Gjörninghátíð á Sigló

21.04. 2016 | Umfjöllun, Video

Föstudagurinn langi
25. 
mars 2016
Alþýðuhúsið á Siglufirði
Gjörningadagskrá
Sýningaropnun

Gjörninga fluttu:
Magnús Pálsson
Freyja Reynisdóttir og Brák Jónsdóttir
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir

Sýningaropnun:
Hulda Vilhjálmsdóttir

Þriðja árið í röð bauð Aðalheiður S. Eysteinsdóttir upp á gjörningadagskrá á föstudaginn langa í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Húsfyllir hefur verið öll árin og gaman að sjá þá fjölbreyttu flóru gesta sem sótt hafa hátíðina heim. Ég greip með mér tökuvélina og setti saman stutta heimildarmynd um viðburðinn í ár; einskonar vitnisburð um gefandi samveru og upplifun á einstökum stað.

Um listamenninga og verk þeirra

Magnús Pálsson flutti nýjan gjörning sem hann vann sérstaklega fyrir tilefnið. Verkið vann hann út frá lyklaborði ritvélarinnar og sló 6 manna teymi inn hjartsláttinn í verkinu. Aðrir flytjendur rödduðu hver sitt mynstur á lyklaborðinu með ákveðnu millibili. Niðurinn fyllti loftið og stigmagnaðist og í lokin fóru flytjendur út á meðal gesta sem einn af öðrum tók undir svo mögnuð stemming og samkennd myndaðist í rýminu. Það er ómetanlegt fyrir lítið samfélag út við ysta haf að fá beina upplifun af verkum Magnúsar sem á langan og farsælan feril að baki sem einn af okkar leiðandi listamönnum. Í gjörningum ríkti sá ferskleiki sem einkennir verk Magnúsar; maður verður ósjálfrátt hluti af einhverjum kitlandi galdri.

Freyja Reynisdóttir og Brák Jónsdóttir fluttu formsterkan gjörning við frumsamda tónlist Freyju. Þær hófu gjörningasamstarf á síðasta ári og fluttu meðal annars gjörning á A! Gjörningahátíð á Akureyri sem fjallaði um sameignlega reynslu og það hvernig samskipti þeirra hafa mótað samband þeirra og vináttu. Í Alþýðuhúsinu unnu þær áfram með þessa hugsun og fléttuðu sig saman þannig að upplifunin var sem um einn líkama væri að ræða. Þær náðu að skapa mikla spennu í loftið sem þær héldu til enda gjörningsins með markvissum hreyfingum, köðlum sem þær smám saman þræddu sig inn í, tónlist Freyju og bakgrunnsmynd sem var rétt á mörkum kyrrstöðu og hreyfingar. Þetta var kröftugur gjörningur og það verður spennandi að sjá hvert samstarf þeirra leiðir þær í framtíðinni.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir flutti gjörning þar sem hún greip til sagnahefðar íslendinga. Hún hefur fengist við gjörningaformið af og til í gegnum tíðina, oftast tengt skúlptúrsýningum sínum og innsetningum. Þar hefur hún blandað saman dansi og annarskonar tjáningu til að skapa umgjörð um konu. Hún hóf gjörninginn í Alþýðuhúsinu klædd í öll sín föt og meðan hún talaði til okkar týndi hún af sér spjarirnar þar til hún stóð eftir í rauðum kjól. Þeim sama tel ég og hún klæðist í fallegu dansmyndbandi sem var hluti af sýningu hennar Réttardagur í Listasafninu á Akureyri. Það var hversdagsleg stemming í gjörningum rétt eins og maður sæti við eldhúsborð með vini sem væri að segja ferðasögu. Yfirbragð hans einkenndist af ákveðnu látleysi sem snerti við manni eins og væri manni trúað fyrir einhverri sérstæðri reynslu viðmælandans.

Hulda Vilhjálmsdóttir opnaði málverkasýningu í Kompunni sem er lítið gallerí í Alþýðuhúsinu. Hulda útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2000 og býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Hulda hefur getið sér gott orð fyrir ljóðræn og oft á tíðum dularfull málverk þar sem hún fjallar um hugarástand menneskju á næman máta.
 Á leið inn í salinn þar sem gjörningarnir fóru fram ganga gestir í gegn um Kompuna og gáfu verk Huldu eins konar upptakt að því andrúmslofti sem skapaðist en sýning hennar mun standa í mánuð.

 Það er alltaf gott að koma í Alþýðuhúsið á Siglufirði og þakka ég Aðalheiði og hennar teymi fyrir mikla og góða andlega næringu. Ég hvet fólk til þess að leggja leið sína til Siglufjarðar á föstudaginn langa að ári, já eða hvenær sem er því það er alltaf eitthvað áhugavert í gangi í Alþýðuhúsinu og Siglufjörður skemmtilegur og lifandi bær.

Arna G. Valsdóttir


Upptaka og vinnsla á vídeói: Arna G. Valsdóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This