilfinningu sem jafnan einkennir verk Haralds, hvort sem það eru skúlptúrar, innsetningar eða ljóð.

Haraldur Jónsson

Ljósbrot hverfullar birtu eru fönguð augnablik, eins og náðarkraftur. Þessi hvikula birta er einnig leiðarstef í vatnslitaverkum Johns Zurier sem bera nöfn er tengjast náttúrunni og eru máluð hér á landi, en fela ekki hvað síst í sér abstrakt þætti.

Vatnslitaverk Johns Zurier

Þrjár litlar vatnslitamyndir draga fram einkenni málarans sem leitast við að draga fram kjarna birtu og forma sem hann upplifir í náttúrunni. Hér notar hann möguleika vatnslitanna til að kalla fram andstæður flæðandi birtu og svartamyrkurs.

Viðmiðunarpunktar

Kees Visser er hollenskur en hefur búið og dvalið reglulega hér á landi síðan á áttunda áratugnum. Bakgrunnur hans í hugmyndalist og naumhyggju kemur fram í málverkum hans, en verkin Y-86 og Y-82, bæði frá árinu 2017 eru í einfaldleika sínum líkt og fastir viðmiðunarpunktar sýningarinnar, gult og dökkt, ljós og myrkur og öll hin verkin lenda einhvers staðar á rófinu þarna á milli.


Verk Kees Visser eru fremst á myndinni.

Verkin eru eintóna en fela í sér áferð, liturinn er þykkur og hrjúfur. Kees Visser hefur um áratuga skeið unnið með einlit málverk í samspili við rými, hann setur þau fram á ótal vegu og hefur líkt vinnuaðferðum sínum við að spila skák, þar sem hver leikur felur í sér endurtekningu en engu að síður er niðurstaðan aldrei eins.

Sígild minni

Páll Haukur lauk meistaranámi við California Institute of the Arts árið 2013. Abstrakt þættir, skuggaspil, málverk og aðferðir innsetninga byggja upp myndverkin sem hann sýnir hér. Hann leitast við að virkja listaverk sín og tengja þau áhorfendum á áþreifanlegan hátt. Lágmyndir hans sem skaga út í rýmið varpa litskugga sem færist til eftir því hvar áhorfandinn er staddur.

Páll Haukur Björnsson

Óvænt innskot í þessi abstrakt verk eru síðan raunverulegir ávextir, epli, sítróna, sem rotna eða eru endurnýjuð að vild. Eigandi slíks verks þarf að taka þátt í viðhaldi þess með því að endurnýja ávöxtinn. Þannig mætast á frjóan hátt sígild minni málaralistar, kyrralíf og abstrakt, og straumar í samtímalistum.


Páll Haukur Björnsson

Páll Haukur notar líka orð í myndum sínum, t.d. í stórri innsetningu á vegg og á gólfi. Hér á listaverkið sér líka lifandi, lífrænan þátt, en að segja hver hann er jaðrar við að spilla upplifun áhorfenda sem eiga eftir að sjá sýninguna. Páll Haukur sýnir í þessum verkum frjóan huga sem krystallast í einfaldleika.

Tengsl abstraktlistamanna og tónlistar voru sterk framan af tuttugustu öld og þessi sýning kallar þau fram í hugann. Hér koma saman listamenn sem eiga uppruna sinn í ólíkum liststefnum, en verkin sem valin eru saman magna upp hljóm og styðja hvert annað, leika saman ljúfan og sterkan skammdegisblús.

 Sýningin #CURRENTMOOD í BERG Contemporary, Klapparstíg 16, stendur til 22. desember.
Opið þri. – fös. 11-17 og lau. 13-17

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við BERG Contemporary.
Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.

Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Nú sýnir Listasafn Íslands þekkta myndbandsinnsetningu, Hafið eftir franska listamanninn Ange Leccia. Verkið hefur verið sett upp á risastórum skjá í öðrum enda sýningarsalarins, eins og kvikmynd á tjaldi. Þetta er vel við hæfi því Ange Leccia hefur frá upphafi ferils síns sótt áhrif til kvikmynda, en listamaðurinn kom sjálfur hingað til lands og tók þátt í uppsetningu sýningarinnar.

Myndbands/kvikmyndaverkið Hafið er upprunalega frá árinu 1991. Ange Leccia hefur sýnt verkið mörgum sinnum og á mismunandi hátt en framsetning þess tekur iðulega mið af aðstæðum. Verkið er tvískipt, annars vegar sýnir það hvítar öldur brotna í síbylju á svartri strönd. Sjónarhornið er líkt og áhorfandinn svífi í lausu lofti beint ofan við flæðarmálið og horfi niður, myndinni er síðan varpað upp á skjá eða tjald, þannig að öldurnar sem skríða inn á sandinn birtast lóðréttar, þær rísa og hníga og minna á fjallstoppa.

Þessi þöglu myndskeið eru síðan brotin upp með stuttum myndskeiðum sem eru annað hvort úr smiðju Leccia eða tekin úr kvikmyndum þekktra leikstjóra eins og t.d. Jean Luc Godard. Þessi myndskeið eru hljóðsett á ýmsan hátt, sumum fylgir suð Super-8 myndavélar, öðrum popptónlist frá unglingsárum listamannsins, eða hljóðmynd viðkomandi kvikmyndar þaðan sem brotið er fengið að láni. Leccia hefur líka sýnt eingöngu myndskeiðið af öldum á strönd sem sjálfstætt verk undir sama nafni. Saman mynda þessir þættir grípandi verk sem seiðir og laðar áhorfandann til sín.

Áhrif Japansferðar

Áhorfandanum er boðið til sætis í hálfrökkvuðum sal. Á tjaldinu brotna hvítar öldurnar í síbylju á svörtum sandinum, rísa og hníga á víxl, í þeim hæga, reglubundna takti sem hafinu er eiginlegur, náttúran andar. Hafið er gert á Korsíku, æskuslóðum listamannsins, eftir dvöl hans í Japan. Myndbandið er tekið upp á ströndinni sem hann heimsótti reglulega með foreldrum sínum í æsku. Í Japan kynntist Leccia Shinto-hefðinni, sem á rætur sínar að rekja allt aftur til 8. aldar, og hann hefur sagt að Hafið hefði ekki orðið til án Japansferðarinnar. Í Japan er Shinto ekki beinlínis trúarbrögð heldur hefð sem á sér sterkar rætur. Hún birtist í ótal hofum víðs vegar um landið sem Japanar heimsækja oft, þangað sækja þeir sálarró og hjálp á erfiðum stundum. Í Shinto-hofunum upplifir fólk sterka tengingu við náttúruna, frið og öryggi. Hofið upphefur náttúruna sem heilaga, og Shinto-hof þurfa ekki endilega að vera byggingar, þau geta líka verið foss, klettur, tré eða fjall. Þessi tilfinning gagnvart heilagleika náttúrunnar hafði sterk áhrif á Leccia. Í verkinu nálgast hann ströndina og náttúruna á vissan hátt sem heilagan stað og fyrir vikið verður listaverkið sjálft líkt og staður sem áhorfandinn gengur inn í og tengist.

Milli myndbandslistar og kvikmyndalistar

Í Hafinu birtast skýrt tengsl listamannsins við kvikmyndir. Að loknu listnámi með áherslu á málverk og ljósmyndun lagði Leccia stund á nám í kvikmyndafræði í París á áttunda áratug síðustu aldar, kvikmyndamiðillinn heillaði hann meira en málverkið. Á löngum ferli sínum hefur Ange Leccia gert ótal myndbandsverk sem einnig mætti kalla stuttmyndir, og hefur nefnt kvikmyndagerðarmenn á borð við Jean-Luc Godard, Paolo Pasolini og Michelangelo Antonioni sem áhrifavalda við upphaf ferils síns. Upp úr miðri 20. öld átti sér stað bylting í franskri kvikmyndagerð, kölluð Nýbylgjan. Stefna Nýbylgjunnar var sú að kvikmyndin yrði listrænn tjáningarmiðill á borð við málverkið og skáldsöguna, miðill þar sem listamaður tjáir tilfinningar sínar. Tækni Nýbylgjunnar fólst meðal annars í uppbroti frásagnarinnar, brotakenndum klippingum og löngum tökum, en þessir þættir eru einnig sýnilegir í Hafinu. Hér eins og í fleiri verkum er áherslan mjög sterk á sjónræna þætti, liti, birtu, stemningu frekar en línulaga frásögn, en þó segja sum verkanna sögur.

