Handsaumaður fílabúningur fær uppreisn æru
Í Wind and Weather Window Gallery við Hverfisgötu í Reykjavík er þessa dagana sýning Unu Margrétar Árnadóttir sem nefnist Janúar/January. Undirritaður heyrði í Unu á dögunum og forvitnaðist um sýninguna og hana sjálfa sem listamann. Una segir að það hafi tekið hana svolítinn tíma að fatta að hún vildi verða myndlistarmaður. Hún segist ekki hafa verið dugleg að teikna þegar hún var yngri né hafi hún teiknað „fallega” eins og hún orðar það, en hins vegar hafi hún alltaf verið með mjög frjótt ímyndunarafl. „Einum of mikið eiginlega því að ég er t.d ógeðslega myrkfælin og sef ennþá með kveikt ljós ef ég er ein“ og bætir við að hún hafi þá næstum öll ljós í íbúðinni kveikt. „Mér hefur alltaf þótt gaman að skrifa og skrifaði mikið ljóð þegar ég var yngri. Ég og vinkonur mínar vorum líka svolítið að brasa við kvikmyndagerð. Það var boðið upp á námskeið í grunnskólanum mínum og í kjölfarið unnum við fjölmargar kvikmyndir um morðóðan glimmerhanska. Það kom meira að segja viðtal við okkur hjá Völu Matt í Á bakvið tjöldin“ segir Una og hlær.
Hún segist hafa ákveðið að halda beint út fyrir landsteinana eftir fornámið hér heima á Íslandi. Hún lærði í Svíþjóð og segir að fókusinn hennar á þeim tíma hafi verið á ljósmyndun sem miðil þannig að úr varð að hún tók Bachelor námið sitt í „Högskolan för fotografi“ í Gautaborg þar sem aðallega var einblínt á ljósmyndun í listrænu samhengi, en þess ber að geta að skóli þessi hefur nú sameinast Valand listaháskólanum. „Síðan tók ég meisaranámið mitt í Listaháskólanum í Malmö, en ég kunni mun betur við mig í Malmö og skólinn þar hentaði mér miklu betur. Ég upplifði miklu meira frelsi þar í eigin sköpun og þar var minni áhersla á einhverskonar tækni og hugmyndirnar einskorðuðust ekki við einhvern einn miðil.“ segir Una.
Að sögn Unu fær hún innblástur alls staðar að og í gegnum öll skilningarvitin allan liðlangan daginn. Hún segist fá innblástur úr öllu, sem geti verið ansi lýjandi og bætir hún við að það væri gott að geta stundum slökkt á innblæstrinum því hausinn fyllist reglulega og stíflist. „Það væri til dæmis gott að geta skellt sér í zumba tíma og upplifa zumba bara sem zumba tíma en ekki sem innblástur fyrir hin og þessi verk. Ætli ég fái ekki innblásturinn úr því að vera til og lifa, að vera lifandi fyrirbæri í þessum ótútskýranlega alheimi með allskonar lifandi og dautt í kringum mig.“ segir Una.
Sýning Unu í Wind and Weather Window Gallery ber titilinn Janúar og segir Una að fólk hafi eflaust lesið eitthvað í sýninguna út frá titlinum. Hún segir að nú sé kominn febrúar og sýningin sé enn föst í janúar sem sé hálf dapurlegt, en líka fyndið. Um er að ræða þrjá glugga sem mynda sýningarýmið, í minni gluggunum tveimur eru tvö stór prent eða límmiðar, annars vegar andlitið á Unu og hins vegar broskall. Una segist vera mjög hrifin af brosköllum, táknum og gif-um og segist nota það óspart í samskiptum við aðra og við að tjá sig á samfélagsmiðlum sem dæmi. „Margir eru viðkvæmir fyrir notkun á brosköllum og nota þá alls ekki eða ofhugsa það. Broskallinn sérstaklega er andlit sem flestir þekkja vel. Ef ég horfi lengi á hann og hugsa um hann í samhengi við alheiminn fer hann að verða svolítið yfirþyrmandi og óþægilegur.
Svo er það fíllinn, elsku kallinn, sem er í stærri glugganum. Hann á sér merkilega sögu, en hann lá úti heilan vetur í Höggmyndagarðinum í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur sem hluti af sýningunni „Ég hef fengið nóg”. Nú fær hann smá uppreisn æru í glugganum hjá Kathy. Hann er dálítið reffilegur með sig en sultuslakur þarna í stólnum. Útlegan hefur greinilega ekki gengið alveg fram af honum. En já fíllinn er í grunninn fílabúningur sem að ég handsaumaði, því ég hvorki á né kann á saumavél. Sem að var eftir á að hyggja miklu betra því það gefur honum meiri karakter. Ég tek það fram að ég hef enga reynslu af af saumamennsku. Ég saumaði hann eftir tilfinningu og notaði ekki snið. Og það er ómögulegt fyrir nokkurn mann að klæðast honum. En það er eitthvað einkennilegt við tóman fílabúninginn. Hann er bæði fíll og manneskja þrátt fyrir að vera hvorugt. Hugmyndin um fílabúning og að fílabúningar séu til yfir höfuð gefur okkur ýmsar hugmyndir um manninn og eðli hans. Og manninn í samhengi við náttúruna og tilveruna. Ætli maðurinn sé ekki frekar ringlaður? Eða kannski er ég bara ringluð.“ segir Una.
Að sögn Unu er það mjög gefandi að vera sífellt að ögra sjálfum sér og huganum. Það gefi manni líka ástæðu eða tilgang almennt samkvæmt henni. Það sem er mest gefandi að mati Unu er þegar hún finnur að fólk tengir við verkin sín, og að verkin opni fyrir eitthvað hjá fólki eða kveiki í einhverju, alveg sama hvað það er. „Kannski bara að þau kitli fólk á einhvern hátt. Ekki að þau skilji nákvæmlega hvaðan kitlið komi, bara að þau hreyfi við þeim á einhvern hátt, vekji eitthvað nýtt í þeim, það dugir mér. Ég þekki tilfinninguna sjálf, þegar ég sé verk sem ég fell fyrir. Það er svo góð tilfinning og gefur manni svo mikið. Það getur stundum liðið langur tími á milli þess sem maður sér verk sem maður fílar virkilega vel. Svo fílar maður nokkur verk mátulega vel inn á milli og enn fleiri alls ekki. En þetta er mjög skrýtinn heimur til að vinna í, ég upplifi þetta oft eins og að ég sé svífandi í þyngdarleysi í geimnum með ekkert haldreipi. Sem er mjög áhugaverð og spennandi tilfinning. En líka mjög hrikaleg.“ bætir Una við.
Una segir að hausinn á sér sé dálítið eins og þvottavél þegar sýning nálgast. Hún segir að öllu úir og grúir saman og svo fari smám saman að síast úr og verkin að taka á sig mynd. „Eins og ég talaði um hérna áðan að þá er ég stanslaust að og alltaf með fjölmargar hugmyndir að veltast um í mér. Allt í einu detta mér sáðfrumur í hug í þessu samhengi, svo sameinast þær hugmynd í formi eggs og úr verður eitthvað.“ Una verður vandræðaleg eftir þessa myndlíkingu og hlær, segir hana hræðilega og hryllir við tilhugsunina um hversu slæm hún sé. „En já fyrir sýningar tek ég svo gjarnan margar andvökunætur, en mér þykir langbest að vinna á nóttunni, það er einhver önnur orka í því.“ segir Una.
Samkvæmt Unu bauð Kathy Clark henni að sýna hjá sér, en Kathy stendur á bakvið rýmið Wind and Weather Window Gallery. Una segist vera henni þakklát fyrir það og segir það vera mjög ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til að sýna í glugganum hjá henni. „Þetta er ótrúlega flott framtak og mig minnir að Kathy hafi sagt að hún hafi verið með sýningarýmið í heil sex ár núna. Það er heilmikil vinna að standa á bakvið svona rými og aðdáunarvert. Hún er sjálf myndlistarmaður og þetta er auðvitað bara í sjálfboðavinnu, ekki borguð vinna. Fólk áttar sig oft ekki á því, það þarf mikinn metnað og ástríðu fyrir myndlist til þess að nenna að standa í þessu. Og að sjálfsögðu þolinmæði.“ segir Una.
Una segir að íslenska myndlistarsenan sé frekar lifandi og að margir séu að gera góða hluti. Alltaf séu nokkur listamannarekin rými í gangi, hvert með sína sérstöðu sem er gott upp á fjölbreytileikann að hennar mati. Að sögn Unu hefur Gerðarsafn hefur verið að gera góða hluti undanfarin ár en almennt finnst henni að söfnin mættu vera örlítið djarfari í sýningarvali. „Þetta á til að detta svolítið mikið í sama fólkið aftur og aftur, veit ekki alveg af hverju það er. Auðvitað ekki mikill peningur í boði svo að það er ef til vill hræðsla við að taka áhættur og kannski skiljanlega. Sequences líka mikilvæg hátíð upp fjölbreytileikann, því mjög margir sjá sýningarnar á þeirri hátíð og margir erlendir listamenn koma og taka þátt. Íslenska senan á það til að festast svolítið í sinni eigin búbblu.“ segir Una.
Í kjölfarið ræðum við um húmor og mikilvægi hans í list. Una segir að það sé alltaf einhverskonar húmor viðloðandi verkin sín. Persónulega þykir henni húmor mjög mikilvægt og merkilegt verkfæri í samhengi við myndlist sem gefi verkum oft hjartslátt og virkar sem einhverskonar tól til að tengja við áhorfendur. Hún segir að húmor geti verið margslunginn og birst á mismunandi hátt og geti t.d verið mjög tragískur. „En hann getur verið vandmeðfarinn, sem gerir hann áhugaverðan. Ég fjallaði akkurat svolítið um þetta í lokaritgerðinni minni í skólanum. Margir eru hræddir við húmor, þora ekki að taka eitthvað alvarlega ef að það er fyndið. Sem betur fer er það almennt ekki viðhorfið hér heima. Best er þegar hann dansar á línunni og þú getur ekki alveg sett fingur á hann.“ segir Una.
Talið berst að uppáhaldsverki sem hún hafi skapað og segir Una ansi erfitt að gera upp á milli. Hún segir þó að það séu nokkur sem standi upp úr, eins og rabarbara ljósmynda sería hennar „Endurtekin tilraun til þess að nálgast rabarbara” og einnig „I Hate Goodbyes” eða „Mér leiðast kveðjur” sem var tekið upp í yfirgefnum skemmtigarði í Berlín. „Þar sést ég syrgja fallna plast risaeðlu. Við þurftum að brjótast inn til að taka upp verkið eldsnemma um morgun, því það var bannað. Í miðjum klíðum mætti síðan brjálaður þýskur maður, einhverskonar vörður, í skítugum wifebeater bol með brjálaðan geltandi hund. Hann skipaði okkur að eyðileggja upptökuna en sem betur fer voru tvö minni á myndavélinni og manninum mínum tókst að fela það fyrir honum. Vá ég var að kúka á mig úr hræðslu við þennan hund. Eitthvað svona vesen fylgir gjarnan verkunum mínum, því ég á það til að flækja málin fyrir sjálfri mér.“ segir Una að lokum.
Aron Ingi Guðmundsson