Blætismenning garðyrkjunnar

5.07. 2022 | Umfjöllun

Brák Jónsdóttur kannar snertifleti blætismenningar og garðyrkju, manns og náttúru, sársauka og unaðar á sýningu sinni Dýpra (e. Deeper) sem haldin er í Ásmundarsal. Sýningin er bæði innandyra, á fyrstu hæð Ásmundarsalar, sem og verk utandyra. Odda Júlía Snorradóttir lýsir sýningunni skemmtilega í sýningarskránni, þar sem hún segir að Brák nálgist náttúruna í þeim tilgangi sem ögri hefðbundnum hugmyndum um hvernig menning og náttúra mætast.

Orðrétt segir Odda: „Í ferli listamannsins er jörðin í hlutverki þess undirgefna í leik þar sem garðyrkjumaðurinn gælir við mörk hennar. Leikvangurinn er skapaður á forsendum hins undirgefna en reglurnar eru settar af drottnaranum. Af ástríðu leitast listamaðurinn við að komast dýpra, dýpra í jörðina. Þetta valdatafl byggir á ábyrgð, nánd og virðingu sem felur í sér umhyggju í garð viðfangsins. Roðandi spenna myndast við leikinn þegar mörk beggja eru þanin til hins ýtrasta.“

Brák Jónsdóttir er fædd árið 1996. Hún útskrifaðist með BA gráðu úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2021. Verk hennar taka helst á sig form vídjóverks, bókverks, skúlptúrs og gjörnings, en nýverið hafa viðfangsefni hennar snúið að sambandi manneskju við náttúru. Í rannsóknum sínum nálgast hún kink og blæti og skoðar samband mannfólks og náttúrulegra kerfa á grundvelli yfirráða og undirgefni, fantasíu og femínisma.

Blaðamaður vefritsins skoðaði sýninguna með listakonunni í Ásmundarsal á dögunum og fékk svo í kjölfarið að heyra frá fyrstu hendi, allt um sýninguna.

„Það er sterkt samtal í myndlist í dag varðandi samband manns og náttúru og mér finnst mjög áhugavert að hugsa um það í myndlistinni. Ég fór að hugsa um hvað ég ætti að gera varðandi þetta og hverju ég hefði að bæta við þetta samtal. Þá fór ég að hugsa um hvernig ég tengi samband manns og náttúru, innilegustu sambönd sem hægt er að eiga að mínu mati. Að í ástinni líði manni eins og maður sé orðinn ein heild með einhverjum öðrum. Og það var niðurstaðan, að vilja skoða þetta samband í gegnum ást.“ segir Brák.

Brák er ánægð að fara þessa leið, hún segir að algengt sé að hugsa um endurnýtingu í þessu samhengi en að hún hafi viljað fara aðra leið. „Mér fannst áhugavert að tengja þetta við það sem við þekkjum milli tveggja manneskja, að fjalla um ástina og kynlíf, en mér fannst það samt ekki nógu skýrt. Þetta samband getur verið ótrúlega mismunandi hjá fólki, og mér fannst þetta því of vítt og fór að hugsa um blætismenningu eins og BDSM.“

Brák segir að þar séu skýrar reglur og allir búi til sitt umhverfi í kringum það. Hún segir að auðvitað geti það umhverfi verið mjög mismunandi, en það sem einkenni sé að byrjað er að setja skýr mörk og svo leiki fólk sér innan þess ramma.

Það var heillandi að skoða samband manns og náttúru innan þessa heims og hægt að styðjast við eitthvað eins og samþykki, mörk, nánd og allt tengt þessu verður svolítið ýkt. Ég notast við latex og leður sem er skemmtilegur efnisheimur. Í mínu ferli hugsa ég um efnisheima, mér finnst ég geta sett fram ákveðin form og efni og vitnað í menningu garðyrkju og menningu blætishneigðarinnar og set það tvennt saman. Í garðyrkju er samband, en í þessari sýningu er ég að reyna að búa til tengingar á milli manneskja og varpa því á það samband sem manneskjan á við jörðina. BDSM er svo fullkomið, því það eru svo skýrar línur þar, fullkomið öryggi og gott samtal.“ segir Brák.

Að mati Brákar er hugmyndin þó langt því frá að vera fullkomin og að hún gangi í raun og veru ekki upp. Það að fá beint samþykki frá jörðinni, segir hún að sé í raun og veru ekki hægt og því fari þetta samtal yfir í ákveðinn fantasíuheim, um hvað gæti orðið. „Ég er ekki að reyna að leysa neitt, heldur að ýja að einhverju sambandi sem gæti verið. Viðtökurnar hafa verið góðar, þetta er eitthvað sem margt fólk er að hugsa um, allavega minn vinahópur. Fólk hugsar um eignarhald á líkama sínum og jákvæða sýn á líkamann, sem ég kem líka inn á í þessari sýningu og mér finnst gaman að halda því samtali áfram.

Brák segir að náttúran og líkaminn sé svolítill útgangspunktar í sínum verkum. Hún segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hún vinni slíkt útilistaverk og að það sé skemmtilegt skref að taka. „Hugmyndin var að láta þetta tengjast, verkin tilheyra sama heimi, sama kafla og ósjálfrátt verður þetta sama sýning, í tveimur rýmum. Ég er að vinna að nokkrum verkefnum í þessu á sama þema, ég byrjaði í raun á því þegar ég útskrifaðist úr Listaháskólanum og ég er búin að gera nokkrar útfærslur af svona verkum. Þetta er skemmtilegt viðfangsefni og ég er ekki tilbúin að sleppa því.“ segir Brák að lokum.

Aron Ingi Guðmundsson


Ljósmyndir: Gunnar Bjarki

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This