Von í Hafnarborg
Von í Hafnarborg
Nú rétt eftir kosningar og í upphafi umleitanir flokka um nýja ríkisstjórn stendur yfir sýningin Von í Hafnarborg þar sem þingmenn eru sett í fyrirrúm. Í upphafi árs 2015 hóf Birgir Snæbjörn Birgisson vinnu við verkið sem hefur vakið talsverða athygli og tekið sinn tíma í framkvæmd. Myndirnar á sýningunni sýna þingmannatalið á árinu 2015. Svo fölar eru myndirnar að það er ekki augljóst við fyrstu sýn hvaða þingmaður er hvað.
Látlaust yfirbragð myndanna renna saman í eina heild. Hún rímar við hugsjón um þing sem starfar í friði og samheldni. Jafnframt vísa þær til þess að þingið mótar samfélagið. Þingmenn hafa áhrif og þeir sem heild móta samfélagið á jafn óljósan hátt og myndirnar af þeim eru. Eins og draugar nánast hafa þeir hlutverki að gegna undir skipulagi sem var fyrir þeirra tíma og verður áfram um ókomna framtíð.
Það er ekki allt sem sýnist. Það er eitthvað undir yfirborðinu ef betur er að gáð. Verkið er pólitískt en skilur upphrópanir eftir við dyrnar. Verkið segir ekki mikið til að byrja með rétt eins og Alþingishúsið eitt og sér er einungis bygging. Með því að gefa verkinu gaum verða hugrenningar um verkið jafn margar og áhorfendur eru margir.
Þingmennirnir eru allir eins en jafnframt ólíkir. Þeir eru eins og við, næstum því. Þeir endurspegla okkur í samfélaginu og á móti endurspeglum við þá. Von vísar til þess að þingmennirnir standa fyrir væntingum okkar, ótta og þrám. Hjá þeim skilum við vonbrigðum okkar og kvíða. Von um eitthvað betra er sett á þeirra herðar en kannski þurfum við að gera meiri væntingar til okkrar sjálfra.
Í verkinu eru allir þingmennirnir ljóshærðir og bláeygðir. Ljóshærðar staðalímyndir hafa áður skotið upp kollinum hjá listamanninum en hér eru bláu augun og ljósa hárið mjög óljóst að það reynir á sjónina. Það kallar á ákveðna einbeitingu. Séu skilaboðin yfirfærð í raunveruleikann, geta þau verið þau að það tekur á að fylgjast með starfinu á Alþingi. Jafnvel ollið ergelsi.
Þegar Birgir byrjaði á verkinu var ekki fyrirséð að það yrði við opnun í aðdraganda kosninga. Eftir mikið umrót, mótmæli og boðun nýrra kosninga á verkið erindi inn í samfélagslega umræðu eins og fiskur í sjó. Í ljósi þess að formenn flokkanna virðast bjartsýnir og hafa nýlega talað um betri vinnubrögð á Alþingi, er komin von. Það er einnig von að Birgir reynir sannspár með verkinu. Að við fáum að sjá betri stjórnmál, laus við átök og skotgrafir þar sem Alþingi vinnur saman og leysir okkur undan átökum í samfélaginu.
Sýningin stendur til 20. nóvember
Júlía Marinósdóttir