Hittumst á Kili – Jóna Hlíf sýnir í Flóru menningarhúsi

Hittumst á Kili – Jóna Hlíf sýnir í Flóru menningarhúsi

Fjær

Hittumst á Kili – Jóna Hlíf sýnir í Flóru menningarhúsi

Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýnir um þessar mundir nokkur verk í Flóru menningarhúsi á Sigurhæðum. Húsið létu Guðrún Runólfsdóttur og Matthías Jochumsson reisa fyrir sig og fjölskyldu sína árið 1903 og stendur reisulegt í hvammi í brekkunni milli Akureyrarkirkju og Hafnarstrætis. Í Flóru hanga verk Jónu Hlífar innan um ýmsa muni frá fyrri ábúendum hússins og innsetningar tengdum þeim. Þar eru líka ilmandi prjónavörur, þýskt hunang, sápur að austan, jarðaber innan úr firði og ansi myndarlegt magn af inniplöntum. Heimilislegt mjög.

Jóna Hlíf vann sín verk sérstaklega fyrir sýninguna og öll vísa þau með einhverjum hætti í verk Matthíasar. Standa líkt og uppvaxnir afleggjarar úr garði Matthíasar, spræk í eigin potti.
 Í sumar gaf Jóna Hlíf út bókverkið ÞAK/TRÚ sem geymir textann Hús og dagar, hugleiðingu um hús, tíma og minningar. Verkið kallast sterkt á við sýninguna á Sigurhæðum og er tileinkað minningu Jóns Laxdals – sem einnig sýnir verk í Sigurhæðum þetta árið. Skástrikið í titlinum ÞAK/TRÚ er allrar athygli vert og myndar ansi merkilegt tugabrot sem við skulum taka með okkur inn á sýninguna.

ÞÍN HEILAGA HEIMVON

Bókverkið ÞAK/TRÚ sem geymir textann Hús og dagar, hugleiðingu um hús, tíma og minningar.

Það brestur hlýlega í gólfinu þegar við göngum í bæinn og gegnum stofu(r)na(r). Inni í ljósbláa eldhúsinu á Sigurhæðum, fyrir ofan eldhúsvaskinn, hangir verkið Hærra. Yfir ljós- og dökkbleikum fjallsbrúnum slúta fram útskornir stafir úr grænum pappírshimni. Saman mynda þeir orðin ÞÍN HEILAGA HEIMVON. Líkt og til uppljómunar þeim sem líta upp úr uppvaskinu. Við erum minnt á að helgasta rými hvers heimilis er og verður eldhúskrókurinn. Í svipuðum stíl og Hærra er verkið Hinstu orð Skugga-Sveins, sem tekur á móti gestum inni í stofunni, og kveður þá á leiðinni út. Þar eru fjöllin og himininn næturblá, og á himninum má lesa HITTUMST Á KILI.

Bakvið stafina sem spretta út úr himninum glittir í eitthvað gult – sem gleður – og minnir á sumartungl eða leslampaskin.
Verkin Land I og Land II hanga í sömu stofu, hlið við hlið fyrir ofan rauðan sófa. Þar vinnur Jóna Hlíf með Níðkvæði um Ísland, stundum nefnt Volaða land. Kvæði sem Matthías orti einn hafísaveturinn, harmi sleginn og sármóðgaður út í land sitt, eftir að hafa þurft að jarða ekkil, sem svalt í hel ásamt fjórum börnum sínum; „Volaða land,/ horsælu hérvistar slóðir“ orti Matthías þá, og hélt áfram þangað til erindin voru orðin ellefu. Jóna Hlíf hefur dregið út úr kvæðinu nokkur af þeim orðum sem Matthías valdi Íslandi og saumað þau í djúpblátt flauel með gylltum þræði. Í Land II standa lýsingarnar í hvorugkyni, líkt og í kvæði Matthíasar – HRAUNELDA HAFÍSA STÓRSLYSA BLÓÐRISA – en í Land I hefur hún lýsingarnar í kvenkyni: VOLUÐ TRÖLLRIÐIN VESÆL HRAFNFUNDIN. Þetta skapar spennu milli verkanna og skorar á áhorfandann að geta í eyðurnar. Því okkur finnst við þekkja þetta skapstóra land bakvið glerið.

Landið sem skelfir og skelfur og á það til að springa. Það er aftur á móti óljóst hver hún er, sem hangir á veggnum við hlið þess – en það er óneitanlega svipur með þeim tveim.

Kannski við kíkjum í gestabókina.

Sölvi Halldórsson


Heimasíða Jónu Hlífar: www.jonahlif.is
Ljósmyndir: Jóna Hlíf.
Sýningin stendur til 6. nóvember.
www.floraflora.is

Blætismenning garðyrkjunnar

Blætismenning garðyrkjunnar

Blætismenning garðyrkjunnar

Brák Jónsdóttur kannar snertifleti blætismenningar og garðyrkju, manns og náttúru, sársauka og unaðar á sýningu sinni Dýpra (e. Deeper) sem haldin er í Ásmundarsal. Sýningin er bæði innandyra, á fyrstu hæð Ásmundarsalar, sem og verk utandyra. Odda Júlía Snorradóttir lýsir sýningunni skemmtilega í sýningarskránni, þar sem hún segir að Brák nálgist náttúruna í þeim tilgangi sem ögri hefðbundnum hugmyndum um hvernig menning og náttúra mætast.

Orðrétt segir Odda: „Í ferli listamannsins er jörðin í hlutverki þess undirgefna í leik þar sem garðyrkjumaðurinn gælir við mörk hennar. Leikvangurinn er skapaður á forsendum hins undirgefna en reglurnar eru settar af drottnaranum. Af ástríðu leitast listamaðurinn við að komast dýpra, dýpra í jörðina. Þetta valdatafl byggir á ábyrgð, nánd og virðingu sem felur í sér umhyggju í garð viðfangsins. Roðandi spenna myndast við leikinn þegar mörk beggja eru þanin til hins ýtrasta.“

Brák Jónsdóttir er fædd árið 1996. Hún útskrifaðist með BA gráðu úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2021. Verk hennar taka helst á sig form vídjóverks, bókverks, skúlptúrs og gjörnings, en nýverið hafa viðfangsefni hennar snúið að sambandi manneskju við náttúru. Í rannsóknum sínum nálgast hún kink og blæti og skoðar samband mannfólks og náttúrulegra kerfa á grundvelli yfirráða og undirgefni, fantasíu og femínisma.

Blaðamaður vefritsins skoðaði sýninguna með listakonunni í Ásmundarsal á dögunum og fékk svo í kjölfarið að heyra frá fyrstu hendi, allt um sýninguna.

„Það er sterkt samtal í myndlist í dag varðandi samband manns og náttúru og mér finnst mjög áhugavert að hugsa um það í myndlistinni. Ég fór að hugsa um hvað ég ætti að gera varðandi þetta og hverju ég hefði að bæta við þetta samtal. Þá fór ég að hugsa um hvernig ég tengi samband manns og náttúru, innilegustu sambönd sem hægt er að eiga að mínu mati. Að í ástinni líði manni eins og maður sé orðinn ein heild með einhverjum öðrum. Og það var niðurstaðan, að vilja skoða þetta samband í gegnum ást.“ segir Brák.

Brák er ánægð að fara þessa leið, hún segir að algengt sé að hugsa um endurnýtingu í þessu samhengi en að hún hafi viljað fara aðra leið. „Mér fannst áhugavert að tengja þetta við það sem við þekkjum milli tveggja manneskja, að fjalla um ástina og kynlíf, en mér fannst það samt ekki nógu skýrt. Þetta samband getur verið ótrúlega mismunandi hjá fólki, og mér fannst þetta því of vítt og fór að hugsa um blætismenningu eins og BDSM.“

Brák segir að þar séu skýrar reglur og allir búi til sitt umhverfi í kringum það. Hún segir að auðvitað geti það umhverfi verið mjög mismunandi, en það sem einkenni sé að byrjað er að setja skýr mörk og svo leiki fólk sér innan þess ramma.

Það var heillandi að skoða samband manns og náttúru innan þessa heims og hægt að styðjast við eitthvað eins og samþykki, mörk, nánd og allt tengt þessu verður svolítið ýkt. Ég notast við latex og leður sem er skemmtilegur efnisheimur. Í mínu ferli hugsa ég um efnisheima, mér finnst ég geta sett fram ákveðin form og efni og vitnað í menningu garðyrkju og menningu blætishneigðarinnar og set það tvennt saman. Í garðyrkju er samband, en í þessari sýningu er ég að reyna að búa til tengingar á milli manneskja og varpa því á það samband sem manneskjan á við jörðina. BDSM er svo fullkomið, því það eru svo skýrar línur þar, fullkomið öryggi og gott samtal.“ segir Brák.

Að mati Brákar er hugmyndin þó langt því frá að vera fullkomin og að hún gangi í raun og veru ekki upp. Það að fá beint samþykki frá jörðinni, segir hún að sé í raun og veru ekki hægt og því fari þetta samtal yfir í ákveðinn fantasíuheim, um hvað gæti orðið. „Ég er ekki að reyna að leysa neitt, heldur að ýja að einhverju sambandi sem gæti verið. Viðtökurnar hafa verið góðar, þetta er eitthvað sem margt fólk er að hugsa um, allavega minn vinahópur. Fólk hugsar um eignarhald á líkama sínum og jákvæða sýn á líkamann, sem ég kem líka inn á í þessari sýningu og mér finnst gaman að halda því samtali áfram.

Brák segir að náttúran og líkaminn sé svolítill útgangspunktar í sínum verkum. Hún segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hún vinni slíkt útilistaverk og að það sé skemmtilegt skref að taka. „Hugmyndin var að láta þetta tengjast, verkin tilheyra sama heimi, sama kafla og ósjálfrátt verður þetta sama sýning, í tveimur rýmum. Ég er að vinna að nokkrum verkefnum í þessu á sama þema, ég byrjaði í raun á því þegar ég útskrifaðist úr Listaháskólanum og ég er búin að gera nokkrar útfærslur af svona verkum. Þetta er skemmtilegt viðfangsefni og ég er ekki tilbúin að sleppa því.“ segir Brák að lokum.

Aron Ingi Guðmundsson


Ljósmyndir: Gunnar Bjarki

England

England

England

Guðný Guðmundsdóttir myndlistarkona hélt nýverið einkasýninguna ´England´ í ofurfallegum sýningarskála hins rúmlega aldargamla Overbeck listafélags í Hansaborginni Lübeck í Þýskalandi. Stofnað var til Overbeck félagsins undir lok fyrstu heimstyrjaldar vegna frumkvæði menningarsinnaðra íbúa borgarinnar en þeir trúðu á mikilvægi lista sem tæki lærdóms og lýðræðisvakningar. Frá upphafi hefur félagið staðið fyrir sýningum á samtímalist lifandi listamanna. Listafélög eins og Overbeck standa á gömlum merg í Þýskalandi og eru einstakt fyrirbæri í Evrópu. Þau eru í raun 18. aldar svar þýska menningarheimsins við hinni frönsku salon hefð þar sem lokaðir hópar hittast og ræða listir. Þessir hópar listunnenda úr efri stéttum samfélagsins þróuðust svo í það sem í dag heitir kunstverein eða listafélag. Í Þýskalandi má finna 300 slík félög og eru þau oftar en ekki miðpunktur umræðu samfélags á hverjum stað um samtímalist og það er í þessum félögum sem um 150.000 íbúar Þýskalands taka beinan þátt í samtímalistinni með sýningarhaldi, listsköpun og umræðu. Það er ekki lítil hefð að stíga inn í.

Guðný er búin að vera að vinna að sýningunni í eitt og hálft ár með hléum. Hún átti að opna í júní 2021 en var frestað fram í apríl 2022 vegna covid. Loksins þegar hún gerðist þá kom í ljós ákaflega vel unnin sýning. Hún hefur enda fengið verðskuldaða athygli bæði á landsvísu í Þýskalandi með listgagnrýni í Die Dagezeitung (taz) dagblaðinu en einnig hefur sýningin vakið athygli fjölmiðla í Lübeck. ‘Þetta kom þannig til að Oliver Zybock hefur verið að fylgjast með mér í nokkur ár. Hann er forstöðumaður sýningarskálans og listrænn stjórnandi. Félagið er þekkt fyrir framsækna dagskrá og sérstaklega eftir að Oliver tók við,’ útskýrir Guðný.

‘Svokölluð Kunstverein eru til í mörgum borgum í Þýskalandi en þau eru misjöfn og Overbeck er álitið eitt af þeim þekktari. Það er gaman að vera boðið að sýna þarna því salurinn er svona draumasalur listamannsins. Það er gríðarlegt veggjapláss og hann er svona sérkennilega lagaður, svona U lagaður og maður finnur svo vel fyrir því að hann er sérstaklega byggður fyrir myndlist. Birtan kemur úr þakgluggum. Það var þegar Oliver kom á sýninguna sem ég hélt í Gallery Gudmundsdottir í Berlín árið 2020 sem hann tekur lokaákvörðun að bjóða mér sýningu. Hann vissi af mínum verkum eflaust vegna sýningarinnar í Poolhaus í Hamborg fyrir fimm árum. Það var sýning sem olli ákveðnum straumhvörfum í ferlinum. Þetta er svona bolti sem vindur upp á sig. Oliver gaf mér algert frelsi. Hann vinnur þannig að listamanninum er algerlega í sjálfsvald sett hvað hann sýnir og hvernig hann setur það upp. Honum er sýnt traust.’

Þegar Guðný er spurð um hvað sýningin fjallar um heldur hún áfram: ‘Þegar þarna var komið við sögu leituðu á hugann hugsanir um andagiftina og hvaðan hún kæmi. Hvort hægt væri að staðsetja kjarna andagiftarinnar á einhverjum stað. Og þá horfði ég yfir ferillinn sem spannar aldarfjórðung og tók eftir því að hvað eftir annað koma upp hugmyndir sem varða England. Það er einmitt titill sýningarinnar. Ég tók eftir því að síendurtekið er ég að fjalla í og með um einhvers konar ensk fyrirbæri hvort sem það er úr enskri menningu eða enskt landslag. Þó er varla hægt að segja að ég hafi nokkurn tíma komið til Englands fyrir utan tvær stuttar heimsóknir til London. London er nú varla England.

Ég veit ekki hvaðan þetta kemur. Ég hef eiginlega engan áhuga á Englandi. Þannig gerist það samt að ég fer að bregða upp mynd af þessum stað sem uppsprettu andagiftarinnar og ég bara ákveð að það væri gefið að England væri staðurinn þaðan sem andagiftin kæmi. Síðan fer sýningin að hverfast um að þetta svæði sé einhvers konar ríki og svo fer þetta að snúast um varnarstöðu ríkis og ásælni, átök um yfirráð og hættu sem gæti hugsanlega staðið að þessu svæði og það kemur til dæmis inn í myndbandið í sýningunni af flugunni – hún er tákn fyrir einhvers konar höfðingja og stærðarhlutföll um hver er óvinur hvers. Ég komst að því að stærstu óvinir flugna eru fuglarnir sem okkur finnst litlir og sætir.

Svona fer þetta svona koll af kolli. Við erum með litla flugu sem í sínum veruleika er ekkert lítil. Hún er bara eins og hún er. Svo erum við með fugla sem eru litlir líka en á hennar mælukvarða eru risastórir. Í raun og veru endar þetta í manngerðum orrustuflugvélum sem á ljósmynd líta út eins og leikföng. Verkið fjallar mikið um kristöllun. Byrjar í stóra og ferð í það minnsta og byrjar í því minnsta og ferð upp í það stóra. Þannig byggðist upp heimur bara eins og við upplifum heiminn í kringum okkur. Spurningar vakna eins og hver er vinur? Hver er óvinurinn? Af hverju stafar hætta? Hver er sterkari? Hver er veikari? Hvað er styrkur? Hvað er veikleiki? Þegar maður fer að tala um England sem þetta svæði þá er það auðvitað ekki til. Þetta er bara ímyndun.

England er í raun og veru staðgengill. Sýningin er í raun og veru uppkast að stað sem er ekki til.’

Hulda Rós Guðnadóttir


Ljósmyndir: Hulda Rós Guðnadóttir

Freyja Reynisdóttir með sýninguna “Searching“ í Kubbnum

Freyja Reynisdóttir með sýninguna “Searching“ í Kubbnum

Freyja Reynisdóttir með sýninguna “Searching“ í Kubbnum

Freyja Reynisdóttir setti nýlega upp sýninguna “Searching“ í Kubbnum sem er rými í Listaháskólanum í Laugarnesi. Sýningin var einkasýning Freyju og úskriftarsýningin hennar í meistaranámi í myndlist við Listaháskóla Íslands 2022.

Sýningarýmið Kubburinn minnir á „White Cube“ sem er týpískur nýlista sýningarsalur. Einnig ber rýmið sterkan keim af gamla iðnaðarhúsnæðinu sem það sannarlega er, hátt til lofts og steypt í hólf og gólf.

Ál gluggarnir eru allir á einum vegg og gefa góða birtu, en málað steingólfið getur speglað flest sem ferðast um rýmið, bæði verkin og gestina. Freyja valdi að dempa birtuna og eru gluggarnir mjólkurlitaðir á meðan á sýningunni stendur sem gefur mýkri birtu.

Freyja vinnur bæði með rýmið í verkunum ásamt því að vinna með rýmiskennd og gera þátttakendur sjálfkrafa hluta af verkunum með speglunum í gleri sem hún notar í öllum verkunum. Það er ekki tilviljun að Freyja velur rúðugler bæði í ramma og aðrar innsetningar þar sem það er hluti af verkinu að um leið og áhorfendur koma inn í rýmið geti breytist ásýnd verkanna með návsit þeirra.

 

Sýningunni má líkja við ratleik, áhorfandinn ferðast um rýmið og sér tákn á sem tengjast og einnig eru verkin í samtali við rýmið og áhorfandann á sama tíma.

Freyja gefur hér áhorfandanum tækifæri á því að bæði sameinast verkum hennar og rýminu á sama tíma, hún gefur hint af skemmtilegum tengingum verkana og rýmisins og gefur það sýningunni skemmtilega heild. Hún vinnur með Járn sem hún hefur rafsoðið og gler sem hún hefur skorið allt eftir kúnstarinnar reglum. Það er eins og formið í verkunum sé nákvæmlega útreiknað og passi hvort inní annað.

Litavalið í málverkunum túlka blæbrygðið í birtunni á þeim tíma sem þau voru unnin. Það er áhuguavert að sjá hvernig íslenska birtan breitir litunum eftir árstíðum og hefur Freyja náð að fanga litina í birtunni í lok vetrar og sést munurinn glögglega á þeim tíma sem sýningin stendur yfir. Verkin sýna ekki aðeins rýmið heldur einnig rýmið í ákveðinni árstíðabundinni birtu.
Sýningin samanstendur meðal annars af málverkum á striga í stálramma, það glampar á glerið og það kemur skuggi á málverkið sjálft, það hefur einnig verið gert form/tákn utaná glerið sjálft, áhorfandinn getur séð verkið á marga vegu og felur breyingin í sér hreyfimynd og síbreytileika bæði þess sem horfir og annara sem ferðast um rýmið á sama tíma.

Einnig er innseting á gólfinu, samsett af málverki strekkt á blindramma, aflöngri T-laga stál stöng og gleri sem tengi þessi tvö element saman. Þar hefur Freyja líka málað óráðið form á glerið. Það er eins og hún sé að reyna að segja manni eitthvað, þetta er eins og vísbending númer tvö. Við Ferðum áfram um rýmið og það tekur við annað málverk á striga sem hefur verið rammað inn í sér hannaðan stál ramma og málverkið sýnir einmitt líka rýmið með öðrum tón, eða eins og það leit út á undirbúnings tímanum.
Endurtekningarnar í liti og formi eru líka magnaðar upp með skúlptúr sem er haglega smíðaður af Freyju. Gler og stál, samsetingin gefur hit gefur hint af sýningarborði, en glansandi glerið bæði í botni og loki

Þóra Karlsdóttir

 

The interview is part of a collaboration between Artzine and a new MA in Curatorial Practice at the Iceland University of the Arts.

Viðtalið er hluti af samstarfsverkefni Artzine og nýrrar meistaranámsleiðar í sýningagerð við myndlistardeild Listaháskóla Íslands á vorönn 2021.

Töfrarnir í myndlistinni – A Bra Ka Da Bra í Listasafni Reykjavíkur

Töfrarnir í myndlistinni – A Bra Ka Da Bra í Listasafni Reykjavíkur

Töfrarnir í myndlistinni – A Bra Ka Da Bra í Listasafni Reykjavíkur

Sýningin A BraKaDaBra fer fram þessa dagana í Listasafni Reykjavíkur. Listaverk sýningarinnar eru öll í safneign Listasafns Reykjavíkur og á sýningunni eru ýmis verk frá síðustu árum. Sýningin er í þremur sölum, A, B og C og þess ber að geta að nýr fræðsluvefur á heimasíðu listasafnsins tengist sýningunni.

Abrakadabra er fyrir margra hluta sakir ansi merkileg sýning. Um leið og gengið er inn í sal A er líkt og einhver óútskýranlegur töfraheimur taki við manni. Það er einhver kraftur, einhver andi í salnum og ekki er óviðeigandi að fyrsta verk á vinstri hönd sé verk um svefn og drauma, eða öllu heldur draumalandslag. Listamanninum Fritz Hendrick IV tekst vel til að koma svefni á framfæri myndrænt. Virkilega fallegar myndir sem lýsa svefni vel og fær Fritz mörg prik í kladdann fyrir þessa hugmynd.

Fritz dregur upp línurit byggt á upplýsingum úr smáforriti sem mælir gæði svefnsins í gegnum snjallsíma. Málverkin eru síðan innblásin af grafinu sem hver nætursvefn skilar, svo úr verður einhvers konar draumalandslag. Þess ber að geta að Fritz á annað verk í salnum, stór kirkjuklukka sem hangir í loftinu. Það er eitthvað einnig draumkennt við hana, eins og hún eigi ekki heima þarna, en samt sem áður, vegna áðurnefnds andrúmslofts, þá á þetta verk svo vel við.

Ef gengið er áfram má sjá verk eftir Ólaf S. Gíslason sem saumað er úr fötum Steingríms J Sigfússonar, fjármálaráðherra og heitir Þjóðarsál. Skemmtileg hugmynd og ef rýnt er í nafnið og athygli veitt að því að fyrrum fjármálaráðherra hafi klæðst þessum fatnaði á álagstímum þá má finna mikla dýpt og mikla tengingu. Að mínu mati lætur þetta verk mann ekki ósnortinn, annað en mætti halda við fyrstu sýn.

Það sem nær athygli manns, ef ekki strax, þá ansi fljótlega, er verk eftir Hrafnhildi Arnardóttur eða Shoplifter eins og hún er oft betur þekkt sem. Litríkur gervihárhellir blasir við, með skærri ljóskúlu í miðjunni. Það er nánast óþarfi að fara mörgum orðum um verk Hrafnhildar en þau hafa vakið óskipta athygli og ekki af ástæðalausu. En mér finnst mikilvægt að minnast á þetta verk, það er einna líkast því að maður sé að fara til spákonu í Múmínlandi. Allt svo leyndardómsfullt, svo mjúkt og þegar maður stígur inn í „hellinn“ þá er svo gott að vera þar. Maður vill ekki fara neitt, þetta er öruggur staður þar sem ekkert vont getur gerst. Og þetta verk eykur á ævintýrablæ sýningarinnar, gerir draumsýna skýrari og meira spennandi.

Fyrir miðjum salnum er áhugavert verk eftir Katrínu Sigurðardóttur. Katrín býður áhorfendum að stíga upp á hvítan kassa. Þá er áhorfandinn í raun orðinn þáttakandi í verkinu, orðinn að eins konar skúlptúr eða styttu ofan á stöpli. Í kassanum er svo gat og áhorfandinn þarf að stinga hausnum í gatið til þess að sjá upp undir loftið. Þar leynist ævintýralandslag með eyjum og fjöllum í allar áttir. Þessi athöfn að fara á hvolf og horfa inn í bjartan kassann, er ákveðin upplifun.

Blóðið streymir í höfuðið og eykur það á áhrifin sem verða við að sjá fallegan heim opnast, sem er samt sem áður á hvolfi. Eitthvað er svo rétt, eitthvað svo rangt, eins og í draumi. Sjón er sögu ríkari. Gegnt þessum áhugaverða kassa eru verk eftir Hildigunni Birgisdóttur. Enn á ný tekst henni að ná athygli manns með því að setja hversdagslega hluti í sviðsljósið með skemmtilegri framsetningu. Stundum eru eins og hlutirnir sem hún notar til að setja upp verkin vekji meiri athygli hjá manni, líkt og krókurinn sem sítrónumiðinn hangir á í einu verki hennar hér á þessari sýningu.

Einfaldi hversdagsleikurinn gerir galdurinn hér á þessari galdrasýningu. Áfram er gengið og ekki er hægt að sleppa því að staldra við verkin hennar Auðar Lóu. Hún sækir innblástur í skrautstyttur sem voru vinsælar í gamla daga í Bretlandi. Þær sýndu ýmislegt sem fólki fannst fallegt, skemmtilegt eða virðingarvert. Hér leitar Auður að fyrirmyndum á internetinu og staldrar við það sem vekur áhuga hennar. Hún býr síðan til styttur eftir myndum á skjánum en í stað postulíns notar hún pappamassa. Þessi verk hennar er maður farinn að sjá meira og meira, bæði í hinum veraldlega heimi sem og á samfélagsmiðlum og vekja þau ávalt fram bros og athygli.

Nú rek ég augun í verk, sem í sannleika sagt ég tók hreinlega ekki eftir við fyrstu skoðun. Dæmi hver sá sem vill þessi orð, en það er ekki eins og verkið „Aha kassinn“ eftir Magnús Helgason lýsi upp salinn. Síður en svo, því hér er á ferðinni brúnn pappakassi sem hangir á einum vegg salarins. Kassinn sem hangir á veggnum er eins og hver annar pappakassi, en ef maður fylgist aðeins með honum kemur maður auga á vír sem hreyfist af sjálfu sér. Heiti verkefnisins vísar til uppgötvunar. Þegar ég uppgötvaði verkið, uppgötvaði ég margt annað. Töfra litlu hlutanna, einfaldleikans. Hugmyndin er frábær, ég gæti horft á vírinn í verkinu heilu dagana og segir það meira um verkið en sjálfan mig, held ég.

Eftir að gengið er inn í sal A vekja ákveðin hljóð mikla athygli. Um er að ræða annars vegar flaut frá manneskju og hinsvegar skerandi píp. Hér er á ferðinni verk eftir Loga Leó Gunnarsson. Verk Loga er gert úr lyklakippum sem pípa þegar maður flautar. Logi hengir þær á vegg og rétt hjá er sjónvarp og á skjánum flautar hann af og til og lætur lyklakippurnar pípa. Snilldar hugmynd og frábær framkvæmd sem laðar mann að verkinu og leyfir manni ekki auðveldlega að yfirgefa það.

Þegar komið er upp í B sal vekja athygli mína verk eftir Önnu Líndal. Verkið er ljósmynd af leysisskanna í Grímsvötnum sem notaður er til þess að fylgjast með hreyfingum í ísnum á þessu síbreytilega svæði. Anna notar listsköpun til þess að fylgjast með því hvernig vísindamenn skoða, mæla og skrásetja náttúruna. Er horft er á ljósmyndina fær maður óneitanlega á tilfinninguna að skanninn sé vondi kallinn, áminning um fótspor mannkynsins, hið vélræna. En hið rétta er að hann er alveg saklaus í þessu ferli, skanninn er í raun og veru bara eftirlitstæki og minnir á vánna sem sækir að okkur. Hann er því bráðnauðsynlegur og afskaplega saklaus, næstum því krúttlegur, það er því ákveðin mótsögn þarna og annað en virðist við fyrstu sýn.

Fyrir miðjum salnum er verkið Ruggustóll eftir Baldur Geir Bragason en ruggustóll Baldurs er búinn til úr sama efniviði og málverk, máluðum striga og rammaefni. Hann er í raun þrívítt málverk komið út á mitt gólf. En ruggustóllinn er fastur í kyrrstöðu, hann getur ekki ruggað fram og tilbaka. Maður vill óneitanlega setjast í stólinn og rugga sér frameftir degi. En það má því miður ekki, sem gerir verkið sennilega enn meira spennandi, þessi mikla löngun og aðdáun.

Við útganginn á salnum má sjá verk eftir Kristján Steingrím Jónsson. Kristján Steingrímur spáir í það hvernig við tengjumst hinum ýmsu stöðum. Hann skoðar umhverfið og aðstæður en tekur síðan með sér mold eða sand frá staðnum og notar í listaverk. Hér hefur hann tekið jarðefni frá eldfjallinu fræga, Heklu, og búið til málverk. Hann málar ekki mynd af fjallinu heldur málar litafleti með jarðefninu beint á strigann. Þessi aðferð er afar athyglisverð að mínu mati. Maður horfir á þau og hugsar með sér hvað maður sé að horfa á, landslag eða abstrakt? Hughrifin eru mikil og maður gleymir sér í eigin heimi og heimi listamannsins.

Í sal C og tekur við kímnigáfa og almenn skemmtilegheit. Til að mynda myndbandsverk Hreins Friðfinnsonar, þar sem má sjá listamanninn Kristin E. Hrafnsson hoppa á trampolíni. Það er eitthvað heillandi við að horfa á miðaldra mann hoppa og skoppa á trampólíni líkt og barn og minnir mann á að hætta aldrei að leika sér og lifa í núinu.

Er lengra inn í salinn er komið má sjá verk eftir Karin Sander sem ber nafnið Póstlagt málverk. Um er að ræða kringlótt málverk sem ferðaðist frá vinnustofu þýsku listakonunnar á sínum tíma sem glænýr, hvítur, hreinn strigi strekktur á blindramma. Hún sendi það með pósti þangað sem það var sýnt án þess að pakka því inn og á leiðinni söfnuðust alls konar óhreinindi á það, límmiðar og merkingar. Nú hefur það farið fram og tilbaka á milli nokkurra staða og verkið varð til á leiðinni á tilviljunarkenndan máta.

Að lokum ber að nefna verk eftir Leif Ými Eyjólfsson sem vakið hafa verðskuldaða athygli og kátínu. Verk Leifs Ýmis byggist á safni orða, texta og setningarbrota sem hann hefur haldið til haga síðustu ár. Hann hefur sérstakt dálæti á því sem kemur dags daglega fyrir í samskiptum á milli fólks eða því sem maður hugsar með sjálfum sér án þess að því fylgi sérstök merking. Það hljóta allir að geta tengt við þessi verk og stóð ég sjálfan mig að því að hlæja upphátt oftar en einu sinni, þrátt fyrir að vera ekki að sjá þau í fyrsta sinn, langt því frá. Og í því felst galdurinn held ég.

Aron Ingi Guðmundsson.


Ljósmyndir: Julie Sjöfn Gasiglia

Tvö mismunandi sjónarhorn, samtímis

Tvö mismunandi sjónarhorn, samtímis

Tvö mismunandi sjónarhorn, samtímis

Titill greinarinnar vísar hér í tvíþætta skynjun á verkum Jónu Hlífar Halldórsdóttur í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Annarsvegar sjónarhorn myndmálsins og umfjöllunarefnis þess og hins vegar tungumálið og nálgun þess við myndirnar. Einnig vísar þetta til þess að nokkur verkanna, einkum verkið Snævetur, sem prýðir forsíðu sýningarskrár, leiðir hugann að skýjum og bláum himni þegar horft er upp frá jörðu og ský og vatn (oftast Atlantshafið) þegar horft er niður úr flugvél. Það breytir skynjuninni í einhverskonar sjónhverfingu, eins og ef hægt væri að staðsetja sig á tveimur mismunandi stöðum samtímis og horfa á nokkurnveginn það sama.

Veður og tíminn

Sýningin Vetrarlogn opnaði 4. desember 2021, á nýju tungli. Jóna Hlíf hannaði sýninguna inn í rýmið og fellur hún því vel að nokkuð flóknu sýningarrými byggingarinnar. Það er hár og hrár steinsteyptur veggur í gangvegi og rýmið Leyningur sem upphaflega átti að þjóna sem fatahengi. Þar staðsetur hún eitt myndverkanna ásamt stöpli með nýútkominni bók sinni, nokkuð frá verkinu. Standi menn andspænis veggnum sést öll sýningin samtímis, líka það sem er í gáttum Leynings. Uppsetningin er bæði elegant og vel skipulögð, á átta jafnstórum álplötum, 130 x 100 cm á stærð. Uppsetningin myndar samtímis spennu og jafnvægi milli verkanna og bókarinnar.

Sýningarskráin sem fylgir sjálfri sýningunni gegnir mikilvægu hlutverki, með texta, sem er nauðsynlegur fyrir dýpri skilning á grunnhugmyndinni sem verkin og sýningin byggir á. Hvert verk er spreyjað hvítt en nokkur þeirra fá síðan bláa lífræna flekki. Þau innihalda öll útskorinn texta í myndflötinn sem hallar mismikið fram úr myndinni að áhorfendunum. Verkin myndu því falla undir skilgreininguna lágmyndir, þar sem þau eru í senn tví- og þvívíð og hengd á vegg. Textarnir mynda skugga á myndfletinum og má líta á það sem einhverskonar vetrarlandslag þar sem fjallatoppar standa upp úr snjóþekju. Einnig má túlka það sem skugga tungumálsins, því málið á bæði bjartar og dökkar tilfinningalegar hliðar. Nýja tunglið er hér nefnt til að vísa í tíma. Árstíðir og tími ársins sem vetrarveðrið herjar með hæðum og lægðum er myndgert. Textinn byggir á aldagömlum annálum.

Tungumálið og myndverkin mynda eina heildarhugsun

Titillinn Vetrarlogn slær tóninn. Sýningarskráin er í senn ljóðræn og upplýsandi en texti hennar byggir á annálum um árferði vetra sem fyrr segir. Textinn er unninn í nánu samstarfi við Hjálmar Brynjólfsson. Texti eftir Hjálmar birtist sem skýring á sýningu Jónu Hlífar, Meira en þúsund orð, í Listasafninu á Akureyri 2020. Skýringartextarnir eru mikilvægir til að ná til þeirra þátta og djúpu hugsana og hugmynda sem sýningar Jónu Hlífar byggja á. Á sýningunni Vetrarlogni er vetrum á Íslandi lýst á mismunandi tímabilum, ýmist með vaxandi lægðum og óveðri eða þá logni þess á milli eins og stendur í skránni. Ljóstakturinn helst hins vegar sá sami öll ár samkvæmt sólargangi og hnattstöðu.

Ég minnist þess ekki að nokkur myndlistarmaður hafi gert íslensku vetrarveðri svo góð skil. Það sem er áhugavert er líka notkun tungumálsins, stundum sem ljóðbrot eða einhverskonar örsögur, þó allt byggt á skráðum veðurfarslýsingum. Efnisnotkun Jónu Hlífar fellur sérlega vel að innihaldi listaverkanna þar sem túlkun hennar og tjáning á vetrarhörkunni er spreyjuð með hvítum lit og stundum bláum, á kaldar og harðar málmplöturnar. Ekkert vinnur á þessum málmi og ekkert nema sólarylur sumarsins vinnur á vetrinum. Málmurinn er varanlegt efni og getur við réttar aðstæður sómt sér jafn vel úti sem innandyra. Vetrarharkan er líka árviss og varanleg þó það sé erfitt að muna það á góðum sumardegi. Listaverkin eru samspil á lýsingum veðurfarsins, landsins og svo tungumáli þjóðarinnar, hringrás árstíða og harðbýli langra vetrarmánaða.

Verkin fjalla líka um grunninn í sjálfsvitund þjóðarinnar, tungumálið litað af alda langri einangrun en þó með rætur til tungumála eldri þjóða. Á einum stað í sýningarskrá stendur eftirminnilega: vetrarlogn gegnir sama hlutverki við að skilja árstíðina og bilið eða eyðan milli stafa og orða í tungumálinu…

þetta tel ég vera galdur listaverkanna og í raun sýningarinnar í heild. þetta samspil þagnar tungumálsins og logni vetrarveðursins ásamt andstæðum þess, átökunum og kraftinum bæði í orðum og veðri. Veðrið og umhverfið hefur mótað þjóðina frá upphafi landnáms og skynjun hennar á umheiminum. Þó landnámsmenn hafi auðvitað haft sitt eigið tungumál sem síðan hefur þróast og breyst ásamt lifnaðarháttum og margskonar áhrifum, t.d. frá  þrælunum sem þeir tóku sér á leiðinni og hefur hluti tungumálsins byggt á orðnotkun frá þeim ekki síður en fornnorsku. Við horfum þó alla jafna meira á norræn áhrif og tungumálagrunn heldur en keltneskan orðaforða sem leynist þó í málinu.

Tungumálahefðin og ritmálið var í rúmt árþúsund helsti listræni tjáningarmiðillinn í formi sagna og ljóða. Ekki þróuðust hér aðrar listgreinar í sama mæli eins og víða um heim. Víkivaki og einhver sönglög hafa þó orðið hér til, mest sennilega rímnaljóðin og sálmar, en þá eru hvorutveggja væntanlega tilkomin eftir orðum og texta en ekki orðum bætt við hrinjandi í söng. Hlutverk laganna er hugsanlega að hjálpa minninu að varðveita orð og texta, og síðar verður það félagslegt fyrirbæri í söng og hópdansi reikna ég með.

Ísland er land tungumálsins og sagnahefða, þögnin þótti ekki síður mikilvæg en hið talaða orð. Veðrið er og var og verður alltum ríkjandi og stöðugt nærverandi í hugum landsmanna enda afkoman grunduð á því sem landið og hafið gaf, þegar veður leyfði, í gegnum árhundruðin.

Á sýningunni vinnur Jóna Hlíf með undirstöðu lífsins á þessari afskekktu eyju, veðrið sem stjórnar afkomunni og lífsskilyrðunum og tungumálið sem vex fram og mannlífið byggir á. Allt er breytingum háð, líka tungumálið og veðurkerfin. Tungumálið er viðkvæmt í fjölmenningarsamfélögum og tæknivæddum nútímanum enda er það ekki óumbreytanlegt staðlað kerfi þó menn vilji seint trúa því varðandi íslenska stafsetninu og y, sem hefur ekkert hljóðfræðilegt gildi í tungumálinu lengur en hins vegar sögulegt gildi að hluta til.

Breytingar eru eðlilegar í tungumálum sem eru lifandi tjáningarmiðill manna á meðal, ritmálið fylgir á eftir. Gamlir forhertir íslenskuunnendur hafa þó lengi reynt að fá menn til að einblína fyrst og fremst á ritmálið og aðlaga tungutak sitt eftir því. Ég styð það að hluta til því að lestur bókmennta og ljóða eykur orðaforða og skilning og gerir málnotkunina blæbrigðaríkari og áhugaverðari. Erfitt er þó að þvinga talmálið í form eldra ritmáls án þess að það verði hjákátlegt. Bókmenntir og ljóðlist efla anda lesandans og gerir líf hans tvímælalaust ríkara. Breytingar eru hluti af ferli tungumála og því miður eiga tungumál sem fáir tala undir högg að sækja og ríkjandi tungumál sem margir tala nær oftar en ekki yfirhöndinni, t.d. enska, kínverska, arabíska, rússneska og spænska.

Mörgum þykir stefna í að hér verði enskan ríkjandi tungumál ásamt íslensku. Yngri kynslóðirnar verða tví- og þrítyngdar sem væri nýr íslenskur veruleiki, en hér er ekki lagt mat á gildi þess. Jóna Hlíf vann á eftirminnilegan hátt með sýningu sinni á Mokka 2021 með áhrif mynda úr íslenskri náttúru og margskonar tungumál, orð og tákn. Veðurfar og veðrakerfi breytast vegna hlýnunar jarðar, hitastig sjávar og lands breytist, tegundir gróðurs og dýra hverfa og annað nýtt skýtur upp kollinum. Sýningin Vetrarlogn minnir á fortíðina með föstum lifnaðarháttum, veðurfari og tungutaki, og svo nútíman sem er breytingum háður og framtíðin óljós, á öllum sviðum.

Tungumálið verður uppistaða myndverka

Textinn er knappur, lýsandi og byggður á staðreyndum en hann er ekki síður myndrænn hvíti og blái liturinn á álplötunum, og saman myndar þetta heilsteypt listaverk. List myndverka, list tungumálsins í eftirtektarverðri blöndu. Fluxushreyfingin varð til þegar einkum ritlistin braut sér leið í myndljóð, oft ómerkingarbærra orða eða setninga, önnur listform fylgdu á eftir m.a. myndlistin. Það er þó oft álitamál hvenær slíkar liststefnur eiga sitt upphaf og hver er upphafsmaður eða menn. En þessi myndverk leiða hugann að hluta til þangað og einnig til fyrri verka listamanna á borð við Josephs Kosuth og í einhverjum tilfellum verka Lawrence Weiner.

Margir hafa notað texta í verkum sínum, hérlendis m.a. Kristinn E. Hrafnsson og erlendis fjöldi ólíkra myndlistarmanna. Það má finna samhljóm með þeim og Jónu Hlíf á einhvern hátt í forminu á framsetningu textanna eins og áður er getið, en innihaldið og konceptið er allt annað. Grunnhugmyndin bak við verk Jónu Hlífar er styrkurinn ásamt leturgerðinni og hún hefur í lengri tíma unnið við að þróa samband myndar og texta og hefur náð sérstöðu í því hérlendis. Leturgerðin er persónuleg og orðin auðþekkjanlegt höfundareinkenni Jónu Hlífar. Hver og einn skilur listaverkin á sinn hátt og þar getur þá skilið á milli manna. Í verkum Jónu Hlífar finnur kímnin sér oft farveg, jafnvel stöku sinnum viss kaldhæðni.

Efnismeðferð listaverkanna

Eldri verk Jónu Hlífar sem innihalda bókstafi eða texta hafa verið gerð í pappa, karton eða pappír, sem er mun viðkvæmara efni og oft ekki svo endingargott, það getur auðveldlega rifnað og upplitast. Álplöturnar eru léttar en líka eru þær meðfærilegar, vissulega dýrari en endast betur. Þær falla vel að innihaldi verkanna; harðar, kaldar, sterkar og varanlegar. Það fer þó allt eftir innihaldi texta og myndar, ef það er mynd á annað borð, hvaða efni hentar best, stundum er það pappírinn sem hentar innihaldi verkanna og formi betur, samanber listaverkið Íslenskt myrkur, sem var á sýningunni Meira en þúsund orð, þar naut pappírinn sín sérlega vel.

Listferlið, niðurstaðan

Oft er sjálft listferlið ekki síður áhugavert heldur en loka niðurstaðan. Listsköpun er langt og strangt ferli og ekki á vísan að róa að viðkomandi listamanni fari fram með hverri sýningu og hækkandi aldri. Einhverjir listamenn gera sín bestu verk snemma á ferlinum, aðrir seint. Áhugavert er að skoða listferil myndlistarmanna sé þess einhver kostur og sjá hvar þeir eru í ferlinu og hver vegferðin er. Verk Jónu Hlífar hef ég séð reglulega síðan hún var í grunnnámi í myndlist á Akureyri. Listferlið, áhrifin, úrvinnslan og svo tjáningin og framsetning verkanna í sýningarsalnum er, í mínum huga, allt ein heild. Það truflar mig ekki að sjá áhrif annarra listamanna í verkum myndlistarmanna yfirleitt, hvorki frá þeim stað sem dvalið er á né frá umhverfinu. Ég er ekki að tala um eftirhermur, það er allt önnur umræða.

Það er oft áhugavert að vita af áhrifavöldum og skilja hvernig listamenn tileinka sér og vinna með það sem hrífur þá eða vekur ástríðu, þörf eða áhuga þeirra. Ég skynja nálægð ljóðlistar og dýpri hugsana varðandi notkunar tungumálsins í nærumhverfi Jónu Hlífar sem gerir list hennar hnitmiðaðri og eykur sérstöðu hennar. Þessi áhrif séu þau til staðar eru þá örfandi. Þar fyrir utan er eðlilegt, jákvætt og ánægjulegt að eiga einhverskonar samtal eða samvinnu í listum, stundum sjá augu betur en auga, og tvær listgreinar sem fléttast saman gera listina oft meira marglaga, dýpri og jafnvel áhugaverðari. Vetrarlogn er eftirminnileg sýning og áhrifarík. Bók Jónu Hlífar sem var að koma út, er sérlega falleg og spennandi. Ég hef engin tök á að gera henni skil hér, enda aðrir betur til þess fallnir. Ég lýk þessum skrifum með tilvísun í texta sem er eftir Joseph Kosuth, verkið kallast Glasstree frá ca.1991 en þessi texti er silkiprentaður á glerplötu sem er 175 x 175 cm á stærð: How words are understood is not told by words alone.

Pálína Guðmundsdóttir

 


Sýningartexti –  Vefsíða: www.jonahlif.is


Akureyri 4.-23. desember 2021. Pálína Guðmundsdóttir, starfandi myndlistamaður, menntuð í málvísindum auk myndlistar og kennslufræðum.
Ljósmyndir: Myndir teknar í HOFI: Magnús Helgason, myndir með hvítum bakgrunn: Vigfús Birgisson.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest