Snorri Ásmundsson þjónar fyrir altari í Hrísey

12.08. 2018

Myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson var með gjörning í Hrísey í boði RÖSK listahátíðarinnar sem stóð fyrir ýmsum viðburðum og listsýningum í eyjunni nú í ágúst. Gjörningurinn var guðþjónusta þar sem Snorri steig í pontu og svo spilaði hann á hljóðfæri kirkjunnar en eitt af því sem Snorri er þekktur fyrir í sinni listsköpun er að halda tónleika, oftar en ekki þar sem flýgill eða píanó er við hendina og kynnir sig þá sem „Besta píanóleikara í Evrópu“. 

<iframe src="https://www.facebook.com/plugins/video.php?href=https%3A%2F%2Fwww.facebook.com%2Fsnorri.asmundsson%2Fvideos%2F10215274245623954%2F&show_text=0&width=267" width="267" height="476" style="border:none;overflow:hidden" scrolling="no" frameborder="0" allowTransparency="true" allowFullScreen="true"></iframe>
Hér að ofan má sjá upptöku af messuni í heild sinni.

Það er skemmst frá því að segja að Snorri kom við ýmsa strengi í hugum viðstaddra sem sóttu viðburðinn. Uppákoman vakti vissulega lukku meðal sumra kirkjugestanna á meðan aðrir yfirgáfu gjörninginn í uppnámi og lýsir fréttaflutningurinn í kjölfarið því að Hríseyjingar hafi sumir orðið afar sárir og móðgaðir og er formaður sóknarnefndar Narfi Björgvinsson sá sem helst hefur verið vitnað í vegna viðburðarinns. Samkvæmt honum eru sum sóknarbörnin í sjokki þar sem Snorri framdi þau helgispjöll að koma fram í messuskrúða og spila á hlóðfæri en slíkt er óvinsælt hjá þeim sem vilja halda í hefðir kirkjunnar þó hvorki klæðin né hljóðfærin séu heilög í sjálfu sér.

Snorri er hinsvegar ekki þekktur fyrir að fara eftir reglum sem aðrir hafa sett og setur sér sjálfur sínar eigin reglur. Í þessu tilfelli fór hann í messuskrúðann af því honum fannst hann „fara sér vel“ og algerlega viðeigandi að vera svona flottur þar sem þetta var hans messa en samkvæmt því sem haft hefur verið eftir honum verður hún ekki hans síðasta.

Snorri vitnar til þess í viðtölum að einu fyrirmælin hafi verið þau að skila kirkjunni í sama ástandi og hún var þegar hann tók við henni og það hafi hann gert.

Listamaðurinn hefur gjarnan komið við kauninn á þeim sem telja sig eiga frátekið tilkall til valdahlutverka eins og frægur gjörningur hans „Forsetaframboðið“ árið 2004 þegar hann bauð sig fram á móti Ólafi Ragnari Grímssyni og þegar hann bauð sig fram til borgarstjóra með framboð sitt „Vinstri hægri snú“ árið 2002. Með þessum uppákomum ruglar hann í fyrirframgefnum hugmyndum um hverjir mega uppá dekk í okkar samfélagi og hverjir ekki.

En Snorri er listamaður og hans sýn er sú að allt sé leyfilegt í nafni listarinnar. Hann nýtir sér það leyfi til að fara inn á svæði þar sem fæstum er boðið. Einhverjir myndu segja að það væri eitt af hlutverkum listarinnar að hrista upp í samfélaginu og viðteknum viðhorfum en við heyrum líka gjarnan að það sé liðin tíð að list hneyksli, það sé ekki lengur hægt.

Í tilfelli Snorra er það þó ekki svo, hann er líklega eini núlifandi listamaðurinn sem tekst með gjörningum sínum að hneyksla þó hann kæti líka og því má ekki gleyma. Það sem hann gerir ratar iðulega í fjölmiðla og er hann sá núlifandi myndlistarmaður sem á hvað greiðasta leið að fjölmiðlum með uppátækjum sínum.

Snorri mun halda áfram að hrista upp í okkur þegar hann stormar í frátekin sæti elítunnar og hlammar sér þar niður og hlær sínum háværa hlátri sem fær okkur ýmist til að sjokkerast eða hlægja með.

Helga Óskarsdóttir


Ljósmynd: Björn jónsson
Videoupptaka: Thora Karlsdóttir


Greinar og viðtöl sem birtust í kjölfar gjörningsins:


Frekari upplýsingar um listamanninn:

www.snorriasmundsson.com
Wikipedia

UA-76827897-1