Fáránleg atvik og ómögulegar aðstæður

Fáránleg atvik og ómögulegar aðstæður

Fáránleg atvik og ómögulegar aðstæður

Heimir Björgúlfsson (f. 1975) sýnir um þessar mundir ný verk í sýningarsal Tveggja Hrafna á Baldursgötu. Á sýningunni sem ber titilinn Aldrei aftur eða er of seint að skipta um skoðun? Þar er að finna litrík, fígúratíf og skemmtileg málverk ásamt minni klippimyndum en Heimir hefur fengist við klippimyndir, innsetningar og skúlptúra ásamt málverkinu. Eftir að hafa stúderað raftónlist og verið virkur þátttakandi í tilraunakenndri tónlist á tíunda áratug síðustu aldar fór Heimir í myndlistarnám í Hollandi en er í dag búsettur í Los Angeles. Hann hefur sýnt verk sín víða, bæði hér heima og erlendis. Árið 2012 var hann tilnefndur til hinna viðurkenndu Carnegie Art verðlauna og á sýningunni í Tveimur Hröfnum sýnir hann stór málverk sem vekja eftirtekt þeirra sem eiga leið hjá. artzine sló á þráðinn til Heimis í Los Angeles og spurði hann út í sýninguna, málverkið og myndlistina.

Hver var kveikjan að sýningunni í Tveimur Hröfnum?

Ég vildi fyrst og fremst gera málverkasýningu, þar sem ég myndi sýna blöndu af mismunandi málverkum sem reyndu að snerta á þeim viðfangsefnum sem ég er að vinna með. Málverk unnin á ákveðnu tímabili sem tengdust öll en væru jafnframt ólík. Þegar ég svo var að vinna að sýningunni rann það upp fyrir mér að það yrðu að fylgja nokkur ljósmynda klippimyndaverk með. Þú færð öðruvísi sýn á málverkin við hlið klippimyndanna og þau gera hvert annað áhugaverðari að mínu mati í þessu ákveðna samhengi sem þau eru sýnd í. Kannski vildi ég vinna málverkasýningu, því ég hef aldrei með beinum hætti litið á mig sem listmálara, að mála málverk er einfaldlega einn hluti af því sem ég geri ásamt því að ljósmynda og teikna, gera klippimyndir eða skúlptúra. Þetta var því svolítil áskorun fyrir sjálfan mig sem ég leitaði eftir.

Hvað varð til þess að þú yfirgafst tónlistina og snérir þér að myndlist?

Þróunin var hreinlega sú að myndlistin tók yfir. Mér fannst ég standa á tímamótum þegar ég var í meistaranáminu. Ég gat ekki sinnt öllu því sem ég kannski vildi, eins vel og ég vildi. Ég hafði orðið minni og minni tíma til að vinna með elektróníska tónlist eða hljóð, því ég gaf mér minni og minni tíma til þess. Ég tók þá ákvörðun að lokum, eftir að átta mig á því að myndlistin myndi krefjast alls þess tíma sem ég hefði, ef ég ætlaði virkilega að sinna henni vel. Þetta gerðist ekki á einni nóttu, ég myndi segja þetta hafi tekið nokkur ár að þróast, og var að lokum klárlega ákvörðun. Samt sem áður hef aðeins fengist við hljóðvinnslu aftur undanfarið. Ég hef verið að vinna með umhverfisupptökur sem ég hef verið að gera hér í Kaliforníu og á Íslandi og það er að koma út nýtt hljóðverk eftir mig á safnútgáfu hér í Bandaríkjunum í sumar, fyrsta nýja hljóðverkið í 13 ár. Þó svo að ég muni ekki vinna eins þétt og áður í tónlist þá er greinilega einhver smá fiðringur eftir í manni í koma frá sér skrítnu djöfulsins suði og ískri eins og einhver sagði um tónlistina mína hér um árið.

Umhverfið og náttúran, dýr og fuglar eru sýnileg í verkum þínum og þú talar um að þú sért að vinna með sambandið milli manns og náttúru? Á hvaða hátt og hvernig myndir þú útskýra það frekar?

Öll mín verk eru gerð til þess að varpa fram spurningum um samband og samskipti mannsins við umhverfið og náttúruna, samband þitt við umhverfið þitt, míns sjálfs og umhverfi míns. Ég vil varpa fram spurningum um hvernig við sjáum og upplifum umhverfi okkar á ólíkan hátt eftir því hver við erum, og hvaðan við komum. Við getum horft á sama landslagið en séð það gerólíkt. Hvernig við manneskjurnar leggjum undir okkur náttúruna og hvernig okkur tekst eða mistekst. Hvernig eru viðbrögðin við því sem við gerum? Eru þau í samræmi við, eða í mótsögn við bakgrunn okkar, menningu, eða persónulegan karakter? Hversu langt göngum við í einhverskonar mannlegum hamagangi á umhverfinu?

Ég hef áhuga á því hvernig ákveðnar kringumstæður knýja fram öðruvísi hegðun en búast má við, þegar eitthvað sem má kallast skrítið gerist. Slíkt skapar einnig möguleika á persónulegum sögum innan myndlistarverkana. Þetta kemur fram í gegnum mismunandi miðla en kveikjan að hverju verki er alltaf byggð á klippimynda hugmyndum, ómögulegum, og helst örlítið fáránlegum atvikum og aðstæðum.

Ég er með einhverskonar þráhyggju gagnvart fuglum. Þegar ég var strákur vildi ég verða fuglafræðingur og ég var alltaf að teikna dýr. Ég bjó til ljósritaðar dýrabækur úr teikningum eftir mig og seldi í hverfinu. Svo ratar þetta viðfangsefni aftur til mín mörgun árum seinna í framhaldsnámi í Hollandi þegar ég fór að gera það sem ég kallaði alvöru teikningar aftur, ekki bara skissur, og svo hefur þetta haldið áfram að þróast út í málverk og hin ýmsu dýr. Ég fæ dálitla dellu fyrir einhverju dýri og er kannski með refi eða apa á heilanum í einhvern tíma. Þetta er auðvitað allt myndlíkingarmál við fólk, og hugsanlega fyrst og fremst mig sjálfan í verkunum. Umhverfið mitt, þar sem ég bý, hef búið og ferðast er það sem ég nota sem efnivið í verkin mín.

Eru þetta þá litlar örsögur, hugleiðingar, lítil tónverk eða jafnvel sjálfsmyndir?

Já. Verkin hjá mér hafa orðið persónulegri, og um leið kannski ljóðrænni ef ég mætti svo að orði komast. Ég hef orðið meiri áhuga á að varpa fram óhlutlausum spurningum, sem ég vinn upp úr persónulegum lífsreynslum og sérkennum staða. Því sem er hugsanlega ekki er tekið eftir, eitthvað sem ég sé og vil benda á. Eftir að ég flutti til Kaliforníu fékk ég líka meiri áhuga á sögulegu gildi umhverfisins, kannski vegna þess hversu stutt er síðan vesturfararnir tóku yfir Kaliforníu og hvernig sú saga er dæmigerð fyrir allt það óhugnarlega við mannlega hegðun. Ég vil að áhorfandi myndi sín tengsl við verk eftir mig og að það veki upp spurningar sem þú hugsanlega hafðir ekki áður. Ef mér tekst það þá hef ég náð vissu takmarki með verkinu, og ekki er það nú verra ef áhorfandi kann að meta þær spurningar, þá hef ég náð einhverskonar árangri með verkinu.

Titillinn Aldrei aftur eða er of seint að skipta um skoðun er heldur óhefðbundinn. Hann er á sama tíma fullyrðing og spurning og vekur forvitni. Getur þú útskýrt hann nánar?

Ég hef nú aldrei reynt að vera með einhverjar fullyrðingar þannig séð í titlunum mínum, heldur vil ég vekja fólk til umhugsunar. Ég var að spá í þessu mannlega eðli okkar, að vera tvístígandi á leiðinni í sjálfheldu, neita að horfast í augu við staðreyndir og halda að við getum snúið við áður en það verður of seint, í hvaða kringumstæðum sem er. Svo finnur þú þig í aðstæðum þar sem það er ekki lengur hægt að snúa við.

Titlar verkanna eru einnig óhefðbundnir og gefa skemmtilegar, en stundum óljósar vísbendingar um hvað þú er að hugsa við gerð verkanna. Titlar eins og Hefur þú einhvern tíma beðið mann að taka þinn stað við enda borðsins? eða Veldi rísa og veldi falla. Það má lesa bæði húmor og heimspeki úr titlunum. Leggur þú mikla áherslu á titla og eru þeir stór hluti af verkinu?

Ég legg yfirleitt mikla áherslu á titlana, þeir eru oftast stór hluti af hverju verki fyrir sig þar sem ég næ að varpa öðru sjónarhorni á verkið. Þeir eru punkturinn yfir i-ið á hverju verki, þetta sem er auka en ómissandi. Bara eins og að fara í sparifötin og vera þá í almennilegum skóm líka.

Það hafa verið heilmiklar hugleiðingar um málverkið á undanförnum árum og áratugum, klassísk málverk, nýja málverkið, málverkið sem slapp út úr rammanum o.s.frv. Hver er þín skoðun eða upplifun á stöðu málverksins í samtíma?

Ég er nú enginn sérfræðingur í afstöðu samtímans á málverk, en listaverk hvort sem það er málverk eða ekki, er speglun samtíma þess. Það er allt hægt í dag ekki satt? Hvort sem þú getur málað eða ekki þá er hægt að búa til málverk á alla máta, og það sem kallast málverk í dag er kannski sagt á breiðari grundvelli en áður. En fyrir mér snýst þetta fyrst og fremst um ákvarðanir. Hvað vill fólk kalla málverk og hvaða gildi viltu að það hafi? Málverk er listform sem alltaf á eftir að vera til. Fyrir mér er gott málverk einfaldlega gott málverk.

Við finnum að sjálfsögðu ekki upp hjólið aftur og aftur, en sumum er sama um það og finnst allt gamaldags betra. Það er eins og með bókmenntir eða tónlist, orsakir og afleiðingar af samtímanum móta skoðanir okkar og tilfinningar gagnvart þeim. Ég tel það vera skyldu mína sem myndlistarmanns að ýta því sem ég er að gera áfram, þú ert í raun alltaf að stinga tánni niður í leðju og um leið og þú finnur botninn þá fer næsta tá fram. Það sem ég kann að meta í listaverki er ákveðin persónuleiki, einhver nýsköpun sem aðeins listamaðurinn er fær um, þ.e. þú ert ekki trésmiður þótt þú eigir hamar, en í öllum bænum reyndu eins og þú getur að nota hamarinn á þinn persónulega hátt.

Þú ert Íslendingur, lærðir tónlist og myndlist í Hollandi og býrð í Los Angeles. Hvað finnst þér hafa mótað þig mest sem listamann?

Ég myndi segja að ég hafi mótast mjög í Hollandi á sínum tíma. Ég varð meðvitaður um hversu íslenskur ég var þegar ég fór að vinna í umhverfi eins og í Amsterdam. Í Hollandi er hér um bil allt umhverfið manngert, ég meina stór hluti landsins er undir sjávarmáli. Það er algjör andstæða við Ísland og hafði mikil áhrif á hvernig myndlist mín þróaðist. Í Reykjavík gat ég farið aðeins út fyrir bæinn í algera auðn og því tók ég ekki lengur sem sjálsögðum hlut því í Hollandi var það ómögulegt. Jafnvel skógarnir eru margir manngerðir í þeim tilgangi að vera svokallaðir villtir skógar. Þessi mótsögn sem umhverfið var settist í undirmeðvitundina. Þegar ég svo kem til Kaliforníu fannst mér umhverfið bjóða upp á það besta úr báðum heimum. Þú kemst í algera auðn hér og ekkert, þótt það sé aðeins lengra í það.

Mikið af umhverfinu í Suður Kaliforníu er hrjótt, óbyggilegt og fallegt. Það á það sameiginlegt með íslenskri náttúru, þótt það sé algerlega hinn póllinn á því. Litirnir, hitinn og lyktin eru andstæðan við Ísland. Hér er einnig búið að skipuleggja og beisla náttúruna eins mikið og manneskjan mögulega getur. Ég varð til dæmis strax mjög heillaður af Los Angeles ánni, sem er steinsteyptur farvegur í gegnum alla borgina með smá sprænu flesta daga ársins, en þegar það rignir eitthvað af ráði er þetta ógnandi, kröftug og vatnsmikil á.

Ég sæki í að láta staði hafa áhrif á mig, ég eyddi mikum tíma í að flakka um alla Los Angeles borg og nágrenni þegar ég kom hingað, og hversu alþjóðlegt en um leið óevrópskt bæði samfélagið og umhverfið er hefur óneitanlega haft mikil áhrif á bæði mig og myndlist mína. Þegar ég byrjaði að sýna verk eftir mig á fyrstu sýningunum mínum, þá fékk ég þá gagnrýni í Hollandi að verkin væru mjög íslensk, svo sýndi ég kannski alls ekki ósvipuð verk á Íslandi og þar fannst fólki verkin vera mjög hollensk. Það er ekki mitt að segja, verkin mín eru það sem þau eru, en það er ekki spurning að það hefur haft mjög góð áhrif á myndlist mína að vinna hér í Los Angeles eftir þessi mótunarár í Hollandi. Ég myndi án efa vera að gera töluvert öðruvísi myndlist hefði ég endað annars staðar.

Að lokum hvernig er að koma til Íslands og sýna fremur en að sýna erlendis?

Það er alltaf frábært að koma til Íslands að halda sýningar, það er ákveðin nostalgía á svo margan hátt. Mér finnst persónulega mjög mikilvægt að halda tengslum og sýna á Íslandi, það er eitthvað sem auðgar mig sem myndlistarmann og hefur ekkert nema jákvæð áhrif á þróun þess sem ég er að gera.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Tveir hrafnar

Vefsíða. www.bjorgulfsson.com

Að gefa í skyn en segja ekki allt

Að gefa í skyn en segja ekki allt

Að gefa í skyn en segja ekki allt

Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari og myndlistarmaður er fædd árið 1964 á Ísafirði. Katrín lauk BA gráðu í frönsku við Háskóla Íslands 1988. Hún stundaði nám í ljósmyndun við Brevard Community Collage á árunum 1988-1990 og lauk BFA prófi frá Art Institute í Boston árið 1993. Katrín hefur haldið margar einkasýningar hérlendis og erlendis og er ein af stofnendum FÍSL, félags íslenskra samtímaljósmyndara. Nýverið hlaut Katrín EIKON Award (45+) verðlaunin. Verðlaunin voru veitt í Vínarborg og verndari verðlaunanna er goðsögnin og femínistinn Valie Export.

Blaðamaður artzine kíkti í heimsókn til Katrínar og spurði hana út í myndlistina, EIKON verðlaunin og stöðu konunnar í samtímaljósmyndun.

Af hverju myndlist og hvað varð til þess að ljósmyndin varð þinn miðill í myndlistinni?

Ég var í Háskóla Íslands að læra frönsku og útskrifaðist þaðan þegar ég var 23 ára. Þann vetur fór ég á ljósmyndanámskeið í Iðnskólanum þar sem þessi mikli áhugi á ljósmyndun vaknaði. Ég keypti mér myndavél og fór að taka ljósmyndir á sama tíma og ég var að klára BA ritgerðina í frönskunni. Ég fór síðan til Flórída í hefðbundið ljósmyndanám og útskrifast þaðan árið 1990. Þetta var frábært nám og þar var lagt mikið upp úr tækni. Deildarstjórinn var með meistaragráðu í myndlist frá Art Institute í Chicago. Hann hafði framúrstefnulega sýn og við nutum góðs af því. Að því loknu sótti ég um í Art Institute of Boston þar sem var lögð mikil áhersla á myndlist. Ég valdi ljósmyndun sem aðalfag en ég þurfti að taka skylduáfanga eins og módelteikningu, vídeókvikmyndagerð, ljósmyndafræði og mikla listasögu sem mér fannst mjög skemmtileg.

Þegar ég útskrifaðist hafði ég mikinn áhuga á tískuljósmyndun, en það var ekki vinsælt meðal helstu kennara minna. Þeim fannst þetta yfirborðskenndur heimur og voru alltaf að vara mig við neikvæðu hliðunum. Ég fór til Parísar í eitt sumar og vann sem tískuljósmyndari.

EIKON tímaritið með verkinu Horfið Sumar 3 á forsíðunni.

Ég hafði mikinn áhuga á tímaritum – listrænum tískutímaritum eins og Interview – og mér fannst þetta spennandi heimur. Í myndlist er maður svo mikið einn en í tískuljósmyndun er maður aldrei einn. Þar er teymisvinna sem getur verið mjög gefandi og skemmtileg. Í Boston áttaði ég mig þó fljótt á því að að þessi heimur snérist að miklu leyti um að selja, í stað þess að snúast um sköpunina. Fólk gat verið mjög dónalegt og margar af fyrirsætunum veikar af átröskun. Þessi heimur var að mörgu leyti erfiður eins og búið var að segja mér, en ég hafði áhuga á að búa til minn eigin skapandi heim og fór til Danmerkur þar sem ég vann sem tískuljósmyndari í rúm tvö ár. Það er síðan fljótlega eftir að ég flyt til New York árið 1999 að myndlistin tekur yfir. Serían Mórar er unnin á þeim tíma og ég sýndi þau verk á mörgum stöðum í Bandaríkjunum.

Það hafa verið gefin út mörg bókverk með ljósmyndum þínum þar sem þú ert að vinna með öðrum listamönnum. Eru bókverkin mikilvægur hluti af myndlistarferlinu?

Sýning er eitt og bókverk annað. Það er gaman að vinna með grafískum hönnuðum við gerð bókverka, vinna við að velja úr og raða saman, og það er í raun tenging við tímaritaáhugann. Það er auðvelt að ferðast með bækur og senda þær út í heim. Þetta er falleg og skemmtileg leið til að koma ljósmyndunum á framfæri. Ég hef verið heppin með dreifingaraðila.

Þrjár bækur Katrínar sem Crymogea hefur gefið út.

Crymogea útgáfa hefur fengið alþjóðlega dreifingu og þrjár bækur, Equivocal, Double Happiness og Vanished Summer, eru gefnar út af þeim. Ég er með enska titla á öllum verkunum og það er meðvitað til þess að ná til breiðari hóps. Bækurnar eru seldar og sýndar út um allan heim.

Hvað er það sem rekur þig áfram í listsköpuninni?

Það er þörfin fyrir að segja sögu og fá fólk til að ímynda sér hvað sé verið að fjalla um. Ég gef eitthvað í skyn en segi ekki allt. Áhorfandinn getur síðan fyllt í eyðurnar og búið til sína eigin sögu. Ég hef aðallega verið fyrir áhrifum frá kvikmyndum og bókmenntum. Leikstjórinn David Lynch hefur haft mikil áhrif á mig, alveg síðan ég sá fyrstu myndina hans Eraserhead. Þau áhrif eru sýnileg í myndaröðinni Mórar og fleiri verkum eftir mig. Bók Gyrðis Elíassonar Sandárbók hafði áhrif á seríuna Horfið sumar og titillinn kemur úr smásögu eftir hann. Bókin segir frá fráskildum málara sem sest að í hjólhýsabyggð og hyggst einbeita sér að því að mála tré.

Horfið Sumar 10.

Ég var byrjuð að taka myndir á hjólhýsasvæðum áður en ég las bókina, en hélt áfram að mynda hjólhýsi eftir það. Harpa Árnadóttir myndlistamaður kom í heimsókn á vinnustofuna mína stuttu síðar og við fórum að ræða um verkin og bókina hans Gyrðis. Harpa fékk hugmyndina að sýningunni. Ég krafðist þess að hún yrði sýningarstjóri, hún var treg til í byrjun en féllst á að lokum. Við unnum þetta saman og úr var sýningin Horfið sumar í ASÍ árið 2013.

Nú hafa ýmsir fræðimenn og höfundar tjáð sig um ljósmyndina og sannleiksgildi hennar. Hvað finnst þér um sannleiksgildi ljósmynda? Er ljósmyndin sannari eftirmynd af raunveruleikanum en til dæmis málverkið eins og Susan Sontag vildi meina?

Það eru þessi einstöku augnablik sem maður nær með ljósmyndinni og oft er það eitthvað sem ekki er hægt að endurtaka. Ljósmyndin í mínu tilviki er raunveruleikinn. Þetta er raunverulegur heimur því ég bý aldrei neitt til í stúdíói. Ég túlka það sem er til og bý til ákveðinn heim með vali á sjónarhorni, lýsingu og myndbyggingu. Ég leita að hlutum sem tengjast ákveðinni nostalgíu, eitthvað sem ég tengi við úr minni bernsku eða tímatengdum atburðum. Oftast er fólk að taka myndir af því sem er til, og ég geri það, en ég er samt að opna á einhverja túlkun eða aðra möguleika, nýja sögu eða annan raunveruleika.

Tjöld af ýmsu tagi koma gjarnan fyrir í verkum þínum; gluggatjöld og leiktjöld. Hvað standa tjöldin fyrir?

Tjöldin vísa í svo margt. Eins og til dæmis þegar maður stendur fyrir framan tjaldið og ímyndar sér hvað leynist þar á bakvið. Svo er það fagurfræðin. Rauði liturinn. Tjöldin eru líka tilvísun í leikhúsið og leikhústjöld. Svo fann ég þessi gulu tjöld á Ítalíu sem eru mikið í Equivocal seríunni. Sólin skín í gegnum þessi gulu tjöld. Hvað er fyrir innan og hvað er fyrir utan? Þetta eru tveir heimar, tjöldin eru eins og skil á milli tveggja heima.

Rauð Leikhústjöld frá myndaröðinni Equivocal.
Þú hlaust á dögunum afar áhugaverða viðurkenningu; EIKON verðlaunin fyrir kvenlistamenn sem komnar eru yfir 45 ára aldurinn. Valie Export er verndari verkefnisins. Segðu okkur aðeins frá þessum verðlaunum.

Ég sá verðlaunin auglýst og þekkti til tímaritsins. EIKON tímaritið er mjög vandað austurískt tímarit sem er gefið út á ensku og þýsku. Það sem mér fannst áhugavert var að þessi verðlaun eru ekki fyrir ungar og upprennandi listakonur heldur fyrir evrópskar konur sem eru orðnar 45 ára og sem eru að vinna með ljósmyndina sem miðil eða í nýmiðlum (e. New Media).

Þrjár konur hlutu verðlaunin, Gabriele Rothemann, Susan MacWilliam og ég. Verðlaunaafhendingin var í Vínarborg í nóvember og gefið var út tímarit á ensku og þýsku þar sem birtar voru myndir og texti um hverja okkar. Listfræðingurinn Lucas German og sýningarstjóri hjá Kunshalle í Vínarborg skrifaði textann sem birtist með mínum verkum í tímaritinu. Myndin á forsíðunni er úr seríunni Horfið sumar og er tekin á hjólhýsasvæði þar sem einhver hafði ákveðið að búa til tjörn úr svörtu plasti, með vatni í og svartri plastönd. Forsíðumyndin er kannski ekki lýsandi fyrir það sem ég hef verið að gera, og þó, ég er að fjalla um hvernig maðurinn upplifir náttúruna og hvernig þetta manngerða blandast við náttúruna.

Sýningin EIKON Award í Kunstlerhaus Vínarborg.

Nú í febrúar var opnuð stór sýning í Kustlerhaus 1050 í Vínarborg með verkum okkar sem hlutu EIKON verðlaunin. Þar sýni ég verk úr myndaröðunum Vanished Summer og Equivocal, ásamt nýrra verki sem ég kalla Solar Eclipse Shadow sem er varpað á vegg í dimmum sal. Við það að varpa verkinu myndast öðruvísi stemmning en ef ljósmyndirnar væru birtar í ramma í hefðbundnu rými.

Tekur þú myndir þínar á filmu eða stafrænt?

Ég vinn eins og filmuljósmyndari því ég lærði á filmu og kann þá tækni. Ég skipti yfir í stafræna tækni þegar ég byrjaði á bókinni Equivocal árið 2007. Ég hugsa samt eins og þegar unnið er með filmu þó ég sé að vinna stafrænt. Ég tek fáar myndir og ég legg mikið upp úr því að velja hvern ramma vel því ég vil ekki þurfa að velja úr of mörgum römmum eftir að myndatöku líkur.

Þú varst sýningarhöfundur sýningarinnar Betur sjá augu – Ljósmyndun íslenskra kvenna 1872-2013 sem opnuð var í Þjóðminjasafninu og Ljósmyndasafninu árið 2014. Á sýningunni voru til sýnis ljósmyndaverk kvenna frá árinu 1872 til ársins 2013 og var afrakstur tveggja ára rannsóknarvinnu þinnar. Hvað varð til þess að þú fórst í þessa rannsóknarvinnu og hvað kom þér mest á óvart við gerð sýningarinnar?

Þetta byrjaði þannig að ég fór til Þjóðminjasafnsins með hugmynd að sýningu. Þá var Ágústa Kristófersdóttir sýningarstjóri þar. Mig langaði að setja upp sýningu með samtímaljósmyndum kvenna. Fram að því hafði ekki verið mikið um sýningar sem endurspegluðu verk kvenna. Ágústu leist vel á hugmyndina en fannst að setja mætti hana í stærra samhengi, skoða safneignina og ljósmyndasögu kvenna aftur í tímann. Það varð til þess að við fórum í samstarf við Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Inga Lára deildarstjóri Ljósmyndasafnsins skrifaði öllum söfnum landsins og spurði hvað þau ættu af ljósmyndaverkum eftir konur.

Við fórum síðan og skoðuðum þau myndasöfn sem fundust. Ég skoðaði skrár yfir allar sýningar sem settar hafa verið upp frá 1970, og einnig hvaða konur höfðu haldið áfram að vinna við ljósmyndamiðillinn eftir Listahátíð kvenna sem haldin var árið 1985. Þær sem höfðu látið mest að sér kveða enduðu á sýningunni. Þrjú megin viðfangsefni voru mest áberandi í verkum kvennanna; Landslag og náttúra, Portrettmyndir og Heimili og fjölskyldan, og þau urðu áberandi á sýningunni. Þegar nær kom okkar samtíma valdi ég konur sem höfðu verið virkar og pössuðu við þessi þrjú viðfangsefni sem ég valdi að sýna. Það sem kom mér mest á óvart í þessu verkefni var að finna marga dýrgripi sem enginn hafði séð.

Boðskort hannað af Ármanni Agnarsyni.

Ég fékk frjálsar hendur við val á verkum og ég stend með því vali, sem var fagurfræðilegt, sögulegt og persónulegt. Þeir voru margir sem höfðu skoðanir á þessu vali – sumar öndverðar mínum – en auðvitað er ekki hægt að gera öllum til hæfis. Ég valdi konur eins og Nicoline Weywadt, sem var fyrsta konan sem kom heim frá námi í Kaupmannahöfn og starfaði á eigin stofu á Djúpavogi frá 1872, og auðvitað þær konur sem höfðu verið starfandi lengst á tímabilunu 1870-1930. Katrín Norgaard Vigfússon sýndi landslagsmyndir á vorsýningunni í Charlottenborg 1939. Gagnrýnendur hér heima voru mjög neikvæðir í umfjöllun sinni á þeim verkum, sem varð til þess að hún sýndi þau aldrei hér heima. Þetta var karlaheimur og þeim fannst fáranlegt að kona væri að sýna á svona virtri sýningu í Danmörku. Lilý Tryggvadóttir var ein þeirra sem var með frábærar myndir en geymdi þær ofan í skúffu og sýndi aldrei. Mig langaði að draga verk þessara kvenna fram í dagsljósið. Karlkynsljósmyndarar hikuðu ekki við að kaupa sér nýja linsu og fara upp á fjöll og mynda. Konurnar hugsuðu ekki þannig eða leyfðu sér það ekki, þær sáu um heimilið. Rödd þeirra sem vildu komast að í ljósmyndun heyrðist ekki í þessu karlaveldi. Valdís Óskarsdóttir talaði einmitt um þetta þegar hún var í Vestmannaeyjum að mynda gosið. Allir karlkynsljósmyndar voru farnir og Valdís náði myndinni sem rataði á forsíður blaðanna. Karlkynskollegar hennar voru alls ekki ánægðir með „stelpuna“ sem var að trana sér þarna fram. Valdís lagði sig virkilega fram, hún var frumleg og hafði mikið fram að færa sem ljósmyndari, skrifaði texta og var mjög pólítísk en átti ekki upp á pallborðið á þessum tíma vegna kynjamisréttis.

Hvernig finnst þér staða konunnar vera í heimi samtímaljósmyndara?

Ég hef persónulega aldrei upplifað ójafnrétti innan geirans og mér finnst ég ekki hafa farið á mis við tækifæri vegna þess að ég er kona. Ég held að ég hafi sloppið frekar vel. Auðvitað er þetta karlaheimur, sem endurspeglast til að mynda í tískuheiminum og í þjóðfélaginu öllu, en ég hef aldrei upplifað það á eigin skinni. Mér finnst samt sem áður staða konunnar innan myndlistar og samtímaljósmyndunar alls ekki vera góð, ef litið er til sýningarinnar í Þjóðminjasafninu og út í hinn stóra heim. Það er greinilegt á þessum stóru kvennasýningum sem hafa verið haldnar á söfnum um allar heim, eins og í Musée d’Orsay safninu, MOMA og víðar, að það hefur verið erfitt fyrir konur í þessum geira eins og annars staðar. Það sem hefur hjálpað mér og drifið mig áfram er að ég hef alltaf haft sterkar kvenfyrirmyndir eins og Louise Bourgeois, Frida Kahlo, Kiki Smith, Pipilotte Rist og Georgia O´Keeffe. Ég hef leitað í þessar fyrirmyndir og þær hafa leitt mig áfram.

Hvort viltu láta kalla þig ljósmyndara eða myndlistarmann sem vinnur með ljósmyndina sem miðil?

Ég held í þennan titil, „ljósmyndari“ vegna þess að þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum þá hélt fólk að ég væri fjölskylduljósmyndari eða stúdíóljósmyndari. Þegar maður segist vera ljósmyndari í Bandaríkjunum þá hugsa menn oftast um það út frá listrænum áherslum. Þar er þetta flokkað í annars vegar listræna ljósmyndun (e. Fine Art photography) og hins vegar auglýsingaljósmyndun (e. Commercial photography). Ljósmyndin er mjög mikilvægur miðill í nútímasamfélagi óhað því hvort hún er fréttaljósmynd, myndlistarmiðill eða annað. Ég vil að ljósmyndarar sem vinna í myndlistarheiminum geti kallað sig ljósmyndara alveg eins og aðrir kalla sig málara. Þessi skilgreiningarumræða er reyndar mjög íslensk og ég upplifi þetta ekki erlendis. Við vorum þrjár sem hlutu EIKON verðlaunin og þar er ég eini „ljósmyndarinn“ – og ég er stolt af því.

Hvað er á döfinni hjá þér á næstunni?

Ég hef sýnt mikið erlendis undanfarin ár og á döfinni eru fleiri sýningar á erlendri grundu. Ég verð með myndaröðina Vanished Summer á sýningunni Nature as playground í Ljósmyndasafninu í Seoul í Kóreu í sumar og með ný verk á Cyclone 3 í Forum Box sem er stórt listamannarekið rými í Helsinki, og svo er það EIKON sýningin í Vínarborg og sýning í „FLUSS“ Schloss í Wolkersdorf með austurrískum konseptlistamönnum í mars.

Ég er líka að sýningarstýra, ásamt því að kenna í Myndlistaskólanum og Ljósmyndaskólanum. Það er gaman að geta blandað allri þessari vinnu saman. Ég fékk listamannalaun á síðasta ári, sem var frábært. Listamannalaunin nýtast mjög vel og gera manni kleift að vinna án þess að vera að hugsa um hvaðan tekjurnar koma. Starf myndlistarmannsins getur verið einmanalegt og það hentar mér að vinna við annað í bland við eigin sköpun, eins og kennslu, sýningarstjórn og önnur verkefni.

Við látum þetta vera lokaorðin. artzine þakkar Katrínu Elvarsdóttur fyrir spjallið og óskar henni góðs gengis.

 Ástríður Magnúsdóttir


Aðalmynd með grein var tekin við opnun sýningarinnar í Kunstlerhaus Vínarborg 15 febrúar 2018.

Allar ljósmyndir með grein birtar með leyfi Katrínar Elvarsdóttur.

Nánari upplýsingar:
katrinelvarsdottir.com
katrinelvarsdottir.blogspot.is
www.eikon.at

BENDING í BERG Contemporary

BENDING í BERG Contemporary

BENDING í BERG Contemporary

Birta og bjartir litir taka á móti áhorfendum þegar gengið er inn í rými BERG Contemporary um þessar mundir og inn á sýningu þeirra Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur. Þær Ingunn Fjóla og Þórdís hafa unnið lengi saman sem tvíeykið Hugsteypan en núna tíu árum eftir að samstarfið hófst sýna þær í sama rými, á sama tíma en þó ekki sem Hugsteypan. Á sýningunni sem ber titilinn BENDING sýna þær ný verk sem þær hafa unnið hver í sínu lagi, en segja samt að samtalið sé aldrei langt undan og að þær hafi að mörgu leyti alið hvora aðra upp í listinni. artzine var forvitið og ákvað að kíkja á sýninguna og spyrja þær stöllur út í myndlistina, samstarfið og sköpunarferlið.

Titill sýningarinnar er BENDING. Hvaðan kemur hann?

Ingunn Fjóla: Á þessari sýningu í BERG erum við að prófa í fyrsta skipti að vinna í sitt hvoru lagi en sýna saman. Við vildum finna titil sem ætti við hugmyndir okkar beggja. Titil sem byggi yfir áhugaverðri merkingu en væri líka nógu opinn til að vekja forvitni og áhuga. Það er mikið um brot og beygjur í verkunum. Við erum í raun að brjóta og beygja miðla og titillinn vísar í það. Orðið er til á bæði íslensku og ensku og það var svo áhugavert að merkingin átti við verk okkar beggja á báðum tungumálum.

Þórdís: Orðið bending vísar í svo margt. Bending, vísbending, tákn, það að beygja og brjóta til að mynda.

Þórdís Jóhannesdóttir. FGR10042017. Ljósmynd: Daníel Magnússon.

Orðið bending merkir líka „hnútur“ eða „bragð með kaðli“ á íslensku og eitt verka þinna á sýningunni Ingunn Fjóla er einmitt málaður hnútur eða kaðall.

Ingunn Fjóla: Já, einmitt. Öll verkin mín heita Máluð sjónarhorn og síðan kemur undirtitill innan sviga. Þetta verk sem þú vísar í heitir Máluð sjónarhorn (benda). Ég hef verið að þróa þessi verk út frá hugmyndum mínum um málverkið. Þetta eru meiri efnispælingar og tilraunir heldur en ég hef verið að gera áður. Ég er með kaðla og bönd sem ég límber og grunna eins og þetta væri strigi. Málning og undirlag hnoðast saman í hnút, það er enginn forgrunnur eða bakrunnur og úr verður skúlptúrískt verk. Ég held samt sem áður fast í að þetta sé málverk og ég er að nota hefðbundin efni úr málverkinu.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir: Máluð sjónarhorn (benda). Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Ingunn Fjóla, þú hefur verið að vinna með möguleika málverksins síðan þú útskrifaðist úr bakkalárnámi Listaháskólans árið 2007.

Ingunn Fjóla: Málverkið hefur verið leiðarstef hjá mér. Að vinna með málverkið, hið útvíkkaða málverk og að færa málverkið út í rýmið. Upplifun áhorfandans af verkinu í rýminu. Verkið er að breytast eftir því hvernig þú horfir á það. Áhorfandinn kemur með hreyfingu inn í verkið með því að vera sjálfur á hreyfingu og sjá verkið frá mismunandi sjónarhornum.

Í innsetningum þínum Ingunn Fjóla spilar áhorfandinn stórt hlutverk. Ertu að vinna áfram með þessa hugmynd hérna í BERG þó verkin séu minni og veggföst?

Ingunn Fjóla: Þetta eru meiri einstaklingar hér í BERG heldur en innsetningarnar sem ég hef unnið en þó að verkin séu minni og veggföst er ég engu að síður að hugsa um áhorfandann og hvernig ég get lokkað hann til að hreyfa sig í kringum verkið. Verkin hafa mismunandi sjónarhorn, eina ásýnd eða aðra eftir því hvernig þú horfir á þau. Formin breytast og litasamsetningarnar líka. Það sem mig langar að gera með þessum verkum er að þau dragi áhorfandann til sín, tæli hann og fái hann til að stíga dans við verkin.

Litagleðin er áberandi á þessari sýningu og það er sérstaklega áberandi að litagleðin hefur aukist hjá þér Þórdís.

Þórdís: Já, ég hef verið að vinna meira í gráskalanum fram að þessu. Ég vinn úr þeim myndum sem ég hef tekið og nú eru þær meira í lit. Ég veit ekki út af hverju það er.

Ingunn Fjóla: Það er erfitt að tala um liti í verkum sínum. Þetta er tilfinning og það er erfitt að færa tilfinningu í orð, bæði hvernig maður skynjar og skapar. Við erum að vinna með skynjun og fagurfræði og litir eru svo stór hluti af því litrófi.

Þórdís Jóhannesdóttir. JK12042017. Ljósmynd: Birt með leyfi listamanns.

Þið hafið sýnt saman sem tvíeykið Hugsteypan í tíu ár ásamt því að vinna sjálfstætt að eigin listsköpun. Nú eruð þið að sýna í BERG í fyrsta skipti í sama rými sem sjálfstæðir myndlistarmenn. Hvað kemur til og hver er hugmyndin?

Ingunn Fjóla: Já, stundum er Hugsteypunni boðið að sýna og stundum er okkur boðið að sýna sem sjálfstæðir listamenn. Hér í BERG var meiri áhugi fyrir því sem við höfum verið að vinna sjálfstætt. Við vorum báðar á þannig stað að við tókum þessari hugmynd vel, okkur þótti passandi að stíga þetta skref. Við erum báðar nýlega búnar að klára meistaranám þar sem við höfum kafað dýpra, skrifað um og greint okkar eigin verk. Undanfarið höfum við verið að vinna úr því. Hugsteypan hefur alltaf verið þannig samstarf að við metum hvert verkefni fyrir sig. Hvort við vinnum saman sem Hugsteypan eða í sitt hvoru lagi fer eftir verkefnum, aðstæðum og samhengi hverju sinni.

Ljósmyndir: Daníel Magnússon.

Þið eruð að sýna ykkar sjálfstæðu verk í sama rými en það er samt sem áður samtal á milli verkanna.

Ingunn Fjóla: Þetta er tveggja manna sýning en í ferlinu fannst okkur áhugaverðara að sýna verkin þannig að það væri samtal þeirra á milli, í stað þess að aðskilja þau alveg og deila rýminu í tvennt.

Hafið þið mikil áhrif á hvor aðra í ykkar listsköpun?

Þórdís: Já, alveg pottþétt. Samstarfið er tilkomið af því að okkur langaði að blanda verkum okkar saman til að kanna hver snertiflöturinn væri og hvernig hugmyndafræði okkar skarast. Hugsteypan er í grunninn Ingunnar verk og mín verk og það samtal sem á sér stað þar á milli. Samstarfið hefur gefið hvorri um sig heilmikið. Ég hef lært ofsalega mikið á þessu samstarfi. Mín eigin myndlist hefur orðið fyrir áhrifum af samstarfinu og öfugt. Hugsteypan hefur aldrei verið „alter ego, þetta er ekki nýr persónuleiki heldur er Hugsteypan það sem við leggjum í hana hverju sinni.

Ingunn Fjóla: Við höfum verið að kanna aðra hluti í gegnum Hugsteypuna heldur en í okkar sjálfstæðu verkefnum. Við vorum á tímabili að kanna rannsóknartengdari list og list sem er lengi í vinnslu í gegnum samtal. Hugsteypan er þegar við komum saman og búum eitthvað til saman. Við höfum aldrei tekið ákvörðun um að vera bara Hugsteypan og þess vegna höfum við heldur aldrei tekið ákvörðun um að hætta sem Hugsteypan.

Hefur samstarfið þá alltaf gengið vel?

Þórdís: Það hefur alltaf gengið mjög vel. Það hefur aldrei komið upp neitt alvarlegt og aldrei verið neitt ósætti. Markmiðið er alltaf skýrt, að við höldum áfram þangað til að við verðum sammála. Þetta snýst um að halda áfram og halda áfram þangað til að við erum ánægðar. Við gefum engan afslátt af því. Við viljum ekki setja nafn okkar við eitthvað sem við erum ekki báðar sáttar við. Þetta hefur verið mis erfitt og mis frústrerandi en það beinist að ferlinu sjálfu og það er ekki persónulegt. Sköpunarferlið getur verið óendalega frústrerandi en svo er það líka óendalega gefandi þegar þú ert kominn yfir þann þröskuld. Þetta hefur alltaf verið meira gefandi en erfitt.

Ingunn Fjóla: Auðvitað hefur komið upp pirringur og við erum ekkert alltaf sammála. Í gegnum verk Hugsteypunnar höfum við prófað hluti sem við hefðum kannski ekki þorað einar. Mér finnst við oft hafa tekið stærri sjensa sem Hugsteypan, viðfangsefnin hafa verið fjölbreyttari og það gefur aftur tilbaka.

Þórdís: Það hafa komið önnur og öðruvísi sýningartækifæri í gegnum samstarfið. Þá hefur maður allt í einu annan vettvang til að prófa. Hugsteypan hefur oft gefið okkur möguleikann á því að taka stærri og flóknari verkefni fyrir.

Ljósmynd: Daníel Magnússon.

Hvað hefur haft mestu áhrifin á ykkur sem listamenn?

Þórdís: Verk annarra listamanna og góðir kennarar í gegnum tíðina bæði í Myndlistaskólanum og Listaháskólanum. Einnig það fólk sem ég hef verið í samstarfi við hverju sinni, eins og aðrir listamenn, sýningarstjórar, forstöðumenn safna og fólk sem ég hef sýnt með eða verið í beinu sambandi við í tengslum við myndlistina.

Ingunn Fjóla: Mér finnst það að skoða listaverk, listasöguna og sögu málverksins. Það hefur gefið mér ótrúlega mikið. Það er þessi gamla tugga um málverkið sem miðil. Það er svo erfitt að tala um það á ferskan og nýjan hátt. Þetta með dauða og upprisu málverkins. Ég veit að Þórdís er mjög leið á þessari umræðu! Það hefur allavega haft mikil áhrif á mig. Ég er að vinna með abstrakt málverk þó þau hafi skúlptúríska eiginleika, séu þrívíð verk og lágmyndir. Það er búið að gera svo rosalega mikið innan þessa miðils. Sagan er eins og brjálaður massi, sem er bæði gefandi og íþyngjandi. Spurningin um hvernig gerir maður eitthvað nýtt í þessum miðli er eitthvað sem ég velti mikið fyrir mér. Mér finnst ég alltaf vera að klífa eitthvað fjall. Það er erfitt, en maður getur ekki annað en verið trúr sjálfum sér og haldið áfram að klífa.

Þið eruð þá báðar að díla við söguna á ykkar ólíka hátt?

Þórdís: Já, ég verð fyrir mestum hughrifum á sýningum annarra og færi það yfir í mín eigin verk. Ingunn skýtur inní að Þórdís sé líka að díla við ljósmyndamiðilinn, hefðina og sjálfa sig sem myndlistarmann og Þórdís heldur áfram: Já, eins og Ingunn segir þá tengist stór hluti af mínum vangaveltum ljósmyndamiðlinum sem slíkum og hvar hann staðsetur sig í myndlist. Ég er myndlistarmaður sem tek ljósmyndir sem verða að þrívíðu formi.

Þórdís Jóhannesdóttir. TB03042017. Ljósmynd: Daníel Magnússon.

Ertu þá að afbaka hina klassísku ljósmyndahefð?

Þórdís: Ég veit það ekki en það mætti skoða það. Það má vel vera að það verði útskýrt þannig og það er alveg í góðu, en mér leiðist þessi miðlaumræða. Ég er myndlistamaður sem vinn með ljósmyndir. Það er minn efniviður og ég þarf ekki að setja mig í frekara samhengi.

Ingunn Fjóla: Þórdís tekur alltaf ljósmyndir í grunninn. Hún hefur prófað ýmsar útfærslur, en hefur sjaldnast eða aldrei sett ljósmyndir fram í hefðbundnu formi. Þetta hefðbundna tvívíða form hefur aldrei verið nóg fyrir hana. Hún vill eitthvað meira. Það sama á við um mig í sambandi við málverkið. Ég mála mjög sjaldan og hef ekki gert í mjög langan tíma það sem myndi kallast hefðbundið málverk.  Þetta er eldgömul umræða og það eru hátt í hundrað ár síðan menn fóru að brjóta upp formið, en mér finnst hún áhugaverð. Ég skilgreini mig út frá málverkinu. Ég er að gera málverk en þau vilja eitthvað meira en að vera málverk. Það er þetta sem við eigum sameiginlegt.

Er togstreita samtímamyndlistamannsins falin í þessu?

Þórdís: Ég myndi segja togstreita og líka blessun.

Ingunn Fjóla: Ég held að langflestir myndlistarmenn í dag vilji ekki skilgreina sig eftir miðli. Ég held að þeir vilji frekar skilgreina sig út frá þessu miðlalausa ástandi eða eftir-miðla-ástandi. Við tvær erum í raun kannski íhaldssamar að vera alltaf að tala um miðillinn. Þegar ég var að skrifa meistararitgerðina þá rakst ég á tilvísun í Rosalind Krauss þar sem hún er að tala um þetta miðlalausa ástand. Hún segir að miðlar í dag séu í raun tæknileg stoð eða bakgrunnur sem fólk styður sig við og skilgreinir sig út frá en er ekkert endilega að vinna út frá þeim forsendum. Mér finnst þetta eiga rosalega vel við okkur báðar. Miðlarnir eru bakland sem við leitum í en við erum alltaf að krafsa áfram.

Eru verkin ykkar unnin út frá persónulegum hugmyndum eða (list)fræðilegum? Eru þetta persónuleg verk?

Þórdís: Ég myndi segja að þau séu persónuleg. Það sem dregur mig áfram er einhver tilfinning, ég get ekki rökstutt af hverju ég vel þessa mynd en ekki hina. Í ferlinu verður verkið meira listsögulegt. Ég held að grunnurinn sé alltaf þetta tilfinningasamband sem maður á við viðfangsefnið hverju sinni. Þetta byrjar allt í fingrunum. Það er mjög persónulegt og síðan verður þetta meira rökrétt þegar líður á ferlið og verkin mótast.

Ingunn Fjóla: Ég tek undir þetta. Ég sest ekki niður á vinnustofunni og segi: Nú ætla ég að gera verk sem er í samtali við listasöguna. Ég sæki engu að síður í listasöguna og skoða hana mikið, en verkin hér eru ólík innsetningunum sem ég hef verið að gera, að því leiti að þau eru unninn á vinnustofunni yfir lengri tíma og það ferli er meira persónulegt. Ég byrja með einhvern flöt, eitthvað efni, einhvern lit og svo þróast það yfir í eitthvað meira, í anda hefðbundins málara. Kannski er erfitt að skilja þetta að.

Nú hafið þið báðar lokið meistaranámi í myndlist frá LHÍ. Þórdís, í texta sem þú skrifaðir í tengslum við útskrift þína úr meistaranáminu segir að leiðarstef rannsóknarinnar hafi verið leit „að formi með áherslu á þrjá þætti: Áhorfendur og þau margbreytilegu sjónarhorn sem þeim býðst að fanga í verkunum, rýmið og möguleika þess í samhengi við form og efniskennd ljósmyndastrúktúranna.“ Þetta eru áhugaverðar hugmyndir og þær rýma vel við verkin þín hér í BERG. Byrjaði þetta ferli í meistaranáminu?

Þórdís: Þegar ég fór í meistaranámið fór ég aftur að kafa ofan í bara mig, á mínum forsendum, og ég hellti mér aftur út í þessar hugmyndir í kringum ljósmyndina og áttaði mig á því að ég er að taka myndir af formum sem aðrir hafa búið til. Ég tek pínulítil brot úr verkum annarra, stækka upp og reyni að finna þeim eitthvað form. Yfirleitt eru þetta myndir af þrívíðum hlutum, ég flet það út með ljósmyndinni og svo færi það aftur þrívítt form. Á útskriftarsýningunni vann ég með skúlptúra Gerðar Helgadóttur, af því við vorum að sýna í Gerðasafni, tók nærmyndir af hennar verkum, prentaði á gler og byggði upp nýjan skúlptúr úr verkunum með ljósmyndum prentuðum á gler. Mér finnst þessi leikur með þrívídd, tvívídd og síðan aftur þrívídd áhugaverður. Sýningin hér í BERG er í raun ákveðið framhald af þessum pælingum. Hér er ég alveg frjáls og laus við námið. Í náminu ertu inni í þessari stofnun, með fólki, það er ákveðinn rammi sem er þar og hann getur verið heftandi. Hér fékk ég að ráða og gera verkin á mínum forsendum. Það hefur verið frelsandi og það sést á niðurstöðunni.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir: Það er alltaf ákveðinn þroski og þróun sem á sér stað. Ég held að verkin hennar Þórdísar hafi verið að malla í svolítinn tíma og þau þurftu þennan tíma til að þróast.

Ingunn, í útskriftartexta þínum talar þú um að sambandið milli kyrrstöðu og hreyfingar heilli þig, sem og sambandið milli stöðugleika og óstöðugleika, reiðu og óreiðu. Getur þú útskýrt þetta samband aðeins nánar?

Ingunn Fjóla: Þetta er það sem maður myndi kalla á ensku: order and chaos. Þessar tvær hvatir hafa lengi blundað í mér. Sumir hlutar af verkum mínum eru mjög strangir, nákvæmir, stífir og það er mikil stjórnun, annars staðar á sér stað meira uppbrot, meira flæði og meira frelsi. Það hefur lengi blundað í mér og verkunum mínum togstreita milli stjórnunar og hendingar, sum staðar eru lauslega málaðir fletir og annars staðar strangari fletir. Ég er að reyna að finna jafnvægi þarna á milli. Ég hef gert innsetningar sem hafa verið meira frjálst málaðar, meira spontant en þá hefur alltaf verið einhver strúktúr sem heldur utan um það.

Þú segir líka í fyrrnefndum texta: „Kannski er óreiða ekki til“. Hvað áttu við?

Ingunn Fjóla: Þetta eru stórar pælingar en ég er að pæla í lífinu og tilverunni. Ég held stundum að það séu engar tilviljanir. Það eru einhver lögmál sem stýra öllu. Okkur finnst kannski eitthvað vera óreiðukennt en ef til vill sjáum við ekki heildarmyndina.

Þórdís, þú ert með sérstaka titla á verkum þínum, fyrir hvað standa þeir?

Þórdís: Verkin mín heita öll skrásetningartitlum, eins og dagbókarfærslur, í anda ljósmyndarinnar. Mér finnst annað of lýsandi. Ég hef farið þessa leið að nota upphafsstafi þess sem á upprunalega verkið sem ég er að taka mynd af og síðan dagsetningu. Eins og til dæmis verkið, EH10042013, sem er brot úr verki eftir Eygló Harðardóttur, myndin er tekin 10. apríl 2013. Ég er í raun búin að taka þetta úr samhengi og aflaga, verk Eyglóar er einungis brot af heildarniðurstöðunni.

Þórdís Jóhannesdóttir. EH10042013. Ljósmynd: Birt með leyfi listamanns.

Ingunn, þú leggur einnig mikla hugsun í titlana, ekki satt?

Ingunn Fjóla: Jú, mér finnst erfitt að velja titla og ég set svolitla orku í það. Ég hef verið ströng við sjálfa mig og ég reyni alltaf að hafa titil. Það gefur áhorfandanum innsýn í verkið og kemur honum inn á ákveðnar slóðir. Ég vil að áhorfandinn hreyfi sig í kringum verkin og hafi áhrif með hreyfingu sinni. Þetta verk heitir til dæmis Máluð sjónarhorn (tog) og vísar þannig í þyngdaraflið. Ef maður fer upp að þessu verki, þá hreyfist þráðurinn. Þyngdaraflið sem togar þráðinn niður víkur í smá stund fyrir stöðurafmagni eða gustinum sem kemur með fólki. Þó að þetta séu minni verk þá er ég samt að vinna með þetta gagnkvæma samband milli verks og áhorfanda.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Máluð sjónarhorn (tog). Mynd: með leyfi listamanns.

Það er ef til vill það sem hefur breyst í þinni listsköpun Ingunn Fjóla?

Ingunn Fjóla: Það er reyndar alveg hárrétt. Ég hef alltaf hugsað um áhorfandann en það sem hefur breyst hjá mér er að verkin svari tilbaka. Það sem gerðist í útskriftarverkinu í Gerðarsafni var að hreyfingin varð hluti af verkinu. Ég var með hreyfiskynjara, þannig að ferðalag áhorfenda um rýmið settu mismunandi hluta verksins af stað; ljós kviknuðu, viftur blésu og mótorar keyrðu þræði um rýmið, allt eftir því hvar áhorfendur gengu um. Það verk var tilraunakenndara en þau verk sem ég hafði hafði unnið fram að því.

Miðlarnir sem þið hafið valið ykkur; ljósmyndin, skúlptúrinn og málverkið, eru mjög karllægir miðlar ef litið er til sögunnar en það er vísun í kvenlægari efni og miðla í verkunum. Það er til að mynda vísun í tekstíl og vefnað í verkum þínum Ingunn Fjóla og þú notar band og garn og blandar við málverkið og naumhyggjuna.

Ingunn Fjóla: Þetta er áhugaverð athugun. Ég hef ekki hugsað mjög mikið um þessa tenginu við textílinn. Ég er mjög hrifin af vefnaði og ég set mig ekki á móti þeirri tenginu en ég kem ekki þaðan því ég hef ekki þessa þekkingu. Ég kann ekki að prjóna og ég hef aldrei ofið og byggi því ekki á þeim grunni. Þetta hófst á því að ég fór að nota bönd til að gera línuteikningu í rými. Það hefur síðan fylgt mér. Ég var að búa til litafleti úr línum sem er í raun meiri vísun í naumhyggjuna og því karllægari ef svo má segja. Línurnar hafa optísk áhrif, það myndast víbríngur í auganu. Ég sæki því meira í naumhyggjuna og „op art“ frekar en í textílinn.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Máluð sjónarhorn (stöðugleiki II). Mynd: með leyfi listamanns.

Þórdís, hvaða listamanna eða liststefna hefur þú litið til?

Þórdís: Ljósmyndaverk hafa haft áhrif á mig. Ég rýndi mikið í ljósmyndaverk annarra þegar ég var að byrja að læra myndlist, verk Boltanski, Wolfgang Tilmans og fleiri. Pabbi átti ljósmyndagræjur og það kynnti undir áhugann. Ég byrjaði bara að fikta í græjunum hans þegar ég var unglingur en í dag verð ég fyrir áhrifum af öllu sem er þrívítt, þrívíð verk, varpanir eða skúlptúrar.

Hvað finnst ykkur það mikilvægasta í allri listsköpun?

Þórdís: Það mikilvægasta er að vera trúr og samkvæmur sjálfum sér, að vera heiðarlegur og einlægur í sinni myndlist. Mig langar að fólk komi og geti séð eitthvað nýtt þegar það skoðar verkin mín. Þetta er langhlaup. Maður verður bara að halda áfram og vera trúr og samkvæmur sjálfum sér.

Ingunn Fjóla: Ég held að það sé að vera trúr sjálfum sér og ekki eltast við tískustrauma. Það eru tískustraumar í myndlist þó enginn vilji tala um það. Maður getur ekki stjórnað því hvenær maður dettur í og úr tísku. Maður verður bara að halda áfram því sem maður er að gera. Á Íslandi er þröng sena og það er ákveðin tegund af myndlist sem er „in“ hverju sinni.

Við látum þetta vera lokaorðin og þökkum Ingunni Fjólu og Þórdísi fyrir samtalið.

Viðtal: Ástríður Magnúsdóttir


Sýningin BENDING stendur til 17. febrúar í BERG Contemporary.

Aðalmynd með grein: Daníel Magnússon.

Heimildir:
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. Myndlist / Hönnun útskriftarsýning. Listaháskóli Íslands. MA 2017.
Þórdís Jóhannesdóttir. Myndlist / Hönnun útskriftarsýning. Listaháskóli Íslands. MA 2016.

Nánari upplýsingar um listamennina:
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir. ingunnfjola.net
Þórdís Jóhannesdóttir. thordisj.com
Hugsteypan.  hugsteypan.com

Fullkomlega Óheiðarleg í SÍM salnum

Fullkomlega Óheiðarleg í SÍM salnum

Fullkomlega Óheiðarleg í SÍM salnum

Sýningin Fullkomlega Óheiðarleg opnaði í SÍM salnum, sal Sambands íslenskra myndlistarmanna í Hafnarstræti, miðvikudaginn 11. október síðastliðinn. Fullkomlega Óheiðarleg er samsýning tíu myndlistamanna sem útskrifuðust frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Flest hafa þau sótt framhaldsnám í myndlist erlendis og sýna nú í fyrsta skipti saman, tæpum tíu árum síðar.

Titill sýningarinnar varð til í samtali hópsins og hver má draga sína ályktun af honum. Fullkomlega Óheiðarleg eða Ófullkomlega Heiðarleg, allt eftir samhengi. Titillinn er í raun sjálfstætt verk sem túlka má á margan hátt. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Etienne de France, Eva Ísleifs, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Logi Bjarnason, Páll Haukur Björnsson, Rakel McMahon, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Unndór Egill Jónsson og Una Sigurðardóttir. Sýningarstjóri er Ástríður Magnúsdóttir. Hugmyndin að sýningunni kviknaði í samtali hópsins um þörf mannsins til þess að skilja tilvist sína og staðsetja sjálfan sig hvort sem er í stórbrotnu samhengi við sólina eða smávægilegu samhengi egósins.

Frá opnuninni.

Á sýningunni má finna verk unnin í ýmsa miðla. Skúlptúrverk eftir Pál Hauk Björnsson þar sem hann kannar mörk vídjómiðilsins. Páll vinnur gjarnan í miðla sem háðir eru tíma og rúmi og krefjast beinnar íhlutunar af hálfu áhorfenda. Ljósmyndaverk eftir Rakel McMahon nefnist Reality in other words. Verkið er skrásetning á gjörningi sem Rakel framdi í Mengi í maí mánuði.

Verk Rakelar McMahon.

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir og Logi Bjarnason sýna bæði málverk en vinna með málverkið á ólíkan hátt sem endurspeglar fjölbreytileika málverksins í samtíma. Í verki Loga, Mantra, leitast hann við að spyrja tilvistarlegra spurninga eins og Etienne de France gerir einnig í vídjóverki sínu Exploration of a Failure. Unndór Egill Jónsson sýnir verkið Spíta / A Piece of Wood, sem unnið er í við, nánar tiltekið eik og hnotu. Þar mætir hið villta og náttúrlega hinu tamda og mannlega. Verkið er tilraun til að endurgera lífrænt efni. Úr fjærlægð virkar spítan eins og náttúruleg spíta en þegar betur að gáð er spítan augljóslega samsett. Teikningar eftir Unu Sigurðardóttur eru hluti af seríu sem nefnist Gender/Politics og er innblásin af sjónarspili alþjóðastjórnmála, sviðsetningu valdhafa á sjálfum sér og hvernig samansafn leiðtoga undirstrikar kynjahallann og í raun heft aðgengi kvenna að valdi. Serían er tilraun til að varpa húmorísku ljósi á þennan veruleika og skynja þannig undarlegheitin sem í honum býr. Pólitískt mynd- og hljóðverk eftir Steinunni Gunnlaugsdóttur ber titilinn AÐSEND – UNDir regnboga og samanstendur af hljóðverki og fréttaúrklippu af netinu sem er prentuð á gler. Úrklippan er frétt af Vísi.is þar sem sagt er frá því að fyrsti kísilmálmurinn, sem framleiddur er í nýrri verksmiðju United Silicon í Helguvík og þar af leiðandi fyrsti kísilmálmurinn sem framleiddur er á Íslandi, sé tilbúinn og kominn um borð í skip á leið úr landi. Í hljóðverkinu má heyra í aðal gullgerðarverkfæri verksmiðjunnar; Ljósbogaofninum Ísabellu.


Verk Evu Ísleifsdóttir

Katrín Inga J. Hjördísardóttir er með útiverk í garði sýningarsalarins, sem hún nefnir Einlæg tilraun. Verkið er einlæg tilraun listakonunnar til að endurgera útskriftarverk sitt frá árinu 2008 með auknu hugrekki og meiri krafti en hún bjó yfir þá. Eva Ísleifsdóttir sem býr og starfar í Grikklandi er með uppákomu sem rekast má á víðsvegar um miðbæ Reykjavíkur; plaköt sem prentuð voru í tvö hundruð eintökum og dreift um bæinn eins og öðrum auglýsingum fyrir ýmsa viðburði og uppákomur. Á plakatinu stendur: Ég á ekkert. Setningin, sem er einnig titill verksins, er tilvistarlegs eðlis. Hún vekur upp spurningar og áhorfandinn þarf að kljást við hana. Hún er persónuleg en á sama tíma ópersónuleg. Er þetta áróður, tilkynning eða hróp á hjálp? Verkið er spurning á sama tíma og það er fullyrðing. Verkin á sýningunni Fullkomlega Óheiðarleg eru ólík en samt sem áður eru nokkur sameiginleg stef sem virða má fyrir sér í ólíkum miðlum. Sýningin stendur til 24. október og er opin alla virka daga frá 10-16. Verk Katrínar Ingu stendur áfram í bakgarði SÍM um óákveðinn tíma.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Ástríður Magnúsdóttir

Nánari upplýsingar um sýninguna:

https://www.facebook.com/events/125585801414420/

http://sim.is/syningar-og-vidburdir/

Heimasíður listamanna:

Etienne de France: http://www.etiennedefrance.com

Eva Ísleifs: http://www.evaisleifsdottir.com

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir: http://cargocollective.com/johannakristbjorg

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir: http://dottir.info

Logi Bjarnason: http://logib.tumblr.com

Páll Haukur Björnsson: http://pallhaukur.com

Rakel McMahon: http://www.rakelmcmahon.com

Steinunn Gunnlaugsdóttir: http://www.sackofstones.com

Listinni færðar þakkir á sýningu Ragnars Kjartanssonar í Hafnarhúsi

Listinni færðar þakkir á sýningu Ragnars Kjartanssonar í Hafnarhúsi

Listinni færðar þakkir á sýningu Ragnars Kjartanssonar í Hafnarhúsi

Nýverið opnaði Ragnar Kjartansson sína fyrstu safnsýningu hér á landi í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson. Á sýningunni er að finna ýmis verk úr ólíkum áttum. Ragnar segir sýninguna ekki vera yfirlitssýningu heldur fremur hugleiðingu hans um listina í ýmsum verkum frá árinu 2004. Á síðustu árum hefur Ragnar náð að festa sig í sessi sem eftirsóttur og viðurkenndur gjörningalistamaður á alþjóðasenunni og verk hans hafa verið sýnd víða um heim. Á sýningunni sem ber titilinn Guð, hvað mér líður illa er að finna gjörningaverk, myndbandsinnsetningar, ljósmyndir, höggmyndir, málverk og teikningar.

Stóri salurinn á fyrstu hæð Hafnarhússins er tileinkaður lifandi gjörningum. Sá fyrsti stendur yfir í viku, frá 3. – 11. júní og kallast Til tónlistarinnar. Hann var fyrst fluttur við vígslu nýrra húsakynna Migros samtímalistasafnsins í Zurich árið 2012. Á opnunardegi í Hafnarhúsinu var að finna fimm óperusöngvara og jafnmarga undirleikara sem fluttu hið ljúfa sönglag, An die Music eftir Franz Schubert og Franz von Schober frá árinu 1817. Í laginu eru listinni færðar þakkir, fyrir það „að lyfta andanum í hæstu hæðir og fá okkur til að gleyma veraldlegu amstri, þótt ekki sé nema andartak“, eins og segir í sýningarskrá.

Gjörningurinn Kona í e-moll frá árinu 2016 tekur við þann 17. júní og stendur til 3. september. Í þeim gjörningi stendur kvenmaður á gylltum palli og spilar e-moll endurtekið á Fender rafmagnsgítar. Undir lok sýningarinnar dagana 9. – 24. september tekur við þriðji gjörningurinn sem nefnist Taktu mig hérna við uppþvottavélina – minnisvarði um hjónaband. Þar syngja og leika tíu tónlistamenn daglangt á gítar í tvær vikur. Í bakgrunni rúllar endurtekið myndband af karli og konu í ástarleik í eldhúsi og er atriðið úr kvikmyndinni Morðsögu frá árinu 1977, þar sem foreldrar Ragnars fóru með aðalhlutverkin. Getgátur eru í fjölskyldu Ragnars um að hann hafi verið getinn um það leyti sem kvikmyndin var tekinn upp. Gjörningurinn var upphaflega fluttur í BAWAG P.S.K Contemporary í Vínarborg árið 2011.

Ragnar er fæddur í Reykjavík árið 1976 og lauk prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 af málarabraut. Hann stundaði skiptinám við Konunglegu listaakademíuna í Stokkhólmi árið 2000. Málverkið hefur verið í hávegum haft en gjörningurinn hefur verið hans aðalmiðill ásamt innsetningum og myndbandsverkum. Ragnar hefur verið óhræddur við að fá vini og vandamenn til að vinna með sér og segir það ferli gefandi og skemmtilegt. Ragnar er djarfur og stórhuga listamaður sem vinnur á einlægan hátt með gleði og harm, tilvist og mikilfengleika, lífið og dauðann og síðast en ekki síst kaldhæðni og endurtekninguna. artzine mælti sér mót við Ragnar og spurði hann út í sýninguna, tilfinningar og hvernig það er að vera viðurkenndur listamaður sem litið er upp til.

Þú ert alinn upp í skapandi umhverfi, innan veggja leikhússins, innan um leikara, söngvara, skáld og skapandi fólk. Þú varst um tíma í vinsælli popphljómsveit. Eiga myndlistargjörningar, tónlist og leikhús mikið sameiginlegt að þínu mati?

„Já, að vissu leyti en ég man að þegar ég var í Myndlistarskólanum þá stalst ég úr málaradeildinni í gjörningakúrs hjá Ráðhildi Ingadóttur. Þetta var á þeim tíma þegar það tíðkaðist ekki að fara á milli deilda. Ég fór í tíma hjá Ráðhildi og þetta bara small! Ég fann þetta í beinunum og þetta er það sem ég hef andað að mér alla tíð. Það sem mér fannst heillandi við gjörningalistina, er að hún hefur öll þau sömu element og leikhúsið en það er ekki gerð nein krafa um athygli. Það var mín upplifun og er enn. Gjörningurinn, hann er eins og málverk. Hann krefst ekki neins af þér. Mér finnst málverkið mjög krefjandi listform en það er ekki svona ofbeldisfullt eins og leikhúsið. Í leikhúsinu er bara skellt í lás og tjöldin dregin frá. Yfirleitt eru gjörningarnir mínir þannig að þú getur komið og farið eins og þér hentar. Það er það sem er m.a. heillandi við gjörningalistina á mínu mati. Gjörningurinn er svo frjáls, svo heillandi og náttúrulegur og hann smitaðist yfir í allt sem ég var að gera. Mér fannst geðveikt gaman að mála en fannst gjörningurinn að mála skemmtilegri en málverkið sem slíkt. Samt lít ég á málverkið sem aðal og ég hef mikinn metnað fyrir málverkinu.

Þegar komið er upp á aðra hæð taka á móti áhorfendum stór málverk af nútímalegum íbúðarhúsum á ísraelskum landtökusvæðum. Serían kallast Byggingarlist og siðferði og er frá árinu 2016. Titill verksins er vísun í þriðju plötu bresku hljómsveitarinnar Orchestral Manoeuvres in the Dark (OMD) og var fyrst sýnt í samtímalistasafninu CCA í Tel Aviv. Ragnar segir húsin ofbeldisfull.

„Þessi hýbýli eru bara tól í yfirráðum. Landtökustefna Ísraela er að þurrka út Palestínubyggðir og byggja ný hús. Þetta eru ofbeldisfull hús. Mér fannst mikilvægt að mála þessa blekkingu sem blasir við þarna. Þarna var ég að vinna með aðstæðurnar og gjörninginn við að vinna þessi málverk. Það hleður málverkin spennu. Ég lít á þessa seríu sem sjálfstæð málverk en að sama skapi lít ég á gjörningana mína sem málverk.“

Þú hefur talað um að hafa orðið fyrir áhrifum af tableaux vivant þegar þú varst yngri. Þú ert augljóslega fyrir áhrifum frá leikhúsinu, tónlist, bókmenntum og lífinu öllu. Hvert sækir þú innblástur?

„Það er erfitt að segja því ég sæki innblástur víða en það er mjög oft ákveðin menningarleg spenna sem er minn innblástur. Listaverkin mín eru um menningu. Þetta er list um list. Ég sæki mikið í samhengi hlutanna, menningarlegt samhengi hlutanna. Verkin eru yfirleitt fædd í ákveðinni dínmík eins og til dæmis minnisvarðinn á torginu í Munchen. Í Munchen er allt svo hlaðið af sögu.“

Ragnar vísar í gjörninginn og skúlptúrinn Til minningar frá árinu 2013 sem er finna í Porti Hafnarhússins. Verkið er hvítur marmarastallur með áletruninni: „Alles was er wollte war zu onanieren und Pralinen zu essen – Allt sem hann langaði var að fróa sér og borða konfekt“, sem settur var upp á Gartnerplatz-torginu í Munchen innan um nýklassískan arkítektúr í anda hefðbundna minnisvarða.

„Sagan er hlaðin ofbeldi og verkið er í raun verk um einhvern sem gerði engum neitt. Orðin virka agressíf en þau eru það ekki. Munurinn á einhverjum sem vildi bara fróa sér og borða konfekt og einhverjum sem vildi sölsa undir sig lönd og héröð og kúga fólk. Þetta er í raun minnisvarði um meinleysingjann.“

Þú talar um að gjörningarnir hafi fangað þig í Myndlistarskólanum. Hvað er það sem heillar þig mest við gjörningalistina annars vegar og sviðsetningar hins vegar?

„Þegar ég var að byrja að fikta við gjörninga þá var þetta tiltölulega nýtt listform hér á landi. Það fannst mér heillandi. Upphafsmanneskja eins og Carolee Schneemann er enn á meðal okkar. Þetta er það nýtt. Ég heillaðist líka af því hvað krafturinn í gjörningaforminu var kvenlegur. Þetta var allt svo nýtt í listasögunni. Kvenlíkaminn sem var búinn að vera undirgefinn í gegnum alla listasöguna, allt í einu fór hann að vera með kjaft. Síðan finnst mér spennan milli raunveruleikans og sviðsetninga mjög spennandi.

Finnst þér myndlistin þá raunverulegri heldur en leiklistin eða tónlistin?

„Myndlistin er rosalega raunveruleg. Marcel Duchamp breytti öllum forsendum og það getur enginn gert listaverk í dag án þess að vera undir áhrifum frá honum. Hans verk í einhverjum leik fór að setja allt í eitthvað samhengi. Hann vildi fyrst og fremst gera eitthvað sem honum fannst skemmtilegt. Það var hans hvati. Ég leyfi mér líka að gera það. Það er eitthvað sem myndlistin hefur, það er erfitt að segja hvað það er nákvæmlega en hún er á einhvern hátt raunverulegri en aðrar listgreinar.“

Þú hefur samt sagt að þú tryðir ekki á sannleika listarinnar. Er það rétt?

„Ha, sagði ég að ég tryði ekki á sannleika listarinnar? Ég trúi nefnilega svo geðveikt á sannleika listarinnar. Listin er svo raunveruleg og hún er sannleikur. Þetta hlítur að hafa verið tekið úr samhengi. Mér finnst lygin líka svo heillandi sannleikur. Hvernig við ljúgum að okkur sjálfum. Ég lýg ógeðslega mikið að sjálfum mér og þannig er ég sannur í minni myndlist.“

Nú eru verkin þín hlaðin trega og húmor, endurtekningu og kaldhæðni, léttleika og mikilfengleika, lífi og dauða. Finnst þér gott að hugsa í andstæðum?

„Þessar andstæður mynda alltaf dramatíska spennu. Gott dæmi um andstæðuverk er Stúka Hitlers frá árinu 2006, þar sem ég er að vinna með harm og mesta viðbjóð mannkynssögunnar. Ég hringdi í Helga Björns. Hann útvegaði mér einkastúku úr leikhúsinu Admiralspalast í Berlín sem smíðuð var fyrir Hitler árið 1941 og til stóð að rífa. Allt í einu er stúkan orðið geðveikt hversdagsleg og tengd við okkur Helga Björns. Meinlaust á móti því hræðilegasta sem hefur gerst í mannkynssögunni. Það finnst mér magnað. Ég er mjög ánægður með það verk og hvernig þessi element smella þar saman.

Hvað getur þú sagt lesendum artzine um titil sýningarinnar: Guð, hvað mér líður illa. Hvaðan kemur titillinn?

„Titillinn er heiti á teikningu eftir mig frá árinu 2008. Ég hitti manninn sem á hana á kaffihúsi og þá mundi ég svo geðveikt eftir þessari teikningu.“

Leið þér þá illa þegar þú gerðir þessa teikningu?

„Já, mér leið alveg rosalega illa þegar ég gerði hana.“

Ertu oft að vinna með tilfinningar og eigin líðan?

„Já, ég vinn rosalega mikið með tilfinningar. Ég leyfi mér að leika mér með tilfinningar. Ég er alinn upp með fólki í leikhúsinu, sem er alltaf að manipulera tilfinningar. Fólk í leikhúsinu er alltaf að ná fram tilfinningum með brögðum og mér finnst það mjög heillandi. Tilfinningar og trix, mér finnst það mjög spennandi fyrirbæri.“

Elsta verkið á sýningunni er serían Trúnaður sem Ragnar vann með Magnúsi Sigurðarsyni listamanni og vini árið 2004. Ragnar talar um Magnús sem mikinn áhrifavald.

„Mér finnst svo gaman að elsta verkið á sýningunni er verkið Trúnaður, sem ég vann með Magnúsi Sigurðarsyni. Það er ótrulega mikið af elementum í því verki sem birtast síðar í öðrum verkum. Magnús er svo stórkostlegur listamaður og ég hef fengið svo mikið af minni sýn frá honum. Hann hefur haft alveg svakalega mikil áhrif á mig sem listamann.“

Það virðist einmitt sem ákveðinn rauður þráður liggi í gegnum verkin og á milli þeirra sé samtal. Ertu alltaf að fást við sömu stefin eða eru verkin sprottin af ólíkum toga?

„Ég held að ég sé alltaf að fást við sömu stefin. Mér finnst ég eiginlega alltaf vera að gera sama verkið. Ég veit ekki um neinn listamann sem er ekki alltaf að gera sama verkið“, segir Ragnar og hlær!

Það væri hægt að líkja sumum verkum þínum við súrrealíska drauma. Þau eru draumkennd, ljóðræn eða írónísk, einlæg og grípandi. Áhorfendur hafa orðið fyrir sterkum hughrifum, eins og vellíðan, forvitni, sorg, gleði og mikilfengleika.

„Þau eru draumkennd en ég hef aldrei haft gaman að súrrealisma og ég hef aldrei haft gaman af ímyndunaraflinu.“

En þú ert greinilega með mjög frjótt ímyndunarafl!

„Mér finnst ég ekki vera með frjótt ímyndunarafl. Mér finnst ég frekar vera með uppskrift af ímyndunarafli og í raun er ég alltaf að setja saman einhver element úr menningu okkar.“

En hvernig líður þér sem listamanni þegar þú getur með verkum þínum haft þessi miklu áhrif á fólk?

„Mjög vel en ég passa mig að vera ekki að gera alltaf verk sem ganga út á það. Stundum gerist það óvart og það er gaman. Í öðrum verkum er það einhver allt önnur tilfinning sem ræður ríkjum. Ég passa mig að hugsa ekki of mikið um hvernig áhrif verkið mun hafa á áhorfandann. Ég verð sjálfur fyrir miklum áhrifum frá allra handanna list í kringum mig. Stærstu áhrifin og upplifun mín á listaverki var þegar ég sá Merde d´Artista dósina eftir Manzoni. Tíminn og dauðinn er svo magnaður í þessu verki. Þetta hefur haft mikil áhrif á mig og það eru alls konar verk sem hafa haft djúp áhrif á mig.“

Þú hefur sagt að þú haldir í raun að eina sanna listin felist í því að njóta listar.

„Já, ég held að ég hafi sagt það. Þá er ég bara að leggja áherslu á það að það að njóta listar er svo geðveikt gaman.“

Lítur þú á listsköpun og listupplifun sem einskonar heilun fyrir listunnendur og listamenn?

„Já, algerlega. Friðrik mikli Prússakonungur, hann trúði ekki á Guð, hann trúði á listina. “

Trúir þú á Guð eða trúir þú á listina?

„Ég held ég trúi bara á listina.“

En þú ávarpar Guð í titli sýningarinnar.

„Ég trúði einu sinni alltaf á Guð. Kannski ekki lengur. Meira á listina því hún er svo rosalega mannleg.“

Í fréttatilkynningu er talað um að Heimsljós – líf og dauði listamanns frá árinu 2015 sé eitt mikilvægra verka á sýningunni. Hvað getur þú sagt mér um þetta fjögurra rása myndbandsverk?

„Verkið er tilraun og í raun yfirlýsing um að taka skáldsögu og gera stórt kúbískt málverk úr henni. Skáldsagan er í fjórum bindum. Hver skjár er ein bók og svo eru þær þarna saman í rúlettu, sulli af fegurðarþrá. Verkið er um fegurðarþrána. Heimsljós er um fegurðarþrána og við erum að reyna að spegla Heimsljós. Þetta er allt um að þrá að gera eitthvað fallegt en takast það ekki og absurdítetið, fáránleikann við að vera að reyna að leika þessa bók. Allt eru þetta listamenn að spegla listaverk sem er skrifað af manni sem er að reyna að spegla listamann sem er að hugsa um listina. Magnús H.J. Magnússon var ógæfupési á Vestfjörðum um aldarmótin 1900 sem skrifaði dagbækur og langaði að spegla fegurðina í kringum sig. Laxness hreifst af dagbókum hans og gerði þetta mikla skáldverk um listamanninn sem er að reyna að endurspegla fegurðina. Fegurðarþráin étur upp líf hans. Nú er ég að reyna að endurspegla þessa fegurðarþrá. Ég lít á þetta sem endurspeglun á endurspeglun á endurspeglun.“

Lestu mikið?

„Já, ég les frekar mikið. Ég er bókaormur en les hægt. Heimsljós er mitt helsta trúarrit í þessum húmanisma. Ég dýrka þessa bók og ég held að fá listaverk hafi haft meiri áhrif á mig en Heimsljós. Þetta er mín leið til að reyna að endurspegla þetta verk. Þetta byrjaði sem gjörningur í Vínarborg. Lokaniðurstaðan er kúbískt málverk um Heimsljós því kúbisminn gengur út á að sýna hlutina frá mörgum hliðum samtímis. Það er engin söguþráður í þessu og kvikmyndin sem slík varð aldrei til.“

Þú ert mjög duglegur að fá fólk með þér í lið, aðra skapandi listamenn, vini og samstarfsfólk. Finnst þér gefandi að vinna með fólki?

„Mér finnst það bara rosalega gaman. Það felast í því mjög uppbyggileg og skemmtileg mannleg samskipti, það að hafa samband við fólk útaf listinni. Það er mjög gefandi. Kona í e-moll varð til í borginni Detroit því ég var forvitinn um tónlistarsenuna þar. Það er svo mikið af konum í tónlistarsenunni í Detroit. Þetta verk var í raun um Detroit í upphafi og tilvitnun í Motown. Ég kynntist borginni og tónlistarsenunni í gegnum verkið og konunum sem komu og tóku þátt.“

Er ekkert erfitt að fá fólk til að taka þátt í þessum gjörningum?

„Við auglýstum og það gekk mjög vel. Ég held að fólk hafi bara verið forvitið og langað að prófa. Það er hægt að gera margt leiðinlegra en að taka þátt í listaverki. Ég er ófeiminn við að spyrja fólk og reynslan sýnir að fólk sem hefur tekið þátt í þessum verkum er ánægt og það hefur haft rosalega jákvæð áhrif á það. Ég hef aldrei lent í því að neinn sé óhamingjusamur að pína sig í gegnum verkin. Þetta snýst ótrúlega mikið um ánægju. Það að vinna listina af ánægju, avec plaisir!“

Með aukinni viðurkenningu og velgengni kemur aukin pressa. Hvernig finnst þér að vinna undir álaginu sem fylgir því að vera viðurkenndur og heimsfrægur listamaður?

„Það er mjög skrítið að vera búinn að gera verk sem fólk skilur. Þú ert búinn að sanna þig fyrir sjálfum þér.“

Gengur þetta allt út á að sanna sig fyrir sjálfum sér?

„Þetta er allt öðruvísi en fyrir tíu árum þegar maður var bara að byrja. Maður byrjar í listinni í einhverri mótspyrnu. Eins og það sem við vorum að tala um varðandi Duchamp. Maður byrjar í andstöðu við eitthvað sem manni finnst leiðinlegt og maður er að reyna að gera eitthvað sem er öðruvísi. Allt í einu er það sem maður er að gera orðið viðurkennt og það er smá skrítið. Nú er ég orðinn stofnun. Ég er búinn að sanna mig og nú get ég bara verið myndlistarmaður. Ég er farinn að vinna út frá því að vera listamaður en ekki að pósa sem listamaður. Ég hef alltaf haft einhvern sturlaðan metnað sem er bæði galli og kostur. Stóri munurinn er að ég talaði alltaf eins og ég væri ekki listamaður. Mér fannst ég aldrei vera listamaður. Núna finnst mér ég geta sagt að ég sé myndlistarmaður. Það er mjög stórt skref fyrir mig.

Margir að mínum uppáhalds listamönnum hafa ekki þessa brennandi þörf fyrir viðurkenningu sem ég hef en þessi þörf hefur verið svo mikill drifkraftur. Listin er hluti af mér.“

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Daníel Magnússon

Ljósmyndir frá opnun og af titilverki: H.Ó.

Frekari upplýsingar: i8.is / www.luhringaugustine.com/artists/ragnar-kjartansson /  http://listasafnreykjavikur.is/syningar/ragnar-kjartansson-gud-hvad-mer-lidur-illa

UA-76827897-1