Að sleppa takinu

18.03. 2018 | Uncategorized

Einkasýning Björns Roth stendur nú yfir í BERG Contemporary við Klapparstíg. Sýning Björns byggir á stórum, expressíonískum olíumálverkum og myndröðum unnum með vatnslitum, verkum þar sem tjáning og tilviljun mætast. Björn Roth, sonur Dieters Roth, á langan feril að baki í myndlistinni. Bæði sem sonur föður síns í samstarfi og sýningarstjórn og í eigin listsköpun.

Eins og fram kemur í texta um Björn sem fylgir sýningunni í BERG, hóf Björn listsköpun sína í tengslum við gjörningalist áttunda og níunda áratugar, en var þegar á níunda áratug orðinn náinn samstarfsmaður föður síns, Dieters. Eftir lát hans árið 1998 hefur Björn stýrt dánarbúinu og unnið áfram að þróun verka sem þeir feðgar sköpuðu saman, í anda þess samruna lífs og listar sem ávallt einkenndi listsköpun Dieters Roth.
Hér sýnir Björn verk sem unnin eru í einveru listamanns en ekki í samstarfi við aðra. Verkin á sýningunni eru unnin á tímabilinu frá 2009 og fram til dagsins í dag. Málverkin eru af öðrum toga en stórar innsetningar Dieters og Björns, þó byggja þau á sameiginlegum grunni.

Listsköpun sjöunda og áttunda áratugarins einkenndist af miklu umróti. Fluxus, gjörningalist og hugmyndalist tröllriðu listheiminum, í takt við umbyltingar í samfélaginu. Segja má að unga kynslóð þessa tíma hafi sameinast um eitt á öllum sviðum samfélagsins: uppreisn. Uppreisn gegn yfirvöldum eins og ´68 kynslóðin sýndi svo eftirminnilega en líka uppreisn gegn hefðbundnum gildum í listsköpun. Fluxus-listamenn lögðu áherslu á að nú gæti allt verið list, listaverk mætti skapa úr hvaða ómerkilega hráefni sem væri og allir mættu kalla sig listamann. Mörk milli listgreina urðu ógreinilegri og ekki síst var hugmyndinni um samruna lífs og listar haldið fagnandi á lofti. Í þessum frjóa jarðvegi urðu til mörg verka Dieters Roth og á áttunda áratugnum hóf Björn Roth þátttöku í framúrstefnulegum og áleitnum gjörningum. Þessi óhefti andi frjálsrar listsköpunar sem sprottin var úr hversdagslífinu yfirgaf aldrei verk Dieters Roth og sameiginleg verk þeirra feðga einkennast meðal annars af því sterka grundvallarviðhorfi að sköpun sé sjálfsagður hluti af lífinu.

Sú tilfinning einkennir einnig verk Björns Roth í BERG. Stór olíumálverk hans eiga rætur sínar að rekja til expressionisma í málverki sem á sér nokkrar birtingarmyndir á tuttugustu öldinni. Hvort sem um var að ræða ljóðrænan expressionisma Kandinsky, slettumálverk Pollock eða hráa bylgju nýja málverksins á áttunda og níunda áratug, bjó ávallt sú hugsun að baki að málverkið væri kjörinn miðill persónulegrar tjáningar, farvegur fyrir tilfinningar listamannsins.

Björn Roth sýnir tvær myndraðir olíumálverka á sýningunni. Þetta eru bæði stór og smærri verk þar sem síbylja línu og og litar myndar óreiðukennda en samtengda heild, formin eru lífræn, gjarnan hringform og litina má tengja við náttúru, leysingar, vatnsflaum. Í verkunum má finna fyrir orkuflæði sem gæti tengst íslenskri náttúru en þetta eru þó ekki náttúrumyndir. Önnur myndröð hefur léttara yfirbragð, hér er olíuliturinn jafnvel notaður áþekkt og vatnslitur og fær að flæða og leka um myndflötinn. Sterkar, hraðar línur skapa teikningu á ljósum grunni. Aðrar olíumyndir minna á kalligrafíu í lausum, stórum og frjálsum pensilstrokum.

Björn sýnir síðan myndraðir unnar með vatnslitum, undir titlunum Taugasallat, Hrákökur, Krapi og Flóð og fyrir utan Flóð er fleiri en ein myndröð undir hverju heiti. Í þessum verkum birtist sá bakgrunnur sem nefndur var áðan bæði í titlum verkanna og í vinnuaðferðum. Titlarnir eru hversdagslegir í anda þeirrar hugmyndar að líf og list séu órjúfanlega tengd, verkin eru líkt og hugleiðing sprottin upp úr hversdagslífinu, upp úr andblæ og stemningu daganna. Myndraðirnar Hrákökur I og II eru lífrænar og sumar líkamlegar, samspil litar og vatns skapar blæbrigði á myndfletinum, hér kemur listamaðurinn af stað ferli sem hann hefur ekki nema að hluta til á valdi sínu.

Ferlislist, list sem leit svo á að þróun sköpunarferlis væri inntak listaverka kom fram upp úr miðri síðustu öld. Sum verka Arte Povera listhreyfingarinnar á Ítalíu einkenndust af slíkri hugsun, þar sem lífrænt ferli er grundvöllur listaverks. Ekki er miðað við endanlega niðurstöðu sem hið eina sanna listaverk, heldur er listaverkið ferli í tíma og rúmi, oft efnafræðilegt ferli á borð við rotnun eða efnafræðilegar umbreytingar. Þetta átti líka við um Fluxus-list Dieters Roth. Þessi ferlishugsun náði að skjóta rótum í listsköpun og birtist í margvíslegum myndum fram í samtímann. Í verkum Björns birtist ferlið annars vegar í efnafræðilegu samspili litar og vatns, en ekki síður, eins og í myndröðinni Flóð, verður til sjónræn frásögn af sköpunarferli þar sem ákveðin stígandi verður í verkinu frá fyrstu mynd til þeirrar síðustu. Ennfremur er vísað til síbreytilegs ferlis náttúrunnar í myndröðunum Blár krapi og Grænn krapi, þar sem litarefni á myndfleti mætast, þykkt og þunnt, gegnsæir litir í samspili við matta svo minnir á áferð krapahröngls.

Titill sýningar Björns kemur frá myndröðum undir samheitinu Taugasallat, eins og til að árétta tengsl tilfinninga og myndverka. Hér sprettur litaflæði frá lífrænum kjarna, af orku og spennu sem kallar fram sprengingu á myndfletinum. Í þessum myndum, eins og í öðrum verkum á sýningunni, birtist samspil einbeittrar sköpunar listamannsins og tilviljunarkennt flæði litarins, sköpun og tilviljun takast á og á einhverjum tímapunkti sleppir listamaðurinn takinu og lífið tekur við.

Sýningin Taugasallat í BERG Contemporary, Klapparstíg 16, stendur til 28. apríl.
Opið þri. – fös. 11-17 og lau. 13-17

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við BERG Contemporary.
Ljósmyndir: Vigfús Birgisson.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This