ABC Klubhuis í Antwerpen

25.06. 2018 | Umfjöllun

Í Antwerpen í Belgíu eru nokkrir íslenskir listamenn búnir að koma sér vel fyrir, en þau stofnuðu sýningarrýmið ABC Klubhuis og eru orðin mikilvægur hluti af listalífinu í borginni.  ABC Klubhuis er rekið af: Baldvini Einarssyni, Guðlaugu Míu Eyþórsdóttur, Helga Þórssyni, Jóhönnu Kristbjörgu Sigurðardóttur, Kristínu Karólínu Helgadóttur, Ófeigi Sigurðarssyni og Valgerði Sigurðardóttur.

Nýlega voru þau beðin um að sýningarstýra viðburðum og stórri sýningu hjá De Studio sem er hluti af listahátíðinni Antwerp Art Weekend. Sýningin bar heitið Helgi með ABC KlubhuisArt Weekend er þriggja daga hátíð með það markmið að kynna fyrir listasenuna fyrir almenningi og þau rými sem eru starfandi í borginni. Hátíðin gefur út bækling með kynningarefni og er því góð auglýsing fyrir listamannarekin rými.

Emma Heiðarsdóttir tók þátt í sýningu ABC Klubhuis en einnig með í annari sýningu sem var hluti af hátíðinni. Sú sýning bar heitið Back View og var sýnd í listamannarekna rýminu The Pink Houses en þar eru bæði gallerí og vinnustofur. 

artzine náði tali af Guðlaugu Míu einmum meðlima ABC Klubhuis og Emmu til að spyrja nokkurra spurninga og fá tilfinningu fyrir hátíðinni og listasenunni í Antwerpen: Antwerp Art eru samtökin sem stóðu fyrir hátíðinni en yfir 100 starfrækt listarými tóku þátt í að þessu sinni. Þetta er fjórða skiptið sem þessi viðburður er haldinn á jafn mörgum árum. Antwerp Art  eru samtök listamanna í borginni og þau sjá um alls skonar ólíka viðburði yfir árið svo sem gallerínótt, studíó heimsóknir og margt fleira til vekja athygli á listasenunni og þeim rýmum sem eru starfrækt í Antwerpen. Það var mikill heiður að vera boðið að sýningarstýra þessari sýningu hjá De Studio sem var aðalrými hátíðarinnar. Það kom okkur á óvart þar sem við erum frekar ný í senunni.


Frá sýningunni Helgi með ABC.

Hjá De Studio voru mismunandi viðburðir og sýningar en ABC Klubhuis stóð fyrir sýningu sem átti að endurspegla myndlistina og innihélt aðallega hlutbundna list eins og skúlptúra og málverk. En svo voru aðrir fengnir til að sýningarstýra sýningum og viðburðum með  vídeóverkum og gjörningum. Sýningin hjá ABC Klubhuis fór fram í þremur mismunandi rýmum: aðal sýningarsalnum, á bakvið tjöldin í vídeóherbergi þar sem áhorfandinn fékk innsýn í hversdagslíf listamannsins og í þriðja rýminu var bar og minjagripabúð. “Við nálgumst sýningarverkefnin soldið út frá því að allir fái að vera með og að áhorfandinn hafi auðveldan aðgang að myndlistinni. Viðhorf okkar er frekar blátt áfram og við erum ekki spila neina leiki eða reyna vera með einhverja kænsku.”

Hluti hópsins sem stendur á bakvið ABC Klubhuis býr líka að þeirri reynslu að hafa rekið sýningarrými í Reykjavík undir nafninu Kunstschlager sem enn er sárt saknað af mörgum sem fylgjast með því sem er að gerast á senunni á Íslandi. Sýningar þeirra einkennast af mikilli orku, stemmingu og gleði sem ómögulegt er að smitast ekki af. Þeirra viðhorf er að kýla á hlutina sama hvað. “Það er í raun miklu auðveldara að reka svona rými hérna úti þar sem viðhorfið er allt annað og okkur tekst að selja myndlistina mjög auðveldlega. Einnig hefur okkur verið alveg ótrúlega vel tekið sem nýrri orku inn í senuna.“

Það viðhorf ABC Klubhuismeðlima að allir séu með og að viðburðir þeirra einkennast af leikgleði kemur fram í því hvernig þau vinna sýningarnar en einnig aðgang áhorfandans að myndlistinni. Þau eru alltaf með bar inni í galleríinu þar sem þau selja áfengi og er kokteilvélin sem þau eiga orðin vel þekkt. Sú vél ásamt sala á minjagripum vakti mikla lukku yfir hátíðina þar sem listin var gerð aðgengileg öllum en ekki einungis efnuðum söfnurum. Þar bauðst fólki að kaupa minjagripi sem ABC Klubhuis lét útbúa og voru litlar útgáfur af verkunum á sýningunni  “Það var til dæmis kona sem keypti verk eftir Emmu en keypti líka lyklakyppu sem var miniature af sama verki” segir Mía.


Frá sýningunni Back View.

Verk Emmu eru einhverskonar viðbrögð og samtal við þau rými sem hún vinnur eða sýnir í og einkennast verkin af litlum inngripum og samtölum við hversdagsleikann. Áhorfandinn þarf jafnvel stundum að leita að  verkunum. Á sýningunni Back View sýnir Emma með Machteld Bernaert og er gerð tilraun til þess að bregðast við útsýninu útum gluggann á galleríinu. Þar hefur Emma tekið afsteypu af bárujárnsþaki og komið afsteypunni fyrir í rýminu í sömu sjónlínu og þakið sjálft sem er fyrir utan. “Mér finnst svo oft heillandi bakgarðar í Belgíu og sýningin er að leika með mörk sýningarrýmsins. Þannig að glugginn er opinn og verkin vísa til þess sem maður sér út.” Machteld Bernaert sem sýnir með Emmu endurgerir hversdagslega hluti eins og kaffibolla og þakrennur í keramík og setur smá kaffi í bollana þannig að áhorfandinn getur týnst á mörkum hversdagsleikans og þess  sviðsetta. Sýningin er þannig leikur með upphafningu hversdagsleikans eða “normalíseringu” á listaverkinu.

Emma segist finna fyrir mun á því sem er að gerast í myndlistinni í Antwerpen og svo á Íslandi að því leyti að í Antwerpen viðist fókusinn vera á hlutbundna eða formalíska list, á meðan senan á Íslandi einkennist frekar af gjörningum og viðburðum. Ég finn fyrir því að hérna úti er miklu meiri markaður fyrir myndlist og að safnarar séu áhrifavaldar hér en þó eru líka kraftmikil rými sem eru listamannarekin.”


Frá sýningunni Back View.

Fagurfræði listamannana sem reka ABC Klubhuis og Emmu virðast mjög ólík við fyrstu sín, þar sem verk Klúbbmeðlima einkennast af litagleði, formalisma, glamúr, glettni og einhverskonar súrrealískri bjögun á veruleikanum. Hinsvegar einkennast verk Emmu af ljóðrænum og litlum inngripum í umhverfið og hverdsagsleikann. Þó eiga verkin það oft sameiginlegt að vera skírkotanir í hið lifaða líf.  Einnig eiga þau það öll sameiginlegt að vinna í hlutbundni list sem einkennist frekar af upplifunum og fagurfræðilegum sjónarmiðum en fræðilegum. Þar sem upplifunum einstaklingsins er hampað frekar en stífri rökhyggju.

Listamennirnir sem tóku þátt í Helgi með ABC voru: Veronik Willems & Sophie Anson,David Bernstein, Bloeme Van Bon, Deborah Bowmann, Sarah & Charles, Baldvin Einarsson, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Emma HeiðarsdóttirKristín Karólína Helgadóttir, Pieter Jennes, Valérie Mannaerts, Bram Van Meervelde, Benny Van den Meulengracht-Vranx, Sophie Nys, OAOA, Philip Aguirre y Otegui, Sharon Van Overmeiren, Tom Poelmans, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Charline Tyberghein, Wim Wauman og Helgi Þórsson.

artzine þakkar fyrir áhugavert innlit í listalíf Klúbbhúmeðlima og er mun fróðari um listasenuna í Antwerpen en það er greynilega margt spennandi að gerast þar sem vert er að skoða.

Dagrún Aðalsteinsdóttir


Ljósmyndir eru birtar með leyfi  listamannana og ABC Klubhuis.
Vefsíður: abcklubhuis.com / Emma Heiðarsdóttir: emmaheidarsdottir.info

 

UA-76827897-1