Garður Önnu Rúnar í Hafnarhúsinu

14.01. 2018 | Uncategorized

Article in english

Það má segja að ,,Garður“ eftir Önnu Rún Tryggvadóttur sé að vissu leyti vatnslitaverk. 14 flöskur hanga á hvolfi og sérstakur rafstýrður búnaður sleppir einum dropa af vatnslit sem fellur á grjót sem hefur verið meðhöndlað á sérstakan hátt með salti og gifsi. Dropinn hefur síðan áhrif á flötinn, umbreytir honum, hann litast, hvarfast og kristallast og verkið er því aldrei eins frá degi til dags.

Garður er vatnslitaverk þar sem hver litur hefur verið einangraður og tekinn úr sínu samhengi, áhrif hans eru rannsökuð, nánast vísindalega eins og á tilraunastofu. Hver dropi er látinn leika einleik í strangri sviðssetningu. Og áhrifin eru auðvitað þau að maður horfir á verkið og hugsar. Maður horfir á verkið eyðileggja smám saman upphaflega yfirborðið en um leið skapast eitthvað alveg nýtt. Og þótt verkið sé í rauninni manngert ferli þá fær það okkur til að hugsa um náttúru, vegna þess að hún stefnir saman náttúrulegum kröftum og sá sem kemur að verkinu frá degi til dags getur ekki sagt að einn daginn sé verkið ,,rétt“ og annan daginn hafi það ,,skemmst“. Verkið er alltaf eins og það á að vera og Garður sýnir okkur einhvernveginn gegnum sína manngerðu ferla hvernig ekkert ástand er ,,rétt“ ástand í náttúrunni.

Listaverkið er síbreytilegt, það er sífellt að eyða því sem fyrir er og um leið skapast eitthvað nýtt. Það eru engin skil. Í rauninni má segja að í verkinu birtist okkur þversögnin sem menn hafa talað um allt frá guðinum Kalí til hagfræðingsins Shumpeter, kenninguna um skapandi eyðileggingu. Að sköpun og eyðing, líf og dauði séu ekki andstæður heldur órjúfanlegar samstæður. Þannig fjallar verkið í rauninni meira um náttúruna heldur en listaverk sem fangar mynd af náttúru. Í rauninni er slíkt verk aðeins sneiðmynd af landslagi á ákveðnu augnabliki á ákveðnum tíma.

Garðurinn fangar kjarna náttúrunnar, efnahvörfin og rofið, þar sem ekkert í náttúrunni er ,,rétt“. Ströndin er eins og hún á að vera, rétt eins og fjallið og fljótið, skógurinn og eyðimörkin, gilið og gljúfrið, allt þetta var eitthvað annað áður en dropar féllu af hinum og umbreyttu landslaginu. Gilið var fjallshlíð, jökull svarf dal ofan í hásléttuna og niður fyrir sjávarmál og hverasvæðið . Allt er háð sífelldri umbreytingu, sífellt flæði, sífellt rof, sífelld efnahvorf, samruni og eyðing.

Það er í rauninni ekki fyrr en maðurinn stígur inn í myndina sem einhverskonar ójafnvægi verður til. Dalur verður ruslahaugur eða fljót verður lífvana eða hæð verður borg og þegar kemur að manninum verður umbreytingin, hin tvíeina sköpun og eyðing allt í einu alls ekki svona augljós. Við hættum að sjá hana og líf okkar virðist snúast um að berjast gegn henni. Gamall bíll, bilað sjónvarp, ónýtur skápur, rispaður geisladiskur, gömul, veik eða dáin manneskja. Þessir hlutir eru ónýtir og ónáttúra í augum okkar, allt í einu er eins og skilin hafi rofnað, það verður augljóst þegar eitthvað hefur eyðilagst og við sjáum ekki að eitthvað nýtt hafi skapast, við skynjum bara ójafnvægi, úr eðlilegur ástandi hefur orðið eitthvað til sem er skilgreint sem skemmd, mengun, bilun.

Þegar eitt hefur breyst í annað sem er í rauninni ekki neitt. Þannig skilur maðurinn eftir sig spor, hauga, rústir og þrávirk efni en það tekur þessa hluti lengri tíma að breytast í annað, dropinn holar steininn og að lokum kemst á annað jafnvægi. En ef við gaumgæfum þá hjálpar Garðurinn okkur að greina og meta umbreytinguna, ryðið sem bólgnar upp við gluggapóstinn á bílnum, kísilinn í vaskinum, hvítar blæðingar í batteríum.

Það er eins og maðurinn hafi staðsett sig fyrir utan og ofan þessa skörun sköpunar og eyðingar og talið sig geta helgað sig sköpuninni í baráttu við eyðinguna, hann helgar lífi sínu baráttunni við eyðinguna, finnur upp efni til að vinna á kísilskán í baðvaskinum, reynir að halda flötinni snyrtilegri og hornréttri, halda eyðingunni og óreiðunni í hæfilegri fjarlægð, eins og sjálf mennskan og mannöldin snúist um að byggja, laga og bæta fyrir þessa eilífu dropa sem falla og tæra og hola steininn.

Góð listaverk hjálpa okkur að skynja heiminn upp á nýtt og þannig hafa þau alltaf fært okkur ný augu eða tæki til að takast á við heiminn, til að skynja hann og skilja. Þau birta okkur stundum hið hversdagslega, hvort sem það er hið hversdaglega hraun sem Kjarval fangaði eða Reykjavík sem Tómas Guðmundsson fangaði í ljóðum sínum eða umbúðirnar sem Warhol fangaði eða hvernig Ragna Róbertsdóttir fangar möl, grjót og salt.

Í garðinum hennar Önnu Rúnar má segja að hún fangi og afhjúpi það sem er innbyggt í öllum listaverkum og öllu efni. Hún fangar forgengileikann en sýnir okkar að hann er alls enginn forgengileiki, það er ekkert upphaf eða endir á neinu. Hún stýrir ferlinu þannig að við sjáum það og skynjum og hugsum um heiminn upp á nýtt. Allt okkar starf verður eyðingunni og umbreytingunni að bráð, vatnslitamynd sem fangar skóginn og fjallið hefur aðeins tekið sneiðmynd af tímanum, náð einum dropa í öllu ferlinu og fangað hann en að lokum mun málverkið gulna, skógurinn mun umbreytast og fjallið molna hægt vegna þess að dropinn holar steininn, spanskgrænan rennur niður andlit þjóðhetjunnar og mengunin tærir marmarastyttur heimsins, vegna þess að allt er alltaf eins og það á að vera.

Andri Snær Magnason


Ljósmyndir: Með leyfi listamanns.

Vefsíða: www.annaruntryggvadottir.net

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This