Ánægjulegt að horfa til baka – Hanna Styrmisdóttir um Listahátíð í Reykjavík 2016
Hanna Styrmisdóttir er listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík og hefur því staðið í ströngu undanfarið. Hátíðin hrærist í síbreytilegu menningarumhverfi þegar litið er til fjármögnunar, fjölda annarra hátíða og breikkandi hóps gesta svo eitthvað sé nefnt. Hátíðin í ár var sú þrítugasta í sögu Listahátíðar í Reykjavík og sú fjórða sem Hanna hefur stjórnað. Að baki svo þéttrar dagskrár er margþætt undirbúningsferli sem artzine lék forvitni á að skyggnast inn í. Við lögðum því nokkrar spurningar fyrir Hönnu.
Nú þegar þú lítur til baka, hvað stendur upp úr í framkvæmd nýafstaðinnar Listahátíðar í Reykjavík í þínum huga?
Hátíðin samanstóð af yfir þrjátíu viðburðum og sýningum. Ég gæti nefnt marga mjög eftirminnilega viðburði en raunverulega er það heildin sem stendur upp úr. Og þó að hátíðinni sem slíkri sé lokið, standa nokkrar sýningar fram á haust, t.a.m. opnunarsýning Berlinde De Bruyckere í Listasafni Íslands.
Á síðasta ári lögðum við áherslu á höfundarverk kvenna og á ritskoðun og réttindabaráttu í listum. Hátíðin í ár var sjálfstætt framhald þeirrar hátíðar, síðari hluti þessarar áherslu, sem er auðvitað hvergi nærri tæmandi eins og gefur að skilja. Á hátíðinni í vor var mikil áhersla á líkamann sem vettvang pólitískra vangaveltna og áfram mikil áhersla á höfundarverk kvenna, en um leið voru nokkrir stærri viðburðir sem féllu ekki undir þessar áherslur. Hátíðin var þrítugasta Listahátíð í Reykjavík frá árinu 1970 og hún verður næst haldin 2018. Við vildum þess vegna nota tækifærið og líta til baka, til þessarar merkilegu sögu sem saga Listahátíðar er.
Klikkið á myndirnar til að sjá myndatexta.
Ljósmyndir: Valgarður Gíslason frá Listahátíð í Reykjavík 2016.
Það hefur legið fyrir í tvö ár að vilji væri fyrir því af hálfu ríkis og borgar, sem og Listahátíðar, að gera hátíðina að tvíæringi á ný að þrítugustu hátíðinni 2016 lokinni. Endanleg ákvörðun lá fyrir síðasta haust og fréttatilkynning var send fjölmiðlum um þessa breytingu 4. desember 2015. Markmið hennar er að undirstrika sérstöðu Listahátíðar í mjög breyttu menningarlandslagi og efla hana listrænt og rekstrarlega. Listahátíð í Reykjavík er þverfagleg hátíð sem nær yfir tvær til þrjár vikur í hvert sinn og starfar með öllum menningarstofnunum og minni sýningarstöðum á höfuðborgarsvæðinu og einnig utan þess, ef því er að skipta. Slík hátíð er flókin í samsetningu og samningum um stærri viðburði og þarfnast meiri tíma í þróun en hægt er að tryggja með árlegri hátíð.
Hvað hvað gekk vel í undirbúningi og hvað reyndist erfitt?
Það liggja ótalmörg handtök að baki svona stórri framkvæmd og óhjákvæmilega koma upp margar áskoranir sem gengur misvel að leysa úr. Allt gekk upp og meira að segja mjög vel en auðvitað tók margt á. Svo að ég taki dæmi liggja um sextíu samningar að baki hátíðinni í vor, margir hverjir afar flóknir, og þá eru eingöngu taldir samningar sem Listahátíð á beina aðild að. Að baki hverjum skriflegum samningi liggja vikur og í sumum tilfellum mánuðir í samningaviðræðum. Það er síðan mikið átak að miðla hátíð af þessu tagi til þess afar breiða hóps sem sækir hana: Á hverju ári eru 30 – 50 viðburðir og sýningar á vettvangi Listahátíðar á allt að 30 sýningarstöðum, á tveggja til þriggja vikna tímabili. Það er gríðarlega aukið framboð á menningarviðburðum í Reykjavík, þó að eingöngu sé litið til síðasta árs. Samsetning gesta Listahátíðar hefur verið að breikka mjög síðustu ár sem eru góðar fréttir en það gerir kynningu á hátíðinni og einstökum viðburðum jafnframt flóknari. Erfiðastar eru þó hinar listrænu ákvarðanatökur sem liggja að baki hverri hátíð fyrir sig. Listahátíð er þverfagleg, alþjóðleg listahátíð og í listrænum skilningi er hreinlega allur heimurinn undir. Það þarf mikla yfirsýn og þekkingu og listræna þvermóðsku myndi ég segja, til að koma henni saman á hverju ári. Það þarf að velja og hafna og ég hef oft staðið frammi fyrir því að þurfa að hafna því sem hugur minn og hjarta segja mér að eigi að vera hluti af hátíðinni. Og það er mjög erfitt.
Hvað myndir þú gera öðruvísi ef þú værir að hefja undirbúningsferlið núna?
Ég hugsa að ég myndi setja saman allt aðra hátíð, einfaldlega vegna þess að ég get ekki sett mig í þau spor að endurtaka hluti og samsetning hverrar hátíðar fyrir sig er sjálfstætt ferli sem er aldrei eins. Þetta var fjórða Listahátíðin sem ég stýri og þegar ég lít til baka er auðvitað ótalmargt sem ég myndi núna nálgast með öðrum hætti, vegna þess að ég hef lært svo margt á þessum fjórum árum. Um leið er ánægjulegt að horfa til baka; ég hef lagt mikið á mig, gert margt mjög gott og breytt mörgu. Svo hef ég gert heilan helling af mistökum. Ég myndi ekki vilja sleppa þeim.
Hvernig gekk með fjármögnun hátíðarinnar, fannst þú fyrir samdrætti í fjármagni hátíðarinnar og finnurðu fyrir að verið sé að draga úr fjármagni gagnvart listum almennt hér á landi?
Listahátíð í Reykjavík er sjálfseignarstofnun og er fjármögnuð að stórum hluta með framlögum frá ríki og borg sem eru stofnaðilar hátíðarinnar. Þau framlög hafa dregist mikið saman á síðastliðnum áratug. Við öflum á hverju ári 30-40% tekna hátíðarinnar með styrkjum frá fyrirtækjum og sjóðum annars vegar og miðasölu hins vegar. Þessar tekjur sveiflast svolítið á milli ára og þær eru ekki sjálfgefnar. Það liggur mikil vinna í því að afla þeirra og margt sem spilar þar inn í. Heildartekjurnar hafa verið svipaðar undanfarin ár, að árinu 2014 undanskildu, en þær eru ekki alltaf samsettar með nákvæmlega sama hætti.
Ég fylgist með fjárlögum ríkisins og fjárhagsáætlun borgarinnar á hverju ári og ég get ekki séð að verið sé að draga úr heildarfjármagni til liststofnana á Íslandi, þvert á móti hefur rekstrargrunnur margra ríkis- og borgarstofnana verið styrktur umfram verðlagsþróun frá hruni. Hvort það nægir til að reka þessar stofnanir eins og best væri á kosið er síðan annað mál og ekki mitt að dæma um rekstur annarra stofnana. Í fjárlögum má sjá að framlög til sumra sjálfseignarstofnana og sjóða hafa ekki fylgt verðlagsþróun og það þýðir að þau hafa lækkað að raunvirði ár frá ári, jafnvel þar sem ekki hefur komið til beinna lækkana á krónutölu. Það er jafnframt ljóst að opinberu fjármagni til lista er í auknum mæli dreift á fleiri hendur; hér hefur á síðustu árum orðið til mikill fjöldi hátíða og stærri viðburða sem eru fjármagnaðir að hluta með opinberum styrkjum. Þessar hátíðir og viðburðir verða síðan að sækja stóran hluta nauðsynlegs fjármagns annars staðar.
Hvað finnst þér um myndlistarsenuna á Íslandi í samanburði við listasenur stærri samfélaga?
Myndlistarvettvangurinn á Íslandi er mjög öflugur og virkur en undirfjármagnaður. Það á við um stóru söfnin jafnt og minni sýningarstaði. Það er mjög áhugavert að leggjast yfir sögu sýningarstaða á Íslandi, sú uppbygging er öll drifin áfram af sjálfboðavinnu listamanna og að þeirra frumkvæði þar til á allra síðustu áratugum. Það er aðdáunarvert og án þess væri saga myndlistar á Íslandi allt önnur … en það er löngu tímabært að þarna verði grundvallarbreyting á. Myndlistarmenn eru búnir að taka höndum saman um að snúa þessum kringumstæðum við og þeirra kjarabarátta helst í hendur við baráttu listasafna og annarra liststofnana á borð við Listahátíð fyrir auknum framlögum. Ef liststofnanir geta ekki greitt listamönnum laun fyrir sína vinnu og fjármagnað annan kostnað við sýningar þeirra, svo sem framleiðslu-, ferða- og flutningskostnað, eru þær ekki starfhæfar. Það gefur auga leið. Ef Þjóðleikhúsið, svo að ég taki dæmi af handahófi, gæti ekki greitt leikurum laun og fjármagnað uppsetningu leiksýninga væri það ekki starfhæft. Þetta sjá allir.
Síðan er það þannig að þegar geta listasafna til að fjármagna stærri sýningar og standa fyrir sýningum erlendra listamanna með tilheyrandi flutnings- og tryggingarkostnaði dregst saman, er hættan sú að breiddin í sýningahaldi á Íslandi minnki og það er alvarlegt mál. Mér þykir mikilvægt að ræða þetta af því að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að stórefla rekstrargrundvöll safnanna á Íslandi. Eitt sem stjórnvöld mættu til að mynda gera, þar sem stefna þeirra hefur lengi verið sú að liststofnanir sæki tekjur sínar í auknum mæli út í samfélagið, er að breyta skattkerfinu á þann veg að fyrirtæki og einstaklingar sjái sér raunverulegan hag í að styðja við listir með stærri framlögum.
En það er gríðarlega margt sem vel er gert og ánægjulegt að fylgjast með hraðri þróun á þessum vettvangi.
Hvað er framundan hjá þér núna?
Ég er að fara í langþráð frí á fjöll en verð með annan fótinn í vinnunni eftir þörfum út mánuðinn.
Góða ferð og takk fyrir samtalið, Hanna
Hlín Gylfadóttir