Myndbrotin sem brjóta upp síbylju öldurótsins eru nokkuð ólík innbyrðis. Þau eru bæði sköpun Ange Leccio og „fundin myndbrot“ úr kvikmyndum. Í mörgum þeirra leikur sólin stórt hlutverk, það má líka segja að verkið í heild sýni ekki hvað síst samspil hafs og sólar. Sólin varpar ýmist sterkum lit, glampa eða er blindandi. Nokkur innskotanna sýna andlit ungra kvenna eða stúlkna, þær tjá sig ekki heldur eru þöglar, áhorfandinn varpar sínum eigin hugsunum yfir á þær. Sum andlitin vísa skýrt til ákveðinna málverka. Til dæmis minnir andlit konu með lokuð augu undir vatnsyfirborði á málverk John Everett Millais af Opheliu, en Leccia hefur gert fleiri en eitt myndbandsverk af kvenandliti undir vatni. Myndskeiðið af öldurótinu tengist líka sögu málverksins, hér birtast öldurnar eins og fjöll sem rísa og hníga og minna á málverk frá rómantíska tímanum. Sú sterka mynd sem skapast þegar áhorfandinn horfir á Hafið tengist líka hugmynd rómantíkurinnar um sambandi manns og náttúru. En Leccia segir einmitt  að listaverk verði til við áhorf; án áhorfandans er listaverkið ekki til.

Eilífðin er fundin

Ange Leccia notar oft kvikmyndabrot frá öðrum, í anda svokallaðrar „appropriation“-stefnu, þar sem listamenn ganga í smiðju annarra og endurnýta eitthvað af verkum þeirra, setja þau fram á nýjan hátt og í nýju samhengi. Hér notar hann m.a. brot úr kvikmynd Jean Luc Godard, Pierrot le Fou, frá árinu 1965, Leccia sýnir lokasprengingu myndarinnar endurtekna með hvelli í sífellu. Einnig notar Leccia brot úr hljóðsetningu sömu myndar, þar sem leikarar hvísla upphafserindi ljóðsins Eilífðarinnar eftir Arthur Rimbaud: „Elle est retrouvée. Quoi? – L´Eternité./C´est la mer allée.“ , en í ljóðinu segir Rimbaud eilífðina birtast þar sem sólin merlar á hafinu.

Ange Leccia hefur talað sérstaklega um þátt löðursins í Hafinu. Hvítfyssandi öldurnar birta mörk lands og sjávar, og þau eru síbreytileg, eins og landamæri sem færast til í sífellu. Í þessum síbreytilegu skilum milli lands og sjávar birtist starf listamannsins, segir Leccia, hann sækir fram og hörfar í list sinni. Hann lítur ennfremur á hvítt löðrið eins og auða blaðsíðu, hvítan skjá, móttækilegan fyrir hugsunum áhorfandans. Þannig má líta á Hafið sem eins konar rými, móttækilegt fyrir ahorfandann, stað til að láta hugann hvarfla og láta sig dreyma, um leið og verkið kemur á óvart með óvæntum myndum og hljóðmynd.

Ange Leccia er fæddur á Korsíku árið 1952. Hann býr og starfar í París og á Korsíku. List hans hefur verið sýnd á söfnum víða um heim,  til dæmis í Guggenheim-safninu í New York, í Pompidou-safninu í París, í Musée d´art moderne de la Ville de Paris og á stórum alþjóðlegum sýningum á borð við Dokumenta í Kassel og Tvíæringnum í Feneyjum. Síðan 2001 hefur Ange Leccia verið forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvarinnar Pavillon Neuflize OBC í Palais de Tokyo, París.

Sýningin í Listasafni Íslands stendur til 4. febrúar 2018.

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við Listasafn Íslands.
Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest