Von í Hafnarborg

Von í Hafnarborg

Von í Hafnarborg

Nú rétt eftir kosningar og í upphafi umleitanir flokka um nýja ríkisstjórn stendur yfir sýningin Von í Hafnarborg þar sem þingmenn eru sett í fyrirrúm. Í upphafi árs 2015 hóf Birgir Snæbjörn Birgisson vinnu við verkið sem hefur vakið talsverða athygli og tekið sinn tíma í framkvæmd. Myndirnar á sýningunni sýna þingmannatalið á árinu 2015. Svo fölar eru myndirnar að það er ekki augljóst við fyrstu sýn hvaða þingmaður er hvað.

Látlaust yfirbragð myndanna renna saman í eina heild. Hún rímar við hugsjón um þing sem starfar í friði og samheldni. Jafnframt vísa þær til þess að þingið mótar samfélagið. Þingmenn hafa áhrif og þeir sem heild móta samfélagið á jafn óljósan hátt og myndirnar af þeim eru. Eins og draugar nánast hafa þeir hlutverki að gegna undir skipulagi sem var fyrir þeirra tíma og verður áfram um ókomna framtíð.

Það er ekki allt sem sýnist. Það er eitthvað undir yfirborðinu ef betur er að gáð. Verkið er pólitískt en skilur upphrópanir eftir við dyrnar. Verkið segir ekki mikið til að byrja með rétt eins og Alþingishúsið eitt og sér er einungis bygging. Með því að gefa verkinu gaum verða hugrenningar um verkið jafn margar og áhorfendur eru margir.

Þingmennirnir eru allir eins en jafnframt ólíkir. Þeir eru eins og við, næstum því. Þeir endurspegla okkur í samfélaginu og á móti endurspeglum við þá. Von vísar til þess að þingmennirnir standa fyrir væntingum okkar, ótta og þrám. Hjá þeim skilum við vonbrigðum okkar og kvíða. Von um eitthvað betra er sett á þeirra herðar en kannski þurfum við að gera meiri væntingar til okkrar sjálfra.

Í verkinu eru allir þingmennirnir ljóshærðir og bláeygðir. Ljóshærðar staðalímyndir hafa áður skotið upp kollinum hjá listamanninum en hér eru bláu augun og ljósa hárið mjög óljóst að það reynir á sjónina. Það kallar á ákveðna einbeitingu. Séu skilaboðin yfirfærð í raunveruleikann, geta þau verið þau að það tekur á að fylgjast með starfinu á Alþingi. Jafnvel ollið ergelsi.

von1

Þegar Birgir byrjaði á verkinu var ekki fyrirséð að það yrði við opnun í aðdraganda kosninga. Eftir mikið umrót, mótmæli og boðun nýrra kosninga á verkið erindi inn í samfélagslega umræðu eins og fiskur í sjó. Í ljósi þess að formenn flokkanna virðast bjartsýnir og hafa nýlega talað um betri vinnubrögð á Alþingi, er komin von. Það er einnig von að Birgir reynir sannspár með verkinu. Að við fáum að sjá betri stjórnmál, laus við átök og skotgrafir þar sem Alþingi vinnur saman og leysir okkur undan átökum í samfélaginu.

Sýningin stendur til 20. nóvember

Júlía Marinósdóttir

Purpuralitað samtal fortíðar og nútíðar

Purpuralitað samtal fortíðar og nútíðar

Purpuralitað samtal fortíðar og nútíðar

Um þessar mundir stendur yfir sýningin 1:1 í Harbinger eftir Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur. Blaðamaður artzine fór og hitti Önnu Júlíu og fræddist um sýninguna og hugmyndirnar á bak við verkin. Í stílhreinni og látlausri uppbyggingu sýningarinnar er hulin samfélagsleg ræða sem er gerð skil með efnisnotkun. Þar leikur purpuraliturinn veigamikið hlutverk í sögulegu, vistrænu og listfræðilegu samhengi. „Glansmyndir“ af fallegum ferðamannastöðum um Miðjarðarhafið eru kallaðar fram með bleki og ætingu. Gifs sem var vinsælt efni til notkunar frá Miðjarðarhafinu er síðan hellt ofan í. Það dregur fram sérstakt útlit sem gefur glansmyndum á forsíðum ferðatímarita frá Vesturlöndum táknrænan undirtóninn í sýningunni. Kuðungum sæsnigla sem framleiddu purpuralit til forna er stillt upp sem skartgripum í búðarglugga.

Um val á kuðinginum segir Anna, „þeir eru almennt minjagripir ferðamannsins á ströndinni og í sögunni eru þeir líka tákn um endurnýjun og augljóslega húsaskjól.“ Kuðungategundirnar sem Anna notar eru af Muricidae ætt sem eiga rætur að rekja til Miðjarðarhafsins og var sæsnigillinn í kuðungnum notaður til að framleiða purpuralitinn sem hefur verið kallaður Tyrian fjólublár en stundum Royal fjólublár. „Hann var afar dýr og þurfti 10.000 sæsnigla að lita eitt klæði og styrktist liturinn með tímanum. Liturinn var því eftirsóttur af höfðingjum og konungum sem tákn um stöðu og ríkidæmi.“ Titill sýningarinnar 1:1 vísar til aðstæðna í nútímanum, til þess samnings sem Evrópusambandið er að gera við Tyrkland til að sporna við því að flóttamenn fari yfir Eyjahaf en samkvæmt honum á að senda alla sem koma þessa leið til baka til Tyrklands. Á móti ætlar Evrópa að taka á móti jafn mörgum einstaklingum úr flóttamannabúðum. Út frá lífstílsiðnaðinum sem selur ferðir í gríð og erg til Miðjarðarhafsins má segja að Evrópa sé klædd purpuraklæðum. „Evrópa er sú sem ræður og er með valdið núna“ segir Anna. Hið raunverulega ástand sem löndin við Miðjarðarhafið standa frammi fyrir fellur í skuggann af fallegum ströndum.

Vídeóverk sýningarinnar er mótvægið við önnur verk á sýningunni. Ég spurði Önnu út í það. „Gifsmyndirnar fela í sér miklar upplýsingar og sögu. Fyrir mér er vídeóverkið mótvægi við það en mig langaði að gera verk sem væri meira abstrakt og byggt á tilfinningu.“ Kuðungurinn spilar þar hlutverk því smáatriðin og fegðurðin koma fram í honum. „Ég sæki stílinn í verkinu í heimildarmyndir um fornleifar og muni sem hafa fundist. Ég dramatíseraði það, kuðungurinn snýst hægt svo hann sést vel og er honum blandað saman við lausan söguþráð.“ Vídeóverkið grípur þau stef sem eru einkennandi í sýningunni og gefur myndræn hughrif sem færa áhorfandann að raunverulegum sandi. „Tilfinningin er að þarna sé hugmyndin um ferðamanninn og minjagripi en á sama tíma er þetta rannsókn.“  Verkið sýnir nærmynd af slidesmynd af strönd og hellist litur hægt yfir. Undir myndbandinu er abstrakt tónlist samin af Kiru Kiru og segir Anna að það undirstriki spennu og ljái vídeóinu aðra vídd. Í tónlistinni er dramatík sem dregur áhorfandann inn í alvarlega atburðarrás þó hún sé aðeins gefin í skyn. Ástæðuna fyrir því að Anna notar slædu í verkinu segir hún það vera formið sjálft á slidesmyndunum sem heilli hana.

Myndin er einnig vísun í kvikmyndasöguna því hluti myndmálsins í verkinu á sér rætur í kvikmyndinni Don‘t Look Now frá 1973 eftir Nicolas Roeg. Í þeirri mynd flæðir rauður litur yfir slædu og notar leikstjórinn það sem tákn um fyrirboða missis og sorgar. Sjá má hliðstæður í þeirri kvikmynd þar sem breskt par missir barnið sitt og þeim fjölmörgu sem missa nákomna ættingja daglega á flótta frá hörmungum. Þar spila saman andstæður sem fyrr í sýningunni um „okkar“ heim og heim „hinna.“

Vídeóverkið þéttir þræðina og er sýningin í heild frumleg og upplýsandi nálgun á samtímann með rætur í fortíð.

Júlía Marínósdóttir

Egill fer á Feneyjartvíæringinn fyrir Íslands hönd 2017

Egill fer á Feneyjartvíæringinn fyrir Íslands hönd 2017

Egill fer á Feneyjartvíæringinn fyrir Íslands hönd 2017

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur tilkynnt um val dómnefndar á þeim listamanni sem fer fyrir hönd Íslands á Feneyjartvíæringinn 2017 og er það Egill Sæbjörnsson. Fagráð Kynningarmiðstöðvar sá um valið en í henni sitja að þessu sinni Björg Stefánsdóttir, Hlynur Hallsson, Sirra Sigrún Sigurðardóttr, Aðalheiður Guðmundsdóttir og Libia Castro.

Þrjú teymi listamanna og sýningarstjóra voru valin í forvali 29 umsækjenda til að vinna tillögur sínar fyrir Feneyjartvíæringin nánar og voru þar ásamt Agli, Gjörningaklúbburinn (Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir) með sýningarstjórunum Nadim Samman og Anja Henckel og Margrét Blöndal með sýningarstjóranum Alfredo Cramerotti. Sýningarstjórinn sem Egill vinnur með er Stephanie Böttcher.

Egill Sæbjörnsson er fæddur árið 1973 og útskrifaðist hann úr Myndlista og handíðaskólanum árið 1997. Frá 1999 hefur hann að mestu leyti verið búsettur í Berlín þó tengsl hans við Ísland hafi ætið verið sterk. Myndlist hans samanstendur af blöndu ýmissa miðla og verður útkoman oft á tíðum mjög tilraunakennd þar sem gjörningur og innsetning koma saman. Egill hefur gert tónlist í gegnum tíðina og meðal annars gefið út nokkrar breiðskífur en tónlistin er samofin mörgum af hans verkum. Hann á að baki farsælan feril og var til að mynda tilnefndur til Carnegie verðlaunanna árið 2010.

Það verður áhugavert að fylgjast með útkomunni á næsta ári og óskum við Agli farsældar með árangurinn.

Júlía Marínósdóttir


Mynd með grein tók Ingibjörg Magnadóttir.

 

Gjörningaklúbburinn í 20 ár

Gjörningaklúbburinn í 20 ár

Gjörningaklúbburinn í 20 ár

Í apríl síðastliðunum átti Gjörningaklúbburinn 20 ára starfsafmæli og á þeim tíma hefur verið í nógu að snúast.  Þær Eirún, Jóní og Sigrún hafa ögrað í gegnum tíðina með ýmsum efnistökum. Ég settist niður með þeim í spjall um það sem hefur verið í forgrunni í starfseminni en um þessar mundir eru þær í forvali fyrir Feneyjartvíæringinn og eru að vinna að tveimur sýningum fyrir haustið. Annars vegar er það Psychography unnið fyrir sviðslistarhátíðina LÓKAL og Ástin sigrar allt sem er einkasýning við Listasafnið Árósum í Danmörku, AroS. Þar verður röð einkasýninga skandinavískra listamanna og verður Gjörningaklúbburinn meðal þeirra. Um þessar mundir eru þær með videoverk á samsýningu í Listasafni Reykjavíkur sem nefnist RÍKI – flóra, fána, fabúla.

20 ára samvinna

Á þeim 20 árum sem Gjörningaklúbburinn hefur starfað hefur hann þróast og dafnað. Grunnstef í starfseminni komu fram mjög fljótt í starfseminni sem hópurinn vinnur með og þróar. „Þau eru svona gegnum gangandi, einhverjar línur sem byrjuðu alveg í upphafi“ segir Sigrún. Þróunin er eitthvað sem gerist sjálfkrafa segir Eirún. „Þú gerir eitt og þú gerir það næsta og lærir af því sem gerðist á undan. Svo eldist þú og það bætist í reynslubankann og maður er alltaf að þróa eitthvað, annars er þetta ekkert spennandi ef maður er alltaf að gera það sama. Það er soldið sem heldur manni gangandi.“ Þegar efniviður eða hugmyndafræði er notað aftur, að þá er það notað á allt annan hátt, það er sett fram með nýjum hætti. Þær tala um skyldleika, að verkin eru eins og ættartré, það er blóð þarna á milli.

Meðlimir Gjörningaklúbbsins hafa allar svipað lífssviðhorf, eru á sama aldri og koma úr svipuðu umhverfi. Það vekur athygli að þær eru allar elstar af systkynum sínum. Þær eru sammála um að það þýði að þær ganga til verks á svipaðan hátt, tilbúnar að taka til hendinni af ábyrgð. En lykilinn að langlífri samvinnu má e.t.v. rekja til þess að hlutirnir eru ræddir. Það eru einfaldar reglur sem farið er eftir en þær eru að innan hópsins er enginn einn sem ræður, meirihluti fær heldur ekki að ráða og þær segja ekki til um hver gerir hvað. „Það gengur kannski upp af því við erum þrjár, það þarf að ræða sig að niðurstöðu. Með formi samtalsins getur hvorki einn aðili eða þeir sem koma að samtalinu vitað niðurstöðu samtalsins fyrirfram ef þeir eru í heilindum. Þá verður til útkoma sem tilheyrði óvissunni sem þessir þrír eru búnir að búa til saman. Það er það sem við viljum finna.“ Oft þarf að melta hlutina og hafa þær tileinkað sér þá aðferð því hún leiðir oft til betri niðurstöðu sem allir eru ánægðir með. Samvinna og skilningur eru lykilþættir. „Það er oft mikill léttir ef einhver segir bara þegar maður er byrjaður að finna þrjósku og krull, „eigum við kannski bara að hætta núna og koma aftur á morgun?“ „Þá komum við daginn eftir og þá hafa hlutirnir sest.“ Það gefur rúm til að hugsa málið. „Eitthvað sem var kannski ótrúlega mikilvægt í gær er ekki jafn mikilvægt í dag. Fólk þekkir það í öllum störfum þar sem vinna fleiri en einn að það þarf að vera samvinna og samtal“ segir Sigrún. Jóní telur að fleiri en þær geti nýtt sér svipaða aðferðafræði, „þessi hugmynd um að það er ekki skýr hlutverkaskipan, allir skipta sér af öllu sem hinir eru að gera ætti líka að vera í samfélaginu, það er mjög slæmt ef háskólinn og akademínan einangrast inn í sér og viðskiptalífið vinnur í sínu horni og það er ekki samtal á milli. Það verður meiri jöfnuður og meiri skilningur á því hvað aðrir eru að gera og þá myndast ekki þessi togstreita sem mynda endalausa veggi og rifrildi.“ Það er þó ekki alltaf vinna í gangi því vinnustofan er einnig slökunarstaður þar sem er gott að setjast niður og hekla, blaðra, sauma í og hlæja. Það er mikið hlegið.

„þessi hugmynd um að það eru ekki skýr hlutverkaskipan, allir skipta sér af öllu sem hinir eru að gera ætti að vera líka í samfélaginu, það er mjög slæmt ef háskólinn og akademínan einangrast inn í sér og viðskiptalífið vinnur í sínu horni og það er ekki samtal á milli. Það verður meiri jöfnuður og meiri skilningur á því hvað aðrir eru að gera og þá myndast ekki þessi togstreita sem myndar endalausa veggi og rifrildi.“

Nánari upplýsingar um Gjörningaklúbbinn:

www.ilc.is

Videoverk Gjörningaklúbbsins: www.oz.com/love

UA-76827897-1