Mörgu tjaldað til

8.08. 2018

Sumarsýning Hafnarborgar í ár gegnir tvíþættu hlutverki. Annarsvegar er fagnað 35 ára stofnafmæli og hinsvegar 30 ára vígsluafmæli þessarar mikilvægu lista og menningarstofnunar Hafnfirðinga. Saga safnsins er kunnari en frá þurfi að segja en vert er að rifja hana upp hér í krafti þess að aldrei verða góðar sögur of oft sagðar; einkum þær sem tengjast menningarlífi borga og bæja. En það voru semsagt Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon sem gáfu Hafnarfjarðarbæ hús sitt og myndlistarsafn árið 1983. Eftir gagngerar endurbætur á húsinu var Hafnarborg tekin í notkun sem menningar- og listamamiðstöð árið 1988 og hefur síðan hýst fjölda myndlistarsýninga auk þess sem safnið hefur gefið út veglegar sýningarskrár í áranna rás.

Titill sýningarinnar, Hafnarborg 35/30 Afmælissýning  er yfirlætislaus og lýsir tilefninu afar vel. Allir sýningarými hússins er  vel nýtt og á það jafnt við um Sverrissal, aðal salinn á annarri hæð og þrjú afherbergi innaf stóra salnum. Húsið ólgar og iðar af list hvort sem litið er á gólf, veggi eða uppí rjáfur.

Í Sverrissal eru ný aðföng og bera verkin vott um vel heppnað val þar sem pólitísk vísun til flóttafólks og hælisleitenda kemur fram í verki Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur Ständchen (Serenade) frá 2017 og var það hluti stórrar innsetningar hennar í Hafnarborg á síðasta ári. Sá hluti innsetningarinnar sem sýndur er í tilefni afmælisins samanstendur af 23 ljósmyndum af smávöxnum farfuglum sem eiga sér meira en eitt heimaland. Einnig er þarna afar skemmtilegt geómetrískt málverk, Án titils eftir Valtý Pétursson málað einhverntíma á árunum 1950-1959. Verkið sem kom í hlut Hafnarborgar þegar nokkrum listasöfnum var boðið að velja verk úr dánarbúi Valtýs er talsvert ólíkt þeim verkum sem voru á minningarsýningu um Valtý í Listasafni Íslands sem lauk í mars árið 2017. Verkið bregður óvæntu ljósi á listamann sem flakkaði hiklaust milli stíla og litasamsetninga á ferli sínum. Annað eftirminnilegt verk er vatnslitamyndin Fermdur frá 2015 eftir Siggu Björgu Sigurðardóttur sem hélt eftirminnilega sýningu á ógeðfeldum og hrollvekjandi furðudýrum í salnum árið 2017. Það var sýning sem var mér viðlíka opinberun og þegar ég sá blekteikningar Alfreðs Flóka fyrsta sinn í Bogasal Þjóðminjasafnsins á 7. áratug 20. aldarinnar.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, Ständchen (Serenade) frá 2917.

Valtýr Pétursson, Án titils 1950-1959.

Sigga Björg Sigurðardóttir, Fermdur 2015.

Þegar á efri hæðina kom brást það ekki að augun leituðu til vinstri sem gerist iðulega þegar gengið er inní sýningarsali, jafnvel þó ágæt verk kunni að blasa við beint af augum. Á endaveggnum var þéttur hópur mynda af frammámönnum á óræðum aldri og eru öll málverkin eftir karla. Það má því segja að feðraveldið hafi átt salinn með öllu sínu mikla og karlmannlega aðdráttarafli. Það var ekki fyrr en komið var upp að veggnum að í ljós kom að þar var mynd af Ingibjörgu eftir Eirík Smith frá 1988 auk tveggja málverka af Sverri. Staðsetningin á Ingibjörgu í jaðri hópsins leiðir hugann ósjálfrátt að jaðarstöðu kvenna í karlaheimi auk þess að gera hana svolítið einmana.  Það hverflaði að undirritaðri að betur hefði farið um Ingibjörgu innanum konurnar á suðurveggnum en þar fjölluðu öll málverkin um staðalmyndir af heimi kvenna og voru öll verkin eftir konur nema eitt, Ung stúlka 1928-30 eftir Jón Engilberts. En staðsetning og val á verkum í þessa heima karla og kvenna er auðvitað bundin þeirri kynjapólitísku afstöðu sem sýningarstjórarnir Ágústa Kristófersdóttir og Unnar Örn Auðarson vilja ná fram með innsetningu sinni.

Frammámenn og ein kona.

Það virðist lögð mikil áhersla á að karla og kvennamyndirnar séu átakalínur sýningarinnar og má það til sanns vegar færa því þar eru ærin efni til umhugsunar um viðvarandi kynjatvíhyggju. Fjórði lykilhluti sýningarinnar er ekki síður athyglisverður en það eru málverk frá Hafnarfirði, tvö panorama verk frá fyrri hluta 20. aldar og nokkur fjöldi smærri málverka af húsum t.d. áhugaverð verk eftir Nínu Tryggvadóttur og Gunnlaug Scheving auk myndar af bátalægi eftir Gretu Björnsson, eina yfirlitsmyndin frá Hafnarfirði þar sem manneskju bregður fyrir. Af þessum myndum mætti ráða að hús hafi meira vægi en fólk í hugum málara sem leitað hafa myndefnis í bænum.

Hafnarfjörður fyrr á tímum. Til vinstri , frá hafnarfirði, 1938 eftir Jón Hróbjartsson. Myndin til hægri er eftir óþekktan höfund.

Frá Hafnarfirði, 1939 eftir Nínu Tryggvadóttur.

Gunnlaugur Scheving.

Gréta Björnsson.

Þegar ofangreindum megin þemum sleppir er gestum boðið að skoða fjölbreytt safn málverka og grafíkur eftir margt helsta listafólk þjóðarinnar. Þessi verk eru í aðalsal Hafnarborgar og í þremur herbergjum innaf salnum. Í aðal salnum má nefna verk eftir Sigurlaugu Jónsdóttur, Sverri Haraldsson, Sigríði Björnsdóttur og Arnar Herbertsson auk tréskúlptura eftir Sæmund Valdimarsson og steinskúlptúr eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli. Að ganga á milli herbergjanna er líkt og að fara um snoturt einkaheimili þar sem eigendurnir hafa komið sér upp vönduðu einkasafni verka eftir helstu málara módernismans á Íslandi. Það virðist hinsvegar vera tilviljun hvaða verk og hvaða  listafólk lendir saman. En í herbergjunum eru meðal annars málverk, grafík og teikningar eftir Kjarval, Kristján Davíðsson, Kristínu Jónsdóttur, Júlíönu Sveinsdóttur, Eirík Smith, og Elías B, Halldórsson.

Frá vinstri. Staða,1988, Sóley Eiríksdóttur; Karen Agnete Þórarinsson, Frá Gaulöndum, 1930; Ung Stúlka, 1928-30 eftir Engilberts; Morgunstund í grænum dúr 1972, Temma Bell; Louisa Matt. Temma í Maju slopp.

Heildar yfirbragð sýningarinnar er því fremur losaralegt og engu líkara en gestir séu staddir á mörgum sýningum. Það hefði að mínu mati mátt gera betur með nákvæmari þemaskiptingu þar sem t.d. fólki og átakalínum milli kynja væru gerð gleggri skil. Annar möguleiki væri að veita innsýn í sögu Hafnarfjarðar með hjálp myndlistar eða leggja áherslu á óhlutbundn verk í eigu safnsins. Safnið á núna 1500 verk þannig að úr nokkru hlýtur að vera að moða til að setja saman heildstæða sýningu. Afmælissýningin ber merki þess að tilviljun og viðleitni til að hafa úrval verka sem mest hafi ráðið för við innsetningu sýningarinnar fremur en að um sé að ræða útpælda þematengda nýtingu á verkum í eigu safnsins.

Sýningin er opin til 26. ágúst.

Ynda Gestsson


Ljósmyndir birtar með leyfi Hafnarborgar.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This