Hliðar saman hliðar

Hliðar saman hliðar

Hliðar saman hliðar

Ingólfur Arnarson er löngu þekktur á meðal áhugafólks um myndlist fyrir verk sín, bæði hér á landi og erlendis. Í því sambandi skiptir miklu máli langtíma sýning á verkum hans á slóðum Donads Judd í Marfa, Texas. Á yfirstandandi sýningu í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur er fjöldi verka Ingólfs til sýnis um þessar mundir.

Ferill Ingólfs nær til upphafs níunda áratugar síðustu aldar og hefur hann sýnt oft og víða við góðan orðstýr. Í því sambandi ryfjast upp fyrir mér ein eftirminnilegasta sýning hans frá fyrri árum, en hún var haldin í Nýlistasafninu við Vatnsstíg árið 1988. Þar sýndi Ingólfur lágmyndir úr gipsi, en það er díónísiska sýning sem ég hef séð um dagana og bergmálar fegurð hennar enn í höfði mínu eftir öll þessi ár m.a. vegna þess að hann málaði hluta eins gipsverksins með rauðvíni sem léði verkinu fölbleikt yfirbragð. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef gengið ölvuð útaf sýningu án þess að hafa bragðað dropa af víni. Þarna sýndi hann grófgerða steinsteypuhellu sem borin var þunnu gipslagi og má telja það verk upphafið að þeirri list sem hann hefur iðkað síðan.

Ingólfur hefur sýnt verk sín á fjölda sýninga það sem af er öldinni. Skemmst er að minnast samsýningar hans og Eggerts Péturssonar í Gallarí Gesti í nóvember árið 2016 en þar sýndu þeir um eitthundrað ljósmyndir. Þetta var þátttökuverk í anda Fluxus og gátu gestir díft höndunum í ljósmyndabunkann og gripið stakar myndir eða bunka af þeim til íhugunar.

Sýningin ber titilinn, Jarðhæð og er í samræmi við það, staðsett á jarðhæð safnsins í félagsskap við grásprengdar súlur, hvíta veggi og stóra glugga sem opna sýn útúr rýminu á götuna; hús og umferð akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda og ekki síður sýn inní rýmið utanfrá .

Þó þessi inn- og útsýn sé gamalkunnug af fyrri sýningum safnsins nær hún að veita þessari sýningu óvænta vídd m.a. vegna þess að innsetningunni er þannig háttað að lágmyndirnar flútta við súlurnar og hverfa á bakvið þær og sjást þá bara teikningarnar nema þeir sem skoða verkin stígi til hliðar eins og tekið er til orða á vorum dögum. Þessi núna-sérðu-en-ekki-núna-reynsla gerist hvort sem áhorfandinn er inní salnum eða skoðar verkin utanfrá í gegnum gluggana. Úr þessu verður svolítill hliðar-saman-hliðar-dans sem gerir gestina að þátttakendum í innsetningunni. Þessar einföldu hreyfingar gagnvart staðsetningum verkanna gæða sýninguna og verkin óvæntu lífi, gagnstæðu fremur tilbreytingarlausu yfirborðinu. Sama má segja um teikningarnar – þær sýna enga þekkjanlega hluti en virka þess í stað eins og flóknar hæggengar hugleiðslustundir, mandölur án hringformsins sem heldur öllu saman með hjálp goðborinna vera. –Táknmynd íhugunar hefur verið brotin upp í frumeindir í takt við umferðarasann utan gluggans.

Það sem kemur mest á óvart er fyrirferðarlítið slædsjó við útgöngudyr salarins. Þar bregður meðal annars fyrir ljósmyndum sem Ingólfur sýndi í Gallerí Gesti. Þegar hér er komið hefst annarskonar dans því nú þurfa gestir að staldra við á meðan bæði litríkar og fálitaðar ljósmyndirnar dansa við augu áhorfenda og halda þeim föngunum.

Ljósmyndirnar eru að nokkru andstæða teikninganna og lágmyndanna vegna fjölbreyttra litastemminga en halda afturámóti uppi litríkum dansi við borgarlandslagið utandyra og undirstrika víðtæka þátttöku í allri innsetningunni. Ljósmyndirnar í slædsýningunni sýna á óyggjandi hátt hversu gott auga Ingólfur hefur fyrir smáatriðum daglegs lífs.

Þegar hugað er að litadírð ljósmyndanna hvarflar að undirritaðri hvort hér sé  vísbending um næstu sýningu Ingólfs og hvort litirnir verði virkjaðir af fullum krafti í framtíðinni. Það er ekki útí hött að gera sér það í hugarlund því samspil lita var mjög áberandi í verkum Judds um tíma. Það yrði altént spennadi að sjá liti og fjölbreytt form ljósmyndanna spretta fram í verkum Ingólfs og kannski vekja upp Díónísos og villta lifsgleði sem forðum.

Sýning Ingólfs í Hafnarhúsinu er enn ein sönnun þess hve mikilmikilvægu hlutverki söfn gegna við að staðfesta tilvist og erindi listafólks umfram það sem sölugallerí gera. – Ekki síst þegar virt söfn kaupa verk listafólks til varðveislu fyrir komandi kynslóðir.

Þó verkin láti lítið yfir sér á yfirborðinu og auðvelt sé að láta sér fátt um finnast og segja að sýningin sé hvorki góð né slæm, litlaus né leiðinleg þá er hér á ferðinni skemmtilegt sjónarspil útsins og innsins, kyrrstöðu, hreyfingar og þátttöku. Þó myndheimur Ingólfs sé á yfirborðinu fyrst og fremst tengdur hugvitinu þá er í þessari sýningu áhugaverð vísun í líkamsvitið.

Ynda Gestsson


Sýningin er opin til 10. Febrúar 2019.

Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir

Ímyndanir um fegurð í tímaröð

Ímyndanir um fegurð í tímaröð

Ímyndanir um fegurð í tímaröð

Listahátíðarsýning Listasafns Reykjavíkur árið 2018 ber hátimbraðan titil: Einskismannsland sem teygir sig frá Kjarvalsstöðum til Hafnarhúss. Kjarvalsstaðahluti sýningarinnar er byggður upp á málverkum og nokkrum teikningum eftir frumherja íslenskrar myndlistar. Sýningin varpar ljósi á sögu módernískrar landslagslistar á Íslandi í tímaröð. Heillað listafólk segir í upphöfnu myndmáli frá hinni einu fegurð sem hafði vart verið snert af hinum skærgula Caterpillar sem verður sífellt stórtækari við mótun landsins. Í þessum verkum stendur listafólkið eitt frammi fyrir víðernunum án þess að nota verkin til að fjalla um og upphefja sjálft sig í hinni miklu mynd almættisins sem forðum var færð yfir á striga og pappír. Einu verurnar sem minnt gætu á fólk sjást í verkum sjáandans Kjarvals sem  í vestursalnum og einu verki Þorbjargar Höskuldsdóttur.

Á Kjarvalsstöðum eru sýnd verk eftir fimm konur og tíu karla enda var lismálun karlastarf langt fram eftir 20 öldinni eins og allir vita. Þetta viðhorf  er staðfest á sýningunni og ekki er að sjá að reynt hafi verið að hafa uppá konum umfram þær fimm sem eiga verk á Kjarvalsstöðum.  Þessi hluti sýningarinnar ber vitni þeim kynjahlutföllum sem eitt sinn þóttu góð og gild í myndlist –og þykja víst enn.

Þeir sem hafa vélað um tilurð sýningarinnar eru margir. Til verksins hefur safnið skipað fjögurra manna sýningarnefnd, sex manna samráðshóp og einn sýningarhönnuð. Ekki er að sjá að neinn sýningarstjóri haldi utanum verkefnið eða beri ábyrgð á sýningunni. Það hefði verið gagnlegt að fá upplýsingar um hlutverk sýningarnefndar og samráðshópsins við mótun sýningarinnar og val á verkum og hvert hlutverk  sýningarhönnuðarins er. Hvernig sem verkaskiptingu er háttað virðast þeir sem fóru með úrslitavald varðandi val verka og innsetningu þeirra ákveðið að fara auðveldu leiðina og hengja Kjarvalsstaða hlutann upp í tímaröð fremur en þemaskiptingu sem hefði getað dregið fram ný, óvænt og skarpari sjónarhorn í umfjöllunarefnum listafólksins.


Þórarinn B. Þorláksson Stórisjór (langisjór) 1906

Stefán Jónsson frá Möðrudal / Stórval . Herðubreið. Dæmi um sérkennilegt upphengi á verkum þessa sérstaka listamanns.


Verk Þorbjargar Höskuldsdóttur í austursal Kjarvalsstaða.

Málverk Þórarins B. Þorlákssonar eru hið táknræna og margstaðfesta upphaf módernískrar listar á Íslandi – ár 0 og svo fylgja allir hinir málararnir á eftir. Afleiðingin af uppsetningunni er að sýningin virkar soldið eins og vinsældalisti þar sem nöfn listafólksins, umfjöllunarefni og titlar verka renna áfram eins og seigfljótandi sannleikur þannig að sýningargestir eru engu nær um stílátök í þessari sögu. Sýningargestir hafa þannig einungis ættfræði hins eingetna íslenska landslagsmálverks uppúr krafsinu án tengsla hvert við annað eða heiminn utan Íslands. Þetta er upphafin einangrun þar sem átökin við landið geta orðið að magnþrunginni dramatík eins og í verki Jóns Stefánnsonar, Kvöld (Tindafjöll)  frá 1921 þar sem rifar í fjallgarð á milli kólgusvartra skýjabólstra eða þá hógværir litafletir Júlíönu Sveinsdóttur sem leysast upp í verkinu Snæfellsjökull frá 1951 sem er besta verkið í jöklaseríu hennar á sýningunni. Þrátt fyrir það að deila megi um upphengingu verka og innihald þeirra í vestursalnum verður því ekki neitað að málararnir kunna að yfirfæra hugmynd sína um landið yfir á strigann.

Þegar komið er útúr vestursalnum blasa málverk Stefáns Jónssonar af Herðubreið við borgandi viðskiptavinum safnsins  –verk sem hrista upp í hefðarröðinni– málverkum Stefáns er puðrað tilviljanakennt upp á göngum hússins og það er ekki hægt að kalla upphengingu á verkum þessa látna einfara annað en algert virðingarleysi við hann og arfleifð hans. Stefán á það sannarlega skilið að fá almennilegt veggpláss í örðum hvorum salnum. Það er engu líkara en allt í einu hafi plássið verið búið og því hafi verið gripið til þess ráðs að henda verkum listamannsins uppum alla ganga svo hægt væri að segja að hann hafi allavega fengið að vera með. Það er líka vert að halda því til haga að Stefán Jónsson frá Möðrudal kynntist öflum einskismannslandsins í slíku návígi að leiðangrar annarra málara inná hálendið verða eins og nestisferðir á sunnudegi í samnburði við þá reynslu hans að hafa nærri því orðið úti á austfirskum heiðum.

Þegar í austursalinn kemur taka verk Þorbjargar Höskuldsdóttur á móti gestum. Þorbjörg er listamaður sem sannarlega tókst að hrista upp í upphafinni náttúrudýrkuninni allar götur frá því að hún sýndi fyrst í Gallerí SÚM við Vatnsstíg í Reykjavík árið 1972. Þorbjörg sýndi landið í algerlega nýju ljósi. Hún tók þjóðvíðernavitund fyrri kynslóða í gegn; hellulagði víðernin og bjó til súlnagöng sem gréru inní landslagið. Á sýningunni eru þrjú stór málverk eftir Þorbjörgu og eru þau hvert öðru betra. Fólk sést afar sjáldan í verkum hennar þannig að verkið Þögn frá 1981 vakti athygli mína en í því sést ókyngreind mannvera í skjóli við veggjarbrot horfa yfir ágengt landslag. Sú náttúrusýn sem Þorbjörg miðlar verður stöðugt ágengari eftir því sem árin líða. Þorbjörg hefur víða sýnt um dagana og gengið sinn listræna veg án hávaða en samt sem áður fært þjóðinni óumdeildan arf. Verk Þorbjargar eru stærstu tíðindi sem hafa orðið í íslensku landslagsmálverki eftir 1970 og það kemst enginn með tærnar þar sem hún hefur hælana auk þess sem enginn arftaki hennar er sjánalegur.

Önnur verk í austursalnum sverja sig í ætt við hefðina.  Því er ekki að neita að fróðlegt er að sjá öll þessi verk samankomin og hugsa um það sem hefði verið hægt að gera. Hinsvegar verður að segja að myndirnar  tala fyrir sig sjálfar og þurfa alls ekki á tilvitnunum í bókmenntir að halda. Þessir textar gera lítið annð en að æsa útblásna þjóðernisvitund sem ekki er þörf fyrir hér á landi þegar minnst er fullveldis þjóðarinnar.

Listasafn Reykjavíkur lætur ekki þar við sitja og tímaröðin heldur áfram í Hafnarhúsinu. Þar tekur yngra listafólk við keflinu og sýnir verk sín. Yngra fólkið gengur margt útfrá öðrum hugmyndum en brautryðjendurnir og sýnd eru verk eftir 9 karla og 8  konur. Samtals sýna 19  karlar og 13 konur á allri sýningunni. Í Hafnarhúsi er boðið uppá innsetningar, skúlptúra, ljósmyndir, málverk og vídeó sem fjalla um land, fólk, fjöll og fyrnindi í öllum sölum safnsins og inngrip mannanna í náttúrunni blasa víða við.

Verk Þorbjargar eru mér enn ofarlega í huga þegar í Hafnarhúsið kemur og það rennur upp fyrir mér að verk hennar eiga betur heima hér vegna þess að hún hefur allan sinn feril fjallað um efni sem skiptir meira og meira máli. Strax árið 1972 sýndi hún þjóðinni inn í framtíðina og herferð auðvæðingarinnar gegn landinu. Um verk hennar má taka undir með Jóni Engilberts sem sagði:,,Það lifir sem ber aðal framtíðarinnar í sjálfu sér, hitt gengur undir.“ (Steinar og sterkir litir ,1965, 27). Verk Þorbjaragar lifa og eru sí ný og tala til nýrra kynslóða á ferskan hátt. Við samanburðinn á Kjarvalsstöðum og Hafnarhúsi kemur og betur og betur í ljós að þemaskipt sýning hefði boðið uppá mun áhugaverðari nálgun en tímaröðin. Þemun sem hefði til dæmis mátt byggja á eru Andóf þar sem m.a. verk Rúríar, Þorbjargar og listafólks af yngstu kynslóð hefðu sómt sér vel, Upphafning gæti verið verk eftir brautryðjendur í samtali við Stefán Jónsson, Tolla og pabba hans, Kristinn Morthens og fólk-land þar sem Ósk Vilhjálmsdóttir, Einar Falur og Sigurður Guðjónsson hefðu talað saman frammi fyrir mannlausu landslagi Jóns Stefánssonar. Einar Garibldi, Ragna Róbertsdóttir, Júlíana Sveinsdóttir, Ólafur Elíasson, Unnar Örn Auðarson og Kristinn Pétursson spjallað saman um Gleymsku?


Rúrí Tortími 2008.

Inni á samsýningunni Einskismannslandi var white cube einkasýning með verkum Einars Fals Ingólfssonar þar sem hann sýndi ljósmyndir frá hálendi Íslands.


Verk úr myndaröð Péturs Thomsen.


Frá verki Óskar Vilhjálmsdóttur þar sem  hún ýmisst hleypur eða gengur í kringum uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar tíu árum eftir að vatni úr Jöklu var veitt yfir landið.


Hallgerður Hallgrímsdóttir sýnir skjáskot úr eftirlitsmyndavélum víða um land og eru þær merktar þekktu vaktfyrirtæki.

Þessi nálgun hefði þýtt meiri vinnu fyrir þá sem stýrðu verkefninu en skilað áhugaverðu samtali á milli genginna kynslóða og samtímafólks svo ekki sé minnst á að veita þeim sem sækja sýninguna tækifæri til að taka þátt í gagnrýninni samræðu. Það er engu líkara en þeir sem stýra sýningunni óttist það að efna til samtals og velja því þá auðveldu leið að sýna borgandi viðskiptavinum safnsins klisjuna um landið; líkt og það sé bannað að listin reyni að benda á lausnir eða taki á yfirstandandi umræðu og reyni að leysa vandamál og spyrja spurninga stað þess að þegja þunnu hljóði.

Að velja verk eftir baráttukonuna og aktívistan Rúrí vinnur  gegn upphafningunni, þögninni um eyðilegginguna en hún er því miður næsta einmana og úr tengslum við annað líkt og segja má um flest verkin. Í verki hennar vinnur pappírstætri jafnt og þétt að því að tæta niður myndir af fossum. Hér hefði markviss sýningarstjórnun dregið saman andófsverk aktívista á meðal myndlistarfólks eins og bent er á hér að framan.

Myndaröð Péturs Thomsen frá framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun nær ekki að styðja verk Rúríar hvað þá að önnur verk á sýningunni hafi burði til þess. Myndaröð hans verður geómetrísk rannókn á spennunni milli flata -flatarljósmyndir sem skortir pólitíska vitund og átök við inngrip Caterpillars í landslag samtímans. Eins og myndaröðin er sýnd í Hafnarhúsinu tel ég að botninn sé úr henni og að botninn sé á Listasafni Íslands. Það var nefnilega ekki fyrr en ég skoðaði fullveldissýninguna í Listasafni Íslands að ég uppgötvaði verkið sem hefði getað látið myndaröðina ganga upp er þar eitt og yfirgefið. Samt sem áður er röðin helst til hugguleg og listamaðurinn fjarri því að dýfa höndunum í drulluna til að sýna undir yfirborðið. Verkin ná því ekki að vera áminning um aðförina að landinu.

Sýningin sveiflast frá því að listafólkið horfi á landið utanfrá og til þeirrar tilfinningar að vera í því og á –að taka þátt í landinu líkt og í verki Óskar Vilhjálmsdóttur þar sem  hún ýmisst hleypur eða gengur í kringum uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar tíu árum síðar. Þessi hlaup eru sýnd á fjölda skjáa og innsetninginn fyllir einn af sölum safnsins. Hlaupin minna soldið á dularfull og óskiljanleg erindi söguhetja í tölvuleikjum þar sem hetjan í kapphlaupi við tímann hoppar yfir jarðföll og aðrar hættur drifin áfram af hljóðrás sem stundum er hröð og æsanndi eða sultu slök hugleiðslutónlist. Því miður finnst mér verkið detta flatt niður og skorta tilvísun í reynslu og aktívisma listakonunnar frá frá því fyrir tíu árum. Þetta verður spretthlaup án takmarks og tilgangs sem hefði dugað að hafa á einum skjá sem hægt hefði verið að brjóta niður í fleiri myndbrot. Vísunin í tölvuleik er ætlað að benda á þann möguleika að með markvissari úrvinnslu verksins sem gagnrýnins tölvuleiks hefði hugsanlega verið hægt að búa til þátttökuverk sem gæti vakið áhuga yngstu kynslóðarinnar á gagnrýninni náttúruvakt.

Hallgerður Hallgrímsdóttir sýnir skjáskot úr eftirlitsmyndavélum víða um land og eru þær merktar þekktu vaktfyrirtæki. Því miður eru örlög verka hennar lík og verka Stefáns Jónssonar; að hanga nær ósýnileg á tvist og bast á göngunum. Enn einusinni finnst mér að listamanni sé sýnd umtalsverð óvirðing. Myndirnar gefa til kynna að stóri bróðir sé að fylgjast með og ekki er örgrannt um að hann sé í vinnu hjá eftirlitsfélagi sem hefur einkavætt hálendi og fagrar sveitir sem sendir fólk af stað verði einhverjum á að síga fæti á einklandið. Það hefði verið forvitnilegt að sjá þessar myndir stækkaðar uppí A1 eða þaðanaf stærri verk.

Ljósmyndir Einars Fals eru líkt og einkasýning inni í miðri samsýningu vegna þess mikla fjölda verka sem þar eru saman komin. Hjá honum er fjöldi fólks saman kominn en myndirnar virka eins og fréttamyndir með blaðagreininni ,,How-do-you-like-Iceland?-Gosh-it´s-amazing“.  Hér er ekkert kafað eftir óvæntum sjónarhornum eða horft gagnrýnum augum á land, þjóð og gesti. Tilgangurinn virðist vera að sannfæra áhorfendur um að hér sé nú allt í sómanum; landið fagurt og frítt og vel sótt. Ég tel að þemaskipt sýning hefði styrkt erindi Einars Fals til muna.

Er þá ekki allt aðal fólkið mætt og óhætt að dæsa og ganga mett og sæl út. En, nei spurningin um þá sem vantar vaknar óhjákvæmilega. Á ekki Eggert Pétursson fullt erindi á svona sýningu með verk sem fjalla um hið smáa í lífríkinu eða Kristján Davíðsson, Magnea Ásmundsdóttir sem hefur fjallað um fjallið í steininum og steininn í fjallinu af næmi og innsæi. Nú, eða Kristján Steingrímur. Hvað með Tolla? Hann hefur málað landslag nær allan sinn feril. Fjarvera hans undirstrikar rækilega að það eru fleiri en einn listheimur í gangi á sama tíma og þeir eru misjafnlega velkomnir í partíið sem Listasafn Reykjavíkur býður til. Anton Logi Ólafsson málaði röð mynda af frægustu og stærstu virkjunum landsins og hvert verk ber nafn þeirrar frammámanneskju sem lokaði dílnum og skrifaði undir samning um framkvæmdir sem kostuðu meiri átök og baráttu fyrir andkapítalískri nýtingu landsins en áður hafði tíðkast. Eitt þeirra verka ber titililnn Sif Friðjónsdóttir. Freyja Eilíf hefur líka fjallað um náttúruvernd í verkum sínum. Sigríður Sigurðardóttir var afkastamikill málari á síðustu öld og eftir hana liggja nokkur mjög góð landslagsverk sem hefðu sómt sér vel á þessari sýningu.

Þetta eru aðeins örfá dæmi um listafólk sem hefði fyllt uppí myndina og bætt nýjum röddum inní mikilvægt samtal um fólkið, listina og landið. Í stað þess höfum við í raunni enn einn bókmenntatextann dulbúinn sem myndlist í formi óbeinnar tilvitnunar í Snorra Hjartarson einkum þann hluta sýningarinnar sem er á Kjarvalsstöðum: ,,Land, þjóð, tunga/þrenning ein og sönn“, nema hvað þátttaka þjóðarinnar er ekki til staðar.

Ynda Gestsson


Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.

Snorri Ásmundsson þjónar fyrir altari í Hrísey

Snorri Ásmundsson þjónar fyrir altari í Hrísey

Snorri Ásmundsson þjónar fyrir altari í Hrísey

Myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson var með gjörning í Hrísey í boði RÖSK listahátíðarinnar sem stóð fyrir ýmsum viðburðum og listsýningum í eyjunni nú í ágúst. Gjörningurinn var guðþjónusta þar sem Snorri steig í pontu og svo spilaði hann á hljóðfæri kirkjunnar en eitt af því sem Snorri er þekktur fyrir í sinni listsköpun er að halda tónleika, oftar en ekki þar sem flýgill eða píanó er við hendina og kynnir sig þá sem „Besta píanóleikara í Evrópu“. 

<iframe src="https://www.facebook.com/plugins/video.php?href=https%3A%2F%2Fwww.facebook.com%2Fsnorri.asmundsson%2Fvideos%2F10215274245623954%2F&show_text=0&width=267" width="267" height="476" style="border:none;overflow:hidden" scrolling="no" frameborder="0" allowTransparency="true" allowFullScreen="true"></iframe>
Hér að ofan má sjá upptöku af messuni í heild sinni.

Það er skemmst frá því að segja að Snorri kom við ýmsa strengi í hugum viðstaddra sem sóttu viðburðinn. Uppákoman vakti vissulega lukku meðal sumra kirkjugestanna á meðan aðrir yfirgáfu gjörninginn í uppnámi og lýsir fréttaflutningurinn í kjölfarið því að Hríseyjingar hafi sumir orðið afar sárir og móðgaðir og er formaður sóknarnefndar Narfi Björgvinsson sá sem helst hefur verið vitnað í vegna viðburðarinns. Samkvæmt honum eru sum sóknarbörnin í sjokki þar sem Snorri framdi þau helgispjöll að koma fram í messuskrúða og spila á hlóðfæri en slíkt er óvinsælt hjá þeim sem vilja halda í hefðir kirkjunnar þó hvorki klæðin né hljóðfærin séu heilög í sjálfu sér.

Snorri er hinsvegar ekki þekktur fyrir að fara eftir reglum sem aðrir hafa sett og setur sér sjálfur sínar eigin reglur. Í þessu tilfelli fór hann í messuskrúðann af því honum fannst hann „fara sér vel“ og algerlega viðeigandi að vera svona flottur þar sem þetta var hans messa en samkvæmt því sem haft hefur verið eftir honum verður hún ekki hans síðasta.

Snorri vitnar til þess í viðtölum að einu fyrirmælin hafi verið þau að skila kirkjunni í sama ástandi og hún var þegar hann tók við henni og það hafi hann gert.

Listamaðurinn hefur gjarnan komið við kauninn á þeim sem telja sig eiga frátekið tilkall til valdahlutverka eins og frægur gjörningur hans „Forsetaframboðið“ árið 2004 þegar hann bauð sig fram á móti Ólafi Ragnari Grímssyni og þegar hann bauð sig fram til borgarstjóra með framboð sitt „Vinstri hægri snú“ árið 2002. Með þessum uppákomum ruglar hann í fyrirframgefnum hugmyndum um hverjir mega uppá dekk í okkar samfélagi og hverjir ekki.

En Snorri er listamaður og hans sýn er sú að allt sé leyfilegt í nafni listarinnar. Hann nýtir sér það leyfi til að fara inn á svæði þar sem fæstum er boðið. Einhverjir myndu segja að það væri eitt af hlutverkum listarinnar að hrista upp í samfélaginu og viðteknum viðhorfum en við heyrum líka gjarnan að það sé liðin tíð að list hneyksli, það sé ekki lengur hægt.

Í tilfelli Snorra er það þó ekki svo, hann er líklega eini núlifandi listamaðurinn sem tekst með gjörningum sínum að hneyksla þó hann kæti líka og því má ekki gleyma. Það sem hann gerir ratar iðulega í fjölmiðla og er hann sá núlifandi myndlistarmaður sem á hvað greiðasta leið að fjölmiðlum með uppátækjum sínum.

Snorri mun halda áfram að hrista upp í okkur þegar hann stormar í frátekin sæti elítunnar og hlammar sér þar niður og hlær sínum háværa hlátri sem fær okkur ýmist til að sjokkerast eða hlægja með.

Helga Óskarsdóttir


Ljósmynd: Björn jónsson
Videoupptaka: Thora Karlsdóttir


Greinar og viðtöl sem birtust í kjölfar gjörningsins:


Frekari upplýsingar um listamanninn:

www.snorriasmundsson.com
Wikipedia

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Fyrir þá sem ekki þekkja til er Manifesta evrópski ferða-tvíæringurinn sem haldinn er í nýrri evrópskri borg annað hvert ár. Í ár opnaði hann laugardaginn 16. júní undir heitinu ‘A Planetary Garden: Cultivating Coexistence’ (‘Plánetugarðurinn: Ræktun Sambúðar’) á mörkum Evrópu, Afríku og Miðausturlanda á eyjunni Sikiley í Miðjarðarhafi. Staðsetningin var álitin hvorki meira né minna en sjálf miðja jarðar í þeirri heimsmynd sem ríkti þegar hafið hlaut nafn og saga og lýðfræði eyjunnar markast mjög af miðjusetningunni.

Borgarstjóri Palermo, Leoluca Orlando, kallar borgina ‘borg farandsfólks’ og staðsetur borgarpólitíkina í kjarna átakanna á Ítalíu, og Evrópu í víðara samhengi, um flóttamannabátana sem leita um þessar mundir vinveittra hafnaborga. Á meðan að Ítalía sjálf hefur lokað á báta arkar Orlando niður að höfn og heilsar fólki á flandri með handabandi. Þetta minnir á gamla tíma í Reykjavíkurhöfn þegar farþegabátum var fagnað eins og þjóðhátíð væri. “Hér í Palermo – og þetta er óbreytanleg ákvörðun okkar – eru engir innflytjendur. Þeir sem koma til borgarinnar verða Palermobúar. Yfirlýsingin ‘Ég er manneskja’ er hluti af stjórnarskrá Palermoborgar og krefst viðurkenningar á rétti fólks til alþjóðlegs hreyfanleika sem grundvallarmannréttindi’, segir Orlando í texta sýningarskrárinnar. Við hefðum átt að setja svipaða málsgrein í okkar reykvísku stjórnarskrá á meðan tækifæri gafst og bátakomur vöktu fögnuð.

Titill sýningarinnar er fenginn úr smiðju franska landslagsarkitektsins Gilles Clément sem notaði hugtakið plánetugarðurinn til að lýsa mannkyni sem garðyrkjumönnum jarðarinnar. Hugtak Clément er innblásið af þekktu 19. aldar málverki sikileyska málarans Francesco Lojacono sem sýnir grasagarð borgarinnar þar sem allar tegundirnar eru aðfluttar og þykir verkið og garðurinn vera myndlíking fyrir lýðfræði og sögu borgarinnar. Þessi saga einkennist af reki fólks og plantna með bátum hvaðanæva að og þar sem Palermo hefur haft það hlutverk að vera festi fyrir fólk og plöntur á reki. Það var einmitt mikill áhugi blaðamanns á garðyrkju og reki og festu fólks og plantna að hún dróst að Manifesta í ár. Áhuginn vaknaði við að hafa unnið að vinningstillögu samkeppni Faxaflóahafna um útilistaverk við miðbæjarhöfnina – villigarði á mörkum sjávar og lands, festi fyrir reka á beinan en einnig táknrænan hátt. ‘Garden of Flows’ (‘Flæðisgarðurinn’) er eitt af þrem þemum tvíæringsins í ár.

Annað þema er ‘Out of Control Room’ (‘Stjórnlausa Rýmið’) sem vísar í staðsetningu eyjarinnar og þátttöku í þeim landfræðilegu og pólítísku breytingartímum sem við lifum í dag. Þriðja þemað er ‘City on Stage’ (‘Borg sem Svið’) og byggir á forrannsókn sem hátíðarstýran Hedwig Fijen pantaði af hollenska arkitektafyrirtækinu ‘Office for Metropolitan Architecture (OMA)’ (‘Skrifstofa Stórborgar Arkitektúrs’) á menningarlegum, félagslegum, landfræðilegum og pólitísku flækjustigi borgarinnar og sem skapar ramma tvíæringsins. Sýningarstjórarnir fjórir tóku sér þessa rannsókn sem upphafspunkt en einn þeirra er einmitt sikileyski arkitektinn Ippolito Pestellini Laparelli sem búsettur er í Rotterdam og er meðeigandi í OMA arkitektafyrirtækinu. Metnaðarfullt markmið Orlando borgarstjóra andar þarna sterkt inn en það takmarkast ekki við að setja á svið nokkra mánuði af listviðburðum heldur lítur hann á tvíæringinn sem tæki til að breyta borginni sjálfri og þróa með menninguna að vopni. Þó falleg sé og sjarmerandi er borgin augljóslega að mörgu leiti í niðurníðslu.


What Is Above Is What Is Below. ‘Cooking Sections’ í Giardino dei Giusti garðinum. ‘Garden of Flows’ hluti tvíæringsins.

Áður en farið er nánar út í það er vert að fjalla aðeins um aðaláhugamál blaðamanns, garðyrkjuhlutann. Með þá reynslu í farteskinu að hafa búið um hríð í Norður-Afríku varð blaðamanni það ljóst frá fyrstu mínútu að kerfisbundið áhorf og skipulögð rýni væri ekki möguleg í Palermo heldur væri málið að fylgja flæðinu og sjá hvað kæmi í fangið. Þetta reyndist mjög árangursrík aðferð og í takt við flæðisgarðinn sem líkt og plöntur og menn jarðar og reyndar tvíæringurinn sjálfur flæddi yfir borgina á mjög lýðræðislegan hátt með enga sérstaka aðalsýningu á einum stað. Fyrir þá sem þekkja ekki til er eitt aðalvandamál Sikileyjar þurrkur sem er afleiðing þess að undir lok 30 ára stríðsins í Þýskalandi 17. aldar þá var fólki gefið leyfi til að leggja undir sig aukið landsvæði til ræktunar og búsetu til þess að fjármagna stríðsreksturinn.

Límónutré ‘performerar’ í verkinu What Is Above IS What Is Below úr ‘Garden of Flows’ hluta tvíæringsins.

Eitt af þessum landsvæðum var Sikiley og skóglendi var rutt til að koma fyrir kornökrum. Þetta, og síðari tíma þróun, olli því að rakinn sem trjáræturnar héldu í jörðu hefur horfið mikið til. Það var því áhugavert að skoða innsetningar og gjörningaverk lúndunarbúanna Alon Schwabe og Daniel Fernández Pascual ‘Cooking Sections’ (‘Eldunar Hlutar’) en það fólst í tilraun til að rækta tvö límónutré í garðinum á Chiesa di S. Maria dello Spasimo höllinni án þess að vökva þau með því að festa raka í terra cotta múrsteinum sem umluktu tréin og vökvuðu þau með nærveru sinni. Önnur tilraun í Giardiono dei Giusti garðinum var að festa raka í fiskinetum sem umluktu hávaxinn tré sem þar voru fyrir. Tvíæringurinn er stútfullur af fleiri áhugaverðum verkum sem rýna í, bregðast við eða kallast á við staðbundinn og oft á tíðum um leið hnattrænan veruleika.

Af þáttöku Íslendinga var það helst að frétta að menningarfrömuðurinn Sara Löwe Daðadóttir tók þátt í 5 x 5 hliðardagskránni en 5 galleríum í Evrópu sem starfa á jaðri þess að vera verkafnamiðuð frekar en hrein sölugallerí var boðið að taka þátt í dagskrá sem stóð yfir á foropnunardögum og opnunarhelgi hátíðarinnar. Þátttaka Söru var hluti af dagskrá berlínska gallerísins Exile á Balero markaðnum og fólst í útgáfu ‘Utopian Union’ (‘Útópíu Samtökin’) á ‘Year one (1)’ (‘Ár eitt (1)’) heimildarbókinni. Íslendingar þekkja vel ‘Utopian Union’ sem m.a. tók þátt í Cycle listahátíðinni í Kópavogi á síðasta ári með hlutverkaleik. Útgáfan var í nafni Reflektor M, netvettvangs fyrir samtímalist sem staðsettur er í Munich og er undir stjórn María Inés Plaza Lazo sem einnig er annar stjórnanda Exile gallerís.

5 x5 var ný hliðardagskrá á Manifesta í ár. Fimm galleríum var boðið að koma til Palermo og vera í samtali við fagfólk úr lista- og menningarheimi borgarinnar með því að setja um ‘pop-up’ sýningar. Galleríin voru aðallega frá Ítalíu en einnig var Annet Gelink í Hollandi og Exile í Berlín boðið að taka þátt. Exile valdi að vera með ‘sumarbúðir’ á Balero markaði borgarinnar á foropnunardögum og opnunarhelgi tvíæringsins. Hér sérst Sara Löve Daðadóttir undirbúa bókaútgáfu ‘Utopian Union’ og ‘Reflektor M’ á Balero markaðnum.

Í bókinni er farið yfir atburði sem ‘Utopian Union’ hefur haldið á Feneyjartvíæringnum í tengslum við þýska sýningarskálann; stórfund listamanna, Rojava búa og fleiri í Berlín á síðasta ári; vinnustofu í Kaupmannahöfn; hlutverkjaleiki á vegum UU; og margt fleira. Annað verkefni sem Sara tekur þátt í sem skipuleggjandi var einnig á markaðnum á vegum Exile en það var verk pólsku listakonunnar Kinga Kielczynska sem fjallar um afdrif síðustu leifa hins upprunalega Evrópuskóglendis, Bialowieza skógarins, sitthvoru megin við landamæri Póllands og Hvíta Rússlands. Kinga var með staðbundna innsetningu samansettri af gróðurafskurði úr grasagarði borgarinnar troðnum inn í bíl en einnig af teikningum annars staðar á markaðnum sem kölluðust á við nýlega sýningu hennar í Exile.

Verk pólsku listakonunnar Kinga Kielczynska á vegum Exile gallerí á Balero markaðnum.

Viðamesta verkefnið tengt Íslandi á tvíæringnum er án efa verkefni íslensk/svissneska listamannsins Christoph Büchel sem haldið er samsíða tvíæringnum. Þátttaka hans er viljandi gerð mjög óræð en hvergi er minnst á nafn hans í sýningarskránni eða á korti hátíðarinnar. Orðrómur um þátttöku ásamt nafni hans á taupoka hátíðarinnar er eina sem gefur til kynna að verk hans sé einhvers staðar á eyjunni. Það var fyrir tilviljun að fyrsta manneskja sem blaðamaður rakst á eftir að hafa stigið út úr rútunni frá Catania flugvelli var Nína Magnúsdóttir sýningarstjóri og skipuleggjandi með meiru. Hún var stödd á dæmigerðu Palermortorgi ásamt Úu dóttur sinni að safna stuðningsundirskriftum fyrir verkefnið ‘Barca Nostra’ (‘Skipið Okkar’). Verkefnið snýst um að flytja skipsflak frá Palermo til Brussel til heiðurs frelsis mannkyns til hreyfanleika og reisa úr skipinu ‘Minnismerki um Evrópusambandið’.

Skipið sjálft fórst með þúsund flóttafólk innbyrðis árið 2015 og verkefnið er kynnt sem frumkvæði fólks á flandri og hvergi er minnst á nafn forsprakkans sjálfs Christoph Büchel. Undirskriftarborðið er látlaust og ekki merkt á Manifesta kortið og söfnunin lítur ekki út fyrir að hafa neitt með tvíæringinn að gera. Ruglaðar raddir á foropnunardögunum hvísluðu sín á milli “Hvar er verkið hans Christophs?“ Að rugla í fólki á þennan hátt virtist vera hluti af verkinu og gengið var ennþá lengra með skipulagðri heilsdagsferð ‘Dream in Progress’ (‘Draumur í Framförum’) á ‘Manifesto Gibellina Nuova‘ upp í fjöllum Sikileyjar. Prentaður bæklingur sem fylgdi var alveg laus við nafn Christophs og fáir voru tilbúnir að treysta því að ferðin, sem leit út fyrir að vera túristaferð svipaðri kanarískri grísaveisluferð, væri verkið.

Miði í ferðina Manifesto Gibellina Nuova upp í fjöll Sikileyjar.

Blaðamaður artzine ákvað að fara að ráðleggingum Nínu og fara í ferðina, sleppa hræðslunni við að missa af að sjá lykilverk í Palermo, treysta á flæðið og skella sér út í óvissuna. Eftir að hafa misst af moskunni í Feneyjum var ekki málið að missa af uppátækjum Christophs á Manifesto í Trapani héraði í Sikileyjarfjöllum.

Ferðafélagar í ‘Dream in Progress’ ferðinni klóra sér í hausnum í rústum bæjarins sem lagðist í eyði í jarðskjálftunum 1968. Fyrir miðju er leiðsögumaður úr héraði. 

Eins og Manifesta þá deildi Manifesto sér niður í þrjú meginþema: ‘Archaeology of the future – collateral damage’ (‘Fornleifafræði framtíðarinnar – tryggt tjón’) sem rannsakar hið ókláraða og í rústum í hnattrænu flæði samtímans með því að heimsækja rústir bæja sem orðið höfðu illa úti í jarðskjálfta árið 1968 en einnig veigamikið landslistaverk ítalska listamannsins Burri sem gleypt hefur rústir eins þorpsins undir nafninu ‘Cretto’.

Ferðafélagar djúpt í iðrum Cretto landlistaverks Burri sem staðsett er yfir þeim stað sem bærinn Gibellina var áður. Fremst á myndinni er Nína Magnúsdóttir sýningarstjóri að ræða við ferðafélaga.

Form og línur Cretto kallast ekki einungis á við sprungumálverkin sem listamaðurinn er þekktur fyrir heldur einnig ‘arkitektúr’ í landslagi landbúnaðahéraðsins í kring.

Sýn hins mikla listamanns er fyrirferðarmikil og verkið var sett upp á sínum tíma í óþökk syrgjandi þorpsbúanna sem töpuðu þarna áttum í gamla heimabænum sem steypt hafði verið yfir. Annað þema var ‘Concrete Utopia’ (‘Steypt Útópía) og einblíndi á samband lista og arkitektúrs og samtal þessa greina við bæinn Gibellina Nuova, samfélög innan þess, hefðir og almenningsrými. Gibellina Nuevo er bær sem byggður var til að hýsa íbúanna 2000 sem lifðu af jarðskjálftanna í bænum sem landslagsverk Burri hefur gleypt. Hin nýja Gibellina er byggð með framtíðina í huga eða margfalt stærri íbúafjölda og var á 9. áratugnum fyllt af tugum risastórra vanræktra útilistaverka og ókláraðra stórmenningarbygginga undir stjórn stórmennis bæjarins sem hafði þá framtíðarsýn að byggja stórbæ á grundvelli listar og arkitektúrs. Í dag er mjög eyðilegt um að litast á tómum torgunum og í kringum verkin sem mörg hver eru börn síns tíma. Enginn veit hver borgaði fyrir þetta allt saman.

Ókláruð risastór glæsibyggingin sem átti að vera leikhús bæjarins minnir helst á martröð um ofvaxið bílastæðahús í Reykjavík. Þriðja þema Manifesto er ‘Uncultivated garden of coexistence – the third landscape’ (‘Óræktaði garður sambúðar – þriðja landslagið’) og kjarnast um heimsókn í grasagarð Gibellina Nuova, risastórt moldarflæmi sem kallast á við óhirt listaverkin og ókláruðu byggingarnar í bænum en einnig við titil og um leið langtíma ásetning Manifesta tvíæringsins sjálfs.

Arkitekt OMA tekur hér mynd af ókláraðri leikhúsbyggingu Gibellina Nuova.

I Feneyjum tókst Christoph að ganga inn í kjarna goðsögunnar um hið frjálslynda verslunarsamfélag og um leið ganrýna afstöðu samtímalistasenunnar. Það varð ekki bara allt vitlaust á borgarskrifstofum Feneyjaborgar heldur lokuðu líka áhrifamiklir listamenn, hér heima og alþjóðlega, á umræðu í kringum verkið. Christoph hafði hitt á marga viðkvæma punkta en hafði ekki gerst sekur um framandgeringu né að skreyta sig með menningu annarra á óviðeigandi hátt. Hann var í góðu og miklu samstarfi við íslamska samfélagið á Íslandi og í Feneyjum og það skilaði sér í umræðu á þeim vettvangi, sem og á fræði- og pólitískum vettvangi á alþjóðavísu, varðandi vaxandi íslamafóbíu og fleira, þó aðilar í samtímaheiminum sem ekki vildu rugga bátnum hefðu þagnað eða reynt að þagga niður. Verk í íslenska skálanum hefur sjaldan haft jafn mikið vægi alþjóðlega eða sett íslenska myndlistarsenu jafn rækilega á kortið.

Á Manifesto vinnur Christoph aftur í beinu samstarfi við ákveðinn samfélagshóp sem hefur verið jaðarsettur og vanræktur. Í þessu tilfelli eru það íbúar í Trapani landbúnaðarhéraðinu á Sikiley. Að vera íbúar í gleymdu héraði eða svæði er reynsla sem íbúar margra héraða Evrópu eiga sameiginlegt og því hefur samstarfið víðtækari vísun. Á Sikiley stofnar Christoph til kjarnyrts samtals og leggur fram gagnrýna spurningu við yfirlýst markmið Manifesta í Palermo og borgaða þátttöku hollenska arkitektafyrirtækisins OMA til að stunda rannsóknir á veruleika Palermo. Falið undir fallegum ásetningi í texta sýningaskrárinnar er sú staðreynd að rannsóknin gefur OMA mikilvægt forskot þegar útboð hefjast í þeirri langtíma framfarauppbyggingu sem Orlando borgarstjóra sér sem framtíð borgarinnar.

Með því að sýna bæinn Gibellina í nýrri og eldri gerð undir upprunalegri ferðamannaleiðsögn fólks á staðnum tekst Christoph að leggja fram metarýni á fyrirbærið tvíæringa í sjálfu sér og sérstaklega Manifesta í Palermo en engin fordæmi eru fyrir slíkri forrannsókn arkitektafyrirtækis. Í ljósi þess að Hedwig Fijen hefur lýst yfir að slík forrannsókn arkitektafyrirtækis sé framtíð Manifesta fær verk Christops aukna vigt. Það verður hrifnæmum nauðsynlegt til að halda sér á jörðinni nálægt því sem er.


Ferðafélagar á torgi fyrir framan borgarskrifstofur Gibbelina Nuova. Á myndinni sást brot af stórum og vanræktum útilistaverkum bæjarins og einnig aðkeyptum arkitektúr.

Þegar Manifesta var næstum því haldin á Íslandi

Manifesta sem ferða-tvíæringur getur sannarlega virkað sem tæki til að flýta fyrir heldrunarferli í höndum réttra aðila hvort sem þeir gera það af góðum ásetningi eða til þess að hagnast eða eru ómeðvitaðir um hver kostnaðurinn er. Í þessu samhengi er gott að rifja upp hvernig Manifesta varð næstum því haldið á Íslandi undir lok síðasta áratugar. Um miðjan áratuginn var þýska sýningarstjóranum Christian Schöen falið það verkefnið að stofna íslenska kynningarmiðstöð myndlistar og koma myndlistarmálum í faglegan jarðveg. Um svipað leiti árið 2005 var haldin Listahátíð í Reykjavík sem beindi sjónum að íslenskri myndlist á hátt sem ekki hafði þekkst áður.

Mikilvægt fólk úr miðju listheimsins flyktist til landsins og var flogið á milli myndlistarsýninga Listahátíðar í öllum landshlutum. Þetta var hátíðin sem kom íslenskri myndlist á kortið. Christoph Büchel var hluti af þessari bylgju sem myndaðist í kjölfarið og sem listamannavinnurýmið Klink og Bank var miðlægt í. Nína Magnúsdóttir var einmitt stjórnandi Klink og Bank á þessum tíma og lykilmanneskja í tengslanetamyndun í kringum það.

Christian var mjög metnaðarfullur fyrir hönd íslenskrar myndlistar og vildi nýta þetta tækifæri sem athyglin á Listahátið 2005 var. Hann notaði tengsl sín við stjórnanda Berliner Liste listamessunnar til að Klink og Bank yrði boðin þátttaka þar og vann einnig nótt og dag við að sannfæra áhrifafólk í íslenskum nefndum um að það væri málið að styrkja íslenska listamenn eins og Egil Sæbjörnsson til vinnustofudvalar í Künstlerhaus Bethanien í Berlín. Christin fylgdi svo athyglinni eftir með því að bjóða hópi af Manifesta sýningarstjórum til Íslands með það í huga að undirbúa jarðveginn fyrir það að Manifesta yrði haldin fljótlega á Íslandi.

Hedwig Fijen var mjög hrifin af þeirri hugmynd og lagði sérstaka áherslu á að sýningarstjórarnir færu til Íslands til að velja íslenska listamenn til þáttöku á Manifesta. Það varð úr að listamennirnir Margrét Blöndal, Ragnar Kjartansson og Ólafur Ólafsson/Libia Castro tóku þátt árið 2008. Íslenska ríkið tók líka vel í hugmyndina og samningur um að hýsa Manifesta lá á borði Mennta- og menningarmálaráðherra til undirskriftar þegar Lehmann bræður urðu gjaldþrota. Þegar Ísland varð síðan nær gjaldþrota í kjölfarið stóð valið á milli þess að heiðra tvo samninga sem lágu á borðinu og heiðursþátttaka Íslands í bókamessunni í Frankfurt varð ofan á.

Eftir langt ferli og uppbyggingu til að koma þessum mikilvæga atburði til Íslands þá voru þetta að sjálfsögðu mikil vonbrigði. Reykjavíkurborg og íslenska ríkið höfðu vissulega ekki sömu sýn á myndlistarviðburð sem eitthvað sem hægt væri að byggja á eins og Orlando borgarstjóri Palermo gerir í dag eða stórhugar 9. áratugarins gerðu í Gibellina Nuova. Heldrunarferli er flókið og marglaga fyrirbæri sem eins og nýlenduferlið kjarnast um að einn þjóðfélagshópur tekur yfir rými annars og því fylgir umbreyting á fagurfræði og ásýnd og margt fleira. Ákveðnir hópar hagnast og hagur þeirra vænkast á meðan aðrir hópar eru jaðarsettir.

Myndlistarheimurinn er ekki laus við að vera staðsettur í þessari hringrás og hafa ákveðið hlutverk. Oft bætist hagur myndlistarsenu í upphafi slíks ferils, húsnæði býðst til dæmis á góðum stað á góðu verði, en á síðari stigum kemur oft annar hópur og tekur yfir og myndlistarsenunni er ýtt út á jaðarinn. Þetta er ákveðinn mekanismi sem hefur sinn ryðma, sín tannhjól, sem þarf að gefa gaum í umhverfi sem gefur sig út fyrir að vera gagnrýnið. ‘Follow the money’, hvíslar Nína að mér og horfir kíminn á einn þátttakanda í Draumaframfaraferðinni, arkitekt frá OMA sem virðist ekki gera sér neina grein fyrir gagnrýnu viðhorfi verksins til hans eigins fyrirætlanna og sjónarmiða. Blaðamaður er á báðum áttum. Vissulega yrði það stórkostlegt tækifæri fyrir íslenska myndlistarsenu að fá Manifesta til Íslands en ljóst er að mikilvægt er að vera meðvitaður um hver séu helstu tannhjólin og hverju sé verið að fórna og hverjir séu að hagnast þegar rætt er um samspil heldrunarferils, fasteigna- og borgarþróunar og myndlistar- og menningaratburða.

Hulda Rós Guðnadóttir

 


Ljósmyndirnar í greininni eru birtar með leyfi Huldu Rósar Guðnadóttur, mynd af miða er birt með leyfi Fondazione Manifesto

Hlekkir sem tengjast efni greinarinnar:

http://m12.manifesta.org

www.cooking-sections.com

www.fondazionemanifesto.org

http://oma.eu/

http://exilegallery.org/

http://www.utopianunion.org/

http://www.kingakielczynska.com/

https://barcanostra.eu/

Grein í New York Times: Italy’s New Populist Government Turns Away Ship With 600 Migrants Aboard

Skynrænn þverskurður Tuma Magnússonar

Skynrænn þverskurður Tuma Magnússonar

Skynrænn þverskurður Tuma Magnússonar

Listamannarekna sýningarrýmið Pirpa er staðsett við Grønttorvet, eða Grænmetistorgið, í úthverfi Kaupmannahafnar í Danmörku. Þar má um þessar mundir sjá og heyra innsetningu listamannsins Tuma Magnússonar sem ber heitið „Arbejdsvidenskab“ eða „Vinnuvísindi“. Hún sækir efniðvið í umhverfi Pirpa sem undanfarið hefur tekið miklum breytingum. Fyrir tveimur árum yfirgáfu síðustu heildsalarnir Grænmetistorgið sem áður var lífleg miðstöð grænmetis-, ávaxta- og blómasölu. Það stóð til að umbreyta torginu í íbúðarkjarna. Það átti að rífa þær byggingar sem áður hýstu heildsölurnar til að skapa rúm fyrir framtíðina. Niðurrifið hefur reynst tímafrekt og enn í dag eru steypubyggingar á svæðinu að umbreytast í duft á meðan ný íbúðarhúsnæði rísa. Sýningarrýmið Pirpa, ásamt örfáum smáverslunum, litlum framleiðslufyrirtækjum og listamönnum hefur hreiðrað um sig tímabundið í rótinu. Í yfirgefnum byggingum sem enn fá að standa.

Sýningar Pirpa hverfast ávallt að einhverju leyti um sögu svæðisins, arkítektúr þess eða þá umbreytingu sem nú á sér stað þar. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar innsetning Tuma um vinnuna. Í þessu staðbundna verki, sem samastendur af ómandi hlutum ásamt upptökum af hljóði og myndum, tekur Tumi sneiðmynd af hinum mismunandi vinnuferlum sem mótað hafa svæðið síðastliðna mánuði.

Mávar taka á móti gestum sýningarinnar með gargandi söng. Úr fjarska má heyra jarðýtu berjast við að ryðja á undan sér einhverjum massa. Hér eru þó engir mávar á ferð og þrátt fyrir vinnuvélar í nágrenninu er engin jarðýta í sjónlínu. Hljóðið kemur frá gömlu hringborði og vinnukolli úr plasti sem blasa við sjónum fyrir utan Pirpa. Smám saman dýpkar rómur mávanna. Það hægist á og jarðýtan virðist eiga erfiðara um vik að komast áfram. Hljóðsporið teygist til, hraðinn breytist og tíðnin fylgir með. Ef tekin eru nokkur skref áfram, framhjá kollinum og borðinu og inn fyrir dyr sýningarrýmisins, stækkar hljóðheimurinn. Hann umlykur líkamann úr hverju horni.

Heyra má óm af nokkrum mismunandi atburðarásum, sem virðast gerast á sama tíma: Byggingarframkvæmdum, kústi sem dreginn er eftir gangstétt og gleri sem slæst saman. Þessi mismunandi hljóð hljóma í takt en virðast þó ekki alveg í samræmi við þann veruleika sem blasir við á leið til sýningarinnar í gegnum hverfið. Hljóðin spilast á mismunandi hraða og eins og rómur mávanna breytist tónfallið einnig. Meðfram veggjunum hvíla sex skjáir ofan á hátölurum sem sýna uppruna hljóðsins. Ung stúlka sópar gangstétt fyrir utan nytjamarkað, vinnuvélar brjóta sér leið í gegnum steypu og tveir menn tappa epladrykk á flöskur og innsigla þær. Myndirnar hreyfast í takt við hljóðið, hraðar og hraðar. Þegar hámarkshraða hefur verið náðhægist á að nýju.

Þegar eyru okkar nema tilbúin hljóð, það er að segja hljóð sem búið er að taka upp og eiga við, göngum við oftast út frá því að um tónlist sé að ræða. Allir hlutir gefa frá sér hljóð sem við heyrum stöðugt úr umhverfi okkar. Í skynjuninni nemum við umhverfishljóð sem afleiðingu hins sjónræna heims og þegar augljóslega er búið að fikta í rauntíma hljóðsins, eins og Tumi hefur gert hér, eigum við erfitt með að tengja það við raunveruleikann. Við erum vanari því aðhorfa á hreyfimyndir á auknum hraða eða í hægsýningu. Augað á ekkert erfitt með að greina hvaða hlutir eða lifandi verur eru á myndum, þótt átt hafi verið við hraðann. Því upplifum við myndir yfirleitt á einhvern hátt sem framsetningu á raunveruleikanum. Í innsetningunni „Vinnuvísindi“ nýtir Tumi sér samræmingu mynda og hljóðs á athyglisverðan hátt.

Taktur hljóðsporsins er skipulagður og melódískur. Þrátt fyrir það virðist verkið fjarlægjast heim tónlistarinnar þegar hljóð og mynd mætast. Myndirnar hjálpa okkur nefnilega að greina hljóðið sem breytu úr umhverfinu. Hér virðist, frekar en tónlist, vera á ferðinni leikandi tilraun, framkvæmda í sérstökum tilgangi: Til að sýna fram á að það tekur mislangan tíma að vinna mismunandi verk. Í sömu andrá beinist athygli gesta sýningarinnar að þeirra eigin tilfinningu fyrir stað og stund.

Þeir vinnuferlar sem fyrir augu og eyru bera eru uppistaða samfélagsins við Grænmetistorgið. Allt frá vinnu mávanna við að afla sér lífsviðurværis til byggingaframkvæmdanna. Smám saman kemur í ljós að það er alltaf ein af atburðarásunum í rauntíma og hinar fylgja hraða hennar. Þegar mennirnir tappa epladrykk á flöskur garga mávarnir í takt. Þótt þeir hljómi heldur þreklausir. Steypan mölvast og rykið safnast í bunka á nákvæmlega sama hraða. Hálfri mínútu síðar eiga sér stað skipti. Nú gengur auðveldlega að brjóta steypuna en stúlkan með sópinn virðist fara óeðlilega mikið fram úr sér.

Svona gengur verkið fyrir sig. Eitt verkefni er unnið á rauntíma og hin fylgja með. Hring eftir hring. Þar með fá þau sem njóta verksins vinnuvísindi svæðisins beint í æð – það er að segja, hvernig unnið er úr aðstæðum á vettvangi. Hvernig eru hin mismunandi verkefni leyst af hendi, á hversu skilvirkan eða hagnýtan hátt?

Þó „Vinnuvísindi“ minni að mörgu leyti á prófun á tilgátu, talar innsetningin meira til skynjunar okkar en rökhyggjunnar. Ástæða þess er samspil heyrnar og sjónar. Eins og áður sagði þjóna myndirnar mikilvægu hlutverki sem tenging hljóðsins við raunveruleikann. Það er auðveldara fyrir okkur að sjá hvaða atburðarrás birtist okkur í rauntíma hverju sinni. Hins vegar virkar sjónin þannig að við sjáum aðeins það sem er beint fyrir framan okkur.

Þrátt fyrir smæð sýningarrýmisins er ómögulegt að sjá öll smáatriði verksins á sama andartaki. Þeir skjáir sem blasa við gestum eru ekki stórir. Ef staðið er fyrir miðju eins þeirra er ómögulegt að sjá hvað fram fer á hinum skjánum í rýminu, án þess að snúa sér. Heyrnin virkar hinsvegar þannig að eyrun nema hljóð úr umhverfinu úr öllum áttum. Jafnvel þótt við snúum baki við hljóðgjafanum. Það er vel greinanlegt hvaða hljóðspor tilheyrir þeirri mynd sem ber fyrir augu, en hljóðið frá hinum skjánum heyrist einnig. Þannig tengjast atburðarásirnar saman. Í gegnum skynjunina skapast vissa um það að epladrykkurinn sé framleiddur í nágrenni við stúlkuna með sópinn. Jafnvel þó það hljómi eins og að hún vinni heldur löturlega.

„Vinnuvísindi“, sem við fyrstu kynni virðist vera leikur að veruleikanum, tilviljanakenndur samsláttur af mismunandi umhverfishljóðum, breytist með tímanum í skynrænan þverskurð af þeim vanagangi og mynstrum sem einkenna hin mismunandi vinnubrögð sem Tumi tekur fyrir. Um leið birtist landslag Grænmetistorgsins, sem svæði í millibilsástandi. Það þarf þó ekki annað en að loka augunum til að hverfa á mið taktfastrar og tilraunakenndrar tónlistar. Hljóða sem óvissa ríkir um hvort séu í raun hluti af okkar heimi. Þar með rekur hugann inn í áður óþekkt svæði þar sem amstur hversdagsins annaðhvort stendur í stað eða flýgur áfram. Sýningin er opin til 23. júní.

Sunna Ástþórsdóttir


Ljósmyndir: Tumi Magnússon.

Frekari upplýsingar um listamanninn:
www.tumimagnusson.com

Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur, er titillinn á sýningu Jóhönnu Kristbjargar í Hafnarborg. Þegar gengið er inn á sýninguna er það eins og að stíga yfir landamæri, inn á ókannað svæði þar sem óskilgreind tákn vísa veginn, á kunnuglegu en samt framandi tungumáli. Jóhanna Kristbjörg hefur sýnt verk sín víða á síðustu árum, hér heima m.a. í Listasafni ASÍ árið 2015, en hún er búsett í Belgíu þar sem hún útskrifaðist frá HISK, Higher Institute for Fine Arts, sama ár.

Jóhanna vinnur í marga miðla, en það má segja að grunnurinn að list hennar sé málverkið og tvívíð form, sem einnig eru sett fram sem skúlptúrar og innsetningar. Á sýningunni í Hafnarborg eru einnig tvö myndbandsverk, þar sem fram koma tengsl listamanns við umhverfi og hluti. Jóhanna skrifar líka og á sýningu hennar má sjá og lesa bók með textum og myndum, þar sem textaflaumur myndar líkt og samhliða heim við myndverk hennar.

List Jóhönnu byggir á samsetningu forma og lita sem að ýmsu leiti minnir á liststefnur frá fyrri hluta 20. aldar, kúbisma, súrrealisma og abstraktlist. Málverkin eru tvívíð og formum er dreift um myndflötinn eins og hvert verk gæti verið hluti af stærri heild, sem heldur áfram þar sem striginn endar. Jóhanna tengir málverkin við rýmið með veggmálverkum og dregur form þeirra inn í rýmið með skúlptúrum, útskornum formum af sama toga og þau sem málverkin sýna. Formin minna á púsl í púsluspili, sem eykur á tilfinninguna fyrir tengslum á milli verka. Hún skapar einnig innsetningar í rýminu, eins og þar sem hún staðsetur skúlptúr á bláum grunni sem minnir á stóra öldu. Smáhlutir úr járni og gerviblóm virka eins og glufur á þessari stóru heild og vekja upp spurningar.

Strúktúralismi kom fram í Frakklandi upp úr miðri síðustu öld. Þar kom fram sú hugmynd að menning okkar byggi á ákveðnum strúktúr. Þessar hugmyndir tengdust kenningum í málvísindum. Út frá þeim mátti hugsa sér að myndlist mætti nálgast og lesa eins og nokkurs konar tungumál. Á sama tíma komu fram hugmyndir um „dauða höfundarins“ og afhelgun listaverka. Listaverk áttu ekki lengur að búa yfir ósýnilegum og leyndardómsfullum, helgum kjarna listamannsins, heldur áttu áhorfendur og fræðimenn að greina þætti listaverksins í tengslum við samfélag, menningu og sögu. Strúktúralismi var svolítið eins og lokað kerfi, þar sem ákveðnir þættir voru skilgreindir með því að bera þá saman við aðra þætti innan sömu heildar, og öðluðust þeir merkingu sína út frá því.

Strúktúralismi var afar útbreiddur og hafði mikil áhrif, en í kjölfar hans komu fram póst-strúktúralískar kenningar sem leituðust við að „opna“ þetta lokaða kerfi og skoðuðu sérstaklega hvernig merking verður til og á hverju hún grundvallast.
Þessar strúktúralísku kenningar koma upp í hugann á sýningu Jóhönnu, en list hennar í heild er órofið samspil ótal þátta án upphafs og endis. Það er erfitt að líta á hvert listaverk sem einstakt verk, svo þétt og samtengd er sýningin í heild. Hvert um sig verða listaverkin líkt og tákn innan heildarinnar og athyglin hvarflar í sífellu á þeirra, frekar en að staðnæmast við hvert og eitt fyrir sig. Samtalið og tengingarnar milli listaverkanna verða nær áþreifanleg, og þá helst samspil jákvæðra og neikvæðra forma, ósjálfrátt leitar maður að því hvaða verk myndi passa inn í eða við annað.

Formheimur listar Jóhönnu er að grunninum til abstrakt, málverkin eru blanda geómetrískra og lífrænna forma sem fara frá því að vera þétt, samtengd heild yfir í að fljóta af léttleika á yfirborðinu. Þessi sömu form verða síðan eins og setning á vegg þegar þeim er raðað upp eins og lágmynd í lárétta röð. Skúlptúrarnir eru frekar tvívíðir en þrívíðir, en í þeim birtast óvæntir hlutir; útlínur hesthauss, gervirós, sem koma á óvart. Þannig brotnar upp hin annars tiltölulega lokaða heild. Myndböndin tvö verða líka til þess að skapa tengingu eða inngöngu fyrir áhorfandann, en í þeim birtist tilfinning fyrir tengingu milli manns og hlutar.

Í herbergi inn af sýningunni er að finna litla bók sem ber sama heiti og sýningin, hún er gefin út í Belgíu og skrifuð á ensku. Líkt og myndverk Jóhönnu er textinn ein, samfelld heild sem flæðir fram frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. Hugleiðingar um stað og stund, tengsl milli manneskja, hluta og umhverfis. Þessi texti nær að opna frekar upp myndheim hennar og undirstrika tengingu verkanna við daglegt líf, tilfinningar og umhverfi.

Sýning Jóhönnu er fjölbreytt og hugvitssamlega samansett. Verk hennar vekja forvitni án þess að svara spurningum, þau leiða áhorfandann inn á óþekkt svæði þar sem vegvísarnir eru á framandi tungumáli en sýningin í heild er áfangastaður. Myndverk og textar lifa samhliða lífi án þess að tengjast beint, en textarnir skapa ákveðin hugrenningatengsl sem gæða myndverkin lífi og í heildina er sýningin eftirminnileg og vekur forvitni.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: Hafnarborg

UA-76827897-1