Að endurheimta list

4.05. 2016 | Innsent efni, Umfjöllun

Í hvert sinn sem við stöndum andspænis listaverki, hvort sem við erum stödd í sýningarsal, á tónleikum eða sitjum í makindum og lesum skáldverk og ljóð eru spurningar sem lúta að skilningi verksins aldrei langt undan, hvort sem hrifning og ákafi bærast innra með okkur eða steinrunnið áhugaleysi heldur okkur í fjötrum: hvað þurfum við sem listunnendur að gera til þess að skilja listaverk?

Hugmyndir breska heimspekingsins Richard Wollheim (1923-2003) um gagnrýni sem endurheimt hafa verið mér hugleiknar um nokkurt skeið en í bók sinni Art and its Objects segir hann að helsta verkefni listgagnrýni sé að takast á við endursköpun sköpunarferlis listaverksins til þess að geta skilið það með réttu. Gagnrýnendur sem einblína á lokaafurð ferlisins eða reyni einungis að túlka verkið og hvernig það tali til sín sleppi of miklu sem máli skipti í skilningi listaverka. Sköpunarferli listaverka nær til þátta eins og hugmyndaheims og heimssýnar listamannsins, sómatilfinningar hans, metnaðar, ásetnings og val á miðli auk fagurfræðilegra viðmiða, tjáningarhefða og viðtekinna táknmynda samtíðarinnar. Í huga Wollheims verður endurheimtin að hafa skýran tilgang; hún gengur ekki út á það að hamstra upplýsingar heldur gefa því gaum sem leggur til skynjunar okkar á verkinu og gerir hana næmari.

Ævisöguleg atriði listamanna og vitneskja um aðstæður þeirra geta veitt dýpri innsýn í verk þrátt fyrir að þau komi ekki beinlínis fram í þeim: lesendur Við Boterel kastala eftir Thomas Hardy skynja ljóðið á annan hátt þegar þeir vita að eiginkona skáldsins hafði nýlega látist og enn fremur þegar þeir komast einnig að því að hjónabandið hafði verið ógæfusamt; aðdáendur Mozarts upplifa tónsmíðar hans upp á nýtt ef þeir vita að klarínett og víóla voru eftirlætis hljóðfærin hans; unnendur forn-grískrar listar líta leirker sem skarta ljónamyndum öðrum augum þegar þeir komast á því að Aþeningarnir sem máluðu þau hefðu að öllum líkindum aldrei getað hafa komist í tæri við slíkar skepnur og þannig mætti lengi telja. Gagnrýni sem endurheimt má því líkja við fornleifafræði þar sem hún styðst við sönnunargögn úr fortíðinni og kenningar samtíðarinnar auk upplýsinga eða skilnings sem kunnu að hafa verið listamanninum sjálfum hulin til þess að veita sem bestan skilning á því sem listamaðurinn var að gera. Verkið opnar sig fyrir gagnrýnandanum ef endurheimtin er vel heppnuð en réttum skilningi má ekki einfaldlega leggja að jöfnu við að komast að fyrirætlun listamannsins. Wollheim segir sköpunarferlið ná út fyrir það sem mætti kalla ásetning listamannsins vegna þess að það felur einnig í sér tilviljanir, breytingar og ófyrirséða þætti sem hafa áhrif á sköpun verksins; hvort sem um mistök af hálfu listamannsins er að ræða eða stefnubreytingu á meðan á sköpun verksins stóð yfir. Wollheim tekur dæmi af skáldum sem hafa meint annað en þau sögðu og misstigið sig við beitingu stílbragða og myndhöggvara sem hafa í miðjum klíðum ákveðið að klæða styttu sem upphaflega átti að vera nakin.

Hugmyndir Wollheims koma mörgum spánskt fyrir sjónir og áherslur hans eru langt frá því að vera óumdeildar. Ýmsar spurningar vakna um skilning okkar á list og í sumum tilfellum stríða hugmyndir hans gegn almennri menningarvitund; af þeim hlýtur að fljóta að fjöldi verka sem almennt eru talin auðskiljanleg séu það í raun ekki vegna þess hversu lítið er vitað um sköpunarferlið. Er stór hluti íslensks menningararfs (þjóðlög, kvæði, vísur og sögur) þá utan seilingar rétts skilnings vegna þess hversu lengi hann varðveittist í munnlegri geymd og lítið er vitað um höfunda þeirra? Eins virðist endurheimtin sjálf vera afar vandasöm; ómögulegt virðist vera að uppfylla skilyrði Wollheims til að skilja listaverk nema að sköpunarferli verks sé gaumgæfilega skrásett eða þá listamaðurinn og gagnrýnandinn sé sami einstaklingurinn. Sá grunur læðist einnig að manni að Wollheim geri of miklar kröfur til listunnenda um að nálgast listamanninn og hnitnar tilvitnanir á borð við að við lesum ljóðlist, ekki huga annars fólks koma upp í hugann. Breski heimspekingurinn Gergory Currie segir meira að segja að þegar meta eigi bókmenntaverk sé mikilvægast að einbeita sér aðtextanum sjálfum og því sem hann komi til skila (þar skiptir mestu máli hvernig textinn fær okkur til að takast á við eigið gildismat) og leggur til að lesandinn hylji ásetning höfunda með slæðu fáfræðis, þ.e.a.s. að lesandinn taki meðvitaða ákvörðun um að taka ekki tillit til þess sem höfundurinn hafði í huga þó svo það kunni að liggja fyrir.

Þrátt fyrir áleitnar spurningar og flækjur af ýmsu tagi tel ég að listunnendur og gagnrýnendur geti haft mikinn ávinning af endurheimt þar sem framlag upplýsinga um sköpunarferlið til dýpri skynjunar á verkum er umtalsvert auk þess sem aðskilnaður verks frá samhengi sínu og sköpun gerir það að einhverju öðru en það í rauninni er. Wollheim segir ekki að listgagnrýni sé allt eða ekkert verkefni; hann viðurkennir fúslega að í mörgum tilfellum sé endurheimt aðeins möguleg að takmörkuðu leyti og að ýmis verk, eins og hellamálverk steinaldar, verði okkur því ráðgáta um ókomna tíð. En þegar endurheimt er möguleg ættum við að takast á við hana. Sagan af forn-gríska málaranum Apellesi varpar ljósi á hvernig upplýsingar um listamann og aðstæður hans geta auðgað skilning á verkum, en hann er sagður hafa kastað svampi sem hann notaði til þess að hreinsa pensla í bræði á málverk af hesti vegna þess hversu illa honum gekk að mála froðuna í munnviki dýrsins. Svampurinn skildi hins vegar eftir sig far sem náði froðunni fullkomlega og Apelles öðlaðist hugarró. Vitneskja á borð við þessa getur fært okkur nær listaverki; hjálpað okkur að skynja það á innilegri hátt og dregið fram hið tilfinningaþrungna og mannlega atferli sem listsköpun er.

Björn Rúnar Egilsson

UA-76827897-1