Fjær

Hittumst á Kili – Jóna Hlíf sýnir í Flóru menningarhúsi

13.08. 2022 | Umfjöllun

Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýnir um þessar mundir nokkur verk í Flóru menningarhúsi á Sigurhæðum. Húsið létu Guðrún Runólfsdóttur og Matthías Jochumsson reisa fyrir sig og fjölskyldu sína árið 1903 og stendur reisulegt í hvammi í brekkunni milli Akureyrarkirkju og Hafnarstrætis. Í Flóru hanga verk Jónu Hlífar innan um ýmsa muni frá fyrri ábúendum hússins og innsetningar tengdum þeim. Þar eru líka ilmandi prjónavörur, þýskt hunang, sápur að austan, jarðaber innan úr firði og ansi myndarlegt magn af inniplöntum. Heimilislegt mjög.

Jóna Hlíf vann sín verk sérstaklega fyrir sýninguna og öll vísa þau með einhverjum hætti í verk Matthíasar. Standa líkt og uppvaxnir afleggjarar úr garði Matthíasar, spræk í eigin potti.
 Í sumar gaf Jóna Hlíf út bókverkið ÞAK/TRÚ sem geymir textann Hús og dagar, hugleiðingu um hús, tíma og minningar. Verkið kallast sterkt á við sýninguna á Sigurhæðum og er tileinkað minningu Jóns Laxdals – sem einnig sýnir verk í Sigurhæðum þetta árið. Skástrikið í titlinum ÞAK/TRÚ er allrar athygli vert og myndar ansi merkilegt tugabrot sem við skulum taka með okkur inn á sýninguna.

ÞÍN HEILAGA HEIMVON

Bókverkið ÞAK/TRÚ sem geymir textann Hús og dagar, hugleiðingu um hús, tíma og minningar.

Það brestur hlýlega í gólfinu þegar við göngum í bæinn og gegnum stofu(r)na(r). Inni í ljósbláa eldhúsinu á Sigurhæðum, fyrir ofan eldhúsvaskinn, hangir verkið Hærra. Yfir ljós- og dökkbleikum fjallsbrúnum slúta fram útskornir stafir úr grænum pappírshimni. Saman mynda þeir orðin ÞÍN HEILAGA HEIMVON. Líkt og til uppljómunar þeim sem líta upp úr uppvaskinu. Við erum minnt á að helgasta rými hvers heimilis er og verður eldhúskrókurinn. Í svipuðum stíl og Hærra er verkið Hinstu orð Skugga-Sveins, sem tekur á móti gestum inni í stofunni, og kveður þá á leiðinni út. Þar eru fjöllin og himininn næturblá, og á himninum má lesa HITTUMST Á KILI.

Bakvið stafina sem spretta út úr himninum glittir í eitthvað gult – sem gleður – og minnir á sumartungl eða leslampaskin.
Verkin Land I og Land II hanga í sömu stofu, hlið við hlið fyrir ofan rauðan sófa. Þar vinnur Jóna Hlíf með Níðkvæði um Ísland, stundum nefnt Volaða land. Kvæði sem Matthías orti einn hafísaveturinn, harmi sleginn og sármóðgaður út í land sitt, eftir að hafa þurft að jarða ekkil, sem svalt í hel ásamt fjórum börnum sínum; „Volaða land,/ horsælu hérvistar slóðir“ orti Matthías þá, og hélt áfram þangað til erindin voru orðin ellefu. Jóna Hlíf hefur dregið út úr kvæðinu nokkur af þeim orðum sem Matthías valdi Íslandi og saumað þau í djúpblátt flauel með gylltum þræði. Í Land II standa lýsingarnar í hvorugkyni, líkt og í kvæði Matthíasar – HRAUNELDA HAFÍSA STÓRSLYSA BLÓÐRISA – en í Land I hefur hún lýsingarnar í kvenkyni: VOLUÐ TRÖLLRIÐIN VESÆL HRAFNFUNDIN. Þetta skapar spennu milli verkanna og skorar á áhorfandann að geta í eyðurnar. Því okkur finnst við þekkja þetta skapstóra land bakvið glerið.

Landið sem skelfir og skelfur og á það til að springa. Það er aftur á móti óljóst hver hún er, sem hangir á veggnum við hlið þess – en það er óneitanlega svipur með þeim tveim.

Kannski við kíkjum í gestabókina.

Sölvi Halldórsson


Heimasíða Jónu Hlífar: www.jonahlif.is
Ljósmyndir: Jóna Hlíf.
Sýningin stendur til 6. nóvember.
www.floraflora.is

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This