Sláturhúsið Menningarsetur á Egilsstöðum

Sláturhúsið Menningarsetur á Egilsstöðum

Sláturhúsið Menningarsetur á Egilsstöðum

Menningarhúsið á Egilsstöðum heitir Sláturhúsið, Menningarasetur. Það er ekki tilvísun í Vonnegut eða tilraun til frumleika heldur einfaldlega vegna þess að húsið var nýtt sem Sláturhús og kjötvinnsla á árunum 1958 -2003. Það er heilmikil saga í húsinu sem má lesa í strúktúr þess og rýmaskipan. Einu sinni var hægt að lesa í lyktina þegar enn örlaði á reyklykt en nú er ilmur menningar búinn að taka yfir. Árið 2005 var farið að skrifa nýtt handrit að húsinu þegar kannað var með kaup á því með menningarstarf í hug. Árið 2006 var húsið keypt og árið eftir var sýnt þar leikverk og kvikmyndahátíðin 700IS Hreindýraland fór þar fram.

Þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem hús á landsbyggðinni sem áður hýstu iðnaðarstarfsemi af einhverju tagi hafa fengið nýtt hlutverk sem menningarhús. Dæmi um þetta eru t.a.m Frystiklefinn á Rifi og Verksmiðjan á Hjalteyri.

unnarSláturhússtjórinn og Forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, heitir Unnar Geir Unnarsson, menningarstjóri og leikari. Unnar Geir fæddist og ólst upp á Egilsstöðum. Tók flugið eins og gengur eftir Menntaskólann suður til Reykjavíkur og þaðan úti heim en fluttist aftur austur til þess að taka við starfinu fyrir rúmu ári síðan.

Unnar Geir gengur stoltur um húsið og segir frá starfseminni. Sláturhúsið hýsir Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Veghúsið sem er skapandi frístundastarf fyrir fólk á aldrinum 16 – 25 ára og Kaffistofuna sem er listamannaíbúð sem hægt er að sækja um til lengri eða skemmri tíma. Salir Sláturhússins eru leigðir út fyrir viðburði, þar eru vinnustofur listafólks, upptökustúdíó, æfingahúsnæði og sýningarsalir fyrir allskyns listform.

Á neðstu hæð hússins er Frystiklefinn, þar stendur yfir 25 ára afmælissýning Myndlistafélags Fljótsdalshéraðs og hanga myndir á svörtum veggjum sem lýstar eru upp með sterkum kösturum. Salurinn er annars mikið notaður fyrir sviðlistaviðburði og tónleika.

Í anddyrinu er sýning á vegum Listahátíðarinnar Listar án landamæra. Sýningin er samstarfs austfirsku listamannanna Arons Kale, Daníels Björnssonar og Odee (Oddur Eysteinn Friðriksson).

Listamennirnir unnu saman að verkunum og þau renna saman þannig óljóst er hver á hvaða hluta eða hvaða verk ,,Sýningin fjallar ekki einungis um verkin sjálf heldur ferðalagið frá upphafi til enda verkefnisins‘´stendur í texta sem fylgir sýningunni á við hlið verkana má sjá ljósmyndir og skissur af listamönnunum að störfum. Sláturhúsið hefur áður verið í samstarfi við List án landamæra með allskyns viðburðum og sýningum sem oftar en ekki eru í samstarfi ólíkra hópa og einstaklinga í samfélaginu.

Miðrými hússins má nýta fyrir allskyns viðburði og fundi. Þar rúllar núna áhugaverð heimildamynd sem Austfirðingafélagið á Akureyri lét gera árið 1965 með brottflutta Austfirðinga í huga. Farið er á milli bæjarfélaga á Austurlandi, staðreyndir taldar upp eins og ,, þar er pósthús og kaupfélag‘‘ og farið yfir helstu kennileiti í landslaginu. Það er einlæg fegurð í þessu myndbandi.

Á hæðinni er upptökustúdíó og æfingahúsnæði sem tónlistarfólk getur nýtt sér endurgjaldslaust. Stórt rými er sérstaklega ætlað fyrir frístundamiðstöð unga fólksins en þau skipuleggja allt sitt starf sjálf og biðja um aðstoð ef þau þurfa.

Á efri hæð hússins er fyrrum skrifstofa dýralæknis, herbergiskytra sem lengi stóð auð og ónotuð. En nú hefur kytran fengið nýtt hlutverk og er framköllunarherbergi fyrir ljósmyndara. Hugmyndin kom upp þar sem ljósmyndarar hafa vinnuaðstöðu í húsinu. Framköllunarbúnaðu fékkst lánaður úr Menntaskólanum ME og Jobba í Myndsmiðjunni með því skilyrði að ef það er ungmenni sem vill læra að framkalla filmur að þá verði ljósmyndarinn að taka hann í læri.

dyralaeknis

Kaup kaups og ,,sharing is caring‘‘ er lykill þarna og speglast í öllu starfi hússins. Það á líka við um þegar listafólk kemur í residensíu í gestaíbúðina þá er viðkomandi listamaður með viðburð í miðstöðinni og oftar en ekki er listamaðurinn líka í samstarfi við stofnanir, hópa og einstaklinga í samfélaginu.
jon-fra-mo%cc%88drudalÁ efri hæðinni er stórt rými sem má skipta í minni sali. Þar stendur yfir sýning á verkum Jóns A. Stefánssonar frá Möðrudal, þess mikla fjöllistamanns. Jón hannaði og byggði kirkjuna á Möðrudal. Allar teikningar og plön sem hann gerði að kirkjunni gerði hann í huganum og ólíkt því sem við erum vön þá kom hann því ekki á pappír heldur byggði kirkjuna stein fyrir stein byggða á þessari mynd sem hann hafði í huganum. Barnabarnabarnið hans listakonan Íris Lind Sævarsdóttir vann verk í gluggann á móti verki langafa síns. Þar teiknar hún upp kirkjuna með hvítum lit. Teikningin er breytileg eftir birtunni úti og stöðu áhorfandans í rýminu. Í gegnum teikninguna horfum við út á fánaborg við húsið og í fjarska Egilsstaðabæinn og Lagarfljótið.

Í öðrum sal eru verk í eigu sveitarfélagsins. Þar er allt frá Kjarvalsverkum og yfir í nýlegar ljósmyndir listakonunar Agnieszku Sosnowska sem býr á Kleppjárnsstöðum í Hróastungu og kennir við Brúarásskóla. (Sjá hér)

Unnar Geir segir skemmtilega sögu af einu Kjarvalsverkana, Portrett af manni í Lopapeysu. Fjölskylda mannsins á myndinni sem sögð er vera af bóndanum Birni Hallssyni á Rangá, pantaði mynd af Birni hjá Kjarval en myndina ætluðu þau að gefa honum í afmælisgjöf. Þegar fór að draga nær afmælinu inntu þau Kjarval eftir verkinu, ,, hún kemur sagði Kjarval‘‘ og hafði ekki um það fleiri orð. Leið og beið og ekkert spurðist af myndinni. Fékk þá fjölskyldan annan málara til verksins sem lauk verkinu fyrir tilskilinn dag. Um sumarið kom Kjarval svo austur og afhenti fjölskyldunni málverkið. Þá vildu þau ekki sjá myndina enda búið að kaupa aðra mynd og að auki hafði Björn víst aldrei í ullarpeysu verið.

Einhvern vegin endaði myndin svo hjá sveitarfélaginu eftir þetta og hékk lengi í Valaskjálf. Hún ber þessi merki að hafa lifað margan gleðskapinn, einhvern tíma hefur verið rekið í hana borð eða annað

kjarvalsmyndin

og skilið eftir far í striganum og ofarlega á striganum þar sem er auður flötur er laumuskemmdarverk þar sem krotað er með blýanti ,,Q4U‘‘.

 Eftir Kjarval liggur leiðin í vinnustofur listamanna sem þarna starfa. Allir geta sótt um, leigan er lág og aðstaðan góð.

Sláturhússtjórinn Unnar Geir er sjarmerandi og segir skemmtilega frá. Hann hefur mikinn metnað fyrir menningarstarfi í húsinu og brennur fyrir því sem hann gerir. Það verður spennandi að fylgjast með Sláturhúsinu dafna en loksins eftir 10 ár þá hefur ákvörðun verið tekin um það endanlega að þarna verður áfram ræktuð menningarmiðstöð og Sláturhúsið gert að meginstoð menningarlífs á Fljótsdalshéraði ásamt Safnahúsinu.

Sláturhúsið er vettvangur alls samfélagsins, það er verkefnarými, viðburðastaður, lifandi og hreyfanleg miðstöð sköpunar af öllu tagi. Þarna er hægt að skapa og síðan að njóta sköpunar, þú getur átt val um að njóta nútíma dans- og leiklistarbræðings, sinfónutónleika og sýninga áhugaleikhópa, æft með hljómsveitinni og fundað með grasrótarhreyfingunni allt í sömu vikunni.

Húsið er steypt gólf og veggir með vatnshelt þak yfir, þar inni eru verkfæri og fólk sem hjálpar. En tilvist þess skapar líka huglægt rými í samfélaginu, rými sem nærir og glæðir sköpun og endursköpun.

Saga hússins í nýju hlutverki er ekki löng en áhrifin eru augljós.

 Margrét Norðdahl

Outsider art 3.hluti – Outsider/Insider?

Outsider art 3.hluti – Outsider/Insider?

Outsider art 3.hluti – Outsider/Insider?

Tobin Siebers, prófessor í bókmennta- og menningargagnrýni við háskólann í Michigan í Bandaríkjunum, hefur skrifað töluvert um fötlun og list. Í grein sinni „Disability Aesthetics“ veltir hann fyrir sér tengslum fötlunar og listaverka í listasögunni og mikilvægu en duldu hlutverki fötlunar í sögulegum verkum. Hann fjallar um áskorun sem listfræðingar og listnjótendur standi frammi fyrir þegar um er að ræða listafólk með þroskahömlun þar sem ætlun listamannsins með verki sínu er ekki ljós. Verkin eru gerð óháð mögulegri framsetningu og án tillits til áhorfandans, listasögulegs samhengis og án tengsla við strauma og stefnur í nútímamyndlist. Hann nefnir sem dæmi verk listakonunar Judith Scott sem hefur skapað sér nafn sem „outsider“ listamaður en verk hennar hafa fengið mikla athygli og eru nú sýnd bæði á vettvangi „outsider“ listar sem og á almennum vettvangi. Judith skilgreindi sjálfa sig ekki sem listamann, hún fór hvorki á söfn né ætlaði sér að skapa listaverk í því almenna samhengi sem það að skapa listaverk er sett í (Siebers, 2006).

Saga Judith er um margt merkileg. Hún er tvíburi, fæddist með Downs-heilkenni og ólst upp í góðu yfirlæti hjá fjölskyldu sinni til sjö ára aldurs. Þegar formleg skólaganga hennar átti að hefjast þreytti hún munnleg próf og þótti ekki hæf til að ganga í almennan skóla. Fjölskyldu hennar var ráðlagt af læknum að senda hana frá sér á hæli, sem var ráð þess tíma og þeirrar samfélagsgerðar sem þá var. Judith gat lítið tjáð sig og það uppgötvaðist ekki fyrr en seint á ævi hennar að hún var heyrnalaus! Hún var sumsagt sett heyrnarlaus í munnlegt próf þar sem niðurstöður áttu að segja til um greind hennar og var í kjölfarið einangruð á stofnun stóran hluta af lífi sínu. Á hælinu fékk hún fá tækifæri, einangraðist og var nánast afskrifuð.

Eftir lát foreldra hennar þegar Judith var komin á fimmtugsaldur bauð systir Judith henni að flytja til sín til Kaliforníu á svæðið í kringum San Francisco. Judith hóf þá að sækja listmiðstöðina Creative Growth sem staðsett var nálægt heimili þeirra. Creative Growth er listmiðstöð og gallerí í Oakland í Kaliforníu með afar fjölbreytta starfsemi og marga listamenn á sínum snærum. Þar er dagþjónusta þar sem fólk getur komið og unnið að list sinni, allur efniviður er á staðnum og leiðbeinendur eru myndlistafólk. Miðstöðin aðstoðar fólk við að koma verkum sínum á framfæri og kemur á samstarfi við listafólk og hönnuði, þar er rekið faglegt gallerí og miðstöðin sinnir umboðsstörfum fyrir listafólkið.

Til að byrja með naut Judith sín ekkert sérstaklega vel en komst síðan að í smiðju þar sem verið var að vinna með garn og útsaum. Þar kviknaði áhugi hennar og hún fór að vinna að skúlptúrum, þrívíðum verkum, sem hafa markað spor í listasögunni. Inni í verkunum kom hún fyrir alls konar hlutum og dóti sem hún fann og hafa sést þegar verkin eru gegnumlýst. Það eru sögur af því að hlutir hafi horfið frá fólki eins og veski og töskur sem eru nú hluti af þessum listaverkum.

Verk hennar vöktu strax mikla athygli og þá sem „outsider“ listaverk eftir „outsider“ listamann í „outsider“ listheiminum (MacGregor J.M., 1999. Siebers 2006). En það breyttist eftir að hróður hennar barst út. Á heimasíðu Judithar og systur hennar Joyce Scott segir að verk Judithar endurspegli ekki samhengi við ríkjandi menningu og séu afar einstaklingsbundin, þó öðluðust þau og hún sjálf fyrst viðurkenningu innan „outsider“ listheimsins. Með tímanum hefur áhersla á skerðingu hennar og fötlun dofnað og orðið að neðanmálsgrein í lífssögu hennar sem heimsþekktur og markverður listamaður (Hidden worlds, e.d.). Verk hennar hafa öðlast sjálfstætt líf sem merkilegt innlegg í listasöguna, einu sinni skilgreind á jaðrinum en núna einnig viðtekin á almennan hátt sem list. Á síðustu árum hafa verk hennar verið sýnd víða um heim og eru í eigu þekktra og virtra safna.

Saga Judithar er þó ekki almenn þegar kemur að aðgengi verka listafólks með þroskahömlun inn á almennan vettvang. Siebers (2006) veltir því fyrir sér hvað þurfi að breytast þegar kemur að því að skilja og meðtaka list til þess að verk Judithar og annarra séu meðtekin í listasögunni. Hann nefnir að enn séu listnjótendur uppteknir af tilgangi listamannsins með verki sínu og af því hver uppruni listaverksins sé. Sýn þeirra sem fást við fötlun og fagurfræði (e. disability aesthetics) sé að leggja áherslu á að líkamleg fötlun og þroskahömlun (e. mental difference) hafi mikið gildi í sjálfu sér. Jafnframt að sú sýn geti breytt viðtekinni sýn og haft þau áhrif  að fólk kunni að meta þátt fötlunar í nútímalist og jaðarlist og taki þátt í endurmati á fagurfræðilegum viðmiðum og smekk þeim sem útilokar fatlað fólk.

Vísir að samruna

Árið 2013 var Feneyjartvíæringurinn haldinn í 55 sinn. Feneyjartvíæringurinn, La Biennale di Venezia, er stofnun sem hefur frá upphafi lagt áherslu á nútímamyndlist, rannsóknir og nýjar stefnur í myndlist. Á tveggja ára fresti skipuleggur stofnunin alþjóðlegar sýningar sem eru virtar á heimsvísu (La Biennale, e.d.).

veniceencyclopediabigMeðfram hefðbundnum sýningarskálum sýningarinnar árið 2013, þar sem hver þjóð átti einn fulltrúa, var stór sýning þar sem lærðir og leiknir sýndu saman verk sín. Lykillistamaður sýningarinnar var ítalski listamaðurinn Marino Auriti sem er í flokki þeirra sem taldir eru til „outsider“ listamanna. Hann vann alla sína ævi að hugmyndum um heildarsafn allra safna, nánast eins og raungert internet, teiknaði það og gerði í þrívídd og varð safnið sjálft afar stórt að umfangi.

Sýningarstjóri tvíæringsins 2013, Massimiliano Gioni, vann á vissan hátt út frá þessari hugmynd Auriti og var þessi stóra sýning hugmyndafræðilegt afkvæmi hugmynda Auriti. Á sýningunni voru verk fjölda listamanna sýnd og þeir kynntir án formerkja um það á hvaða vettvangi þeir höfðu verið sýndir áður eða hvernig þeir höfðu verið skilgreindir. Talið er að virkilega hafi verið reynt að afmá mörkin með þessari sýningu og var það markviss tilgangur sýningarstjórans að forðast skilgreiningar um „outsider/insider“ sem andstæða póla (Il plazzo enciclopedico, 2013).

Það sem virðist vera að gerast í ákveðnum hlutum listheimsins, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, er að mörkin á milli þessara póla eru sumsstaðar að dofna. Í auknum mæli eru „outsider“ listamenn farnir að sýna á almennum og virtum sýningum eins og Feneyjatvíæringnum, Documenta og The Carnegie International. Outsider Art Fair er stór hátíð þar sem „outsider“ list er kynnt og er hún haldin bæði í New York og París. Á vorsýningu Outsider Art Fair árið 2014 voru sýnd verk listamanna frá 48 alþjóðlegum galleríum (Outsider art fair, e.d.). Í fyrsta sinn frá stofnun hennar árið 1993 var hún haldin samhliða hátíðinni Frieze Art Fair sem er sambærileg við áðurnefndar hátíðir en þar eru sýnd verk listamanna sem eru kynntir á vegum 190 gallería (Frieze art fair, e.d.).

Í viðtali blaðamanns, Frank, í Huffington Post við nýjan eiganda Outsider Art Fair, Andrew Edlin, er rætt um að gjáin á milli „outsider“ listamanna og þeirra sem eru viðurkenndir í hinum almenna listheimi sé að minnka. Edlin talar í viðtalinu um hversu mikla umfjöllun verk á hátíðinni fái og að umræðan snúist um að verkin eigi skilið að vera skoðuð í samhengi við almenna nútímamyndlist. Hann undirstrikar að æ minni áhersla sé lögð á skilgreiningar og merkimiða á hvað sé „outsider“ og hvað sé meginstraumur (e. mainstream) innan listheimsins (Frank, 2014). Þetta og það sem sést með aðgengi verka Judith Scott inn í almennu senuna er til marks um ákveðinn samruna, eða hið minnsta virðist vera samtal og endurskoðun í gangi. Á meðan staðan sumsstaðar í Evrópu og Bandaríkjunum er þessi er staðan önnur á Íslandi. Mögulega sökum smæðar listasenunar og listmarkaðarins hér. Staðan er sú að þeir sem fallið geta undir „outsider“ skilgreininguna eða teljast vera á jaðrinum stendur enn í dag færri tækifæri til boða til að sýna og fleiri hindranir eru í vegi þeirra vilji þeir byggja upp feril í listum.

Margrét M. Norðdahl

Heimildir:

Frank, P., (2014, 10. apríl). Defining outsider art in anticipation of the Outsider art fair. Huffington Post. Sótt af http://www.huffingtonpost.com/2014/04/10/outsider-art-fair-2014_n_5093206.html

Frieze art fair. (e.d.). Frieze New York. Sótt af http://friezenewyork.com/

Hidden Worlds. (e.d.). Judith Scott (1943 – 2005). Sótt af: http://www.hidden-worlds.com/judithandjoycescott/judith.shtml

Il plazzo enciclopedico: The encyclopedic palace: 55th International Art Exhibition: la biennale di Venezia. (2013). [Sýningarskrá]. Massimiliano Gioni (ritstjóri). Feneyjar: Marsilio.

La Biennale. (e.d.). La Biennale di Venezia. Sótt af: http://www.labiennale.org/en/biennale/organization

MacGregor, J.M., (1999). Metamorphosis, The fiber art of Judith Scott. Oakland: Creative Growth Art center

Outsider art fair. (e.d.). New York 2014. OAF Talks. Sótt af : http://www.outsiderartfair.com/fair/720/program

Siebers, T., (2006). Disability Aesthetics. Journal for Cultural and Religious Theory vol. 7 no.2: bls 63 – 73.

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Verk eftir listakonuna Erlu Björku Sigmundsdóttur

sem er listamaður Listar án landamæra árið 2016

Á Íslandi er varla hægt að segja að hugtakið ,,outsider“ list sé til á þann hátt að fullur skilningur sé fyrir því hvað í hugtakinu felst. Í inngangi að sýningarskrá sýningarinnar „Yfir bjartsýnisbrúna“, sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur árið 2003, skrifar Eiríkur Þorláksson listfræðingur að á 20. öld hafi miklar hræringar orðið og bæði samruni og sundrung á milli listgreina. Það hafi hins vegar ekki tekist að brúa bilið á milli menntaðra og ómenntaðra listamanna. Hann ritar:

Þetta er gjáin á milli þeirra sem hafa lagt stund á formlegt listnám og hinna, sem ekkert slíkt nám hafa að baki. Það hefur ekki reynst auðvelt að skilgreina muninn: hinir fyrri hafa verið nefndir lærðir listamenn, menntaðir, akademískir, ,,alvöru“ á meðan hinir síðarnefndu hafa kallast leiknir, naívir, einfarar í listinni, utangarðs-, frístunda- eða alþýðulistamenn (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003, bls. 5).

Eiríkur orðar vel hvernig staðan er á íslenskum listvettvangi þar sem gjáin á milli tækifæra þeirra sem tilheyra almennu fagurlista ,,senunni“, menntaðra og viðurkenndra listamanna, og hinna ómenntuðu er sannarlega til staðar. Sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ var samstarfsverkefni á milli Safnasafnsins og Listasafns Reykjavíkur og var yfirlýstur tilgangur með sýningunni að brúa bilið á milli lærðra og leikinna listamanna og setja verk listafólksins fram á grundvelli jafnræðis og án sérstakra formerkja (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003).

Safnasafnið (e. The Icelandic Folk and Outsider Art Museum) er eina safnið á Íslandi sem markvisst safnar alþýðulist og „outsider“ list. Safnasafnið var stofnað árið 1995 og er staðsett við Svalbarðsströnd í Eyjafirði. Í safneigninni eru verk eftir 323 sjálmenntaða og lærða listamenn en í heild telur safneignin um 6.000 listaverk. Innan safnsins er einnig sérstök safndeild, Kikó Korriró-stofa, en þar eru varðveitt um 120-130.000 verk eftir Þórð Guðmund Valdimarsson (Kíkó korriró, 1922-2002).
Á safninu er „outsider“ list sem og framsækin nútímamyndlist sýnd án aðgreiningar, eins og segir á heimasíðu safnsins. Sú stefnumörkun sem safnið setur sér snýst um gæði og einlægni (Safnasafnið e.d.). Níels Hafstein, sem ásamt Magnhildi Sigurðardóttur stofnaði Safnasafnið, skrifar í sýningarskrá sýningarinnar „Yfir bjartsýnisbrúna“ um vandræðagang í orðræðu og skilgreiningu á list jaðarhópa, hinna ómenntuðu, og um að finna viðeigandi safnheiti sem næði yfir ólík tilbrigði skilgreindra listforma. Hann nefnir sem dæmi, alþýðulist, naíva list, frumstæða list, skrautlist, utangarðslist, ,,art brut“, veggjalist, ,,visionary“ list og list fanga og skilgreiningar sem gera tilraun til að: … lýsa list sem ekki fellur afdráttarlaust undir fagurfræði og rannsóknir og er kölluð nútímamyndlist (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003, bls. 7).

Í sýningarskrá segir að sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ gæti verið sú fyrsta þar sem gerð er tilraun til þess að brúa bilið á milli meginstrauma og jaðarsins í listum með nákvæmlega þeim formerkjum (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003).

Árið 2003, sama ár og sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ var opnuð, var Evrópuár fatlaðs fólks. Af því tilefni var blásið til listahátíðar hér á landi undir merkinu List án landamæra. List án landmæra, sem síðan hefur verið haldin árlega, er grasrótarhátíð sem varð til fyrir tilstilli skapandi fólks. Einn af stofnendum hátíðarinnar er Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar, en hann ásamt fulltrúum frá Fjölmennt, símenntunarmiðstöð, Átaki, félags fólks með þroskahömlun og Hinu húsinu, miðstöð ungs fólks, mynduðu stjórn um hátíðina fyrir hönd sinna félaga. Seinna bættust Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna í stjórn hátíðarinnar.

List án landamæra er hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla eins og segir á heimasíðu hennar. Eitt af aðalmarkmiðum hennar er að stuðla að auknum tækifærum fatlaðs listafólks með því að koma því og list þess á framfæri og koma á samstarfi milli lærðs og leikins listafólks. Áhersla er lögð á sýnileika og þátttöku, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni, því sýnileikinn og þátttaka hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum. Hátíðin hvetur til og stuðlar að fjölbreytni, aðgengi og jafnrétti í menningarlífinu. Á dagskrá hátíðarinnar ár hvert eru fjöldi viðburða og þátttakendur eru mörg hundruð um allt land. Á hátíðinni rúmast listviðburðir sem má meta á faglegum grunni í samstarfi við viðurkenndar liststofnanir sem og viðburðir eins og opnar vinnustofur á starfstöðum fatlaðs fólks (List án landamæra e.d.).

Þorvaldur Þorsteinsson listamaður skrifar inngang í dagskrá Listar án landamæra árið 2006 og fjallar um landamæri í huglægum og eiginlegum skilningi. Hann skrifar:

Þau landamæri menningar og viðhorfa sem vísað er til í yfirskrift þessarar ágætu hátíðar eru um margt snúnari að kljást við en hin opinberu mörk sem skipta landsvæðum í pólitískar, trúarlegar eða efnahagslegar heildir. Hin hefðbundnu landamæri hafa þann kost að vera sýnileg og skýrt afmörkuð. Þar fer sjaldnast milli mála hvar línan er dregin og í hvaða tilgangi og því auðvelt að greina við hvað er að eiga, reynist á annað borð ástæða til að véfengja skiptinguna (List án landamæra, 2006, bls. 5).

Hugleiðingar Þorvalds undirstrika orð þeirra Eiríks og Níels svo og skrif Rögnu Sigurðardóttur rithöfundar og listgagnrýnanda. Í grein í Morgunblaðinu árið 2007, „List hinna“,  skrifar Ragna:

List samtímans er iðulega skipt niður í margar greinar, oft er skiptingin tilefni til vangaveltna. Í myndlistinni getur áhugafólki reynst flókið mál að greina á milli listar áhugafólks og atvinnumanna (Ragna Sigurðardóttir, 2007).

Ragna skrifar einnig inngang í dagskrárbækling hátíðarinnar árið 2008 og kemur með frekari vangaveltur inn í umræðuna. Hún telur að þrátt fyrir að list jaðarhópa hafi orðið sýnilegri á 20. öldinni hafi það frekar verið í formi þess að listamenn nýttu sér þætti úr listsköpun utangarðslistamanna í eigin list og líkir því við að nýlenduherrar hafi nýtt sér náttúruauðlindir nýlenda sinna (List án landamæra, 2008). Skrif Rögnu má tengja við uppruna skilgreiningar á ,,art brut“ þegar súrrealistar sækja í brunn listamanna úr hópi ,,art brut“ listamanna Debuffets.

Ragna, Eiríkur og Níels hafa öll orð á ákveðnum skilgreiningarvanda og eiga það sameiginlegt með fleirum sem mikið hafa skrifað um „outsider“ list. Listfræðingurinn Tansella (2007) bendir á það í rannsókn sinni, ,,The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective“, að erfiðleika skilgreininga megi finna í því að engin stefnuskrá eða „manifesto“ sé til um „outsider“ list og enga eiginlega félagaskrá sé að finna þar sem fólk sem tilheyri hópi „outsider“ listafólks sé sjálft ekki að fást um það. Skilgreiningin sé bundin við fólkið sem skapi listina og stöðu þeirra, listaverkið er þar ekki sjálfstætt og óháð heldur metið af því hver skapari þess er.

Margrét M. Norðdahl

Heimildaskrá:

List án landamæra. (2008). [Sýningarskrá]. List án landamæra.

List án landamæra. (e.d.). Listahátíðin List án landamæra. Sótt af http://www.listin.is/

List án landamæra.. (2006). [Sýningarskrá]. List án landamæra.

Ragna Sigurðardóttir. (2007, 4. maí). List hinna. Morgunblaðið. Sótt  af http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1143312/

Safnasafnið. (e.d.). Söfnunar og sýningarstefna Safnasafnsins. Sótt af http://www.safnasafnid.is/is/page/sofnunar-_og_syningarstefna

Safnasafnið. (2016). [Sýningarskrá]. Safnasafnið

Tansella, C. (2007) The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective. Epidemiologia e Psichiatria Sociale, 16 (2), bls. 133-138 Sótt af http://www.psychiatry.univr.it/page_eps/docs/2007_2_Tansella_Carole.pdf

Yfir bjartsýnisbrúna. (2003). [Sýningarskrá]. Listasafn Reykjavíkur.

 

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Verk eftir svissneska listamanninn Adolf Wölfli (29.02.1864 – 06.11.1930)

Outsider Art! 1. hluti / Uppruni

Á íslensku er ekki til yfirheiti sem lýsir þeirri list sem flokka má sem „outsider“ myndlist. Það er til dæmis talað um alþýðulist og naíva list, alþýðulistamenn og naívista líkt og Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur gerir í bók sinni ,,Einfarar í íslenskri myndlist‘‘  (Aðalsteinn Ingólfsson, 1989). Algengt yfirheiti á alþjóðlegum vettvangi um listsköpun jaðarhópa er „outsider art“.

Innan þeirrar skilgreiningar rúmast list fólks með þroskahömlun, einfara, alþýðulistamanna, naivista og fólks með geðsjúkdóma svo dæmi séu tekin. Í skilgreiningunni felst að listafólkið er í grundvallaratriðum ólíkt neytendum listarinnar miðað við þær forsendur sem settar eru í ríkjandi menningu (Rhodes, 2000).

Uppruna hugtaksins „outsider“ list má rekja til þýska geðlæknisins og listfræðingsins Hans Prinzhorn sem árið 1922 birti niðurstöður rannsóknar á verkum fólks með geðsjúkdóma sem vistað var á stofnunum. Í bókinni rannsakar hann mörkin á milli geðsjúkdóma og sköpunar sjúklinga geðsjúkrahúsa og er ein fyrsta tilraunin að því að greina listaverk sköpuð af fólki með geðsjúkdóma. Prinzhorn safnaði mörg þúsund listaverkum sem hann fann á hælum víðs vegar um Evrópu sem unnin voru af fólki sem vistað var á hælum og geðsjúkrahúsum og bjó oft við mikla einangrun (Prinzhorn, 1922/1972; Tansella, 2007; Rhodes, 2000).

Stuttu áður en Prinzhorn birti niðurstöður rannsóknar sinnar gaf læknirinn Walter Morgenthaler út fyrstu rannsóknina á verkum svissneska listamannsins Adolf Wölfli. Wölfli átti erfiða ævi og var vistaður, rétt rúmlega þrítugur, á svissnesku hæli þar sem Morgenthaler starfaði. Á hælinu vann hann ótal verk á 30 ára tímabili, innilokaður í klefa og útilokaður frá samfélaginu.

Verk þessi vöktu mikinn áhuga og höfðu áhrif inn í listheiminn og á verk listamanna eins og Jean Dubuffet og André Breton, sem kenndir eru við Dada og síðar súrrealisma. Innan þessara stefna er mikill áhugi á því ósjálfráða, sjálfsprottna og draumkennda, þættir sem þykja gjarnan hvað merkilegastir í verkum „outsider“ listafólks (Tansella, 2007). Breton skrifaði og gaf út stefnuyfirlýsingu súrrealismans árið 1924, í henni skilgreinir hann súrrealisma á eftirfarandi hátt:

Skrásetningu hugsunarinnar án nokkurrar stjórnar af hálfu skynseminnar, laus við allar fagurfræðilegar og siðferðilegar hugleiðingar (Breton, 2001, bls. 420).

Árið 1948 varð til formlegur félagsskapur listamanna sem leiddur var m.a. af franska listamanninum Jean Dubuffet, sem fór markvisst á milli geðsjúkrahæla í Evrópu og safnaði verkum eftir fólk sem vistað var á hælunum. Í þeim félagsskap sameinuðu nokkrir listamenn söfn af verkum sem þeir höfðu safnað eftir fólk á jaðri samfélagsins og settu sér það markmið að finna og safna verkum eftir jaðarlistamenn. Yfirheiti félagsskaparins var Art Brut sem á ensku útleggst sem ,,Raw art“ eða hrá list. Listamennirnir söfnuðu verkum sem voru gerð af fólki sem var utan almenna listheimsins, fólki sem var ólært og samkvæmt þeirra bestu vitund ómeðvitað um listasenuna og listaverk annarra. Dubuffet lagði merkingu ,,art brut“ upp þannig að hún væri list sem væri ósnortin af menningu og utanaðkomandi áhrifum. Þarna væri um að ræða list sem væri hrein, sköpuð eingöngu af innri þörf listamannsins án þess að taka tillit til þess að verkin yrðu sýnd né í hvaða samhengi þau yrðu sýnd eða hvort viðkomandi gæti orðið frægur eða grætt á listsköpuninni. Þessi markvissa söfnun varð að formlegu safni árið 1979, Collection de l’Art Brut museum í Lausanne í Sviss og var fyrsti safnstjórinn Michel Thévos (Rhodes, 2000).

Það var svo árið 1972 sem breski prófessorinn Roger Cardinal, við háskólann í Kent, kynnti til sögunnar hugtakið „outsider art“ sem þýðingu á heitinu ,,art brut‘‘ þegar hann birti niðurstöður rannsóknar um „outsider art“ (Cardinal, 2000). Það hugtak hefur fest sig í sessi sem yfirheiti yfir list jaðarhópa og felur í sér breiðari skilgreiningu en ,,raw art“ skilgreiningin gerði og gerir. Þó að Cardinal hafi ætlast til að hugtakið næði yfir sömu viðfangsefni og ,,art brut“ þá öðlaðist hugtakið sjálfstætt líf og mun breiðari tilvísun (Tansella, 2007). Fyrsti sýningarstjóri safnsins í Lausanne, Michel Thévoz, mótaði þessa skilgreiningu á ,,art brut“ og „outsider“ list til aðgreiningar frá naívri list sem hann taldi að ætti sér sterkari tengsl við tíðarandann í listum og menningu. Thévoz segir ,,art brut“ og ,,outsider“ list samanstanda af verkum sem gerð eru af fólki sem af margvíslegum ástæðum hefur ekki verið menningarlega innrætt eða félagslega skilyrt. Fólki sem dvelur á jaðri samfélagsins og vinnur utan fagurlista (e. fine art) kerfisins (skóla, sýningarstaða/gallería, safna o.s.frv.) og skapar frá rótum eigin persónuleika, fyrir sjálft sig og engan annan, verk sem fela í sér framúrskarandi frumleika í inntaki, viðfangsefnum og tækni. Þetta eru verk sem standa algerlega óháð hefð eða tísku (Thévoz, 1976). Skilgreining Thévoz lýsir þeim skilningi sem lagður er í hugtakið ,,art brut“ á meginlandi Evrópu annars vegar og hins vegar í Bandaríkjunum og víðar þar sem hugtakið ,,outsider art“ er regnhlífarheiti yfir jaðarlist af ýmsum toga.

Margrét M. Norðdahl

Heimildir:

Aðalsteinn Ingólfsson. (1989). Naive and fantastic art in Iceland. Reykjavík: Iceland Review.

Breton, A. (2001). Stefnuyfirlýsing Súrrealismans, (Benedikt Hjartarson þýddi). Í Vilhjálmur Árnason (ritstj.), Yfirlýsingar: Evrópska framúrstefnan (bls. 420). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Cardinal, R. (1972). Outsider art. London: Studio Vista.

Prinzhorn, H. (1972). The artistry of the insane (Eric von Brockdorff  þýddi). New York: Springer Science + Business Media.

Rhodes, C. (2000). Outsider art, spontaneous alternatives. Thames & Hudson: London

Tansella, C. (2007) The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective. Epidemiologia e Psichiatria Sociale, 16 (2), bls. 133-138 Sótt af http://www.psychiatry.univr.it/page_eps/docs/2007_2_Tansella_Carole.pdf

Thévoz, Michel (1976). Art Brut. Geneva: Editions d´Art Albert Skira. Bls 9-10.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest