Blætismenning garðyrkjunnar

Blætismenning garðyrkjunnar

Blætismenning garðyrkjunnar

Brák Jónsdóttur kannar snertifleti blætismenningar og garðyrkju, manns og náttúru, sársauka og unaðar á sýningu sinni Dýpra (e. Deeper) sem haldin er í Ásmundarsal. Sýningin er bæði innandyra, á fyrstu hæð Ásmundarsalar, sem og verk utandyra. Odda Júlía Snorradóttir lýsir sýningunni skemmtilega í sýningarskránni, þar sem hún segir að Brák nálgist náttúruna í þeim tilgangi sem ögri hefðbundnum hugmyndum um hvernig menning og náttúra mætast.

Orðrétt segir Odda: „Í ferli listamannsins er jörðin í hlutverki þess undirgefna í leik þar sem garðyrkjumaðurinn gælir við mörk hennar. Leikvangurinn er skapaður á forsendum hins undirgefna en reglurnar eru settar af drottnaranum. Af ástríðu leitast listamaðurinn við að komast dýpra, dýpra í jörðina. Þetta valdatafl byggir á ábyrgð, nánd og virðingu sem felur í sér umhyggju í garð viðfangsins. Roðandi spenna myndast við leikinn þegar mörk beggja eru þanin til hins ýtrasta.“

Brák Jónsdóttir er fædd árið 1996. Hún útskrifaðist með BA gráðu úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2021. Verk hennar taka helst á sig form vídjóverks, bókverks, skúlptúrs og gjörnings, en nýverið hafa viðfangsefni hennar snúið að sambandi manneskju við náttúru. Í rannsóknum sínum nálgast hún kink og blæti og skoðar samband mannfólks og náttúrulegra kerfa á grundvelli yfirráða og undirgefni, fantasíu og femínisma.

Blaðamaður vefritsins skoðaði sýninguna með listakonunni í Ásmundarsal á dögunum og fékk svo í kjölfarið að heyra frá fyrstu hendi, allt um sýninguna.

„Það er sterkt samtal í myndlist í dag varðandi samband manns og náttúru og mér finnst mjög áhugavert að hugsa um það í myndlistinni. Ég fór að hugsa um hvað ég ætti að gera varðandi þetta og hverju ég hefði að bæta við þetta samtal. Þá fór ég að hugsa um hvernig ég tengi samband manns og náttúru, innilegustu sambönd sem hægt er að eiga að mínu mati. Að í ástinni líði manni eins og maður sé orðinn ein heild með einhverjum öðrum. Og það var niðurstaðan, að vilja skoða þetta samband í gegnum ást.“ segir Brák.

Brák er ánægð að fara þessa leið, hún segir að algengt sé að hugsa um endurnýtingu í þessu samhengi en að hún hafi viljað fara aðra leið. „Mér fannst áhugavert að tengja þetta við það sem við þekkjum milli tveggja manneskja, að fjalla um ástina og kynlíf, en mér fannst það samt ekki nógu skýrt. Þetta samband getur verið ótrúlega mismunandi hjá fólki, og mér fannst þetta því of vítt og fór að hugsa um blætismenningu eins og BDSM.“

Brák segir að þar séu skýrar reglur og allir búi til sitt umhverfi í kringum það. Hún segir að auðvitað geti það umhverfi verið mjög mismunandi, en það sem einkenni sé að byrjað er að setja skýr mörk og svo leiki fólk sér innan þess ramma.

Það var heillandi að skoða samband manns og náttúru innan þessa heims og hægt að styðjast við eitthvað eins og samþykki, mörk, nánd og allt tengt þessu verður svolítið ýkt. Ég notast við latex og leður sem er skemmtilegur efnisheimur. Í mínu ferli hugsa ég um efnisheima, mér finnst ég geta sett fram ákveðin form og efni og vitnað í menningu garðyrkju og menningu blætishneigðarinnar og set það tvennt saman. Í garðyrkju er samband, en í þessari sýningu er ég að reyna að búa til tengingar á milli manneskja og varpa því á það samband sem manneskjan á við jörðina. BDSM er svo fullkomið, því það eru svo skýrar línur þar, fullkomið öryggi og gott samtal.“ segir Brák.

Að mati Brákar er hugmyndin þó langt því frá að vera fullkomin og að hún gangi í raun og veru ekki upp. Það að fá beint samþykki frá jörðinni, segir hún að sé í raun og veru ekki hægt og því fari þetta samtal yfir í ákveðinn fantasíuheim, um hvað gæti orðið. „Ég er ekki að reyna að leysa neitt, heldur að ýja að einhverju sambandi sem gæti verið. Viðtökurnar hafa verið góðar, þetta er eitthvað sem margt fólk er að hugsa um, allavega minn vinahópur. Fólk hugsar um eignarhald á líkama sínum og jákvæða sýn á líkamann, sem ég kem líka inn á í þessari sýningu og mér finnst gaman að halda því samtali áfram.

Brák segir að náttúran og líkaminn sé svolítill útgangspunktar í sínum verkum. Hún segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hún vinni slíkt útilistaverk og að það sé skemmtilegt skref að taka. „Hugmyndin var að láta þetta tengjast, verkin tilheyra sama heimi, sama kafla og ósjálfrátt verður þetta sama sýning, í tveimur rýmum. Ég er að vinna að nokkrum verkefnum í þessu á sama þema, ég byrjaði í raun á því þegar ég útskrifaðist úr Listaháskólanum og ég er búin að gera nokkrar útfærslur af svona verkum. Þetta er skemmtilegt viðfangsefni og ég er ekki tilbúin að sleppa því.“ segir Brák að lokum.

Aron Ingi Guðmundsson


Ljósmyndir: Gunnar Bjarki

Handsaumaður fílabúningur fær uppreisn æru

Handsaumaður fílabúningur fær uppreisn æru

Handsaumaður fílabúningur fær uppreisn æru

Í Wind and Weather Window Gallery við Hverfisgötu í Reykjavík er þessa dagana sýning Unu Margrétar Árnadóttir sem nefnist Janúar/January. Undirritaður heyrði í Unu á dögunum og forvitnaðist um sýninguna og hana sjálfa sem listamann. Una segir að það hafi tekið hana svolítinn tíma að fatta að hún vildi verða myndlistarmaður. Hún segist ekki hafa verið dugleg að teikna þegar hún var yngri né hafi hún teiknað „fallega” eins og hún orðar það, en hins vegar hafi hún alltaf verið með mjög frjótt ímyndunarafl. „Einum of mikið eiginlega því að ég er t.d ógeðslega myrkfælin og sef ennþá með kveikt ljós ef ég er ein“ og bætir við að hún hafi þá næstum öll ljós í íbúðinni kveikt. „Mér hefur alltaf þótt gaman að skrifa og skrifaði mikið ljóð þegar ég var yngri. Ég og vinkonur mínar vorum líka svolítið að brasa við kvikmyndagerð. Það var boðið upp á námskeið í grunnskólanum mínum og í kjölfarið unnum við fjölmargar kvikmyndir um morðóðan glimmerhanska. Það kom meira að segja viðtal við okkur hjá Völu Matt í Á bakvið tjöldin“ segir Una og hlær.

Hún segist hafa ákveðið að halda beint út fyrir landsteinana eftir fornámið hér heima á Íslandi. Hún lærði í Svíþjóð og segir að fókusinn hennar á þeim tíma hafi verið á ljósmyndun sem miðil þannig að úr varð að hún tók Bachelor námið sitt í „Högskolan för fotografi“ í Gautaborg þar sem aðallega var einblínt á ljósmyndun í listrænu samhengi, en þess ber að geta að skóli þessi hefur nú sameinast Valand listaháskólanum. „Síðan tók ég meisaranámið mitt í Listaháskólanum í Malmö, en ég kunni mun betur við mig í Malmö og skólinn þar hentaði mér miklu betur. Ég upplifði miklu meira frelsi þar í eigin sköpun og þar var minni áhersla á einhverskonar tækni og hugmyndirnar einskorðuðust ekki við einhvern einn miðil.“ segir Una.

Að sögn Unu fær hún innblástur alls staðar að og í gegnum öll skilningarvitin allan liðlangan daginn. Hún segist fá innblástur úr öllu, sem geti verið ansi lýjandi og bætir hún við að það væri gott að geta stundum slökkt á innblæstrinum því hausinn fyllist reglulega og stíflist. „Það væri til dæmis gott að geta skellt sér í zumba tíma og upplifa zumba bara sem zumba tíma en ekki sem innblástur fyrir hin og þessi verk. Ætli ég fái ekki innblásturinn úr því að vera til og lifa, að vera lifandi fyrirbæri í þessum ótútskýranlega alheimi með allskonar lifandi og dautt í kringum mig.“ segir Una.

Sýning Unu í Wind and Weather Window Gallery ber titilinn Janúar og segir Una að fólk hafi eflaust lesið eitthvað í sýninguna út frá titlinum. Hún segir að nú sé kominn febrúar og sýningin sé enn föst í janúar sem sé hálf dapurlegt, en líka fyndið. Um er að ræða þrjá glugga sem mynda sýningarýmið, í minni gluggunum tveimur eru tvö stór prent eða límmiðar, annars vegar andlitið á Unu og hins vegar broskall. Una segist vera mjög hrifin af brosköllum, táknum og gif-um og segist nota það óspart í samskiptum við aðra og við að tjá sig á samfélagsmiðlum sem dæmi. „Margir eru viðkvæmir fyrir notkun á brosköllum og nota þá alls ekki eða ofhugsa það. Broskallinn sérstaklega er andlit sem flestir þekkja vel. Ef ég horfi lengi á hann og hugsa um hann í samhengi við alheiminn fer hann að verða svolítið yfirþyrmandi og óþægilegur.

Svo er það fíllinn, elsku kallinn, sem er í stærri glugganum. Hann á sér merkilega sögu, en hann lá úti heilan vetur í Höggmyndagarðinum í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur sem hluti af sýningunni „Ég hef fengið nóg”. Nú fær hann smá uppreisn æru í glugganum hjá Kathy. Hann er dálítið reffilegur með sig en sultuslakur þarna í stólnum. Útlegan hefur greinilega ekki gengið alveg fram af honum. En já fíllinn er í grunninn fílabúningur sem að ég handsaumaði, því ég hvorki á né kann á saumavél. Sem að var eftir á að hyggja miklu betra því það gefur honum meiri karakter. Ég tek það fram að ég hef enga reynslu af af saumamennsku. Ég saumaði hann eftir tilfinningu og notaði ekki snið. Og það er ómögulegt fyrir nokkurn mann að klæðast honum. En það er eitthvað einkennilegt við tóman fílabúninginn. Hann er bæði fíll og manneskja þrátt fyrir að vera hvorugt. Hugmyndin um fílabúning og að fílabúningar séu til yfir höfuð gefur okkur ýmsar hugmyndir um manninn og eðli hans. Og manninn í samhengi við náttúruna og tilveruna. Ætli maðurinn sé ekki frekar ringlaður? Eða kannski er ég bara ringluð.“ segir Una.

Að sögn Unu er það mjög gefandi að vera sífellt að ögra sjálfum sér og huganum. Það gefi manni líka ástæðu eða tilgang almennt samkvæmt henni. Það sem er mest gefandi að mati Unu er þegar hún finnur að fólk tengir við verkin sín, og að verkin opni fyrir eitthvað hjá fólki eða kveiki í einhverju, alveg sama hvað það er. „Kannski bara að þau kitli fólk á einhvern hátt. Ekki að þau skilji nákvæmlega hvaðan kitlið komi, bara að þau hreyfi við þeim á einhvern hátt, vekji eitthvað nýtt í þeim, það dugir mér. Ég þekki tilfinninguna sjálf, þegar ég sé verk sem ég fell fyrir. Það er svo góð tilfinning og gefur manni svo mikið. Það getur stundum liðið langur tími á milli þess sem maður sér verk sem maður fílar virkilega vel. Svo fílar maður nokkur verk mátulega vel inn á milli og enn fleiri alls ekki. En þetta er mjög skrýtinn heimur til að vinna í, ég upplifi þetta oft eins og að ég sé svífandi í þyngdarleysi í geimnum með ekkert haldreipi. Sem er mjög áhugaverð og spennandi tilfinning. En líka mjög hrikaleg.“ bætir Una við.

Una segir að hausinn á sér sé dálítið eins og þvottavél þegar sýning nálgast. Hún segir að öllu úir og grúir saman og svo fari smám saman að síast úr og verkin að taka á sig mynd. „Eins og ég talaði um hérna áðan að þá er ég stanslaust að og alltaf með fjölmargar hugmyndir að veltast um í mér. Allt í einu detta mér sáðfrumur í hug í þessu samhengi, svo sameinast þær hugmynd í formi eggs og úr verður eitthvað.“ Una verður vandræðaleg eftir þessa myndlíkingu og hlær, segir hana hræðilega og hryllir við tilhugsunina um hversu slæm hún sé. „En já fyrir sýningar tek ég svo gjarnan margar andvökunætur, en mér þykir langbest að vinna á nóttunni, það er einhver önnur orka í því.“ segir Una.

Samkvæmt Unu bauð Kathy Clark henni að sýna hjá sér, en Kathy stendur á bakvið rýmið Wind and Weather Window Gallery. Una segist vera henni þakklát fyrir það og segir það vera mjög ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til að sýna í glugganum hjá henni. „Þetta er ótrúlega flott framtak og mig minnir að Kathy hafi sagt að hún hafi verið með sýningarýmið í heil sex ár núna. Það er heilmikil vinna að standa á bakvið svona rými og aðdáunarvert. Hún er sjálf myndlistarmaður og þetta er auðvitað bara í sjálfboðavinnu, ekki borguð vinna. Fólk áttar sig oft ekki á því, það þarf mikinn metnað og ástríðu fyrir myndlist til þess að nenna að standa í þessu. Og að sjálfsögðu þolinmæði.“ segir Una.

Una segir að íslenska myndlistarsenan sé frekar lifandi og að margir séu að gera góða hluti. Alltaf séu nokkur listamannarekin rými í gangi, hvert með sína sérstöðu sem er gott upp á fjölbreytileikann að hennar mati. Að sögn Unu hefur Gerðarsafn hefur verið að gera góða hluti undanfarin ár en almennt finnst henni að söfnin mættu vera örlítið djarfari í sýningarvali. „Þetta á til að detta svolítið mikið í sama fólkið aftur og aftur, veit ekki alveg af hverju það er. Auðvitað ekki mikill peningur í boði svo að það er ef til vill hræðsla við að taka áhættur og kannski skiljanlega. Sequences líka mikilvæg hátíð upp fjölbreytileikann, því mjög margir sjá sýningarnar á þeirri hátíð og margir erlendir listamenn koma og taka þátt. Íslenska senan á það til að festast svolítið í sinni eigin búbblu.“ segir Una.

Í kjölfarið ræðum við um húmor og mikilvægi hans í list. Una segir að það sé alltaf einhverskonar húmor viðloðandi verkin sín. Persónulega þykir henni húmor mjög mikilvægt og merkilegt verkfæri í samhengi við myndlist sem gefi verkum oft hjartslátt og virkar sem einhverskonar tól til að tengja við áhorfendur. Hún segir að húmor geti verið margslunginn og birst á mismunandi hátt og geti t.d verið mjög tragískur. „En hann getur verið vandmeðfarinn, sem gerir hann áhugaverðan. Ég fjallaði akkurat svolítið um þetta í lokaritgerðinni minni í skólanum. Margir eru hræddir við húmor, þora ekki að taka eitthvað alvarlega ef að það er fyndið. Sem betur fer er það almennt ekki viðhorfið hér heima. Best er þegar hann dansar á línunni og þú getur ekki alveg sett fingur á hann.“ segir Una.

Talið berst að uppáhaldsverki sem hún hafi skapað og segir Una ansi erfitt að gera upp á milli. Hún segir þó að það séu nokkur sem standi upp úr, eins og rabarbara ljósmynda sería hennar „Endurtekin tilraun til þess að nálgast rabarbara” og einnig „I Hate Goodbyes” eða „Mér leiðast kveðjur” sem var tekið upp í yfirgefnum skemmtigarði í Berlín. „Þar sést ég syrgja fallna plast risaeðlu. Við þurftum að brjótast inn til að taka upp verkið eldsnemma um morgun, því það var bannað. Í miðjum klíðum mætti síðan brjálaður þýskur maður, einhverskonar vörður, í skítugum wifebeater bol með brjálaðan geltandi hund. Hann skipaði okkur að eyðileggja upptökuna en sem betur fer voru tvö minni á myndavélinni og manninum mínum tókst að fela það fyrir honum. Vá ég var að kúka á mig úr hræðslu við þennan hund. Eitthvað svona vesen fylgir gjarnan verkunum mínum, því ég á það til að flækja málin fyrir sjálfri mér.“ segir Una að lokum.

Aron Ingi Guðmundsson

Draumkennd augnablik saumuð saman við hversdagsleikann

Draumkennd augnablik saumuð saman við hversdagsleikann

Draumkennd augnablik saumuð saman við hversdagsleikann

Fyrsta einkasýning Loja Höskuldssonar, „Súper lókal“ er sýnd þessa dagana í Hverfisgalleríi, en Loji gekk í raðir listamanna gallerísins fyrr á árinu og verða hans hans áhugaverðu verk sýnd í galleríinu til 8. febrúar næstkomandi. Blaðamaður Artzine settist niður með Loja á dögunum og spurði hann út í vinnu sína og verk og hvað væri á döfinni.

Loji sem er þekktur tónlistarmaður, segist hafa byrjað að vinna útsaumsverk í kringum árið 2010 þegar hann stundaði nám við Listaháskóla Íslands. Að sögn Loja var hann á leið í tveggja vikna áfanga á Seyðisfirði og átti þá samtal við móðir sína um áhuga sinn á útsaumi þegar allar hans hugmyndir umturnuðust á einu augabragði. „Þegar ég var að segja mömmu frá hugmynd minni um útsaum þá rétti hún mér flosnál og var það eftirminnilegt augnablik. Þarna var ég kominn með verkfæri til að koma öllum mínum hugmyndum á framfæri og hefur þetta verið miðillinn minn síðan þá. Þetta var algjör köllun, en útaf hljómsveitarbröltinu í mér þá fór ég ekki að sinna þessu á fullu fyrr en árið 2018, þá byrjaði þetta af alvöru.“ segir Loji með blik í auga.

Samkvæmt Loja er húmor stór hluti af verkum hans og segir hann það afar gaman að hreyfa við fólki með því að láta það hlæja. „Þegar maður var í Listaháskólanum þá átti meiningin á bakvið verkin sem maður vann, að vera svo djúp og maður leitaði að einhverju sem var svo mikilfenglegt. En ég hef bara fundið að það hentar mér betur að vera á þessum nótum í staðinn fyrir að vera alvarlegur. Það er skemmtilegt að einhver fari í þetta ferðalag að rifja upp eitthvað sem var einu sinni til en er ekki lengur. Hlutirnir breytast og að fara aftur í tímann þegar hlutirnir voru eitthvað annað en í dag, það er þessi minning sem mér finnst vera heillandi. Ég vil ekki sjálfur vera fastur í fortíðinni, en á sama tíma þykir mér vænt um eitthvað sem var einu sinni sem þú færð ekki aftur og að það er gaman að geta fest það í einhverri mynd.“ segir Loji.

Súper lókal, installation view at Hverfisgallerí. Photo credits: Vigfús Birgisson. Courtesy of the artist and Hverfisgallerí.

Að sögn Loja er gefandi að fá einhverskonar viðbrögð fyrir verk sín og vinnu. Honum finnst mikilvægt að fólk skoði verk sín og að það skipti ekki öllu máli hvort þeim finnist þau flott eða fáranleg, mikilvægast sé að fá einhver viðbrögð. „Það er sennilega einhver persónuleg ástæða þess að ég sækist eftir að fá viðbrögð frá fólki, en ég vil vera heiðarlegur og viðurkenni það að það skiptir mig miklu máli. Áður fyrr var ég stressaður yfir hvort að fólki líkaði við verkin mín og ég skildi ekki hver ástæðan var ef það gerði það ekki. En núna snýst þetta um að koma verkunum út, vinna hart að einhverju og fagna svo. Ég fæ stundum komment frá vönum útsaumurum, þau taka myndirnar beint af veggnum og skoða fráganginn aftan á, það skiptir það mestu máli fyrir þeim, frekar en verkið sjálft. Þeim finnst frekar fyndið að sjá að ég noti spor á allt annan hátt en fólk gerir vanalega .En almennt ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð frá fólki, fólki finnst gaman að sjá hvað ég er að gera.“ segir Loji íbygginn á svip.

Talið berst að uppáhaldsverkum, vangaveltur sem undirritaður taldi vera erfitt fyrir Loja að segja til, þar sem verk listamanna eru oft líkt og afkomendur og erfitt reynist að gera upp á milli þeirra. En það var lítið um hik hjá Loja er kom að því að svara þessu. „Það er sennilega verk sem ég gerði árið 2018 og er af Hagkaupspoka, mér þykir afar vænt um það. Ég á þessa minningu um gamla Hagkaupspokann, sem var svo einföld og falleg hönnun og mig langaði að fá fólk með mér í það ferðalag, að fara aftur til þess tíma þegar þessi poki með appelsínugulu og svörtu röndunum var til. Það eru auðvitað plastpokar og rusl út um allt og ég á minningu um að vera í unglingavinnunni að reita arfa í runnum og það voru plastpokar í öllum runnum. Mér fannst líka fyndið að sauma út plastpoka, þannig að þetta er fyndið og fallegt að mínu mati. Í þessu verki blandaði ég ýmsum hugmyndum saman í hrærigraut og þar er líka fyrsti túlipaninn sem ég gerði. Ég hata hann því mér finnst hann svo ljótur, en í staðinn fyrir að rekja hann upp, þá leyfði ég honum að vera og gerði næsta og hann var enn ljótari. En síðan þá hefur túlípanafærnin mín lagast, þetta snýst bara um að prófa sig áfram og leyfa mistökunum að lifa, í stað þess að vera alltaf að rekja upp.“ segir Loji.

Pulsusinneps blómavasi með gleym-ér-ey og fífum, 2019, burlap og ull, 53,5 x 53,5 cm. Photo credits: Vigfús Birgisson. Courtesy of the artist and Hverfisgallerí.

Loji segist fá innblástur hér og þar, aðallega frá hversdagslegum hlutum, þar sem bætast við draumkennd og falleg augnablik. Eitt verka hans sýnir botnlausa ruslatunnu á staur, þar sem ruslið hefur fallið til jarðar fyrir neðan hana. Loji segir að innblásturinn að því verki sem búðarferð sem hann fór í til að versla sér miðnæturnasl og á vegi hans varð þessi ruslatunna. „Svo snýst þetta líka um eitthvað íslenskt, t.d. um eitthvað blóm sem maður á í hjartanu sínu. Annað dæmi er þegar ég sótti fótbolta sem hafði verið sparkað yfir í garð á fótboltamóti sem ég tók þátt í. Ég var varamaður og var sendur að sækja boltann og þurfti að banka upp á hjá eiganda garðsins. Ég stóð þarna á fertugsaldri og spurði manninn sem kom til dyra hvort ég mætti ná í boltann en hann var ekkert alltof sáttur, sennilega mjög vanur ónæði sem þessu. En hann hleypti mér í garðinn og þetta var fallegasti garður sem ég hef nokkurn tímann séð. Það var einn bolti í tjörn þarna, þetta var mjög fallegt augnablik og eftirminnilegt augnablik og þar varð til hugmynd að mynd af bolta í garði.“ segir Loji og hlær.

Samkvæmt Loja hefur hann ekki farið á nein námskeið er útsaum varðar og segir hann að verk sín hafa batnað til muna eftir að hafa fengið góð ráð og hjálp frá móður sinni. „Ég man að ég var að gera mynd sem átti að vera með gulum og grænum baunum. Mamma horfði á mig gera þessar klunnalegu baunir og spurði hvað ég væri eiginlega að gera. Og hún stakk upp á að ég myndi nota fræhnút og hún kenndi mér að gera það. Þegar þú ert búinn með þennan hnút þá verður eftir kúla á striganum og þetta kveikti allskonar hugmyndir hjá mér, þá gat ég farið að gera t.d. Reynitré, eitthvað sem mig hafði alltaf langað til að gera. Þarna fattaði ég að ég ætti bara að spyrja mömmu ef ég lenti í vandræðum.“ segir Loji.

Loji segir að það sé ekki mikið á döfinni hjá sér og er feginn að svo sé ekki. Hann segir að síðastliðin tvö ár hafi verið mikið að gera og hann hafi stanslaust verið að vinna verk innan ákveðinna tímamarka, áður en sýningar hófust, en er feginn að vera ekki að eltast við það þessa dagana. „Það er ekkert planað hjá mér núna, síðastliðin tvö ár hefur verið talsverð pressa að klára verk fyrir þessa eða hina sýningu. En á árinu 2020 þá býður mín ekkert, sem er góð tilfinning. Ég hef til dæmis ekki haft tíma til að velta fyrir mér hvað ég gæti gert nýtt, en núna gefst tími til að anda og pæla og það er sem sagt það sem er á döfinni, að anda og pæla.“ segir Loji að lokum.

 

Aron Ingi Guðmundsson

 

Cover picture: Skólagarður, 2019, burlap og ull, 63 x 93 cm. Photo credits: Vigfús Birgisson. Courtesy of the artist and Hverfisgallerí.  

https://hverfisgalleri.is/exhibition/super-lokal/

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest