Gjörningurinn „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sýndur í þvottahúsi í Laugardalnum

27.01. 2018 | Uncategorized

Bára Bjarnadóttir og Vala Jónsdóttir eru tvær ungar listakonur sem unnið hafa saman að gjörningaverkinu „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sem sýnt var í þrígang í þvottahúsi í Laugardalnum í Janúar. Í verkinu styðjast listakonurnar við ýmsa miðla t.d. myndskeið, hljóð, ljós, skúlptúr og teikningu sem þær þræða svo saman með listrænni frásögn.

Samstarf Völu og Báru hófst á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði. Þar héldu þær sýningu þar sem kveikjurnar að En við eigum svo margt sameiginlegt fóru fyrst að skjóta rótum.

„Ég held í alvöru að Vala hafi sagt að sig hafi alltaf langað til að halda listasýningu í þvottahúsi“ segir Bára, aðspurð um staðsetningu sýningarinnar, en listakonurnar hafa út frá eigin sögn haft mikinn áhuga á bæði óhefðbundnum og tímabundnum sýningarstöðum.

„Persónulega hef ég mikinn áhuga á heimilislegum stöðum“ bætir Vala við. „Ég finn t.d. sömu galdra í læk og svo stað sem á að reynast ótrúlega hversdagslegur. Sýningin er eins konar saga tilkomu og falls einhvers konar hlutar eða veru, sprottið úr sameiginlegum áhuga okkar á hlutbundinni verufræði. Hún snýst um afleiðingar þess að pota í náttúrlegan hlut með fingrinum eða að fjarlægja skel úr fjöru og setja í rassvasann– að búa til drama úr því að raska náttúru eða ónáttúru.“

„Í gerð verksins pældum við mikið í því hvernig fólk virðist skipta hlutum í náttúrlega og ónáttúrlega hluti. Fólk virðist stundum ekki gera sér grein fyrir því að hlutir, eins og t.d. plast, hafi lífshring“ segir Bára. „Þegar við kaupum okkur lífrænan mat út í búð er á sama tíma fullt af öðrum efnum í honum. Það er ekki allt eins svart og hvítt og við viljum oft halda. Þess vegna fannst okkur áhugavert að blanda saman náttúru og ónáttúru; að vera út í náttúrunni, finna plast eða ryðgaðan hlut sem blandast saman í annað líf. Ætli þetta verkefni hafi ekki verið okkar leið til að binda þessa hluti saman í sögulegu formi sem fjallar samt um eitthvað miklu stærra. Ferlið hefur verið rosalega flókið, stútfullt af veseni og stórum pælingum um lífið, náttúruna og framtíðina.“

Þvottahúsið sem listakonurnar sýndu í var í kjallara í húsi ömmu og afa Völu. Áður en gjörningurinn hófst var gestum boðið upp á gin og tónik sem varð sjálfslýsandi undir fjólubláum UV ljósum sem staðsett voru víðsvegar í dimmu rýminu. Við hlið þvottavélarinnar var lítill skjár sem spilaði myndskeið af rennandi læk. Lækjarniðurinn sem kom frá skjánum hljómaði um litla þvottahúsið er gestir sötruðu á drykkjum sínum.

Eftir fordrykkinn gengu listakonur inn í rýmið og undirstrikuðu byrjun verksins með því að lýsa UV ljósi að áður ósýnilegum texta á vegg. Á veggnum stóð: „En við eigum svo margt sameiginlegt: Kafli 1“ og hófst kaflinn á öðru myndskeiði á flatskjá innan í þvottahúsinu miðju. Myndskeiðið sýndi samruna tveggja hluta, plaststykkis og ryðgaðrar járnstangar, við lagið Collide með Howie Day.

 Í öðrum kafla verksins, sem undirstrikaður var á sama hátt og hinn fyrri, kviknaði á rauðu ljósi í framvasa hettupeysu sem hékk á þvottasnúru. Á sama tíma heyrðist lítil rödd óma um rýmið. Röddin varð að eins konar sögumanni sem velti fyrir sér ýmsum staðreyndum og tengingum er listakonurnar beindu orku að nærliggjandi hlutum í rýminu.

Í komandi köflum var með fjölbreytilegum hætti varpað ljósi á forvitnilegar tengingar milli hins stóra og smáa, náttúrulegra og ónáttúrulega, tilfinninga og staðreynda. Í lok gjörningsins hafði rýmið orðið fyrir magnþrungnum umskiptum – við mikinn fögnuð áhorfenda.

Vala og Bára segja gjörninginn að nokkru leyti vera undir áhrifum bíómynda og dægurmenningar, þar sem popp- og kvikmyndatónlist skjóta upp kollinum margsinnis í gegnum sýninguna. Listakonurnar leika sér að hugmyndinni um farandsgjörning, þar sem þær ættu möguleikann á því að ferðast þvottahúsanna á milli og setja upp sýningar af þessu tagi. Þær stöllur hvetja því lesendur eindregið til þess að hafa samband við þær ef þá dreymir sama draum.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir: með leyfi listamannanna.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This