Outsider art 3.hluti – Outsider/Insider?

Outsider art 3.hluti – Outsider/Insider?

Outsider art 3.hluti – Outsider/Insider?

Tobin Siebers, prófessor í bókmennta- og menningargagnrýni við háskólann í Michigan í Bandaríkjunum, hefur skrifað töluvert um fötlun og list. Í grein sinni „Disability Aesthetics“ veltir hann fyrir sér tengslum fötlunar og listaverka í listasögunni og mikilvægu en duldu hlutverki fötlunar í sögulegum verkum. Hann fjallar um áskorun sem listfræðingar og listnjótendur standi frammi fyrir þegar um er að ræða listafólk með þroskahömlun þar sem ætlun listamannsins með verki sínu er ekki ljós. Verkin eru gerð óháð mögulegri framsetningu og án tillits til áhorfandans, listasögulegs samhengis og án tengsla við strauma og stefnur í nútímamyndlist. Hann nefnir sem dæmi verk listakonunar Judith Scott sem hefur skapað sér nafn sem „outsider“ listamaður en verk hennar hafa fengið mikla athygli og eru nú sýnd bæði á vettvangi „outsider“ listar sem og á almennum vettvangi. Judith skilgreindi sjálfa sig ekki sem listamann, hún fór hvorki á söfn né ætlaði sér að skapa listaverk í því almenna samhengi sem það að skapa listaverk er sett í (Siebers, 2006).

Saga Judith er um margt merkileg. Hún er tvíburi, fæddist með Downs-heilkenni og ólst upp í góðu yfirlæti hjá fjölskyldu sinni til sjö ára aldurs. Þegar formleg skólaganga hennar átti að hefjast þreytti hún munnleg próf og þótti ekki hæf til að ganga í almennan skóla. Fjölskyldu hennar var ráðlagt af læknum að senda hana frá sér á hæli, sem var ráð þess tíma og þeirrar samfélagsgerðar sem þá var. Judith gat lítið tjáð sig og það uppgötvaðist ekki fyrr en seint á ævi hennar að hún var heyrnalaus! Hún var sumsagt sett heyrnarlaus í munnlegt próf þar sem niðurstöður áttu að segja til um greind hennar og var í kjölfarið einangruð á stofnun stóran hluta af lífi sínu. Á hælinu fékk hún fá tækifæri, einangraðist og var nánast afskrifuð.

Eftir lát foreldra hennar þegar Judith var komin á fimmtugsaldur bauð systir Judith henni að flytja til sín til Kaliforníu á svæðið í kringum San Francisco. Judith hóf þá að sækja listmiðstöðina Creative Growth sem staðsett var nálægt heimili þeirra. Creative Growth er listmiðstöð og gallerí í Oakland í Kaliforníu með afar fjölbreytta starfsemi og marga listamenn á sínum snærum. Þar er dagþjónusta þar sem fólk getur komið og unnið að list sinni, allur efniviður er á staðnum og leiðbeinendur eru myndlistafólk. Miðstöðin aðstoðar fólk við að koma verkum sínum á framfæri og kemur á samstarfi við listafólk og hönnuði, þar er rekið faglegt gallerí og miðstöðin sinnir umboðsstörfum fyrir listafólkið.

Til að byrja með naut Judith sín ekkert sérstaklega vel en komst síðan að í smiðju þar sem verið var að vinna með garn og útsaum. Þar kviknaði áhugi hennar og hún fór að vinna að skúlptúrum, þrívíðum verkum, sem hafa markað spor í listasögunni. Inni í verkunum kom hún fyrir alls konar hlutum og dóti sem hún fann og hafa sést þegar verkin eru gegnumlýst. Það eru sögur af því að hlutir hafi horfið frá fólki eins og veski og töskur sem eru nú hluti af þessum listaverkum.

Verk hennar vöktu strax mikla athygli og þá sem „outsider“ listaverk eftir „outsider“ listamann í „outsider“ listheiminum (MacGregor J.M., 1999. Siebers 2006). En það breyttist eftir að hróður hennar barst út. Á heimasíðu Judithar og systur hennar Joyce Scott segir að verk Judithar endurspegli ekki samhengi við ríkjandi menningu og séu afar einstaklingsbundin, þó öðluðust þau og hún sjálf fyrst viðurkenningu innan „outsider“ listheimsins. Með tímanum hefur áhersla á skerðingu hennar og fötlun dofnað og orðið að neðanmálsgrein í lífssögu hennar sem heimsþekktur og markverður listamaður (Hidden worlds, e.d.). Verk hennar hafa öðlast sjálfstætt líf sem merkilegt innlegg í listasöguna, einu sinni skilgreind á jaðrinum en núna einnig viðtekin á almennan hátt sem list. Á síðustu árum hafa verk hennar verið sýnd víða um heim og eru í eigu þekktra og virtra safna.

Saga Judithar er þó ekki almenn þegar kemur að aðgengi verka listafólks með þroskahömlun inn á almennan vettvang. Siebers (2006) veltir því fyrir sér hvað þurfi að breytast þegar kemur að því að skilja og meðtaka list til þess að verk Judithar og annarra séu meðtekin í listasögunni. Hann nefnir að enn séu listnjótendur uppteknir af tilgangi listamannsins með verki sínu og af því hver uppruni listaverksins sé. Sýn þeirra sem fást við fötlun og fagurfræði (e. disability aesthetics) sé að leggja áherslu á að líkamleg fötlun og þroskahömlun (e. mental difference) hafi mikið gildi í sjálfu sér. Jafnframt að sú sýn geti breytt viðtekinni sýn og haft þau áhrif  að fólk kunni að meta þátt fötlunar í nútímalist og jaðarlist og taki þátt í endurmati á fagurfræðilegum viðmiðum og smekk þeim sem útilokar fatlað fólk.

Vísir að samruna

Árið 2013 var Feneyjartvíæringurinn haldinn í 55 sinn. Feneyjartvíæringurinn, La Biennale di Venezia, er stofnun sem hefur frá upphafi lagt áherslu á nútímamyndlist, rannsóknir og nýjar stefnur í myndlist. Á tveggja ára fresti skipuleggur stofnunin alþjóðlegar sýningar sem eru virtar á heimsvísu (La Biennale, e.d.).

veniceencyclopediabigMeðfram hefðbundnum sýningarskálum sýningarinnar árið 2013, þar sem hver þjóð átti einn fulltrúa, var stór sýning þar sem lærðir og leiknir sýndu saman verk sín. Lykillistamaður sýningarinnar var ítalski listamaðurinn Marino Auriti sem er í flokki þeirra sem taldir eru til „outsider“ listamanna. Hann vann alla sína ævi að hugmyndum um heildarsafn allra safna, nánast eins og raungert internet, teiknaði það og gerði í þrívídd og varð safnið sjálft afar stórt að umfangi.

Sýningarstjóri tvíæringsins 2013, Massimiliano Gioni, vann á vissan hátt út frá þessari hugmynd Auriti og var þessi stóra sýning hugmyndafræðilegt afkvæmi hugmynda Auriti. Á sýningunni voru verk fjölda listamanna sýnd og þeir kynntir án formerkja um það á hvaða vettvangi þeir höfðu verið sýndir áður eða hvernig þeir höfðu verið skilgreindir. Talið er að virkilega hafi verið reynt að afmá mörkin með þessari sýningu og var það markviss tilgangur sýningarstjórans að forðast skilgreiningar um „outsider/insider“ sem andstæða póla (Il plazzo enciclopedico, 2013).

Það sem virðist vera að gerast í ákveðnum hlutum listheimsins, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, er að mörkin á milli þessara póla eru sumsstaðar að dofna. Í auknum mæli eru „outsider“ listamenn farnir að sýna á almennum og virtum sýningum eins og Feneyjatvíæringnum, Documenta og The Carnegie International. Outsider Art Fair er stór hátíð þar sem „outsider“ list er kynnt og er hún haldin bæði í New York og París. Á vorsýningu Outsider Art Fair árið 2014 voru sýnd verk listamanna frá 48 alþjóðlegum galleríum (Outsider art fair, e.d.). Í fyrsta sinn frá stofnun hennar árið 1993 var hún haldin samhliða hátíðinni Frieze Art Fair sem er sambærileg við áðurnefndar hátíðir en þar eru sýnd verk listamanna sem eru kynntir á vegum 190 gallería (Frieze art fair, e.d.).

Í viðtali blaðamanns, Frank, í Huffington Post við nýjan eiganda Outsider Art Fair, Andrew Edlin, er rætt um að gjáin á milli „outsider“ listamanna og þeirra sem eru viðurkenndir í hinum almenna listheimi sé að minnka. Edlin talar í viðtalinu um hversu mikla umfjöllun verk á hátíðinni fái og að umræðan snúist um að verkin eigi skilið að vera skoðuð í samhengi við almenna nútímamyndlist. Hann undirstrikar að æ minni áhersla sé lögð á skilgreiningar og merkimiða á hvað sé „outsider“ og hvað sé meginstraumur (e. mainstream) innan listheimsins (Frank, 2014). Þetta og það sem sést með aðgengi verka Judith Scott inn í almennu senuna er til marks um ákveðinn samruna, eða hið minnsta virðist vera samtal og endurskoðun í gangi. Á meðan staðan sumsstaðar í Evrópu og Bandaríkjunum er þessi er staðan önnur á Íslandi. Mögulega sökum smæðar listasenunar og listmarkaðarins hér. Staðan er sú að þeir sem fallið geta undir „outsider“ skilgreininguna eða teljast vera á jaðrinum stendur enn í dag færri tækifæri til boða til að sýna og fleiri hindranir eru í vegi þeirra vilji þeir byggja upp feril í listum.

Margrét M. Norðdahl

Heimildir:

Frank, P., (2014, 10. apríl). Defining outsider art in anticipation of the Outsider art fair. Huffington Post. Sótt af http://www.huffingtonpost.com/2014/04/10/outsider-art-fair-2014_n_5093206.html

Frieze art fair. (e.d.). Frieze New York. Sótt af http://friezenewyork.com/

Hidden Worlds. (e.d.). Judith Scott (1943 – 2005). Sótt af: http://www.hidden-worlds.com/judithandjoycescott/judith.shtml

Il plazzo enciclopedico: The encyclopedic palace: 55th International Art Exhibition: la biennale di Venezia. (2013). [Sýningarskrá]. Massimiliano Gioni (ritstjóri). Feneyjar: Marsilio.

La Biennale. (e.d.). La Biennale di Venezia. Sótt af: http://www.labiennale.org/en/biennale/organization

MacGregor, J.M., (1999). Metamorphosis, The fiber art of Judith Scott. Oakland: Creative Growth Art center

Outsider art fair. (e.d.). New York 2014. OAF Talks. Sótt af : http://www.outsiderartfair.com/fair/720/program

Siebers, T., (2006). Disability Aesthetics. Journal for Cultural and Religious Theory vol. 7 no.2: bls 63 – 73.

Magnaður gjörningur Katrínar Ingu Hjördísardóttur

Magnaður gjörningur Katrínar Ingu Hjördísardóttur

Magnaður gjörningur Katrínar Ingu Hjördísardóttur

Mengi á mánudagskvöldi. Tilefnið eru gjörningar. Listakonan Katrín Inga Hjördísardóttir er síðust á svið til að fremja gjörninginn HÖFNUN – Ofar mannlegum hvötum í samstarfi við Futuregrapher. Hljómflutningsgræjum hefur verið komið fyrir á eikarskenk aftast í hvítu sýningarrýminu. Fyrir miðju gólfsins stendur lítið trampólín og búið er að raða tólf eggjum á blátt efnið í miðju þess. Tveir hljóðnemar standa sitthvoru megin við trampólínið og tveir stórir svartir hátalarar standa í sínu hvoru horninu fyrir aftan. Katrín Inga gengur í salinn með lítinn rafmagnsgítar, gulan að lit. Hún er klædd í bláan hlýrabol og svartar blúndunærbuxur og fyrir andliti hennar er hvít gríma. Hún byrjar að hoppa á trampólíninu og þenur gítarinn. Eggin taka að brotna eitt af öðru og innihald þeirra rennur í gegnum bláan dúkinn undir fótum Katrínar og niður á gólfið. Futuregrapher stjórnar græjunum á skenknum í bakrunni, klæddur appelsínugulum regnstakk. Katrín Inga heldur áfram að hoppa og fer með frumsaminn texta sem hljóðnemarnir nema sitthvoru megin við hana. Sýnin er eins og málverk, þar sem listamaðurinn hefur hugsað út í myndbyggingu og litaval, nema hvað að málverkið er á hreyfingu.

Í texta Katrínar Ingu segir: „Þú veist alveg hvernig mér líður – ég hef alveg tekið nógu mörg dramaköst þar sem þráhyggjan mín hefur leikið aðalhlutverkið – ég er bara að fókusa á sjálfsaga – er með tilfinningarnar mínar í einskonar ritskoðun – en ég sakna tíma okkar saman – það virkar ekki að þröngva nærveru manns inn í mengi – inn í mengi þar sem nærverunni er ekki óskað – en ég veit ekki hvernig þér líður.“[1]

Gjörningar eru lifandi atburður eða uppákoma sem á sér stað í rauntíma, þar sem listamaður eða listamenn koma fram í eigin persónu fyrir framan áhorfendur.[2] Gjörningurinn er milliliðalaus túlkunarmiðill sem þarfnast aðeins viðveru listamannsins og áhorfenda. Hann býður upp á mismunandi tjáningaraðferðir og áhorfandinn er í beinu sambandi við listamanninn á meðan á gjörningi stendur.[3] Áhorfandinn verður þar af leiðandi hluti af gjörningnum og upplifir hann á lifandi hátt, ekki ósvipað sviðslistum. Gjörningalistamaðurinn, sem er allt í senn rithöfundur, framleiðandi, leikstjóri og leikari, er þó fyrst og fremst myndlistarmaður sem hefur litla eða enga reynslu af leiklist.[4] Í gjörningum ríkir frelsi til athafna, miðillinn er aðgengilegur áhorfendum og því hentugur til að koma persónulegum og/eða pólitískum hugmyndum til skila.

Halldór Björn Runólfsson listfræðingur hefur eftir Magnúsi Pálsyni í upphafi bókarinnar Icelandic Art Today að gjörningar séu „the craziest of all artistic activity“.[5] Jaðarform voru þeir vissulega og geta að sjálfsögðu verið brjálæðir og vissulega brjálæðislegastir af öllum listrænum athöfnum. Gjörningar eru þó einn angi margbreytileika myndlista og gjörningurinn á rætur að rekja allt aftur til þess að fútúturistar notuðu líkamstjáninguna til að koma hugmyndum sínum á framfæri í byrjun 20. aldar.[6] Hugmyndafræði Dadahreyfingarinnar í byrjun aldarinnar og síðar Fluxus og hugmyndalista upp úr 1960 áttu sinn þátt í að þróa gjörningalistformið. Hugmyndalistin kveikti á sinn hátt í gjörningnum en inntak hugmyndalista er sú að hugmyndin er æðri listaverkinu sjálfu.[7] Gjörningar urðu á því tímabili eins konar leikin aðgerð á þeim hugmyndum. Gjörningarnir gáfu hugmyndinni líf og gerðu hana raunverulega.[8] Gjörningar urðu þó fyrst til sem sjálfstætt myndlistarform í eiginlegri merkingu orðsins á áttunda áratug síðastu aldar.[9]

Gjörningur Katrínar Ingu er dramatískur og afar persónulegur eins og oft á við um gjörninga kvenna. Af textanum má álykta að Katrín sé að takast á við eigin tilfinningar eftir sambandsslit. Hún leggur þær á borð fyrir almenning og berskjaldar sig. Það er aðdáunarvert og meira en margur gæti hugsað sér. Þrautsegja hefur einkennt Katrínu Ingu og verk hennar í gegnum árin. Hún heldur ótrauð áfram og er óhrædd við að reyna á þolmörk listarinnar sem og sín eigin mörk, líkamleg og andleg. Gjörningurinn HÖFNUN – Ofar mannlegum hvötum er líkamlega og andlega erfiður. Tónarnir í gítarnum eru í takt við endurtekið hopp listakonunnar. Gjörningurinn dregst á langinn og síðustu metrarnir eru teygðir eins og oft á við um sambönd sem komin eru á endastöð. Að endingu snýr hún baki í áhorfendur og slær einn og einn tón en er hætt að tala. Þögnin, hoppið og einstaka tónn er það sem stendur eftir. Katrín nær með einlægni sinni og hæfileikum að fanga áhorfandann í frábærum og mögnuðum gjörningi.

Katrín Inga Hjördísardóttir útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2008. Árið 2012 útskrifaðist hún með BA próf í listfræði og listasögu frá Háskóla Íslands. Því næst hélt hún til New York og lagði stund á meistaranám í myndlist við School of Visual Arts og útskrifðist þaðan með MFA árið 2014.[10] Katrín Inga hefur verið iðin við sýningarhald síðan hún útskrifaðist úr LHÍ. Hún áttaði sig á því hvað gjörningaformið er öflugt myndlistarform þegar hún stundaði nám í Listaháskóla Íslands og hefur verið iðin við að fremja gjörninga síðan ásamt því að vinna í aðra miðla.

Gjörningurinn HÖFNUN – Ofar mannlegum hvötum var fluttur í tónlistarhúsinu Mengi þann 7. mars 2016.

Ástríður Magnúsdóttir

Listfræðingur og myndlistarmaður

[1] Katrín Inga Hjördísardóttir. Gjörningur í Mengi. 7. mars 2016.

[2] Michael Bird, 100 Ideas that changed Art, 183.

[3] Harpa Þórdsóttir, „Gjörningar, tímatengd verk og myndbandalist“, 147.

[4] Withers, „Feminist Performance Art: Performing, Discovering, Transforming Ourselves“, 158.

[5] Magnús Pálsson í Icelandic Art Today, 21.

[6] Goldberg, Performance Art: From Futurism to the Present, 11-13.

[7] Sama, 7-8.

[8] Harpa Þórdsóttir, „Gjörningar, tímatengd verk og myndbandalist“, 145.

[9] Goldberg, Performance Art: From Futurism to the Present, 7.

[10] Heimasíða Katrínar Ingu Hjördísardóttur, sótt 21. maí 2016, http://dottir.info

Heimildir:

Bird, Michael. 100 Ideas that changed Art, London, Laurence King Pubishing, 2012.

Goldberg, Rosalee. Performance Art: From Futurism to the Present, London: Thames  and Hudson, 2011.

Harpa Þórsdóttir. „Gjörningar, tímatengd verk og myndbandalist“, Íslensk Listasaga:  frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar, V bindi: Nýtt málverk,  gjörningar og innsetningar, 143-213, Reykjavík: Forlagið og Listasafn  Íslands, 2011.

Katrín Inga Hjördísardóttir. Gjörningur í Mengi. 7. mars 2016.

Katrín Inga Hjördísardóttir. Heimasíða. http://dottir.info Sótt 21. maí 2016.

Withers, Josephine. „Feminist Performance Art: Performing, Discovering, Transforming Ourselves“, The Power of Feminist Art, Norma Broude og Mary  D. Garrard ritstj., 158-173, New York: Harry N. Abrams, 1994.

Halldór Björn Runólfsson. „Times of Continuous Transition: Icelandic Art from the  1960s to Today“, Icelandic Art Today, Christian Schoen og Halldór Björn Runólfsson ritstj., 10-27, Ostfildern: Hatje Cantz, 2009.

KAKTUS í Verksmiðjunni á Hjalteyri

KAKTUS í Verksmiðjunni á Hjalteyri

KAKTUS í Verksmiðjunni á Hjalteyri

arzine leit við í Verksmiðjunni á Hjalteyri laugardaginn 28.05 þar sem fram fór uppskeruhátið fyrsta verkefnis sumarsins. KAKTUS listarými á Akureyri flutti allt sitt hafurtask og starfsemi í Verksmiðjuna í maí og stóð fyrir fjórum opnunum þann tíma undir heitinu STINGUR Í AUGUN. Mikil stemning var á uppskeruhátíðinni en þar fór fram YMUR sound.art.festival. með 12 tíma tón/hljóð/myndlistadagskrá. Sú hátíð lagði af stað fyrir ári síðan í rými Kaktus á Akureyri. Veðrið lagði sitt af mörkum til þess að skapa einstaklega skemmtilega stemningu… enda alltaf gott veður í Eyjafirði eins og alþjóð veit! Við settum saman sutt myndband til þess að miðla viðburðinum til þeirra sem ekki komust.

UM KAKTUS

Kaktus er lista og menningarrými sem stendur fyrir fjölbreyttri lista-og menningarstarfssemi í miðju listagilinu á Akureyri þar sem Populus Tremula starfaði áður. Stjórnendur Kaktus eru sex talsins þau Anne Balanant, Áki Sebestían Frostason, Brák Jónsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Hekla Björt Helgadóttir, Jónína Björg Helgadóttir. Þau stofnuðu lista- og menningarýmið í mars árið 2015, en sameiginlega sjá þau um rekstur þess og vinna ötullega að því að göfga akureyskt menningarlíf. Kaktus býður upprennandi lista- og hugsjónafólki að nýta rýmið á margskonar máta og á dagskrá eru listasýningar, tónlistarviðburðir, ljóðakvöld, bíódagsskrá, örnámskeið, hefðbundnir fyrirlestrar og frumlegri viðburðir, svo fátt eitt sé nefnt. Í Kaktus er einnig rekið myndasögubókasafn. Til viðbótar við opinberu dagsskána nota stjórnendur Kaktus rýmið fyrir eigin listavinnustofur.

STINGUR Í AUGUN

Kaktus í Verksmiðjunni á Hjalteyri

07.05 – 28.05 2016

Sjöunda maí síðastliðinn flutti hópurinn sem rekur listarýmið Kaktus í Listagilinu á Akureyri alla starfsemi sína í Verksmiðjuna á Hjalteyri, bæði vinnustofur sínar og fyrirhugaðar sýningar. Laugardaginn 28. maí lauk dvöl þeirra í Verksmiðjunni með fjölbreyttri uppskeruhátíð þar sem tónlistarhátiðin YMUR fór fram ásamt nýrri sýningaropnun á verkum 9 listamanna, meðal annars listamanna sem starfa með Kunstsclager.

Kaktusliðar: Anne Balanant, Áki Sebastian Frostason, Brák Jónsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Hekla Björt Helgadóttir og Jónína Björg Helgadóttir

Sýningar

Kaktus – STINGUR Í AUGUN

Fyrstu helgi dvalartímans opnaði sýning Kaktus meðlima á þriðju hæð Verksmiðjunnar sem er hvorki meira né minna en um sautján hundruð fermetrar að stærð og var sú sýning í sífelldri þróun allan mánuðinn. Alla virka daga stóð Verksmiðjan opin þar sem gestum og gangandi var boðið að líta á yfirstandandi sýningu og að sjá þá næstu verða til, en næstu þrjár helgar opnuðu nýjar sýningar.

STINGUR Í AUGUN nr.2

Norðlenskir Listamenn

Laugardaginn 14. maí opnaði önnur sýningin, í austursal Verksmiðjunnar ásamt ljóðalestri og frumfluttum tónlistaratriðum.

Þeir sem sýndu og komu fram voru: Jón Laxdal, Arnar Ómarsson, Hlynur Hallsson, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Ívar Freyr Kárason, Heiðdís Hólm, Lefteris Yakoumakis, Joris Rademaker, Vikar Mar, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, Arnfinna Björnsdóttir, Viljar Hafþórsson, Jón Haukur Unnarsson, Örnólfur Hlynur Hálfdánsson, Áki Sebastian Frostason og Freyja Reynisdóttir.

STINGUR Í AUGUN nr.3

FULLORÐIÐ FÓLK

Laugardaginn 21. maí opnaði svo sýning fjórtán útskriftanema frá Listaháskólanum í vestursal Verksmiðjunnar.

Í þeim hópi voru þau Fritz Hendrik IV, Snædís Malmquist, Berglind Erna Tryggvadóttir, Hjálmar Guðmundsson, Harpa Finnsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir, Indriði Arnar Ingólfsson, Rúnar Örn Marinósson, Kristín Helga Ríkharðsdóttir, Gylfi Freeland Sigurðsson, Salvör Sólnes, Geirþrúður Einarsdóttir, Katrín Helena Jonsdóttir og Árni Jónsson.

Uppskeruhátíð

YMUR

Laugardaginn 28. maí var síðan uppskeruhátíð þar sem tónlistarhátíðin YMUR var haldin í annað sinn ásamt því að ný myndlistarsýning bættist við í miðrými verksmiðjunnar. Þar sýndu þau Ólöf Rún Benediktsdóttir, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Linn Björklund, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Helga Páley Friðþjófsdóttir, Hrönn Gunnarsdóttir, Kristín Karólína Helgadóttir, Loji Höskuldsson og Sigmann Þórðarson.

YMUR er tilraunakennd 12 tíma hljóð.lista.hátíð sem stefnir að því að virkja öll skynfæri og skapa fjölbreytta og spennandi upplifun fyrir gesti og þátttakendur að kostnaðarlausu. Skipuleggjendur Yms eru þau Aldís Dagmar Erlingsdóttir, Áki Sebastían Frostason og Freyja Reynisdóttir.

Fram komu:

  • Dulvitund
  • Nicolas Kunysz
  • DAVEETH
  • Ultraorthodox
  • IDK | IDA
  • Kælan Mikla
  • Lestarstjórinn
  • AMFJ
  • Quadruplos
  • Áki Sebastian
  • Úlfar

Kaktus er styrktur af Akureyrarstofu, Norðurorku, Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Alþýðuhúsinu á Siglufirði. / Ymur er styrktur af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, Kjarnafæði, Ásprent, SBA Norðurleið og Dagskránni.

 

Erfðir eða uppeldi?

Erfðir eða uppeldi?

Erfðir eða uppeldi?

Viaggio sentimental nefnist sýning Ólafar Nordal sem var í Harbinger frá 9/4-8/5 síðastliðin. Sýningin samanstendur af 13 ljósmyndum í stærðum í kringum A4, „facsimile“ af nótnabók Jóns Nordals tónskálds, föður Ólafar, frá 1956 sem innheldur vinnuskissur hans, og hljóðverk þar sem tónar eru leiknir upp úr nótnabókinni.

Í fyrri verkum hefur arfleifð þjóðarinnar verið Ólöfu hugleikinn en á þessari sýningu er Ólöf á persónulegri nótum og varpar fram spurningu um sína eigin arfleifð. Hún gengur út frá kenningu þeirra vísindamanna sem halda því fram að upplifanir og minningar skráist í genamengi manna og þar af leiðandi erfi menn reynslu foreldra sinna.

Foreldrar Ólafar dvöldu í Róm árið 1956, þar sem faðir hennar lagði stund á tónsmíðar, fimm árum áður en Ólöf fæddist. Ólöf fylgdi í fótspor þeirra með svarta/hvítar ljósmyndir sem þau höfðu tekið í farteskinu. Hún leitaði uppi sömu staði og þau höfðu tekið myndirnar á og tók myndir frá sama sjónarhorni. Hún sýnir þær síðan sama þannig að nýrri myndin, sem er í lit, liggur yfir þeirri eldri. Sumar af eldri myndunum eru af foreldrum Ólafar við sögufrægar byggingar. Myndirnar sýna að lítið hefur í rauninni breyst í Róm, fornu byggingarnar standa enn eins og þær stóðu fyrir 60 árum en þegar þessir tveir tímar mætast kemur afstæði tímans í ljós. Það er eins og tíminn hafi staðið í stað þegar fornu byggingarnar eru skoðaðar en fjarvera foreldrar hennar á nýju myndunu sýnir hversu skammur tími mannsins er í samanburði við mannvirkin.

Þegar Ólöf kom á staðina sem foreldrar hennar höfðu dvalið á áratugum fyrr var upplifun hennar einhvers konar déjú vu. Hún upplifði staðina ekki eins og hún væri að sjá þá í fyrsta skipti heldur eins og að hún hefði verið þar áður. Þannig finnst henni hún hafa fengið staðfestingu á að kenningin um að maðurinn erfi reynslu foreldra sinna sé rétt. Ef kenningin er rétt þá styður hún þróunarkenningu Darwins. Maðurinn er í stöðugri þróunn og sífellt að bæta við þekkingu sína, jafnvel í bókalausum heimi, þekking forfeðranna er öll skráð í erfðamenginu. Frummyndakenning Platóns rýmast einnig innan þessarar kenningar, að maðurinn fæðist með alla þekkingu, að hann þurfi eingöngu að leysa hana úr læðingi. Sem leiðir hugann einnig að Noam Chomsky og kenningu hans um að maðurinn fæðist með tungumál, að það sé ekki eitthvað sem maður læri eingöngu af reynslu. Aðrir halda því fram að maðurinn fæðist með hæfileikann til að læra og að reynslan eða uppeldið móti hann meira en erfðir.

Ólöf hefur oft séð myndir foreldra sinna frá Róm og heyrt foreldra sinna tala um Róm. Þannig hefur hún mögulega gert sér Róm í hugarlund, skapað þekkingargrunn í heilabúinu eða þekkingarmót. Þegar hún upplifir síðan hlutinn bætir hún við þá þekkingu sem hún hefur aflað sér, myndin sem hún hafði í huganum verður dýpri eða skýrari, það er nýa myndin fellur að þeirri mynd sem hún hafði fyrir.

Sýning Ólafar styrkir kannski ekki kenninguna um að reynsla foreldra erfist en hún varpar engu að síður fram áhugaverðri spurningu og er innlegg í umræðuna um hvað gerir manninn að því sem hann er. Sýningin er einnig fallegur virðingavottur við foreldra hennar sem skópu hana.

Höfundur er Marta Valgeirsdóttir

Hún er menntuð í myndlist og heimspeki

Yfirlýsing frá stjórn SÍM vegna sölu Ásmundarsals

Yfirlýsing frá stjórn SÍM vegna sölu Ásmundarsals

Yfirlýsing frá stjórn SÍM vegna sölu Ásmundarsals

Fram kom í fréttum sl. föstudag að Alþýðusamband Íslands hafi þegar selt Ásmundarsal, einungis viku eftir að fréttir bárust af því að húsnæðið væri til sölu. Vegna þessa sendir stjórn SÍM frá sér meðfylgjandi yfirlýsingu.

Líkt og áður hefur komið fram harmar stjórn SÍM sölu ASÍ á Ásmundarsal. Nú ríkir óvissa um það hvernig safneign ASÍ verður sýnd til framtíðar litið. Stjórn SÍM telur brýnt að þessari óvissu verði eytt sem fyrst, enda tilheyra Listasafni ASÍ mörg af fegurstu verkum íslenskrar myndlistarsögu. Tryggja þarf safneigninni nýtt sýningarrými svo hægt verði að sýna verkin. Af hálfu ASÍ hefur komið fram að ætlunin sé að nota ágóða af sölu Ásmundarsals til að koma upp nýju sýningarrými til að sýna safneign listasafnsins. Að mati stjórnar SÍM verður að koma fram raunhæf, tímasett áætlun um það hvenær nýtt sýningarrými verður tekið í notkun. Annað er vanvirðing við listasafn ASÍ og stofngjöf Ragnars í Smára. Stjórn SÍM auglýsir eftir slíkri áætlun og mun fylgja því eftir opinberlega að hún liggi fyrir á þessu ári.

SÍM ítrekar óánægju sína með að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila við aðdraganda sölunnar og lýsir furðu sinni á því hve skamman tíma söluferlið tók. Frá því Ásmundarsalur var auglýstur til sölu og þar til hann var kominn í hendur nýrra eigenda leið tæp vika. Þá telur SÍM að eðlilegt hefði verið að auglýsa tilboðsfresti opinberlega vegna söluferlsisins.

Stjórn SÍM óskar nýjum eigendum Ásmundarsals, fjárfestunum Sigurbirni Þorkelssyni og Aðalheiði Magnúsdóttur, velfarnaðar í fyrirhugaðri menningarstarfsemi í húsnæðinu. Þeim eru þakkir skildar fyrir að takast á hendur þá ábyrgð sem fylgir þessu einu sögufrægasta húsi íslenskrar listasögu, sérstaklega fyrir þá fyrirætlan að virða ósk Ásmundar Sveinssonar um að myndlistartengd starfsemi verði ávallt hluti af húsinu. Fyrirhuguð starfsemi nýrra eigenda, sem kynnt hefur verið í fjölmiðlum, virðist eyða þeirri óvissu sem uppi var varðandi framtíðarnotkun Ásmundarsals og hvort hann yrði áfram notaður sem myndlistarrými eða í öðrum, óskyldum tilgangi.

Alls skrifuðu rúmlega 1500 manns undir áskorun SÍM til ASÍ um að endurskoða ákvörðun um að selja Ásmundarsal. Stjórn SÍM færir öllum sem veittu málinu áhuga bestu þakkir.

Fyrir hönd stjórnar SÍM Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður.

List og listmarkaðir I. Hluti

List og listmarkaðir I. Hluti

List og listmarkaðir I. Hluti

London, Kaupmannahöfn og Reykjavík

Doktorsritgerð mín Commercial Galleries in Copenhagen, London and Reykjavík: a comparative study of the formations, contexts and interactions of galleries founded between 1985 and 2002, er samanburðar rannsókn á samhengi og samskiptaferlum gallerista og sölu gallería í Austur-London (East End), Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn og Reykjavík á ofangreindu árabili. Hvatinn að rannsókninni var velgengni ,,YBA‘‘ hópsins á Bretlandi og skyndileg sprenging í fjölda samtímalista gallería í Austur-London. Þessi umskipti orsökuðu bylgjuhreyfingar um gjörvallan listheiminn og skyndilegum sýnileika sölugallería og gallerista. Þetta efni hafði að mestu verið látið afskiptalaust af menningar- og safnafræðingum og skapaði því sóknarfæri fyrir rannsókn sem myndi leggja grunn að nýjum skilningi á þessum mikilvægu menningarsrofnunum.

Rannsóknir og útgefnar bækur um gallerista og gallerí eru fjölbreyttar og innihalda bæði almenna og sérhæfða sýn á gallerista sem óþarfa meðalmenni sem rúin eru sköpunarhæfileikum. Í margra augum eru þeir ekkert annað en sérhæfðar búðarlokur í þjónustu yfirstéttarinnar sem hafa ómerkilegt stuðningshlutverk. Sjóaðri gagnrýnendur hafa litið á gallerista sem feimulegt samsærisfólk og siðlausar afætur: nauðsynlega en ógeðfelda kapítalista sem notfæra sér söluvænleika myndlistar fremur en að vera merki um frumkvöðlastarf og sköpunarhæfileika. Í gagnrýnu mati sínu á galleristum hafa bæði listamenn og fræðimenn haft tilhneigingu til að líta á sölugallerí á grundvelli markaðsmisnotkunar og hagfræði. Af þeim sökum eru galleristar faldir leikarar í umræðum um listheima sem byggðir eru upp af rétthærri þátttakendum á borð við listamenn, sýningarstjóra, fræðimenn, gagnrýnendur, safnara og fleiri. Jafnvel í almennu lesefni um stefnumál stjórnvalda, æsandi list, samsæriskenningar, hátt verð, smygl og falsanir ber lítið á galleristum. Að þessu gefnu er þessari rannsókn ætlað að líta á þessa listheima frá fersku sjónarhorni og kynna til sögunnar dýpri lestur á galleristanum.

Mikilvægasta uppgötvun þessarar rannsóknar hvað þetta varðar er að benda á að galleristar líta á fyrirtæki sín á afar listrænum forsendum: þeir líta á gallerí sín líkt og listamaður á eigin innsetningu. Á fremur óvæntan hátt skortir gallerista oft viðskiptalega innsýn, en í stað þess fylgja þeir sinni eigin skapandi listrænu sýn. Þeir eiga ekki einvörðungu þá ósk heitasta að gallerígestir kaupi list heldur einnig að þeir sjái listrænar innsetningar þeirra; galleríin sem myndverk í sjálfum sér. Þessi gallerí gera ekki einfalda og yfirborðslega kröfu um stíl því margir galleristar hafa djúpa tilfinningu fyrir því sem þeir gera. Að hluta til á þetta rætur að rekja til þátttöku þeirra í framvarðarsveit listræns frumkvöðlastarfs og þeirri sköpunargáfu sem fólgin er í því að bera kennsl á listrænar nýungar. Í heimi sem er samhliða listrænum árangri listamanna eru galleristar að virkja list í samfélaginu og leggja sinn skerf til almennrar viðurkenningar á sjónlistum. Þeir eru gagnrýnir á listamenn og tengsl þeirra eru byggð á gagnkvæmu flæði fremur en að galleristinn sé afæta.

Í rannsókninni er leitast við komast handan ofur-einföldunar á galleristum með samanburðar greiningu á galleristum í mis stórum og mis einanguruðum evrópskum borgum og á ólíkum stigum fjölþjóðlegra samskipta. Í og á milli þessara samhangandi þátta hefur þessi rannsókn leitað eftir fíngerðari frásögn af sambýli listamanna og gallerista þar sem báðir aðilar deila með sér hugmyndinni um nýungar. Hér eru á ferðinni – andstætt kenningum Bourdieus sem lagði mikið til viðvarandi vantrausts á galleristum[1] – sameiginlegur áhugi á gagnkvæmum stuðningi og sköpunarkrafti gallerista og listaamanna.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós breytilegt mikilvægi staðbundinnar, þjóðlegrar og alþjóðlegrar framleiðslu og samskipti samkvæmt aljóðlegri stöðu staðbundins markaðar og raunar stærð og mikilvægi hlutaðeigandi borgar og þjóðar. Á þessuum grundvelli er byggð sú hugmynd að rétt sé að nota fleirtölumyndina list heimar. Rannsóknin hefur því stigið inn í þessa ólíku listheima í þeim tilgangi að staðsetja og skilja gallerista á grundvelli þess að greina viðtöl við þá.

Sýn galleristans
Á sama tíma og ritgerðinni er ætlað að gefa skýrari mynd af galleristanum er ljóst að galleristar vinna að því að auka sýnileika listamanna fremur en sinn eigin sýnileika. Þannig hafa galleristar lagt fram mikilvægan skerf til menningarumhverfis sem snýst um listamenn. Þetta er mikilvægur þáttur í listrænni sýn gallerista; fyrir utan það að skapa sínar eigin gallerí innsetningar, snýst sýn þeirra um að framleiða listamenn og kynna þá eins víða og mögulegt er.

Þessi viðskiptalegu og sýningarstjóralegu áhugamál eru í huga danska galleristans Nicholai Wallner sameining listrænnar sköpunar og skapandi viðskipta.[2] Og, líkt og East-End galleristinn Andrew Mummery minnir á þá búa listamennirnir til listina sem sýnd er í galleríinu[3] sem að auki sýnir að galleríið er afkvæmi skapandi samruna sem byggir á hæfileikum galleristans til að byggja upp samskiptanet innan galleríheimsins, á listkaupstefnum og í fjölmiðlum. Á þennan hátt eru gallerí útkoman úr skapandi samruna.

Hugmynd Wallners um ,,skapandi viðskipti‘‘ virðist vera rétt þar sem galleristarnir sem rætt var við virðast ekki hafa verið fyllilega meðvitaðir um stöðu listmarkaðarins þegar þeir stofnuðu gallerí sín. Þó nokkrir galleristanna muni eftir kreppu eða lifnandi markaði um það leyti sem þeir stofnuðu galleríin hafði sú vitneskja engin áhrif á ákvarðanir um stofnun galleríanna þeirra. Þrátt fyrir þetta hafa nokkur galleríana náð að vaxa og dafna og orðið sýnileg í fjölþjóðlegu samhengi. Til að ná þessum árangri hljóta galleristarnir að hafa haft einhvern skilning á því hvernig listmarkaðurinn virkar, jafnvel þó ekki væri nema óbeint. Meirihluti galleristanna á Íslandsbryggju[4] í Kaupmannahöfn og Edda Jósdóttir[5] í i8 fundu fljótt þörf fyrir það að byggja upp markað erlendis og kynna alþjóðlegan hóp listamanna. Þatta var vegna þess að staðbundni markaðurinn myndi aldrei hafa burði til að standa undir framtíðar markmiðum þeirra. Þessar breytingar ýta undir þá sýn að persónuleg löngun og og sköpunarkraftur eru drifkraftur farsæls gallerís fremur en nákvæm markaðskönnun og viðskiptaáætlun. Eini galleristinn sem nefndi viðskiptaáætlun var Þóra Þórisdóttir, en það var þegar hún sá frammá að þurfa að loka og hún neytti allra bragða til að finna fjárhagslegan bakhjarl og forða þannig galleríinu frá lokun.[6]

Það liggur í hlutarins eðli að mikilvægur hluti þessa skapandi verkefnis er framboð á framsækinni list og listamönnum. Galleristar þarfnast þessa í viðleitni sinni til skilja sig frá öðrum og skapa sér listræna sérstöðu og á þennan hátt að marka sér rými í staðbundnum, þjóðlegum og alþjóðlegum listheimum. Með þessu virðast þeir búa yfir bjartsýni sem jaðrar við að vera einfeldningsleg og blind.

Hvað varðar sýn, þá er ekki hægt að skilja galleríin einungis í efnahagslegu tilliti. Í rauninni virðist sannari lestur á löngunum þessara gallerista vera fólgin í listrænum sköpunarkrafti. Þeir búa yfir öllum draumórum listamanna þótt flestir beini þessum frumkrafti í kynningar og uppbyggingu tengslanets. Með þessum aðferðum telja þeir sig hafa grundvallar hlutverk varðandi það að auka skilning og þekkingu á list.

Greinin er byggð á doktorsritgerð höfundarins.

Mynd frá London Art Fair 2016, fengin að láni frá blouinartinfo.com

Eftir Dr. Magnús Gestsson

  1. Pierre Bourdieu, The Field of Cultural Production: Essays on Art and Literature. Ritstjórn og ritun inngangs Randal Johnson (Cambridge: Polity Press, 1993), bls. 75.
  2. Viðtal höfundar við Nicholai Wallner 10. apríl 2003.
  3. Viðtal höfundar við Andrew Mummery 22. maí 2003
  4. Um og uppúr árinu 2000 varð til hópur gallería á Íslandsbryggju sem flúðu miðborg Kaupmannahafnar og fundu ódýrt húsnæði utan hinnar hefðbundnu miðju listheimsins og ýttu þannig undir hugmyndina um að það væru margir listheimar.
  5. Viðtal höfundar við Eddu Jónsdóttur 20. mars 2003.
  6. Viðtal höfundar við Þóru Þórisdóttur 18. mars 2003.

UA-76827897-1