Tittlingaskítur í Hverfisgalleríi

29.09. 2017 | Innsent efni

Myndheimur Guðmundar Thoroddsen er sérstakur og nokkuð sláandi. Á klippimyndum hans má sjá skrítna karlmenn sem virðast ráfa um í einhvers konar tómi, sumir í jakkafötum og aðrir á nærbuxunum, en öllum virðist þeim mikið niðri fyrir; þeir eru einbeittir og uppteknir af einhverju sem við vitum ekki alveg hvað er. Guðmundur segir sjálfur að þetta séu bara „karlfífl að gera eitthvað sem þeir halda að sé merkilegt en er bara helvítis vitleysa og rúnk“.

Þótt verk þessi séu gamansöm er ómögulegt annað en að sjá í þeim vissa samfélagsgagnrýni – ádeilu á hið karllæga samfélag sem upphefur störf og athafnir karla sem þó reynast ansi oft ekki hafa hundsvit á því sem þeir eru að fást við og klúðrað málum aftur og aftur fyrir sér og öðrum. Klippimyndir eru sérstaklega gott tæki til að koma slíkum skilaboðum áleiðis og þannig var þeim einmitt beitt þegar myndlistarmenn fóru fyrst að nota þessa aðferð fyrir hundrað árum. Í meðferð dadaista, eins og Hönnu Höch, varð klippimyndin að beittu pólitísku vopni þar sem auglýsingaefni og tímaritsmyndir fengu nýtt líf. Klippimyndir urðu líka vinsælar eftir seinni heimsstyrjöldina þar sem þær nýttust vel til að ögra og gera grín að vestrænu neyslusamfélagi, t.d. hjá Richard Hamilton og Erró. Verk Guðmundar eru ólík þeim að því leyti að hann endurnýtir ekki prentað efni beint heldur teiknar eða málar eftir fyrirmyndum og klippir svo út, en niðurstaðan er keimlík og áhrifin ekki síður beitt.

Því fer fjarri að klippimyndir þurfi eingöngu að snúast um pólitískt innihald. Þetta er myndrænn miðill og kallar á sams konar sjónræna ögun og málverk eða ljósmynd. Þetta skynjar Guðmundur, enda hefur hann áður fengist við bæði málverk og skúlptúr, og klippimyndir hans eru langt frá því að vera neitt kraðak af klippum og myndefni. Í þeim er vel skilgreind dýpt eða þrívídd þótt Guðmundur leyfi sér að leika með hlutföll og stærðir. Myndbyggingin getur virkað losaraleg við fyrstu sýn en þegar betur er að gáð er hún nákvæmlega hugsuð til að undirstrika tilgangsleysi og sjálfsbirgingshátt karlanna.

Verkin eru húmorísk en gamanið er oft grátlega grátt. Það er eitthvað barnalegt við þessa karlmenn og stússið á þeim. Þeir ana um eins og örlög heimsins velti á þeim, þeir troða sér fram og frekjast og sjálfum finnst þeim allt sem þeir gera afskaplega merkilegt, ef ekki beinlínis hetjulegt. Leirverkin á sýningunni undirstrika þessa hugsanabrenglun karlaveldisins. Þetta eru eins konar krukkur sem minna á verðlaunabikara í íþróttum, skreyttar flúri sem minnir sterkt á typpi. Með þessum hætti – virðist Guðmundur vera að segja – verðlauna karlarnir sjálfa sig og hver annan fyrir ímynduð afrek og viðhalda þannig goðsögninni um eigin verðleika og mikilvægi.

Jón Proppé


Guðmundur Thoroddsen er fæddur 1980 og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og útskrifaðist með með MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2011. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi sem og erlendis. Ber helst að nefna einkasýningarnar Father’s Fathers árið 2012, Hobby and Work árið 2013 og Dismantled Spirits árið 2016 í Asya Geisberg Gallery í New York og samsýninguna Ljóslitlífun í Listasafni Reykjavíkur 2010. Fjallað hefur verið um sýningar hans í ýmsum fjölmiðlum s.s. Artforum, The New York Times, Time Out New York og Dazed Digital. Hann hefur hlotið styrki úr styrktarsjóðum Guðmundu Andrésdóttur, Myndstefs, KÍM og Evrópu unga fólksins, auk Listamannalauna. Guðmundur er einnig á mála hjá Asya Geisberg Gallery í New York.

Á undanförnum árum hefur Guðmundur verið að skoða karlmennsku og stöðu feðraveldisins, þar sem hann gagnrýnir og hæðist að því á sama tíma og hann upphefur það. Húmorísk og sjálfrýnin verkin eru unnin í fjölbreytta en hefðbundna miðla, s.s. leir, vatnslit, teikningu og málverk. Myndefnið eru gjarnan skeggjaðir karlar sem uppteknir eru við ýmsa iðju á borð við körfuknattleik, bjórbruggun og skotveiðar. Auk þessa má sjá marga þeirra kasta vatni eða leysa vind vítt og breitt um myndflötinn.


Textinn er sýningartexti sem skrifaður er fyrir sýninguna Tilltingaskítur sem er í  30.09.17 – 28.10.17

Aðal mynd með grein: Tittlingaskítur (2017), jarðleir og glerungur. 26,5x16x15cm. Guðmundur Thoroddsen.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This