Mörgu tjaldað til

Mörgu tjaldað til

Mörgu tjaldað til

Sumarsýning Hafnarborgar í ár gegnir tvíþættu hlutverki. Annarsvegar er fagnað 35 ára stofnafmæli og hinsvegar 30 ára vígsluafmæli þessarar mikilvægu lista og menningarstofnunar Hafnfirðinga. Saga safnsins er kunnari en frá þurfi að segja en vert er að rifja hana upp hér í krafti þess að aldrei verða góðar sögur of oft sagðar; einkum þær sem tengjast menningarlífi borga og bæja. En það voru semsagt Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon sem gáfu Hafnarfjarðarbæ hús sitt og myndlistarsafn árið 1983. Eftir gagngerar endurbætur á húsinu var Hafnarborg tekin í notkun sem menningar- og listamamiðstöð árið 1988 og hefur síðan hýst fjölda myndlistarsýninga auk þess sem safnið hefur gefið út veglegar sýningarskrár í áranna rás.

Titill sýningarinnar, Hafnarborg 35/30 Afmælissýning  er yfirlætislaus og lýsir tilefninu afar vel. Allir sýningarými hússins er  vel nýtt og á það jafnt við um Sverrissal, aðal salinn á annarri hæð og þrjú afherbergi innaf stóra salnum. Húsið ólgar og iðar af list hvort sem litið er á gólf, veggi eða uppí rjáfur.

Í Sverrissal eru ný aðföng og bera verkin vott um vel heppnað val þar sem pólitísk vísun til flóttafólks og hælisleitenda kemur fram í verki Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur Ständchen (Serenade) frá 2017 og var það hluti stórrar innsetningar hennar í Hafnarborg á síðasta ári. Sá hluti innsetningarinnar sem sýndur er í tilefni afmælisins samanstendur af 23 ljósmyndum af smávöxnum farfuglum sem eiga sér meira en eitt heimaland. Einnig er þarna afar skemmtilegt geómetrískt málverk, Án titils eftir Valtý Pétursson málað einhverntíma á árunum 1950-1959. Verkið sem kom í hlut Hafnarborgar þegar nokkrum listasöfnum var boðið að velja verk úr dánarbúi Valtýs er talsvert ólíkt þeim verkum sem voru á minningarsýningu um Valtý í Listasafni Íslands sem lauk í mars árið 2017. Verkið bregður óvæntu ljósi á listamann sem flakkaði hiklaust milli stíla og litasamsetninga á ferli sínum. Annað eftirminnilegt verk er vatnslitamyndin Fermdur frá 2015 eftir Siggu Björgu Sigurðardóttur sem hélt eftirminnilega sýningu á ógeðfeldum og hrollvekjandi furðudýrum í salnum árið 2017. Það var sýning sem var mér viðlíka opinberun og þegar ég sá blekteikningar Alfreðs Flóka fyrsta sinn í Bogasal Þjóðminjasafnsins á 7. áratug 20. aldarinnar.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, Ständchen (Serenade) frá 2917.

Valtýr Pétursson, Án titils 1950-1959.

Sigga Björg Sigurðardóttir, Fermdur 2015.

Þegar á efri hæðina kom brást það ekki að augun leituðu til vinstri sem gerist iðulega þegar gengið er inní sýningarsali, jafnvel þó ágæt verk kunni að blasa við beint af augum. Á endaveggnum var þéttur hópur mynda af frammámönnum á óræðum aldri og eru öll málverkin eftir karla. Það má því segja að feðraveldið hafi átt salinn með öllu sínu mikla og karlmannlega aðdráttarafli. Það var ekki fyrr en komið var upp að veggnum að í ljós kom að þar var mynd af Ingibjörgu eftir Eirík Smith frá 1988 auk tveggja málverka af Sverri. Staðsetningin á Ingibjörgu í jaðri hópsins leiðir hugann ósjálfrátt að jaðarstöðu kvenna í karlaheimi auk þess að gera hana svolítið einmana.  Það hverflaði að undirritaðri að betur hefði farið um Ingibjörgu innanum konurnar á suðurveggnum en þar fjölluðu öll málverkin um staðalmyndir af heimi kvenna og voru öll verkin eftir konur nema eitt, Ung stúlka 1928-30 eftir Jón Engilberts. En staðsetning og val á verkum í þessa heima karla og kvenna er auðvitað bundin þeirri kynjapólitísku afstöðu sem sýningarstjórarnir Ágústa Kristófersdóttir og Unnar Örn Auðarson vilja ná fram með innsetningu sinni.

Frammámenn og ein kona.

Það virðist lögð mikil áhersla á að karla og kvennamyndirnar séu átakalínur sýningarinnar og má það til sanns vegar færa því þar eru ærin efni til umhugsunar um viðvarandi kynjatvíhyggju. Fjórði lykilhluti sýningarinnar er ekki síður athyglisverður en það eru málverk frá Hafnarfirði, tvö panorama verk frá fyrri hluta 20. aldar og nokkur fjöldi smærri málverka af húsum t.d. áhugaverð verk eftir Nínu Tryggvadóttur og Gunnlaug Scheving auk myndar af bátalægi eftir Gretu Björnsson, eina yfirlitsmyndin frá Hafnarfirði þar sem manneskju bregður fyrir. Af þessum myndum mætti ráða að hús hafi meira vægi en fólk í hugum málara sem leitað hafa myndefnis í bænum.

Hafnarfjörður fyrr á tímum. Til vinstri , frá hafnarfirði, 1938 eftir Jón Hróbjartsson. Myndin til hægri er eftir óþekktan höfund.

Frá Hafnarfirði, 1939 eftir Nínu Tryggvadóttur.

Gunnlaugur Scheving.

Gréta Björnsson.

Þegar ofangreindum megin þemum sleppir er gestum boðið að skoða fjölbreytt safn málverka og grafíkur eftir margt helsta listafólk þjóðarinnar. Þessi verk eru í aðalsal Hafnarborgar og í þremur herbergjum innaf salnum. Í aðal salnum má nefna verk eftir Sigurlaugu Jónsdóttur, Sverri Haraldsson, Sigríði Björnsdóttur og Arnar Herbertsson auk tréskúlptura eftir Sæmund Valdimarsson og steinskúlptúr eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli. Að ganga á milli herbergjanna er líkt og að fara um snoturt einkaheimili þar sem eigendurnir hafa komið sér upp vönduðu einkasafni verka eftir helstu málara módernismans á Íslandi. Það virðist hinsvegar vera tilviljun hvaða verk og hvaða  listafólk lendir saman. En í herbergjunum eru meðal annars málverk, grafík og teikningar eftir Kjarval, Kristján Davíðsson, Kristínu Jónsdóttur, Júlíönu Sveinsdóttur, Eirík Smith, og Elías B, Halldórsson.

Frá vinstri. Staða,1988, Sóley Eiríksdóttur; Karen Agnete Þórarinsson, Frá Gaulöndum, 1930; Ung Stúlka, 1928-30 eftir Engilberts; Morgunstund í grænum dúr 1972, Temma Bell; Louisa Matt. Temma í Maju slopp.

Heildar yfirbragð sýningarinnar er því fremur losaralegt og engu líkara en gestir séu staddir á mörgum sýningum. Það hefði að mínu mati mátt gera betur með nákvæmari þemaskiptingu þar sem t.d. fólki og átakalínum milli kynja væru gerð gleggri skil. Annar möguleiki væri að veita innsýn í sögu Hafnarfjarðar með hjálp myndlistar eða leggja áherslu á óhlutbundn verk í eigu safnsins. Safnið á núna 1500 verk þannig að úr nokkru hlýtur að vera að moða til að setja saman heildstæða sýningu. Afmælissýningin ber merki þess að tilviljun og viðleitni til að hafa úrval verka sem mest hafi ráðið för við innsetningu sýningarinnar fremur en að um sé að ræða útpælda þematengda nýtingu á verkum í eigu safnsins.

Sýningin er opin til 26. ágúst.

Ynda Gestsson


Ljósmyndir birtar með leyfi Hafnarborgar.

Gerðu það!

Gerðu það!

Sýningaröðin Meðvirkni hefst á samsýningu Ásgerðar Birnu Björnsdóttur og Gylfa Freeland Sigurðssonar í Harbinger, Freyjugötu 1. Samstarfið nefna þau Gerðu það! en opnunin verður á þjóðhátíðardaginn sjálfan, þann 17 júní kl 17:00.

Meðvirkni er samsýning undir margföldunaráhrifum sem ætlar sér að þenja út sýningaformið og ljá því tilfinningalega spennu. Sýnendum fjölgar eftir því sem líður á sýningartímann, þar sem listamennirnir vinna eftir ströngu kerfi; efnistök eru frjáls en samfélagskvaðirnar miklar.

verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði

Sorgin er kát

Sorgin er kát

Mig langar að segja nokkur orð um ljóðabók Viðars Jónssonar Sikileiðina. Það má segja að hégómi liggi að baki þeirri ákvörðun minni að skrifa um þessa ljóðabók  Viðars.  Ég nefndi það strax við hann eftir að hafa lesið hana fyrst.

Ég hef gert nokkur uppköst og átt við hann samtöl.  Ég grunaði ekki að það væri svona erfitt að setja saman texta um það sem maður dáist að, satt best að segja lýsi ég mig sigraðan.  En ég ætla samt að koma einhverjum hugsunum á blað.  Það verður vonandi hvatning til þess að lesendur þessara orða fái sér ljóðabókina og lesi hana. Hún er einfaldasta og besta umsögnin um sjálfan sig.

Eins og ég nefndi hef ég engar forsendur til að skrifa um hana aðra en þá að ég dáist að henni.   Ég hef lesið hana margsinnis og sum ljóðanna hef ég lesið aftur og aftur.

En ég hef nefnt hégómann strax og það geri ég til að fella þann andstæðing. Ég er hégómlegur og það helgast af þeirri tilhneigingu að vilja hljóma gáfulega.

Þess vegna er Silkileiðin ögrandi,  því hún krefst ekki gáfu, hún bókstaflega afþakkar gáfuna.  Sikileiðin er gönguferð.

Árátta Viðars Jónssonar er sú að skapa ljóðinu eigið veðrahvolf og þyngdarsvið og heimur þessara mynda er samhverfa þeirrar venju að gefa fátækt ríkisfang í þriðja heiminum.   Þannig eru þessi brot af sögum skýrt afmörkuð vegna myndanna og þess sem þær spegla.  Þær eru alhæfingar en aðeins vegna skortsins,  þær eru kátar og glaðværar en það er vegna sorgarinnar.

Ég nefni hér gönguferð en þeirri ferð er ekki ætlaður áfangastaður, ekkert frekar en ferðin byrji á neinum tilteknum stað.  Ferð með hæfilegum slæpingjahætti er markmið en ekkert fer framhjá göngumanni nema því sé gefið nafn.

Silkileiðin er ekki einföld þó myndirnar séu skýrar. Ekkert sem þar kemur fram býður upp á sátt. Lýsingin er á einföldu máli sem virðist lestað af því sem gætin sögumaður sneyðir hjá.

Hann nefnir ekki óvættinn vegna hjátrúar heldur sérviskulegrar háttvísi.  Hann umgengst dauðann eins og sort af dýru ilmvatni eða fágæddri tegund af skrautblómi. Hann óttast ekki dauðann en virðir söfnunargildi hans eins og frímerkis. Hann nefnir ástina því hún er farin,  eða boðar komu sína en fer annað. Hann nefnir lækninn vegna þess að hann treystir sér ekki til að koma fyrir blásýruhylki ofan í jaxli.

Myndunum er oft raðað í kímna frásögn með undirtón þar sem ljóðskáldið lýsir sér sem áhugalausum jafnvel kaldhæðnum um eigin örlög.  Í öðrum ljóðum eru myndirnar límdar saman eins og dýrt postulín þar sem týnd brot eru staðgengin ódýrari efnum.

Persónan er sputnik, hún á ekki afturkvæmt úr þyngdarleysi og lofttæmi en breytir um stellingu í þröngri vistarverunni tilbreytingarinnar vegna.

Myndirnar sem birtast eru farnar en liggja þó efstar,  veðraðar og hreyfingarlausar. Það bil sem liggur á milli þessara mynda er sporbaugur ljóðanna samanlagður. ljóðin hafa langan umferðartíma og sum þeirra koma ekki aftur inn í þyngdarsvið hinnar kátu sorgar.

Upplausnarástandi er bægt frá með klaufshætti og orrustur sigrast vegna slembi.  Í ljóðunum eru öll plön í miðri frásögn þegar þau skera hvert annað og stöðvast á hengiflugi.

Þannig er heimurinn ljóðanna bæði láréttur og lóðréttur.  Það er eins og höfundurinn hafi fundið staði þar sem bæði saga og tími hafa hafa náð samkomulagi um að líta aldrei við. Ekki einu sinni móðirin lítur upp frá hannyrðum sem taka allan hennar tíma en bara í draumnum.

Frásögnin er eins og í setlögum,  sem gætu verið niðurstaða úr læknaskýrslu um ástand sjúklings.  Allt hefur verið reynt, sjúklingnum hrakar ekki en hann mun heldur ekki ná heilsu.  Þegar honum hefur tekist að hverfa af sjúkraskrám er hann bæði dauður og lifandi, en kennir sér ekki meins. Hann er ekki jarðaður en þó heyrist þegar moldin skellur á kistulokinu.

Ljóð Viðars bregða upp leiftrum úr sögu og tíðaranda sem flest okkar þekkja sem alast upp eftir seinni heimstyrjöldina.

Myndirnar virðast líða skort því þær leita oftast samsvörunar í einfaldari speglunum og eru allt frá því að vera hversdagsleg yfir í margbrotin uppgjör.

Það sem gerði Silkileiðina áhugaverða fyrir mig sem myndlistarmann var hvernig sumar myndirnar sem ljóðin birta voru hispurslausar á meðan aðrar voru vandlega sniðnar að gætinni frásögn. Ég les þessa bók oft til að stilla hugsanir mínar ef ég ætla mér að vinna skapandi vinnu.  Bókin fær mig til að slappa af og leyfa tímanum að líða hægt.

þokan

Ég vil að nóttin sé svört
þögnin svo djúp
að þegar hljóðin fljóta upp
séu þau eins og sjórekin lík

inni í sæþokunni
deyja þau svo út

en það kemur að því
að blásið sé í þokulúðurinn

Mjólk

Það er útilykt
af þvottinum
en það nægir ekki

náði ekki lengur andanum
þó allt væri svona hreint

adrenalínsprauta
í gegnum bringubeinið
dugði varla

en þó mýkist allt
smátt og smátt
eins og kringla
í óbrjótandi mjólkurglasi
eða tvíbaka

Fjarsamband / Ljóðabók Auðar Ómarsdóttur

Fjarsamband / Ljóðabók Auðar Ómarsdóttur

Fjarsamband / Ljóðabók Auðar Ómarsdóttur

F j a r s a m b a n d // Co nt ra ct io ns er fyrsta ljóðabók Auðar Ómarsdóttur sem nýverið kom út.

Bókin er tvískipt, annars vegar skrifar Auður ljóðin út frá umhverfi sínu, lætur aðra og annað skrifa fyrir sig ljóðin, F j a r s a m b a n d. Þar er hægt að tengja vinnubrögð Auðar við Súrrealistana sem unnu ósjálfrátt, eða reyndu að losna sig við fjötra meðvitundarinnar í sköpun. Auður reynir að stjórna ekki ferðinni með eigin meðvitund heldur leyfir ljóðunum að koma til sín. 

Seinni parturinn, Co nt ra ct io ns, er allur kominn frá innri upplifunum, ástarævintýrum, sálarkrísum og persónulegum hugleiðingum. 

Bókin er undir sterkum áhrifum leikhússins en hún er mest öll skrifuð á tímabili þar sem höfundur stundaði fræðilegt leikhúsnám. Hún er skrifuð bæði á ensku og íslensku og skartar einnig teikningum eftir Auði sem eru ósjálfráðar teikningar í anda ljóðanna. 

„Er þessi stúlka ofviti? Bókin er eins og hennar fimmta en ekki fyrsta.“

– Megas

„Ísland hefur eignast sína Tracy Emin“
– Snorri Ásmundsson  

„Þú ert mega steik Auður, ég er hættur með þér“
– Gunnar Nelson

„Borar bros í fés og göt í gagnaugu.“
– Eiríkur Örn Norðdahl

Amazing“
– Anna Maggý

Bókin fæst í Mál & Menningu á Laugavegi.

SAKMINJASAFNIÐ // EKKISENS

SAKMINJASAFNIÐ // EKKISENS

Það er Ekkisens heiður að kynna SAKMINJASAFNIÐ (1stu sýningu) sem opnar næstkomandi laugardag 19. mars kl. 17:00. Sýningasóknari Sakminjasafnsins er skáldið og slitamaðurinn Snorri Páll (Jónsson Úlfhildarson)

settu öll þessi brot
saman ef viltu finna
það sem engum reynist þó hollt
né hamingjudrjúgt að sinna
en sjáirðu hvert stefnir hvar
þarftu síður að kvíða
við vorum öll þarna hvert og eitt
þetta kvöld á dráttarbrautinni
hvað sem það átti að þýða
— Megas

SAKMINJASAFNIÐ er ótímabundið verkefni sem sett var á fót árið 2015. Safnið hefur í það minnsta þríþættan tilgang og tilverugrundvöll: 1.) söfnun, sköpun, varðveislu, greiningu, útgáfu og sýningu sakminja; 2.) endurskilgreiningu, opnun og útvíkkun á merkingu orðsins sakminjar; 3.) aktíft viðnám við allt að því algjörri einokun ríkisvaldsins á þeim gjörðum sem taldir eru upp í fyrsta liðnum. Safnið á sér ekkert varanlegt sýningarrými og mun forsprakki þess og sýningasóknari (e. prosecurator) því opna lítil og tímabundin útibú hér og þar og annarstaðar — óreglulega fremur en reglulega.

Fyrsta sýning safnsins vex upp úr niðursettu rifbeini sígildrar grýlu: sakamáls sem kennt er við tvo horfna Einarssyni — þá Guðmund og Geirfinn. Um er að ræða huglæga jafnt sem efnislega mósaíkmynd af lauslega afmörkuðum en um leið nátengdum flötum málsins. Innan rammans mætast meðal annars leirhausinn margfrægi (og margframleiddi?) sem öðlaðist sjálfstætt líf og síðar meir sérstakan heiðursess í sakvitund martraðaþjakaðrar þjóðar; urðarmáninn í vélinni sem flaug inn á sviðið fyrir tilstilli krana, hnýtti hitt og hnoðaði þetta, lét sig svo skrauthverfa lóðrétt niður skíðahlíðar orðaskortsins; maðurinn í lakinu, lekandinn í minninu, léreftsvafðar minjarnar í vörðum kjöllurum laganna; minningar sem filmubrot, ljósmyndir sem gaddavír, gróðursömpl sem sönnunargögn, og fangelsaðar setningar sem ævarandi mónúment um ægifegurð fáránleikans.

Snorri Páll (Jónsson Úlfhildason) er skáld og slitamaður, fæddur í Reykjavík árið 1987 á níunda síðasta sjónvarpslausa fimmtudeginum. Fyrsta ljóðabók hans, LENGIST Í TAUMNUM, kom út árið 2014. Sama ár stóð hann ásamt Steinunni Gunnlaugsdóttur að halarófu sýninga og atburða undir nafninu EF TIL VILL SEK þar sem þau sýndu myndbandsverk, gjörninga og skúlptúra víðsvega í Reykjavík. Síðustu misserin hefur hann einna helst ástundað fuglaframleiðslu, logsuðukveðskap og malbiksfléttun

Kvartett Chantal, Joffe Gauthier, Hubert Jockum Notdström, Tumi Magnússon í Listasafni Íslands

Kvartett Chantal, Joffe Gauthier, Hubert Jockum Notdström, Tumi Magnússon í Listasafni Íslands

15.1.2016 – 1.5.2016, Listasafn Íslands

Listasafn Íslands hefur sýningadagskrá sína á nýju ári með sýningu fjögurra samtímalistamanna, þeirra Gauthiers Hubert (1967), Chantal Joffe (1969), Jockums Nordström (1963) og Tuma Magnússonar (1957). Öll vinna þau með sjálfan manninn í brennidepli. Framsetning verka þeirra snýst um listmiðilinn og sögu hans að fornu og nýju og þau ganga út frá ákveðnum sögulegum forsendum en með afar ólíkum hætti.

Gauthier Hubert tekur hugmyndlæga afstöðu til málverksins og spretta verk hans af sagnfræðilegum atvikum sem bregða skýru ljósi á starf og hugarheim listamannsins í fortíð og nútíð. (Viðtal við Gauthier Hubert)

Chantal Joffe gengur gjarnan út frá sjálfri sér, sínu nánasta umhverfi. Verk hennar eru í senn nærgætin, innileg og nærgöngul. (Viðtal við Chantal Joffe þar sem hún ræðir um verk sín)

Jockum Nordström teiknar, klippir og límir upp barnslegar myndir af samfélagi eins og það birtist okkur gjarnan í sögulegum sápuóperum um húsbændur og hjú. Undir liggur þó sori og siðleysi. (Viðtal við Jockum Norrdström)

Teygðar og afmyndaðar myndir Tuma Magnússonar af líkamspörtum og hauskúpum eru nær beinar tilvísanir í myndmál sem hrekkjóttir meistarar á 16. öld beittu gegn hugmyndaþurrð samtíðarinnar. (Viðtal við Tuma Magnússon)

NÁNAR UM SÝNINGUNA

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest