OF LIGHT – Viðtal við Samönthu Shay um sviðsverk í myrkri
Samantha Shay er ung amerísk listakona og leikstjóri sem á djúpa tengingu við Ísland, dáist af náttúrunni og íslensku listafólki. Hún er útskrifuð úr virta listaháskólanum CalArts í Los Angeles og stofnandi listamannakollektívsins Source Material. Source Material hefur sett á svið metnaðarfull og listræn sviðsverk sem leika á mörkum gjörningalistar. Með enga aðra en Marinu Abramovic til stuðnings og djúpa ástríðu fyrir vinnu sinni trúum við ekki öðru en að þessa stúlka eigi eftir að ná langt. Í sumar, þann 22 júlí n.k mun hún heimsfrumsýna verk sitt OF LIGHT í Tjarnarbíó.
Við heyrðum í þessari áhugaverðu listakonu og forvitnuðumst meira um hana og verkið:
Hvað eiga fyrri verk þín sameiginlegt?
Eins mikið og verkin mín eru breytileg eða geta þróast í ólíkar áttir, þá er alltaf sami ásetningurinn; að búa til verk sem er byggt á visku innsæisins. Mér hefur fundist leikhús verða óvinsælla listform í samtímanum vegna þess að það byggir of mikið á fræðunum og þó að ég kunni vissulega að meta velhugsuð og fáguð sviðsverk þá held ég að leikhúsið þurfi að bjóða fleirum inn í samtalið. Ég held að það sé leið til að búa til eitthvað vandað en á sama tíma rífa teppið undan fólki með ástríðu og tilfinningalegri fágun, ekki einungis með intellektinu. Ég nýt þess að vinna með hægra heilahvelinu. Ég vil endurfjárfesta aftur og aftur í því sem eitthvað gæti þýtt frekar en það sem því sem það á að þýða. Ef við viljum eiga sameiginlegar upplifanir, þá verðum við að eiga sameiginlegar áskoranir. Við þurfum að vera tilbúin að efast um tilveru okkar og gildi aftur og aftur, jafnvel með það sem við þykjum okkur þekkja vel og vera viss um, þetta er satt í lífinu og listinni.
Þegar ég vissi ekki hvað ég átti að kalla það sem ég var að gera þá notaði ég vinsæla orðatiltækið “ólínuleg frásögn”, en var aldrei ánægð með það. Innsæið okkar og líkamar búa til ótal útgáfur af meiningu og upplifunum um allt og ekkert, svo að ég hef byrjað að kalla verkin mín „innsæis frásagnir“. Það er mín sérstaða sem leikhúslistakona.
Hvenær komstu fyrst til Íslands og hvaða áhrif hafði sú heimsókn á þig?
Ég heimsótti fyrst Ísland í júní 2011. Ég hafði eitt vetrinum í Massachusetts, snjóuð inni, að mestum hluti ein, á mjög myrkum og einagruðum stað í mínu lífi. Ég ákvað að ferðast ein eftir þennan tíma til að fá nýtt sjónarhorn og fjarlægð á hlutina. Ég varð svo fyrir áfalli þegar ég kynntist íslensku miðnætursólinni sem varð til þess að ég hófst handa við að búa til verkið OF LIGHT. Ég var svo forvitin um hvernig við upplifum ljós og myrkur, á tilfinningalegan, sálfræðilegan og andlegan hátt, og hvernig þetta hefur áhrif á okkur líkamlega og svo hvernig við tengjum við skuggan í okkur sjálfum og upplifum hann. Allt þetta vakti hjá mér forvitni. Ég hef einnig fundið fyrir auðmýkt þegar ég er hérna vegna náttúrunnar margoft. Ísland er staður þar sem náttúran ræður meiru en á flestum stöðum í heiminum, hún er villt, falleg, og stundum hættuleg. Það hefur virkilega jarðtengt mig á einhvern hátt en á sama tíma innblásið mig til þess að vera sjálf líkari íslenskri náttúru….. á góðan hátt. Ég er einnig mjög hrifin af tónlistarsenunni á landinu og hef eignast hér góða vini og samstarfsfólk. Það er svo hár staðall fyrir listsköpun hérna, og allir til í að bretta upp ermar og hella sér út í hlutina. Ég hef verið hluti af listasamfélögum sem tala mikið og gera lítið, en mér finnst Íslendingar vera mun meira í því að gera. Það kann ég að meta. Ég er því spennt að sýna verkið OF LIGHT á Íslandi af mörgum ástæðum.
Segðu okkur betur frá verkinu OF LIGHT sem verður sýnt í Tjarnarbíói í Júlí?
OF LIGHT er úthalds flutningur, við köllum þetta einnig óperu, en myndum segja að þetta væri eins og löng útgáfa af galdraþulu eða særingaskáldskap. Ég hef verið heilluð af sögu vígslna í gegnum aldirnar og hvernig allt mannfólk upplifir einhvers konar vígslur í gegnum ævina sem eru oft tímabil umróts og breytinga í lífinu. Á þessum tímabilum heimsækjum undirheima og komum svo aftur tilbaka, nú eða ekki. En við eigum það öll sameiginlegt að upplifa umbreytingar og vígslur sem tákna nýtt upphaf á einhvern átt í gegnum lífið. Fyrr á öldum, voru fyrstu leikhúsverkin í raun athafnir og helgisiðir sem voru oftast um að heiðra einhverja slíka umbreytingu. Samtíminn hefur týnt þessum hefðum. En sviðsflutningur getur verið ákveðin vígsla.
Stikla
Bakgrunnur minn er að mestu leiti í leikhúsi, þó að verkin mín snerti alltaf fleiri fleti. Vegna þess hef ég unnið sífellt meira í fleiri miðlum eins og gjörningalist og ég hef búið til hin ýmsu myndbönd undanfarið oftast í samstarfi við tónlistarfólk. Mér finnst mikilvægast að ég búi til verkin, að ég segi söguna, og noti í það þann miðil sem hentar best hverju sinni. Leikhús er vissulega mitt heimili, ég er menntuð leikkona en það hefur ýmsa ókannaða möguleika.
Þess vegna langaði mig að búa til rými fyrir áhorfendur til þess að heimsækja sinn innri skugga. Þetta er óhlutstæðasta verk mitt hingað til. Það spratt í raun útfrá því að mín eigin tilvera var að hrynja í sundur og þeirri góðu uppgötvun sem ég gerði í miðjunni á henni að við verðum í raun flóknari og innihaldsríkari verur ef við nálgumst skuggan innra með okkur. Ég varð svo spennt yfir því að hljóð gæti svo táknað ljósið sem birtist.
Einn kennara minna sagði mér sögu um munka sem klifruðu upp og ofan í hella til þess að syngja, og að þessi orka og titringur gæti skapað ljós. Ég elska það. Mig langaði að búa til verk um hvernig líkamar okkar geta verið himneskir og glóandi úr þessu myrkri.
Hvernig var ferlið og hvernig kom Marina Abramovich til sögu?
Ég kynntist Marinu fyrir nokkrum árum þegar ég tók þátt í einum verka hennar. Hún er alltaf spennt fyrir því hvað ungir listamenn eru að gera og við héldum því sambandi í gegnum árin. Þegar ég hóf svo að vinna í þessum hugmyndum, að búa til eins konar úthalds verk í myrkri, að vinna með vígslur og himneska líkama, þá fékk hún áhuga og við fórum að hittast á skype til að kasta hugmyndum fram og tilbaka. Hún hefur síðan hvatt mig til þess að komast í samband við dýpsta, og ósveigjanlegasta hlutann af sjálfri mér og hefur sagt mér að gera það sem ég vill. Hún hefur mjúklega ýtt mér í átt af upprunalegum ásetningi mínum og hjálpað mér að taka í burtu fyrirframákveðna ramma og hugmyndafræðilegar afsakanir sem ég var að búa til úr hræðslu. Það er það besta það sem leiðbeinandi getur gert, það er að hjálpa þér að standa ekki í vegi fyrir sjálfum þér.
Hvað er næst á sjóndeildarhringnum fyrir þig og listamannahópinn Source Material?
Eftir frumsýninguna, eða ein-sýninguna á OF LIGHT munum við vera með tónleika í MENGI daginn eftir, þann 23 júlí kl 20:00. Næst munum við svo sýna frumsamið verk sem kallast A Thousand Tongues eftir Nini Juliu Bang (sem er einnig í OF LIGHT), í virta Grotowski Institute í Pólandi í nóvember, og verðum hluti af Europeand Capital of Culture 2016. Við erum að vinna í samstarfi við stjórnanda Grotowski Institute hann Jaroslaw Fret, sem er einnig einn af mínum uppáhalds leikstjórum. Þetta er því mikill heiður og við erum spennt fyrir komandi tímum!
artzine þakkar Samönthu fyrir viðtalið.
Hér er hægt að bóka miða: https://midi.is/leikhus/1/9635/OF_LIGHT –
Ath! Hún er aðeins sýnd í þetta eina skipti
The interview in English: here