Tíðir, reki, grip, frjósemi og skjól eru hugtök sem snerta vinningstillögu að nýju útilistaverki á hafnarsvæðinu

Tíðir, reki, grip, frjósemi og skjól eru hugtök sem snerta vinningstillögu að nýju útilistaverki á hafnarsvæðinu

Tíðir, reki, grip, frjósemi og skjól eru hugtök sem snerta vinningstillögu að nýju útilistaverki á hafnarsvæðinu

Í vikunni voru tilkynnt úrslit í samkeppni um nýtt útilistaverk við Miðbæjarhöfnina í Reykjavík sem Faxaflóahafnir efndu til fyrr á þessu ári. Tillagan sem bar sigur úr býtum ber heitið Tíðir, en bak við hana standa Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, og Gísli Pálsson fornleifafræðingur. Hlutdeild kvenna í starfssemi og sögu hafnarinnar var þema samkeppninnar, en  um þessar mundir á Miðbæjarhöfnin 100 ára afmæli.

Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður og Gísli Pálsson fornleifafræðingur.

29 myndlistarmenn, einstaklingar og hópar, gáfu kost á sér í samkeppnina sem haldin var í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Fimm aðilar voru valdir í forvali til að taka þátt í lokaðri samkeppni. Þeir voru auk vinningshópsins, Guðrún Vera Hjartardóttir, Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg), Hildur Bjarnadóttir og Ólafur Sveinn Gíslason, Jónína Guðnadóttir og Sveinn Bjarki Þórarinsson.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: “Tíðir er umhverfisverk, villigarður, þar sem tekist er á við frumkrafta náttúrunnar og unnið með villigróður í bland við manngert umhverfi borgarinnar.

Í verkinu er vísað í störf kvenna á mótum lands og sjávar. Sjónum er ekki einungis beint að hefðbundnum störfum eins og að stakka fiski, beitningu og uppskipun, heldur einnig að því að hirða strandnytjar til að veita líkn gegn sulti og veikindum. Garðurinn myndar tákn fyrir konuna sem skapar umgjörð, hlúir að og veitir skjól.

Styrkur verksins liggur í því hvað það er marglaga, það vísar í söguna en tekur jafnframt á málefnum samtímans og vísar til framtíðar. Verkið er í stöðugri umbreytingu vegna áhrifa frá umhverfi sínu, rétt eins og staða og störf kvenna hafa tekið breytingum í gegnum tíðina.

Verkið Tíðir er nýr viðkomustaður í borginni, vin þar sem vegfarendur geta dvalið og notið. Verkið er minnisvarði um framlag kvenna og um leið hið síbreytilega landslag sjávarsíðu Reykjavíkur.”

artzine hafði samband við Huldu Rós Guðnadóttur myndlistar og kvikmyndagerðarkonu og spurði hana út í hugmyndina að baki tillögunni og hvaða þýðingu það hefði fyrir hana að taka þátt í þessu verkefni.

Í ár eru um 7 ár síðan ég byrjaði að beina sjónum mínum af höfninni og höfnum almennt og listrannsóknarverkefnið Keep Frozen varð til smám saman á löngu ferli. Á þessum tíma hef ég öðlast bæði breiðan þekkingargrundvöll á höfnum og hvað er í gangi á þeim vettvangi almennt og einnig sérstaklega í miðbæjarhöfninni í Reykjavík. Þessi þekking er á margan hátt rökvís og félagsfræðileg en fyrst og fremt fagurfræðileg skynjun eða hugsun/sýn sem varð til við það að stunda myndlist. Það er mjög ánægjulegt að geta nýtt þessa samansöfnuðu reynslu og þekkingu sem hefur orðið til á löngum tíma og nýtt í eitthvað sem hugsanlega verður áþreifanlegt kennileiti í Reykjavíkurborg á þessum stað sem er mér svo kær. Þar sem Daníelslippur stóð áður. Eins og ég sagði á málþinginu, þar sem tilkynnt var hverjir höfðu unnið, þá á ég í raun tilvist mína að þakka Faxaflóahöfnum. Þetta er því ekki einungis faglegt heldur mjög persónulegt.

Ég vinn mjög mikið í samstarfi – er með einhverja ólæknanlega löngun í að læra af öðru fólki og kynnast alls konar sviðum. Myndlistarstarfið getur verið einmannalegt og samstarf ýtir manni úr eigin búbblu og víkkar út allt sjóndeildarsviðið. Það er mjög krefjandi – það er ekki endilega auðvelt fyrir myndlistarmanninn að vera í skapandi samstarfi – en það er áskorun og tækifæri til að stækka ef maður nálgast áskorunina á uppbyggilegan hátt. Svo má ekki gleyma að það er stærra samhengi sem er mikilvægara en mitt eigið persónulega svið og það er samhengi myndlistar sem fags. Samtímamyndlistin snertir svo margt og getur svo margt og möguleikar hennar til að tengja mismunandi svið og fög saman eru ein af hennar sterkustu hliðum. Þegar ég kom auga á auglýsinguna þá lá beinast við að ég hefði samband við Gísla Pálsson fornleifafræðing sem hafði að undirlagi Aldísar Snorradóttur flutt fyrirlestur á Keep Frozen ráðstefnu sem haldin var í LHÍ í febrúar á síðasta ári. Við komum þarna saman fullt af fólki sem tengdust rannsóknum í listum og rannsóknum á höfnum og kynntumst sjónarhorni hvers annars. Það sem Gísli hafði fram að færa opnaði augun mín fyrir svo mörgu og svo er hann svo kreatívur bæði í starfi og einkalífi. Ég var að leita eftir tækifæri til að vinna með honum og þar sem hann er sérfræðingur í fornleifafræði Reykjavíkurhafnar og sjávarsíðu Íslands almennt þá þurfti ég ekki að hugsa mig um. Það var síðan svo skemmtilegt að við höfðum bæði Hildigunni Sverrisdóttur arkitekt í huga sem þriðja aðila. Gísli þekkti hana af góðu og ég hafði tekið eftir henni og því sem hún hefur verið að segja og starfa í mörg ár. Klárari og hugmyndaríkari arkitekt er erfitt að finna. Það er mér mjög mikils virði að hafa haft þetta tækifæri til að vinna með þeim og innblásturinn og þekkingin sem ég öðlaðist hefur haft mikil áhrif á mig og á eftir að koma meira í ljós í framtíðinni.

Þú hefur áður unnið verk sem tengist hafnarstarfseminni þegar þú gerðir kvikmyndina Keep Frozen. Þema samkeppninar er óður til þáttöku kvenna í atvinnustarfssemi hafnarsvæðisins, hvaða merkingu hafði það fyrir þig?

Þemað kveikti strax í mér. Í rannsóknum mínum hafði ég komist að því að kjarnann í fagurfræði hafnanna er að finna í vinnunni sem fer þar fram og þá meina ég verkamannavinnunni. Ég hafði líka tekið eftir því að í sambandi við miðbæjarhöfnina þá er verkamannavinnan ósýnileg mörgum bæjarbúum. Margir halda að iðnaðarstarfsemi sé farin af svæðinu þegar raunin er sú að þetta er stærsta fiskihöfn landsins. Vinnan fer fram fyrri luktum dyrum eða á þeim tíma dags sem fæstir eru á röltinu. Með stuðningi Kvikmyndasjóðs hafði ég þegar fengið tækifæri til að gera minnisverk um atvinnuþátttöku karla með myndinni Keep Frozen sem ég hef varið síðasta ári í að ferðast með á kvikmyndahátíðir. Þá var það falin vinna karla í keðju verðmætasköpunar eða löndunarvinnan. Núna hef ég tækifæri til að minnast atvinnuþátttöku kvenna en eins og margoft hefur verið bent á þá hefur sú vinna yfirleitt ekki verið metin að verðleikum.

Við vildum gera samfélagsverk. Búa til stað sem gengur út á samskipti og samveru á öðrum forsendum en söluforsendum. Stað þar sem hægt væri að skoða söguna og framtíðina og vera í núinu. Einnig vildum við skapa verk sem væri í samtali við það sem er að gerast í alþjóðlegu samtímalistinni og tæki á þeim viðfangsefnum sem brenna hvað brýnast á heiminum í dag og snerta sjávarlínuna, atvinnuþátttöku og fleira. Hugmyndin byrjaði með löngun til að búa til villigarð. Ég dregst mjög að villigörðum og í ofur-borgarskipulagi þá hef ég trú á að villigarður verði eins og vin sem fólk mun sækja í og finna til gleði.

Það getur hver og einn lesið í form og virkni og séð það sem viðkomandi vill sjá út úr því. Mér finnst skemmtilegra að upplifun af verkinu sjálfu og rýn í það skapi umræður um vísanir frekar en að ég fari að njörva vísanir í stein með stórum yfirlýsingum hér. Hér eru tíðir, reki, grip, frjósemi, skjól, nytjajurtaræktun, samvera, fljótandi tilraunastarfsemi, lausnamiðuð hugsun, verkfræðiáskorun, hnattrænt samhengi og eins og ég segi form og virkni.

Það er við hæfi að spyrja í ljósi þess að krafan um að borga listamönnum fyrir vinnu sína hefur verið hávær undanfarið og ýmsir sigrar verið að vinnast í þeirri baráttu. Er ykkur hugmyndasmiðunum ætluð mannsæmandi laun fyrir vinnu ykkar við þetta verkefni?

Þetta er mjög góð spurning og ég fagna henni. Ég segi nú bara verum hávær og mér er efst í huga ómetanlegt starf Jónu Hlífar Halldórsdóttur formanns SÍM í þessum málum. Hún er virkilega að toga íslenska myndlistarsenu mörg skref inn í samtímann með því að leiða þessa baráttu. Nú er það þannig með þetta verkefni að það hefur unnið ákveðna samkeppni en eftir á að semja við okkur hugmyndasmiðina um höfundalaun. 

Við fórum á fund Faxaflóahafna nú í vikunni og erum öll sammála um að fyrsta mál á dagskrá, ef að stjórnin ákveður að leggja út í þessa framkvæmd, verður að semja við okkur höfunda um þóknun. Þessi fundur var mjög góður og tengiliðir okkar fagmenn fram í fingurgóma á sínu sviði. Við efumst ekki um að Faxaflóahafnir muni borga okkur viðeigandi þóknun sem er í samræmi við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum þegar kennileiti sem þetta eru byggð. Ég sé mína ábyrgð sem mikla þar sem það er fordæmagefandi og ég hef engan áhuga á að ‘undirbjóða’ kollega mína og grafa þannig undan myndlistarlífinu í landinu. Ég gæti heldur ekki lifað af ef ég gerði slíkt. Þú veist borgað húsaleigu og mat. Ef ég fæ að ráða þá verður það auðvitað gegnsætt hvaða þóknun við fáum enda tel ég það hagsmuni myndlistarinnar. Sjáum til hvort það verði ekki hægt.

artzine þakkar Huldu fyrir spjallið og óskar henni og hópnum öllum innilega til hamingju með frábæra vinningstillögu.

Hér að ofan er myndskeið af Huldu að halda stutta ræðu þegar tilkynnt hafði verið um úrslitin.

Líf Magneudóttir var formaður dómnefndar og kynnti hún niðurstöður dómnefndar á árlegu málþingi Faxaflóahafna sem haldið var í Hörpu.

Auk Lífar sátu í dómnefndinni Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður, Hildur Gunnlaugsdóttir, skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna, Ólöf Nordal, myndlistarmaður og Sindri Leifsson, myndlistarmaður. Dómnefndin naut ráðgjafar Vignis Albertssonar byggingafræðings. Í forvalsnefnd sátu Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Guðrún Erla Geirsdóttir, myndlistarmaður og Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður og rithöfundur. Trúnaðarmaður SÍM í samkeppninni var Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, myndlistarmaður.

Hér má sjá allar tillögurnar: Keppnistillögur

Katrín I. Hjördísadóttir Jónsdóttir – Afskurður fjarlægra tilfinninga / Scraps of distant emotions

Katrín I. Hjördísadóttir Jónsdóttir – Afskurður fjarlægra tilfinninga / Scraps of distant emotions

Katrín I. Hjördísadóttir Jónsdóttir – Afskurður fjarlægra tilfinninga / Scraps of distant emotions

The footage used is raw, unadultered content where the apparent simplicity crystalizes linearly to become the cornerstone of the artwork. The subjective experience, sensation, and perceptual phenomenon that is approached through this motion picture takes the viewer to the realm of dreams. Inspiration comes from the moments our subconscious highlights from life experiences. The purpose of the subconscious is twofold, it keeps us safe from anguish and trauma and it chooses from our memories the ones that can transmit a strong emotion. Love, guilt, fear, anger and happiness are powerful feelings beyond our understanding and are concealed teachers that guide our life journey. Transcending into the higher self requires a deep understanding of our emotions, embracing reality through memories and listening to the message that hides at plain sight.

The oneiric journey eclipses the triviality of falling asleep breaking all boundaries and the preconceptions you create. This sequence takes the shape of a small river that flows into the ocean—a stream of consciousness that flows into the sea of unconsciousness.
Expectations should not overflow your thoughts. Your thoughts should not override your impulses. Subdue to your inner call and let it overwhelm you. Take a deep breath.
Your mind takes over and your willpower withers. Your eyes get number as your spine shivers. Take a deep breath.

Your surrounding comforts you as you confront your thoughts. Set your memories free, let the nostalgic feeling burn and consume you. Embrace the sacrifice. Be naïve. Absolute peace comes from within.

Alejandro Oria Lombardía

Staðsetningar í Gerðarsafni

Staðsetningar í Gerðarsafni

Staðsetningar í Gerðarsafni

Á níunda áratugnum tókst allstórum hópi ungra listamanna á Íslandi að koma öllum á óvart með því að snúa sér að málverki en þá höfðu margir um nokkurt skeið spáð því að tími þessa ævagamla listforms væri liðinn og framtíðin myndi í staðinn einkennast af hugmyndalist, gjörningum, vídeólist og öðrum nýjum miðlum. Samskonar umskipti voru reyndar uppi í öðrum löndum, bæði austan hafs og vestan, en íslensku listamennirnir eltu ekki þá strauma í blindni heldur tókust af alvöru á við þá málverkahefð sem orðið hafði til á Íslandi. Þar voru landslagsmálverk fyrirferðarmikil þrátt fyrir að abstraksjón, popplist og fleiri stefnur hefðu líka átt sín skeið og sína meistara. Það var óvænt en ákaflega merkilegt að fylgjast með því hvernig þetta unga fólk mátaði sig við gömul viðfangsefni og fann nýjar leiðir til að tjá sig og endurhugsa möguleika málverksins. Hér var ekki um einhvers konar endurhvarf að ræða heldur voru dregnar saman hugmyndir úr listastefnum síðustu áratuga – abstraksjón, minimalisma, hugmyndalist, o.s.frv. – svo úr varð algerlega ný nálgun.

Landslagsmálverk höfðu alla tuttugustu öldina notið mikillar hylli á Íslandi. Frumkvöðlarnir voru Þóra Melsted, Þórarinn Þorláksson og Ásgrímur Jónsson, og fjöldi annarra málara fylgdi í kjölfarið. Íslenskt samfélag breyttist hratt á þessum árum þegar fólk fluttist úr sveitunum í þéttbýlið og landslagsmálverkin virðast hafa hjálpað til að sætta fólk við þessi umskipti: Þótt maður sæi ekki lengur fjallið heima út um eldhúsgluggann var hægt að hafa fallegt málverk af því í stofunni. Eftir því sem leið á öldina dofnaði áhuginn á landslagsmálverkum smátt og smátt. Samband fólks við landið og landslagið breyttist og varð flóknara. Í stað þess að búa í landslaginu fór fólk í ferðalög úr bænum til að njóta þess og þegar iðnvæðingin breiddi úr sér komu upp vandamál um landnýtingu og umhverfisvernd sem eldri kynslóðir hefði ekki órað fyrir. Myndlist yngri listamanna endurspeglaði þessa þróun og þegar Nýja málverkið kom fram var öllum ljóst að það dygði ekki að sækja í smiðju gömlu meistaranna heldur þyrfti nýja hugsun og nýjan skilning á því  hvernig listaverk gæti túlkað upplifun okkar og skilning. Kristján Steingrímur Jónsson og Einar Garibaldi Eiríksson hafa átt drjúgan þátt í þessari endurskoðun og  í leiðinni fundið sér sinn sérstaka og persónulega stíl. Málverk þeirra beggja bera sterk einkenni þeirrar vitsmunalegu nálgunar sem  í ríkari mæli einkennir samtímamyndlist: Málverkið er ekki lengur bara mynd af landslagi heldur tjáir heimspekilegar vangaveltur um jörðina, okkur sem á henni búa og um listhefðina sem á undan blómstraði. Hvorki Einar né Kristján Steingrímur mála myndir af landslagi en báðir takast þó á við það á markvissan hátt.

Verk Einars byggja á hugsun um tákn og táknfræði. Ljósmyndir: Vigfús Birgisson.

Kristján Steingrímur Jónsson. Nálægð 2005. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Frá vinnustofu Kristjáns Steingríms 2017. Ljósmynd: Anna Karen Skúladóttir

Frá vinnustofu Einars Garibalda 2017. Ljósmynd: Anna Karen Skúladóttir

Verk Einars byggja á hugsun um tákn og táknfræði – það hvernig við vísum í landslag frekar en landslagið sjálft. Þannig hefur hann t.a.m. málað upp landakort þar sem lítil myndtákn gefa vísbendingar um hverslags landslag sé að finna á hverjum stað: Klettabelti hér, mýri þar eða kjarr eða hraun. Hann hefur meira að segja sýnt það sem hann kallar „fundin málverk“ og látið skilti sem ætlað er að vísa ferðalöngum á fallegar náttúrumyndanir koma í stað mynda af náttúrunni sjálfri. Kristján Steingrímur hefur hins vegar leitað í landið sjálft en í staðinn fyrir að mála myndir af landslaginu hefur hann t.d. safnað jarðefni frá ákveðnum stöðum og unnið úr því olíuliti sem hann notar og vísar þannig í landslagið. Í staðinn fyrir að „sýna“ landslagið eru þessi málverk bókstaflega búin til úr landslaginu. Þá hefur hann líka notað víðsjá til að kanna innri byggingu jarðefnisins og teiknað upp svo við getum séð landslagið frásjónarhorni sem er okkur alla jafna hulið. Á þessari sýningu eru verk Kristjáns Steingríms og Einars sýnd en um leið reynt að varpa ljósi ásköpunarferlið sem að baki býr. Sýningin er í tveimur hlutum sem er nokkur nýlunda en með því vonumst við til að geta kafað dýpra í þær hugmyndir og rannsóknir sem að baki liggja. Á fyrri hluta sýningarinnar eru nýleg verk eftir listamennina báða en um miðbik sýningartímans verður henni umbylt, fleiri verk tekin inn og bætt við myndum og efni sem skýra vinnuaðferðirnar sem þeir hafa þróað með sér á áratuga ferli í myndlistinni. Tilgangurinn er að vekja gesti til umhugsunar um samband okkar við landið og umhverfi okkar en um leið að greina hvernig þetta samband hefur þróast og umbreyst í sögunnar rás. Á sama tíma er hér á ferðinni gagnrýnin sýn á hlutverk myndlistarinnar í samtímanum og það hvernig hún getur hjálpað okkur að skilja okkar eigin upplifun og líf.

Jón Proppé


Textinn er sýningartexti. Aðalmynd: Kristján Steingrímur, Jón Proppé sýningarstjóri sýningarinnar og Einar Garibaldi. Aðalmynd með grein: Hrafnhildur Gissurardóttir.

Tittlingaskítur í Hverfisgalleríi

Tittlingaskítur í Hverfisgalleríi

Tittlingaskítur í Hverfisgalleríi

Myndheimur Guðmundar Thoroddsen er sérstakur og nokkuð sláandi. Á klippimyndum hans má sjá skrítna karlmenn sem virðast ráfa um í einhvers konar tómi, sumir í jakkafötum og aðrir á nærbuxunum, en öllum virðist þeim mikið niðri fyrir; þeir eru einbeittir og uppteknir af einhverju sem við vitum ekki alveg hvað er. Guðmundur segir sjálfur að þetta séu bara „karlfífl að gera eitthvað sem þeir halda að sé merkilegt en er bara helvítis vitleysa og rúnk“.

Þótt verk þessi séu gamansöm er ómögulegt annað en að sjá í þeim vissa samfélagsgagnrýni – ádeilu á hið karllæga samfélag sem upphefur störf og athafnir karla sem þó reynast ansi oft ekki hafa hundsvit á því sem þeir eru að fást við og klúðrað málum aftur og aftur fyrir sér og öðrum. Klippimyndir eru sérstaklega gott tæki til að koma slíkum skilaboðum áleiðis og þannig var þeim einmitt beitt þegar myndlistarmenn fóru fyrst að nota þessa aðferð fyrir hundrað árum. Í meðferð dadaista, eins og Hönnu Höch, varð klippimyndin að beittu pólitísku vopni þar sem auglýsingaefni og tímaritsmyndir fengu nýtt líf. Klippimyndir urðu líka vinsælar eftir seinni heimsstyrjöldina þar sem þær nýttust vel til að ögra og gera grín að vestrænu neyslusamfélagi, t.d. hjá Richard Hamilton og Erró. Verk Guðmundar eru ólík þeim að því leyti að hann endurnýtir ekki prentað efni beint heldur teiknar eða málar eftir fyrirmyndum og klippir svo út, en niðurstaðan er keimlík og áhrifin ekki síður beitt.

Því fer fjarri að klippimyndir þurfi eingöngu að snúast um pólitískt innihald. Þetta er myndrænn miðill og kallar á sams konar sjónræna ögun og málverk eða ljósmynd. Þetta skynjar Guðmundur, enda hefur hann áður fengist við bæði málverk og skúlptúr, og klippimyndir hans eru langt frá því að vera neitt kraðak af klippum og myndefni. Í þeim er vel skilgreind dýpt eða þrívídd þótt Guðmundur leyfi sér að leika með hlutföll og stærðir. Myndbyggingin getur virkað losaraleg við fyrstu sýn en þegar betur er að gáð er hún nákvæmlega hugsuð til að undirstrika tilgangsleysi og sjálfsbirgingshátt karlanna.

Verkin eru húmorísk en gamanið er oft grátlega grátt. Það er eitthvað barnalegt við þessa karlmenn og stússið á þeim. Þeir ana um eins og örlög heimsins velti á þeim, þeir troða sér fram og frekjast og sjálfum finnst þeim allt sem þeir gera afskaplega merkilegt, ef ekki beinlínis hetjulegt. Leirverkin á sýningunni undirstrika þessa hugsanabrenglun karlaveldisins. Þetta eru eins konar krukkur sem minna á verðlaunabikara í íþróttum, skreyttar flúri sem minnir sterkt á typpi. Með þessum hætti – virðist Guðmundur vera að segja – verðlauna karlarnir sjálfa sig og hver annan fyrir ímynduð afrek og viðhalda þannig goðsögninni um eigin verðleika og mikilvægi.

Jón Proppé


Guðmundur Thoroddsen er fæddur 1980 og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og útskrifaðist með með MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2011. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi sem og erlendis. Ber helst að nefna einkasýningarnar Father’s Fathers árið 2012, Hobby and Work árið 2013 og Dismantled Spirits árið 2016 í Asya Geisberg Gallery í New York og samsýninguna Ljóslitlífun í Listasafni Reykjavíkur 2010. Fjallað hefur verið um sýningar hans í ýmsum fjölmiðlum s.s. Artforum, The New York Times, Time Out New York og Dazed Digital. Hann hefur hlotið styrki úr styrktarsjóðum Guðmundu Andrésdóttur, Myndstefs, KÍM og Evrópu unga fólksins, auk Listamannalauna. Guðmundur er einnig á mála hjá Asya Geisberg Gallery í New York.

Á undanförnum árum hefur Guðmundur verið að skoða karlmennsku og stöðu feðraveldisins, þar sem hann gagnrýnir og hæðist að því á sama tíma og hann upphefur það. Húmorísk og sjálfrýnin verkin eru unnin í fjölbreytta en hefðbundna miðla, s.s. leir, vatnslit, teikningu og málverk. Myndefnið eru gjarnan skeggjaðir karlar sem uppteknir eru við ýmsa iðju á borð við körfuknattleik, bjórbruggun og skotveiðar. Auk þessa má sjá marga þeirra kasta vatni eða leysa vind vítt og breitt um myndflötinn.


Textinn er sýningartexti sem skrifaður er fyrir sýninguna Tilltingaskítur sem er í  30.09.17 – 28.10.17

Aðal mynd með grein: Tittlingaskítur (2017), jarðleir og glerungur. 26,5x16x15cm. Guðmundur Thoroddsen.

Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Sigurður Guðjónsson opnar sýninguna Inniljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en hún er sú fyrsta í röð sýninga sem Listasafn ASÍ skipuleggur og eru hluti af menntunar- og kynningarátaki safnsins til næstu ára. Listráð safnsins valdi Sigurð Guðjónsson til samvinnu um innkaup og sýningahald úr hópi listamanna sem svaraði kalli s.l. vor og sendi inn tillögur til safnsins. Halldór Björn Runólfsson skrifaði um þetta glæsilega verkefni og fékk artzine góðfúslegt leyfi til að birta textann. Nánari upplýsingar um opnunartíma má finna neðst í greininni.

INNLJÓS
Vídeó er ekki gamalt fyrirbæri ef einungis er litið til tækninnar eins og við höfum kynnst henni á undanförnum áratugum. Upptökuvélin, eins og hún kemur okkur oftast fyrir sjónir, var fyrst sett á markað um miðjan 7. áratuginn og olli byltingu þegar í stað. Þunglamalegar upptökuvélar í sjónvarpsverinu sem buðu upp á afar takmarkaðan sveigjanleika viku fyrir hentugri vél, sem hægt var að munda og stýra með annari hendi. Allir sem vettlingi gátu valdið keyptu nýja Portapak-tækið frá Sony og fóru að spreyta sig á hinum nýja miðli, fréttamenn, ferðamenn, fjölskyldufólk með nýfædda ungana sína og listamenn. Þó að litina skorti og hljóðupptökuna þyrfti að rogast með á stóru segulbandstæki í hliðartösku á öxlinni var uppfinning Sony fyrir hálfri öld hrein bylting og frelsun í víðtækum skilningi.

Hins vegar er vídeó ævafornt latneskt orð fyrir sögnina að sjá. Því liggur beinast við að minnast hinnar forngrísku goðsögu um Aröknu, hinn lýdíska myndvefara, sem rataði í kvæðabálk Óvíds Ummyndanir, eitthvert frægasta bókmenntaverk latneskrar tungu. Þar segir frá hinni dramblátu alþýðukonu, sem neitaði að þakka gyðjunni Mínervu fyrir hæfileika sína og fékk fyrir vikið þá refsingu að ummyndast í síspinnandi könguló. Svo hrífandi var vefur Aröknu að guðdómlegum aðdáendum hennar fannst rán Evrópu í vefmynd hennar hreyfast og nautið sem bar hana á bakinu þjóta eins og kólfur um Eyjahafið.

Þannig er hugmyndin að baki vídeótækninni ævagömul þó hún sé sjálf ung að árum. Þessi tvívíði uppruni tímans endurspeglast í verkum Sigurðar Guðjónssonar í hinum aflagða Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði og umgjörðinni sem þeim er búin. Þótt kapellan þar sé ekki gömul er lögun hennar klassísk, byggð í rómönskum stíl eins og hann mótaðist, víða í Evrópu, fyrir um það bil þúsund árum. Á gólfið framan við kórinn varpar Sigurður verkinu Fuser 2017, valsi sem rennur langsum yfir flötinn, rétt eins vélrænu teppi væri rúllað yfir annan gólfdregil með sama mynstri – nokkurs konar villokkum eða arabeskum – sem óneitanlega minnir á miðaldir, en um leið á staðlaðar vélfléttur úr málmiðnaði nútímans. Fuser 2017 er jafnframt hljóðverk, sprottið af eigin uppmögnuðum skarkala, áminning um það að vídeó getur bæði fæðst af hljóði og mynd ef því er að heilsa.



Það er því ekki að ófyrirsynju sem Sigurður velur verki sínu heiti sem beinlínis vísar til samruna. Verkið Scanner 2017, sem er í líkhúsinu undir kapellunni, ber enn skýrari merki þess tímaflakks sem listamaðurinn ástundar milli ólíkra tíma. Þar hefur kólfurinn – skannaskafan – sem líður hægt yfir ljósrammann, tekið á sig fastara mót, líkast gullstöng sem stafar geislum sínum í djúpu myrkri. Í líkhúsi hlöðnu dulúðugu en dauðhreinsuðu andrými hlýtur maður að spyrja hvort þetta fyrirbæri sé táknmynd sálarinnar að hefja sig til flugs, ellegar eðalmálmurinn eini að spretta fram úr blýgjalli alkemistans.

Loks myndar Mirror Projector 2017 þrenningu með fyrrnefndu verkunum tveim og lokar ferlinu með upptöku af glerplötu venjulegs glæruvarpa meðan spegill tækisins fetar sig upp og niður með tilheyrandi breytingu á ljósopi og birtubrigðum. Undir hljómar suðið í glæruvarpanum. Forðum daga var myndlistin tengd við kirkjuna og fyllti margslungin rýmin innan hennar, grafhvelfinguna sem geymdi leifar af líkama dýrlinga, hvolf skipsins sem enn er skreytt gylltum stjörnum á bláum grunni í íslenskum sveitakirkjum og útskornar súlurnar; rismiklar dómkirkjur miðalda báru mynstur milli ólíkra heimshluta. Verk Sigurðar Guðjónssonar vitna um sams konar heildarhugsun og fólk upplifið fyrr á öldum þegar það steig inn fyrir dyrnar á guðshúsum.

Halldór Björn Runólfsson.


Sigurður Guðjónsson (f. 1975) lærði í Vín, Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hann sýndi fyrst um aldamótin síðustu í listamannareknum rýmum í Reykjavík og dökk en ágeng vídeóverk hans vöktu strax athygli, ekki aðeins á Íslandi heldur í Berlín, New York, Lundúnum, Beijing, Seoul og alls staðar þar sem þau hafa verið sýnd. Hann notar vídeó og lifandi myndir en að mörgu leyti mætti fullt eins skilgreina verk hans sem tónlist. Hann notar tímamiðil (vídeó) í verk sem fanga áhorfandann gegnum ryþma og endurtekningu og tengja mynd og hljóð á þann hátt að þau virðast víkka skynsvið manns og vekja nýjar kenndir. Verkin eru oftast hæg og í þeim felst gjarnan vélræn endurtekning, þau draga mann inn í taktfasta endurtekningu en vaxa líka þegar maður staldrar við þau og fer að skynja fleiri þætti þeirra, skrýtnar lúpur og taktmynstur sem geta orðið næstum alltumlykjandi. Á síðustu árum hefur hann líka unnið í stamstarfi við tónskáld og þannig búið til verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning. Hann er sífellt að víkka út sköpunarsviðið en verk hans bera sterk persónuleg einkenni og ná að skapa undarlega nánd sem aftur styrkir enn frekar skynhrifin.

Næsta sýning á verkum Sigurðar verður á Norðurlandi vestra fyrri hluta árs 2018. Öll verkin á sýningunni eru eign Listasafns ASÍ. Sigurður er með verk á sýningunni MÁLVERK-EKKI MIÐILL sem nú stendur yfir í Hafnarborg og sama kvöld og hann opnar sýninguna í St. Jósefsspítala verður hann með verk á CYCLE í Kópavogi.

Listráð Listasafns ASÍ 2017-18 skipa sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Heiðar Kári Rannversson auk Elísabetar Gunnarsdóttur forstöðumanns safnsins.

Ljósmyndirnar með greininni eru eftir Vigfús Birgisson.

Sýningaropnuninn er laugardaginn 23. september kl. 15. Opið er miðvikudaga-sunnudaga kl. 12-17.
Opnað er fyrir hópa utan reglulegs opnunartíma.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest