Ástríðufull postulínsverk og óþægilegar staðreyndir

Ástríðufull postulínsverk og óþægilegar staðreyndir

Ástríðufull postulínsverk og óþægilegar staðreyndir

Hildigunnur Birgisdóttir opnaði nýverið sýninguna a) b) c) d) e) & f) í sýningarsal i8. Sýningin er fyrsta einkasýning hennar í galleríinu en hún gékk nýverið til liðs við þá listamenn sem i8 sýnir. Á sýningunni má sjá risastórt persónulegt verk, Óþægilegar staðreyndir, sem nær yfir stóran hluta rýmisins. Þetta er veggfóður sem býr yfir tveimur vandræðanlegum leyndamálum Hildigunnar en þau eru dulkóðuð í gömlu stafrófi frá árinu 1894. Að auki eru á sýningunni smágerð ástríðufull postúlínsverk, pappírsverk, litlir bronsskúlptúrar ásamt vídeóverki sem skoðar tilgang eða tilgangsleysi stöðugrar upplýsingasöfnunar mannkynsins. artzine skrapp í i8 rétt fyrir opnun og spurði Hildigunni út í sýninguna, listina og kerfisáráttuna.

Hildigunnur, hvað getur þú sagt mér um þína fyrstu sýningu í i8 og titil hennar: a) b) c) d) e) & f)?

Eins og oft áður er ég að vinna með kerfi og kerfisleysur og hvernig maðurinn er fastur í þeirri hugsun. Ég á í ástar- og hatursambandi við kerfi og mér finnst þau heillandi. Mér finnst gaman þegar kerfi eru berskjölduð og þegar það kemst upp um þau eða að þau ganga ekki upp og oft finnst mér það vera raunin. Umhverfið í kringum okkur er mjög sjálfhverft, þ.e. að við komumst ekki út úr þessu skynjanakerfi sem við sjálf erum, augu okkar, heilinn okkar, líkaminn okkar, maðurinn sem slíkur. Með verkum mínum er ég að reyna að toga mig í aðra átt og sjá eitthvað frá örlitlu öðru sjónarhorni en mér er ætlað. Sum kerfi eru náttúruleg kerfi, önnur eru eitthvað sem við búum til, samfélagsleg kerfi og eitthvað slíkt. Við getum alveg dregið tilvist þeirra í efa. Það er það sem liggur að baki eiginlega öllum verkunum hér á sýningunni. Birtingarmyndir verkanna á sýningunni eru ólíkar. Hér eru myndbandsverk, verk steypt í brons, postulínsverk, prentverk og einhverskonar hendingar eða lágmyndir. Titill sýningarinnar dregur nafn sitt af einni tegund verka á sýningunni. Það eru sex tegundir verka, sex viðfangsefni eða hráefni og ein tegundin, verkið c) heitir Flokkar a)-f) og þaðan kemur titillinn.

Í texta Tess Denman-Cleaver sem fylgir sýningunni er vísað í þessi hráefni sem þú notast við í sýningunni. Hvað meinar þú með hráefnum?

Textinn í sýningarskránni er eftir heimspekinginn Tess Denman-Cleaver og er unninn upp úr samtali sem hún átti við mig í tengslum við sýninguna. Textinn er í raun hennar verk og hluti af sýningunni. Varðandi hráefnin þá eru þau sex talsins og þau þurfa ekki að vera fleiri. Það voru þessir ákveðnu flokkar sem þurfti á þessa sýningu. Þetta er alltaf spurning um hvenær er sýning orðin sýning? Hvenær er verkinu lokið? Það er óþarfi að bæta við fleiri hráefnum ef uppskriftin er góð!

Þú hefur ekki bundið þið við einn listmiðil í gegnum tíðina heldur verið óhrædd við að prófa alls kyns miðla. Hvað veldur?

Ég er frekar nýjungagjörn og mér finnst gaman að finna upp leiðir. Ég fer ekkert endilega í mikla rannsóknarvinnu heldur fæ ég frekar yfirborðslega tilfinningu fyrir miðlinum og prufa mig áfram. Þegar ég geri grafík þá geri ég yfirleitt hallærislega grafík og ekki endilega til að fjöldaframleiða, þó grafíkverk hafi upphaflega verið hugsuð til fjöldaframleiðslu. Mér finnst þessi barnslega nálgun áhugaverð aðferð og þess vegna geri ég oft skrítnari hluti fyrir vikið. Svo get ég fengið leið á einhverri aðferð og þá geri ég það ekki aftur. Þegar ég er að reyna að bera kennsl á kerfi og kerfisleysur eða uppbrot á kerfinu og þegar hugmyndin sprettur fram, þá tekur hún stjórnina og tekur á sig mynd. Það er til dæmis eitt verk hérna sem varð að vera steypt í postulín og það var engin önnur leið!

Þú varst að tala um grafík áðan og hér í sýningarrýminu sjáum við heilmikila grafík, veggfóður upp um alla veggi. Er þetta kerfi?

Þetta er stafróf sem fundið var upp fyrir afmarkaðan hóp árið 1894. Ég gaf því þessa listfræðilegu liti, grunnlitina ásamt grænum. Ef maður hefur lykilinn að stafrófinu þá getur veggfóðrið ljóstrað upp vandræðalegum leyndarmálum um mig. Það eru tvö leyndamál. Þau eru á ensku og þau eru staðbundin, því þau gerðust í þessu rými. Ég er gamall starfsmaður i8 og ég hef séð hverja einustu sýningu sem hefur verið sett upp í þessu rými. Mig langaði að gera verk byggt á því og sem væri persónulega staðbundið þessu rými. Það er ekki nauðsynlegt að aðrir átti sig á leyndamálunum en þetta var mikilvægt fyrir mig.

Þú ert síspyrjandi í þinni listsköpun. Er það forvitnin sem drífur þig áfram?

Já, algjörlega!

Færðu einhvern tímann svar?

Stundum! Fyrir mig er það mikilvægt að róta upp þessum spurningum, vera forvitinn, rýna, pota og spyrja. Það víkkar sjóndeildarhringinn, þá verð ég fróðari. Svörin eru ekki endilega áþreifanleg. Svörin koma til mín sem meiri vitneskja og víðsýni. Þegar þú sérð eitthvað sem þú hefur aldrei séð áður, það er svar útaf fyrir sig.

Af hverju svona litlir hlutir og smágerð verk?

Mér finnst litlir hlutir oft virkja stærri svæði. Ég hef alltaf unnið með litla hluti og ég heillast af smáhlutum. Mér finnst ofsalega fallegt að vera með stóran tóman vegg og svo er ein rauð doppa, ég fell í stafi! Ef mikil natni og hugsun er lögð í þessa eina rauðu doppu, þá getur hún haft jafn mikið vægi og heilt veggfóður. Á tímabili voru verkin farin að stækka en síðan minnkuðu þau aftur því ég þurfti að geta flutt verkin með mér án mikilla vandræða. Verkin eru jafn stór og hugmyndin kallar á. Bronshillurnar eru litlar af því að hillur eru það að öllu jöfnu ekki. Hillur eru venjulegar stórar og stöndugar og eiga að þjóna sínu hlutverki sem bókahillur eða annað. Þessar hillur eru litlar, úr góðum málmi og einstakar.

Hvað viltu segja við fólk sem finnst samtímalist flókin og gefur sér ekki tíma í að rýna og spyrja?

Fólk heldur oft að það megi ekki halda það sem þeim finnst í upphafi. Þú kemur bara á sýningu eins og þú ert klæddur og eins og þín reynsla segir til um og það er þín leið til að skoða sýningu. Það er ekki til nein önnur leið en sú. Ef það er eitthvað sem kveikir í manni þá leitar maður frekari svara eða upplýsinga. Það er engin ein leið til að skoða sýningu.

Nú hefur þú fengist mikið við kennslu m.a við Listaháskólann og Myndlistarskólann í Reykjavík. Hefur kennslan mikil áhrif á þig sem listamann, er kennslan þér mikill innblástur?

Magnús Pálsson sagði að sjálfsögðu að kennslan væri klikkaðasta listgreinin. Að einhverju leyti finnst mér það líka. Ég hef kennt síðan ég var tvítug og ég hef þróast mikið sem kennari ásamt því að þróast sem manneskja og sem listamaður. Mér finnst æðislegt að kenna og mér finnst ég alltaf verða betri og betri kennari. Ég vona að það sé rétt! Ég er ekki kennaramenntuð og það hafa margir hjálpað mér í kennslunni, samkennarar og vinir. Það eru nokkrar leiðir til að læra og ein leið er að prófa sig áfram og læra af mistökunum. Í seinni tíð er ég er alltaf að kenna minna og minna, það er að segja því meira sem ég sleppi kennslunni og mæti fólki eins og ég er og mæti nemendum þar sem þeir eru því meira fæ ég út úr kennslunni og vonandi nemendurnir líka. Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað kennslan skiptir mig miklu máli.

Í blöðung sem fylgir sýningunni segir: „Verk Hildigunnar afhjúpa annmarka, sérvisku og fjarstæðukennd atriði sem finna má í sköruninni á milli hugsjónar og mannlegra skilningskerfa. Slíkur ágangur kemur sér ekki bara vel, heldur liggur hann til grundvallar verkum Hildigunnar, og gerir áhorfandann óvænt að miðju alheimsins.“ 

Hvernig gerir þessi ágangur áhorfandann óvænt að miðju alheimsins?

Við erum föst í þessum líkama og við erum búin að búa til öll þessi kerfi og þau þjóna okkur á hinn og þennan háttinn. Allt þetta finnst mér áhugavert og mér finnst ég öðlast meiri visku og meiri skilning á því hvað lífið er með því að skoða og grandskoða hvernig við vinnum úr þessum skynjunargögnum sem eru allt í kringum okkur. Það sem mér finnst svo skemmtilegt við myndlist, það er að víkka sjóndeildarhringinn og bjóða fólki upp á annað sjónarhorn eða nýja upplifun. Stundum er það bara eitthvað sáraeinfalt og stundum flóknana. Það að við komum út af sýningu aðeins fróðari heldur en þegar við löbbuðum inn. Það er það sem hefur alltaf heillað mig við myndlist og það er þess vegna sem ég er myndlistarmaður. Áhrifin sem myndlist getur haft eru svo mögnuð. Þetta augnablik þegar ég heillast af verki og það breytir einhverju inni í mér – það breytir því hvernig ég horfi á heiminn. Þannig finnst mér að myndlist ætti að vera. Maðurinn er fastur í sínum eigin heimi og verður óvænt að miðju alheimsins. Það er það sem er svo gaman. Að vera meðvitaður og verða fyrir áhrifum.

 artzine þakkar Hildigunni fyrir spjallið og óskar henni góðs gengis í framtíðinni.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Daníel Magnússon
Upplýsingar um listamanninn: i8.is

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Augans Börn: Ásmundarsafn 29.10.2016 – 01.05.2017

Myndlistarsýningunni Augans Börn lýkur nú um helgina, en hún hefur staðið yfir í Ásmundarsafni nú í vetur. Sýningin er samstarfssýning Listasafns Háskóla Íslands og Listasafns Reykjavíkur þar sem myndverkum Þorvalds Skúlasonar er boðið til samhengis með höggmyndum Ásmundar Sveinssonar. Þorvaldur er þekktastur fyrir málverk sín sem hann vann um og upp úr miðri 20. öldinni, en hér á sýningunni er aðeins eitt málverk til sýnis. Hins vegar eru hátt í hundrað teikningar eftir hann settar upp í beint myndrænt samtal við þrívíðan myndheim Ásmundar. Höggmyndir hans eru sýndar í nokkuð hefbundnara ljósi, en þó í áður fáséðu samhengi við teikningar samferðamanns og „listræns sálufélaga“, eins og Ásmundur komst sjálfur að orði.

Sýningarstjórarnir voru Viktor Pétur Hannesson (undirritaður) frá Listasafni Háskóla Íslands og Bryndís Erla Hjálmarsdóttir fyrir hönd Listasafns Reykjavíkur. Við gerð sýningarinnar voru listaverkin flokkuð einungis eftir myndrænum tengingum án tillits til tímabila eða annarra hefðbundinna formerkja. Við leituðum eftir bergmáli milli verka listamannanna sem ómaði úr myndflötum þeirra, massa og línusveiflum, ýmist í tvívíðum verkum Þorvalds eða í marghliða skúlptúrum Ásmundar.

Í sýningartextanum er sett fram hefðbundin frásögn um æviskeið myndlistarmannanna og þeir settir í sögulegt samhengi. Á undan æviágripunum eru annars konar upplýsingar sem þjóna fremur því hlutverki að gefa skýr skilaboð um þá áherslu sem lögð er á myndrænt gildi sýningarinnar. Þannig var textinn nýttur til að hvetja gesti til að ganga inn á sýninguna og leggja áherslu á myndirnar sjálfar fremur en að reiða sig á aðrar upplýsingar sem verkunum fylgdu. Upplýsingar um tilkomu verks eða æviferil listamanns geta vissulega verið lærdómsrík viðbót við efni myndlistarsýninga, og getur auðgað huga þess sem horfir enn frekar. Við fyrstu kynni hafa þær upplýsingar þó ekkert að gera með þau beinu áhrif sem hugur og augu verða fyrir við það að standa gagnvart myndverki sem talar á sínu eigin tungumáli, sem er þó á einhvern hátt kunnuglegt.

Augans Börn, Ásmundarsafni. Listasafn Reykjavíkur.

Sýningarskráin hefst með þessum orðum: Barn lærir að þekkja form og liti löngu áður en það getur greint orð og bókstafi. Mannshugurinn leitar gjarnan að einhverju kunnuglegu í því sem fyrir augu ber, að samhljómi milli áþreifanlegra hluta og óhlutbundinna forma. Hugurinn greinir formin sem augað meðtekur og setur í samhengi við kunnugleg form. Þannig myndar hann sjónminnisbanka eða sjónrænan minningaheim sem nýtist til að vinna úr nýjum áhrifum.

Við skoðuðum ekki aðeins „hefðbundið myndefni“ frá myndlistarmönnunum heldur lögðum við að jöfnu allt sem þeir framleiddu, hvort sem það voru teikningar á pappír, málverk á striga eða skúlptúrar úr ýmsum efnum. Það má velta því fyrir sér hvort stafrænt aðgengi að verkunum hafi haft þau áhrif að auka á eins konar „lýðræði“ milli verkanna við skoðun á safneigninni, þar sem verkin birtust á stöðluðum grundvelli tölvunnar. Stærðarhlutföll og rýmistilfinning voru þurrkuð út, hvort sem um var að ræða viðkvæmar blýantsteikningar, stór olíumálverk eða þunga málmskúlptúra. Í því ferli vantaði vissulega upp á mikilvæga áhrifaþætti verkanna, sem gaf okkur hins vegar rými til þess að leita eftir þeim formræna samhljómi sem við vorum að leita eftir.

Í leit okkar að þessu sameiginlega mengi Ásmundar og Þorvalds komumst við að þeirri niðurstöðu að teikningar Þorvalds rímuðu hvað best við skúlptúra Ásmundar og veittu mun meira rými til samanburðar heldur en fullmálaðar myndbyggingarnar sem enduðu á strigunum, þar sem aðeins eitt sjónarhorn af mörgum var ákveðið og gert sýnilegt. Samhljómurinn á milli skúlptúra Ásmundar og teikninga Þorvalds var það mikill að þegar uppsetning sýningarinnar var í fullum gangi kom gestur inn í húsið sem vissi ekki hvað væri til sýnis, en taldi við fyrstu sýn að teikningarnar og höggmyndirnar væru eftir einn og sama listamanninn. Það má liggja milli hluta hvort hér sé um að ræða sterk myndræn áhrif milli tveggja listamanna eða samliggjandi þróun á heildrænu myndmáli módernismans eins og hann þróaðist á Íslandi.

Listasmiðja á Safnanótt

Frá listasmiðju Söru Riel á Safnanótt 2016 í Ásmundarsafni.

Hinum óhlutbundna myndheimi var gerð skil á margvíslegan hátt yfir sýningartímann. Á Safnanótt var boðið upp á kvöldleiðsagnir um sýninguna auk þess sem Sara Riel hélt námskeið fyrir börn þar sem unnið var sérstaklega með teikningar Þorvalds. Í upphafi smiðjunnar var þátttakendum boðið að draga upp tvo miða úr kassa sem sýndu útprentað afrit af hluta eins verks.

Þá tóku þau miðana með sér inn í sýningarsalinn til þess að finna verkin sem þessi myndbrot tilheyrðu. Að því loknu komu þau aftur og gerðu sínar eigin abstrakt klippimyndir, svipaðar og klippimyndir Þorvalds sem eru nokkrar til sýnis ásamt annars konar teikningum í ytri sýningarsalnum – Skemmunni. Þannig fengu börnin spennandi verkefni í hendurnar en sömuleiðis var þetta aðgengileg leið til að hvetja börnin til að skoða sýninguna. Undir handleiðslu Söru sköpuðu börnin sín eigin verk og unnu sig inn í sameiginlegt myndmengi Ásmundar og Þorvalds.

Algóritmar og Abstraktlist

Í janúar var boðið upp á sýningarstjóraspjall í Ásmundarsafni en með í för var tölvunarfræðingurinn Kristleifur Daðason til þess að ræða um mögulegar tengingar abstraktlistarinnar við forritunarmál og gervigreind. Ýmsar hugleiðingar voru bornar upp í tengslum við þróun á gagnvirkum myndlistargagnagrunni, en ýmis tækifæri gætu falist í háþróaðri tölvutækninni fyrir heim myndlistarinnar, bæði fyrir myndlistarmenn og fræðinga.

Við gerð sýningarinnar settum við okkur reglur sem svipuðu til eins konar algóritma eða reiknirits. Með því að horfa á myndir Ásmundar og Þorvalds og bera þær saman sáum við fljótt hvað þeir áttu margt sameiginlegt í formum, línum, sveiflum og massa. Slíka aðgreiningarhæfni á myndefni væri ef til vill hægt að þróa áfram í hugbúnaði, en með myndgreiningartækni væri til dæmis hægt að útbúa „stafrænan gervilistfræðing“ sem gæti þekkt stílbrigði listamanna og gert greinarmun á efnisnotkun í verkum.

Augans Börn, Ásmundarsafni. Listasafn Reykjavíkur.

Að mati greinahöfundar er sýningunni Augans Börn ætlað að upphefja myndmálið sem hið sjálfstæða tungumál sem það er. Reynt er á gamla orðatiltækið um að mynd segi meira en þúsund orð með þessum tilraunum. Kjarni sýningarinnar er sá sami og fólst í stefnu módernistanna – að blár sé ekkert annað en blár. Hann standi ekki sem táknmynd fyrir himinninn eða hafið, hann sé aðeins blár í því eðli sem hann er hverju sinni. Að sama leyti er ekki endilega þörf á því að vita upp úr hvaða hugarheimi myndin birtist heldur er það myndin sjálf sem skiptir hvað mestu máli.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


Ljósmyndir: Listasafn Reykjavíkur
Mynd frá listasmiðju Söru Riel: Viktor Pétur Hannesson

Eiga myndlistarmenn að fá greitt fyrir vinnu sína?

Eiga myndlistarmenn að fá greitt fyrir vinnu sína?

Eiga myndlistarmenn að fá greitt fyrir vinnu sína?

Samstaða er lykilorðið í baráttu myndlistarmanna fyrir því að fá greitt fyrir vinnu sína, og meirihluti þeirra er tilbúinn í fjöldamótmæli ef listasöfn hafa ekki byrjað að greiða samkvæmt drögum að framlagssamningi í byrjun árs 2018. Mikilvægt er að berjast áfram, enda er um mannréttindabrot að ræða að mati lögfræðings. Þetta er meðal þess sem fram kom á ráðstefnu á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna þann 21. apríl síðastliðinn.

Þar var farið yfir það hvaða árangur hefði þegar náðst í herferðinni Við borgum myndlistarmönnum, hvernig hægt væri að ná markmiðum hennar á næstu árum og hvað hægt væri að læra af sambærilegri baráttu í nágrannalöndum. Að auki fluttu Styrmir Örn Guðmundsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir gjörninginn Afhjúpun sem endurspeglaði á sinn hátt hversu erfitt en mikilvægt getur verið að koma rödd sinni á framfæri, og Eirún Sigurðardóttir, myndlistarkona og varaformaður SÍM, las upp „Hversdagsævintýri um hugarfarsbyltingu“ þar sem hún sagði listamenn þurfa að stíga upp úr öskustónni.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, byrjaði á að fara yfir helstu niðurstöður könnunar um stöðu félagsmanna árið 2016. Það sem vakti athygli, líkt og í fyrri könnunum, var bágborin lífsafkoma myndlistarmanna og sú staðreynd að menntun tryggir ekki betri afkomu, en 50% þeirra sem svöruðu hafa lokið framhaldsnámi. „Þetta er hámenntuð stétt,“ sagði Jóna Hlíf og benti jafnframt á að 80% svarenda væru konur sem staðfesti þá sannfæringu hennar að um jafnréttismál væri að ræða. Aðeins rúm 20% svarenda gátu unnið að myndlist eingöngu árið 2016 og 30% höfðu myndlist að aðalstarfi, sem er reyndar lítilsháttar aukning frá síðustu könnun árið 2014 og einmitt sami fjöldi og fær listamannalaun. Yfir 50% fá minna en lágmarkslaun. Algeng röksemd gegn listamannalaunum er að listamenn geti selt verk sín, en staðreyndin er sú að ekki er mikil sala á listaverkum. Einungis 13% svarenda fengu 1,5 milljón eða meira fyrir sölu verka á árinu 2016.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður SÍM.

Þá fjallaði Jóna Hlíf um drög að framlagssamningi milli myndlistarmanna og opinberra safna sem sambandið hefur undanfarið barist fyrir. „Frá því herferðin hófst hefur málefninu verið gefinn meiri gaumur. Við erum ekki komin þangað sem við viljum en markmiðið er nær en við höldum,“ sagði Jóna Hlíf. Ljóst sé að kostnaður vegna launa hækki hjá söfnunum en þau séu þó nálægt því að geta greitt samkvæmt framlagssamningnum; það verði eftir fimm ár ef þróunin verður áfram sú sama.

Jóna Hlíf setti fram áætlun um hvernig ná mætti markmiðinu í fjórum skrefum: Fólk verði að halda áfram því sem þegar er hafið; greiðslur fyrir opinbert sýningarhald þurfi að koma úr opinberum, miðlægum sjóði með aðkomu ríkis og sveitarfélaga; söfnin þurfi að gera ráð aukakostnaði og biðja um aukafjárveitingar; og myndlistamenn þurfi að þora að biðja um að fá greitt. Í því samhengi benti hún á reiknivél á heimasíðunni www.vidborgummyndlistarmonnum.info.

Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur, sagði að það væri mannréttindabrot og möguleg lagabrot að greiða ekki listamönnum laun. „Ég skildi ekki erindi ykkar fyrst; að fólk fengi ekki greitt og væri jafnvel að borga með sér. Það er með slíkum ólíkindum að það fauk hreinlega í mig,“ sagði Katrín. Hún kynnti fundargestum nokkrar viðeigandi greinar í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og benti á að í þar sé tekið fram að mannréttindi á borð við sjálfsagða virðingu og rétt gagnvart þeim sem fara með völd eigi að vernda með lögum.

Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur.

Katrín sagði að staða myndlistarmanna gagnvart söfnunum snúist ekki einungis um jafnræðisregluna, að allir menn skuli jafnir fyrir lögunum og að ríki viðurkennir rétt sérhvers manns til þess að fá endurgjald fyrir vinnu sína – án nokkurrar aðgreiningar – heldur segi í 23. grein yfirlýsingarinnar: Hver maður á rétt á atvinnu að frjálsu vali, á réttlátum og hagkvæmum vinnuskilyrðum og á vernd gegn atvinnuleysi. Hverjum manni ber sama greiðsla fyrir sama verk án manngreinarálits.

„Því er það bæði sjálfsagt og augljóst að fólk eigi að fá laun fyrir vinnu sína,“ sagði Katrín. Að auki beri stjórnvöldum samkvæmt 27. grein skylda til að tryggja fólki rétt til að taka frjálsan þátt í menningarlífi og njóta lista. „Því er súrrealískt að opinberar stofnanir á einu listsviði viðhaldi hefð um að greiða tiltekinni tegund listamanna ekki laun fyrir vinnu sína.“ Ráðlagði hún myndlistarfólki að kynna sér vel hvað felist í ráðningarsambandi. Ráðningarsamningur verði að vera í samræmi við kjarasamning og ákvæði um lakari rétt launamanns eru ógild samkvæmt 1. gr. Laga um starfskjör launafólks. Ráðningarsamband getur stofnast með óformlegum hætti en Katrín ráðlagði fólki að gera kröfu um skriflegan samning og skilja alltaf eftir sig „slóð“, þó ekki væri nema með því að senda tölvupóst á vinnuveitanda þar sem munnlegt samþykki er skrifað niður. Svokölluð „gerviverktaka“ sé algeng en ef um hreinan verksamning sé að ræða eigi að biðja um sundurliðun á þóknun og rökstuðning fyrir upphæðum, þannig að fram komi hvort gert sé ráð fyrir launum fyrir vinnuframlag. Minnti hún einnig á „undurfagra lagareglu“ úr 36. grein Samningalaga þar sem segir að víkja megi til hliðar samningi ef hann sé ósanngjarn – og þá eigi m.a. að líta til þess hvort annar samningsaðilinn er í valdameiri stöðu en hinn, líkt og söfnin gagnvart einstaka listamönnum.

„Það fer fyrir brjóstið á mér þegar ég heyri að allir aðilar, þ.m.t. söfnin, segjast styðja málefnið einhuga. Er það raunin? Mér finnst það ekki. Ég skil stuðning þannig að menn geri eitthvað í málinu. Það þarf að gera meiri kröfu á þessa aðila fyrst þeir eru svona stútfullir af stuðningi. Þið þurfið að krefjast þess sem þið eigið lagalegan rétt á, það er kerfisbundið brotið á ykkur vegna þess hvaða starfi þið gegnið. Það er ekki hægt að sleppa því að taka slaginn, því þetta er slagur fyrir alla myndlistarmenn.“

Hilde Tørdal, formaður NBK, hagsmunasamtaka norskra myndlistarmanna, lagði einnig áherslu á samstöðu er hún sagði frá herferðinni Laun fyrir vinnu, og tilraunaverkefni norska ríkisins en í tvö ár, frá á árinu 2013, fengu 24 söfn og gallerí fjárveitingu upp á 500.000 NKR til þess að greiða myndlistarmönnum vegna sýningarhalds. Niðurstaða verkefnisins verður notuð sem grunnur að samningi sem felur í sér endurbætur á samkomulagi frá 1978 um þóknanir fyrir sýningar á listaverkum eins og um leigu væri að ræða. Frá árinu 2006 hafa NBK barist fyrir því að listamenn fái einnig greidd laun fyrir þá vinnu sem þeir leggja í sýningar.

Hilde Tørdal, myndlistarmaður og formaður NBK.

Fram kom í máli Hilde að þrátt fyrir aukið framlag norskra stjórnvalda til menningarmála minnkaði innkoma listamanna á árunum 2005 til 2013 og að myndlistarmenn hafi lægstu innkomuna. Menningarmálaráðuneytið hefur lagst í greiningu á málefninu og Hilde sagði að frá stjórnmálavettvanginum hafi komið hjálplegar yfirlýsingar, m.a. um að listamenn þurfi að geta lifað af list sinni til að tryggja fjölbreytta menningu og að myndlistarmenn þurfi að sitja við sama borð og listamenn í leikhúsi og tónlist. Hilde benti á að hugmyndin um að listamenn eigi að hagnast á sölu listaverka eigi ekki við í myndlistarumhverfi nútímans, þar sem gallerí og söfn setji fókusinn á miðlun áhugaverðrar og frumlegrar samtímalistar en ekki á sölu og markað. Mikilvægt sé að listamenn fái samt laun fyrir að vinna þannig að samfélagslegri velferð, en staðreyndin sé sú að sýningarstaðir sem fái opinbert fjárframlag séu yfirleitt undirfjármagnaðir og borgi listamönnum sjaldan viðunandi þóknun. „Við verðum að eyða hugmyndinni um að það sé í lagi að listamenn vinni frítt, að efnahagur myndlistarsenunnar byggi á frjálsu vinnuframlagi,“ sagði Hilde. „Það eru ekki næg rök að sýning gefi listamanni virðingarstöðu eða tækifæri seinna á ferlinum. Báðir aðilar ættu að græða jafn mikið á sama tíma, ekki gegnum hugsanlegan framtíðargróða. Markmiðið er að bæta afkomu listamanna, styrkja listasenuna almennt og fá stjórnmálamenn til að viðurkenna að setja þurfi meira fé í opinberar listastofnanir.“ Hér virðist nokkur árangur hafa náðst því fram kom hjá Hilde að allir stjórnmálaflokkar Noregs styðji áðurnefnt tilraunaverkefni og skilji mikilvægi þess að listamenn ættu að geta lifað af vinnu sinni. Þá benti hún einnig á að hægt sé að sækja hvatningu í sambærilega baráttu í öðrum löndum, t.d. á Englandi, í Svíþjóð, Skotlandi og á Íslandi.

Eirún Sigurðardóttir, myndlistarkona og varaformaður SÍM.
Í almennum umræðum í lok ráðstefnunnar kom m.a. fram að stuðningur stjórnmálamanna væri ekki jafn almennur á Íslandi og að þar væri verk að vinna. Fordæmi Noregs sé mikilvægt; þar gangi menn lengra og leggi m.a. áherslu á að þetta sé ekki spurning um lágar fjárhæðir heldur verði átakið dýrt.

Í spurningum úr sal komu fram áhyggjur af því að kröfur um greiðslur gætu skaðað einstaka myndlistarmenn og feril þeirra. Þegar listamenn sýna t.d. sem hluti af hópi er ekki hægt að banna öðrum að gefa vinnuna sína, og erfitt er að vera sá eini sem gerir launakröfur. Allir ræðumenn lögðu áherslu á að spyrja um greiðslur, óska eftir að fá að minnsta kosti greitt samkvæmt framlagssamningi og fá skriflegt samkomulag.

Eftir ráðstefnuna fór fram námskeið um grunnatriði í samningatækni.

Upp kom sú hugmynd að fara í prófmál. Katrín Oddsdóttir sagði vissulega möguleika að taka svo augljóslega óréttlátt mál og fara með það fyrir dómstóla – jafnvel fá gjafsókn því listamenn séu á mjög lágum launum – en enginn vissi dæmi þess að farið hefði verið í slíkt mál, hér eða erlendis. Hilde sagði að sem talsmaður samtaka vilji hún frekar reyna að fá fólk til að sameinast um að núverandi fyrirkomulag sé fáránlegt. Þá kom líka fram að myndlistarmenn hafi litla þekkingu og tíma til að setja sig inn í lagaleg atriði við samningagerð – og að jafnvel þyki ekki fínt að tala um peninga í listheiminum. Eftir ráðstefnuna fór fram námskeið um grunnatriði í samningatækni.

Höfundur: Auður Aðalsteinsdóttir


Ljósmyndir: Með leyfi SÍM

The Tragicomedies of Guillaume Bijl

The Tragicomedies of Guillaume Bijl

The Tragicomedies of Guillaume Bijl

The Politician = a Transformation – Installation by the Belgian artist Guillaume Bijl was on view at Mengi from March 31st to April 1st, 2017.

In many ways, Guillaume Bijl (1946) is still a painter, which was his initial focus in the 1960’s, only now he paints still-lives in the three-dimensions of an installation. The Politician is a ‘Transformation-Installation,’ or ‘a reality within non-reality,’ one of the categorizations in which Bijl places his works based on their function within the context of the exhibition space. In The Politician, the exhibition space is transformed into a hall introducing a new politician, Stefán Jónsson.

This neverbeforeseen candidate in Icelandic politics could be seen on a poster offering new hope (ný von) to visitors of the event. The chairs aligning either side of a red carpet led to a stage on which a podium complete with a microphone and a glass of water stood against a draping gray curtain. Nondescript ferns and Icelandic National flags dappled the scene with the precision and detail of a film-set. The venue became defined by this political atmosphere, asking us to reflect on our beliefs in the function of the whole political system. Bijl shows us how the display for a politician is a consumer setup as well. This can be said for many of his Transformation-Installations which place the visitor in the consumer or service-oriented scenario in which the usual choreography is nowhere to be seen. Instead, it is as though one is visiting the backdrop of daily life to inspect the reality of it.

This neverbeforeseen candidate in Icelandic politics could be seen on a poster offering new hope. Image: Mengi.

Bijl’s ‘Art Liquidation Project’ began in 1979 when he wrote a fictional pamphlet stating that the government had deemed art irrelevant for society and therefore spaces devoted to the arts would now be turned into places more blatantly beneficial to society. The first in this series of projects was Driving School Z, set up in Ruimte Z Gallery in Antwerp, Belgium. This driving school set-up was so meticulously staged that passers-by would enter and ask about driving lessons. Bijl’s perfect imitation of reality was now of benefit to society, and the question of the role of art in society was lived out in the installation and the many series to follow. Other Transformation-Installations have included:

  • a staircase shop
  • a taxi stand
  • a lost and found center
  • an army information center
  • an auction house
  • a conference room
  • a locker room
  • an atomic bomb shelter
  • a caravan show
  • a terracotta shop
  • a laundry
  • a garden décor shop
  • an interphone center
  • a discount mattress store
  • a mirror stand
  • a shell stand
  • a wig shop
  • a dog salon
  • an oriental garden shop
  • an airport lobby
  • a formalwear rental shop
  • Miss Hamburg 1988
  • A disco
  • A menswear shop
  • A fashion shop
A Transformation-Installation, Matrassenland, 2003, Kunsthalle Munster. Image: guillaumebijl.be

A Situation-Installation, Dino Eier, 2001, “Frontside” Project, Basel. Image: guillaumebijl.be
Composition Trouvée, 1992, Galleri Nicolai Wallner, 
Copenhagen. Image: guillaumebijl.be

Sorry, 1987, Collection S.M.A.K. Ghent. 
Image: guillaumebijl.be

Bijl also categorizes his works as ‘Situation-Installation: a non-reality within reality.’ In this instance the transformation is fictive, such as: a fake horse in a horse trailer, a poster selling dinosaur eggs, a mediocre sculpture garden.

Bijl also categorizes his works as ‘Situation-Installation: a non-reality within reality.’ In this instance the transformation is fictive, such as: a fake horse in a horse trailer, a poster selling dinosaur eggs, a mediocre sculpture garden.

Bijl’s ‘Compositions,’ are an archaeological still-life, similar to a ready-made but using objects to replicate parts of the Transformation-Installations. These have appeared as Chinese supermarket décor, a collection of marble sculptures, fragments of an antique shop, and fragments of other large-scale installations.

Bijl’s fragments of reality taken into the undefined space of the art institution function as a sort of gigantic ready-made. His works, commenting on the relationship between art publics and wider society, operate like a huge cultural therapy session in which it is revealed that all are actors on a stage. In a quote from 1980, Bijl described his efforts in the Transformation-Installations as a visualization of “…social determinacy and mass conditioning in a tragicomic way (1).” Bijl shows civilization in its current state; the installations become tragicomic mirrors of society using the hyper-real as an ironic tool. His works show how consumer capitalism is a concept in itself by letting the viewer step back and observe their own role in the functioning of the system and in its accompanying social rituals. Instead of participating in the set-up, the visitor is just that, a visitor to his own reality.

I asked Bijl if there was something specific about Iceland that made him decide to have a political installation. He responded that there was no special reason, although he has introduced new politicians in a similar manner in Germany in 1988 and in Holland and Belgium in 2016.

Hermann Lutz, 1988, Kunstverein Kassel.
Image: guillaumebijl.be

I also asked Bijl how he perceived the trajectory of material culture as things become more digitized. He responded that he shows the “archaeology of this civilization already in the present and in the wrong places… in art spaces and installations/decors; I’m a witness of this/our time,” he said, “and my archaeologies will only seem more abstract in the future.”

Others have also made a note of Bijl’s work and its connection to an archaeology. In terms of preserving history with the elements of the present, this is not a new notion in 20th-century art. Many artists have experimented with the transcendence of their own time and place by speculating on the future. Making a claim to present culture by using it in artwork allows an artist to make decisions about what is valuable and relevant for our successors. As well, the act of working with history to reinvent the story being told about the past can work in the same way- just as Bijl’s works are a statement to his being witness in these times, so can artists be a witness to taking immediate action against what has been written as history. For example, Marcel Duchamp’s ready-mades went against centuries of ideas about artistic creation and the role of aesthetics.

„An ordinary object,“ Duchamp famously stated, “could be elevated to the dignity of a work of art by the mere choice of an artist.” A bicycle wheel, a bottle rack, a urinal- the utilitarian objects of man, future archaeologists will ponder, were suddenly taken out of utilization and placed as ritual objects in the early 20th century.

The strategy of rewriting the past within the present can be seen in works by Ai Wei Wei as well, in Han Dynasty Urn with Coca-Cola Logo from 1994, for example. If the future past lies within the present, the role of historians in the future is to differentiate between states of remembering or else rewrite the historical past altogether. The question „What is our heritage for the future?“ is in the hands of contemporary artists who have the power to make value judgments about what should remain of the present. Bijl’s work is in some ways a speculation on how the present will appear to future generations. How will it be interpreted and what kinds of conversations will it bring up? Will the tragicomic element still exist in 100 years? A completely different set of questions is in which medium this will be preserved and viewed in the future, the photographs digitized and stored on the vast Internet archive along with this article.

Bijl is telling a story about our history through an extraction from the present reality by placing the present reality in a museum of sorts, a still-life without function or interaction. To step into the art space is to take a journey into the future to view the present on display.

Erin Honeycutt

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Listastofan er listamannarekið rými í JL húsinu, en þar hafa staðarhaldarar rekið sameiginlegt listamannarými, galleríi og myrkrakompu fyrir listamenn frá 2015. Nú er sýningunni Emilie eftir ljósmyndarann Emilie Dalum að ljúka, en síðasti sýningardagurinn verður á miðvikudaginn 19. apríl. Emilie verður á staðnum á venjulegum opnunartíma gallerísins milli kl. 13-17 en býður svo upp á opið spjallkvöld um sýninguna og verkið milli kl 17-19.

Eins og titillinn gefur til kynna snýr Emilie linsunni að sjálfri sér. Í upphafi árs 2016 var hún greind með eitilfrumukrabbamein sem er einnig þekkt undir nafninu Hodgkins sjúkdómur. Á sýningunni sést hún sjálf á ýmsum stigum ferlisins meðan á krabbameinsmeðferðinni stóð. Ein mynd sýnir þegar hún fer inn í jáeindarskanna á sjúkrahúsi í Danmörku, önnur þar sem sést í tvö ör sem hún hlaut við sitt hvort viðbeinið; annað eftir skurðaðgerðina sem átti að fjarlægja æxlið, og hitt eftir lyfjabrunninn sem hún fékk fyrir lyfjagjöfina. Það er kostur falinn í því að þetta er ekki í síðasta skipti sem Emilie kemur til með að sýna þessar myndir, þannig að hægt verði að fylgjast áfram með framvindu verksins, og þá hennar bataferli. Að eigin sögn vinnur hún þessa sýningu eins og meðferðarúrræði í gegnum krabbameinsmeðferðina.

Hér sést í bæði örin sem Emilie hlaut eftir skurðaðgerðina og lyfjabrunninn.
Á annarri mynd liggur Emilie í sjúkrarúmi, en í bakgrunni sést í manneskju með græna hárkollu. Hann heitir Michael og er vinur Emilie. Hún hefur, og er enn að vinna ljósmyndaseríu út frá hans lífi.
Emilie liggur í sjúkrarúmi. Vinur hennar Michael er í bakgrunni.

Á prenti er Emilie titluð sem ljósmyndari. Hún fór í nám í einum þekktasta ljósmyndaskóla Danmörku, Fatamorgana The Danish School of Art Photography, og hefur unnið með miðilinn á margvíslegan hátt, og þá sérstaklega til að skrásetja sögur og fólk sem henni er umhugað um. Þessi sýning hér í Listastofunni er titluð sem ljósmyndasýning, en eftir óskráðu forsniði listformanna er fylgt eftir, sem er oft til óþurftar notað til þess að staðsetja verk eða listamenn á einni eða annarri hlið ósýnilegra landamæra listformanna, þá er eftir vill hægt að segja að sýningin sé komin út á einhvers konar jaðar.

Emilie sýnir til dæmis ekki aðeins ljósmyndir, en það fyrsta sem mætir gestum þegar gengið er inn í sýningarsalinn er borð úttroðið af lyfjaumbúðum, kvittunum eftir læknisheimsóknir, bréfum frá vinum og öðrum persónulegum hlutum sem tengjast krabbameinsmeðferðinni. Þar voru líka tveir latex hanskar sem höfðu verið blásnir upp og skreyttir með pennastrikum og fígúrum, líklega til þess að drepa tímann í langvarandi sjúkrahúslegum meðan á rannsóknum eða lyfjagjöfum stóð. Á öðrum stöpli standa hárkúlur sem Emilie safnaði af hausnum á sér eftir að lyfin fóru að hafa þau áhrif sem eru ef til vill það sem flestir kannast við og óttast.

Lyfjabrunnurinn sem var græddur undir öxl Emilie.

Með sýningunni sýnir Emilie ótrúlegt hugrekki með því að opna fyrir samtal um ferli sem er líklega það erfiðasta sem hún hefur þurft að ganga í gegnum. Hún sagði mér að þegar hún fór á endurhæfingarfundi fyrir krabbameinsgreinda gat hún séð hversu misjafnlega fólk af mismunandi kynslóðum var tilbúið að opinbera sitt eigið ástand. Eldri konurnar komu á fundina málaðar og með hárkollur á meðan þær yngri voru greinilega opnari fyrir því að sýna líkamleg einkenni sjúkdómsins.

Emilie fór að missa hárið vegna lyfjameðferðarinnar.

Á síðasta ári sýndi hún myndirnar á hópsýningu í Ólafsvík, en hér í Listastofunni var komin ný mynd á sýninguna. Hún hafði bætt við einni ljósmynd ásamt því að sýna aðra hluti, eins og hárlokkana, lyfseðlana og aðra hluti sem tengjast ljósmyndunum.

Eins og áður kom fram verður lokadagur sýningarinnar í Listastofunni nú á miðvikudaginn. En þar mun ferlinu ekki ljúka. Verkið verður einnig sýnt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur um haustið 2018 (9. ágúst – 9. október 2018. Þar verður vonandi búið að bæta enn meira við þetta upplýsandi verk um viðkvæmt málefni sem er nú til sýnis í einu af virkari grasrótargalleríum Reykjavíkur í dag.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest