Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Nú sýnir Listasafn Íslands þekkta myndbandsinnsetningu, Hafið eftir franska listamanninn Ange Leccia. Verkið hefur verið sett upp á risastórum skjá í öðrum enda sýningarsalarins, eins og kvikmynd á tjaldi. Þetta er vel við hæfi því Ange Leccia hefur frá upphafi ferils síns sótt áhrif til kvikmynda, en listamaðurinn kom sjálfur hingað til lands og tók þátt í uppsetningu sýningarinnar.

Myndbands/kvikmyndaverkið Hafið er upprunalega frá árinu 1991. Ange Leccia hefur sýnt verkið mörgum sinnum og á mismunandi hátt en framsetning þess tekur iðulega mið af aðstæðum. Verkið er tvískipt, annars vegar sýnir það hvítar öldur brotna í síbylju á svartri strönd. Sjónarhornið er líkt og áhorfandinn svífi í lausu lofti beint ofan við flæðarmálið og horfi niður, myndinni er síðan varpað upp á skjá eða tjald, þannig að öldurnar sem skríða inn á sandinn birtast lóðréttar, þær rísa og hníga og minna á fjallstoppa.

Þessi þöglu myndskeið eru síðan brotin upp með stuttum myndskeiðum sem eru annað hvort úr smiðju Leccia eða tekin úr kvikmyndum þekktra leikstjóra eins og t.d. Jean Luc Godard. Þessi myndskeið eru hljóðsett á ýmsan hátt, sumum fylgir suð Super-8 myndavélar, öðrum popptónlist frá unglingsárum listamannsins, eða hljóðmynd viðkomandi kvikmyndar þaðan sem brotið er fengið að láni. Leccia hefur líka sýnt eingöngu myndskeiðið af öldum á strönd sem sjálfstætt verk undir sama nafni. Saman mynda þessir þættir grípandi verk sem seiðir og laðar áhorfandann til sín.

Áhrif Japansferðar

Áhorfandanum er boðið til sætis í hálfrökkvuðum sal. Á tjaldinu brotna hvítar öldurnar í síbylju á svörtum sandinum, rísa og hníga á víxl, í þeim hæga, reglubundna takti sem hafinu er eiginlegur, náttúran andar. Hafið er gert á Korsíku, æskuslóðum listamannsins, eftir dvöl hans í Japan. Myndbandið er tekið upp á ströndinni sem hann heimsótti reglulega með foreldrum sínum í æsku. Í Japan kynntist Leccia Shinto-hefðinni, sem á rætur sínar að rekja allt aftur til 8. aldar, og hann hefur sagt að Hafið hefði ekki orðið til án Japansferðarinnar. Í Japan er Shinto ekki beinlínis trúarbrögð heldur hefð sem á sér sterkar rætur. Hún birtist í ótal hofum víðs vegar um landið sem Japanar heimsækja oft, þangað sækja þeir sálarró og hjálp á erfiðum stundum. Í Shinto-hofunum upplifir fólk sterka tengingu við náttúruna, frið og öryggi. Hofið upphefur náttúruna sem heilaga, og Shinto-hof þurfa ekki endilega að vera byggingar, þau geta líka verið foss, klettur, tré eða fjall. Þessi tilfinning gagnvart heilagleika náttúrunnar hafði sterk áhrif á Leccia. Í verkinu nálgast hann ströndina og náttúruna á vissan hátt sem heilagan stað og fyrir vikið verður listaverkið sjálft líkt og staður sem áhorfandinn gengur inn í og tengist.

Milli myndbandslistar og kvikmyndalistar

Í Hafinu birtast skýrt tengsl listamannsins við kvikmyndir. Að loknu listnámi með áherslu á málverk og ljósmyndun lagði Leccia stund á nám í kvikmyndafræði í París á áttunda áratug síðustu aldar, kvikmyndamiðillinn heillaði hann meira en málverkið. Á löngum ferli sínum hefur Ange Leccia gert ótal myndbandsverk sem einnig mætti kalla stuttmyndir, og hefur nefnt kvikmyndagerðarmenn á borð við Jean-Luc Godard, Paolo Pasolini og Michelangelo Antonioni sem áhrifavalda við upphaf ferils síns. Upp úr miðri 20. öld átti sér stað bylting í franskri kvikmyndagerð, kölluð Nýbylgjan. Stefna Nýbylgjunnar var sú að kvikmyndin yrði listrænn tjáningarmiðill á borð við málverkið og skáldsöguna, miðill þar sem listamaður tjáir tilfinningar sínar. Tækni Nýbylgjunnar fólst meðal annars í uppbroti frásagnarinnar, brotakenndum klippingum og löngum tökum, en þessir þættir eru einnig sýnilegir í Hafinu. Hér eins og í fleiri verkum er áherslan mjög sterk á sjónræna þætti, liti, birtu, stemningu frekar en línulaga frásögn, en þó segja sum verkanna sögur.

Myndbrotin sem brjóta upp síbylju öldurótsins eru nokkuð ólík innbyrðis. Þau eru bæði sköpun Ange Leccio og „fundin myndbrot“ úr kvikmyndum. Í mörgum þeirra leikur sólin stórt hlutverk, það má líka segja að verkið í heild sýni ekki hvað síst samspil hafs og sólar. Sólin varpar ýmist sterkum lit, glampa eða er blindandi. Nokkur innskotanna sýna andlit ungra kvenna eða stúlkna, þær tjá sig ekki heldur eru þöglar, áhorfandinn varpar sínum eigin hugsunum yfir á þær. Sum andlitin vísa skýrt til ákveðinna málverka. Til dæmis minnir andlit konu með lokuð augu undir vatnsyfirborði á málverk John Everett Millais af Opheliu, en Leccia hefur gert fleiri en eitt myndbandsverk af kvenandliti undir vatni. Myndskeiðið af öldurótinu tengist líka sögu málverksins, hér birtast öldurnar eins og fjöll sem rísa og hníga og minna á málverk frá rómantíska tímanum. Sú sterka mynd sem skapast þegar áhorfandinn horfir á Hafið tengist líka hugmynd rómantíkurinnar um sambandi manns og náttúru. En Leccia segir einmitt  að listaverk verði til við áhorf; án áhorfandans er listaverkið ekki til.

Eilífðin er fundin

Ange Leccia notar oft kvikmyndabrot frá öðrum, í anda svokallaðrar „appropriation“-stefnu, þar sem listamenn ganga í smiðju annarra og endurnýta eitthvað af verkum þeirra, setja þau fram á nýjan hátt og í nýju samhengi. Hér notar hann m.a. brot úr kvikmynd Jean Luc Godard, Pierrot le Fou, frá árinu 1965, Leccia sýnir lokasprengingu myndarinnar endurtekna með hvelli í sífellu. Einnig notar Leccia brot úr hljóðsetningu sömu myndar, þar sem leikarar hvísla upphafserindi ljóðsins Eilífðarinnar eftir Arthur Rimbaud: „Elle est retrouvée. Quoi? – L´Eternité./C´est la mer allée.“ , en í ljóðinu segir Rimbaud eilífðina birtast þar sem sólin merlar á hafinu.

Ange Leccia hefur talað sérstaklega um þátt löðursins í Hafinu. Hvítfyssandi öldurnar birta mörk lands og sjávar, og þau eru síbreytileg, eins og landamæri sem færast til í sífellu. Í þessum síbreytilegu skilum milli lands og sjávar birtist starf listamannsins, segir Leccia, hann sækir fram og hörfar í list sinni. Hann lítur ennfremur á hvítt löðrið eins og auða blaðsíðu, hvítan skjá, móttækilegan fyrir hugsunum áhorfandans. Þannig má líta á Hafið sem eins konar rými, móttækilegt fyrir ahorfandann, stað til að láta hugann hvarfla og láta sig dreyma, um leið og verkið kemur á óvart með óvæntum myndum og hljóðmynd.

Ange Leccia er fæddur á Korsíku árið 1952. Hann býr og starfar í París og á Korsíku. List hans hefur verið sýnd á söfnum víða um heim,  til dæmis í Guggenheim-safninu í New York, í Pompidou-safninu í París, í Musée d´art moderne de la Ville de Paris og á stórum alþjóðlegum sýningum á borð við Dokumenta í Kassel og Tvíæringnum í Feneyjum. Síðan 2001 hefur Ange Leccia verið forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvarinnar Pavillon Neuflize OBC í Palais de Tokyo, París.

Sýningin í Listasafni Íslands stendur til 4. febrúar 2018.

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við Listasafn Íslands.
Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.

Alvarleikinn þarf ekkert að vera göfugri en leikgleðin

Alvarleikinn þarf ekkert að vera göfugri en leikgleðin

Alvarleikinn þarf ekkert að vera göfugri en leikgleðin

Nýlega opnaði Hrafnhildur Arnardóttir einnig þekkt sem Shoplifter sýningu í Listasafni Íslands. Sýningin heitir Taugafold VII / Nervescape VII og sýningastjóri er Birta Guðjónsdóttir. Þetta er sjöunda innsetningin í Nervescape sýningaröðinni sem Hrafnhildur hefur undanfarið unnið fyrir listasöfn og stofnanir. Hún hefur þróað með sér afar persónulegan stíl en hún fléttar og þræðir saman marglitar einingar af gervihári og býr til veggverk, formræna skúlptúra og innsetningar. Einnig hefur hún gert búninga og nýlega hannaði hún fatalínu fyrir verslunina &Other stories. Artzine spjallaði við Hrafnhildi um lífið og listina og yfirstandandi sýningu á Listasafni Íslands, en hún stendur til 22. október.

Segðu mér aðeins frá Nervescape sýningaröðinni?

Þetta er í sjöunda skipti sem ég geri verk úr gervihári á svona stórum skala. Mér finnst verkin ekki geta heitið neitt annað en Nervescape því þau eru öll sprottin úr upprunalega verkinu sem var sýnt í Clocktower Gallery í New York 2012. Verkið er þó alltaf nýtt í ákveðnum skilningi því það er aðlagað að rýminu hverju sinni. Alltaf er þetta nýr vettvangur, og þar af leiðandi ný upplifun og nýjir sýningargestir. Ég held samt að sýningin í Listasafni Íslands sé síðasta sýningin í bili í þessari röð, ekki nema það sé eitthvað safn sem vilji sérstaklega setja þetta upp þá auðvitað skoða ég það og eða einkasafnarar panti sérstaklega svona verk.

Já þú hefur nú gert nokkur slík verk þar sem heilu herbergin eru þakin gervihári ekki satt?

Jú einmitt. Mér finnst alltaf gaman að teygja úr myndlistinni minni og ýkja verkin í lit eða stærð eins og með því að þekja heilu herbergin. Í einu herbergi þakti ég meira að segja rúmgaflinn úr gervihári svo hann félli inní veggina. Svo er tyggjóbleikt rýja teppi á gólfinu. Þetta var algjörlega alla leið! Fólk sem sefur í þessu herbergi dreymir víst alveg magnaða drauma! Það er planið að fá að að gista sjálf í herberginu einn daginn.

Ætli maður haldi ekki að maður sé í miðjum draumi þegar maður vaknar þar?

Já gæti verið, þetta er eins og lítill teiknimyndahellir.

Hvað getur þú sagt mér um titil sýningarinnar Nervescape?

Ég les mikið um sálfræði, mannfærði og fjölbreytilega hegðunaraáráttu manneskjunnar. Fyrir mér eru hárflækjurnar eins og taugaendar eða nokkurskonar háræðar, myndræn og ímynduð kortlagning á taugakerfinu, og „málverk“ af tilfinningaflækjum. Þegar ég setti fyrst upp svona verk í Clocktower Gallery þá kom maður lengst uppí turn og ég upplifði hann eins og hausinn á byggingunni þar sem stóra bjallan var eins og heiladingull og maður gat hreiðrað um sig í heilabrotum tímans. Verkið líktist landslagi með sínum krókum, kimum og helli. Hárið hékk í þéttum henglum og litaskala úr náttúrunni, brúnir, grænir, bláir og gulir tónar útí hvítt og drjúpandi hárflyksurnar fóru að minna á grátvið eða dropasteina og í verkinu mótaði fyrir bláum fossi svo þetta var sannarlega landslagsóður, sælureitur eða griðarstaður. Á svoleiðis stöðum öðlast maður gjarnan hugarró og því var þetta einsog tamningarstöð taugakerfis sem er komið í flækju.

Verkið fékk því nafnið Nervescape sem þá vitnar í landscape, escape og nerves sem svo fékk íslenska heitið Taugafold. Fold merkir jörð, svo með verkinu er ég að bjóða sýningargestum uppá jarðtengingu við sjálfa sig og pásu frá raunsæinu. Efniviðurinn bifast og umlykur með loðnu fangi og litirnir gefa þér birtu og vítamín og möguleika á súrrealisma ofskynjunar því allt verkið er nokkuð absúrd og engin leið að halda í of mikla lógík og alvarleika. Maður þarf að leyfa sér meira að stoppa og njóta og speisa út.

Nú er þetta fyrsta einkasýningin þín á listasafni hér heima. Hvernig líður þér með það?

Þetta er auðvitað ákveðinni vörðu náð á starfsferli listamanns að sýna á Listasafni Íslands, ég neita því ekki að því fylgir góð tilfinning. Sérstaklega þar sem safnið stendur á krossgötum með nýjan safnstjóra, Hörpu Þórsdóttur við stýrið og því spennandi að sjá hvernig hún mun móta stefnu safnsins á næstu árum. Listasafn Íslands er að mínu mati mikilvæg stofnun sem þarf að skila hlutverki sínu með sóma til samfélagssins þegar kemur að miðlun samtímalistar og sögunnar. Það hefur ábyrgðarhlutverk sem felst í því að halda utan um merka safneign og varðveislu íslenskrar myndlistarsögu. En því miður hefur róðurinn virst þungur enda skortur á fjármagni og það er á ábyrgð þjóðfélagsins og valdamanna að bregðast rétt við þörfum safnsins til að sinna hlutverki sínu. Það er svo margt stórkostlegt sem á sér stað á safninu, til dæmis frábært að sjá hve vel er haldið utanum lífsstarf Steinu og Woody Vasulka, brautryðjendum á sviði videolistar og hljóðverka.

Hvað kom til að þú fluttir til New York í framhaldsnám?

Þegar ég var að reyna að sjá fyrir mér hvar ég ætti að búa að þá sá ég sjálfa mig í New York í lit en í Evrópu sá ég mig í svarthvítu. Ég hafði ferið í útskriftarferð þangað og borgin kallaði eitthvað á mig. Þessi tilfinning var örugglega tengd því að mér fannast svo mikil þyngd í því að burðast með alla evrópsku listasögunna á bakinu, en ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir henni. Ég fann bara að mig langði í eitthvað annað, ég vildi létta á hlutunum og hrista upp í sjálfri mér. Það eru í mér svo miklir litir og pönk!

Ég hef aldrei séð eftir þessarri ákvörðun og elska að búa í New York, þar á ég núna fjölskyldu, pólskan mann Michal Jurewicz og tvö börn, Úrsúlu Milionu og Mána Lucjan og við komum reglulega til Íslands og förum til Póllands svo ég fæ alltaf Evrópu beint í æð inná milli. En í New York er ég í essinu mínu, þar hef ég sótt innblástur og fengið að þroskast sem myndlistarmaður og fá svigrúm til að vera bara akkúrat einsog ég er.

Liggur alltaf einhver hugmyndafræði að baki verka þinna?

Já það eru endalausar pælingar í gangi sem tengjast verkunum, en þær þurfa ekkert endilega að vera í forgrunni því persónubundin upplifun áhorfandans er mikilvæg og þó maður hafi ákveðna hugmyndafræði sem maður er að miðla þá þarf maður að gera ráð fyrir því að það geti alveg farið ofan garðs og neðan og það er magnað að leyfa því bara að gerast. Í raun finnst mér ekki vera hægt að vera með rangtúlkun. Ef þú upplifir eitthvað ákveðið frammi fyrir verkunu þá er það þinn raunveruleiki. Svo ef áhugi er fyrir hendi er hægt að komast að því hvað það er sem listamaðurinn er að fara með sínum verkum og þá er það viðbót og nýr vinkill fyrir áhorfandann sem annað hvort bætir einhverju við verkið eða ekki. Ég virðist hafa þörf til að tjá leikgleði sem veitir mér hamingju í lífinu. Alvarleikinn þarf ekkert að vera göfugri en leikgleðin. Maður sér þetta í bíómyndum, það er meiri virðing borin fyrir drama heldur en húmor. Myndlist sem einkennist af leikgleði getur samtímis haft alvarlegan undirtón. Og ég get svo talað endalaust um það að vera í mótsögn við sjálfan sig, það er bara heilmikil uppspretta.

Sýningin og efniviður hennar er fremur aðgengileg fyrir börn. Hefuru eitthvað hugsað út í það?

Já, þessi leikgleði, litirnir, áferðin og formin geta veitt mikinn innblástur fyrir börn. Svo tengja krakkar þetta örugglega við hárkollur, halloween og þess háttar. Mér finnst mjög gaman ef að börn koma og verða fyrir sterkum hughrifum og kynnast því hvað myndlist getur breytt líðan og vakið með manni nýjar hugsanir. Ég er mjög glöð ef ég næ til þeirra með minni myndlist. Ég horfi stundum á þessa sýningu eins og litríka creyola mynd sem börn teikna þegar þau eru lítil.

Það eru ekki allar myndlistarsýningar þar sem maður má snerta verkin líkt og má hér á sýningunni í Listasafni Íslands. Er einhver séstök ástæða fyrir því að þú leyfir slíkt?

Ég hef tekið eftir því að það er erfitt fyrir fólk að fá ekki að snerta þennan efnivið, það er eins og með plöntur eða feld á dýrum, mann langar að koma við og klappa. Skynjun er svo langt frá því að vera bara sjónræn. Hárið og magnið af því hefur líkamleg áhrif á fólk og virðist hreyfa við öðrum skynfærum í okkur svo það er næstum óviðráðanlegt að snerta til að taka inn verkið

Nú ertu með aðstoðarmanneskju í studioinu og hefur að auki ráðið framleiðanda. Hvernig er það miðað við að vinna ein að öllum verkefnum?

Það er gjörsamlega frábært. Ragnheiður Káradóttir er vinnustofustjórinn minn og Lilja Baldursdóttir er framleiðandi og heldur utanum öll verkefnin mín og sér um skipulag og hefur yfirsýn yfir framkvæmdarferlið og er aðal tengiliður minn við þá sem ég er að vinna með í hvert sinn. Ég hef verið mjög heppin því þær báðar eru mjög klárar og samanlagt erum við gott teymi. Ragnheiður er sjálf frábær myndlistamaður og skilur því allt ferlið mjög vel. Lilja hefur að baki menntun í viðskiptum og skilur lögfræðimál og þannig dreyfist vinnuálagið sem var byrjað að sliga mig fyrir um ári síðan. Við erum líka orðnar það nánar að ég get verið mjög opinská og mér finnst rosa gott að heyra hvað þeim finnst um hinar og þessar hugmyndir og lausnir. Það kemur huganum oft í flæði að vera í samtali og það getur hjálpað mér að finna rétta svarið við eigin spurningum.

Þær eru líka að vinna með mér að halda utanum skrásetningu eldri og nýrra verka. Ég hef verið á leiðinni að gera yfirlitsbók með verkunum mínum og nú þegar ég er komin með þær innanborðs get ég loksins náð utan um það. Það er æðislegt að fá svona mikla aðstoð því auðvitað er stórt batterí að sjá um alla hluti tengda sýningum alveg sjálfur. Ég hef þá meiri tíma til að sinna verkum og koma nýjum hugmyndum áfram. Þetta eykur allan fókus og eins og að vinna með þrjár hægri hendur og þrjá heila sem eru alger forréttindi og ómetanlegt.

Svo er Birta Guðjóns sýningastjóri sýningarinnar í Listasafninu mjög náin samstarfskona, þetta er í þriðja skiptið sem hún setur upp sýningu með mér og það hefur verið frábært að vinna með Birtu því hún setur sig svo vel inní verkin manns og er mjög næm á það hvað maður er að gera og hvað þarf til að koma öllu sem best frá sér, ég er mjög þakklát henni fyrir að hafa fylgt Taugafold þrisvar úr vör hingað til.

 Segðu mér aðeins frá verkefninu sem þú vannst fyrir Los Angeles Philharmonic í Walt Disney Hall?

Um páskana var Los Angeles Philharmonic með frábæra kynningu á íslenskri tónlist, Reykjavik Festival en Daníel Bjarnason tónskáld setti saman dagskrána og bauð mér að taka þátt þessu mikla verkefni með uppsetningu á myndlistarverki í einn tónleikasalinn. Það var mjög mikil áskorun að setja upp verk í þessu fræga húsi sem hýsir Los Angeles Philharmonic og er teiknað af Frank Gehry sem er einn merkasti arkitekt allra tíma og þetta er ein frægasta bygging í LA.

Fra LOS ANGELES PHILHARMONIC, REYKJAVIK FESTIVAL. Ljósmynd: Lilja Baldursdóttir.

Rýmið sem mér var boðið að setja upp verkið í, BP Hall, er umlukið bogalaga viðarveggjum, mjög háum og miklum svo manni líður einsog maður standi á milli skipaskrokka. Þar sem ekki mátti negla eða festa neitt í viðarveggina en mig langaði að verkið svifi yfir gesti hátíðarinnar tókst mér að finna lausn þar sem ég setti hárknyppi á reipi og bjó til úr því vef sem einhverskonar heilaflækju sem við festum í loftið. Það kom mjög vel út og ég notaði svo svipaða aðferð til að setja upp Nervescape í Listasafni Íslands.

Mér finnst spennandi að gera innsetningar í óhefðbundið sýningarrými, og það þarfnast oft lausna á vandamálum sem ýta manni áfram og hjálpar til að þróa ný verk. Sérstaklega áhugvert þegar það á sér stað tónlistarflutningur í innsetningunni því þá fær maður gestina til að dvelja lengur í verkinu og tímaramminn til að njóta myndlistar er öðruvísi.

Horfir þú á Nervescape innsetningarnar eins og málari horfir á abstraktmálverk?

Já í raun því maður er alltaf að leita að einhverju jafnvægi í rýminu, hlutföllin skipta miklu máli, alveg eins og í teikningu eða málverki. Mér finnst gaman að búa til myndlist sem verður að umhverfi þínu. Ekki bara fyrir framan eða aftan, heldur er alltumlykjandi. Mér finnst ég vera að mála í lausu lofti.

 Fyrir utan myndlistina þá hefuru verið að taka að þér önnur verkefni og má segja að þú útvíkkir myndlistarformið með því að vinna þvert á aðrar greinar. Þú hefur meðal annars gert fatalínur og búninga. Eru verkefnin fyrir þér mismunandi eða er þetta allt sami heimur fyrir þér?

Já ég byrjaði að búa til föt þegar ég var pínu lítil og byrjaði að finna gömul föt til að breyta, með aðstoð móður minnar sem var þolinmæðin uppmáluð því ég fann aldrei nein snið heldur bara skissaði á blað og var með sérviskulegar hugmyndir. Þannig að þegar ég fæ tækifæri til að vinna með föt eða búninga þá er það mér mjög eðlislægt. Ég þarf soldið að passa mig að halda að mér höndum því áður en ég veit af get ég verið komin út í fatahönnun, og það er ekkert að því svo sem, en þá hef ég ekki tíma fyrir myndlist líka sem er þar sem mér líður best. Maður getur ekki unnið mörg 100% störf eðlilega, svo ef eitt tekur yfir er það á kostnað einhvers annars, en samt finn ég tíma til að flörta við tísku og það gefur mér oft innblástur fyrir myndlistina. Stundum finn ég nýja tækni fyrir myndlistina af því að ég þurfti að leita að lausnum í hönnun sem lýtur öðrum lögmálum þegar kemur að notagildi og útfærslu.

Segðu mér aðeins frá samstarfinu við verslunina &Other Stories.

Þegar ég var beðin um að gera fatalínuna fyrir &Other stories þá höfðu þau einungis séð myndlistina mína og höfðu ekki hugmynd um að ég hefði gert tísku áður. Þau vildu fá myndlistarmann til að gera framlengingu á sinni myndlist og fagurfræði og yfirfæra það yfir í tískuna. Þetta var alveg draumastarf því þarna fékk ég teymi sem kunni á alla þætti framleiðslu og útfærslu á hugmyndunum mínum og aðgang að efnum og framkvæmdaraðilum sem ég hefði aldrei gefið mér tíma til að finna út úr. Þannig að ég var eins og ofvirkur krakki í nammibúð og ég ekki alveg að skilja tímarammann sem setur tískuheiminum skorður.

Photos: & Other Stories.

Ég lærði því mikið á þessu og nýt þess virkilega að sjá verkin mín breytast í hönnun. Ef vel tekst til er þetta eðlilegt framhald af myndheimi manns og nær að standa sterkt fyrst og fremst sem föt, en ekki bara mynd af verki á bol til dæmis. Ég var mjög ánægð með útkomuna og myndi gjarnan vilja halda áfram að miðla myndheimi í fatnaði, skarti og hönnun en til þess að láta það gerast þarf ég að finna teymi sem getur séð um framkvæmdina og fjármagnað það.

Ætlaðir þú alltaf að verða myndlistarkona?

Ég væri örugglega mannfræðingur eða sálfræðingur ef ég væri ekki myndlistamaður. Mér finnst fólk almennt mjög spennandi og magnað að skoða hegðunarmynstur og fjölbreytileika manneskjunnar. Það hefur alltaf verið uppspretta hamingju hjá mér að pæla í umhverfinu og finna fegurð í hverju sem er, sérstaklega finnst mér gaman að leyfa mér að efast um eigin skoðanir á öllu mögulegu, til dæmis ljótleika einhvers hlutar eða flíkur eða ákveðinnar samsetningu. Ég veit yfirleitt vel hvað ég vil og vil ekki en er oft spennt að fá að skipta um skoðun í tíma og ótíma og koma sjálfri mér á óvart til að staðna ekki í einni hugmynd um hvað sé rétt, fallegt, ljótt, hallærislegt eða ónothæft þegar kemur að myndlist eða hönnun. Svo hef ég haft mjög gaman af að rugla fólk aðeins í ríminu með því að leyfa mér að vinna í aðra miðla en myndlist eins og til dæmis tísku, sem þótti sjálfsagt að myndlistarmenn gerðu í gamla daga, en það vann í leikhúsum við gerð sviðsmynda og búninga og allt milli himins og jarðar, því þegar þú ert hugmyndaríkur og frjór einstaklingur þá er eitt format ekki endilega eini drifkrafturinn heldur samhengi hlutanna. Svo er þetta einfaldlega vinnan mín, að búa til áþreyfanlega hluti eða hughrif, og ef maður er spenntur fyrir launuðu verkefni sem nýtir sköpunarhæfileikana manns þá að sjálfsögðu ert þú ein/einn um það að dæma hvort þú átt að gera það eða ekki.

Elísabet Alma Svendsen


Ljósmyndir af Hrafnhildi og innsetningu í Listasafni Íslands: Daníel Magnússon.

Vefsíða Hrafnhildar: www.shoplifter.us

Sjónlýsing í Listasafni Íslands. Laugardaginn 14. maí kl. 14

Sjónlýsing í Listasafni Íslands. Laugardaginn 14. maí kl. 14

Sjónlýsing í Listasafni Íslands. Laugardaginn 14. maí kl. 14

Laugardaginn fyrir Hvítasunnu, 14. maí býður Listasafn Íslands upp á sérstaka leiðsögn um sýninguna: UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST, Upphaf kynningar á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn. Á sýningunni er litið um öxl og sýndur hluti þeirra verka sem voru á tímamótasýningum í Kaupmannahöfn árin 1920 og 1927.

Blint og sjónskert fólk er boðið sérstaklega velkomið í þessa leiðsögn, en Listasafn Íslands hefur fengið Guðbjörgu H. Leaman og Þórunni Hjartardóttur, sjónlýsendur, til að semja sjónlýsingar á fjórum völdum verkum á sýningunni.

Guðbjörg og Þórunn sjá um þessa leiðsögn, en jafnframt sjónlýsingunum verður hægt að hlýða á lengri, listsögulegar lýsingar á umræddum verkum, á heimasíðu safnsins.
Listasafni Íslands er umhugað um að ná til áhugasamra listunnenda innan þessa hóps og bjóða þeim upp á þjónustu á því formi sem hentar þeim best.

Sjónlýsingarnar á þessum verkum munu síðan verða aðgengilegar sem hljóðskrár á heimasíðu safnsins, þar sem fjallað er um safneignina og vonir standa til að sjónlýstum verkum í safneigninni fjölgi á næstu misserum, eftir því sem kostur gefst.

Kvartett Chantal, Joffe Gauthier, Hubert Jockum Notdström, Tumi Magnússon í Listasafni Íslands

Kvartett Chantal, Joffe Gauthier, Hubert Jockum Notdström, Tumi Magnússon í Listasafni Íslands

15.1.2016 – 1.5.2016, Listasafn Íslands

Listasafn Íslands hefur sýningadagskrá sína á nýju ári með sýningu fjögurra samtímalistamanna, þeirra Gauthiers Hubert (1967), Chantal Joffe (1969), Jockums Nordström (1963) og Tuma Magnússonar (1957). Öll vinna þau með sjálfan manninn í brennidepli. Framsetning verka þeirra snýst um listmiðilinn og sögu hans að fornu og nýju og þau ganga út frá ákveðnum sögulegum forsendum en með afar ólíkum hætti.

Gauthier Hubert tekur hugmyndlæga afstöðu til málverksins og spretta verk hans af sagnfræðilegum atvikum sem bregða skýru ljósi á starf og hugarheim listamannsins í fortíð og nútíð. (Viðtal við Gauthier Hubert)

Chantal Joffe gengur gjarnan út frá sjálfri sér, sínu nánasta umhverfi. Verk hennar eru í senn nærgætin, innileg og nærgöngul. (Viðtal við Chantal Joffe þar sem hún ræðir um verk sín)

Jockum Nordström teiknar, klippir og límir upp barnslegar myndir af samfélagi eins og það birtist okkur gjarnan í sögulegum sápuóperum um húsbændur og hjú. Undir liggur þó sori og siðleysi. (Viðtal við Jockum Norrdström)

Teygðar og afmyndaðar myndir Tuma Magnússonar af líkamspörtum og hauskúpum eru nær beinar tilvísanir í myndmál sem hrekkjóttir meistarar á 16. öld beittu gegn hugmyndaþurrð samtíðarinnar. (Viðtal við Tuma Magnússon)

NÁNAR UM SÝNINGUNA

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest