KAKTUS í Verksmiðjunni á Hjalteyri
arzine leit við í Verksmiðjunni á Hjalteyri laugardaginn 28.05 þar sem fram fór uppskeruhátið fyrsta verkefnis sumarsins. KAKTUS listarými á Akureyri flutti allt sitt hafurtask og starfsemi í Verksmiðjuna í maí og stóð fyrir fjórum opnunum þann tíma undir heitinu STINGUR Í AUGUN. Mikil stemning var á uppskeruhátíðinni en þar fór fram YMUR sound.art.festival. með 12 tíma tón/hljóð/myndlistadagskrá. Sú hátíð lagði af stað fyrir ári síðan í rými Kaktus á Akureyri. Veðrið lagði sitt af mörkum til þess að skapa einstaklega skemmtilega stemningu… enda alltaf gott veður í Eyjafirði eins og alþjóð veit! Við settum saman sutt myndband til þess að miðla viðburðinum til þeirra sem ekki komust.
UM KAKTUS
Kaktus er lista og menningarrými sem stendur fyrir fjölbreyttri lista-og menningarstarfssemi í miðju listagilinu á Akureyri þar sem Populus Tremula starfaði áður. Stjórnendur Kaktus eru sex talsins þau Anne Balanant, Áki Sebestían Frostason, Brák Jónsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Hekla Björt Helgadóttir, Jónína Björg Helgadóttir. Þau stofnuðu lista- og menningarýmið í mars árið 2015, en sameiginlega sjá þau um rekstur þess og vinna ötullega að því að göfga akureyskt menningarlíf. Kaktus býður upprennandi lista- og hugsjónafólki að nýta rýmið á margskonar máta og á dagskrá eru listasýningar, tónlistarviðburðir, ljóðakvöld, bíódagsskrá, örnámskeið, hefðbundnir fyrirlestrar og frumlegri viðburðir, svo fátt eitt sé nefnt. Í Kaktus er einnig rekið myndasögubókasafn. Til viðbótar við opinberu dagsskána nota stjórnendur Kaktus rýmið fyrir eigin listavinnustofur.
STINGUR Í AUGUN
Kaktus í Verksmiðjunni á Hjalteyri
07.05 – 28.05 2016
Sjöunda maí síðastliðinn flutti hópurinn sem rekur listarýmið Kaktus í Listagilinu á Akureyri alla starfsemi sína í Verksmiðjuna á Hjalteyri, bæði vinnustofur sínar og fyrirhugaðar sýningar. Laugardaginn 28. maí lauk dvöl þeirra í Verksmiðjunni með fjölbreyttri uppskeruhátíð þar sem tónlistarhátiðin YMUR fór fram ásamt nýrri sýningaropnun á verkum 9 listamanna, meðal annars listamanna sem starfa með Kunstsclager.
Kaktusliðar: Anne Balanant, Áki Sebastian Frostason, Brák Jónsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Hekla Björt Helgadóttir og Jónína Björg Helgadóttir
Sýningar
Kaktus – STINGUR Í AUGUN
Fyrstu helgi dvalartímans opnaði sýning Kaktus meðlima á þriðju hæð Verksmiðjunnar sem er hvorki meira né minna en um sautján hundruð fermetrar að stærð og var sú sýning í sífelldri þróun allan mánuðinn. Alla virka daga stóð Verksmiðjan opin þar sem gestum og gangandi var boðið að líta á yfirstandandi sýningu og að sjá þá næstu verða til, en næstu þrjár helgar opnuðu nýjar sýningar.
STINGUR Í AUGUN nr.2
Norðlenskir Listamenn
Laugardaginn 14. maí opnaði önnur sýningin, í austursal Verksmiðjunnar ásamt ljóðalestri og frumfluttum tónlistaratriðum.
Þeir sem sýndu og komu fram voru: Jón Laxdal, Arnar Ómarsson, Hlynur Hallsson, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Ívar Freyr Kárason, Heiðdís Hólm, Lefteris Yakoumakis, Joris Rademaker, Vikar Mar, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, Arnfinna Björnsdóttir, Viljar Hafþórsson, Jón Haukur Unnarsson, Örnólfur Hlynur Hálfdánsson, Áki Sebastian Frostason og Freyja Reynisdóttir.
STINGUR Í AUGUN nr.3
FULLORÐIÐ FÓLK
Laugardaginn 21. maí opnaði svo sýning fjórtán útskriftanema frá Listaháskólanum í vestursal Verksmiðjunnar.
Í þeim hópi voru þau Fritz Hendrik IV, Snædís Malmquist, Berglind Erna Tryggvadóttir, Hjálmar Guðmundsson, Harpa Finnsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir, Indriði Arnar Ingólfsson, Rúnar Örn Marinósson, Kristín Helga Ríkharðsdóttir, Gylfi Freeland Sigurðsson, Salvör Sólnes, Geirþrúður Einarsdóttir, Katrín Helena Jonsdóttir og Árni Jónsson.
Uppskeruhátíð
YMUR
Laugardaginn 28. maí var síðan uppskeruhátíð þar sem tónlistarhátíðin YMUR var haldin í annað sinn ásamt því að ný myndlistarsýning bættist við í miðrými verksmiðjunnar. Þar sýndu þau Ólöf Rún Benediktsdóttir, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Linn Björklund, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Helga Páley Friðþjófsdóttir, Hrönn Gunnarsdóttir, Kristín Karólína Helgadóttir, Loji Höskuldsson og Sigmann Þórðarson.
YMUR er tilraunakennd 12 tíma hljóð.lista.hátíð sem stefnir að því að virkja öll skynfæri og skapa fjölbreytta og spennandi upplifun fyrir gesti og þátttakendur að kostnaðarlausu. Skipuleggjendur Yms eru þau Aldís Dagmar Erlingsdóttir, Áki Sebastían Frostason og Freyja Reynisdóttir.
Fram komu:
- Dulvitund
- Nicolas Kunysz
- DAVEETH
- Ultraorthodox
- IDK | IDA
- Kælan Mikla
- Lestarstjórinn
- AMFJ
- Quadruplos
- Áki Sebastian
- Úlfar
Kaktus er styrktur af Akureyrarstofu, Norðurorku, Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Alþýðuhúsinu á Siglufirði. / Ymur er styrktur af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, Kjarnafæði, Ásprent, SBA Norðurleið og Dagskránni.