Í og við…þennan stað
Sýningarverkefnið STAÐIR / PLACES fer fram í þriðja sinn núna í ár á sunnanverðum Vestfjörðum. Verkefnið er í umsjón og framkvæmd myndlistarmannanna Evu Ísleifs og Þorgerðar Ólafsdóttur sem höfðu áhuga á að veita listamönnum tíma og umgjörð til að vinna að nýjum verkum og þróa í öðru umhverfi en þeir eru vanir að vinna í. Staðir skiptast í vinnustofudvöl og sýningar annað hvert ár þar sem listamönnum er boðið að dvelja og vinna að nýjum verkum áður en þeim er hrint í framkvæmd og sýnd að ári liðnu. Sýningarnar hafa verið árin 2014, 2016 og núna í þriðja sinn, 2018. Listamennirnir eru Hildigunnur Birgisdóttir, Gunndís Ýr Finnbogadóttir og Þorgerður Ólafsdóttir. Sýningarstjórn árið 2018 er í höndum Evu Ísleifs.
Sum verkanna eru varanleg útilistaverk og önnur tímabundin, en kjarni verkefnisins er að hvetja listamenn til að mynda tengingar við umhverfið og viðfang sitt. Margar áhugaverðar umræður hafa komið upp í þróun listaverkanna og þá má líta til sýninga fyrri ára. Spurningar sem flestir listamenn hafa velt fyrir sér er t.a.m. hlutverk sitt sem utanbæjarmaður en með innlegg inn í samfélagið og líta staðinn öðrum augum og sjá aðstæður og umhverfi í öðruvísi ljósi.
Staðir / Places opnaði 7. júlí síðastliðinn og hófst dagskráin klukkan 12 á hádegi á Flakkaranum við Brjánslæk og endaði rétt fyrir kl. 20 í Bakkadal i Arnarfirði. Fyrsta sýningin sem opnaði var með verkum eftir Hildigunni, 10 verk fyrir staðbundna nagla. Hugmyndin af verkunum er sprottin út frá sérstöku númerakerfi sem var til staðar þegar hún heimsótti Flakkarann fyrr á árinu. Bækurnar eru teiknibækur, mismunandi á litin, en form þeirra tákna tölustafina 1,2,3,4,5,6,7,8,9 og 10. Gestir geta tekið blað ef þeir vilja og jafnvel safnað öllum númerunum.
Verk Þorgerðar er unnið í kringum reglulegar ferðir og göngur landvarða að Surtarbrandsgili í Vatnsfirði sem er friðlýst náttúruvætti sökum mikils magn af steingervingum og surtarbrandi. Gestir sýningarinnar hefja göngu sína í gilið fyrir utan gamla prestbústaðinn þar sem hún hefur komið fyrir litlu verki í sýningarkassa Umhverfisstofnunar, 80% af því sem það er, sem kallast á við annað verk sem göngufólk sér þegar komið er upp í gil. Í upphafi og lok göngunnar má líka sjá útilistarverk eftir Þorgerði sem bera titilinn Jökulöldur. Skúlptúrarnir sem sýna geómetrísk form, eru steypt í brons og eru tákn tekin frá jarðfræðikortum sem sýna hvernig jöklar hafa hopað á nútíma eða frá því ísöld lauk. Að lokinni göngu fá gestir að taka heim með sér risograph prent sem sýnir steingervinga og surtabrand.
Verk Þorgerðar er unnið í kringum reglulegar ferðir og göngur landvarða að Surtarbrandsgili í Vatnsfirði.
Í upphafi og lok göngunnar má sjá útilistarverk eftir Þorgerði sem bera titilinn Jökulöldur.
Ágangur veðurs og náttúruafla hefur haft sitt að segja á löngum tíma en ferðamenn hafa líka hægt en örugglega umbreytt staðnum og mikið magn af steingervingum og surtarbrandi hafa horfið. “Það er eitthvað töfrandi við steingervinga. Þetta eru ævaforn prent af plöntum sem eru ekki lengur til en hafa varðveist í milljónir ára – augnablik sem hafa þrykkst í setlög eftir að hafa legið undir þrýstingi hraunlaga frá því að landið fór að muna eftir sér” segir í texta um verk Þorgerðar.
Í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar á Patreksfirði gefur að líta sýninguna Avant Garde sem Hildigunnur vann í samstarfi við leikskólabörn í Vesturbyggð og á Tálknafirði. Salnum hefur verið breytt í sýningarsal samtímalistar ásamt því að vera enn notaður fyrir fundarsetu bæjarstjórnar. Hildigunnur bauð upp á myndlistarnámskeið þar sem börnin unnu skúlptúra, lágmyndir og teikningar. “Verk þeirra bera vitni um opin huga, útsjónasemi og tæra hugsun. Verkin miðla berskjölduðum sannleika til þeirra sem vilja nema.” segir Hildigunnur í sýningarskránni. Salurinn er opin á opnunartíma bæjarskrifstofunnar.
Í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar á Patreksfirði gefur að líta sýninguna Avant Garde sem Hildigunnur vann í samstarfi við leikskólabörn í Vesturbyggð og á Tálknafirði.
Hildigunnur var með 10 verk fyrir staðbundna nagla á Flakkaranum, Brjánslæk.
Við leggjum leið okkar yfir á Bíldudal. Á bensínstöðinni hefur Hannes opnað hurðina, en hægt er að hringja í hann og fá að eiga við hann viðskipti. Þar er bók Gunndísar Ýrar 1,1111% hlutur, til sölu. Þar eru einnig verk eftir Hildigunni til sölu, Tyggjóklessur og teiknibækur. Gunndís Ýr vann bókverkið 1,1111% hlutur fyrir verkefnið Staðir / Places ásamt því að leiða gesti á opnun sýningarinnar um landið sem kemur við sögu í bókinni. En heitið á bókinni er einmitt byggt á rannsóknum hennar á eignarhlut hennar í fjölskyldulandinu.
Gunndís Ýr vann bókverkið 1,1111% hlutur fyrir verkefnið Staðir / Places ásamt því að leiða gesti á opnun sýningarinnar um landið sem kemur við sögu í bókinni.
Gunndís Ýr leiðir gesti í göngu en farið er út að landamerkjum sem skráð voru frá árinu 1886.
Verkið tekst á við skilgreiningar á afmörkuðu landslagi Hólslandsins. Óvíst er t.a.m. hversu stórt landið er í nútíma-mælieiningum eða hekturum. Gangan var farin út að landamerkjum sem skráð voru frá árinu 1886. Verkið er sérstaklega gert fyrir leiðina frá Standbergi sem nefnist Göltur og er við Ketildalaveg og að Bakka í Bakkadal. Það er þó hægt að lesa það á hvaða leið sem er enda er hægt að nálgast bókina í Reykjavík þar sem hún er til sölu í Nýlistasafninu og í Books in the Back í Harbinger galleríi.
Nú fer hver að verða síðastur til að sjá sýningarnar en þeim mun ljúka í lok ágúst. Hægt er að sjá kort sem sýnir hvar verkin eru hér : Kort
Það er ákveðið ferðalag að fara vestur og ferðalag á milli verkanna. Auk þess eru leyniverk á sýningunni sem kannski ekki allir fá að sjá. Sýningarnar eru óhefðbundnar og sum verkanna verða hluti af landslaginu, þú ert ekki bara þarna til að njóta myndlistar heldur ertu þarna líka til að njóta staðanna, náttúrunnar, veðursins og ferðalagsins, já það er bara svo margt sem gerist í ferðalaginu.
Aðalmynd með grein sýnir listamennina sem tóku þátt í verkefninu. Frá vinstri: Gunndís Ýr Finnbogadóttir, Hildigunnur Birgisdóttir og Þorgerður Ólafsdóttir.
Ljósmyndir eru birtar með leyfi aðstandenda Staðir/Places.
Vefsíða: www.stadir.is