Töfrarnir í myndlistinni – A Bra Ka Da Bra í Listasafni Reykjavíkur

22.02. 2022 | Umfjöllun

Sýningin A BraKaDaBra fer fram þessa dagana í Listasafni Reykjavíkur. Listaverk sýningarinnar eru öll í safneign Listasafns Reykjavíkur og á sýningunni eru ýmis verk frá síðustu árum. Sýningin er í þremur sölum, A, B og C og þess ber að geta að nýr fræðsluvefur á heimasíðu listasafnsins tengist sýningunni.

Abrakadabra er fyrir margra hluta sakir ansi merkileg sýning. Um leið og gengið er inn í sal A er líkt og einhver óútskýranlegur töfraheimur taki við manni. Það er einhver kraftur, einhver andi í salnum og ekki er óviðeigandi að fyrsta verk á vinstri hönd sé verk um svefn og drauma, eða öllu heldur draumalandslag. Listamanninum Fritz Hendrick IV tekst vel til að koma svefni á framfæri myndrænt. Virkilega fallegar myndir sem lýsa svefni vel og fær Fritz mörg prik í kladdann fyrir þessa hugmynd.

Fritz dregur upp línurit byggt á upplýsingum úr smáforriti sem mælir gæði svefnsins í gegnum snjallsíma. Málverkin eru síðan innblásin af grafinu sem hver nætursvefn skilar, svo úr verður einhvers konar draumalandslag. Þess ber að geta að Fritz á annað verk í salnum, stór kirkjuklukka sem hangir í loftinu. Það er eitthvað einnig draumkennt við hana, eins og hún eigi ekki heima þarna, en samt sem áður, vegna áðurnefnds andrúmslofts, þá á þetta verk svo vel við.

Ef gengið er áfram má sjá verk eftir Ólaf S. Gíslason sem saumað er úr fötum Steingríms J Sigfússonar, fjármálaráðherra og heitir Þjóðarsál. Skemmtileg hugmynd og ef rýnt er í nafnið og athygli veitt að því að fyrrum fjármálaráðherra hafi klæðst þessum fatnaði á álagstímum þá má finna mikla dýpt og mikla tengingu. Að mínu mati lætur þetta verk mann ekki ósnortinn, annað en mætti halda við fyrstu sýn.

Það sem nær athygli manns, ef ekki strax, þá ansi fljótlega, er verk eftir Hrafnhildi Arnardóttur eða Shoplifter eins og hún er oft betur þekkt sem. Litríkur gervihárhellir blasir við, með skærri ljóskúlu í miðjunni. Það er nánast óþarfi að fara mörgum orðum um verk Hrafnhildar en þau hafa vakið óskipta athygli og ekki af ástæðalausu. En mér finnst mikilvægt að minnast á þetta verk, það er einna líkast því að maður sé að fara til spákonu í Múmínlandi. Allt svo leyndardómsfullt, svo mjúkt og þegar maður stígur inn í „hellinn“ þá er svo gott að vera þar. Maður vill ekki fara neitt, þetta er öruggur staður þar sem ekkert vont getur gerst. Og þetta verk eykur á ævintýrablæ sýningarinnar, gerir draumsýna skýrari og meira spennandi.

Fyrir miðjum salnum er áhugavert verk eftir Katrínu Sigurðardóttur. Katrín býður áhorfendum að stíga upp á hvítan kassa. Þá er áhorfandinn í raun orðinn þáttakandi í verkinu, orðinn að eins konar skúlptúr eða styttu ofan á stöpli. Í kassanum er svo gat og áhorfandinn þarf að stinga hausnum í gatið til þess að sjá upp undir loftið. Þar leynist ævintýralandslag með eyjum og fjöllum í allar áttir. Þessi athöfn að fara á hvolf og horfa inn í bjartan kassann, er ákveðin upplifun.

Blóðið streymir í höfuðið og eykur það á áhrifin sem verða við að sjá fallegan heim opnast, sem er samt sem áður á hvolfi. Eitthvað er svo rétt, eitthvað svo rangt, eins og í draumi. Sjón er sögu ríkari. Gegnt þessum áhugaverða kassa eru verk eftir Hildigunni Birgisdóttur. Enn á ný tekst henni að ná athygli manns með því að setja hversdagslega hluti í sviðsljósið með skemmtilegri framsetningu. Stundum eru eins og hlutirnir sem hún notar til að setja upp verkin vekji meiri athygli hjá manni, líkt og krókurinn sem sítrónumiðinn hangir á í einu verki hennar hér á þessari sýningu.

Einfaldi hversdagsleikurinn gerir galdurinn hér á þessari galdrasýningu. Áfram er gengið og ekki er hægt að sleppa því að staldra við verkin hennar Auðar Lóu. Hún sækir innblástur í skrautstyttur sem voru vinsælar í gamla daga í Bretlandi. Þær sýndu ýmislegt sem fólki fannst fallegt, skemmtilegt eða virðingarvert. Hér leitar Auður að fyrirmyndum á internetinu og staldrar við það sem vekur áhuga hennar. Hún býr síðan til styttur eftir myndum á skjánum en í stað postulíns notar hún pappamassa. Þessi verk hennar er maður farinn að sjá meira og meira, bæði í hinum veraldlega heimi sem og á samfélagsmiðlum og vekja þau ávalt fram bros og athygli.

Nú rek ég augun í verk, sem í sannleika sagt ég tók hreinlega ekki eftir við fyrstu skoðun. Dæmi hver sá sem vill þessi orð, en það er ekki eins og verkið „Aha kassinn“ eftir Magnús Helgason lýsi upp salinn. Síður en svo, því hér er á ferðinni brúnn pappakassi sem hangir á einum vegg salarins. Kassinn sem hangir á veggnum er eins og hver annar pappakassi, en ef maður fylgist aðeins með honum kemur maður auga á vír sem hreyfist af sjálfu sér. Heiti verkefnisins vísar til uppgötvunar. Þegar ég uppgötvaði verkið, uppgötvaði ég margt annað. Töfra litlu hlutanna, einfaldleikans. Hugmyndin er frábær, ég gæti horft á vírinn í verkinu heilu dagana og segir það meira um verkið en sjálfan mig, held ég.

Eftir að gengið er inn í sal A vekja ákveðin hljóð mikla athygli. Um er að ræða annars vegar flaut frá manneskju og hinsvegar skerandi píp. Hér er á ferðinni verk eftir Loga Leó Gunnarsson. Verk Loga er gert úr lyklakippum sem pípa þegar maður flautar. Logi hengir þær á vegg og rétt hjá er sjónvarp og á skjánum flautar hann af og til og lætur lyklakippurnar pípa. Snilldar hugmynd og frábær framkvæmd sem laðar mann að verkinu og leyfir manni ekki auðveldlega að yfirgefa það.

Þegar komið er upp í B sal vekja athygli mína verk eftir Önnu Líndal. Verkið er ljósmynd af leysisskanna í Grímsvötnum sem notaður er til þess að fylgjast með hreyfingum í ísnum á þessu síbreytilega svæði. Anna notar listsköpun til þess að fylgjast með því hvernig vísindamenn skoða, mæla og skrásetja náttúruna. Er horft er á ljósmyndina fær maður óneitanlega á tilfinninguna að skanninn sé vondi kallinn, áminning um fótspor mannkynsins, hið vélræna. En hið rétta er að hann er alveg saklaus í þessu ferli, skanninn er í raun og veru bara eftirlitstæki og minnir á vánna sem sækir að okkur. Hann er því bráðnauðsynlegur og afskaplega saklaus, næstum því krúttlegur, það er því ákveðin mótsögn þarna og annað en virðist við fyrstu sýn.

Fyrir miðjum salnum er verkið Ruggustóll eftir Baldur Geir Bragason en ruggustóll Baldurs er búinn til úr sama efniviði og málverk, máluðum striga og rammaefni. Hann er í raun þrívítt málverk komið út á mitt gólf. En ruggustóllinn er fastur í kyrrstöðu, hann getur ekki ruggað fram og tilbaka. Maður vill óneitanlega setjast í stólinn og rugga sér frameftir degi. En það má því miður ekki, sem gerir verkið sennilega enn meira spennandi, þessi mikla löngun og aðdáun.

Við útganginn á salnum má sjá verk eftir Kristján Steingrím Jónsson. Kristján Steingrímur spáir í það hvernig við tengjumst hinum ýmsu stöðum. Hann skoðar umhverfið og aðstæður en tekur síðan með sér mold eða sand frá staðnum og notar í listaverk. Hér hefur hann tekið jarðefni frá eldfjallinu fræga, Heklu, og búið til málverk. Hann málar ekki mynd af fjallinu heldur málar litafleti með jarðefninu beint á strigann. Þessi aðferð er afar athyglisverð að mínu mati. Maður horfir á þau og hugsar með sér hvað maður sé að horfa á, landslag eða abstrakt? Hughrifin eru mikil og maður gleymir sér í eigin heimi og heimi listamannsins.

Í sal C og tekur við kímnigáfa og almenn skemmtilegheit. Til að mynda myndbandsverk Hreins Friðfinnsonar, þar sem má sjá listamanninn Kristin E. Hrafnsson hoppa á trampolíni. Það er eitthvað heillandi við að horfa á miðaldra mann hoppa og skoppa á trampólíni líkt og barn og minnir mann á að hætta aldrei að leika sér og lifa í núinu.

Er lengra inn í salinn er komið má sjá verk eftir Karin Sander sem ber nafnið Póstlagt málverk. Um er að ræða kringlótt málverk sem ferðaðist frá vinnustofu þýsku listakonunnar á sínum tíma sem glænýr, hvítur, hreinn strigi strekktur á blindramma. Hún sendi það með pósti þangað sem það var sýnt án þess að pakka því inn og á leiðinni söfnuðust alls konar óhreinindi á það, límmiðar og merkingar. Nú hefur það farið fram og tilbaka á milli nokkurra staða og verkið varð til á leiðinni á tilviljunarkenndan máta.

Að lokum ber að nefna verk eftir Leif Ými Eyjólfsson sem vakið hafa verðskuldaða athygli og kátínu. Verk Leifs Ýmis byggist á safni orða, texta og setningarbrota sem hann hefur haldið til haga síðustu ár. Hann hefur sérstakt dálæti á því sem kemur dags daglega fyrir í samskiptum á milli fólks eða því sem maður hugsar með sjálfum sér án þess að því fylgi sérstök merking. Það hljóta allir að geta tengt við þessi verk og stóð ég sjálfan mig að því að hlæja upphátt oftar en einu sinni, þrátt fyrir að vera ekki að sjá þau í fyrsta sinn, langt því frá. Og í því felst galdurinn held ég.

Aron Ingi Guðmundsson.


Ljósmyndir: Julie Sjöfn Gasiglia

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This