Í og við…þennan stað

Í og við…þennan stað

Í og við…þennan stað

Sýningarverkefnið STAÐIR / PLACES fer fram í þriðja sinn núna í ár á sunnanverðum Vestfjörðum. Verkefnið er í umsjón og framkvæmd myndlistarmannanna Evu Ísleifs og Þorgerðar Ólafsdóttur sem höfðu áhuga á að veita listamönnum tíma og umgjörð til að vinna að nýjum verkum og þróa í öðru umhverfi en þeir eru vanir að vinna í. Staðir skiptast í vinnustofudvöl og sýningar annað hvert ár þar sem listamönnum er boðið að dvelja og vinna að nýjum verkum áður en þeim er hrint í framkvæmd og sýnd að ári liðnu. Sýningarnar hafa verið árin 2014, 2016 og núna í þriðja sinn, 2018. Listamennirnir eru Hildigunnur Birgisdóttir, Gunndís Ýr Finnbogadóttir og Þorgerður Ólafsdóttir. Sýningarstjórn árið 2018  er í höndum Evu Ísleifs.

Sum verkanna eru varanleg útilistaverk og önnur tímabundin, en kjarni verkefnisins er að hvetja listamenn til að mynda tengingar við umhverfið og viðfang sitt. Margar áhugaverðar umræður hafa komið upp í þróun listaverkanna og þá má líta til sýninga fyrri ára. Spurningar sem flestir listamenn hafa velt fyrir sér er t.a.m. hlutverk sitt sem utanbæjarmaður en með innlegg inn í samfélagið og líta staðinn öðrum augum og sjá aðstæður og umhverfi í öðruvísi ljósi.

Staðir / Places opnaði 7. júlí síðastliðinn og hófst dagskráin klukkan 12 á hádegi á Flakkaranum við Brjánslæk og endaði rétt fyrir kl. 20 í Bakkadal i Arnarfirði. Fyrsta sýningin sem opnaði var með verkum eftir Hildigunni, 10 verk fyrir staðbundna nagla. Hugmyndin af verkunum er sprottin út frá sérstöku númerakerfi sem var til staðar þegar hún heimsótti Flakkarann fyrr á árinu. Bækurnar eru teiknibækur, mismunandi á litin, en form þeirra tákna tölustafina 1,2,3,4,5,6,7,8,9 og 10. Gestir geta tekið blað ef þeir vilja og jafnvel safnað öllum númerunum.

Verk Þorgerðar er unnið í kringum reglulegar ferðir og göngur landvarða að Surtarbrandsgili í Vatnsfirði sem er friðlýst náttúruvætti sökum mikils magn af steingervingum og surtarbrandi. Gestir sýningarinnar hefja göngu sína í gilið fyrir utan gamla prestbústaðinn þar sem hún hefur komið fyrir litlu verki í sýningarkassa Umhverfisstofnunar, 80% af því sem það er, sem kallast á við annað verk sem göngufólk sér þegar komið er upp í gil. Í upphafi og lok göngunnar má líka sjá útilistarverk eftir Þorgerði sem bera titilinn Jökulöldur. Skúlptúrarnir sem sýna geómetrísk form, eru steypt í brons og eru tákn tekin frá jarðfræðikortum sem sýna hvernig jöklar hafa hopað á nútíma eða frá því ísöld lauk. Að lokinni göngu fá gestir að taka heim með sér risograph prent sem sýnir steingervinga og surtabrand.

Verk Þorgerðar er unnið í kringum reglulegar ferðir og göngur landvarða að Surtarbrandsgili í Vatnsfirði.


Í upphafi og lok göngunnar má sjá útilistarverk eftir Þorgerði sem bera titilinn Jökulöldur.

Ágangur veðurs og náttúruafla hefur haft sitt að segja á löngum tíma en ferðamenn hafa líka hægt en örugglega umbreytt staðnum og mikið magn af steingervingum og surtarbrandi hafa horfið. “Það er eitthvað töfrandi við steingervinga. Þetta eru ævaforn prent af plöntum sem eru ekki lengur til en hafa varðveist í milljónir ára – augnablik sem hafa þrykkst í setlög eftir að hafa legið undir þrýstingi hraunlaga frá því að landið fór að muna eftir sér” segir í texta um verk Þorgerðar.

Í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar á Patreksfirði gefur að líta sýninguna Avant Garde sem Hildigunnur vann í samstarfi við leikskólabörn í Vesturbyggð og á Tálknafirði. Salnum hefur verið breytt í sýningarsal samtímalistar ásamt því að vera enn notaður fyrir fundarsetu bæjarstjórnar. Hildigunnur bauð upp á myndlistarnámskeið þar sem börnin unnu skúlptúra, lágmyndir og teikningar. “Verk þeirra bera vitni um opin huga, útsjónasemi og tæra hugsun. Verkin miðla berskjölduðum sannleika til þeirra sem vilja nema.” segir Hildigunnur í sýningarskránni. Salurinn er opin á opnunartíma bæjarskrifstofunnar.


Í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar á Patreksfirði gefur að líta sýninguna Avant Garde sem Hildigunnur vann í samstarfi við leikskólabörn í Vesturbyggð og á Tálknafirði. 


Hildigunnur var með 10 verk fyrir staðbundna nagla á Flakkaranum, Brjánslæk.

Við leggjum leið okkar yfir á Bíldudal. Á bensínstöðinni hefur Hannes opnað hurðina, en hægt er að hringja í hann og fá að eiga við hann viðskipti. Þar er bók Gunndísar Ýrar 1,1111% hlutur, til sölu. Þar eru einnig verk eftir Hildigunni til sölu, Tyggjóklessur og teiknibækur. Gunndís Ýr vann bókverkið 1,1111% hlutur fyrir verkefnið Staðir / Places ásamt því að leiða gesti á opnun sýningarinnar um landið sem kemur við sögu í bókinni. En heitið á bókinni er einmitt byggt á rannsóknum hennar á eignarhlut hennar í fjölskyldulandinu.


Gunndís Ýr vann bókverkið 1,1111% hlutur fyrir verkefnið Staðir / Places ásamt því að leiða gesti á opnun sýningarinnar um landið sem kemur við sögu í bókinni.

Gunndís Ýr leiðir gesti í göngu en farið er út að landamerkjum sem skráð voru frá árinu 1886.

Verkið tekst á við skilgreiningar á afmörkuðu landslagi Hólslandsins. Óvíst er t.a.m. hversu stórt landið er í nútíma-mælieiningum eða hekturum. Gangan var farin út að landamerkjum sem skráð voru frá árinu 1886. Verkið er sérstaklega gert fyrir leiðina frá Standbergi sem nefnist Göltur og er við Ketildalaveg og að Bakka í Bakkadal. Það er þó hægt að lesa það á hvaða leið sem er enda er hægt að nálgast bókina í Reykjavík þar sem hún er til sölu í Nýlistasafninu og í Books in the Back í Harbinger galleríi.

Nú fer hver að verða síðastur til að sjá sýningarnar en þeim mun ljúka í lok ágúst. Hægt er að sjá kort sem sýnir hvar verkin eru hér : Kort

Það er ákveðið ferðalag að fara vestur og ferðalag á milli verkanna. Auk þess eru leyniverk á sýningunni sem kannski ekki allir fá að sjá. Sýningarnar eru óhefðbundnar og sum verkanna verða hluti af landslaginu, þú ert ekki bara þarna til að njóta myndlistar heldur ertu þarna líka til að njóta staðanna, náttúrunnar, veðursins og ferðalagsins, já það er bara svo margt sem gerist í ferðalaginu.


Aðalmynd með grein sýnir listamennina sem tóku þátt í verkefninu. Frá vinstri: Gunndís Ýr Finnbogadóttir, Hildigunnur Birgisdóttir og Þorgerður Ólafsdóttir.
Ljósmyndir eru birtar með leyfi aðstandenda Staðir/Places.

Vefsíða: www.stadir.is

Algjör bylting í sýningahaldi á Akureyri

Algjör bylting í sýningahaldi á Akureyri

Algjör bylting í sýningahaldi á Akureyri

Iðnaðarmenn, listamenn og starfsmenn Listasafnsins á Akureyri vinna nú myrkranna á milli við lokafrágang nýrra salarkynna Listasafnsins. Safnið, sem hefur að mestu verið lokað gestum síðasta árið, verður opnað á ný nú um helgina eftir stórfelldar endurbætur. Efsta hæð gamla samlagshússins hefur verið tekin undir safnið og húsið hefur verið sameinað Ketilhúsinu með nýrri tengibyggingu. Sýningarsalirnir sem voru fimm áður eru nú orðnir tólf auk þess sem kaffihús verður opnað á jarðhæðinni. „Þetta er náttúrulega bara algjör bylting fyrir safnið,” sagði Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, þegar hann tók á móti útsendara artzine í vikunni og lóðsaði hana um húsið. 

Það er hátt til lofts og vítt til veggja á efstu hæð gamla samlagshússins sem Listasafnið hefur loksins fengið til afnota. 

Sex nýjar sýningar verða opnaðar í safninu á laugardaginn. Hér vinnur Aðalheiður Eysteinsdóttir að uppsetningu á sínum verkum.

Magnús Helgason vinnur með segulstál í sínum verkum. Þau eru í rými sem er í senn sýningarsalur og safnkennslurými.

Í einum salnum verða til sýnis verk úr safneign.

Nýja tengibyggingin milli Listasafnsins og Ketilhússins er í senn andyri og kaffihús. Þar verður einnig safnbúð.

Þórgunnur Oddsdóttir


Myndbandsupptaka og eftirvinnsla: Þórgunnur Oddsdóttir

Ljósmyndir: Þórgunnur Oddsdóttir

Snorri Ásmundsson þjónar fyrir altari í Hrísey

Snorri Ásmundsson þjónar fyrir altari í Hrísey

Snorri Ásmundsson þjónar fyrir altari í Hrísey

Myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson var með gjörning í Hrísey í boði RÖSK listahátíðarinnar sem stóð fyrir ýmsum viðburðum og listsýningum í eyjunni nú í ágúst. Gjörningurinn var guðþjónusta þar sem Snorri steig í pontu og svo spilaði hann á hljóðfæri kirkjunnar en eitt af því sem Snorri er þekktur fyrir í sinni listsköpun er að halda tónleika, oftar en ekki þar sem flýgill eða píanó er við hendina og kynnir sig þá sem „Besta píanóleikara í Evrópu“. 

<iframe src="https://www.facebook.com/plugins/video.php?href=https%3A%2F%2Fwww.facebook.com%2Fsnorri.asmundsson%2Fvideos%2F10215274245623954%2F&show_text=0&width=267" width="267" height="476" style="border:none;overflow:hidden" scrolling="no" frameborder="0" allowTransparency="true" allowFullScreen="true"></iframe>
Hér að ofan má sjá upptöku af messuni í heild sinni.

Það er skemmst frá því að segja að Snorri kom við ýmsa strengi í hugum viðstaddra sem sóttu viðburðinn. Uppákoman vakti vissulega lukku meðal sumra kirkjugestanna á meðan aðrir yfirgáfu gjörninginn í uppnámi og lýsir fréttaflutningurinn í kjölfarið því að Hríseyjingar hafi sumir orðið afar sárir og móðgaðir og er formaður sóknarnefndar Narfi Björgvinsson sá sem helst hefur verið vitnað í vegna viðburðarinns. Samkvæmt honum eru sum sóknarbörnin í sjokki þar sem Snorri framdi þau helgispjöll að koma fram í messuskrúða og spila á hlóðfæri en slíkt er óvinsælt hjá þeim sem vilja halda í hefðir kirkjunnar þó hvorki klæðin né hljóðfærin séu heilög í sjálfu sér.

Snorri er hinsvegar ekki þekktur fyrir að fara eftir reglum sem aðrir hafa sett og setur sér sjálfur sínar eigin reglur. Í þessu tilfelli fór hann í messuskrúðann af því honum fannst hann „fara sér vel“ og algerlega viðeigandi að vera svona flottur þar sem þetta var hans messa en samkvæmt því sem haft hefur verið eftir honum verður hún ekki hans síðasta.

Snorri vitnar til þess í viðtölum að einu fyrirmælin hafi verið þau að skila kirkjunni í sama ástandi og hún var þegar hann tók við henni og það hafi hann gert.

Listamaðurinn hefur gjarnan komið við kauninn á þeim sem telja sig eiga frátekið tilkall til valdahlutverka eins og frægur gjörningur hans „Forsetaframboðið“ árið 2004 þegar hann bauð sig fram á móti Ólafi Ragnari Grímssyni og þegar hann bauð sig fram til borgarstjóra með framboð sitt „Vinstri hægri snú“ árið 2002. Með þessum uppákomum ruglar hann í fyrirframgefnum hugmyndum um hverjir mega uppá dekk í okkar samfélagi og hverjir ekki.

En Snorri er listamaður og hans sýn er sú að allt sé leyfilegt í nafni listarinnar. Hann nýtir sér það leyfi til að fara inn á svæði þar sem fæstum er boðið. Einhverjir myndu segja að það væri eitt af hlutverkum listarinnar að hrista upp í samfélaginu og viðteknum viðhorfum en við heyrum líka gjarnan að það sé liðin tíð að list hneyksli, það sé ekki lengur hægt.

Í tilfelli Snorra er það þó ekki svo, hann er líklega eini núlifandi listamaðurinn sem tekst með gjörningum sínum að hneyksla þó hann kæti líka og því má ekki gleyma. Það sem hann gerir ratar iðulega í fjölmiðla og er hann sá núlifandi myndlistarmaður sem á hvað greiðasta leið að fjölmiðlum með uppátækjum sínum.

Snorri mun halda áfram að hrista upp í okkur þegar hann stormar í frátekin sæti elítunnar og hlammar sér þar niður og hlær sínum háværa hlátri sem fær okkur ýmist til að sjokkerast eða hlægja með.

Helga Óskarsdóttir


Ljósmynd: Björn jónsson
Videoupptaka: Thora Karlsdóttir


Greinar og viðtöl sem birtust í kjölfar gjörningsins:


Frekari upplýsingar um listamanninn:

www.snorriasmundsson.com
Wikipedia

Kæra framtíð

Kæra framtíð

Kæra framtíð

Guðrún Vera Hjartardóttir var með sýninguna „Kæra framtíð“ í SÍM salnum frá 5.-20. júlí. Útsendari artzine leit við og fékk að heyra hvað listakonni lá á hjarta. Guðrún Vera hefur verið starfandi í myndlist frá útskrift úr Myndlista og handíðaskóla Íslands árið 1991 og AKI – Akademie voor Beeldende Kunst í Hollandi árið 1994. Guðrún Vera hefur þróað á þessum tíma sérstakt samfélag vera sem hafa sterkan karakter en eru þó ofur viðkvæmar, oftast naktar og sýnast vera hlaðnar sterkum tilfinningum. Guðrún vera notar ýmsa miðla sem henta hugmyndinni hverju sinni og eru verk hennar gjarnan settar fram í formi innsetninga. Sýningin í SÍM salnum er innsetning sem byggir á skúlptúrum en líka leik með vatnsliti. Vídeóverkið  er einnig hljóðverk sem er afgerandi þáttur í heildarupplifuninni.

Guðrún Vera við innsetningu sína í SÍM salnum.

Í videoverkinu töluði persónur með grímur í belg og biðu um hluti sem þær voru í uppnámi yfir, eins og mengun sjávar og annað sem truflaði huga þeirra og mynduðu kakófónískt hljóðverk.

Önnur af tveimur leirpersónum sýningarinna horfir upp, kannski hrædd, kannski forvitin.

Skúlptúrinn sem gerður var eftir teikningunni sem var kveikjan að sýningunni.


Vera horfir upp á við.

Gríma.

Helga Óskarsdóttir


Ljósmyndir og upptaka: Helga Óskarsdóttir

ABC Klubhuis í Antwerpen

ABC Klubhuis í Antwerpen

ABC Klubhuis í Antwerpen

Í Antwerpen í Belgíu eru nokkrir íslenskir listamenn búnir að koma sér vel fyrir, en þau stofnuðu sýningarrýmið ABC Klubhuis og eru orðin mikilvægur hluti af listalífinu í borginni.  ABC Klubhuis er rekið af: Baldvini Einarssyni, Guðlaugu Míu Eyþórsdóttur, Helga Þórssyni, Jóhönnu Kristbjörgu Sigurðardóttur, Kristínu Karólínu Helgadóttur, Ófeigi Sigurðarssyni og Valgerði Sigurðardóttur.

Nýlega voru þau beðin um að sýningarstýra viðburðum og stórri sýningu hjá De Studio sem er hluti af listahátíðinni Antwerp Art Weekend. Sýningin bar heitið Helgi með ABC KlubhuisArt Weekend er þriggja daga hátíð með það markmið að kynna fyrir listasenuna fyrir almenningi og þau rými sem eru starfandi í borginni. Hátíðin gefur út bækling með kynningarefni og er því góð auglýsing fyrir listamannarekin rými.

Emma Heiðarsdóttir tók þátt í sýningu ABC Klubhuis en einnig með í annari sýningu sem var hluti af hátíðinni. Sú sýning bar heitið Back View og var sýnd í listamannarekna rýminu The Pink Houses en þar eru bæði gallerí og vinnustofur. 

artzine náði tali af Guðlaugu Míu einmum meðlima ABC Klubhuis og Emmu til að spyrja nokkurra spurninga og fá tilfinningu fyrir hátíðinni og listasenunni í Antwerpen: Antwerp Art eru samtökin sem stóðu fyrir hátíðinni en yfir 100 starfrækt listarými tóku þátt í að þessu sinni. Þetta er fjórða skiptið sem þessi viðburður er haldinn á jafn mörgum árum. Antwerp Art  eru samtök listamanna í borginni og þau sjá um alls skonar ólíka viðburði yfir árið svo sem gallerínótt, studíó heimsóknir og margt fleira til vekja athygli á listasenunni og þeim rýmum sem eru starfrækt í Antwerpen. Það var mikill heiður að vera boðið að sýningarstýra þessari sýningu hjá De Studio sem var aðalrými hátíðarinnar. Það kom okkur á óvart þar sem við erum frekar ný í senunni.


Frá sýningunni Helgi með ABC.

Hjá De Studio voru mismunandi viðburðir og sýningar en ABC Klubhuis stóð fyrir sýningu sem átti að endurspegla myndlistina og innihélt aðallega hlutbundna list eins og skúlptúra og málverk. En svo voru aðrir fengnir til að sýningarstýra sýningum og viðburðum með  vídeóverkum og gjörningum. Sýningin hjá ABC Klubhuis fór fram í þremur mismunandi rýmum: aðal sýningarsalnum, á bakvið tjöldin í vídeóherbergi þar sem áhorfandinn fékk innsýn í hversdagslíf listamannsins og í þriðja rýminu var bar og minjagripabúð. “Við nálgumst sýningarverkefnin soldið út frá því að allir fái að vera með og að áhorfandinn hafi auðveldan aðgang að myndlistinni. Viðhorf okkar er frekar blátt áfram og við erum ekki spila neina leiki eða reyna vera með einhverja kænsku.”

Hluti hópsins sem stendur á bakvið ABC Klubhuis býr líka að þeirri reynslu að hafa rekið sýningarrými í Reykjavík undir nafninu Kunstschlager sem enn er sárt saknað af mörgum sem fylgjast með því sem er að gerast á senunni á Íslandi. Sýningar þeirra einkennast af mikilli orku, stemmingu og gleði sem ómögulegt er að smitast ekki af. Þeirra viðhorf er að kýla á hlutina sama hvað. “Það er í raun miklu auðveldara að reka svona rými hérna úti þar sem viðhorfið er allt annað og okkur tekst að selja myndlistina mjög auðveldlega. Einnig hefur okkur verið alveg ótrúlega vel tekið sem nýrri orku inn í senuna.“

Það viðhorf ABC Klubhuismeðlima að allir séu með og að viðburðir þeirra einkennast af leikgleði kemur fram í því hvernig þau vinna sýningarnar en einnig aðgang áhorfandans að myndlistinni. Þau eru alltaf með bar inni í galleríinu þar sem þau selja áfengi og er kokteilvélin sem þau eiga orðin vel þekkt. Sú vél ásamt sala á minjagripum vakti mikla lukku yfir hátíðina þar sem listin var gerð aðgengileg öllum en ekki einungis efnuðum söfnurum. Þar bauðst fólki að kaupa minjagripi sem ABC Klubhuis lét útbúa og voru litlar útgáfur af verkunum á sýningunni  “Það var til dæmis kona sem keypti verk eftir Emmu en keypti líka lyklakyppu sem var miniature af sama verki” segir Mía.


Frá sýningunni Back View.

Verk Emmu eru einhverskonar viðbrögð og samtal við þau rými sem hún vinnur eða sýnir í og einkennast verkin af litlum inngripum og samtölum við hversdagsleikann. Áhorfandinn þarf jafnvel stundum að leita að  verkunum. Á sýningunni Back View sýnir Emma með Machteld Bernaert og er gerð tilraun til þess að bregðast við útsýninu útum gluggann á galleríinu. Þar hefur Emma tekið afsteypu af bárujárnsþaki og komið afsteypunni fyrir í rýminu í sömu sjónlínu og þakið sjálft sem er fyrir utan. “Mér finnst svo oft heillandi bakgarðar í Belgíu og sýningin er að leika með mörk sýningarrýmsins. Þannig að glugginn er opinn og verkin vísa til þess sem maður sér út.” Machteld Bernaert sem sýnir með Emmu endurgerir hversdagslega hluti eins og kaffibolla og þakrennur í keramík og setur smá kaffi í bollana þannig að áhorfandinn getur týnst á mörkum hversdagsleikans og þess  sviðsetta. Sýningin er þannig leikur með upphafningu hversdagsleikans eða “normalíseringu” á listaverkinu.

Emma segist finna fyrir mun á því sem er að gerast í myndlistinni í Antwerpen og svo á Íslandi að því leyti að í Antwerpen viðist fókusinn vera á hlutbundna eða formalíska list, á meðan senan á Íslandi einkennist frekar af gjörningum og viðburðum. Ég finn fyrir því að hérna úti er miklu meiri markaður fyrir myndlist og að safnarar séu áhrifavaldar hér en þó eru líka kraftmikil rými sem eru listamannarekin.”


Frá sýningunni Back View.

Fagurfræði listamannana sem reka ABC Klubhuis og Emmu virðast mjög ólík við fyrstu sín, þar sem verk Klúbbmeðlima einkennast af litagleði, formalisma, glamúr, glettni og einhverskonar súrrealískri bjögun á veruleikanum. Hinsvegar einkennast verk Emmu af ljóðrænum og litlum inngripum í umhverfið og hverdsagsleikann. Þó eiga verkin það oft sameiginlegt að vera skírkotanir í hið lifaða líf.  Einnig eiga þau það öll sameiginlegt að vinna í hlutbundni list sem einkennist frekar af upplifunum og fagurfræðilegum sjónarmiðum en fræðilegum. Þar sem upplifunum einstaklingsins er hampað frekar en stífri rökhyggju.

Listamennirnir sem tóku þátt í Helgi með ABC voru: Veronik Willems & Sophie Anson,David Bernstein, Bloeme Van Bon, Deborah Bowmann, Sarah & Charles, Baldvin Einarsson, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Emma HeiðarsdóttirKristín Karólína Helgadóttir, Pieter Jennes, Valérie Mannaerts, Bram Van Meervelde, Benny Van den Meulengracht-Vranx, Sophie Nys, OAOA, Philip Aguirre y Otegui, Sharon Van Overmeiren, Tom Poelmans, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Charline Tyberghein, Wim Wauman og Helgi Þórsson.

artzine þakkar fyrir áhugavert innlit í listalíf Klúbbhúmeðlima og er mun fróðari um listasenuna í Antwerpen en það er greynilega margt spennandi að gerast þar sem vert er að skoða.

Dagrún Aðalsteinsdóttir


Ljósmyndir eru birtar með leyfi  listamannana og ABC Klubhuis.
Vefsíður: abcklubhuis.com / Emma Heiðarsdóttir: emmaheidarsdottir.info

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest