Hin fallna kona leikur frjáls í Vinabæ

26.05. 2018 | Uncategorized

Óperan La Traviata eignast nýtt líf í sýningunni Free Play, einskonar innsetningu á mörkum myndlistar, óperu og raftónlistar sem sett verður upp í Vinabæ og er aðeins um eina sýningu að ræða. Listrænir stjórnendur verksins eru Borghildur Indriðadóttir, Hrafnhildur Gissurardóttir og Hrafnhildur Árnadóttir sópran, sem jafnframt flytur hlutverk Víólettu á sviðinu. Í stað hljómsveitar skapar Sveinbjörn Thorarenssen, einnig þekktur sem Hermigervill, hljóðheim verksins í samstarfi við sópransöngkonuna. Blaðamaður artzine hitti á Hrafnhildarnar tvær og Sveinbjörn og ræddi verkið.

„Við vildum draga fram rafið, pönkið og nútímann sem felst í óperunni. Í sýningunni eiga sér snertiflöt myndlist, raftónlist og klassísk ópera og reynum við að gera þessum ólíku miðlum jafnhátt undir höfði,” segir Hrafnhildur Gissurardóttir. Úr varð lifandi innsetning, þar sem Hrafnhildur Árnadóttir syngur aríur Víólettu við draumkennda raftónlist. Leikmyndin er plastfyllt svið sem minnir á abstrakt vinnusvæði þar sem öll verkfæri innsetningarinnar eru sýnileg. Búningur Hrafnhildar, hannaður af Þórunni Maríu Jónsdóttur, er hugsaður sem nokkurskonar framhald af innsetningunni. Í upphafi er tilvísun í óperuna greinileg en sú tilvísun strípast af þegar líður á. Hópurinn að baki Free Play segir bingósalinn eiga margt sameiginlegt með fagurfræði David Lynch og Aki Kaurismäki og var salurinn sem verk leikstjóranna hópnum innblástur við gerð Free Play.

La Traviata er ein frægasta ópera Verdi, enda er hún samin af einstakri ástríðu og einlægni. Umfjöllunarefni óperunnar vakti þó mikla hneykslan þegar hún var fyrst flutt. Verkið fjallar um Víólettu, konu sem Hrafnhildur G. lýsir sem einangraðri og þjakaðri konu: „Hún upplifði mikla skömm, en var með hreint hjarta. La Traviata þýðir auðvitað „hin fallna kona“ upp á íslensku, og þegar verkið var frumflutt í Feneyjum á nítjöndu öld þótti verkið allt of syndsamlegt. Tónskáldið vildi að óperan ætti sér stað í samtíma hans, en það þótti höggva allt of nærri almenningi. “Verdi var óhræddur við að brjóta hefðir – hann var algjör pönkari.

Myndskeið og klipping: Saga Sig og Valgerður Árnadóttir

Í hugum flestra er óperan með hefðbundnari formum, en þó eru umdeildar jaðarpersónur oft miðpunktar óperanna. Sem dæmi má til viðbótar við Víólettu nefna persónu Carmen í samnefndu verki Bizet og Elektru í samnefndu verki Strauss. Ef til vill var óperan eini farvegur þess tíma til að raddir kvenna eins og þeirra fengju að heyrast.

Hrafnhildur Árnadóttir hefur ekki áður sungið hlutverk Víólettu, en segir það lengi hafa verið sitt draumahlutverk innan óperunnar. „Það er hvirfilbylur innra með Víólettu. Hún á margt sameiginlegt með nútímakonum að því leyti að hún er með þunga byrði að bera, hún glímir við veikindi og erfiðleika en setur upp grímu og lætur eins og allt sé í lagi. Einnig plagar hana óttinn við að vera ástfangin, kvilli sem líka plagar okkur nútímafólkið, bæði konur og karla. Ástin á að vera það stórkostlegasta sem til er en á sama tíma erum við skíthrædd við hana og reynum því mörg að forðast hana á ýmsan hátt, með djammi, glysi og glaumi.“ Sveinbjörn bætir við að í þessari uppsetningu fái Víóletta sviðið loks óáreitt: „Allt sem gerist á sviðinu er frá hennar sjónarhóli, þar sem hún flýtur á skýi óöryggis og óhamingju.“

Þó er hér ekki um staðfæringu á La Traviata að ræða, enda er sagan í takt við allt sem er að gerast í samfélagi okkar að við hana þarf engu að bæta, að mati hópsins. „Steríótýpan um hina föllnu og afvegaleiddu konu á enn þá við í dag.”segir Hrafnhildur G.

Þessi tragíski karakter kemur vel fram í hljóðheimi Sveinbjörns og Hrafnhildar. Þó að í klassískum uppsetningum á La Traviata sé mikið partý á sviðinu segir Sveinbjörn tónlistina sem hann hefur skapað enga partítónlist, enda sé tónlistin sköpuð út frá innri hugarheimi Víólettu. „í tónlistinni eru falin einkenni óperunnar sem brjótast svo fram á réttum tíma og nóg af skruðningum og óhljóðum í bland við kristalfegurð“, segir Sveinbjörn. Hann segir hafa verið áhugaverða reynslu að vinna í fyrsta sinn með óperusöngkonu: „Ég fékk algjört sjokk fyrst þegar við komum inn í stúdíó saman. Óperur eru auðvitað aldrei teknar upp í litlu rými heldur í óperuhúsum og inní lítilli stúdíókompu var hávaðinn ærandi! Um leið og hún byrjaði að syngja þurfti ég að grípa fyrir eyrun, og hún sprengdi náttúrulega alla skala á hljóðnemunum og allt það. En eftir þetta byrjunarsjokk gátum við farið að leika okkur með óperusönginn, og meðal annars að setja auto-tune á sönginn og allskonar skemmtilegt.“ Í sýningunni gefst áhorfendum því gullið tækifæri til að kynnast því sem Sveinbjörn veðjar á að verði næsta æði í poppheiminum: Óperusöngur með „auto-tune“.

Free Play hefur verið í vinnslu síðastliðið ár, en ferlið byrjaði með samtali þeirra Borghildar og Hrafnhildanna tveggja, en þær hafa allar sterka tengingu við óperuna á einn eða annan hátt. Þær eru nýfluttar frá Þýskalandi og Hollandi, löndum sem hafa lengi haldið merkjum óperunnar á lofti. Hrafnhildur G. segir frá sinni upplifun af óperuheiminum: „Ég starfaði sem sýningarstjóri í Amsterdam og bjó beint á móti óperuhúsinu þar. Ég var svo síðustu mánuði mína þar farin að fara reglulega í óperuna og pæla mikið í henni. Ég fór að fá leið á að sitja yfir myndlistarsýningum. Jafnvel þó ég væri að koma á framfæri ungum listamönnum sem mér fannst ótrúlega spennandi fannst mér eins og vantaði líf í sýningarnar eftir að þær voru opnaðar. Ég varð því spennt fyrir lifandi innsetningum og performansi, að geta sósað öllum formum saman.“

Það gera höfundarnir í hópnum svo sannarlega í Free Play en bakgrunnur þeirra spannar allt frá arkítektúr og sýningarstjórnun yfir í klassískan óperusöng. Þó fannst þremenningunum þær verða að fara út fyrir hið hefðbundna óperuhús til að ná þessum markmiðum sínum: „Ef þú tekur óperuna ekki úr sínu hefðbundna umhverfi verður hún alltaf glamúr. Til að geta yfirleitt séð óperu í Evrópu þarf maður yfirleitt að labba inn í eitthvað í líkingu við kastala, en við vildum berstrípa óperuna af þessum glamúr.“ Vinabær varð í framhaldinu fyrir valinu sem svið fyrir harmsögu Víólettu. „Fyrir utan það hversu heillandi bingósalur Vinabæjar er þá passar nafnið vel við einmanaleika Víólettu, en hún kallaði heimaborg sína París til dæmis „yfirfulla eyðimörk“.

Verkið verður aðeins sýnt í Vinabæ á laugardaginn klukkan 17, en hópurinn stefnir á að finna verkinu fleiri farvegi í framtíðinni. „Við komumst svo nýlega að því að Íslenska Óperan er að fara að setja þetta upp á næsta ári í Hörpu, sem er skemmtileg tilviljun. Svo það verður gaman fyrir óperuunnendur að bera verkin saman“ segir Hrafnhildur G að lokum.

Salvör Gullbrá Þórarindóttir


Staður: Vinabær, Skipholti 33, 105 Reykjavík.
Tími: 17.00. 

Miða á Free Play má nálgast á Tix.is.
Listrænir stjórnendur: Borghildur Indriðadóttir, Hrafnhildur Gissurardóttir og Hrafnhildur Árnadóttir.
Tónlist: Sveinbjörn Thorarensen, Hermigevill.
Búning Víólettu hannaði Þórunn María Jónsdóttir í samstarfi við listræna stjórnendur.
Hönnun eftir Petru Valdimarsdóttur.
Förðun: Ástrós Erla Benidiktsdóttir .
Ljósmyndir og upptökur eftir Sögu Sig. Aðalmynd með grein: skjáskot úr myndbandi eftir Sögu Sig.
Klipping var í höndum Valgerðar Árnadóttur.

Viðburðurinn á Facebook

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This