Jaðar ímyndunaraflsins

26.09. 2018 | Umfjöllun

Um þessar mundir sýnir Anna Líndal verkið Jaðar (2000) á sýningunni Geographies of Imagination á SAVVY Contemporary í Berlín. Verkið var fyrst sýnt í sinni endanlegu mynd á Gwangju tvíæringnum árið 2000 eftir að hún hafði verið búin að vinna að því í tvö ár og hefur síðan verið sýnt í hinu ýmsu samhengi víða um heim. Verkið er vídeóskúlptúr sem er einskonar innsetning í heimilislega IKEA hillu með fjórum sjónvörpum sem sýna sitthvort vídeóið. Eitt vídeóið sýnir upptökur Önnu af eldgosi í Grímsvötnum árið 1998; annað vídeó sýnir upptöku hennar í fyrstu ferð hennar með Jöklarannsóknarfélaginu í Grímsvötn skömmu áður og sýnir vísindamenn að störfum; þriðja vídeóið sýnir hennar eigin fætur busla í vatni út í náttúrunni; og síðasta vídeóið sýnir stúlku á fermingaraldri lesa upp úr Njálu. Á hillurnar er síðan raðað plöntum og ýmsum kunnuglegum skrautmunum eins og fjölskyldumyndum í römmum, styttum af rjúpum og selum og glerjuðum keramikskálum eins og þekkist víða á íslenskum heimilum.


Gestur virðir verk Önnu fyrir sér.

SAVVY Contemporary er merkileg listamiðstöð sem lítur frekar á sig sem rannsóknarstofu en sýningarstað. Með 27 þverfaglega starfsmenn í teyminu og þar af þrjá listræna stjórnendur skilgreina þau starfsemi sína sem vettvang til könnunar á hvað það sé sem byggir undir viðhorf um hvað telst vestrænt og hvað ekki. Markmiðið er að skilja betur og afbyggja hugmyndafræði og hugmyndir sem liggja að baki slíkum viðhorfum. Í þessu samhengi staðsetja þau SAVVY sem stað fyrir þekkingarfræðilegan fjölbreytileika og hafa lagt mikla áherslu á afbyggingu nýlenduhugsunar í þeim fjölmörgu verkefnum, úgáfum og sýningum sem þau hafa staðið að.

Sýningastjórarnir Antonia Alampi og Bonaventure Soh Bejeng Ndikung sem jafnframt eru bæði listrænir stjórnendur SAVVY Contemporary ásamt Elena Agudio. Í bakgrunni sést opnunarverk sýningarstjóranna sjálfra.


Foropnunargestir hlusta á opnunarræðu sýningastjóranna Antonia Alampi og Bonaventure Soh Bejeng Ndikung. Í bakgrunni sést opnunarverk sýningarstjóranna sjálfra.

Hér á landi er það helst listahátíðin Cycle sem hefur tekið sér þá stöðu að vera svipuð rannsóknarstofa með þriggja ára þverfaglega dagskrá sem hófst í fyrra og tekur inn samfélagsleg, pólítísk og akademísk sjónarhorn í rannsókn sinni á fyrirbærunum nýlenda, þjóðernishyggja, samheldni og hverjir fá að vera með. Í samhengi Cycle hefur m.a. verið skoðað hvernig menningarsagnfræðingurinn Ann-Sofie Gremaud hefur borið kennsl á Ísland sem dullendu í nýlegri doktorsritgerð sinni og það ástand jafnframt skoðað í samhengi við reynslu annarra á hinu Vest-Norræna svæði. Hugtakið dullenda er þýðing á hugtaki mannfræðingsins Michael Herzfeld og vísar í óljós mörk eða grátt svæði í nýlendu- og menningarsögunni þar sem staða nýlendunnar eða fyrrum nýlendurnar er ekki alltaf mjög skýr. Með því að koma með þessa umræðu inn í íslensku samtímalistasenuna hefur Cycle unnið mikið afrek.

Anna Líndal ásamt myndlistarkonunum Huldu Rós Guðnadóttir til vinstri sem búsett hefur verið í Berlín í um áratug og Rebecca Moran sem dvelur í Berlín í um nokkurra mánaða skeið.

Opnunargestir dvelja í verki Önnu Líndal Jaðar frá árinu 2000.

Hingað til hefur það almennt verið feimnismál að skoða Ísland og Norðvestrið í samhengi eftirnýlendukenninga. Veruleiki Norðvestursins hefur ekki verið tekinn inn í atburði tengdum skoðun á eftirnýlendutímum innan Evrópu jafnvel þó opnast hafi fyrir að slíka skoðun annars staðar í Evrópu. Árið 2016 þegar aðstandendur írska tvíæringsins Eva buðu sýningarstjóranum Koyo Kouoh að setja upp sýningu sem rannsakaði eftirnýlenduástand á Írlandi þá voru nágrannarnir í norðvestri ekki teknir með svo dæmi sé tekið. Still (the) Barbarians var áhugaverð sýning þar sem reynsla Íra var í fyrsta skipti skoðuð sem nýlendu- og eftirnýlenduástand í samhengi við reynslu Afríkubúa og var mikil eftirsjá að ekki hefði verið ákveðið að skoða fyrirbærið í stærra Vestnorrænu samhengi.

Geographies of Imagination er hluti af stærra rannsóknarverkefni SAVVY Contemporary Dis-othering: Beyond Afropolitan and other labels sem er samstarfverkefni SAVVY við Bozar safnið í Belgíu. Það er mikil ánægja að sjá að SAVVY ákvað að taka íslenskt verk með í sýninguna. Þetta er líklega í fyrsta skipti sem stofnun sem helgar sig eftirnýlendurannsóknum í víðu alþjóðlegu samhengi gerir slíkt. Í sýningunni Geographies of Imagination gefur að líta verk eftir 17 listamenn sem flestir tengjast afrísku listasenunni eða afrísku díasporunni ásamt nokkrum öðrum sem fjalla um framandgeringu á sjálfum sér í því samhengi sem þau búa eða réttara sagt afbyggingu á þessari framandgeringu.

Í bakgrunni sést verkið Estonian Race eftir myndlistarkonuna Tanja Muravskaja. Í forgunni verk myndlistarmannnsins Oscar Murillo.

Sýnendurnir eru flestir virkir í alþjóðlega myndlistarheiminum með þátttöku í hinum ýmsum tvíæringnum og sýningum eins og Dokumenta. Í umfjöllun sinni um Jaðar eða Borders (2000) í sýningarskránni vitna sýningastjórarnir beint í Önnu Líndal sem segist sjá IKEA hilluna sem tákn heimilisins sem stofnun og rýmis þar sem menningarskilyrðing á sér stað og birtist. Sýningarstjórarnir sjá tengsl þar á milli og innrás náttúru og menningar inn í einkalífið á heimilinu eins og það birtist í verkinu. Fyrir þeim fjallar verkið um leit að sjálfsmynd í gegnum náttúru, vísindi og hefðir og alltaf með djúpri meðvitund um sjálfið í þessum raunverulegu eða ímynduðu rýmum. Verkið sé ákveðið ferli sem tengist rannsókn á sjálfsmynd og rými þar sem listamaðurinn skoðar tengsl sín við náttúruna, greinir vísindalegar aðferðir og nálganir á þessa sömu náttúru og hvernig þesar ólíku nálganir stjórnunar og stjórnleysis takast á.

Sjáf nálguðust sýningarstjórarnir sitt hlutverk með því að teikna upp línulegt kort á gangana í inngangi sýningarinnar sem sýnir kortafræðilegt vald í gegnum aldirnar og gerir þannig sýnilega menningarlega, pólitíska og sálfræðilega þætti sem byggðu undir framandgeringu stór hóps mannkyns. Í greinargóðum sýningartextanum sem fylgir sýningunni komast þau að þeirri niðurstöðu að framandgering snúist ekki um hvað sér öðruvísi í sjálfu sér eða mikilvægi þess heldur snúist þetta alltaf um vald og valdbeitingu. Það að leggja áherslu á það ólíka sé tæki til að fremja arðrán – til að stjórna – og þetta hafi í raun skipt heiminum í tvennt, hina ríku og hina fátæku. Segja má að síðan Ísland var ekki lengur skilgreint sem þriðja heims land árið 1974 höfum við sem samfélag verið í miklu kapphlaupi til að komast í ríka hópinn. Í hóp valdhafa jarðarinnar. Að koma hlutunum undir stjórn.

Stór hluti af þessu kapphlaupi hefur verið að gleyma fortíðinni eða réttara sagt búa til sögu um hana sem hentar stjórnanda. Í því verkefni passar ekki að bera sig saman við aðra en aðra valdhafa sem við viljum líkjast sem mest. Þessu hefur að sjálfsögðu fylgt hinar ýmsu mótsagnir. Við erum hinsvegar ekki einstök með okkar reynslu af því að hafa verið undirokuð af nýlenduherrum og getum lært margt með því að vera í samtali við fólk með sambærilega reynslu.

Það sem sýningarstjórarnir eru að reyna að gera með sýningunni er að skoða hvernig ímyndunaraflið hefur verið notað til að framandgera, hvernig landafræði hefur verið notuð sem valdtæki og hvernig vilji til valds er kjarninn í framandgeringunni. Þannig sjá þau sýninguna sem rými fyrir listamenn að koma saman og vefa mögulegar leiðir til að svara spurningunni um hvernig við getum sem mannkyn fundið til samheldni sem nær lengra en til okkar nánasta hóps, til mannkyns alls, eða jafnvel til jarðarinnar sem heild. Hvernig getum við stoppað þráhyggju okkar fyrir því að vilja eiga og stjórna öðrum? Hvernig getum við komist út úr þægindaramma þess að framandgera aðra?

Hulda Rós Guðnadóttir


Aðalmynd með grein: Jaðar (2000)
Ljósmyndir: Patrik Bablo og Raisa Galofre.

Geographies of Imagination er opið til 11. nóvember 2018: Vefsíða Savvy
Annar hluti af rannsóknarverkefni Cycle mun opnast almenning í síðustu viku október með listahátíðinni Cycle á ýmsum stöðum í Kópavogi og Reykjavík: Vefsíða Cycle

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This