Þessi sýning hefur staðið til í langan tíma og eru hlutföll flestra verkanna hugsuð út frá þessum sýningarsal. Eitt verkanna var á sýningunni Nýmálað á Kjarvalstöðum 2015. Það verk, sem stendur sem par ásamt dökku verki fremst í sýningarrýminu, kom einnig fram í Framköllun hjá Heklu Dögg Jónsdóttur í Hafnarborg á síðasta ári. Enn eitt verk á sýningunni var á síðustu einkasýningu minni, Upplausn 2010. Það verk er óþekkjanlegt á þessari sýningu þar sem það snýr öðruvísi og ég er auk þess búin að mála ofan í það. Það skiptir mig máli að tengja svona á milli sýninga því ferlið á milli sýninga skapar einhverskonar vörpun á milli þeirra, yfirfærslu frá einni sýningunni til þeirrar næstu.
Aðspurð um hvernig henni finnist hafa verið í starfi sínu sem prófessor við LHÍ segir Hulda:
Það hefur verið ótrúlega gefandi, krefjandi og skemmtilegt. Það kom mér á óvart þegar ég var að byrja hvað maður skynjaði sterkt skólagöngu fólks fram að þeim tíma sem þau koma í BA nám í myndlist. Fyrir nemendur, sem hafa alla sína skólagöngu verið í umhverfi þar sem allt er stimplað annað hvort rétt eða rangt, er það mjög erfitt að takast á við spurningar eins og „Hvað finnst þér?“ og „Hvernig heldur þú að við getum þjónað hugmyndum þínum best?” Þetta voru oft framandi spurningar fyrir þeim. Eins vakti það mig til umhugsunar hvað fólk gat verið með brotið sjálfstraust vegna þess að það hafði ekki fengið að upplifa styrkleika sína nægilega vel áður. Til dæmis nemandi sem hefur rosalega sjónræna hæfileika en hefur alltaf verið niðurbarinn vegna lágra einkunna í bóknámsfögum. Það er mjög skýrt hvað skortir upp á sjónrænt læsi í okkar samfélagi. Eins þarf að koma auga á það að þegar fólk er ekki mjög bókhneigt að þá sé það allt í lagi því hæfileikinn liggi einfaldlega á öðru sviði. Reyndar held ég að margt sé að breytast í þessum efnum. Það eru átta ár síðan ég byrjaði og mér finnst ég alltaf vera að heyra meira af þessari vitund í skólakerfinu.
Við stofnuðum meistaranámsbraut í myndlist árið 2012 og ég er búin að vera fagstjóri þar frá upphafi. MA nám í myndlist á Íslandi er mjög mikilvægur valkostur fyrir fólk að hafa. Þetta er lítil námsbraut, það eru átta nemendur á hverju ári að meðaltali og um helmingur þeirra eru erlendir nemendur og helmingur Íslendingar. Þessi blanda er mjög dýrmæt og styrkjandi. Umræðurnar verða víðari þegar fólk kemur alls staðar að og mér finnst það gefa Íslendingunum mjög mikið. Erlendu nemarnir koma auga á hluti í okkar umhverfi og samfélagi sem eru of nálægt okkur til að við tökum eftir.
Í upphafi var viss tortryggni í garð námsbrautarinnar og gagnrýni á að hún kæmi í veg fyrir að fólk færi til útlanda í framhaldsnám, sem er svo algjörlega ekki stefna sem ég aðhyllist. Ég væri síst sú til að tala fyrir því að fólk ætti að vera heimóttalegt hérna uppi á skerinu. Ég var sjálf í New York í tæp átta ár, lauk meistaranámi árið 2000 og bjó svo og starfaði í borginni fram í ársbyrjun 2006. Það var mjög mótandi tími sem ég bý að og mun eflaust alltaf sakna pínulítið. Þannig að ég myndi svo sannarlega ekki vilja að fólk neitaði sér um slíka reynslu. Það eru hins vegar ekki allir sem eiga þess kost að sækja nám erlendis, og svo eru aðrir sem hafa lokið BA námi erlendis og hentar vel að bæta við sérmenntun sína hér á landi. Listaháskólinn er viðurkenndur háskóli á fræðasviði lista og við þurfum þetta rannsóknarstig menntunar til að styðja við framgang þessara mikilvægu fagsviða lista í okkar samfélagi. Ég trúi því einlæglega að án listrænnar sköpunar og þeirrar greiningar sem listir einar geta gefið til samfélagsins sé ekki býlt í þessu landi.
Núna er ráðningarfestu minni við Listaháskólann að ljúka þannig að ég er að stíga út fyrir skólann eftir þetta misseri. Það er skrýtin tilfinning en ég held líka að þetta sé mjög gott að láta reyna á sig með öðrum hætti. Nú er eins gott að fara að standa með því sem ég segi við nemendur mína, um að þau megi ekki gefast upp og að þau verði alltaf að standa með myndlistinni sinni. Það er gott að hrista upp í sjálfum sér og það er mjög mikilvægt að nýjir einstaklingar komi inn með sínar áherslur, það tryggir nauðsynlegt flæði á milli listsenunnar og skólans. Nám er og á að vera í stöðugri þróun. Það má aldrei segja „þetta er orðið gott“ heldur þarf alltaf að vera að spyrja og róta í möguleikunum og finna nýjar leiðir.
Hvað finnst þér um starfsumhverfi listamanna á Íslandi og hvernig metur þú hlutverk BERG Contemporary í því?
Ég vona og óska þess að fagumhverfi okkar sé að styrkjast, ætla að vera bjartsýn og segja að svo sé. Þar held ég að samstaða okkar myndlistarmanna og annars fagfólks gagnvart ytra umhverfinu skipti miklu máli. Það er alveg hægt að leyfa fjölbreytileika listanna að njóta sín, hafa skiptar skoðanir á málum en sýna samt samheldni. Hvað varðar BERG Contemporary, þá held ég að blasi við að þetta er frábær viðbót við starfsumhverfi myndlistar hér á landi. Þar skiptir mestu sú sterka og afgerandi sýn sem stofnandi gallerísins, Ingibjörg Jónsdóttir, hefur á samtímamyndlist og hlutverki BERG.
Nú er ákveðnu ferli að ljúka við opnun sýningarinnar en þú ert ekki að fara að sleppa hendinni af því sem þú ert að sýna í Færslu.
Nei, það þarf alltaf að halda þessum þræði gangandi inni í vinnustofunni. Það var voða skrýtið þegar við tæmdum stúdíóið og fórum með öll nýju verkin hingað í galleríið. Ég náði mér í nokkra blindramma strax og setti eitthvað í gang í vinnustofunni því það er enginn endapunktur í þessu ferli, þráðurinn lifir áfram.
Ég vinn yfirleitt þannig að ég er með mörg verk í vinnslu í einu og hef þau í kringum mig í smærri heildum. Ég er ekki með stóra vinnustofu þannig að ég þarf að leggja þau til hliðar og draga þau fram til skiptis. Þannig að vinnuferlið felur alltaf í sér þetta nána samtal á milli verkanna. Það er eitt verk á sýningunni sem er samsett af indigó bláum og gulllit sem ég var lengi að kljást við. Það tók mig langan tíma að ná þessu verki saman og ég skildi ekki af hverju ég gat ekki hætt. Svo var ég að fara í gegnum myndasafnið mitt í tölvunni og dett inn í myndir sem ég hafði tekið þegar ég fór til Rómar í fyrsta skipti 2012. Þá sá ég bara einhvernvegin að þetta var Vatíkansafnið með allri sinni gyllingu og bláma og ég mundi það ekki einu sinni sjálf. Svona skjótast gömul hughrif upp í bland við nýrri og það er þetta þvers og kruss samtal minninga við augnablikið hér og nú sem mér finnst svo áhugavert.
Núna er ég að láta reyna á þessi stærri, sjálfstæðu verk en það er ekki þar með sagt að ég hafi sagt endanlega skilið við fyrri nálgun. Það koma alltaf einhverjar nýjar spurningar sem að maður fer þá að glíma við. Mér finnst hver sýning opna á enn fleiri möguleika. Það er dásamlegt hvað myndlistin er rík af möguleikum. En það tekur tíma að koma auga á þá. Ég held að það gerist ekki fyrr en að sýningunni hefur verið lent og svolítið eftir opnun, jafnvel einhverjum árum síðar. Stundum skoða ég eitthvað síðar sem ég hef verið ósátt við á sínum tíma og lagt til hliðar. Þegar ég tek það fram aftur sé ég kannski einhverjar þreifingar, sem eru þá komnar skýrt fram í nýju verkunum. Oftast finnst mér það taka mörg ár að sættast fyllilega við verkin.
Núna undanfarið hafa nemendur mínir verið á fullu að fylgja MA verkefnum sínum eftir með titlum og textum í sýningarskrá, finna leiðir að því að orða hlutina. Á þessu stigi þarf að taka afstöðu, velja og hafna og eiga eigin orð yfir verk og hugmyndir. Í þetta skiptið var ég algjörlega á sama stað og þau í þessu ferli. Þau voru að engjast yfir sínum titlum og ég var að engjast yfir mínum. Þau voru að skrifa í sýningarskrá en á sama tíma var ég að skrifa eigin hugleiðingar. Og ég sagði við þau að óvissan færi greinilega aldrei, þú ert alltaf jafn óörugg með niðurstöðuna. Kannski snýst þetta á endanum um að læra að höndla óvissuna, kunna að njóta hennar. Að þora að ögra sér áfram.
Kærar þakkir fyrir samtalið, Hulda
Hlín Gylfadóttir