Viðreynsla marvaðans — listin á tímum glötunar sinnar

Viðreynsla marvaðans — listin á tímum glötunar sinnar

Viðreynsla marvaðans — listin á tímum glötunar sinnar

Þessa dagana gildir einu hvar maður í texta tekur niður, einatt rekur maður augun í áhyggjur fólks af andlegri líðan sinni. Og fólk er ekki fyrr búið að sefa sinn eigin ótta, að áhyggjur af líðan annars fólks verður allri sjálfsvorkunn yfirsterkari, og við tekur sárari tónn, jeremíur um að nú sé allt að fara til fjandans, og alveg sérstaklega börnin —ef þau eru ekki að fara til fjandans, þá eru þau að fara í hundana.

Sic transit gloria mundi.  Allt í heiminum fallvalt er. Heimur á hverfandi hveli. Árroðans ský var rósinfingraðri hér áður fyrr. Einmitt í þeim anda —að nú séu nýir tímar í nánd, og ég ætla mér að tortryggja þá!— einmitt í þeim anda ætla ég að skrifa þessar hugleiðingar, hér á þessum vettvangi sem hún Helga Óskarsdóttir hefur stofnað til.

Ég tileinka mér þessa tortryggni út frá þeirri vissu og því prinsípi, að söfnuðurinn sem fagnar samtímanum er einmitt sá hópur fólks sem er hvað mest íhaldssamur, og því verði maður, í nafni framfaranna, að horfa aftur fyrir sig með trega í hjarta og huga. Að veita því eftirtekt að gangur tímans … að hann, já, vissulega, gengur enn. Og með vissri eftirsjá. Að allt, já, er á hverfandi hveli. Spyrja sig svo: hvað næst? Því aðeins þeir sem geta afborið tregann, feigðarvonina, eru færir um að líta söguna öðrum augum en söfnuður samtímans: að við erum ekki nauðbeygð til þess að fylgja gangverki sögunnar eins og sigurverki klukkunnar.

Ekkert sem áður var —ekkert var óhjákvæmilegt. En allt sem áður var —allt er óafturkræft. Þessi þversögn fortíðarinnar, að hún sé hending og óbreytanleg í senn, er einmitt kenndin sem kveikir með manni angurværð, líkt og þegar maður stendur á svölunum á gamlárskvöldi og kveður gamla tíma og fagnar nýjum —eins sár og hún getur verið, þá er sú kennd einmitt forsenda þess frelsis að geta slitið sig úr samhengi samtímans, þess frelsis að geta litið samtíma sinn augum og spurt: Hvað er hending og hvað er lögmál? Hverju get ég breytt? Það er því í brjósti hins melankólíska manns sem maður finnur skærasta loga framfaravonar.


Nú föstudaginn 22. apríl 2016, þegar ég færi inn fyrstu færslu mína hér á artzine.is, getur að lesa umfjöllun tveggja dagblaða sem með einum eða öðrum hætti kemur inn á það sem ég nefndi í upphafi: áhyggjur okkar af andlegri líðan. Annars vegar birtist okkur umfjöllun Fréttatímans um stóraukið vandamál kvíðans á meðal stúlkna í grunnskólum landsins. Hins vegar birtist viðtal við Óttar Guðmundsson, geðlækni, sem hefur áhyggjur af allt of miklum áhyggjum okkar af andlegum áhyggjum.

Umfjöllun Fréttatímans staðfesti grunsemdir okkar, að umfram það sem við þegar vissum, þá sé það ekki aðeins áhyggjuefni hvað ungir karlmenn og menntskælingar aðhafast fyrir framan tölvuskjáin —félagsleg einangrun þeirra, klámnotkun, tölvuleikjafíkn, framtaksleysi— heldur virðist sem tæknibyltingar samtímans hafi engu síður slæm áhrif á stúlkur, og þá þegar þær eru enn yngri, enn á grunnskólaaldri, með auknum kvíða og þunglyndi, í töluvert meiri mæli en drengir —og það fer vaxandi með aukinni notkun samfélagsmiðla. Þeirri notkun netsins sem þær sjálfar sækja í. Oft á tíðum hefur sú hlið tölvubyltingarinnar —Facebook, twitter, félagsleg samskipti á netinu— verið talin jákvæð birtingarmynd internetsins, ef frá er talið hrelliklámið, á meðan tölvuleikir taldir vera háskalegri, og því tilhneiging, vegna kynjamismunar þar á, að telja notkun drengja vera meiri skaðvald. En vera má að öll notkun netsins sé háskaleg.

Eins og fyrr sagði: Sic transit gloria mundi. Þó ætla ég  ekki staldra lengi við þessar jeremíur hér. Því fókusinn minn verður annar.

Viðtalið við Óttar Guðmundsson, á hinn bóginn, staðfesti nefnilega hversu mjög okkur vantar listamenn og heimspekinga til þess að koma auga á meinsemdir samtímans. Það sem hinn ágæti læknir kemur nefnilega ekki auga á —þrátt fyrir diagnósuna: „að enginn megi lengur lenda í neinu“ —er etíólógía meinsemdarinnar; hann kemur ekki auga á hið sjálfsagða, á það sem er augljóst.

Það skilst ekki til fulls nema með orðum Marshall McLuhans: „The medium is the message.“

Sjálfsvera mannsins er að breytast sökum þess að miðill sjálfsins er að breytast. Þá munu vera vaxtaverkir. Og það mun vera háskalegt.

Þannig hef ég hugsað mér þessa pistla mína. Eins og áttavilltur læknir sem leitar á náðir listarinnar til þess að finna svör við spurningunni: Hvað er það sem amar að okkar samtíma. Ég mun alltaf ganga út frá að einhver sé sjúkur. Hér verður ekki talað um heilbrigði. Eða hamingju. Eða sátt. Aðeins um sjúkdóma. Og það hvernig listin kemur auga á sjúklinga.

Í næsta pistli míni mínum mun ég svo fjalla um þýska heimspekinginn og taugavísindamanninn Thomas Metzinger sem heldur því fram að við séum hægt og bítandi —inni í matríxi samfélagsmiðlanna— að glata ákveðinni sjálfskennd, eða í raun að glata ákveðinni tálsýn sjálfsins. Ákveðin tegund sjálfsvitundar mannsins er að glatast. Í staðinn, það sem koma skal, er ákveðið ástand vökudraumsins, hið ópersónulega ástand martraðarinnar, eins konar marvaði fyrir framan tölvuskjáinn.

Ný gerð af taugasjúkdómi er að verða til í heiminum, og það eru listamennirnir sem fyrstir munu koma auga á pödduna.

Nýársþanki

 

Þú, sem allt hugðir auðvelt,

afræktu heimsku slíka!

Og þú, sem vonleysið þjakar,

þyrftir að vitkast líka.

Það eitt gerir einmitt lífið

svo elskulegt og svo skrýtið,

að frágangssök er það ekki,

en erfitt meira en lítið.

(Piet Hein — Sjötíu smáljóð í þýðingu Helga Hálfdanarsonar)

Valur Brynjar Antonsson´

Sorgin er kát

Sorgin er kát

Mig langar að segja nokkur orð um ljóðabók Viðars Jónssonar Sikileiðina. Það má segja að hégómi liggi að baki þeirri ákvörðun minni að skrifa um þessa ljóðabók  Viðars.  Ég nefndi það strax við hann eftir að hafa lesið hana fyrst.

Ég hef gert nokkur uppköst og átt við hann samtöl.  Ég grunaði ekki að það væri svona erfitt að setja saman texta um það sem maður dáist að, satt best að segja lýsi ég mig sigraðan.  En ég ætla samt að koma einhverjum hugsunum á blað.  Það verður vonandi hvatning til þess að lesendur þessara orða fái sér ljóðabókina og lesi hana. Hún er einfaldasta og besta umsögnin um sjálfan sig.

Eins og ég nefndi hef ég engar forsendur til að skrifa um hana aðra en þá að ég dáist að henni.   Ég hef lesið hana margsinnis og sum ljóðanna hef ég lesið aftur og aftur.

En ég hef nefnt hégómann strax og það geri ég til að fella þann andstæðing. Ég er hégómlegur og það helgast af þeirri tilhneigingu að vilja hljóma gáfulega.

Þess vegna er Silkileiðin ögrandi,  því hún krefst ekki gáfu, hún bókstaflega afþakkar gáfuna.  Sikileiðin er gönguferð.

Árátta Viðars Jónssonar er sú að skapa ljóðinu eigið veðrahvolf og þyngdarsvið og heimur þessara mynda er samhverfa þeirrar venju að gefa fátækt ríkisfang í þriðja heiminum.   Þannig eru þessi brot af sögum skýrt afmörkuð vegna myndanna og þess sem þær spegla.  Þær eru alhæfingar en aðeins vegna skortsins,  þær eru kátar og glaðværar en það er vegna sorgarinnar.

Ég nefni hér gönguferð en þeirri ferð er ekki ætlaður áfangastaður, ekkert frekar en ferðin byrji á neinum tilteknum stað.  Ferð með hæfilegum slæpingjahætti er markmið en ekkert fer framhjá göngumanni nema því sé gefið nafn.

Silkileiðin er ekki einföld þó myndirnar séu skýrar. Ekkert sem þar kemur fram býður upp á sátt. Lýsingin er á einföldu máli sem virðist lestað af því sem gætin sögumaður sneyðir hjá.

Hann nefnir ekki óvættinn vegna hjátrúar heldur sérviskulegrar háttvísi.  Hann umgengst dauðann eins og sort af dýru ilmvatni eða fágæddri tegund af skrautblómi. Hann óttast ekki dauðann en virðir söfnunargildi hans eins og frímerkis. Hann nefnir ástina því hún er farin,  eða boðar komu sína en fer annað. Hann nefnir lækninn vegna þess að hann treystir sér ekki til að koma fyrir blásýruhylki ofan í jaxli.

Myndunum er oft raðað í kímna frásögn með undirtón þar sem ljóðskáldið lýsir sér sem áhugalausum jafnvel kaldhæðnum um eigin örlög.  Í öðrum ljóðum eru myndirnar límdar saman eins og dýrt postulín þar sem týnd brot eru staðgengin ódýrari efnum.

Persónan er sputnik, hún á ekki afturkvæmt úr þyngdarleysi og lofttæmi en breytir um stellingu í þröngri vistarverunni tilbreytingarinnar vegna.

Myndirnar sem birtast eru farnar en liggja þó efstar,  veðraðar og hreyfingarlausar. Það bil sem liggur á milli þessara mynda er sporbaugur ljóðanna samanlagður. ljóðin hafa langan umferðartíma og sum þeirra koma ekki aftur inn í þyngdarsvið hinnar kátu sorgar.

Upplausnarástandi er bægt frá með klaufshætti og orrustur sigrast vegna slembi.  Í ljóðunum eru öll plön í miðri frásögn þegar þau skera hvert annað og stöðvast á hengiflugi.

Þannig er heimurinn ljóðanna bæði láréttur og lóðréttur.  Það er eins og höfundurinn hafi fundið staði þar sem bæði saga og tími hafa hafa náð samkomulagi um að líta aldrei við. Ekki einu sinni móðirin lítur upp frá hannyrðum sem taka allan hennar tíma en bara í draumnum.

Frásögnin er eins og í setlögum,  sem gætu verið niðurstaða úr læknaskýrslu um ástand sjúklings.  Allt hefur verið reynt, sjúklingnum hrakar ekki en hann mun heldur ekki ná heilsu.  Þegar honum hefur tekist að hverfa af sjúkraskrám er hann bæði dauður og lifandi, en kennir sér ekki meins. Hann er ekki jarðaður en þó heyrist þegar moldin skellur á kistulokinu.

Ljóð Viðars bregða upp leiftrum úr sögu og tíðaranda sem flest okkar þekkja sem alast upp eftir seinni heimstyrjöldina.

Myndirnar virðast líða skort því þær leita oftast samsvörunar í einfaldari speglunum og eru allt frá því að vera hversdagsleg yfir í margbrotin uppgjör.

Það sem gerði Silkileiðina áhugaverða fyrir mig sem myndlistarmann var hvernig sumar myndirnar sem ljóðin birta voru hispurslausar á meðan aðrar voru vandlega sniðnar að gætinni frásögn. Ég les þessa bók oft til að stilla hugsanir mínar ef ég ætla mér að vinna skapandi vinnu.  Bókin fær mig til að slappa af og leyfa tímanum að líða hægt.

þokan

Ég vil að nóttin sé svört
þögnin svo djúp
að þegar hljóðin fljóta upp
séu þau eins og sjórekin lík

inni í sæþokunni
deyja þau svo út

en það kemur að því
að blásið sé í þokulúðurinn

Mjólk

Það er útilykt
af þvottinum
en það nægir ekki

náði ekki lengur andanum
þó allt væri svona hreint

adrenalínsprauta
í gegnum bringubeinið
dugði varla

en þó mýkist allt
smátt og smátt
eins og kringla
í óbrjótandi mjólkurglasi
eða tvíbaka

Ragnheiður Gestsdóttir – Tannpína / Toothache

Ragnheiður Gestsdóttir – Tannpína / Toothache

Ragnheiður Gestsdóttir – Tannpína / Toothache

Tannpína / Toothache

Ragnheiður Gestsdóttir gerir innsetningar, skúlptúra, ljósmyndir, vídjó og kvikmyndir. Í verkum sínum vinnur hún með þekkingarsköpun, valdakerfi og framtíðarþrá og það tungumál sem maðurinn notar til að vísa í þessi kerfi og hugmyndir. Í verkunum sameinast hið ljóðræna hinu fráleita og stundum má þar greina bakgrunn hennar í sjónrænni mannfræði. Ragnheiður lauk framhaldsnámi í myndlist frá Bard College í New York árið 2012 og í sjónrænni mannfræði frá Goldsmiths College í Lundum árið 2001.

Gjörninghátíð á Sigló

Gjörninghátíð á Sigló

Gjörninghátíð á Sigló

Föstudagurinn langi
25. 
mars 2016
Alþýðuhúsið á Siglufirði
Gjörningadagskrá
Sýningaropnun

Gjörninga fluttu:
Magnús Pálsson
Freyja Reynisdóttir og Brák Jónsdóttir
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir

Sýningaropnun:
Hulda Vilhjálmsdóttir

Þriðja árið í röð bauð Aðalheiður S. Eysteinsdóttir upp á gjörningadagskrá á föstudaginn langa í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Húsfyllir hefur verið öll árin og gaman að sjá þá fjölbreyttu flóru gesta sem sótt hafa hátíðina heim. Ég greip með mér tökuvélina og setti saman stutta heimildarmynd um viðburðinn í ár; einskonar vitnisburð um gefandi samveru og upplifun á einstökum stað.

Um listamenninga og verk þeirra

Magnús Pálsson flutti nýjan gjörning sem hann vann sérstaklega fyrir tilefnið. Verkið vann hann út frá lyklaborði ritvélarinnar og sló 6 manna teymi inn hjartsláttinn í verkinu. Aðrir flytjendur rödduðu hver sitt mynstur á lyklaborðinu með ákveðnu millibili. Niðurinn fyllti loftið og stigmagnaðist og í lokin fóru flytjendur út á meðal gesta sem einn af öðrum tók undir svo mögnuð stemming og samkennd myndaðist í rýminu. Það er ómetanlegt fyrir lítið samfélag út við ysta haf að fá beina upplifun af verkum Magnúsar sem á langan og farsælan feril að baki sem einn af okkar leiðandi listamönnum. Í gjörningum ríkti sá ferskleiki sem einkennir verk Magnúsar; maður verður ósjálfrátt hluti af einhverjum kitlandi galdri.

Freyja Reynisdóttir og Brák Jónsdóttir fluttu formsterkan gjörning við frumsamda tónlist Freyju. Þær hófu gjörningasamstarf á síðasta ári og fluttu meðal annars gjörning á A! Gjörningahátíð á Akureyri sem fjallaði um sameignlega reynslu og það hvernig samskipti þeirra hafa mótað samband þeirra og vináttu. Í Alþýðuhúsinu unnu þær áfram með þessa hugsun og fléttuðu sig saman þannig að upplifunin var sem um einn líkama væri að ræða. Þær náðu að skapa mikla spennu í loftið sem þær héldu til enda gjörningsins með markvissum hreyfingum, köðlum sem þær smám saman þræddu sig inn í, tónlist Freyju og bakgrunnsmynd sem var rétt á mörkum kyrrstöðu og hreyfingar. Þetta var kröftugur gjörningur og það verður spennandi að sjá hvert samstarf þeirra leiðir þær í framtíðinni.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir flutti gjörning þar sem hún greip til sagnahefðar íslendinga. Hún hefur fengist við gjörningaformið af og til í gegnum tíðina, oftast tengt skúlptúrsýningum sínum og innsetningum. Þar hefur hún blandað saman dansi og annarskonar tjáningu til að skapa umgjörð um konu. Hún hóf gjörninginn í Alþýðuhúsinu klædd í öll sín föt og meðan hún talaði til okkar týndi hún af sér spjarirnar þar til hún stóð eftir í rauðum kjól. Þeim sama tel ég og hún klæðist í fallegu dansmyndbandi sem var hluti af sýningu hennar Réttardagur í Listasafninu á Akureyri. Það var hversdagsleg stemming í gjörningum rétt eins og maður sæti við eldhúsborð með vini sem væri að segja ferðasögu. Yfirbragð hans einkenndist af ákveðnu látleysi sem snerti við manni eins og væri manni trúað fyrir einhverri sérstæðri reynslu viðmælandans.

Hulda Vilhjálmsdóttir opnaði málverkasýningu í Kompunni sem er lítið gallerí í Alþýðuhúsinu. Hulda útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2000 og býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Hulda hefur getið sér gott orð fyrir ljóðræn og oft á tíðum dularfull málverk þar sem hún fjallar um hugarástand menneskju á næman máta.
 Á leið inn í salinn þar sem gjörningarnir fóru fram ganga gestir í gegn um Kompuna og gáfu verk Huldu eins konar upptakt að því andrúmslofti sem skapaðist en sýning hennar mun standa í mánuð.

 Það er alltaf gott að koma í Alþýðuhúsið á Siglufirði og þakka ég Aðalheiði og hennar teymi fyrir mikla og góða andlega næringu. Ég hvet fólk til þess að leggja leið sína til Siglufjarðar á föstudaginn langa að ári, já eða hvenær sem er því það er alltaf eitthvað áhugavert í gangi í Alþýðuhúsinu og Siglufjörður skemmtilegur og lifandi bær.

Arna G. Valsdóttir


Upptaka og vinnsla á vídeói: Arna G. Valsdóttir

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Verk eftir svissneska listamanninn Adolf Wölfli (29.02.1864 – 06.11.1930)

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Á íslensku er ekki til yfirheiti sem lýsir þeirri list sem flokka má sem „outsider“ myndlist. Það er til dæmis talað um alþýðulist og naíva list, alþýðulistamenn og naívista líkt og Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur gerir í bók sinni ,,Einfarar í íslenskri myndlist‘‘  (Aðalsteinn Ingólfsson, 1989). Algengt yfirheiti á alþjóðlegum vettvangi um listsköpun jaðarhópa er „outsider art“.

Innan þeirrar skilgreiningar rúmast list fólks með þroskahömlun, einfara, alþýðulistamanna, naivista og fólks með geðsjúkdóma svo dæmi séu tekin. Í skilgreiningunni felst að listafólkið er í grundvallaratriðum ólíkt neytendum listarinnar miðað við þær forsendur sem settar eru í ríkjandi menningu (Rhodes, 2000).

Uppruna hugtaksins „outsider“ list má rekja til þýska geðlæknisins og listfræðingsins Hans Prinzhorn sem árið 1922 birti niðurstöður rannsóknar á verkum fólks með geðsjúkdóma sem vistað var á stofnunum. Í bókinni rannsakar hann mörkin á milli geðsjúkdóma og sköpunar sjúklinga geðsjúkrahúsa og er ein fyrsta tilraunin að því að greina listaverk sköpuð af fólki með geðsjúkdóma. Prinzhorn safnaði mörg þúsund listaverkum sem hann fann á hælum víðs vegar um Evrópu sem unnin voru af fólki sem vistað var á hælum og geðsjúkrahúsum og bjó oft við mikla einangrun (Prinzhorn, 1922/1972; Tansella, 2007; Rhodes, 2000).

Stuttu áður en Prinzhorn birti niðurstöður rannsóknar sinnar gaf læknirinn Walter Morgenthaler út fyrstu rannsóknina á verkum svissneska listamannsins Adolf Wölfli. Wölfli átti erfiða ævi og var vistaður, rétt rúmlega þrítugur, á svissnesku hæli þar sem Morgenthaler starfaði. Á hælinu vann hann ótal verk á 30 ára tímabili, innilokaður í klefa og útilokaður frá samfélaginu.

Verk þessi vöktu mikinn áhuga og höfðu áhrif inn í listheiminn og á verk listamanna eins og Jean Dubuffet og André Breton, sem kenndir eru við Dada og síðar súrrealisma. Innan þessara stefna er mikill áhugi á því ósjálfráða, sjálfsprottna og draumkennda, þættir sem þykja gjarnan hvað merkilegastir í verkum „outsider“ listafólks (Tansella, 2007). Breton skrifaði og gaf út stefnuyfirlýsingu súrrealismans árið 1924, í henni skilgreinir hann súrrealisma á eftirfarandi hátt:

Skrásetningu hugsunarinnar án nokkurrar stjórnar af hálfu skynseminnar, laus við allar fagurfræðilegar og siðferðilegar hugleiðingar (Breton, 2001, bls. 420).

Árið 1948 varð til formlegur félagsskapur listamanna sem leiddur var m.a. af franska listamanninum Jean Dubuffet, sem fór markvisst á milli geðsjúkrahæla í Evrópu og safnaði verkum eftir fólk sem vistað var á hælunum. Í þeim félagsskap sameinuðu nokkrir listamenn söfn af verkum sem þeir höfðu safnað eftir fólk á jaðri samfélagsins og settu sér það markmið að finna og safna verkum eftir jaðarlistamenn. Yfirheiti félagsskaparins var Art Brut sem á ensku útleggst sem ,,Raw art“ eða hrá list. Listamennirnir söfnuðu verkum sem voru gerð af fólki sem var utan almenna listheimsins, fólki sem var ólært og samkvæmt þeirra bestu vitund ómeðvitað um listasenuna og listaverk annarra. Dubuffet lagði merkingu ,,art brut“ upp þannig að hún væri list sem væri ósnortin af menningu og utanaðkomandi áhrifum. Þarna væri um að ræða list sem væri hrein, sköpuð eingöngu af innri þörf listamannsins án þess að taka tillit til þess að verkin yrðu sýnd né í hvaða samhengi þau yrðu sýnd eða hvort viðkomandi gæti orðið frægur eða grætt á listsköpuninni. Þessi markvissa söfnun varð að formlegu safni árið 1979, Collection de l’Art Brut museum í Lausanne í Sviss og var fyrsti safnstjórinn Michel Thévos (Rhodes, 2000).

Það var svo árið 1972 sem breski prófessorinn Roger Cardinal, við háskólann í Kent, kynnti til sögunnar hugtakið „outsider art“ sem þýðingu á heitinu ,,art brut‘‘ þegar hann birti niðurstöður rannsóknar um „outsider art“ (Cardinal, 2000). Það hugtak hefur fest sig í sessi sem yfirheiti yfir list jaðarhópa og felur í sér breiðari skilgreiningu en ,,raw art“ skilgreiningin gerði og gerir. Þó að Cardinal hafi ætlast til að hugtakið næði yfir sömu viðfangsefni og ,,art brut“ þá öðlaðist hugtakið sjálfstætt líf og mun breiðari tilvísun (Tansella, 2007). Fyrsti sýningarstjóri safnsins í Lausanne, Michel Thévoz, mótaði þessa skilgreiningu á ,,art brut“ og „outsider“ list til aðgreiningar frá naívri list sem hann taldi að ætti sér sterkari tengsl við tíðarandann í listum og menningu. Thévoz segir ,,art brut“ og ,,outsider“ list samanstanda af verkum sem gerð eru af fólki sem af margvíslegum ástæðum hefur ekki verið menningarlega innrætt eða félagslega skilyrt. Fólki sem dvelur á jaðri samfélagsins og vinnur utan fagurlista (e. fine art) kerfisins (skóla, sýningarstaða/gallería, safna o.s.frv.) og skapar frá rótum eigin persónuleika, fyrir sjálft sig og engan annan, verk sem fela í sér framúrskarandi frumleika í inntaki, viðfangsefnum og tækni. Þetta eru verk sem standa algerlega óháð hefð eða tísku (Thévoz, 1976). Skilgreining Thévoz lýsir þeim skilningi sem lagður er í hugtakið ,,art brut“ á meginlandi Evrópu annars vegar og hins vegar í Bandaríkjunum og víðar þar sem hugtakið ,,outsider art“ er regnhlífarheiti yfir jaðarlist af ýmsum toga.

Margrét M. Norðdahl

Heimildir:

Aðalsteinn Ingólfsson. (1989). Naive and fantastic art in Iceland. Reykjavík: Iceland Review.

Breton, A. (2001). Stefnuyfirlýsing Súrrealismans, (Benedikt Hjartarson þýddi). Í Vilhjálmur Árnason (ritstj.), Yfirlýsingar: Evrópska framúrstefnan (bls. 420). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Cardinal, R. (1972). Outsider art. London: Studio Vista.

Prinzhorn, H. (1972). The artistry of the insane (Eric von Brockdorff  þýddi). New York: Springer Science + Business Media.

Rhodes, C. (2000). Outsider art, spontaneous alternatives. Thames & Hudson: London

Tansella, C. (2007) The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective. Epidemiologia e Psichiatria Sociale, 16 (2), bls. 133-138 Sótt af http://www.psychiatry.univr.it/page_eps/docs/2007_2_Tansella_Carole.pdf

Thévoz, Michel (1976). Art Brut. Geneva: Editions d´Art Albert Skira. Bls 9-10.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest