Gjöfin til íslenzkrar alþýðu

Gjöfin til íslenzkrar alþýðu

Gjöfin til íslenzkrar alþýðu

„Menn vita ekki að þróun listgreina í landinu er meira og minna einum manni að þakka. Manni sem eitt sinn átti sér draum og nú er að rætast að fullu. Manni sem heitir Ragnar Jónsson og kenndur er við Smjörlíkisgerðina Smára.“ 

Svo mælti Kristján Davíðsson um vin sinn og bakhjarl Ragnar Jónsson í viðtali við Ingólf Margeirsson sem birtist í bók Ingólfs um Ragnar árið 1982. Þetta eru orð að sönnu enda markaði Ragnar djúp spor í menningarlífinu á liðinni öld. Hann átti þátt í því að lyfta tónlistarlífinu í Reykjavík upp á annað plan, hann gaf út bækur af miklum móð og svo keypti hann myndir af listamönnum, bæði af sýningum og beint af vinnustofum þeirra. Flest áhugafólk um myndlist þekkir ef til vill til gjafar Ragnars á listaverkum sínum til Alþýðusambands Íslands. Eftir rúmlega þriggja áratuga söfnun gaf Ragnar ASÍ um 120 verk sem skyldu verða grunnur að alþýðusafni sem hefði þann tilgang að mennta íslenska alþýðu í málaralist. 

Stóran hluta af stofngjöf Ragnars má skoða á sýningunni Gjöfin til íslenzkrar alþýðu sem er samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga og Listasafns ASÍ, en sýningarstjóri er Kristín G. Guðnadóttir. Þrír salir safnsins (af fjórum) fara undir sýninguna auk þess sem þrjú verk eru í miðlægu aðalrými safnsins. Á sýningunni eru alls 52 verk eftir fimmtán listamenn til sýnis, það elsta frá 1906 en yngstu verkin er frá um 1960.

Verkin í hverjum sal fyrir sig fylgja lauslega skilgreindu þema. Þannig eru verkin í fyrsta salnum að mestu leyti landslagsverk, verkin í öðrum salnum mannamyndir og verkin í þriðja salnum eiga það sammerkt að vera tjáningarrík verk „þar sem áherslan er lögð á upplausn formsins og sprengikraft litanna,“ líkt og segir í sýningarskrá. Í aðalrýminu má svo finna tvær blómauppstillingar og stórt olíuverk Kjarvals, Hellisheiði.

Uppsetning sýningarinnar er að mestu í takt við verkin, sígild. Málverkunum er raðað eftir miðlínu á hvíta veggi, sem er viðbúið. Á sýningunni má samt sem áður finna áhugaverðar undantekningar á þessari reglu. Útfærslan á mannamyndunum í sal tvö er gott dæmi um slíka undantekningu. Á rauðum endavegg má finna sjálfsmyndir fimm listamanna og á aðliggjandi vegg vinstra megin má finna tvær portrett myndir af listamönnum sem eiga verk á sýningunni, þeim Þorvaldi Skúlasyni og Nínu Tryggvadóttur. Gegnt Nínu og Þorvaldi er svo mynd af Ragnari sjálfum á hvítum vegg, máluð af Jóhannesi Kjarval. Með þessari uppsetningu og litavali tekst sýningarstjóranum vel að hópa listamennina saman, en miðlínu er sleppt og neðri hluti hvers ramma stendur á sameiginlegri línu. Listamennirnir eru þar með allir á sama stalli. Ragnar stendur þannig fyrir utan hópinn auk þess sem mynd hans hangir er látin hanga ögn hærra á veggnum sem undirstrikar hlutverk hans sem velgjörðarmanns. 

Sá listamaður sem átti flest verk í safni Ragnars var Jón Stefánsson.

Mannamyndir voru mikilvægur hluti af safni Ragnars.

Það má þó deila um þá ákvörðun að láta Ragnar hanga hærra uppi heldur en listamennina sjálfa. Við lestur á því sem skrifað hefur verið um persónu Ragnars má skilja það sem svo að hann hafi verið yfirlætislaus maður og seint viljað trana sér fram. Því til stuðnings verður hér aftur vísað til spjalls þeirra Ingólfs Margeirssonar og Kristjáns Davíðssonar, en Kristján kemst svo að orði um Ragnar: „[H]ann vill láta verk sín líta út sem sjálfsagaða hluti þar sem nafn hans kemur hvergi fram. Hann vill vera, en ekki sýnast eða sjást.“ Í þessu samhengi má auk þess minnast sögunnar af því þegar afhending stofngjafarinnar fór fram í Listamannaskálanum samhliða opnun sýningar á stórum hluta gjafarinnar. Mikill fjöldi tiginna gesta var viðstaddur, en í hópnum var Ragnar hvergi að finna, heldur færði Tómas Guðmundsson ASÍ verkin formlega fyrir Ragnars hönd. Það má því færa rök fyrir því að Ragnar hefði sjálfur kosið gegn því að vera settur ofar listamönnunum. 

Aðra undantekningu á miðlínu og hvítum veggjum má finna í sal þrjú. Á dökkgráum vegg sem blasir við gestum þegar þeir ganga inn í salinn hanga tólf abstrakt verk sex listamanna í salon upphengi. Veggurinn brýtur rýmið upp á hrífandi hátt og útfærslan virkar vel. Sýningargestir taka kannski fyrst eftir því í sal þrjú að verk einstakra listamanna eru ekki sérstaklega látin hanga hlið við hlið og strangri tímaröð er ekki heldur fylgt. En það sem mestu máli skiptir er það að uppsetning sýningarinnar er fyrst og fremst rökrétt – þau verk sem valin eru til þess að hanga hlið við hlið virka saman. 

Á sýningunni er auðvelt að nálgast upplýsingar um nafn listaverks, höfund og ártal og við hlið margra þeirra má auk þess finna stutta texta. Kjarni þessara texta eru tilvitnanir í listamenn, Ragnar sjálfan eða í bækur Björns Th. Björnssonar um íslenska listasögu og eru textarnir skemmtileg viðbót við sýninguna. Prentun textanna og merkinganna hefði þó mátt vera betri, svo virðist sem prentað hafi verið á hálfglæra miða sem límdir eru beint á vegginn. Fyrir vikið varð textinn ekki jafn læsilegur og sambærilegir textar sem prentaðir eru á hvít spjöld. Þá vantaði töluvert upp á yfirlestur textanna sjálfra og í þeim mátti finna nokkrar villur.

Samhliða sýningunni kom út vegleg bók um stofngjöf Ragnars. Í henni má finna myndir af öllum verkunum sem Ragnar færði ASÍ, bæði stofngjöfina frá árinu 1961, sem telur um 120 verk, og svo síðari viðbætur. Í heildina færði Ragnar ASÍ 147 verk. Auk myndanna má finna í bókinni fínan texta sem Kristín G. Guðnadóttir sýningarstjóri tók saman.

Það er vafalaust krefjandi verkefni að setja upp sýningu á verkum úr safneign eins manns. Sýningin getur, eðli málsins samkvæmt, ekki gefið sannfærandi mynd af þróun íslenskrar listasögu né verið greinargóð úttekt á tilteknu skeiði þess. Þegar öllu er á botninn hvolft er það smekkur eins manns sem liggur til grundvallar. Sýningarstjóranum vill það til happs að sá maður var Ragnar Jónsson í Smára og sýningunni tekst þar af leiðandi að gera þróun íslenskrar myndlistar skil að einhverju leyti. 

Sýningin er athyglisverðari en aðrar áþekkar sýningar einmitt fyrir þær sakir að þetta eru einvörðungu verk úr stofngjöf Ragnars. Mörg verka sýningarinnar eru áhugafólki um myndlist að góðu kunn, en þó líklega flest úr bókum. Sum verkin hafa meira að segja öðlast allt að því rokkstjörnufrægð, besta dæmið um það er Fjallamjólk Kjarvals. Enn önnur verk verðskulda að vera þekktari en raun ber vitni. Ragnar lagði þung lóð á vogarskálarnar í listkynningu með því að færa alþýðufólki sum þessara verka, sem og önnur þekkt íslensk málverk, í formi endurprentana. Það er þó tvennt ólíkt að standa frammi fyrir endurprentun af málverki og málverkinu sjálfu. Það er því fagnaðarefni að sýning sem þessi hafi verið sett upp, sýning sem gefur áhugasömum innlit í merkilega gjöf Ragnars Jónssonar í Smára til íslenskrar alþýðu. 

Grétar Þór Sigurðsson 


Sýningin stendur til 15. september, en Listasafn Árnesinga er opið alla daga frá 12 til 18. Þess ber að geta að ekkert kostar inn á safnið.

Sara Björg Bjarnadóttir – Mjúkberg / Soft Rock Assemblage

Sara Björg Bjarnadóttir – Mjúkberg / Soft Rock Assemblage

Sara Björg Bjarnadóttir – Mjúkberg / Soft Rock Assemblage

Sýningin Mjúkberg opnaði í Ekkisens þann 29. maí, þar sýndi Sara Björg Bjarnadóttir skúlptúra sem gerðir eru úr framtíðarbergtegund. Sara er fædd 1988, hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2015 og var þar á undan í fornámi við Myndlistarskólann í Reykjavík. Eftir útskrift flutti hún til Berlínar og dvaldi þar í starfsnámi hjá Markus Zimmermann, hún býr og starfar enn þar. Sara hefur sýnt bæði á Íslandi og erlendis. Mjúkberg er sjöunda einkasýning hennar en sú seinasta var í verkefnarýminu Babel í Berlín.

„Í minni list vil ég skoða samskipti milli líkamlegra hvata og rökhugsunar. Efni og form stýra líkamlegu ferli eins og fastur rammi utan um óhlutstæðan leik. Ég vinn í ýmsum miðlum og oft eru verkin bundin rýminu eða unnin sem könnun á ákveðnu formi eða efni. Ramminn leiðir mig áfram en það geta komið skarpar beygjur og þá, í gegnum spuna, finn ég jafnvægi milli þess að vera við stjórn og að sleppa.“

 

Samsetning Mjúkbergs:

Hálfstorknaðir skúlptúrar, myndbreyttir og mjúkir.

Umkristallaðar frumsteindir sem mynduðust í möttlinum.

Sýnistaka úr framtíðar sköpunarsögu jarðar.

Framtíðarbergtegundin Mjúkberg varð til í ferli þar sem efniviðurinn leiddi að kveikju á nýrri bergtegund. Sara hefur mikið verið að vinna með efnisheim svampsins. Í þessu tilviki vann hún með mjög kornóttan svamp sem fær þá eiginleika sökum þess að hann er endurunninn og ákvað hún að takmarka efnisnotkun sína við hann. Óregluleg form hans, afskorningar – leiddu hana áfram í efnisrannsóknini. Gólfið í rými

Ekkisens átti stóran þátt í því að móta verkin, nostalgísk minning hennar gagnvart þessari aðferð sem gólfið er málað með. Þessi aðferð við að ganga frá gólfum hefur heillað Söru frá því hún var ung. Gróf aðferð til að takast á við gróft undirlag, umhverfið er hrátt en þó frágengið.

„Þegar mér fannst ferlið vera að skýrast fór ég að tengja verkin við hina hefðbundnu skúlptúrgerð. Þar sem er verið að höggva stein eða nota marmara eða þvíumlíkt. Verkin fóru að verða fyrir mér einhverskonar sjónblekking – minnir á hart efni en er svo mjúkt. Ég fór að ímynda mér að ég væri að vinna eins og skúlptúristi af gamla skólanun nema ég væri í efnivið framtíðarinnar þar sem steinninn væri orðinn mjúkur.“

Í þessum leik skapaðist narratíva þar sem tveir andstæðuheimar fóru að spila saman. Hin klassíska skúlptúragerð – hinn harði heimur hins klassíska steinverks móti hinum mjúka svampi sem minntu Söru á post-módernismann, óhlutbundin form efniviðsins tengdu hana við módernismann.

„Ég ákvað að fara að kalla þetta soft rock – og þegar ég íslenskaði það varð þetta að þessu ákveðna fyrirbæri – Mjúkberg – við þýðinguna breyttist þessi efniviður í nýja bergtegund.“

Með tilkomu titilsins hófst rannsóknarvinna á hinum stórkornóttu bergtegundum sem báru svipaðan brag og Mjúkbergið. Þannig tvinnaðist saman hið ljóðræna og vísindalega í eitt sem byggt var á því að hægt væri að lesa í steintegundir. Hægt er að ímynda sér að þessar stórkornóttu bergtegundir hafi kristallast í ákveðnum aðstæðum, efnið mótast er kvikan verður til í hægum efnasamruna, djúpt ofan í jörðinni í nálægð við möttulinn. Margt sem verður eitt í aldagömlu bergi jarðar. Að lesa í steina gerir manni í raun kleift að rýna í fortíðarsögu sem gerist á gríðarlega löngu tímabili, tugir þúsundir ára af upplýsingum. Einnig getum við lesið í framtíðina – Mjúkbergið er hugsað sem framtíðarefni, ímynduð efnasamsetning fyrir það jarðlag sem við sem mannkyn gætum einn daginn skilið eftir okkur eftir allar þær landfyllingar sem eru að verða til. Afkomendur okkar gætu lesið í Mjúkbergið til þess að reyna að geta sér til um það hvað hefði verið áður. Þann efnisheim sem við lifum við núna.

Þessi kveikja samófst áhuga Söru á framtíðarvísindum og vísindaskáldskap. En sá hugmyndaheimur hefur haft áhrif á hennar listsköpun undandarin ár, þá helst á fagurfræðilegan máta. Einnig hefur hún verið að stíga inn í starf sem landvörður, því hefur jarðfræðisaga og umhverfismál staðið henni nærri upp á síðkastið.

„Án þess að vilja vera svartsýn – þá gæti maður samt gefið sér að þessi ofgnótt af framleiðslu sem mannkynið stendur að núna muni ófumflýjanlega skilja eftir sig spor og verða ritað í sögubækurnar. Spurning er bara hvernig það gerist og hvernig við munum aðlagast þeim breytingum sem munu verða. Við erum nú þegar búin að breyta heiminum og náttúru í svo miklum mæli að við getum ekki séð nákvæmlega fram í tímann hver áhrifin munu verða. Þetta verk gæti verið einhversskonar hugarleikur og vangavelta gagnvart því hvernig þessar breytingar gætu skapast og hverjar afleiðingarnar gætu orðið.“

Innsetningin á skúlptúrunum í rými Ekkisens bætti við fleiri sögnum við sýninguna er hún var í uppsetningu. Geisladiskastandur, hillur og húsgögn fengu ný og sjálfstæð hlutverk. Rýmið er í heimahúsi og getur því minnt á stofustemmingu fremur en whitecube. Skúlptúrarnir stækkuðu er tilviljunin tók við – er sýningin var að taka á sig mynd fann Sara fútúrískan geisladiskastand í ABC nytjamarkaðinum um viku fyrir opnun. Innsetningin bætti miklu við skúlptúruna er þessir hlutir komu inn og mynduðu samtal við þá. Smíðaðar voru aukahillur í þessa fundnu hluti og þannig skapaðist meiri heild fyrir sýninguna.

„Mér fannst eins og það kæmi einhvers konar tímatenging inn í sýninguna með þessu – þar sem geisladiskastandurinn er svo úreltur og tilheyrir fortíðinni. Hönnun hans er framtíðarleg, form hans er því myndbirting af framtíðarsýn fortíðarinnar. Þessi framtíðarbergtegund Mjúkbergsins brenglar þetta tímatal þar sem fortíðin og framtíðin stendur saman í einu rými og núllar hvort annað út. Þannig verður tíminn abstrakt og ólínulaga.”

Svampurinn hefur áður orðið fyrir valinu í listrænni vinnu Söru Bjargar og hefur hún gaman af því að kanna margvíslegar víddir á einu efni. Efnin og formin leiða hana áfram í ólíkar áttir – núna leiddi ný vídd þessa efnisheims að jarðfræðisögunni. Það skapast alltaf einhver sjónræn tenging þegar maður vinnur sig áfram í ferlinu sama hvort maður sé meðvitaður um það eða ekki.

Fyrstu verkin sem hún vann úr þessum efniviði var svampgryfja en eftir það fóru þessir afskorningar og form þeirra að tala sterkt til hennar. Á þessu ári hefur myndlistin hjá Söru stjórnast mikið til af stærðartakmörkunum og nettari skúlptúrar því verið ráðandi. Þessar takmarkanir verða að leik í vinnu hennar þar sem ramminn þrengist og hún þarf að bregðast við stærð hans. Fyrr á árinu urðu til annarsskonar verk úr svampi sem voru sýnd í Durden&Ray gallerí, í Los Angeles við góðar undirtektir. Sá heimur er birtist úr svampinum var þó af allt örðu tagi er jónískar súlur og grikklandstengingar urðu til fyrir þá sýningu. Það er áhugavert að hugsa til þess hvernig hver efnisheimur getur tekið mann á ólíka staði en þau verk sem Sara Björg hefur gert úr svampi eru öll mjög ólík.

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir

 


Photo credits: Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Sýningin Nervescape VIII er nafnið á sýningu Hrafnhildar Arnardóttur, eða Shoplifter, í Kiasma, nýlistasafn í miðborg Helsinki. Nervescape VIII er áttundi hluti sýningarraðarinnar sem einkennist af litríkum uppsetningum af gervihári sem gjörbreytir rýminu í litríkt landslag tauga.

Gleði yfir litadýrðinni er sú tilfinning sem ég fann er ég labbaði inn í rýmið seinnipart föstudags. Mikið var af fólki á efstu hæð Kiasma og það var ekki þögn eins og á hinum hæðunum, heldur ljúfur kliður. Ótrúlegt magn af gervihári í öllum regnbogans litum var búið að hengja þvers og kruss um rýmið í formum sem minna á taugakerfi. Börn hlupu um og knúsuðu hárið sem náði næstum niður á gólf. Í miðju sýningarinnar voru púðar á gólfinu þar sem hægt var að liggja og njóta litanna líkt og við gerum þegar við setjumst niður og komum okkur fyrir til þess eins að njóta útsýnis.

Á meðan ég labbaði um rýmið fékk ég sterka löngun til þess að snerta, finna fyrir því hvernig það væri. En mér til mikillar furðu var það ekki mjúk og góð tilfinning sem mér bar við fingurgóma heldur minnti áferðin mig helst á gamla trúðahárkollu sem ég átti þegar ég var barn. Örlítil klígjutilfinning læddist að mér, en ég held að hún sé alveg eðlileg. Venjulegt hár framkallar svipaðar tilfinningar. Það ógeðslegasta sem ég geri er að tæma niðurfall sem er fullt af hári, jafnvel þótt það sé bara mitt eigið hár, en á hinn boginn stend ég fyrir framan spegilinn á hverjum einasta morgni og tek “listræna” ákvörðun um hvernig ég vilji hafa hárið mitt þann daginn.

Við hugsum öll óheyrilega mikið um hárið okkar þótt að sum okkar væru frekar til í að sleppa því. En þessar vangaveltur um hégómleika okkar gagnvart okkar eigin hári blikna í samanburði við það magn af hári sem umkringdi mig á efstu hæðinni í Kiasma. Í fyrri verkum Hrafnhildar vann hún meira með hégómleikann í tengslum við alvöru hár en í Nervescape seríunni notast hún við gervihár sem er í raun skoplegt því allt þetta hár hangandi úr loftinu er eingöngu framleitt til þess að bæta við eða upp fyrir venjulegt hár, til hárlenginga og skreytinga á okkur sjálfum.

Þannig vakti litadýrðin upp hugsanir um þann fjölda af ákvörðunum sem mögulegt sé að taka. Hvernig sköpun okkar getur þanist út í það óendanlega og táknrænir möguleikar einhvers eins hversdagslegs og hárs séu í raun ótæmandi. Allt sem mér myndi mögulega geta dottið í hug væri hægt að framkvæma eingöngu ef viljinn væri fyrir hendi, það virðist yfirþyrmandi. Enda segist Hrafnhildur, í viðtali við Grapevine [1], breyta áhorfandanum í lús og ég tek undir það með henni; lús í góðu skapi.

En hver er tengingin á milli hárlenginga og tauga? Í spjalli við sýningarstjóra á Listasafni Íslands, vegna sýningarinnar Nervescape VII sem var árið 2017 [2], minnist hún á það hvernig við gleymum því oft hvað við erum með magnað landslag innra með okkur. Við eyðum oft svo miklu púðri í hið ytra, til dæmis hárið, en taugarnar ná yfir allan líkamann, nema og færa boðin. Hér er taugakerfið túlkað, stækkað og málað upp í nýjum skala. Vísindamenn nota einnig margvíslega liti til þess að tákna greinarmun hinna mismunandi tauga í heilanum og sú mynd sem þau skapa er alls ekki ólík Nervescape.

Eins og fyrr hefur komið fram er Nervescape hér í Helsinki númer 8 í sýningarröðinni en hugmyndin ætti að vera kunnugleg þeim sem fóru að sjá hana á Listasafni Íslands fyrir tveimur árum. Nervescape serían samanstendur alltaf af sama efni, en tekur öllum rýmum með mismunandi hætti þannig verður hver og ein sýning einstök enda rýmin misjöfn. Efsta hæð Kiasma er til að mynda gríðarstórt og bjart rými með stórum gluggum og þar af leiðandi fallegri dagsbirtu. Það verður því spennandi að sjá hvað hún, ásamt sýningarstjóra Birtu Guðjónsdóttir sem hefur meðal annars unnið með Shoplifter að nokkrum fyrri Nervescapes, munu gera með íslenska skálann á Feneyjartvíæringnum í sumar. [3] Það má búast við litadýrð og gervihári en líklega allt öðrum tilfinningum en í björtu Kiasma.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir


Ljósmyndir birtar með leyfi Kiasma safnsins.

[1] https://grapevine.is/culture/art/2017/06/01/hypernature-shoplifter-showers-the-world-with-colour/

[2] https://www.youtube.com/watch?v=nvYpHfmlgDU

[3] https://icelandicartcenter.is/projects/venice-biennale/hrafnhildur-arnardottir-shoplifter-represents-iceland-at-58th-venice-biennale/

Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Undanfarinn mánuð hefur Wind and Weather Gallery, að Hverfisgötu 37, hýst sýninguna Versatile Uprising (ísl. Margræð uppreisn) sem er samvinnuverk frönsku listamannana Claire Paugam og Raphaël Alexandre, en þau hafa búið og starfað á Íslandi í rúm fimm ár. Í listsköpun sinni leggur Claire mikla áherslu á formleysi; hvar það má finna í náttúrunni eða líkamanum og hvar það gæti leynst í borgarumhverfinu – þar sem konkret form og beinar línur virðast ráða ríkjum. Á hinn bóginn er efniviður Raphaëls oftar en ekki rafmagnstengdur: ljós, hljóð og skynjun sem hægt er að forrita á kerfisbundinn og samræminn hátt. Bakgrunnur listamannanna er nokkuð frábrugðinn hvor frá öðrum.

Claire útskrifaðist með MFA úr Listaháskóla Íslands árið 2016 en Raphaël er menntaður tölvunarverkfræðingur. Leiðir þeirra lágu saman í gegnum starfsemi Listastofunnar sem leiddi í kjölfarið til frekara samstarfs. Claire bauð Raphaël að vinna með sér að sýningunni í Wind and Weather Gallery og úr þeirri samvinnu spratt sýningin sem blasir við augum ef gengið er upp Hverfisgötuna. Niðurstaða samvinnunnar er gagnvirk innsetning sem dregur fram mynd af dulrænum, slímkenndum, skúlptúrískum og formlausum massa. Dökkur massinn dreifist smátt og smátt yfir þrjá sýningarglugga gallerísins og virðist hafa það fyrir stafni að leggja rýmið undir sig. Sýningin dregur titil sinn úr því hvernig innsetningin breytist og stigmagnast með hverjum glugga, líkt og verið sé að segja frá ákveðnu ferli eða frásögn.

Versatile Uprising er fyrsta gagnvirka innsetningin sem sett hefur verið upp í Wind and Weather Gallery. Hún minnir,  á margan hátt, á þrívíðar uppstillingar sem eru tíðir þættir í bæði sögu- og náttúruminjasöfnum, en í stað þess að lýsa sögulegum atburði eða varpa ljósi á virkni tiltekins hlutar, vísar innsetningin til þess ókunnuga eða óskiljanlega. Formlausi massinn getur ýmist minnt á landslag, hraun eða sjaldgæfar, glitrandi steindir. Hann er alsettur díóðum sem gefa frá sér daufan bjarma og speglast í gljáandi yfirborðinu. Ef eyrun eru vel sperrt, heyrist í lágum drunum sem stafa frá aðal sýningarglugganum. Glugginn virkar að mörgu leyti eins og gátt inn í annan heim sem er rétt utan seilingar.

Gestir og gangandi geta haft áhrif á innsetninguna og rýmið sem liggur handan rúðunnar, með því að leggja hönd á glerið þar sem við á. Þegar það er gert verða ljósin skærari og virðast dansa á lífljómalegan máta um innsetninguna alla. Snertingin við glerið hefur einnig áhrif á hljóðið. Drunurnar dýpka og breyta um tón, því meir sem glerið titrar. Allt er þetta gert með hjálp næmra skynjara sem hafa verið forritaðir til að sýna samspil ljósanna á tilviljanakenndan hátt í hvert skipti sem þau eru virkjuð. Á þann hátt er innsetningin í stöðugri breytingu og er aldrei fullkomlega eins og hún var áður. Wind and Weather Gallery, sem hefur verið rekið af listakonunni Kathy Clarke síðan 2014, er einstakt sýningarrými vegna þess að það snýr beint út til almennings. Það þarf því ekki að ganga meðvitað inn í sýningarrýmið til að verða aðnjótandi listarinnar sem þar fer fram. Með því að horfa inn um gluggann eru gangandi vegfarendur Hverfisgötunnar umsvifalaust orðnir að áhorfendum.

Þessi vettvangur hentaði því hugmyndum Claire og Raphaël fullkomlega. Að sögn listamannana svipar gagnvirki þáttur innsetningarinnar til þess þegar farið er í dýragarð. Fólk horfir inn um gluggann sem aðskilur það frá dýrunum. Kannski bankar einhver á glerið til að sjá hvort hann fái viðbrögð; reynir eflaust að tengjast dýrinu á einn eða annan hátt, speglar sjálfið í andliti þess, fyllist hræðslu eða væntumþykju og reynir eflaust að finna til einhvers konar skilnings með dýrinu.

Innsetningunni er ætlað að vekja svipaðar tilfinningar hjá áhorfendum; barnslega forvitni í bland við tortryggni, jafn vel skliningsskort. Fólk hefur oft þá tilhneigingu að afmarka hluti, troða þeim í ákveðið form eða hugtak svo það geti öðlast betri skilning – en ef það mistekst eru þessi hlutir afskrifaðir. En með Versatile Uprising gera Claire og Raphaël vel heppnaða tilraun til að fanga fegurðina í formleysunni og í því sem nær handan lógískra skilningarvita. Heimurinn handan glersins er skáldaður heimur. Þegar aðnjótendur listaverksins snerta glerið tengjast þeir skáldheiminum og með því að mynda einstaklingsbundin áhrif á virkni hans með hjálp skynjaranna. Á sama tíma verður sá sem snertir glerið fyrir áhrifum skáldaða heimsins sem liggur fyrir innan.

Sólveig Eir Stewart

 


Síðasti sýningardagur Versatile Uprising er á þriðjudaginn, 26. febrúar í Wind and Weather Gallery. 

Aðalmynd: Claire Paugam ogRaphaël Alexandre. Allar myndirnar eru birtar með leyfi listafólksins.

Heimasíður listamannanna:

Claire Paugam: http://www.clairepaugam.com

Raphaël Alexandre: http://www.facebook.com/raphael.alexandre.art  

Segulkraftur litanna – Sýning Kees Visser í BERG Contemporary

Segulkraftur litanna – Sýning Kees Visser í BERG Contemporary

Segulkraftur litanna – Sýning Kees Visser í BERG Contemporary

Litaverk hollenska listamannsins Kees Visser blasa við inn um glugga BERG Contemporary. Ferkantaðir fletir í mismunandi stærðum og litum, hengdir upp á kerfisbundinn hátt á hvíta veggi gallerísins. Í öllum sínum einfaldleika kalla verkin út og vekja forvitnina. Það er nefnilega ekki allt sem sýnist, eitthvað sem ekki stemmir en augun þarfnast tíma til að greina hvað það er. Verkin, sem í fyrstu virðast fyrirsjáanleg, leyna á sér. Hornin eru ekki alveg níutíu gráður og fletirnir eru hvorki einlitir né flatir. Það er fyrst þegar við erum komin inn fyrir dyrnar í nálægð við verkin sem byrjum að taka eftir hvað leynist undir yfirborðinu.

Það er nefnilega oft þannig að til þess að eitthvað komi okkur á óvart, þurfum við fyrst að vera sannfærð um að eitthvað sé á ákveðna vegu. Þetta kristallast í verkum Kees, sem óhætt er að kalla einstaklega nákvæman listamann. Eiginlega er honum best lýst sem kerfisfræðingi. Hann hellir sér yfir viðfangsefnið í fleiri, fleiri ár. Skoðar það í krók og kima og úr verða umfangsmiklar verkseríur unnar af vísindalegri nákvæmni. Þekkt eru meðal annars fléttuverkin hans og rimlaverkin, en í BERG Contemporary má sjá afrakstur rannsókna hans á litrófinu og geómetrískum formum undir yfirskriftinni Í djúpi litanna: Ný verk eftir Kees Visser.

 

Kannanir sem hann sökkti sér í við byrjun níunda áratugs síðustu aldar. Hvar sem Kees drýpur niður fæti er kerfisbundin nálgun hans augljós: Allt frá aðferðunum sem hann beitir til að skapa verkin og uppröðun þeirra í rýminu, til miðlunar verkanna á prenti og á alheimsnetinu. Allt á sinn rétta stað og það er einmitt í þeirri vissu sem hið ófyrirsjáanlega læðist inn. Undirrituð dirfist nefnilega að halda því fram að þetta nánast áráttukennda skipulag, sem er svo yfirþyrmandi, sé ekki aðeins leið listamannsins til að halda utan um ævistarfið heldur snilldarlega úthugsuð leið til að koma áhorfendum á óvart. Þegar allt er fyrirfram útreiknanlegt eru hin minnstu fráhvörf mun meira áberandi. Þar með sá örskekktir ferhyrningarnir efa í huga áhorfenda og biðla til þeirra um að staldra við. Skoða nánar og demba sér inn i verkin. Þetta smávægilega en óvænta brot á lögmálum rúmfræðinnar vekur forvitni áhorfenda og geómetrísku formin, sem við þekkjum öll eins og lófann okkar og eyðum sjaldnast tíma í, hverfast á rönguna. Við förum að taka eftir áferð yfirborðsins, hvernig ljósið fellur á það og brýtur upp litina. Tilraun þeirra til að ná út fyrir útlínurnar og skapa þannig látlausa hreyfingu í verkunum. Öll hugsun beinist að skynjuninni. Hvernig sjónin okkar virkar og hvaða áhrif litir hafa á okkur.

Í tungumálinu okkar notum við liti sem verkfæri til að lýsa hlutunum í kringum okkur. Litir eru lýsingarorð sem lýsa eiginleikum einhvers annars fyrirbæris en þeirra sjálfra. Himininn er blár og bollinn sem ég drekk svart morgunkaffið úr er rauður. Eftir þessa fullyrðingu er ég samt engu nær um hvaða fyrirbæri blái, svarti eða rauði liturinn eru eða hvernig við upplifum nákvæmlega þessa liti. En í þeim verkum Kees sem nú eru til sýnis í BERG Contemporary eru litirnir í sviðsljósinu sem skynræn fyrirbæri utan tungumálsins. Hann bregður litunum bókstaflega undir sjóngler. Á sýningunni er að finna yfirlitstexta Jón Proppé , prentuðum á A4 blöð sem hægt er að grípa með sér þegar gengið er inn í rýmið, annars eru engin verkskilti eða annar texti sjáanlegur. Bara litafletirnir sem um leið og byrjað er að gefa þeim gaum byrja að dansa fyrir augunum.

Verkin á sýningunni eru nefnilega allt annað en einlit. Á fletinum mætast ýmsir tónar sem úr fjarlægð virðast einróma, en þegar við færum okkur nær opnast heill heimur af slagföstum litahrynjanda. Enda eiga litir miklu meira skylt með tónlistinni en tungumálinu.

Sýningin Í djúpi litanna spannar að mestu nýleg verk frá síðustu tíu árum, unnin á pappír með aðferð sem er einkennanndi fyrir listamanninn: Síendurteknum málningarstrokum sem mynda með tímanum kornótta kristalsáferð. Aðeins tvö verk sýningarinnar skilja sig þar úr. Fyrsta verkið er Rimlaverk frá 1988 (Sjá aðalmynd með grein), með glanslakkaðan ramma utan um rimla í mjúkum og hlýjum grá- og rauðtónum. Þetta verk er nokkurs konar kveikja sýningarinnar – Útgangspunktur pappírsverkanna. Með rimlaverkunum leysti hann kreppu málverksins, sem á þeim tíma þótti fyrirsjáanlegur og staðnaður miðill. Afskornir kantar og truflun á fjarvíddinni. Rofnir og þrívíðir fletir sem teygja sig út fyrir og á bak við kantana. Hitt verkið sem sker sig örlítið úr er að finna á efri hæð gallerísins. Það er verkið SÚM Colour-Ring frá 1992 sem samanstendur af hundrað sextíu og sex sléttmáluðum trefjaplötum, þá hengdum upp á reglubundinn hátt á dreif um salinn. Í dag hefur plötunum verið raðað saman í tvo stærri fleti, sem styrkir þá upplifun að verkin sem eru til sýnis í BERG Contemporary séu eins konar uppskera vinnu sem hófst fyrir löngu síðan.

Kees, sem er sjálflærður, kom fyrst til Íslands árið 1976 eftir að hafa séð sýningu á verkum Kristjáns og Sigurðar Guðmundssona í heimabæ sínum Haarlem í Hollandi. Sama ár hélt hann sína fyrstu sýningu í SÚM-salnum og síðan hefur hann haft annan fótinn á Íslandi og tekið virkan þátt í listsenunni hér. Meðal annars tók hann þátt í stofnun Nýlistasafnsins árið 1978. Í djúpi litanna er fyrsta einkasýning hans í BERG Contemporary. Þrátt fyrir orðleysið eru verkin á sýningunni alls ekki hljóðlát. Þau draga okkur að sér og hvísla til okkar leyndarmálum um litina. 

Sunna Ástþórsdóttir


Sýningin stendur yfir til 6. október.

Ljósmyndir: Vigfús Birgisson
Birtar með leyfi BERG Contemporary og listamannsins.

Frekari upplýsingar: BERG Contemporary

Jaðar ímyndunaraflsins

Jaðar ímyndunaraflsins

Jaðar ímyndunaraflsins

Um þessar mundir sýnir Anna Líndal verkið Jaðar (2000) á sýningunni Geographies of Imagination á SAVVY Contemporary í Berlín. Verkið var fyrst sýnt í sinni endanlegu mynd á Gwangju tvíæringnum árið 2000 eftir að hún hafði verið búin að vinna að því í tvö ár og hefur síðan verið sýnt í hinu ýmsu samhengi víða um heim. Verkið er vídeóskúlptúr sem er einskonar innsetning í heimilislega IKEA hillu með fjórum sjónvörpum sem sýna sitthvort vídeóið. Eitt vídeóið sýnir upptökur Önnu af eldgosi í Grímsvötnum árið 1998; annað vídeó sýnir upptöku hennar í fyrstu ferð hennar með Jöklarannsóknarfélaginu í Grímsvötn skömmu áður og sýnir vísindamenn að störfum; þriðja vídeóið sýnir hennar eigin fætur busla í vatni út í náttúrunni; og síðasta vídeóið sýnir stúlku á fermingaraldri lesa upp úr Njálu. Á hillurnar er síðan raðað plöntum og ýmsum kunnuglegum skrautmunum eins og fjölskyldumyndum í römmum, styttum af rjúpum og selum og glerjuðum keramikskálum eins og þekkist víða á íslenskum heimilum.


Gestur virðir verk Önnu fyrir sér.

SAVVY Contemporary er merkileg listamiðstöð sem lítur frekar á sig sem rannsóknarstofu en sýningarstað. Með 27 þverfaglega starfsmenn í teyminu og þar af þrjá listræna stjórnendur skilgreina þau starfsemi sína sem vettvang til könnunar á hvað það sé sem byggir undir viðhorf um hvað telst vestrænt og hvað ekki. Markmiðið er að skilja betur og afbyggja hugmyndafræði og hugmyndir sem liggja að baki slíkum viðhorfum. Í þessu samhengi staðsetja þau SAVVY sem stað fyrir þekkingarfræðilegan fjölbreytileika og hafa lagt mikla áherslu á afbyggingu nýlenduhugsunar í þeim fjölmörgu verkefnum, úgáfum og sýningum sem þau hafa staðið að.

Sýningastjórarnir Antonia Alampi og Bonaventure Soh Bejeng Ndikung sem jafnframt eru bæði listrænir stjórnendur SAVVY Contemporary ásamt Elena Agudio. Í bakgrunni sést opnunarverk sýningarstjóranna sjálfra.


Foropnunargestir hlusta á opnunarræðu sýningastjóranna Antonia Alampi og Bonaventure Soh Bejeng Ndikung. Í bakgrunni sést opnunarverk sýningarstjóranna sjálfra.

Hér á landi er það helst listahátíðin Cycle sem hefur tekið sér þá stöðu að vera svipuð rannsóknarstofa með þriggja ára þverfaglega dagskrá sem hófst í fyrra og tekur inn samfélagsleg, pólítísk og akademísk sjónarhorn í rannsókn sinni á fyrirbærunum nýlenda, þjóðernishyggja, samheldni og hverjir fá að vera með. Í samhengi Cycle hefur m.a. verið skoðað hvernig menningarsagnfræðingurinn Ann-Sofie Gremaud hefur borið kennsl á Ísland sem dullendu í nýlegri doktorsritgerð sinni og það ástand jafnframt skoðað í samhengi við reynslu annarra á hinu Vest-Norræna svæði. Hugtakið dullenda er þýðing á hugtaki mannfræðingsins Michael Herzfeld og vísar í óljós mörk eða grátt svæði í nýlendu- og menningarsögunni þar sem staða nýlendunnar eða fyrrum nýlendurnar er ekki alltaf mjög skýr. Með því að koma með þessa umræðu inn í íslensku samtímalistasenuna hefur Cycle unnið mikið afrek.

Anna Líndal ásamt myndlistarkonunum Huldu Rós Guðnadóttir til vinstri sem búsett hefur verið í Berlín í um áratug og Rebecca Moran sem dvelur í Berlín í um nokkurra mánaða skeið.

Opnunargestir dvelja í verki Önnu Líndal Jaðar frá árinu 2000.

Hingað til hefur það almennt verið feimnismál að skoða Ísland og Norðvestrið í samhengi eftirnýlendukenninga. Veruleiki Norðvestursins hefur ekki verið tekinn inn í atburði tengdum skoðun á eftirnýlendutímum innan Evrópu jafnvel þó opnast hafi fyrir að slíka skoðun annars staðar í Evrópu. Árið 2016 þegar aðstandendur írska tvíæringsins Eva buðu sýningarstjóranum Koyo Kouoh að setja upp sýningu sem rannsakaði eftirnýlenduástand á Írlandi þá voru nágrannarnir í norðvestri ekki teknir með svo dæmi sé tekið. Still (the) Barbarians var áhugaverð sýning þar sem reynsla Íra var í fyrsta skipti skoðuð sem nýlendu- og eftirnýlenduástand í samhengi við reynslu Afríkubúa og var mikil eftirsjá að ekki hefði verið ákveðið að skoða fyrirbærið í stærra Vestnorrænu samhengi.

Geographies of Imagination er hluti af stærra rannsóknarverkefni SAVVY Contemporary Dis-othering: Beyond Afropolitan and other labels sem er samstarfverkefni SAVVY við Bozar safnið í Belgíu. Það er mikil ánægja að sjá að SAVVY ákvað að taka íslenskt verk með í sýninguna. Þetta er líklega í fyrsta skipti sem stofnun sem helgar sig eftirnýlendurannsóknum í víðu alþjóðlegu samhengi gerir slíkt. Í sýningunni Geographies of Imagination gefur að líta verk eftir 17 listamenn sem flestir tengjast afrísku listasenunni eða afrísku díasporunni ásamt nokkrum öðrum sem fjalla um framandgeringu á sjálfum sér í því samhengi sem þau búa eða réttara sagt afbyggingu á þessari framandgeringu.

Í bakgrunni sést verkið Estonian Race eftir myndlistarkonuna Tanja Muravskaja. Í forgunni verk myndlistarmannnsins Oscar Murillo.

Sýnendurnir eru flestir virkir í alþjóðlega myndlistarheiminum með þátttöku í hinum ýmsum tvíæringnum og sýningum eins og Dokumenta. Í umfjöllun sinni um Jaðar eða Borders (2000) í sýningarskránni vitna sýningastjórarnir beint í Önnu Líndal sem segist sjá IKEA hilluna sem tákn heimilisins sem stofnun og rýmis þar sem menningarskilyrðing á sér stað og birtist. Sýningarstjórarnir sjá tengsl þar á milli og innrás náttúru og menningar inn í einkalífið á heimilinu eins og það birtist í verkinu. Fyrir þeim fjallar verkið um leit að sjálfsmynd í gegnum náttúru, vísindi og hefðir og alltaf með djúpri meðvitund um sjálfið í þessum raunverulegu eða ímynduðu rýmum. Verkið sé ákveðið ferli sem tengist rannsókn á sjálfsmynd og rými þar sem listamaðurinn skoðar tengsl sín við náttúruna, greinir vísindalegar aðferðir og nálganir á þessa sömu náttúru og hvernig þesar ólíku nálganir stjórnunar og stjórnleysis takast á.

Sjáf nálguðust sýningarstjórarnir sitt hlutverk með því að teikna upp línulegt kort á gangana í inngangi sýningarinnar sem sýnir kortafræðilegt vald í gegnum aldirnar og gerir þannig sýnilega menningarlega, pólitíska og sálfræðilega þætti sem byggðu undir framandgeringu stór hóps mannkyns. Í greinargóðum sýningartextanum sem fylgir sýningunni komast þau að þeirri niðurstöðu að framandgering snúist ekki um hvað sér öðruvísi í sjálfu sér eða mikilvægi þess heldur snúist þetta alltaf um vald og valdbeitingu. Það að leggja áherslu á það ólíka sé tæki til að fremja arðrán – til að stjórna – og þetta hafi í raun skipt heiminum í tvennt, hina ríku og hina fátæku. Segja má að síðan Ísland var ekki lengur skilgreint sem þriðja heims land árið 1974 höfum við sem samfélag verið í miklu kapphlaupi til að komast í ríka hópinn. Í hóp valdhafa jarðarinnar. Að koma hlutunum undir stjórn.

Stór hluti af þessu kapphlaupi hefur verið að gleyma fortíðinni eða réttara sagt búa til sögu um hana sem hentar stjórnanda. Í því verkefni passar ekki að bera sig saman við aðra en aðra valdhafa sem við viljum líkjast sem mest. Þessu hefur að sjálfsögðu fylgt hinar ýmsu mótsagnir. Við erum hinsvegar ekki einstök með okkar reynslu af því að hafa verið undirokuð af nýlenduherrum og getum lært margt með því að vera í samtali við fólk með sambærilega reynslu.

Það sem sýningarstjórarnir eru að reyna að gera með sýningunni er að skoða hvernig ímyndunaraflið hefur verið notað til að framandgera, hvernig landafræði hefur verið notuð sem valdtæki og hvernig vilji til valds er kjarninn í framandgeringunni. Þannig sjá þau sýninguna sem rými fyrir listamenn að koma saman og vefa mögulegar leiðir til að svara spurningunni um hvernig við getum sem mannkyn fundið til samheldni sem nær lengra en til okkar nánasta hóps, til mannkyns alls, eða jafnvel til jarðarinnar sem heild. Hvernig getum við stoppað þráhyggju okkar fyrir því að vilja eiga og stjórna öðrum? Hvernig getum við komist út úr þægindaramma þess að framandgera aðra?

Hulda Rós Guðnadóttir


Aðalmynd með grein: Jaðar (2000)
Ljósmyndir: Patrik Bablo og Raisa Galofre.

Geographies of Imagination er opið til 11. nóvember 2018: Vefsíða Savvy
Annar hluti af rannsóknarverkefni Cycle mun opnast almenning í síðustu viku október með listahátíðinni Cycle á ýmsum stöðum í Kópavogi og Reykjavík: Vefsíða Cycle

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest