Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

13.07. 2018

Fyrir þá sem ekki þekkja til er Manifesta evrópski ferða-tvíæringurinn sem haldinn er í nýrri evrópskri borg annað hvert ár. Í ár opnaði hann laugardaginn 16. júní undir heitinu ‘A Planetary Garden: Cultivating Coexistence’ (‘Plánetugarðurinn: Ræktun Sambúðar’) á mörkum Evrópu, Afríku og Miðausturlanda á eyjunni Sikiley í Miðjarðarhafi. Staðsetningin var álitin hvorki meira né minna en sjálf miðja jarðar í þeirri heimsmynd sem ríkti þegar hafið hlaut nafn og saga og lýðfræði eyjunnar markast mjög af miðjusetningunni.

Borgarstjóri Palermo, Leoluca Orlando, kallar borgina ‘borg farandsfólks’ og staðsetur borgarpólitíkina í kjarna átakanna á Ítalíu, og Evrópu í víðara samhengi, um flóttamannabátana sem leita um þessar mundir vinveittra hafnaborga. Á meðan að Ítalía sjálf hefur lokað á báta arkar Orlando niður að höfn og heilsar fólki á flandri með handabandi. Þetta minnir á gamla tíma í Reykjavíkurhöfn þegar farþegabátum var fagnað eins og þjóðhátíð væri. “Hér í Palermo – og þetta er óbreytanleg ákvörðun okkar – eru engir innflytjendur. Þeir sem koma til borgarinnar verða Palermobúar. Yfirlýsingin ‘Ég er manneskja’ er hluti af stjórnarskrá Palermoborgar og krefst viðurkenningar á rétti fólks til alþjóðlegs hreyfanleika sem grundvallarmannréttindi’, segir Orlando í texta sýningarskrárinnar. Við hefðum átt að setja svipaða málsgrein í okkar reykvísku stjórnarskrá á meðan tækifæri gafst og bátakomur vöktu fögnuð.

Titill sýningarinnar er fenginn úr smiðju franska landslagsarkitektsins Gilles Clément sem notaði hugtakið plánetugarðurinn til að lýsa mannkyni sem garðyrkjumönnum jarðarinnar. Hugtak Clément er innblásið af þekktu 19. aldar málverki sikileyska málarans Francesco Lojacono sem sýnir grasagarð borgarinnar þar sem allar tegundirnar eru aðfluttar og þykir verkið og garðurinn vera myndlíking fyrir lýðfræði og sögu borgarinnar. Þessi saga einkennist af reki fólks og plantna með bátum hvaðanæva að og þar sem Palermo hefur haft það hlutverk að vera festi fyrir fólk og plöntur á reki. Það var einmitt mikill áhugi blaðamanns á garðyrkju og reki og festu fólks og plantna að hún dróst að Manifesta í ár. Áhuginn vaknaði við að hafa unnið að vinningstillögu samkeppni Faxaflóahafna um útilistaverk við miðbæjarhöfnina – villigarði á mörkum sjávar og lands, festi fyrir reka á beinan en einnig táknrænan hátt. ‘Garden of Flows’ (‘Flæðisgarðurinn’) er eitt af þrem þemum tvíæringsins í ár.

Annað þema er ‘Out of Control Room’ (‘Stjórnlausa Rýmið’) sem vísar í staðsetningu eyjarinnar og þátttöku í þeim landfræðilegu og pólítísku breytingartímum sem við lifum í dag. Þriðja þemað er ‘City on Stage’ (‘Borg sem Svið’) og byggir á forrannsókn sem hátíðarstýran Hedwig Fijen pantaði af hollenska arkitektafyrirtækinu ‘Office for Metropolitan Architecture (OMA)’ (‘Skrifstofa Stórborgar Arkitektúrs’) á menningarlegum, félagslegum, landfræðilegum og pólitísku flækjustigi borgarinnar og sem skapar ramma tvíæringsins. Sýningarstjórarnir fjórir tóku sér þessa rannsókn sem upphafspunkt en einn þeirra er einmitt sikileyski arkitektinn Ippolito Pestellini Laparelli sem búsettur er í Rotterdam og er meðeigandi í OMA arkitektafyrirtækinu. Metnaðarfullt markmið Orlando borgarstjóra andar þarna sterkt inn en það takmarkast ekki við að setja á svið nokkra mánuði af listviðburðum heldur lítur hann á tvíæringinn sem tæki til að breyta borginni sjálfri og þróa með menninguna að vopni. Þó falleg sé og sjarmerandi er borgin augljóslega að mörgu leiti í niðurníðslu.


What Is Above Is What Is Below. ‘Cooking Sections’ í Giardino dei Giusti garðinum. ‘Garden of Flows’ hluti tvíæringsins.

Áður en farið er nánar út í það er vert að fjalla aðeins um aðaláhugamál blaðamanns, garðyrkjuhlutann. Með þá reynslu í farteskinu að hafa búið um hríð í Norður-Afríku varð blaðamanni það ljóst frá fyrstu mínútu að kerfisbundið áhorf og skipulögð rýni væri ekki möguleg í Palermo heldur væri málið að fylgja flæðinu og sjá hvað kæmi í fangið. Þetta reyndist mjög árangursrík aðferð og í takt við flæðisgarðinn sem líkt og plöntur og menn jarðar og reyndar tvíæringurinn sjálfur flæddi yfir borgina á mjög lýðræðislegan hátt með enga sérstaka aðalsýningu á einum stað. Fyrir þá sem þekkja ekki til er eitt aðalvandamál Sikileyjar þurrkur sem er afleiðing þess að undir lok 30 ára stríðsins í Þýskalandi 17. aldar þá var fólki gefið leyfi til að leggja undir sig aukið landsvæði til ræktunar og búsetu til þess að fjármagna stríðsreksturinn.

Límónutré ‘performerar’ í verkinu What Is Above IS What Is Below úr ‘Garden of Flows’ hluta tvíæringsins.

Eitt af þessum landsvæðum var Sikiley og skóglendi var rutt til að koma fyrir kornökrum. Þetta, og síðari tíma þróun, olli því að rakinn sem trjáræturnar héldu í jörðu hefur horfið mikið til. Það var því áhugavert að skoða innsetningar og gjörningaverk lúndunarbúanna Alon Schwabe og Daniel Fernández Pascual ‘Cooking Sections’ (‘Eldunar Hlutar’) en það fólst í tilraun til að rækta tvö límónutré í garðinum á Chiesa di S. Maria dello Spasimo höllinni án þess að vökva þau með því að festa raka í terra cotta múrsteinum sem umluktu tréin og vökvuðu þau með nærveru sinni. Önnur tilraun í Giardiono dei Giusti garðinum var að festa raka í fiskinetum sem umluktu hávaxinn tré sem þar voru fyrir. Tvíæringurinn er stútfullur af fleiri áhugaverðum verkum sem rýna í, bregðast við eða kallast á við staðbundinn og oft á tíðum um leið hnattrænan veruleika.

Af þáttöku Íslendinga var það helst að frétta að menningarfrömuðurinn Sara Löwe Daðadóttir tók þátt í 5 x 5 hliðardagskránni en 5 galleríum í Evrópu sem starfa á jaðri þess að vera verkafnamiðuð frekar en hrein sölugallerí var boðið að taka þátt í dagskrá sem stóð yfir á foropnunardögum og opnunarhelgi hátíðarinnar. Þátttaka Söru var hluti af dagskrá berlínska gallerísins Exile á Balero markaðnum og fólst í útgáfu ‘Utopian Union’ (‘Útópíu Samtökin’) á ‘Year one (1)’ (‘Ár eitt (1)’) heimildarbókinni. Íslendingar þekkja vel ‘Utopian Union’ sem m.a. tók þátt í Cycle listahátíðinni í Kópavogi á síðasta ári með hlutverkaleik. Útgáfan var í nafni Reflektor M, netvettvangs fyrir samtímalist sem staðsettur er í Munich og er undir stjórn María Inés Plaza Lazo sem einnig er annar stjórnanda Exile gallerís.

5 x5 var ný hliðardagskrá á Manifesta í ár. Fimm galleríum var boðið að koma til Palermo og vera í samtali við fagfólk úr lista- og menningarheimi borgarinnar með því að setja um ‘pop-up’ sýningar. Galleríin voru aðallega frá Ítalíu en einnig var Annet Gelink í Hollandi og Exile í Berlín boðið að taka þátt. Exile valdi að vera með ‘sumarbúðir’ á Balero markaði borgarinnar á foropnunardögum og opnunarhelgi tvíæringsins. Hér sérst Sara Löve Daðadóttir undirbúa bókaútgáfu ‘Utopian Union’ og ‘Reflektor M’ á Balero markaðnum.

Í bókinni er farið yfir atburði sem ‘Utopian Union’ hefur haldið á Feneyjartvíæringnum í tengslum við þýska sýningarskálann; stórfund listamanna, Rojava búa og fleiri í Berlín á síðasta ári; vinnustofu í Kaupmannahöfn; hlutverkjaleiki á vegum UU; og margt fleira. Annað verkefni sem Sara tekur þátt í sem skipuleggjandi var einnig á markaðnum á vegum Exile en það var verk pólsku listakonunnar Kinga Kielczynska sem fjallar um afdrif síðustu leifa hins upprunalega Evrópuskóglendis, Bialowieza skógarins, sitthvoru megin við landamæri Póllands og Hvíta Rússlands. Kinga var með staðbundna innsetningu samansettri af gróðurafskurði úr grasagarði borgarinnar troðnum inn í bíl en einnig af teikningum annars staðar á markaðnum sem kölluðust á við nýlega sýningu hennar í Exile.

Verk pólsku listakonunnar Kinga Kielczynska á vegum Exile gallerí á Balero markaðnum.

Viðamesta verkefnið tengt Íslandi á tvíæringnum er án efa verkefni íslensk/svissneska listamannsins Christoph Büchel sem haldið er samsíða tvíæringnum. Þátttaka hans er viljandi gerð mjög óræð en hvergi er minnst á nafn hans í sýningarskránni eða á korti hátíðarinnar. Orðrómur um þátttöku ásamt nafni hans á taupoka hátíðarinnar er eina sem gefur til kynna að verk hans sé einhvers staðar á eyjunni. Það var fyrir tilviljun að fyrsta manneskja sem blaðamaður rakst á eftir að hafa stigið út úr rútunni frá Catania flugvelli var Nína Magnúsdóttir sýningarstjóri og skipuleggjandi með meiru. Hún var stödd á dæmigerðu Palermortorgi ásamt Úu dóttur sinni að safna stuðningsundirskriftum fyrir verkefnið ‘Barca Nostra’ (‘Skipið Okkar’). Verkefnið snýst um að flytja skipsflak frá Palermo til Brussel til heiðurs frelsis mannkyns til hreyfanleika og reisa úr skipinu ‘Minnismerki um Evrópusambandið’.

Skipið sjálft fórst með þúsund flóttafólk innbyrðis árið 2015 og verkefnið er kynnt sem frumkvæði fólks á flandri og hvergi er minnst á nafn forsprakkans sjálfs Christoph Büchel. Undirskriftarborðið er látlaust og ekki merkt á Manifesta kortið og söfnunin lítur ekki út fyrir að hafa neitt með tvíæringinn að gera. Ruglaðar raddir á foropnunardögunum hvísluðu sín á milli “Hvar er verkið hans Christophs?“ Að rugla í fólki á þennan hátt virtist vera hluti af verkinu og gengið var ennþá lengra með skipulagðri heilsdagsferð ‘Dream in Progress’ (‘Draumur í Framförum’) á ‘Manifesto Gibellina Nuova‘ upp í fjöllum Sikileyjar. Prentaður bæklingur sem fylgdi var alveg laus við nafn Christophs og fáir voru tilbúnir að treysta því að ferðin, sem leit út fyrir að vera túristaferð svipaðri kanarískri grísaveisluferð, væri verkið.

Miði í ferðina Manifesto Gibellina Nuova upp í fjöll Sikileyjar.

Blaðamaður artzine ákvað að fara að ráðleggingum Nínu og fara í ferðina, sleppa hræðslunni við að missa af að sjá lykilverk í Palermo, treysta á flæðið og skella sér út í óvissuna. Eftir að hafa misst af moskunni í Feneyjum var ekki málið að missa af uppátækjum Christophs á Manifesto í Trapani héraði í Sikileyjarfjöllum.

Ferðafélagar í ‘Dream in Progress’ ferðinni klóra sér í hausnum í rústum bæjarins sem lagðist í eyði í jarðskjálftunum 1968. Fyrir miðju er leiðsögumaður úr héraði. 

Eins og Manifesta þá deildi Manifesto sér niður í þrjú meginþema: ‘Archaeology of the future – collateral damage’ (‘Fornleifafræði framtíðarinnar – tryggt tjón’) sem rannsakar hið ókláraða og í rústum í hnattrænu flæði samtímans með því að heimsækja rústir bæja sem orðið höfðu illa úti í jarðskjálfta árið 1968 en einnig veigamikið landslistaverk ítalska listamannsins Burri sem gleypt hefur rústir eins þorpsins undir nafninu ‘Cretto’.

Ferðafélagar djúpt í iðrum Cretto landlistaverks Burri sem staðsett er yfir þeim stað sem bærinn Gibellina var áður. Fremst á myndinni er Nína Magnúsdóttir sýningarstjóri að ræða við ferðafélaga.

Form og línur Cretto kallast ekki einungis á við sprungumálverkin sem listamaðurinn er þekktur fyrir heldur einnig ‘arkitektúr’ í landslagi landbúnaðahéraðsins í kring.

Sýn hins mikla listamanns er fyrirferðarmikil og verkið var sett upp á sínum tíma í óþökk syrgjandi þorpsbúanna sem töpuðu þarna áttum í gamla heimabænum sem steypt hafði verið yfir. Annað þema var ‘Concrete Utopia’ (‘Steypt Útópía) og einblíndi á samband lista og arkitektúrs og samtal þessa greina við bæinn Gibellina Nuova, samfélög innan þess, hefðir og almenningsrými. Gibellina Nuevo er bær sem byggður var til að hýsa íbúanna 2000 sem lifðu af jarðskjálftanna í bænum sem landslagsverk Burri hefur gleypt. Hin nýja Gibellina er byggð með framtíðina í huga eða margfalt stærri íbúafjölda og var á 9. áratugnum fyllt af tugum risastórra vanræktra útilistaverka og ókláraðra stórmenningarbygginga undir stjórn stórmennis bæjarins sem hafði þá framtíðarsýn að byggja stórbæ á grundvelli listar og arkitektúrs. Í dag er mjög eyðilegt um að litast á tómum torgunum og í kringum verkin sem mörg hver eru börn síns tíma. Enginn veit hver borgaði fyrir þetta allt saman.

Ókláruð risastór glæsibyggingin sem átti að vera leikhús bæjarins minnir helst á martröð um ofvaxið bílastæðahús í Reykjavík. Þriðja þema Manifesto er ‘Uncultivated garden of coexistence – the third landscape’ (‘Óræktaði garður sambúðar – þriðja landslagið’) og kjarnast um heimsókn í grasagarð Gibellina Nuova, risastórt moldarflæmi sem kallast á við óhirt listaverkin og ókláruðu byggingarnar í bænum en einnig við titil og um leið langtíma ásetning Manifesta tvíæringsins sjálfs.

Arkitekt OMA tekur hér mynd af ókláraðri leikhúsbyggingu Gibellina Nuova.

I Feneyjum tókst Christoph að ganga inn í kjarna goðsögunnar um hið frjálslynda verslunarsamfélag og um leið ganrýna afstöðu samtímalistasenunnar. Það varð ekki bara allt vitlaust á borgarskrifstofum Feneyjaborgar heldur lokuðu líka áhrifamiklir listamenn, hér heima og alþjóðlega, á umræðu í kringum verkið. Christoph hafði hitt á marga viðkvæma punkta en hafði ekki gerst sekur um framandgeringu né að skreyta sig með menningu annarra á óviðeigandi hátt. Hann var í góðu og miklu samstarfi við íslamska samfélagið á Íslandi og í Feneyjum og það skilaði sér í umræðu á þeim vettvangi, sem og á fræði- og pólitískum vettvangi á alþjóðavísu, varðandi vaxandi íslamafóbíu og fleira, þó aðilar í samtímaheiminum sem ekki vildu rugga bátnum hefðu þagnað eða reynt að þagga niður. Verk í íslenska skálanum hefur sjaldan haft jafn mikið vægi alþjóðlega eða sett íslenska myndlistarsenu jafn rækilega á kortið.

Á Manifesto vinnur Christoph aftur í beinu samstarfi við ákveðinn samfélagshóp sem hefur verið jaðarsettur og vanræktur. Í þessu tilfelli eru það íbúar í Trapani landbúnaðarhéraðinu á Sikiley. Að vera íbúar í gleymdu héraði eða svæði er reynsla sem íbúar margra héraða Evrópu eiga sameiginlegt og því hefur samstarfið víðtækari vísun. Á Sikiley stofnar Christoph til kjarnyrts samtals og leggur fram gagnrýna spurningu við yfirlýst markmið Manifesta í Palermo og borgaða þátttöku hollenska arkitektafyrirtækisins OMA til að stunda rannsóknir á veruleika Palermo. Falið undir fallegum ásetningi í texta sýningaskrárinnar er sú staðreynd að rannsóknin gefur OMA mikilvægt forskot þegar útboð hefjast í þeirri langtíma framfarauppbyggingu sem Orlando borgarstjóra sér sem framtíð borgarinnar.

Með því að sýna bæinn Gibellina í nýrri og eldri gerð undir upprunalegri ferðamannaleiðsögn fólks á staðnum tekst Christoph að leggja fram metarýni á fyrirbærið tvíæringa í sjálfu sér og sérstaklega Manifesta í Palermo en engin fordæmi eru fyrir slíkri forrannsókn arkitektafyrirtækis. Í ljósi þess að Hedwig Fijen hefur lýst yfir að slík forrannsókn arkitektafyrirtækis sé framtíð Manifesta fær verk Christops aukna vigt. Það verður hrifnæmum nauðsynlegt til að halda sér á jörðinni nálægt því sem er.


Ferðafélagar á torgi fyrir framan borgarskrifstofur Gibbelina Nuova. Á myndinni sást brot af stórum og vanræktum útilistaverkum bæjarins og einnig aðkeyptum arkitektúr.

Þegar Manifesta var næstum því haldin á Íslandi

Manifesta sem ferða-tvíæringur getur sannarlega virkað sem tæki til að flýta fyrir heldrunarferli í höndum réttra aðila hvort sem þeir gera það af góðum ásetningi eða til þess að hagnast eða eru ómeðvitaðir um hver kostnaðurinn er. Í þessu samhengi er gott að rifja upp hvernig Manifesta varð næstum því haldið á Íslandi undir lok síðasta áratugar. Um miðjan áratuginn var þýska sýningarstjóranum Christian Schöen falið það verkefnið að stofna íslenska kynningarmiðstöð myndlistar og koma myndlistarmálum í faglegan jarðveg. Um svipað leiti árið 2005 var haldin Listahátíð í Reykjavík sem beindi sjónum að íslenskri myndlist á hátt sem ekki hafði þekkst áður.

Mikilvægt fólk úr miðju listheimsins flyktist til landsins og var flogið á milli myndlistarsýninga Listahátíðar í öllum landshlutum. Þetta var hátíðin sem kom íslenskri myndlist á kortið. Christoph Büchel var hluti af þessari bylgju sem myndaðist í kjölfarið og sem listamannavinnurýmið Klink og Bank var miðlægt í. Nína Magnúsdóttir var einmitt stjórnandi Klink og Bank á þessum tíma og lykilmanneskja í tengslanetamyndun í kringum það.

Christian var mjög metnaðarfullur fyrir hönd íslenskrar myndlistar og vildi nýta þetta tækifæri sem athyglin á Listahátið 2005 var. Hann notaði tengsl sín við stjórnanda Berliner Liste listamessunnar til að Klink og Bank yrði boðin þátttaka þar og vann einnig nótt og dag við að sannfæra áhrifafólk í íslenskum nefndum um að það væri málið að styrkja íslenska listamenn eins og Egil Sæbjörnsson til vinnustofudvalar í Künstlerhaus Bethanien í Berlín. Christin fylgdi svo athyglinni eftir með því að bjóða hópi af Manifesta sýningarstjórum til Íslands með það í huga að undirbúa jarðveginn fyrir það að Manifesta yrði haldin fljótlega á Íslandi.

Hedwig Fijen var mjög hrifin af þeirri hugmynd og lagði sérstaka áherslu á að sýningarstjórarnir færu til Íslands til að velja íslenska listamenn til þáttöku á Manifesta. Það varð úr að listamennirnir Margrét Blöndal, Ragnar Kjartansson og Ólafur Ólafsson/Libia Castro tóku þátt árið 2008. Íslenska ríkið tók líka vel í hugmyndina og samningur um að hýsa Manifesta lá á borði Mennta- og menningarmálaráðherra til undirskriftar þegar Lehmann bræður urðu gjaldþrota. Þegar Ísland varð síðan nær gjaldþrota í kjölfarið stóð valið á milli þess að heiðra tvo samninga sem lágu á borðinu og heiðursþátttaka Íslands í bókamessunni í Frankfurt varð ofan á.

Eftir langt ferli og uppbyggingu til að koma þessum mikilvæga atburði til Íslands þá voru þetta að sjálfsögðu mikil vonbrigði. Reykjavíkurborg og íslenska ríkið höfðu vissulega ekki sömu sýn á myndlistarviðburð sem eitthvað sem hægt væri að byggja á eins og Orlando borgarstjóri Palermo gerir í dag eða stórhugar 9. áratugarins gerðu í Gibellina Nuova. Heldrunarferli er flókið og marglaga fyrirbæri sem eins og nýlenduferlið kjarnast um að einn þjóðfélagshópur tekur yfir rými annars og því fylgir umbreyting á fagurfræði og ásýnd og margt fleira. Ákveðnir hópar hagnast og hagur þeirra vænkast á meðan aðrir hópar eru jaðarsettir.

Myndlistarheimurinn er ekki laus við að vera staðsettur í þessari hringrás og hafa ákveðið hlutverk. Oft bætist hagur myndlistarsenu í upphafi slíks ferils, húsnæði býðst til dæmis á góðum stað á góðu verði, en á síðari stigum kemur oft annar hópur og tekur yfir og myndlistarsenunni er ýtt út á jaðarinn. Þetta er ákveðinn mekanismi sem hefur sinn ryðma, sín tannhjól, sem þarf að gefa gaum í umhverfi sem gefur sig út fyrir að vera gagnrýnið. ‘Follow the money’, hvíslar Nína að mér og horfir kíminn á einn þátttakanda í Draumaframfaraferðinni, arkitekt frá OMA sem virðist ekki gera sér neina grein fyrir gagnrýnu viðhorfi verksins til hans eigins fyrirætlanna og sjónarmiða. Blaðamaður er á báðum áttum. Vissulega yrði það stórkostlegt tækifæri fyrir íslenska myndlistarsenu að fá Manifesta til Íslands en ljóst er að mikilvægt er að vera meðvitaður um hver séu helstu tannhjólin og hverju sé verið að fórna og hverjir séu að hagnast þegar rætt er um samspil heldrunarferils, fasteigna- og borgarþróunar og myndlistar- og menningaratburða.

Hulda Rós Guðnadóttir

 


Ljósmyndirnar í greininni eru birtar með leyfi Huldu Rósar Guðnadóttur, mynd af miða er birt með leyfi Fondazione Manifesto

Hlekkir sem tengjast efni greinarinnar:

http://m12.manifesta.org

www.cooking-sections.com

www.fondazionemanifesto.org

http://oma.eu/

http://exilegallery.org/

http://www.utopianunion.org/

http://www.kingakielczynska.com/

https://barcanostra.eu/

Grein í New York Times: Italy’s New Populist Government Turns Away Ship With 600 Migrants Aboard

UA-76827897-1