Draumkennd augnablik saumuð saman við hversdagsleikann

5.02. 2020 | Umfjöllun

Fyrsta einkasýning Loja Höskuldssonar, „Súper lókal“ er sýnd þessa dagana í Hverfisgalleríi, en Loji gekk í raðir listamanna gallerísins fyrr á árinu og verða hans hans áhugaverðu verk sýnd í galleríinu til 8. febrúar næstkomandi. Blaðamaður Artzine settist niður með Loja á dögunum og spurði hann út í vinnu sína og verk og hvað væri á döfinni.

Loji sem er þekktur tónlistarmaður, segist hafa byrjað að vinna útsaumsverk í kringum árið 2010 þegar hann stundaði nám við Listaháskóla Íslands. Að sögn Loja var hann á leið í tveggja vikna áfanga á Seyðisfirði og átti þá samtal við móðir sína um áhuga sinn á útsaumi þegar allar hans hugmyndir umturnuðust á einu augabragði. „Þegar ég var að segja mömmu frá hugmynd minni um útsaum þá rétti hún mér flosnál og var það eftirminnilegt augnablik. Þarna var ég kominn með verkfæri til að koma öllum mínum hugmyndum á framfæri og hefur þetta verið miðillinn minn síðan þá. Þetta var algjör köllun, en útaf hljómsveitarbröltinu í mér þá fór ég ekki að sinna þessu á fullu fyrr en árið 2018, þá byrjaði þetta af alvöru.“ segir Loji með blik í auga.

Samkvæmt Loja er húmor stór hluti af verkum hans og segir hann það afar gaman að hreyfa við fólki með því að láta það hlæja. „Þegar maður var í Listaháskólanum þá átti meiningin á bakvið verkin sem maður vann, að vera svo djúp og maður leitaði að einhverju sem var svo mikilfenglegt. En ég hef bara fundið að það hentar mér betur að vera á þessum nótum í staðinn fyrir að vera alvarlegur. Það er skemmtilegt að einhver fari í þetta ferðalag að rifja upp eitthvað sem var einu sinni til en er ekki lengur. Hlutirnir breytast og að fara aftur í tímann þegar hlutirnir voru eitthvað annað en í dag, það er þessi minning sem mér finnst vera heillandi. Ég vil ekki sjálfur vera fastur í fortíðinni, en á sama tíma þykir mér vænt um eitthvað sem var einu sinni sem þú færð ekki aftur og að það er gaman að geta fest það í einhverri mynd.“ segir Loji.

Súper lókal, installation view at Hverfisgallerí. Photo credits: Vigfús Birgisson. Courtesy of the artist and Hverfisgallerí.

Að sögn Loja er gefandi að fá einhverskonar viðbrögð fyrir verk sín og vinnu. Honum finnst mikilvægt að fólk skoði verk sín og að það skipti ekki öllu máli hvort þeim finnist þau flott eða fáranleg, mikilvægast sé að fá einhver viðbrögð. „Það er sennilega einhver persónuleg ástæða þess að ég sækist eftir að fá viðbrögð frá fólki, en ég vil vera heiðarlegur og viðurkenni það að það skiptir mig miklu máli. Áður fyrr var ég stressaður yfir hvort að fólki líkaði við verkin mín og ég skildi ekki hver ástæðan var ef það gerði það ekki. En núna snýst þetta um að koma verkunum út, vinna hart að einhverju og fagna svo. Ég fæ stundum komment frá vönum útsaumurum, þau taka myndirnar beint af veggnum og skoða fráganginn aftan á, það skiptir það mestu máli fyrir þeim, frekar en verkið sjálft. Þeim finnst frekar fyndið að sjá að ég noti spor á allt annan hátt en fólk gerir vanalega .En almennt ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð frá fólki, fólki finnst gaman að sjá hvað ég er að gera.“ segir Loji íbygginn á svip.

Talið berst að uppáhaldsverkum, vangaveltur sem undirritaður taldi vera erfitt fyrir Loja að segja til, þar sem verk listamanna eru oft líkt og afkomendur og erfitt reynist að gera upp á milli þeirra. En það var lítið um hik hjá Loja er kom að því að svara þessu. „Það er sennilega verk sem ég gerði árið 2018 og er af Hagkaupspoka, mér þykir afar vænt um það. Ég á þessa minningu um gamla Hagkaupspokann, sem var svo einföld og falleg hönnun og mig langaði að fá fólk með mér í það ferðalag, að fara aftur til þess tíma þegar þessi poki með appelsínugulu og svörtu röndunum var til. Það eru auðvitað plastpokar og rusl út um allt og ég á minningu um að vera í unglingavinnunni að reita arfa í runnum og það voru plastpokar í öllum runnum. Mér fannst líka fyndið að sauma út plastpoka, þannig að þetta er fyndið og fallegt að mínu mati. Í þessu verki blandaði ég ýmsum hugmyndum saman í hrærigraut og þar er líka fyrsti túlipaninn sem ég gerði. Ég hata hann því mér finnst hann svo ljótur, en í staðinn fyrir að rekja hann upp, þá leyfði ég honum að vera og gerði næsta og hann var enn ljótari. En síðan þá hefur túlípanafærnin mín lagast, þetta snýst bara um að prófa sig áfram og leyfa mistökunum að lifa, í stað þess að vera alltaf að rekja upp.“ segir Loji.

Pulsusinneps blómavasi með gleym-ér-ey og fífum, 2019, burlap og ull, 53,5 x 53,5 cm. Photo credits: Vigfús Birgisson. Courtesy of the artist and Hverfisgallerí.

Loji segist fá innblástur hér og þar, aðallega frá hversdagslegum hlutum, þar sem bætast við draumkennd og falleg augnablik. Eitt verka hans sýnir botnlausa ruslatunnu á staur, þar sem ruslið hefur fallið til jarðar fyrir neðan hana. Loji segir að innblásturinn að því verki sem búðarferð sem hann fór í til að versla sér miðnæturnasl og á vegi hans varð þessi ruslatunna. „Svo snýst þetta líka um eitthvað íslenskt, t.d. um eitthvað blóm sem maður á í hjartanu sínu. Annað dæmi er þegar ég sótti fótbolta sem hafði verið sparkað yfir í garð á fótboltamóti sem ég tók þátt í. Ég var varamaður og var sendur að sækja boltann og þurfti að banka upp á hjá eiganda garðsins. Ég stóð þarna á fertugsaldri og spurði manninn sem kom til dyra hvort ég mætti ná í boltann en hann var ekkert alltof sáttur, sennilega mjög vanur ónæði sem þessu. En hann hleypti mér í garðinn og þetta var fallegasti garður sem ég hef nokkurn tímann séð. Það var einn bolti í tjörn þarna, þetta var mjög fallegt augnablik og eftirminnilegt augnablik og þar varð til hugmynd að mynd af bolta í garði.“ segir Loji og hlær.

Samkvæmt Loja hefur hann ekki farið á nein námskeið er útsaum varðar og segir hann að verk sín hafa batnað til muna eftir að hafa fengið góð ráð og hjálp frá móður sinni. „Ég man að ég var að gera mynd sem átti að vera með gulum og grænum baunum. Mamma horfði á mig gera þessar klunnalegu baunir og spurði hvað ég væri eiginlega að gera. Og hún stakk upp á að ég myndi nota fræhnút og hún kenndi mér að gera það. Þegar þú ert búinn með þennan hnút þá verður eftir kúla á striganum og þetta kveikti allskonar hugmyndir hjá mér, þá gat ég farið að gera t.d. Reynitré, eitthvað sem mig hafði alltaf langað til að gera. Þarna fattaði ég að ég ætti bara að spyrja mömmu ef ég lenti í vandræðum.“ segir Loji.

Loji segir að það sé ekki mikið á döfinni hjá sér og er feginn að svo sé ekki. Hann segir að síðastliðin tvö ár hafi verið mikið að gera og hann hafi stanslaust verið að vinna verk innan ákveðinna tímamarka, áður en sýningar hófust, en er feginn að vera ekki að eltast við það þessa dagana. „Það er ekkert planað hjá mér núna, síðastliðin tvö ár hefur verið talsverð pressa að klára verk fyrir þessa eða hina sýningu. En á árinu 2020 þá býður mín ekkert, sem er góð tilfinning. Ég hef til dæmis ekki haft tíma til að velta fyrir mér hvað ég gæti gert nýtt, en núna gefst tími til að anda og pæla og það er sem sagt það sem er á döfinni, að anda og pæla.“ segir Loji að lokum.

 

Aron Ingi Guðmundsson

 

Cover picture: Skólagarður, 2019, burlap og ull, 63 x 93 cm. Photo credits: Vigfús Birgisson. Courtesy of the artist and Hverfisgallerí.  

https://hverfisgalleri.is/exhibition/super-lokal/

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This