Skynrænn þverskurður Tuma Magnússonar

Skynrænn þverskurður Tuma Magnússonar

Skynrænn þverskurður Tuma Magnússonar

Listamannarekna sýningarrýmið Pirpa er staðsett við Grønttorvet, eða Grænmetistorgið, í úthverfi Kaupmannahafnar í Danmörku. Þar má um þessar mundir sjá og heyra innsetningu listamannsins Tuma Magnússonar sem ber heitið „Arbejdsvidenskab“ eða „Vinnuvísindi“. Hún sækir efniðvið í umhverfi Pirpa sem undanfarið hefur tekið miklum breytingum. Fyrir tveimur árum yfirgáfu síðustu heildsalarnir Grænmetistorgið sem áður var lífleg miðstöð grænmetis-, ávaxta- og blómasölu. Það stóð til að umbreyta torginu í íbúðarkjarna. Það átti að rífa þær byggingar sem áður hýstu heildsölurnar til að skapa rúm fyrir framtíðina. Niðurrifið hefur reynst tímafrekt og enn í dag eru steypubyggingar á svæðinu að umbreytast í duft á meðan ný íbúðarhúsnæði rísa. Sýningarrýmið Pirpa, ásamt örfáum smáverslunum, litlum framleiðslufyrirtækjum og listamönnum hefur hreiðrað um sig tímabundið í rótinu. Í yfirgefnum byggingum sem enn fá að standa.

Sýningar Pirpa hverfast ávallt að einhverju leyti um sögu svæðisins, arkítektúr þess eða þá umbreytingu sem nú á sér stað þar. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar innsetning Tuma um vinnuna. Í þessu staðbundna verki, sem samastendur af ómandi hlutum ásamt upptökum af hljóði og myndum, tekur Tumi sneiðmynd af hinum mismunandi vinnuferlum sem mótað hafa svæðið síðastliðna mánuði.

Mávar taka á móti gestum sýningarinnar með gargandi söng. Úr fjarska má heyra jarðýtu berjast við að ryðja á undan sér einhverjum massa. Hér eru þó engir mávar á ferð og þrátt fyrir vinnuvélar í nágrenninu er engin jarðýta í sjónlínu. Hljóðið kemur frá gömlu hringborði og vinnukolli úr plasti sem blasa við sjónum fyrir utan Pirpa. Smám saman dýpkar rómur mávanna. Það hægist á og jarðýtan virðist eiga erfiðara um vik að komast áfram. Hljóðsporið teygist til, hraðinn breytist og tíðnin fylgir með. Ef tekin eru nokkur skref áfram, framhjá kollinum og borðinu og inn fyrir dyr sýningarrýmisins, stækkar hljóðheimurinn. Hann umlykur líkamann úr hverju horni.

Heyra má óm af nokkrum mismunandi atburðarásum, sem virðast gerast á sama tíma: Byggingarframkvæmdum, kústi sem dreginn er eftir gangstétt og gleri sem slæst saman. Þessi mismunandi hljóð hljóma í takt en virðast þó ekki alveg í samræmi við þann veruleika sem blasir við á leið til sýningarinnar í gegnum hverfið. Hljóðin spilast á mismunandi hraða og eins og rómur mávanna breytist tónfallið einnig. Meðfram veggjunum hvíla sex skjáir ofan á hátölurum sem sýna uppruna hljóðsins. Ung stúlka sópar gangstétt fyrir utan nytjamarkað, vinnuvélar brjóta sér leið í gegnum steypu og tveir menn tappa epladrykk á flöskur og innsigla þær. Myndirnar hreyfast í takt við hljóðið, hraðar og hraðar. Þegar hámarkshraða hefur verið náðhægist á að nýju.

Þegar eyru okkar nema tilbúin hljóð, það er að segja hljóð sem búið er að taka upp og eiga við, göngum við oftast út frá því að um tónlist sé að ræða. Allir hlutir gefa frá sér hljóð sem við heyrum stöðugt úr umhverfi okkar. Í skynjuninni nemum við umhverfishljóð sem afleiðingu hins sjónræna heims og þegar augljóslega er búið að fikta í rauntíma hljóðsins, eins og Tumi hefur gert hér, eigum við erfitt með að tengja það við raunveruleikann. Við erum vanari því aðhorfa á hreyfimyndir á auknum hraða eða í hægsýningu. Augað á ekkert erfitt með að greina hvaða hlutir eða lifandi verur eru á myndum, þótt átt hafi verið við hraðann. Því upplifum við myndir yfirleitt á einhvern hátt sem framsetningu á raunveruleikanum. Í innsetningunni „Vinnuvísindi“ nýtir Tumi sér samræmingu mynda og hljóðs á athyglisverðan hátt.

Taktur hljóðsporsins er skipulagður og melódískur. Þrátt fyrir það virðist verkið fjarlægjast heim tónlistarinnar þegar hljóð og mynd mætast. Myndirnar hjálpa okkur nefnilega að greina hljóðið sem breytu úr umhverfinu. Hér virðist, frekar en tónlist, vera á ferðinni leikandi tilraun, framkvæmda í sérstökum tilgangi: Til að sýna fram á að það tekur mislangan tíma að vinna mismunandi verk. Í sömu andrá beinist athygli gesta sýningarinnar að þeirra eigin tilfinningu fyrir stað og stund.

Þeir vinnuferlar sem fyrir augu og eyru bera eru uppistaða samfélagsins við Grænmetistorgið. Allt frá vinnu mávanna við að afla sér lífsviðurværis til byggingaframkvæmdanna. Smám saman kemur í ljós að það er alltaf ein af atburðarásunum í rauntíma og hinar fylgja hraða hennar. Þegar mennirnir tappa epladrykk á flöskur garga mávarnir í takt. Þótt þeir hljómi heldur þreklausir. Steypan mölvast og rykið safnast í bunka á nákvæmlega sama hraða. Hálfri mínútu síðar eiga sér stað skipti. Nú gengur auðveldlega að brjóta steypuna en stúlkan með sópinn virðist fara óeðlilega mikið fram úr sér.

Svona gengur verkið fyrir sig. Eitt verkefni er unnið á rauntíma og hin fylgja með. Hring eftir hring. Þar með fá þau sem njóta verksins vinnuvísindi svæðisins beint í æð – það er að segja, hvernig unnið er úr aðstæðum á vettvangi. Hvernig eru hin mismunandi verkefni leyst af hendi, á hversu skilvirkan eða hagnýtan hátt?

Þó „Vinnuvísindi“ minni að mörgu leyti á prófun á tilgátu, talar innsetningin meira til skynjunar okkar en rökhyggjunnar. Ástæða þess er samspil heyrnar og sjónar. Eins og áður sagði þjóna myndirnar mikilvægu hlutverki sem tenging hljóðsins við raunveruleikann. Það er auðveldara fyrir okkur að sjá hvaða atburðarrás birtist okkur í rauntíma hverju sinni. Hins vegar virkar sjónin þannig að við sjáum aðeins það sem er beint fyrir framan okkur.

Þrátt fyrir smæð sýningarrýmisins er ómögulegt að sjá öll smáatriði verksins á sama andartaki. Þeir skjáir sem blasa við gestum eru ekki stórir. Ef staðið er fyrir miðju eins þeirra er ómögulegt að sjá hvað fram fer á hinum skjánum í rýminu, án þess að snúa sér. Heyrnin virkar hinsvegar þannig að eyrun nema hljóð úr umhverfinu úr öllum áttum. Jafnvel þótt við snúum baki við hljóðgjafanum. Það er vel greinanlegt hvaða hljóðspor tilheyrir þeirri mynd sem ber fyrir augu, en hljóðið frá hinum skjánum heyrist einnig. Þannig tengjast atburðarásirnar saman. Í gegnum skynjunina skapast vissa um það að epladrykkurinn sé framleiddur í nágrenni við stúlkuna með sópinn. Jafnvel þó það hljómi eins og að hún vinni heldur löturlega.

„Vinnuvísindi“, sem við fyrstu kynni virðist vera leikur að veruleikanum, tilviljanakenndur samsláttur af mismunandi umhverfishljóðum, breytist með tímanum í skynrænan þverskurð af þeim vanagangi og mynstrum sem einkenna hin mismunandi vinnubrögð sem Tumi tekur fyrir. Um leið birtist landslag Grænmetistorgsins, sem svæði í millibilsástandi. Það þarf þó ekki annað en að loka augunum til að hverfa á mið taktfastrar og tilraunakenndrar tónlistar. Hljóða sem óvissa ríkir um hvort séu í raun hluti af okkar heimi. Þar með rekur hugann inn í áður óþekkt svæði þar sem amstur hversdagsins annaðhvort stendur í stað eða flýgur áfram. Sýningin er opin til 23. júní.

Sunna Ástþórsdóttir


Ljósmyndir: Tumi Magnússon.

Frekari upplýsingar um listamanninn:
www.tumimagnusson.com

Fánar og spíralar -Þar sem áður var grænmetismarkaður er nú myndlist

Fánar og spíralar -Þar sem áður var grænmetismarkaður er nú myndlist

Fánar og spíralar -Þar sem áður var grænmetismarkaður er nú myndlist

ENGROS er nafn á stórri myndlistarsýningu sem leggur nú undir sig svæðið Grönttorvet í Valby, Kaupmannahöfn. ENGROS er að frumkvæði listamannahópanna PIRPA og SKULPTURI. Meðal sýnenda eru þær Þóra Sigurðardóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir ásamt fjölda danskra myndhöggvara.

Svæðið Grönttorvet er nú í miklu umbreytingaferli. Þar sem áður var lífleg atvinnustarfsemi á gríðarstóru svæði með grænmetis -heildsölumarkaði í stórum skemmum hefur verið skipulögð íbúðabyggð og er nú þegar hafin bygging íbúðahúsnæðis. Byggingar grænmetismarkaðanna standa nú að mestu tómar eða hafa verið rifnar niður og byggingarnar nýju rísa upp allt um kring með ótrúlegum hraða. Umhverfis sýningarsvæðið eru stórir hraukar af niðurbrotnum steinsteypuveggjum og malbiki – byggingarkranarnir vofa yfir. Næstu tvö árin mun þó hluti svæðisins fá að standa og verður vettvangur tímabundinnar menningar og listastarfsemi.

Sólveig sýnir 4 ljósmyndir sem fanga litina umhverfis grænmetismarkaðinn. Ljósmyndirnar eru prentaðar á efni í stærðinni 170 x 110 sem eru festar á stangir utandyra, blakta þar og þeytast til þegar flutingabílar keyra hjá.

Verk Þóru heitir Spíralstigi eða á dönsku VindeltrappeHún hefur valið sér að vinna út frá hringstiga innandyra í rými sem er 2.95m x 2.80m x 8m. Verkið fjallar um stigann sem fyrirbæri í rými, með veggteikningum og prenti.

Hér er linkur á texta eftir Erin Honeycutt um verk Þóru: Spiral of love

Framlag Sólveigar og Þóru er styrkt af Myndlistarsjóði, Muggi og Letterstedtska sjóðnum.
Hér að neðan eru nokkrar myndir af þeirra framlagi til sýningarinnar.

SKULPTURI er hópur 8 myndhöggvara í Kaupmannahöfn sem með margvíslegum hætti hefur skipulagt sýningarverkefni sem snúast um að endurskilgreina svæði, listaverk og rými.

Hægt er að fræðast meira um hópinn hér: skulpturi.dk

SKULPTURI hefur með þessari sýningu á Grönttorvet í Kaupmannahöfn, komið í framkvæmd hugmynd sem um skeið hefur blundað meðal þeirra myndlistamannanna í hópnum, að standa fyrir stórri sýningu, sem er eins konar yfirlýsing (manifest) um margvíslega möguleika skúlptúrsins/rýmisverka, þvert á kynslóðir myndlistamanna.

PIRPA er sýningarrými á Grönttorvet sem myndlistamennirnir Cai Ulrich von Platen  og Camilla Nörgaard reka. Cai Ulrich var boðið að taka þátt í sýningunni Dalir og hólar á Vesturlandi 2012 og þá varð til hugmyndin um að yfirfæra Dalir og hóla-hugmyndina inn á svæði Grönttorvet. Þessar tvær hugmyndir PIRPA og SKULPTURI féllu vel hvor að annarri og urðu að sýningunni ENGROS. Hér má sjá vefsíðu Cai: www.vonplaten.dk  og Camilla: www.camillanorgaard.net

Þáttakendur sýningarinnar ENGROS eru hátt í 50 myndhöggvarar af öllum kynslóðum samtímans og eru fyrir utan þau sem þegar eru nefnd: Ellen Hyllemose, Jörgen Carlo Larsen, Finn Reinbothe, Jytte Höy, Marianne Jörgensen, Nanna Abell, Christian SkjödtAmitai RommNanna Abell, Lisbeth Bank, Julie Bitsch, Anders Bonnesen, Rune Bosse, Ole Broager, Mikkel Carl, Eva Steen Christensen, Jesper Dalgaard, Rose Eken, Esben Gyldenløve, Lone Høyer Hansen, Kasper Hesselbjerg, Ellen Hyllemose, Jytte Høy, Amalie Staunskjær Jakobsen, Klaus Thejll Jakobsen, Oscar Jakobsen, Veo Friis JespersenKirsten JustesenMarianne Jørgensen, Heine Kjærgaard Klausen, Esben Klemann, Jørgen Carlo Larsen, Karin Lind, Karin Lorentzen, Mathias & Mathias, Ragnhild May, Henrik Menné, Morten Modin, Astrid Myntekær, Tina Maria Nielsen, Kaj Nyborg, Peter Olsen, Lars Bent Petersen, Bjørn Poulsen, Finn Reinbothe, Amitai Romm, René Schmidt, Christian Skjødt, Julie Stavad, Hartmut Stockter, Morten Stræde, Daniel Svarre, Laurits Nymand Svendsen, Margrét Agnes Iversen, Malte Klagenberg, Jens Tormod Bertelsen, Søren Krag, Cilla Leitao, Sune Lysdal, Carla fra Hellested, Lorenzo Tebano, Anna Samsøe, Rikke Ravn Sørensen, Mikael Thejll, Charlotte Thrane, Fredrik Tydén, Sif Itona Westerberg og Torgny Wilcke.

Sýningin opnaði þann 19 maí og stendur til 24 . júní, 2017.
Opnunartímar: miðvikudag – sunnudags kl. 12 – 18

www.skulpturi.dk

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest