Algjör bylting í sýningahaldi á Akureyri
Iðnaðarmenn, listamenn og starfsmenn Listasafnsins á Akureyri vinna nú myrkranna á milli við lokafrágang nýrra salarkynna Listasafnsins. Safnið, sem hefur að mestu verið lokað gestum síðasta árið, verður opnað á ný nú um helgina eftir stórfelldar endurbætur. Efsta hæð gamla samlagshússins hefur verið tekin undir safnið og húsið hefur verið sameinað Ketilhúsinu með nýrri tengibyggingu. Sýningarsalirnir sem voru fimm áður eru nú orðnir tólf auk þess sem kaffihús verður opnað á jarðhæðinni. „Þetta er náttúrulega bara algjör bylting fyrir safnið,” sagði Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, þegar hann tók á móti útsendara artzine í vikunni og lóðsaði hana um húsið.
Það er hátt til lofts og vítt til veggja á efstu hæð gamla samlagshússins sem Listasafnið hefur loksins fengið til afnota.
Sex nýjar sýningar verða opnaðar í safninu á laugardaginn. Hér vinnur Aðalheiður Eysteinsdóttir að uppsetningu á sínum verkum.
Magnús Helgason vinnur með segulstál í sínum verkum. Þau eru í rými sem er í senn sýningarsalur og safnkennslurými.
Í einum salnum verða til sýnis verk úr safneign.
Nýja tengibyggingin milli Listasafnsins og Ketilhússins er í senn andyri og kaffihús. Þar verður einnig safnbúð.
Þórgunnur Oddsdóttir
Myndbandsupptaka og eftirvinnsla: Þórgunnur Oddsdóttir
Ljósmyndir: Þórgunnur Oddsdóttir