Hittumst á Kili – Jóna Hlíf sýnir í Flóru menningarhúsi

Hittumst á Kili – Jóna Hlíf sýnir í Flóru menningarhúsi

Fjær

Hittumst á Kili – Jóna Hlíf sýnir í Flóru menningarhúsi

Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýnir um þessar mundir nokkur verk í Flóru menningarhúsi á Sigurhæðum. Húsið létu Guðrún Runólfsdóttur og Matthías Jochumsson reisa fyrir sig og fjölskyldu sína árið 1903 og stendur reisulegt í hvammi í brekkunni milli Akureyrarkirkju og Hafnarstrætis. Í Flóru hanga verk Jónu Hlífar innan um ýmsa muni frá fyrri ábúendum hússins og innsetningar tengdum þeim. Þar eru líka ilmandi prjónavörur, þýskt hunang, sápur að austan, jarðaber innan úr firði og ansi myndarlegt magn af inniplöntum. Heimilislegt mjög.

Jóna Hlíf vann sín verk sérstaklega fyrir sýninguna og öll vísa þau með einhverjum hætti í verk Matthíasar. Standa líkt og uppvaxnir afleggjarar úr garði Matthíasar, spræk í eigin potti.
 Í sumar gaf Jóna Hlíf út bókverkið ÞAK/TRÚ sem geymir textann Hús og dagar, hugleiðingu um hús, tíma og minningar. Verkið kallast sterkt á við sýninguna á Sigurhæðum og er tileinkað minningu Jóns Laxdals – sem einnig sýnir verk í Sigurhæðum þetta árið. Skástrikið í titlinum ÞAK/TRÚ er allrar athygli vert og myndar ansi merkilegt tugabrot sem við skulum taka með okkur inn á sýninguna.

ÞÍN HEILAGA HEIMVON

Bókverkið ÞAK/TRÚ sem geymir textann Hús og dagar, hugleiðingu um hús, tíma og minningar.

Það brestur hlýlega í gólfinu þegar við göngum í bæinn og gegnum stofu(r)na(r). Inni í ljósbláa eldhúsinu á Sigurhæðum, fyrir ofan eldhúsvaskinn, hangir verkið Hærra. Yfir ljós- og dökkbleikum fjallsbrúnum slúta fram útskornir stafir úr grænum pappírshimni. Saman mynda þeir orðin ÞÍN HEILAGA HEIMVON. Líkt og til uppljómunar þeim sem líta upp úr uppvaskinu. Við erum minnt á að helgasta rými hvers heimilis er og verður eldhúskrókurinn. Í svipuðum stíl og Hærra er verkið Hinstu orð Skugga-Sveins, sem tekur á móti gestum inni í stofunni, og kveður þá á leiðinni út. Þar eru fjöllin og himininn næturblá, og á himninum má lesa HITTUMST Á KILI.

Bakvið stafina sem spretta út úr himninum glittir í eitthvað gult – sem gleður – og minnir á sumartungl eða leslampaskin.
Verkin Land I og Land II hanga í sömu stofu, hlið við hlið fyrir ofan rauðan sófa. Þar vinnur Jóna Hlíf með Níðkvæði um Ísland, stundum nefnt Volaða land. Kvæði sem Matthías orti einn hafísaveturinn, harmi sleginn og sármóðgaður út í land sitt, eftir að hafa þurft að jarða ekkil, sem svalt í hel ásamt fjórum börnum sínum; „Volaða land,/ horsælu hérvistar slóðir“ orti Matthías þá, og hélt áfram þangað til erindin voru orðin ellefu. Jóna Hlíf hefur dregið út úr kvæðinu nokkur af þeim orðum sem Matthías valdi Íslandi og saumað þau í djúpblátt flauel með gylltum þræði. Í Land II standa lýsingarnar í hvorugkyni, líkt og í kvæði Matthíasar – HRAUNELDA HAFÍSA STÓRSLYSA BLÓÐRISA – en í Land I hefur hún lýsingarnar í kvenkyni: VOLUÐ TRÖLLRIÐIN VESÆL HRAFNFUNDIN. Þetta skapar spennu milli verkanna og skorar á áhorfandann að geta í eyðurnar. Því okkur finnst við þekkja þetta skapstóra land bakvið glerið.

Landið sem skelfir og skelfur og á það til að springa. Það er aftur á móti óljóst hver hún er, sem hangir á veggnum við hlið þess – en það er óneitanlega svipur með þeim tveim.

Kannski við kíkjum í gestabókina.

Sölvi Halldórsson


Heimasíða Jónu Hlífar: www.jonahlif.is
Ljósmyndir: Jóna Hlíf.
Sýningin stendur til 6. nóvember.
www.floraflora.is

Um þrettán hundruð orð: Jóna Hlíf í Listasafninu á Akureyri

Um þrettán hundruð orð: Jóna Hlíf í Listasafninu á Akureyri

Um þrettán hundruð orð: Jóna Hlíf í Listasafninu á Akureyri

Ég heyrði einu sinni um ljósmyndara, erlendis frá, sem kom til Íslands í frí. Hann var spurður, eftir að hafa horft hér um, skoðað þetta land, séð fjöll, heiðar, berg, strandir, sjó og fólk, hvort hann hafði tekið einhverjar myndir, hvort hann vildi ekki taka einhverjar ljósmyndir hér. Hann sagði nei, alls ekki. Það er ekki hægt að taka myndir hér, ómögulegt. Af því hvert sem ég lít, hvert sem ég beini vélinni, er fullkomin ljósmynd. Þetta er það sem Jóna Hlíf er að reyna að gera á sýningunni sinni Meira en þúsund orð. Að skoða eitthvað, setja nafn á, sýna okkur eitthvað sem við höfum öll séð áður. Eitthvað sem við höfum verið að horfa á í þúsund ár. Eitthvað sem, í sjálfu sér – ósnert – virðist fullkomið, stórkostlegt eins og landslag, eitthvað sem yfirbugar vélina sem við reynum að nota til að skoða það.

Að reyna að taka mynd af og setja nafn á þessa hugmynd af hinu íslenska. Það er erfitt, flókið. Vélin sem við notum við það þarf að standa af sér viss þyngsli. En vélin hér er mikilvæg. Það sem við erum að skoða þegar við skoðum þetta landslag og þessa hugmynd er líka þessi mynd sem hefur orðið að því sem við köllum íslenskt. Landið er eitt, myndin af því er annað.

Ljósmyndarinn gat ekki tekið mynd af fossinum, bóndabænum, hestinum, hverinum, stuðlaberginu, öskunni, lögin af öskunni, mosanum, bláa hafinu, bláa himninum, af því hann væri að taka mynd af einhverju sem, á sama tíma, er ekki hægt að fanga á mynd og sem allir hafa nú þegar tekið mynd af. Við vitum öll hvað við erum að tala um. Af því það sem við köllum íslenskt er líka íslensk klisja. Það sem við sjáum á samfélagsmiðlum, sem við miðlum á milli okkar næstum ósjálfrátt, sem við sjáum í kennslubókum, í tónlistarmyndböndum, mynd sem hefur undanfarin ár verið miðlað, varpað, út um allan heim á mjög ákveðinn hátt, og síðan af ferðafólki sem greinilega þyrstir í þetta landslag.

Jóna Hlíf sýnir okkur hér myndir og orð og efni og liti sem eiga að lýsa okkur sjálfum. En í dag, þegar klisjan er sú að börn fara ekki lengur í sveit, að fólk sjái þessar myndir, þetta land, nærri því eingöngu um sumar, í fríi jafnvel, sem afþreying, ekki sem heimili, land til að lifa af á, sinna og leigja (sjaldnast að eiga); þegar samband fólksins við sjálft landið og svo myndirnar af því er orðið allt annað, jafnvel rofið á einhvern hátt frá því sem það var áður; þegar allt sem birtist á þessum myndum, heysláttur, saltfisksflak, kind, hefur tekið á sig aðra þýðingu, þá kemur í ljós að við vitum kannski ekki alveg hvað þessi klisja þýðir.

Fyrsta setningin sem Jóna Hlíf birtir í sýningartextanum, á vegg áður en komið er inn á sýninguna, er eftir W.H Auden: This is an island and therefore Unreal. Auden skrifar þetta þegar hann og Louis MacNeice ferðuðust um Ísland árið 1936. Þetta hefur alltaf verið satt, allavega fyrir þann sem sér Ísland sem utanaðkomandi. Ævintýraeyja, hinstu mörk veraldarinnar, hlutur sem fólk annars staðan frá á auðvelt með að breiða sínum eigin hugmyndum og hneigðum yfir. Auden segir samt, annars staðar, að þetta gildi um allar eyjur – að á eyjum gildi annarskonar reglur. Á eyju eru ekki landamæri eins og á milli Frakklands og Þýskalands. Engin nágrannaþjóð til að bera sig við, hlægja að, með, eða hata. Eyja á úthafi er óraunverulegur staður ef hún er borin saman við meginland eða metrópólis. Hugsanlega vildi Auden sækja þetta hingað, óraunveruleika, kyrrð, eitthvað annað en hans England. Setningin sem kemur einmitt á undan þessari setningu sem Jóna Hlíf notar er: Europe is absent.

Auden sá Ísland sem langt í burtu frá öllu, frá meginlandinu, frá stigmagnandi óróleika millistríðsáranna, frá sinni eigin sögu. Europe is absent. This is an island and therefore Unreal. Hér var mögulegt fyrir eitthvað annað að vera til, önnur mynd, einfaldari og hugsanlega fullkomnari mynd. Eða hvað?

Í næsta versi ljóðsins lýsir Auden tveim elskendum sem geta fundið hina tæru ást, ein í eyðimörk þessarar eyju. En svo spyr hann strax: Can they? Getur þetta verið, að hér, langt í burtu á meðal óspilltrar þjóðar geti fundist eitthvað fullkomið? Nei. Annars staðar í bókinni lýsir hann rútuferð til Mývatns þar sem ferðast með þeim hópur af nasistum. Íslenska klisjan var auðvitað þeirra draumur líka. Ísland er óraunverulegt bara ef við leyfum myndunum af Íslandi að vera óraunverulegar, ef við leyfum þeim að vera bara klisjur. Ef við spyrjum klisjuna ekki spurninga.

Auden leitaði hugsanlega að einsemd, stórkostlegri náttúru, bláa hafinu og bláa himininum, frelsi frá gangi sögunnar, en sá líka fljótt að það er ekki hægt að finna það neins staðar. Þó hefur Ísland óneitanlega aðra upplifun af 20. öldinni en England, en Frakkland, en Þýskaland. Seinna stríð bjó til störf hér, vegi, nælonsokkabuxur, Ísland uppgvötvaði heiminn. Helförin var annars staðar. Þetta var tímabil sem mótaði að miklu leyti þessa næstum útópísku mynd sem varð til af Íslandi.

Jóna Hlíf spyr: ef við vitum ekki alveg hvað þessi klisja þýðir í dag, hver erum við þá? Hvað finnum við þegar við skoðum þessar myndir?

Af því þegar við köllum eitthvað Íslenskt, íslensk angist, íslensk auðmýkt, íslenskur ótti, þá erum við líka að bera það íslenska saman við eitthvað annars staðan frá. Hvað er sérstaklega íslenskt við íslenska gleymsku? Er hún eins og bandarísk eða malavísk? Ef það var ekki hægt að komast í burtu frá raunverulega heiminum hinum megin við hafið árið 1936 þá er það alls ekki hægt í dag. Hvað það er að vera íslendingur ræðst að miklu leyti af því hvernig samband Íslands er við umheiminn.

Þannig er eitthvað kalt og jafnvel óþægilegt við hvernig myndirnar og formin og efnið og textarnir á sýningunni mynda heild. Maður sér hversu mikil foréttindi íslensk forréttindi eru. Að vera þessi klisja eru foréttindi. Sérstaklega þegar Ísland hefur orðið að eftirsóttum ferðamannastað (fólk jafnvel tilbúið að ferðast hingað á tímum COVID-19, fólk jafnvel að berjast fyrir því að fá að ferðast hingað þrátt fyrir heimsfaraldur). Það er ekki erfitt að sjá afhverju. Við erum exótísk en það er hreint hjá okkur líka; það er stutt að fljúga hingað en samt erum við einangruð og lengst í burtu; við virðumst alhvít og nógu lík hinum vestræna efri-millistéttamanni til að ögra ekki. Það er auðveldara að vera þessi klisja heldur en einhvernvegin raunveruleg.

Þannig sjáum við á sýningunni mosatorfu, svartan sand, nokkra íslenskulega steina, viðbúinn efnivið í íslenskri sýningu. En svo tekur maður eftir því að stöplarnir sem þetta efni situr á eru valtir. Þeir standa á löngum, mjóum fótum úr ódýru timbri. Þeir gætu á hverri stundu, auðveldlega, dottið eða fallið saman, þeir þola ekki hnjask, jafnvel ekki sýningargesti. Þá tekur maður líka eftir þykkblöðungi, einhverskonar, í potti á einum stöplinum og það getur verið leið út. Við vitum að Íslenska klisjan stendur á völtum fæti, að hún er pappírsþunn, líka að það getur auðveldega orðið klisja að gera myndlist um það að vera Íslendingur – en það er nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að skoða þessar myndir af okkur og hvernig þessi saga hefur verið sögð. Það er nauðsynlegt að koma með fleiri myndir, fleiri efni, fleiri hluti (hvernig á þykkblöðungur í potti heima á þessari sýningu?) inn í þessa hugmynd um hið íslenska. Það er nauðsynlegt að ögra og taka í sundur þessa alltaf endurfæddu klisju.

Yfir einum glugganum í sýningarsalnum hefur Jóna Hlíf sett bláa filmu. Þegar skín í gegnum hana kemur inn blátt ljós yfir sýninguna, tiltekinn blár litur sem við höfum ákveðið sé íslenskur. Ef við ætlum okkur að skoða og túlka og reyna að komast að því hvað er íslenskt þá þurfum við að vita að við gerum það alltaf í gegnum einhverja filmu, einhverja vél, að vélin litar okkur. Hvort sem sú vél er myndlistarsýning, orðaforði samtíma okkar, eða hvort það sé ódýrt að fljúga til íslands eður ei, þá þurfum við að skoða þessar myndbirtingar vel – hvernig við birtumst á mynd, hvernig við tölum um okkur – að túlka og endurtúlka hvað íslenskt þýðir. Við gerum ekki nógu mikið af því.

Starkaður Sigurðarson


Ljósmyndir: Vigfús Birgisson

Af veður- og fortíðarþrá

Af veður- og fortíðarþrá

Af veður- og fortíðarþrá

Tíminn og veðrið eru viðfangsefni Jónu Hlífar Halldórsdóttur á sýningunni Óljós þrá í Grafíksalnum að Tryggvagötu. Efniviðurinn endurspeglar það. Um er að ræða annars vegar traustleg veggverk úr áli eða marmara og misveðruðum kopar og hins vegar viðkvæmnislegan skúlptúr í miðju rýminu; samsafn lítilla hluta eða sýnishorna úr náttúrunni, til dæmis pappír, steina, silkibúta, lifandi kaktus og þurrkuð blóm, sem raðað er með natni á þrjú há og mjó, þrífætt tréborð.

Veggverkin eru öll textaverk, enda hefur Jóna Hlíf lengi unnið með orð og texta í myndverkum sínum. Í koparplötur, sem hún lét tærast úti í íslensku veðri í nokkra daga, hefur hún sagað út stutta texta sem tengjast tímanum. Textarnir eru settir upp eins og línur í ljóði og má þar m.a. finna vísun í eina þekktustu veðurvísu Íslands, eftir Jónas Hallgrímsson, sem hljóðar svo:

Veðrið er hvorki vont né gott
varla kalt og ekki heitt
það er hvorki þurrt né vott
það er svosem ekki neitt.[i]

Í verki sínu heldur listakonan áfram með þessa hugmynd og bætir við nýrri vídd, tímanum: „Án minnis er tíminn / rétt eins og veðrið / svo sem ekki neitt“. Samþætting veðurs og tíma einkennir alla sýninguna og samspil hins að því er virðist óhagganlega, endingargóða, óflekkaða marmara og koparsins, sem halda mun áfram að tærast og breytast eftir því sem tíminn líður, er vel heppnað. Það lýsir m.a. togstreitunni milli óljósrar þrár okkar eftir varanleika og þeirri staðreynd að „Tíminn veðrar / sálina / Lífið drepur / tímann“. Efni og tími vinna þannig saman í þessum verkum og togast jafnframt á.

Fullkomin eftirgjöf

Það sama gildir um efnivið listamannsins og orðin sem hún notar; þetta tvennt spilar saman og togast á í baráttu sinni við tímann. „Vatnið máir steininn / orðin söm við sig“ segir á nokkuð frísklegri koparplötu og á annarri mun veðraðri við hliðina á stendur: „Steinninn máir tímann / orðin söm við sig“. Hér er m.a. vísað til þess að hin óefnislegu orð geta staðist tímans tönn mun lengur en efni sem veðrast og eyðist, enda munu útskorin orðin á koparplötunum haldast lengi óbreytt þótt áferð koparsins breytist smám saman. Tíminn og efnið má ef til vill hvort annað en orðin standa óhögguð af bæði tíma og efni. Á sama tíma sækir sýningin innblástur í bókina Veðurfræði Eyfellings, greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum, sem Þórður Tómasson frá Vallnatúni gaf út árið 1979[ii] og er að einhverju leyti viðbragð við forgengileika orðanna; því að orðaforði fyrri kynslóða yfir veður, sem var „með ólíkindum mikill“, sé nú „að fjúka út í veður og vind“. Þórður kemur þessum orðum í efnislegan búning, sem prentsvertu á blaðsíður bókar, í tilraun til að halda þessu gamla „veðurmáli […] til haga fyrir seinni tíma“.[iii]

Fullkomin eftirgjöf
Fullkomin eftirgjöf
Fullkomin eftirgjöf

Jóna Hlíf ólst sjálf upp undir Eyjafjöllum og þekkir vel bæði veðurfarið þar og hina sterku hefð að hyggja stöðugt að veðri og spá í skýin. Þórður lýsir því svo í inngangi bókar sinnar: „Veðurútlit var ráðið af láði og legi, af útliti loftsins í blikum og skýjafari og heiðríkju, af atferli lífsins frá æðsta stigi til hins lægsta. Forvitri maður byggði veðurspá sína á hugboði og draumum og sá þá oft langt inn í komandi tíð. Líkami mannsins gat orðið honum nokkurs konar loftvog, ekki síst, er þreyta og gigtarstingir tóku að hrjá hann.“[iv] Hlutverk veðursins og hugleiðinga um veðrið í daglegu lífi okkar, veðurtengdur orðaforði, hjátrú og búverk, er viðfangsefni orðanna á hvítum veggverkum úr áli og þá sérstaklega staðbundið veðurfar og kúnstin að þekkja inn á veðurfar ákveðins staðar og búa því sess innan tungumálsins og menningarinnar. Jóna Hlíf tekur þannig þátt í að varðveita falleg og sérstæð orð eins og þerrifluga og deyfutíð og halda þeim í notkun. Verkin hanga á hvítum veggjum, hvít á hvítu, en orðin sjálf gefa þeim dýpt; þrívídd sem listakonan skapar með því að skera þau út í efnið. Að því leyti minna þau á skýin sem eru í raun veðrið sjálft efnisgert; hin sýnilega hlið annars óljósra veðrabrigða.

Jóna Hlíf hefur undanfarin tíu ár unnið textaverk sín náið með eiginmanni sínum, Hjálmari Stefáni Brynjólfssyni, og sömdu þau saman texta sem liggur frammi útprentaður á sýningunni. Textann kalla þau mónólóg og er hann settur fram sem brotakenndar, persónulegar vangaveltur um viðfangsefni sýningarinnar, til dæmis veður, tíma og orð sem vekja þrá – „hvort sem það er dauðaþrá eða fortíðarþrá, burtþrá, þrákelkni, veðurþrá eða heimþrá“.

Skúlptúrarnir í miðjum salnum skapa svo eins konar orðalaust tilbrigði við stef sýningarinnar; þeir eru hlutbundin framsetning þess sem veðrast og eyðist í náttúrunni. Hins vegar gerir framsetningin, þar sem litlum hlutum er tyllt á viðkvæm borð, það að verkum að orðin á veggjunum eru í raun efnislega traustari. Togstreita og samspil hins varanlega og hins forgengilega, hins trausta og hins viðkvæma, og óljós mörkin þar á milli, eru þannig endurtekin á ýmsan hátt í sýningunni. Eftir situr óljós þrá okkar, eftir fortíðinni og eftir að varðveita hið forgengilega, að vinna gegn þeirri staðreynd að: „Tíminn liggur í eina átt / Enginn fær snúið / til baka“. En um leið er það ef til vill dauðaþráin og forgengileikinn sem skapar dýnamík sýningarinnar og gefur henni gildi.

Auður Aðalsteinsdóttir
Bókmenntafræðingur og ritstjóri Hugrásar, vefrits hugvísindasviðs Háskóla Íslands

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Photo credit: Passamynd –  Júlía Runólfsdóttir. Myndir af verkum – Vigfús Birgisson

[i] Tekið úr bók Þórðar Tómassonar: Veðurfræði Eyfellings, Reykjavík, Bjartur, 2014, bls. 58.

[ii] Bókin var endurútgefin með viðbótum fyrir tveimur árum.

[iii] Þórður Tómasson: Veðurfræði Eyfellings, bls. 9-10 og 12.

[iv] Samar rit, bls. 9.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest