List og listmarkaðir: London, Kaupmannahöfn og Reykjavík II. Hluti

List og listmarkaðir: London, Kaupmannahöfn og Reykjavík II. Hluti

List og listmarkaðir: London, Kaupmannahöfn og Reykjavík II. Hluti

Staðsetning gallerísins

Í þessari grein er sjónum beint að listmörkuðum í þremur mjög ólíkum borgum, Kaupmannahöfn, London og Reykjavík. Hér notar greinarhöfundur stundum heitið COLORE sem er heiti samsett úr nöfnum þessara þriggja borga. Stærðarmunur og staðsetning þeirra í fjölþjóðlegu listumhverfi ásamt listrænni sýn galleristanna ýtir undir þá skoðun að drifkraftur þeirra sé listin sjálf en ekki viðskipti. Hvers vegna skyldi nokkur hafa áhuga á því að opna gallerí í Reykjavík og staðsetja gallerí utan við mótuð menningarleiðakerfi borga á borð við London og Kaupmannahöfn?

Á meðan efnahagslegt aðdráttarafl höfuðborga skiptir máli þá er samt sem áður sami hugsjónaeldurinn og bjartsýnin á bak við það að finna galleríinu stað og rekur einstaklinga til að stofna gallerí. Galleríin í Valby og á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn voru til dæmis ekki stofnuð til að auðga staðbundna borgarmenningu með list eða koma á fót hverfis listamiðstöðvum. Í þessum tilvikum ákváðu galleristar að taka á þessum stöðum til að leitast við að finna upp nýja tegund gallería sem selja nýja list.

Á þessum stöðum, fjarri ys og þys miðborgarinnar var hægt að gera myndlist og gallerí mun eftirsóknarverðari og framandlegri. Í Kaupmannahöfn gerðust þessar breytingar samhliða því sem átti sér stað í Austur-London um og eftir árið 2000. Hinsvegar var Reykjavík ekki nægilega stór til að hægt væri að byggja upp listræna ,,gagnmenningu‘‘ af sama tagi. Í Reykjavík reyndu galleristar að auka verðmæti myndlistar með því að nýta sér búðarglugga verslunargötunnar. Listfyirtæki í hliðargötum og verksmiðjubyggingum London og Kaupmannahafnar höfðu það hlutverk að auðga nýja list og gera hana framandi á meðan myndlistarfyrirtæki í jaðarborginni Reykjavík fylgdust að í miðborginni og við helstu verslunargötuna, Laugaveg.

Breytingar á gallerísvæðum í Kaupmannahöfn urðu að hluta til vegna samvinnu, þó hver galleristi fyrir sig hefði sínar persónulegu ástæður fyrir því að flytja á þessa staði og hver og einn túlkaði galleríið á sinn persónulega hátt. Þarna voru á ferðinni brautryðjendur og aðrir einstaklingar sem voru síður en svo bundnir af hugmyndinni um samfélag gallería. Robin Klassnik stofnandi og eigandi Matt´s Gallery lagði til dæmis mikið uppúr því að skilja sig frá öðrum galleríum og taka samfélag við listamann fram yfir galleríin.[1] Samt sem áður lagði hann óhjákvæmilega til hugmyndarinnar um East End gallerísenu.

Í Reykjavík var annað uppá teningnum. Pétur Arason nefnir litið samfélag þegar hann rak Sýningarrýmið önnur hæð á Laugavegi 37 frá 1992-1997 og vísar þar til Nýlistasafnsins sem var handan við hornið, við Vatnsstíg 3.[2] Galleristar í Reykjavík taka á staðsetningum með hagsýni að leiðarljósi, eða sinni eigin sögu og fjölskyldu sinnar eins og Edda Jónsdóttir í i8 gerði[3], eða með því að uppgötva möguleika sem fólgnir eru í staðsetningu og nafni gallerís eins og Þóra Þórisdóttir gerði varðandi Gallerí Hlemm. Í litlu samfélagi gallería voru galleristar stöðugt minntir á það hvað gerði þá og galleríin frábrugðin öðrum galleríum fremur en að líta á sig sem hluta af samfélagi gallería. Galleristarnir í Reykjavík voru og eru raunar enn keppinautar þar sem hver og einn tiheyrir og ræktar sinn eigin listheim. Í London og Kaupmannahöfn varð gallerísenan fréttnæm vegna samspils nýrrar listar og nýrrar staðsetningar. Þessar aðstæður voru ekki til staðar í Reykjavík. Borgin var ekki nægilega stór til að geta borið gallerísenu á sömu forsendum og stórborgirnar. Í hinum borgunum virðast galleristarnir hafa lagt meira til menningarlegrar tilvistar borganna en viðskiptalegrar. Að virkja list á ónumdum stöðum í borgunum var mikilvægur hlekkur í því að gera þetta mögulegt. Á þennan hátt, og þrátt fyrir meinta viðurkenningu stóðu galleristarnir utan þess sem aðrir bogarbúar aðhöfðust. Líkt og önnur verslunarfyrirtæki fluttu þessi gallerí inn í hverfi og þau komu og fóru; borgarhluti var endurskapaður fyrir tilstilli gallería og dag einn yrði hann nýttur á annan hátt.

Gallerí taka þátt í tímabundinni samræðu sem á sér stað í síkviku menningarlandslagi borgarinnar. Eins og önnur athafnasemi eru galleríin þátttakendur í því umhverfi sem þau eru staðsett í. Max Wigram eigandi MW Projects telur að galleríin hagnýti sér einkenni borgarlífsins til að skapa flókin, lífleg félagsleg samskipti.[4] Af þessum ástæðum verður raunveruleg samvinna möguleg. Dæmi um þetta eru samræmd opnunarpartí á Íslandsbryggju og þverborgarlegt verkefni Íslandsbryggju galleristans Nils Stærk, Yours Truly, í samvinnu við fyrirtæki í miðborg Kaupmannahafnar árið 2003. Í East End var F-EST þróaðasta gallerísamvinnan og hún var möguleg vegna hins óvenjulega listræna auðs sem byggst hafði upp í hverfinu síðan á 7. áratugnum.

Kaupmannahöfn og Reykjavík hafði ekki tekist að líkja eftir þessu. Ólíkt hinum borgunum gætir nokkuð meiri innilokunarkenndar í Reykjavík. Í þessu umhverfi hafa galleristar ekki sömu skapandi möguleikana og eru stöðugt uppteknir af því hvað hin glleríin eru að gera. Samt sem áður hafa þau á sinn hátt samið um sinn stað innan menningarlegs leiðakerfis borgarinnar og þeirrar starfsemi sem þar fer fram þó stundum sé það aðeins um stundarsakir. Sem vanþróaður þéttbýliskjarni þar til eftir seinni heimsstyrjöld var Reykjavík yngsta borgin sem var rannsökuð og smæðin átti þátt í menningarlegri einagrun og mótun staðbundins listmarkaðar.

Rannsóknin sýnir að staðsetningar galleríanna hafði engin áhrif á það hvort einhver tiltekin tegund myndlistar er framleidd í eða fyrir galleríið. Hugmynda- og „ready made“ list ásamt innsetningum höfðu öðlast nokkurn sess í East End áður en galleríin komu þangað þar sem hverfið var þegar orðið að listamanna gettói og hafði svo verið frá því á 7. áratugi 20. aldar þegar listamenn byrjuðu að leigja þar ódýrar vinnustofur. Í Kaupmannahöfn voru hugmyndalist, „ready mades“ og innsetningar flutt út á Íslandsbryggju og til Valby vegna þess að það var sú list sem galleristunum líkaði við og hún passaði ekki inní fremur gamaldags galleríin við Bredgade þar sem nýjasta nýtt var ennþá Nýja málverkið. Miðborg Reykjavíkur bauð upp á fremur íhaldsama og aðgengilega list þegar litið er til Gallerís Foldar þó vissulega hefði verið mikið um framsækna list í i8, Einn Einn, Gallerí Hlemmi og Sýningarrýminu önnur hæð en hugmyndalist og „ready mades“ höfðu verið á ferðinni síðan á sjöunda áratuginum en án nokkurrar markaðshlutdeildar þegar rannsóknin fór fram og það sama á við um innsetningar.

Tengsl East End við listframleiðslu er einstök á meðal borganna sem rannsakaðar voru og eykur það enn á mikilvægi þess borgarhluta. East End varð mikilvæg uppspretta sköpunarkrafts og endurnýjunar vegna langrar sögu menningarlegrar fjölbreytni og mjög mikils sýnileika listamanna og gallería. Árið 2000 varð gallerísprenging –þensla langt umfram þá stöðugu fjölgun gallería sem hafði átt sér stað í London á undangengnum áratugum. Í þessu skapandi umhverfi spruttu upp gallerí sem viðbrögð við öðrum galleríum á alveg sérstakan hátt m.a. hvað varðar það að sýna það ferskasta og frumlegasta á framandi slóðum.

Gallerísvæðin í Kaupmannahön urðu lífleg og þekkjanleg samfélög vegna þess að brautryðjendur völdu ólíklegustu staðina í borginni. Bæði þar og í London drógust galleristar og listamenn að bóhemískum möguleikum ódýrs leiguhúsnæðis í iðnaðarhverfum. Hinsvegar gengu galleristar í East End inn á átakasvæði sem þegar var mótað og gátu beðið eftir viðskiptavinum í krafti þess að allra leiðir liggja til London. Framsæknir galleristar í Kaupmannahöfn og Reykjavík urðu hinsvegar að leggja meira á sig til að finna viðskiptavini, m.a. með því að sækja listkaupstefnur erlendis.

Þegar farið er um COLORE borgirnar og þau listrými sem þar er að finna skynjar fólk að það fylgir fastmótuðum menningarleiðum sem varðaðar eru söfnum, galleríum og öðrum ámóta stöðum. Það er hinsvegar aðeins þegar gallerí flytja frá mótuðum borgarhverfum að óvenjulegar brautir verða til. Í þessum nýju einstaklingsbundnu og lýðræðislegu galleríhverfum höfuðborganna geta listneytendur búið til persónulegar leiðir og byggt upp eigin tengsl. Þessi sköpunarkraftur er sérstaklega áberandi í hinni færanlegu galleríinnsetningu arkitektsins Angela Diamandidou, EC Art vegna þess að hún býr til nýjar leiðir fyrir listvini með því að opna gallerí á sífellt nýjum stöðum auk þess að leggja sitt af mörkum til endurnýjunar á borgarlandslaginu. Á þennan hátt sér hún og bendir á möguleika borgarlandslagsins frá nýju sjónarhorni.

En írónían í þessu er ef til vill sú að framleiðsla þessara listrýma – sérstaklega í London og Kaupmannahöfn – gefur einnig til kynna löngun galleristanna til að lágmarka of náið samband við almenning og aðra sem ekki koma í sérstökum listrænum tilgangi eða til að kaupa verk. Þeir sem heimsóttu nýju galleríhverfin í þessum tveimur borgum uppgötvuðu aldrei mörg þessara gallería vegna þess að þau höfðu ekki búðarglugga sem sneru út að götunni. Á þennan hátt verða gallerí einkaheimur innvígðra og óskiljanleg öllum öðrum og galleristarnir geta forðast óvelkomna umferð gesta og þess í stað tryggt heimsóknir gesta sem hafa raunverulegan áhuga á því sem galleríið hefur að bjóða. Í þessu samhengi fór lítið fyrir galleríunum á Íslandsbryggju og í Valby vegna þess að þau voru í bakgörðum og á efri hæðum gamalla vöruhúsa. Hérna er sérstaklega átt við Gimm and EisNils Stærk, og Gallery Nicolai Wallner á Íslansdsbryggju og gallerí Christian Chapelle, Mogadishni í Valby. Af Íslandsbryggju galleríunum var það einungis Gallery Christina Wilson, sem var á jarðhæð með stórum innsýnis glugga þó hann sneri að bakgarði. Hliðargötuímyndin er einnig afgerandi fyrir London þó hægt væri að skoða sýningar í Vertigo, de Souza and Mummery í gegnum glugga á jarðhæð þegar viðtölin fóru fram vorið 2003. Í Reykjavík var hinsvegar lögð áhersla á að galleríin væru sýnileg frá götunni að undanskyldu galleríi Péturs Arasonar, Annarri hæð.

Sýnileiki gallería þar sem þau eru staðsett gefur til kynna þróunarstig listmarkaðarins í COLORE borgunum. Því þróaðri og stærri sem borgin er þeim mun auðveldara er að færa markaðinn fyrir framsækna list frá viðurkenndum miðlægum gallerí götum og gera þannig sögu gallería einnig að sögu sérstakra nýrra listheima. Því er hér einnig um að ræða tilfærslu frá aðgengilegri miðbæjarmenningu til iðnvæddrar úthverfamenningar þar sem hliðrunin gerir list aðgengilega og áhugaverða fyrir þá sem eru inni en einnig framandi og óaðgengilega þeim sem eru utan við hópinn sem tilheyrir hringnum. Dyrnar að þessum földu rýmum eru tákn fyrir afgerandi sálfræðilegan þröskuld og það þarf dirfsku til að ganga inn. Hinsvegar er gesturinn velkominn þegar hann hefur tekist á við dyrnar og jafnvel hringt dyrabjöllu til að komast inn. Það er flókin félagsleg landafræði að verki milli ytra rýmisins og staðsetningar þess innan borgarmarkanna og þessa einkalega en vinsamlega innri gallerí heims. Í þessu einkennilega borgarumhverfi geta þeir sem það vilja orðið hluti af galleríumhverfinu. Þeir þurfa ekki annað en að opna dyrnar og ganga inn í þennan heim. Þeir sem halda sig utan dyra eru ekki með: Þeir eru utangarðs. Hlutaðeigandi hafa lýðræðislegt val um að taka nýja stefnu eða sleppa því.

Myndatexti með einkennismynd:
Christian Chapelle, director of the gallery The Leisure Club Mogadishni í Kaupmannahöfn.

,,Opnunarsýning Mogadishni sem sölugallerí í nóvember 2001 kallaðist ,,Treystir þú galleristanum þínum’’. Á sýningunni var mynd af honum með blómum skreytt balaklava á höfðinu. – háðsk yfirlýsing um það hvort nokkur listamaður gæti treyst honum til að annast sölu á verkum þeirra. Myndin sýnir líka á fyndinn hátt þá spennu sem oft getur orðið milli listamanna og galleristans þeirra.’’

Greinin er byggð á doktorsritgerð höfundarins.

Eftir Dr. Magnús Gestsson

  1. Helena Sundström http://www.mogadishni.com/2003/about/sundstrom.html (Sótt 07/02/2006)
  2. [1] Viðtal höfundar við Robin Klassnik 20. Maí 2003. Þegar viðtalið fór fram var galleríið eins langt frá gallerí senunni og hugsast gat, á Copperfield Road 42-44, E3 4RR, í byggingu sem einnig hýsti vinnustofur listamanna.
  3. [2] Viðtal höfundar við Pétur Arason, 21, mars 2003.
  4. [3] Viðtal höfundar við Eddu Jónsdóttur, 20. mars 2003. Í viðtalinu segir Edda frá því að hún hafi verið alin upp í húsi sem stóð á lóðinni á bak við galleríið á Klapparstíg 33.
  5. [4] Viðtal höfundar við Max Wigram, 22. maí 2003.

List og listmarkaðir I. Hluti

List og listmarkaðir I. Hluti

List og listmarkaðir I. Hluti

London, Kaupmannahöfn og Reykjavík

Doktorsritgerð mín Commercial Galleries in Copenhagen, London and Reykjavík: a comparative study of the formations, contexts and interactions of galleries founded between 1985 and 2002, er samanburðar rannsókn á samhengi og samskiptaferlum gallerista og sölu gallería í Austur-London (East End), Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn og Reykjavík á ofangreindu árabili. Hvatinn að rannsókninni var velgengni ,,YBA‘‘ hópsins á Bretlandi og skyndileg sprenging í fjölda samtímalista gallería í Austur-London. Þessi umskipti orsökuðu bylgjuhreyfingar um gjörvallan listheiminn og skyndilegum sýnileika sölugallería og gallerista. Þetta efni hafði að mestu verið látið afskiptalaust af menningar- og safnafræðingum og skapaði því sóknarfæri fyrir rannsókn sem myndi leggja grunn að nýjum skilningi á þessum mikilvægu menningarsrofnunum.

Rannsóknir og útgefnar bækur um gallerista og gallerí eru fjölbreyttar og innihalda bæði almenna og sérhæfða sýn á gallerista sem óþarfa meðalmenni sem rúin eru sköpunarhæfileikum. Í margra augum eru þeir ekkert annað en sérhæfðar búðarlokur í þjónustu yfirstéttarinnar sem hafa ómerkilegt stuðningshlutverk. Sjóaðri gagnrýnendur hafa litið á gallerista sem feimulegt samsærisfólk og siðlausar afætur: nauðsynlega en ógeðfelda kapítalista sem notfæra sér söluvænleika myndlistar fremur en að vera merki um frumkvöðlastarf og sköpunarhæfileika. Í gagnrýnu mati sínu á galleristum hafa bæði listamenn og fræðimenn haft tilhneigingu til að líta á sölugallerí á grundvelli markaðsmisnotkunar og hagfræði. Af þeim sökum eru galleristar faldir leikarar í umræðum um listheima sem byggðir eru upp af rétthærri þátttakendum á borð við listamenn, sýningarstjóra, fræðimenn, gagnrýnendur, safnara og fleiri. Jafnvel í almennu lesefni um stefnumál stjórnvalda, æsandi list, samsæriskenningar, hátt verð, smygl og falsanir ber lítið á galleristum. Að þessu gefnu er þessari rannsókn ætlað að líta á þessa listheima frá fersku sjónarhorni og kynna til sögunnar dýpri lestur á galleristanum.

Mikilvægasta uppgötvun þessarar rannsóknar hvað þetta varðar er að benda á að galleristar líta á fyrirtæki sín á afar listrænum forsendum: þeir líta á gallerí sín líkt og listamaður á eigin innsetningu. Á fremur óvæntan hátt skortir gallerista oft viðskiptalega innsýn, en í stað þess fylgja þeir sinni eigin skapandi listrænu sýn. Þeir eiga ekki einvörðungu þá ósk heitasta að gallerígestir kaupi list heldur einnig að þeir sjái listrænar innsetningar þeirra; galleríin sem myndverk í sjálfum sér. Þessi gallerí gera ekki einfalda og yfirborðslega kröfu um stíl því margir galleristar hafa djúpa tilfinningu fyrir því sem þeir gera. Að hluta til á þetta rætur að rekja til þátttöku þeirra í framvarðarsveit listræns frumkvöðlastarfs og þeirri sköpunargáfu sem fólgin er í því að bera kennsl á listrænar nýungar. Í heimi sem er samhliða listrænum árangri listamanna eru galleristar að virkja list í samfélaginu og leggja sinn skerf til almennrar viðurkenningar á sjónlistum. Þeir eru gagnrýnir á listamenn og tengsl þeirra eru byggð á gagnkvæmu flæði fremur en að galleristinn sé afæta.

Í rannsókninni er leitast við komast handan ofur-einföldunar á galleristum með samanburðar greiningu á galleristum í mis stórum og mis einanguruðum evrópskum borgum og á ólíkum stigum fjölþjóðlegra samskipta. Í og á milli þessara samhangandi þátta hefur þessi rannsókn leitað eftir fíngerðari frásögn af sambýli listamanna og gallerista þar sem báðir aðilar deila með sér hugmyndinni um nýungar. Hér eru á ferðinni – andstætt kenningum Bourdieus sem lagði mikið til viðvarandi vantrausts á galleristum[1] – sameiginlegur áhugi á gagnkvæmum stuðningi og sköpunarkrafti gallerista og listaamanna.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós breytilegt mikilvægi staðbundinnar, þjóðlegrar og alþjóðlegrar framleiðslu og samskipti samkvæmt aljóðlegri stöðu staðbundins markaðar og raunar stærð og mikilvægi hlutaðeigandi borgar og þjóðar. Á þessuum grundvelli er byggð sú hugmynd að rétt sé að nota fleirtölumyndina list heimar. Rannsóknin hefur því stigið inn í þessa ólíku listheima í þeim tilgangi að staðsetja og skilja gallerista á grundvelli þess að greina viðtöl við þá.

Sýn galleristans
Á sama tíma og ritgerðinni er ætlað að gefa skýrari mynd af galleristanum er ljóst að galleristar vinna að því að auka sýnileika listamanna fremur en sinn eigin sýnileika. Þannig hafa galleristar lagt fram mikilvægan skerf til menningarumhverfis sem snýst um listamenn. Þetta er mikilvægur þáttur í listrænni sýn gallerista; fyrir utan það að skapa sínar eigin gallerí innsetningar, snýst sýn þeirra um að framleiða listamenn og kynna þá eins víða og mögulegt er.

Þessi viðskiptalegu og sýningarstjóralegu áhugamál eru í huga danska galleristans Nicholai Wallner sameining listrænnar sköpunar og skapandi viðskipta.[2] Og, líkt og East-End galleristinn Andrew Mummery minnir á þá búa listamennirnir til listina sem sýnd er í galleríinu[3] sem að auki sýnir að galleríið er afkvæmi skapandi samruna sem byggir á hæfileikum galleristans til að byggja upp samskiptanet innan galleríheimsins, á listkaupstefnum og í fjölmiðlum. Á þennan hátt eru gallerí útkoman úr skapandi samruna.

Hugmynd Wallners um ,,skapandi viðskipti‘‘ virðist vera rétt þar sem galleristarnir sem rætt var við virðast ekki hafa verið fyllilega meðvitaðir um stöðu listmarkaðarins þegar þeir stofnuðu gallerí sín. Þó nokkrir galleristanna muni eftir kreppu eða lifnandi markaði um það leyti sem þeir stofnuðu galleríin hafði sú vitneskja engin áhrif á ákvarðanir um stofnun galleríanna þeirra. Þrátt fyrir þetta hafa nokkur galleríana náð að vaxa og dafna og orðið sýnileg í fjölþjóðlegu samhengi. Til að ná þessum árangri hljóta galleristarnir að hafa haft einhvern skilning á því hvernig listmarkaðurinn virkar, jafnvel þó ekki væri nema óbeint. Meirihluti galleristanna á Íslandsbryggju[4] í Kaupmannahöfn og Edda Jósdóttir[5] í i8 fundu fljótt þörf fyrir það að byggja upp markað erlendis og kynna alþjóðlegan hóp listamanna. Þatta var vegna þess að staðbundni markaðurinn myndi aldrei hafa burði til að standa undir framtíðar markmiðum þeirra. Þessar breytingar ýta undir þá sýn að persónuleg löngun og og sköpunarkraftur eru drifkraftur farsæls gallerís fremur en nákvæm markaðskönnun og viðskiptaáætlun. Eini galleristinn sem nefndi viðskiptaáætlun var Þóra Þórisdóttir, en það var þegar hún sá frammá að þurfa að loka og hún neytti allra bragða til að finna fjárhagslegan bakhjarl og forða þannig galleríinu frá lokun.[6]

Það liggur í hlutarins eðli að mikilvægur hluti þessa skapandi verkefnis er framboð á framsækinni list og listamönnum. Galleristar þarfnast þessa í viðleitni sinni til skilja sig frá öðrum og skapa sér listræna sérstöðu og á þennan hátt að marka sér rými í staðbundnum, þjóðlegum og alþjóðlegum listheimum. Með þessu virðast þeir búa yfir bjartsýni sem jaðrar við að vera einfeldningsleg og blind.

Hvað varðar sýn, þá er ekki hægt að skilja galleríin einungis í efnahagslegu tilliti. Í rauninni virðist sannari lestur á löngunum þessara gallerista vera fólgin í listrænum sköpunarkrafti. Þeir búa yfir öllum draumórum listamanna þótt flestir beini þessum frumkrafti í kynningar og uppbyggingu tengslanets. Með þessum aðferðum telja þeir sig hafa grundvallar hlutverk varðandi það að auka skilning og þekkingu á list.

Greinin er byggð á doktorsritgerð höfundarins.

Mynd frá London Art Fair 2016, fengin að láni frá blouinartinfo.com

Eftir Dr. Magnús Gestsson

  1. Pierre Bourdieu, The Field of Cultural Production: Essays on Art and Literature. Ritstjórn og ritun inngangs Randal Johnson (Cambridge: Polity Press, 1993), bls. 75.
  2. Viðtal höfundar við Nicholai Wallner 10. apríl 2003.
  3. Viðtal höfundar við Andrew Mummery 22. maí 2003
  4. Um og uppúr árinu 2000 varð til hópur gallería á Íslandsbryggju sem flúðu miðborg Kaupmannahafnar og fundu ódýrt húsnæði utan hinnar hefðbundnu miðju listheimsins og ýttu þannig undir hugmyndina um að það væru margir listheimar.
  5. Viðtal höfundar við Eddu Jónsdóttur 20. mars 2003.
  6. Viðtal höfundar við Þóru Þórisdóttur 18. mars 2003.

UA-76827897-1