Listasafn ASÍ selt

Listasafn ASÍ selt

Listasafn ASÍ selt

Fjörlegt lista- og menningarlíf gerði íslenskan garðinn frægan löngu áður en náttúran var markaðsett í drasl með Inspired by Iceland. Þetta þýðir beinlínis að listamenn sköpuðu landinu gríðarlega mikinn auð með þessu orðspori sem liggur nú á vörum flestra erlendra sem maður hittir sem listamaður frá Íslandi.

Screen shot 2016-05-06 at 11.35.08 PMOg hvað gera menn þá? Í staðinn fyrir að sá fræjum í grasrætur samtímamenningar er traðkað ofan á verðmætum með einbeittum brotavilja. Glæpurinn fer fram fyrir opnun dyrum og enginn þarf svo lítið sem að skammast sín. Fólk er orðið svo heilaþvegið af þeirri banvænu og ósönnu tuggu að listamenn séu hinar raunverulegu afætur samfélagsins að það fagnar jafnvel. Það gat hver maður séð að eitthvað var gruggugt í drullupolli ASÍ þegar tilkynnt var í flýti um sölu á þessu dýrmæta húsi. Ársreikningar frá síðasta ári sýna ekki fram á neina rekstrarörðugleika svo að einhvers staðar er pottur brotinn í frásögn stjórnar. Hvers vegna seldu þau húsið? Við getum beðið spennt eftir að sjá hvað skrifstofuplottið bar í skauti sér. Verður sjoppa í anddyrinu sem selur íslenska hönnun? Verður sýnileiki á safneign listaverka ASÍ aukinn með frumlegum hugmyndum? Fær forsetinn Fjallamólk Kjarvals á skrifstofuna sína? Það vill svo til að ASÍ fjárfesti í húsinu á sínum til að bjarga því frá grátbroslegum örlögum, en nú er öldin önnur. Í ljósi þess forsendubrests sem nýafstaðin sala á húsinu er má velta fyrir sér hvort Alþýðusambandi Íslands sé í raun og veru treystandi fyrir safneigninni, sem var upprunlega gjöf til þeirra.

Raunveruleg menningarverðmæti verða nefnilega seint metin til fjár gegnum þann gjaldmiðil sem peningar eru. En baneitrað er niðurrifsafl menningarsnauðra aðila sem gegna tímabundnum stjórnarhlutverkum og taka að sér það hlutverk að valda óendurkræfum skaða fyrir menningu og þjóð. Hvað eru 15 milljónir mikið í ársúthlutun úr Myndlistarsjóði miðað við söluverð á húsi Ásmundar sem hljóðar upp á 168 milljónir? Hvað gerir ASÍ við ágóðann af sölunni? En skítt með þessar upphæðir, það er ógerningur að bera þær saman þegar þjófnaðurinn á fjármagni sem raunverulegu máli í skiptir í samfélaginu varðar svo stjarnfræðilegar upphæðir að við skiljum þær hreinilega ekki.

Screen shot 2016-05-07 at 12.24.19 AMÁstandið er slæmt. Safnasjóðir, menningarsjóðir, listasjóðir minnka ár hvert og starfsemi listamanna í miðbænum hverfur hægt og bítandi. Manni virðist sem menningarlífið muni ganga aftur á bak næstu misseri. Það kæmi ekki á óvart að með þessu áframhaldi muni listamenn í auknum mæli fara að kjósa sér aðra íveru- og vinnustaði, það er að segja, á öðrum siðmenntaðri stöðum á heiminum. Það er nefnilega ekkert gott að búa í einangrun á eyju í Atlantshafinu, sem hlúir ekki að menningu sinni, samfélagi sem kippir fótunum undan stoðum listalífs sem hefur áratugum saman verið í uppbyggingu. Staður þar sem ungt fólk getur ekki sótt sér gott nám erlendis lengur nema vera frá efnaðri fjölskyldu. Borg sem skeytir engu um arfleifð sína og menningu. Lítill afmarkaður og einangraður heimur þar sem græðgi og siðblinda ræður.

Fjárfestarnir segjast munu virða arfleifð hússins og samkvæmt vefmiðlinum Vísi.is þurfa myndlistarmenn ekki að hafa áhyggjur af þessu. Mig grunar að einhver muni þurfa að éta hatt sinn vegna þessara ummæla. En salan á húsinu er gengin í gegn. Exit through the gift shop og ekki gleyma að þakka fyrir ykkur. Dýrð sé guði í háum upphæðum! Listasafn ASÍ, húsið hans Ásmunds, hefur verið selt til fjárfesta á 168 milljónir.

Einkennismynd efst í grein: Jóhann Ludwig Torfason

 

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Verk eftir listakonuna Erlu Björku Sigmundsdóttur

sem er listamaður Listar án landamæra árið 2016

Á Íslandi er varla hægt að segja að hugtakið ,,outsider“ list sé til á þann hátt að fullur skilningur sé fyrir því hvað í hugtakinu felst. Í inngangi að sýningarskrá sýningarinnar „Yfir bjartsýnisbrúna“, sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur árið 2003, skrifar Eiríkur Þorláksson listfræðingur að á 20. öld hafi miklar hræringar orðið og bæði samruni og sundrung á milli listgreina. Það hafi hins vegar ekki tekist að brúa bilið á milli menntaðra og ómenntaðra listamanna. Hann ritar:

Þetta er gjáin á milli þeirra sem hafa lagt stund á formlegt listnám og hinna, sem ekkert slíkt nám hafa að baki. Það hefur ekki reynst auðvelt að skilgreina muninn: hinir fyrri hafa verið nefndir lærðir listamenn, menntaðir, akademískir, ,,alvöru“ á meðan hinir síðarnefndu hafa kallast leiknir, naívir, einfarar í listinni, utangarðs-, frístunda- eða alþýðulistamenn (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003, bls. 5).

Eiríkur orðar vel hvernig staðan er á íslenskum listvettvangi þar sem gjáin á milli tækifæra þeirra sem tilheyra almennu fagurlista ,,senunni“, menntaðra og viðurkenndra listamanna, og hinna ómenntuðu er sannarlega til staðar. Sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ var samstarfsverkefni á milli Safnasafnsins og Listasafns Reykjavíkur og var yfirlýstur tilgangur með sýningunni að brúa bilið á milli lærðra og leikinna listamanna og setja verk listafólksins fram á grundvelli jafnræðis og án sérstakra formerkja (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003).

Safnasafnið (e. The Icelandic Folk and Outsider Art Museum) er eina safnið á Íslandi sem markvisst safnar alþýðulist og „outsider“ list. Safnasafnið var stofnað árið 1995 og er staðsett við Svalbarðsströnd í Eyjafirði. Í safneigninni eru verk eftir 323 sjálmenntaða og lærða listamenn en í heild telur safneignin um 6.000 listaverk. Innan safnsins er einnig sérstök safndeild, Kikó Korriró-stofa, en þar eru varðveitt um 120-130.000 verk eftir Þórð Guðmund Valdimarsson (Kíkó korriró, 1922-2002).
Á safninu er „outsider“ list sem og framsækin nútímamyndlist sýnd án aðgreiningar, eins og segir á heimasíðu safnsins. Sú stefnumörkun sem safnið setur sér snýst um gæði og einlægni (Safnasafnið e.d.). Níels Hafstein, sem ásamt Magnhildi Sigurðardóttur stofnaði Safnasafnið, skrifar í sýningarskrá sýningarinnar „Yfir bjartsýnisbrúna“ um vandræðagang í orðræðu og skilgreiningu á list jaðarhópa, hinna ómenntuðu, og um að finna viðeigandi safnheiti sem næði yfir ólík tilbrigði skilgreindra listforma. Hann nefnir sem dæmi, alþýðulist, naíva list, frumstæða list, skrautlist, utangarðslist, ,,art brut“, veggjalist, ,,visionary“ list og list fanga og skilgreiningar sem gera tilraun til að: … lýsa list sem ekki fellur afdráttarlaust undir fagurfræði og rannsóknir og er kölluð nútímamyndlist (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003, bls. 7).

Í sýningarskrá segir að sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ gæti verið sú fyrsta þar sem gerð er tilraun til þess að brúa bilið á milli meginstrauma og jaðarsins í listum með nákvæmlega þeim formerkjum (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003).

Árið 2003, sama ár og sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ var opnuð, var Evrópuár fatlaðs fólks. Af því tilefni var blásið til listahátíðar hér á landi undir merkinu List án landamæra. List án landmæra, sem síðan hefur verið haldin árlega, er grasrótarhátíð sem varð til fyrir tilstilli skapandi fólks. Einn af stofnendum hátíðarinnar er Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar, en hann ásamt fulltrúum frá Fjölmennt, símenntunarmiðstöð, Átaki, félags fólks með þroskahömlun og Hinu húsinu, miðstöð ungs fólks, mynduðu stjórn um hátíðina fyrir hönd sinna félaga. Seinna bættust Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna í stjórn hátíðarinnar.

List án landamæra er hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla eins og segir á heimasíðu hennar. Eitt af aðalmarkmiðum hennar er að stuðla að auknum tækifærum fatlaðs listafólks með því að koma því og list þess á framfæri og koma á samstarfi milli lærðs og leikins listafólks. Áhersla er lögð á sýnileika og þátttöku, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni, því sýnileikinn og þátttaka hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum. Hátíðin hvetur til og stuðlar að fjölbreytni, aðgengi og jafnrétti í menningarlífinu. Á dagskrá hátíðarinnar ár hvert eru fjöldi viðburða og þátttakendur eru mörg hundruð um allt land. Á hátíðinni rúmast listviðburðir sem má meta á faglegum grunni í samstarfi við viðurkenndar liststofnanir sem og viðburðir eins og opnar vinnustofur á starfstöðum fatlaðs fólks (List án landamæra e.d.).

Þorvaldur Þorsteinsson listamaður skrifar inngang í dagskrá Listar án landamæra árið 2006 og fjallar um landamæri í huglægum og eiginlegum skilningi. Hann skrifar:

Þau landamæri menningar og viðhorfa sem vísað er til í yfirskrift þessarar ágætu hátíðar eru um margt snúnari að kljást við en hin opinberu mörk sem skipta landsvæðum í pólitískar, trúarlegar eða efnahagslegar heildir. Hin hefðbundnu landamæri hafa þann kost að vera sýnileg og skýrt afmörkuð. Þar fer sjaldnast milli mála hvar línan er dregin og í hvaða tilgangi og því auðvelt að greina við hvað er að eiga, reynist á annað borð ástæða til að véfengja skiptinguna (List án landamæra, 2006, bls. 5).

Hugleiðingar Þorvalds undirstrika orð þeirra Eiríks og Níels svo og skrif Rögnu Sigurðardóttur rithöfundar og listgagnrýnanda. Í grein í Morgunblaðinu árið 2007, „List hinna“,  skrifar Ragna:

List samtímans er iðulega skipt niður í margar greinar, oft er skiptingin tilefni til vangaveltna. Í myndlistinni getur áhugafólki reynst flókið mál að greina á milli listar áhugafólks og atvinnumanna (Ragna Sigurðardóttir, 2007).

Ragna skrifar einnig inngang í dagskrárbækling hátíðarinnar árið 2008 og kemur með frekari vangaveltur inn í umræðuna. Hún telur að þrátt fyrir að list jaðarhópa hafi orðið sýnilegri á 20. öldinni hafi það frekar verið í formi þess að listamenn nýttu sér þætti úr listsköpun utangarðslistamanna í eigin list og líkir því við að nýlenduherrar hafi nýtt sér náttúruauðlindir nýlenda sinna (List án landamæra, 2008). Skrif Rögnu má tengja við uppruna skilgreiningar á ,,art brut“ þegar súrrealistar sækja í brunn listamanna úr hópi ,,art brut“ listamanna Debuffets.

Ragna, Eiríkur og Níels hafa öll orð á ákveðnum skilgreiningarvanda og eiga það sameiginlegt með fleirum sem mikið hafa skrifað um „outsider“ list. Listfræðingurinn Tansella (2007) bendir á það í rannsókn sinni, ,,The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective“, að erfiðleika skilgreininga megi finna í því að engin stefnuskrá eða „manifesto“ sé til um „outsider“ list og enga eiginlega félagaskrá sé að finna þar sem fólk sem tilheyri hópi „outsider“ listafólks sé sjálft ekki að fást um það. Skilgreiningin sé bundin við fólkið sem skapi listina og stöðu þeirra, listaverkið er þar ekki sjálfstætt og óháð heldur metið af því hver skapari þess er.

Margrét M. Norðdahl

Heimildaskrá:

List án landamæra. (2008). [Sýningarskrá]. List án landamæra.

List án landamæra. (e.d.). Listahátíðin List án landamæra. Sótt af http://www.listin.is/

List án landamæra.. (2006). [Sýningarskrá]. List án landamæra.

Ragna Sigurðardóttir. (2007, 4. maí). List hinna. Morgunblaðið. Sótt  af http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1143312/

Safnasafnið. (e.d.). Söfnunar og sýningarstefna Safnasafnsins. Sótt af http://www.safnasafnid.is/is/page/sofnunar-_og_syningarstefna

Safnasafnið. (2016). [Sýningarskrá]. Safnasafnið

Tansella, C. (2007) The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective. Epidemiologia e Psichiatria Sociale, 16 (2), bls. 133-138 Sótt af http://www.psychiatry.univr.it/page_eps/docs/2007_2_Tansella_Carole.pdf

Yfir bjartsýnisbrúna. (2003). [Sýningarskrá]. Listasafn Reykjavíkur.

 

Að endurheimta list

Að endurheimta list

Að endurheimta list

Í hvert sinn sem við stöndum andspænis listaverki, hvort sem við erum stödd í sýningarsal, á tónleikum eða sitjum í makindum og lesum skáldverk og ljóð eru spurningar sem lúta að skilningi verksins aldrei langt undan, hvort sem hrifning og ákafi bærast innra með okkur eða steinrunnið áhugaleysi heldur okkur í fjötrum: hvað þurfum við sem listunnendur að gera til þess að skilja listaverk?

Hugmyndir breska heimspekingsins Richard Wollheim (1923-2003) um gagnrýni sem endurheimt hafa verið mér hugleiknar um nokkurt skeið en í bók sinni Art and its Objects segir hann að helsta verkefni listgagnrýni sé að takast á við endursköpun sköpunarferlis listaverksins til þess að geta skilið það með réttu. Gagnrýnendur sem einblína á lokaafurð ferlisins eða reyni einungis að túlka verkið og hvernig það tali til sín sleppi of miklu sem máli skipti í skilningi listaverka. Sköpunarferli listaverka nær til þátta eins og hugmyndaheims og heimssýnar listamannsins, sómatilfinningar hans, metnaðar, ásetnings og val á miðli auk fagurfræðilegra viðmiða, tjáningarhefða og viðtekinna táknmynda samtíðarinnar. Í huga Wollheims verður endurheimtin að hafa skýran tilgang; hún gengur ekki út á það að hamstra upplýsingar heldur gefa því gaum sem leggur til skynjunar okkar á verkinu og gerir hana næmari.

Ævisöguleg atriði listamanna og vitneskja um aðstæður þeirra geta veitt dýpri innsýn í verk þrátt fyrir að þau komi ekki beinlínis fram í þeim: lesendur Við Boterel kastala eftir Thomas Hardy skynja ljóðið á annan hátt þegar þeir vita að eiginkona skáldsins hafði nýlega látist og enn fremur þegar þeir komast einnig að því að hjónabandið hafði verið ógæfusamt; aðdáendur Mozarts upplifa tónsmíðar hans upp á nýtt ef þeir vita að klarínett og víóla voru eftirlætis hljóðfærin hans; unnendur forn-grískrar listar líta leirker sem skarta ljónamyndum öðrum augum þegar þeir komast á því að Aþeningarnir sem máluðu þau hefðu að öllum líkindum aldrei getað hafa komist í tæri við slíkar skepnur og þannig mætti lengi telja. Gagnrýni sem endurheimt má því líkja við fornleifafræði þar sem hún styðst við sönnunargögn úr fortíðinni og kenningar samtíðarinnar auk upplýsinga eða skilnings sem kunnu að hafa verið listamanninum sjálfum hulin til þess að veita sem bestan skilning á því sem listamaðurinn var að gera. Verkið opnar sig fyrir gagnrýnandanum ef endurheimtin er vel heppnuð en réttum skilningi má ekki einfaldlega leggja að jöfnu við að komast að fyrirætlun listamannsins. Wollheim segir sköpunarferlið ná út fyrir það sem mætti kalla ásetning listamannsins vegna þess að það felur einnig í sér tilviljanir, breytingar og ófyrirséða þætti sem hafa áhrif á sköpun verksins; hvort sem um mistök af hálfu listamannsins er að ræða eða stefnubreytingu á meðan á sköpun verksins stóð yfir. Wollheim tekur dæmi af skáldum sem hafa meint annað en þau sögðu og misstigið sig við beitingu stílbragða og myndhöggvara sem hafa í miðjum klíðum ákveðið að klæða styttu sem upphaflega átti að vera nakin.

Hugmyndir Wollheims koma mörgum spánskt fyrir sjónir og áherslur hans eru langt frá því að vera óumdeildar. Ýmsar spurningar vakna um skilning okkar á list og í sumum tilfellum stríða hugmyndir hans gegn almennri menningarvitund; af þeim hlýtur að fljóta að fjöldi verka sem almennt eru talin auðskiljanleg séu það í raun ekki vegna þess hversu lítið er vitað um sköpunarferlið. Er stór hluti íslensks menningararfs (þjóðlög, kvæði, vísur og sögur) þá utan seilingar rétts skilnings vegna þess hversu lengi hann varðveittist í munnlegri geymd og lítið er vitað um höfunda þeirra? Eins virðist endurheimtin sjálf vera afar vandasöm; ómögulegt virðist vera að uppfylla skilyrði Wollheims til að skilja listaverk nema að sköpunarferli verks sé gaumgæfilega skrásett eða þá listamaðurinn og gagnrýnandinn sé sami einstaklingurinn. Sá grunur læðist einnig að manni að Wollheim geri of miklar kröfur til listunnenda um að nálgast listamanninn og hnitnar tilvitnanir á borð við að við lesum ljóðlist, ekki huga annars fólks koma upp í hugann. Breski heimspekingurinn Gergory Currie segir meira að segja að þegar meta eigi bókmenntaverk sé mikilvægast að einbeita sér aðtextanum sjálfum og því sem hann komi til skila (þar skiptir mestu máli hvernig textinn fær okkur til að takast á við eigið gildismat) og leggur til að lesandinn hylji ásetning höfunda með slæðu fáfræðis, þ.e.a.s. að lesandinn taki meðvitaða ákvörðun um að taka ekki tillit til þess sem höfundurinn hafði í huga þó svo það kunni að liggja fyrir.

Þrátt fyrir áleitnar spurningar og flækjur af ýmsu tagi tel ég að listunnendur og gagnrýnendur geti haft mikinn ávinning af endurheimt þar sem framlag upplýsinga um sköpunarferlið til dýpri skynjunar á verkum er umtalsvert auk þess sem aðskilnaður verks frá samhengi sínu og sköpun gerir það að einhverju öðru en það í rauninni er. Wollheim segir ekki að listgagnrýni sé allt eða ekkert verkefni; hann viðurkennir fúslega að í mörgum tilfellum sé endurheimt aðeins möguleg að takmörkuðu leyti og að ýmis verk, eins og hellamálverk steinaldar, verði okkur því ráðgáta um ókomna tíð. En þegar endurheimt er möguleg ættum við að takast á við hana. Sagan af forn-gríska málaranum Apellesi varpar ljósi á hvernig upplýsingar um listamann og aðstæður hans geta auðgað skilning á verkum, en hann er sagður hafa kastað svampi sem hann notaði til þess að hreinsa pensla í bræði á málverk af hesti vegna þess hversu illa honum gekk að mála froðuna í munnviki dýrsins. Svampurinn skildi hins vegar eftir sig far sem náði froðunni fullkomlega og Apelles öðlaðist hugarró. Vitneskja á borð við þessa getur fært okkur nær listaverki; hjálpað okkur að skynja það á innilegri hátt og dregið fram hið tilfinningaþrungna og mannlega atferli sem listsköpun er.

Björn Rúnar Egilsson

Hefur ASÍ áhuga á að reka listasafn?

Hefur ASÍ áhuga á að reka listasafn?

Hefur ASÍ áhuga á að reka listasafn?

Vegna umræðu um sölu á Ásmundarsal er hér rekstrarreikningur Listasafns ASÍ fyrir 2014, tekinn úr skýrslu forseta sambandsins. Lítið kann ég að klóra mig fram úr slíku, en les þó úr honum að ASÍ skaffar til rekstur síns listasafns 9.797.033 krónur sem er rétt um 97 krónur per félagsmann á ári.(!)

  • Ríkið greiðir til safnsins 4.050.000 kr. og styrkur frá Menningarborginni er 500.000 kall.
  • Aðrar tekjur eru vegna “Vinnustaðasýninga” upp á 7.101.044 kr.
  • Samtals eru tekjur safnsins 21.448.077 kr. en gjöldin á móti eru 20.489.517 kr. sem skilar safninu 958.560 kr. í “hagnað” á árinu 2014.
  • Nema að eitthver undarleg skuld við Reykjavíkurborg upp á 15.846.303 bankar upp á, með rúma milljón í vaxtagjöld, sem þurrka burt mest allan hagnaðinn.

Hvaða lán er þetta sem móðurfélagið lætur listasafnið burðast með?

Og nú er sagt að forsendur séu brostnar fyrir rekstrinum. En þá er lag að skoða rekstrarreikning móðurfélagsins ASÍ varðandi listasafnið. Samkvæmt lögum sambandsins skal það leggja til listasafnsins 3,7% af tekjum. Á Samstæðureikningi 2014 voru skatttekjur ASÍ (það er gjald frá aðildarfélögum) 264.784.665 krónur. En með styrkjum og “öðrum tekjum” voru heildartekjur sambandsins 870.597.226 krónur.

Í lögunum (45. grein) stendur: Af tekjum ASÍ skal leggja 3,7% í sjóð Listasafns ASÍ, en ekki er minnst á að það séu þá aðeins skatttekjurnar. 3,7% af 870.597.226 krónur er dálítið meira en 9.797.033 krónur eða um 32.212.097 krónur. Og það er upphæð sem ASÍ ætti að mínu viti sannarlega að láta ganga til listasafnsins og þarf þá engra annara styrkja við til að reka safnið með myndarbrag.

En hvar í plöggum ASÍ er samþykki fyrir því að reikna 3,7% hlut listasafnsins aðeins út frá tekjum frá aðildarfélögum, en ekki heildartekjum?

Spyr sá sem ekki veit. 

Nú kvartar framkvæmdastjóri ASÍ yfir styrkjaleysi frá ríki og borg og kannski hafa þessir aðilar kippt út sínum styrkjum? Kannski var í dílnum vegna Marshallhússins, að borgin myndi draga saman seglin annarsstaðar? Og peningar ríkisins eru farnir úr landi. Ókei.

Þá situr ASÍ uppi með heildarpakkann fyrir rekstur Listasafns ASÍ, sem er 21.5 milljón cirka. Ef við deilum nú þeim ósköpum niður á hina 100.000 félagsmenn sambandsins, þá lenda á ári hverju heilar 215 krónur á herðum hins almenna launþega, við að halda uppi sómasamlegri starfsemi utan um þeirra ómetanlegu safneign. Og það eru brostnar forsendur að mati Gylfa Arnbjörnssonar forseta sambands sem veltir hundruðum milljóna á ári.

Hér fyrir neðan eru myndir af rekstrareikningunum sem greinin styðst við.

Jóhann Ludwig Torfason

Myndin af Listasafni ASÍ sem fylgir greininni er fengin á www.icelandmonitor.mbl.is

Salur til sölu

Salur til sölu

Salur til sölu

Greinin hefur verið uppfærð

Þær fréttir hafa borist úr búðum ASÍ að stjórnin þar hafi ákveðið að selja húseign sem stendur við Freyjugötu 41 og hefur hýst Listasafn ASÍ undanfarin 20 ár. Tilkynning frá stjórn safnsins hljómar svo: „Listasafn ASÍ mun hætta starfsemi sinni að Freyjugötu 41 þann 3. október n.k. og til stendur að selja húsið. Safnið mun starfa áfram með breyttu fyrirkomulagi, án þess að reka eigið sýningarrými þar til annað verður ákveðið. Meginástæða þessara breytinga er rekstarvandi safnsins. f.h. rekstrarstjórnar Listasafns ASÍ Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður rekstarstjórna.

Húsið hefur gengið undir nafninu Ásmundarsalur í höfuðið á Ásmundi Sveinssyni en húsið var byggt árið 1933. Arkitekt hússins var Sigurður Guðmundsson. Húsið hafði verið í eigu Ásmundar og fyrri konu hans Gunnfríðar Jónsdóttur, myndhöggvara og þar voru vinnustofur þeirra og íbúðarhúsnæði.

Húsið hefur frá upphafi verið miðstöð lista og menningar. Þar hafði Myndlistarskóli Reykjavíkur aðsetur og eiga margir starfandi myndlistarmenn minningar um að hafa verið þar á barnanámskeiðum og öðrum námskeiðum. Lífeyrissjóður Arkitekta eignaðst húsið 1978 og var Arkitektafélag Íslands þar með skrifstofur sínar sem og sýningarsal. Reykjavíkurborg keypti húsið 1995 með það fyrir augum að þar yrði starfræktur leikskóli. Þau áform féllu í grýttan jarðveg og það varð úr að Listasafn ASÍ keypti húsið undir starfsemi sína.

Safneignin sem Listasafn ASÍ heitir eftir kom til árið 1961 þegar Ragnar Jónsson í Smára iðnrekandi og bókaútgefandi gaf Alþýðusambandinu listaverkasafn sitt sem samanstóð af verkum þekktustu myndlistarmanna Íslands. Í þeim hópi voru meðal annars Ásgrímur Jónsson. Gunnlaugur Scheving, Jóhannes Kjarval, Nína Tryggvadóttir, Svavar Guðnason og Þorvaldur Skúlason. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu.

Að sjálfsögðu er það ekki skylda ASÍ að eiga og reka þessa húseign en það hefði verið eðlilegt að fagfélög myndlistarmanna hefðu vitað af þessum áformum áður en húsið var sett á almenna sölu. Það er afar mikilvægt að þetta hús sé áfram vettvangur myndlistar eins og því var ætlað í upphafi. Ef rétt reynist að rekstrarvandi vegna ónógra fjárveitinga sé ástæða sölu þessa merkilega húss sýnir það að stjórnvöld eru áhugalaus um menningastarfsemi og líta í raun á fjárveitingar til menningar sem óþarfa fjáraustur og tíma þ.a.l. ekki að koma til móts við stofnanir sem þessa.

Fyrir hina öflugu listasenu sem starfar á Íslandi væri það mikil skellur að missa þetta hús, þennan vettvang. Það eru sífellt færri kostir í boði hvað varðar sýningarvettvang í miðborginni en flest gallerí sem störfuðu þar hafa horfið af svæðinu vegna óviðráðanlegs kostnaðar við að halda úti húsnæði.

Sterk þjóð heldur utanum og nærir menningarstarfsemi sína. Þó það hafi aldrei vafist fyrir talsmönnum þjóðarinnar að monta sig af afrekum hennar á sviðum hinna skapandi greina, virðist skorta á þann skilning að það þurfi að hlúa að jarðveginum sem listirnar spretta úr. Vonandi förum við að skoppa upp af botni aumingjaskaparinns en margt bendir því miður til að við munum fara enn neðar því það sér ekki fyrir endann á plebbismanum sem herjar af sligandi þunga á samtímann.

Myndlistin og aðrar listgreinar eiga á undir högg að sækja og það er lífsspursmál fyrir menninguna í landinu að þessari þróun verði snúið við hið snarasta.

Helga Óskarsdóttir

Ljósmynd fengin að láni hjá ja.is
Þakkir Sirra Sigrún Sigurðardóttir
Heiminldir: Tímarit.is
Vefur Listasafnd ASI
Wikipedia

Viðtal við Ragnar í Smára á pdf: hér

Viðreynsla marvaðans — listin á tímum glötunar sinnar

Viðreynsla marvaðans — listin á tímum glötunar sinnar

Viðreynsla marvaðans — listin á tímum glötunar sinnar

Þessa dagana gildir einu hvar maður í texta tekur niður, einatt rekur maður augun í áhyggjur fólks af andlegri líðan sinni. Og fólk er ekki fyrr búið að sefa sinn eigin ótta, að áhyggjur af líðan annars fólks verður allri sjálfsvorkunn yfirsterkari, og við tekur sárari tónn, jeremíur um að nú sé allt að fara til fjandans, og alveg sérstaklega börnin —ef þau eru ekki að fara til fjandans, þá eru þau að fara í hundana.

Sic transit gloria mundi.  Allt í heiminum fallvalt er. Heimur á hverfandi hveli. Árroðans ský var rósinfingraðri hér áður fyrr. Einmitt í þeim anda —að nú séu nýir tímar í nánd, og ég ætla mér að tortryggja þá!— einmitt í þeim anda ætla ég að skrifa þessar hugleiðingar, hér á þessum vettvangi sem hún Helga Óskarsdóttir hefur stofnað til.

Ég tileinka mér þessa tortryggni út frá þeirri vissu og því prinsípi, að söfnuðurinn sem fagnar samtímanum er einmitt sá hópur fólks sem er hvað mest íhaldssamur, og því verði maður, í nafni framfaranna, að horfa aftur fyrir sig með trega í hjarta og huga. Að veita því eftirtekt að gangur tímans … að hann, já, vissulega, gengur enn. Og með vissri eftirsjá. Að allt, já, er á hverfandi hveli. Spyrja sig svo: hvað næst? Því aðeins þeir sem geta afborið tregann, feigðarvonina, eru færir um að líta söguna öðrum augum en söfnuður samtímans: að við erum ekki nauðbeygð til þess að fylgja gangverki sögunnar eins og sigurverki klukkunnar.

Ekkert sem áður var —ekkert var óhjákvæmilegt. En allt sem áður var —allt er óafturkræft. Þessi þversögn fortíðarinnar, að hún sé hending og óbreytanleg í senn, er einmitt kenndin sem kveikir með manni angurværð, líkt og þegar maður stendur á svölunum á gamlárskvöldi og kveður gamla tíma og fagnar nýjum —eins sár og hún getur verið, þá er sú kennd einmitt forsenda þess frelsis að geta slitið sig úr samhengi samtímans, þess frelsis að geta litið samtíma sinn augum og spurt: Hvað er hending og hvað er lögmál? Hverju get ég breytt? Það er því í brjósti hins melankólíska manns sem maður finnur skærasta loga framfaravonar.


Nú föstudaginn 22. apríl 2016, þegar ég færi inn fyrstu færslu mína hér á artzine.is, getur að lesa umfjöllun tveggja dagblaða sem með einum eða öðrum hætti kemur inn á það sem ég nefndi í upphafi: áhyggjur okkar af andlegri líðan. Annars vegar birtist okkur umfjöllun Fréttatímans um stóraukið vandamál kvíðans á meðal stúlkna í grunnskólum landsins. Hins vegar birtist viðtal við Óttar Guðmundsson, geðlækni, sem hefur áhyggjur af allt of miklum áhyggjum okkar af andlegum áhyggjum.

Umfjöllun Fréttatímans staðfesti grunsemdir okkar, að umfram það sem við þegar vissum, þá sé það ekki aðeins áhyggjuefni hvað ungir karlmenn og menntskælingar aðhafast fyrir framan tölvuskjáin —félagsleg einangrun þeirra, klámnotkun, tölvuleikjafíkn, framtaksleysi— heldur virðist sem tæknibyltingar samtímans hafi engu síður slæm áhrif á stúlkur, og þá þegar þær eru enn yngri, enn á grunnskólaaldri, með auknum kvíða og þunglyndi, í töluvert meiri mæli en drengir —og það fer vaxandi með aukinni notkun samfélagsmiðla. Þeirri notkun netsins sem þær sjálfar sækja í. Oft á tíðum hefur sú hlið tölvubyltingarinnar —Facebook, twitter, félagsleg samskipti á netinu— verið talin jákvæð birtingarmynd internetsins, ef frá er talið hrelliklámið, á meðan tölvuleikir taldir vera háskalegri, og því tilhneiging, vegna kynjamismunar þar á, að telja notkun drengja vera meiri skaðvald. En vera má að öll notkun netsins sé háskaleg.

Eins og fyrr sagði: Sic transit gloria mundi. Þó ætla ég  ekki staldra lengi við þessar jeremíur hér. Því fókusinn minn verður annar.

Viðtalið við Óttar Guðmundsson, á hinn bóginn, staðfesti nefnilega hversu mjög okkur vantar listamenn og heimspekinga til þess að koma auga á meinsemdir samtímans. Það sem hinn ágæti læknir kemur nefnilega ekki auga á —þrátt fyrir diagnósuna: „að enginn megi lengur lenda í neinu“ —er etíólógía meinsemdarinnar; hann kemur ekki auga á hið sjálfsagða, á það sem er augljóst.

Það skilst ekki til fulls nema með orðum Marshall McLuhans: „The medium is the message.“

Sjálfsvera mannsins er að breytast sökum þess að miðill sjálfsins er að breytast. Þá munu vera vaxtaverkir. Og það mun vera háskalegt.

Þannig hef ég hugsað mér þessa pistla mína. Eins og áttavilltur læknir sem leitar á náðir listarinnar til þess að finna svör við spurningunni: Hvað er það sem amar að okkar samtíma. Ég mun alltaf ganga út frá að einhver sé sjúkur. Hér verður ekki talað um heilbrigði. Eða hamingju. Eða sátt. Aðeins um sjúkdóma. Og það hvernig listin kemur auga á sjúklinga.

Í næsta pistli míni mínum mun ég svo fjalla um þýska heimspekinginn og taugavísindamanninn Thomas Metzinger sem heldur því fram að við séum hægt og bítandi —inni í matríxi samfélagsmiðlanna— að glata ákveðinni sjálfskennd, eða í raun að glata ákveðinni tálsýn sjálfsins. Ákveðin tegund sjálfsvitundar mannsins er að glatast. Í staðinn, það sem koma skal, er ákveðið ástand vökudraumsins, hið ópersónulega ástand martraðarinnar, eins konar marvaði fyrir framan tölvuskjáinn.

Ný gerð af taugasjúkdómi er að verða til í heiminum, og það eru listamennirnir sem fyrstir munu koma auga á pödduna.

Nýársþanki

 

Þú, sem allt hugðir auðvelt,

afræktu heimsku slíka!

Og þú, sem vonleysið þjakar,

þyrftir að vitkast líka.

Það eitt gerir einmitt lífið

svo elskulegt og svo skrýtið,

að frágangssök er það ekki,

en erfitt meira en lítið.

(Piet Hein — Sjötíu smáljóð í þýðingu Helga Hálfdanarsonar)

Valur Brynjar Antonsson´

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest