Svif, tóm, hreyfing, mýkt

Svif, tóm, hreyfing, mýkt

Svif, tóm, hreyfing, mýkt

Í Hverfisgalleríi stendur yfir sýning Hrafnkels Sigurðssonar, Upplausn, unnin upp úr ljósmynd af himingeimnum. Hrafnkell er þekktur fyrir einstök ljósmyndaverk sín, myndraðir þar sem hann varpar nýju og persónulegu ljósi á ólíkustu viðfangsefni. Tjöld á hálendinu, vinnuklæðnaður sjómanna, skaflar og ruðningur, sorp og plast og svo mætti áfram telja, öðlast nýtt líf á myndum hans, birtist jafnvel í nær óþekkjanlegri mynd sem varpar ljósi jafnt á eðli þess sem myndað er, á stærra samhengi hlutanna, en ekki síst á persónulega sýn listamannsins. Það sama er óhætt að segja um myndirnar á sýningunni Upplausn, en hér rennur saman hið smæsta og hið stærsta, sem og hugur listamanns og ímyndunarafl áhorfandans. Þessar vikurnar á Hrafnkell síðan einnig verk á sýningunni Ýmissa kvikinda líki, Íslensk grafík sem stendur yfir á Listasafni Íslands fram í september, og ljósmyndaverk í glugga að Laugavegi 41, sem er hluti af Listahátíð 2018. artzine hitti Hrafnkel í spjalli um sýninguna og þessi verk, en saman mynda þau eins konar þríhyrning í borgarlandslaginu.

Eins langt og ég kemst

„Ég vissi aldrei hvernig þetta myndi enda,“ segir Hrafnkell um hugmyndirnar að baki sýningarinnar Upplausn. „Þetta þróaðist smátt og smátt út frá mjög óljósri hugmynd. Var í langan tíma að gerjast, út frá hugmyndum um eitthvað eins og „noise“, eða pixil, mónókróma svarta mynd með einhverju „noise“, sem myndi líka innihalda óendanleika, tóm.
Ég fór af stað og gerði mynd sem var bara einn pixill, svartur ferningur, og var bara nokkuð sáttur með það verk. Síðan fór ég að vinna meira og meira í áferðinni. Hvað gerist ef ég stækka pixilinn enn meira upp? Fer inn í pixilinn, hvað gerist ef ég held áfram, hvað gerist ef ég fer bara eins langt og ég kemst, hvað er innst inni í pixlinum?
Fyrst ætlaði ég mér að taka pixil úr himninum, þar er ekkert, bara tóm, en ákvað svo að nota Hubble-sjónauka myndina af öllum vetrarbrautunum. Þar tóku þeir mynd af svörtum bletti á milli stjarnanna, þar sem þeir héldu að ekki væri neitt, en þegar þeir stækkuðu hana upp komu í ljós þúsundir vetrarbrauta. Ég beindi athyglinni að svörtum bletti á milli vetrarbrautanna og stækkaði hann upp, ég notaði sömu aðferð og vísindamennirnir nota til þess að fara út í geiminn, það er leikurinn, þannig séð. Svo hélt ég bara áfram.“

Ragna: Hvernig gerir þú þetta, tæknilega séð?

„Þetta er gert í myndvinnsluforriti, þetta er leikur að forritinu, ég stækka upp aftur og aftur og leita að einhverju sem ég get sett í form, eða unnið með áfram. Ég nota áhald sem kallað er töfrasproti, ég sveifla töfrasprotanum inn í myrkrið og þá birtast einhverjar línur og þá er ég byrjaður að vinna með eitthvað óvænt. Byrjaður að veiða eitthvað úr tóminu, form og línur. Þannig spinn ég þetta áfram. Ég hamast í tökkum og fikta þar til eitthvað óvænt gerist. Það þýddi aldrei fyrir mig að reyna að sjá fyrir mér aðferð eða mynd. Það sem rak mig áfram var að finna eitthvað spennandi og furðulegt. Það var kannski margra vikna vinna að leita að einhverju og síðan tók við annað eins við að koma því í form. Ég gat aldrei gert meira en eitt verk í einu. Þegar ég fór að gera annað verk þurfti ég að bakka og fara síðan í aðra átt og reyna að finna aðra möguleika. Inntak myndanna er leit.
Sumar þeirra eru flatar, ein er til dæmis svolítið eins og teppi, en mig langaði líka að gera þær þrívíðar og ég reyndi það. Stundum var ég algjörlega týndur og gat ekki haldið áfram, hver mynd tekur mörgum umbreytingum. Ég nota töfrasprotann og renni til hue-sleðanum, ég bætti aldrei litum við mynd, heldur vann ég heildrænt með þá liti sem birtust.
Í upphafi vissi ég ekkert hvernig ég ætlaði að hafa framsetninguna. En þegar á leið sá ég að myndirnar þurftu að vera stórar til að geta tekið á móti manni, til að skapa rými sem maður getur dottið inn í.“

Sýning sem snýst um áhorfandann

„Frá upphafi vildi ég tengja myndirnar inn í okkar rými, ég vissi ekki hvernig. Ég hugsaði um svif, tóm, hreyfingu, mýkt sem skapar eins og skugga, spor, tengingu milli veruleika. Ég vildi teikna upp þetta rafræna inn í okkar veruleika. Hér skapast líka svona hringhreyfing, – þetta er í raun sýning sem snýst um áhorfandann
Ein þessara mynda fékk mig líka til þess að líða eins og ég væri kominn inn í æskuminningu, út í móa, mér fannst ég ferðast eins langt og ég komst og aftur til baka. Ég fór inn í eigin hugarheim, mætti sjálfum mér. Þetta rennur allt saman í eitt, óendanleikinn, maður sjálfur og rafheimurinn, skáldskapurinn í lífinu.
Mér fannst mjög áhugavert að fara í þetta ferðalag sem er frekar vélrænt og vísindalegt, þessi ferð inn í pixilinn, og áfram og áfram. Ég setti mér það að fara eins langt og ég gæti, fara alla leið. Það var uppgötvun að upplifa þessa tengingu, að trúa því að maður sé á ferðalagi, en finna hvernig skilin milli ímyndunaraflsins og veruleikans runnu saman, það var stórt augnablik fyrir mig.“

Ragna: Síðan er þessi bjarta mynd, fimmta myndin. Hún er svolítið öðruvísi.

„Þetta er síðasta verkið, þarna er ég kominn að upphafinu, að mikla hvelli. Hinar unnust allar í átt að því að vera dökkar, ég hafði enga stjórn á því. En ég vildi hafa þessa ljósa. Í tölvunni er einfalt að velja svarta litinn og ýta á einn takka, „delete“. Slökkva á myrkrinu. Þegar ég var að gera þetta, var ég að lesa bók sem heitir Alheimur úr engu, og þar segir frá ljóshveli, – í upphafi var miklihvellur og síðan liðu þrjú hundruð þúsund ár, þá varð efnið til og ljósið. Þarna er talað um ljóshvel, eins konar rafgasvegg. Og þá hugsaði ég já, þetta er rökrétt. Ég er búinn að ferðast alla þessa leið og nú er ég kominn að rafgasveggnum. Og þar fer ekkert í gegn, samkvæmt þessu.
Í þessari síðustu mynd, þegar ég var búinn að stara inn í pixlana tímunum saman, kom óvænt augnablik þegar ég sá auga. Lifandi auga sem starði á mig. Ég hrökk við. Og ég var mjög ánægður með þetta, að ég skyldi ná að sjokkera sjálfan mig á þennan hátt. Mér fannst þetta vera til merkis um að það væri eitthvað í þessari mynd, eitthvað sem ég var að leita að. Eitthvað rétt. Og svo var annað – þetta var síðasta verkið sem ég var að klára, – ég sá augað, hrökk við, og hugsaði með mér að ég ætlaði ekkert að vinna meira í þessu heldur sjá til næsta morgun. Síðan þegar ég ætlaði að halda áfram með myndina daginn eftir eins og ég var vanur, var eins og eitthvað stöðvaði mig, hendurnar frusu fyrir ofan lyklaborðið. Það fannst mér annað merki um að myndin væri bara tilbúin. Þessi mynd kom sjálfum mér á óvart. Sú staðreynd að þetta gerðist í ferlinu, sannfærði mig um að sýna hana.
Þessi mynd snýst um að fara inn í sköpunina og nálgast upphafið, tengja við eigin sköpun, skynja sjálfan sig sem hluta af sköpuninni og gera sér grein fyrir að við erum bara framhald af þessari sprengju í upphafi alls.“

Ragna: Nú vinnur þú venjulega í seríum og viðfangsefnin eru ýmiss konar. Er einhver rauður þráður sem tengir á milli – eitthvað sem einkennir sköpunarferlið?

„Það sem er sameiginlegt með þessum og fleiri verkum er þessi óljósa tilfinning sem er upphafið. Þetta er aldrei hrein og klár hugmynd heldur koma margar hugmyndir saman yfir langt tímabil. Stundum er ég löngu búinn að gera verkin þegar þegar ég finn kannski tíu ára gamla skissu og átta mig á að ég hef pælt í hugmyndinni lengi án þess að gera mér grein fyrir því. Ég reyni að leyfa innsæinu að lifa. Þessi verk minna mig líka á verk sem ég gerði í kringum 1990, sem voru myndir af landslagi, unnar með samsetningu á pixlum. Þannig að þetta er kannski að einhverju leyti afturhvarf til upphafsins. En í rauninni langar mig alltaf að gera eitthvað sem er gjörólíkt, langar að koma sjálfum mér á óvart.“

Ragna: Finnst þér vera tilhneiging hjá þér til að nota andstæður í verkum þínum, – hér eru fjórar dökkar myndir og síðan ein ljós, og þú minntist á altaristöflurnar sem þú gerðir með myndum af himni og sorpi, sem fela þannig í sér andstæður?

„Nei, í raun og veru ekki. Hér gerðist þetta svona og mér fannst það algjörlega passa. Ef ferðalagið heldur áfram, lengra og lengra, í átt að upphafinu, þá endar þú í ljósi, sem er fyrsta ljósið. Það gerist bara. Þá komum við aftur að því að setja eigin langanir eða hugmyndir í samband við vísindalegar uppgötvanir. Þetta er ekki rannsókn, frekar rannsóknarefni. Þetta er ferðalag, leikur, sköpun.“

Ragna: Hvernig myndirðu vilja að fólk sæi þessar myndir?

„Ég vona bara að fólk geti einhvern veginn skynjað vitundina í gegnum þær. Vitundin er alls staðar. Þetta eru vitundarverk.“

Ragna: Nú ertu á sama tíma og þessi sýning stendur yfir hér í Hverfisgalleríi, með verk á samsýningu á Listasafni Íslands, og síðan verk í tengslum við Listahátíð uppi á Laugavegi 41. Geturðu sagt eitthvað frá þessum verkum? Hvað með verkið á Listasafni Íslands?

„Það er mjög gömul aðferð að prenta með höndunum. Ég byrjaði á þessu 2007, þegar ég sýndi grafík í Suðsuðvestur Gallerí í Reykjanesbæ, það voru fingraför á pappír. Þegar verið var að setja upp grafíksýninguna á Listasafninu spurðu þau hvort ég vildi gera verk á vegg á staðnum. Einhvern veginn lá þá beint við að setja þetta á hurðirnar. Ég hafði áður gert verk fingraför á vegg sem litu út eins og tvöföld hurð. Þau voru gerð með báðum höndum og tengjast þannig líkamanum. Verkin voru eins og hlerar sem opnast. Þannig að mér fannst tilvalið að setja þau hér beint á gler, þar sem tvöfaldar hurðir opnast. Síðan eru fingraförin hvít, það er ekki lengur tilfinning fyrir einhvers konar gruggi. Þau umbreytast í eitthvað tærara eins og snjó eða fjaðrir, það er bjartara yfir þeim svona. Samt koma þau frá líkamanum. EIns og ljós sem líkaminn lýsir frá sér og varpar á þessar dyr sem gengið er í gegnum.

Í þessum verkum er þetta sambland af því að nota einfalda, tæknilausa aðferð, sleppa myndavélinni, sleppa prentinu og prenta beint með likamanum, en samt er aðferðin vélræn.
Þegar maður stendur fyrir framan þetta verk og horfir í gegnum hurðirnar, þá skapast ákveðin þysjunaráhrif, sem koma líka fram í þessu verki sem við sjáum hér í galleríinu, þessu bjarta verki. Þar er ákveðin tenging.“

Ragna: Á Laugavegi 41 er síðan verk sem er hluti af Listahátíð. Þar eru ljósmyndir sem áhorfandinn sér í gegnum gluggana.

„Þegar mér var boðið að taka þátt í því verkefni sendi ég inn tillögu þar sem ég sagði frá hugmyndunum hér í Hverfisgalleríi og sá fyrir mér að geta gert eitthvað í framhaldi af því. Síðan fæddist svona hliðarverk, ég ákvað að nota sömu aðferð, stækka pixilinn, nema ég fór inn í íslenskt landslag. Ég hugsaði með mér, hvað gerist? Í þeirri barnslegu trú að ef ég geti stækkað upp pixil á ljósmynd, þá leynist eitthvað þar.

Eitthvað við þessa vinnuaðferð minnir á ósjálfráða skrift, ég hamast í tölvutökkunum, ég get ekki einbeitt mér of mikið og finnst eiginlega best ef einhver er að trufla mig á meðan. Þarna mynduðust síðan form sem voru eins og verur. Einhvers konar ljósverur. Mér fannst þetta mjög athyglisvert. Mér fannst líka eitthvað magnað við þetta, ég var búinn að vera þarna úti í geimnum og þær hafa annað hvort fylgt mér til baka – nú tek ég fram að ég er enginn áhugamaður um geimverur – eða þetta eru einhvers konar náttúruandar, að minnsta kosti koma þær innan úr pixlum sem teknir eru úr landslaginu. Það forvitnilega er að verurnar líkjast mjög mikið þessum verum sem Kjarval málaði, þetta eru eins og línur, segulsvið.
Þær birtust bara og þær ráða ferðinni. Nú eru þær komnar þarna út í glugga og þær ætla sér eitthvað. Ef maður tekur myndband af þeim á símann og horfir síðan á það, þá gerist eitthvað. Það kom á óvart. Það er eitthvað að gerast, það er einhver orka í þeim.

Það kom sjálfum mér mjög á óvart að ég skyldi gera þessi verk. Ég stóð bara svolítið til hliðar og sagði, ókei, komið þá bara. Það fannst mér skemmtilegt. Ég kalla þær Kyrrverur, Still Beings. Þessar verur eru í flötum veruleika, sem er raunveruleiki innan eðlisfræðinnar. Eins og þær séu í annarri vídd. Þær koma úr annarri vídd en vísa til sögu álfa og náttúruvætta. Minna líka á útlínur teikninga Erlu Stefánsdóttur. En ég er sjálfur hissa á því að þær skuli koma í gegnum þetta hjá mér. Mér líður eins og ég opni gátt, með þessari aðferð, með þessum tólum og tækjum. Ég hef líka hug á því að prófa þessa aðferð á fleiri hluti. Ætli það sé hægt að fanga kjarna veruleikans innst inni í pixli?“

Þríhyrningur í borginni

„Mér finnst þessi þríhyrningur spennandi, sem teiknast svona upp milli þriggja punkta í borginni. Í tengslum við þessi fyrirbæri, eins og augað, og rafgasið – mér finnst áhugavert að þetta sé hérna á sama tíma og tengist. Verkið á Listasafni Íslends er ákveðin athöfn. Það verður til með höndunum og síðan er eins og verið sé að opna – þú nemur á dyrnar og opnar inn í heima. Þá tekur við það sem er að sjá hér í galleríinu og loks verurnar uppi á Laugavegi.“

Ragna: Það er mjög merkilegt og sérkennilegt, þetta ferðalag í huganum.

„Já, þetta er ferðalag í huganum, en þú færð stuðning af veruleikanum til að komast áfram. Síðan þegar maður er kominn nógu langt, þá er maður einhvern veginn frjáls. Ég held að þó að þessari sýningu ljúki þá sé þetta ekki búið. Ég er viss um að ég á eftir að hræra meira í þessu. Þegar maður horfir á þessi verk er augljóslega nýtt og nýtt ferðalag í hverju verki, þau eru öll mjög ólík. Verkin fara hvert í sína áttina en að baki hverju þeirra gæti verið annað verk. Kannski er ég að sýna hérna fimm seríur, nema það er bara eitt verk úr hverri. Ég vildi sprengja þetta í allar áttir.“

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir af verkum: Vigfús Birgisson. Aðalmynd með grein: Helga Óskarsdóttir

Vefsíða Hrafnkells: www.hrafnkellsigurdsson.com

Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur, er titillinn á sýningu Jóhönnu Kristbjargar í Hafnarborg. Þegar gengið er inn á sýninguna er það eins og að stíga yfir landamæri, inn á ókannað svæði þar sem óskilgreind tákn vísa veginn, á kunnuglegu en samt framandi tungumáli. Jóhanna Kristbjörg hefur sýnt verk sín víða á síðustu árum, hér heima m.a. í Listasafni ASÍ árið 2015, en hún er búsett í Belgíu þar sem hún útskrifaðist frá HISK, Higher Institute for Fine Arts, sama ár.

Jóhanna vinnur í marga miðla, en það má segja að grunnurinn að list hennar sé málverkið og tvívíð form, sem einnig eru sett fram sem skúlptúrar og innsetningar. Á sýningunni í Hafnarborg eru einnig tvö myndbandsverk, þar sem fram koma tengsl listamanns við umhverfi og hluti. Jóhanna skrifar líka og á sýningu hennar má sjá og lesa bók með textum og myndum, þar sem textaflaumur myndar líkt og samhliða heim við myndverk hennar.

List Jóhönnu byggir á samsetningu forma og lita sem að ýmsu leiti minnir á liststefnur frá fyrri hluta 20. aldar, kúbisma, súrrealisma og abstraktlist. Málverkin eru tvívíð og formum er dreift um myndflötinn eins og hvert verk gæti verið hluti af stærri heild, sem heldur áfram þar sem striginn endar. Jóhanna tengir málverkin við rýmið með veggmálverkum og dregur form þeirra inn í rýmið með skúlptúrum, útskornum formum af sama toga og þau sem málverkin sýna. Formin minna á púsl í púsluspili, sem eykur á tilfinninguna fyrir tengslum á milli verka. Hún skapar einnig innsetningar í rýminu, eins og þar sem hún staðsetur skúlptúr á bláum grunni sem minnir á stóra öldu. Smáhlutir úr járni og gerviblóm virka eins og glufur á þessari stóru heild og vekja upp spurningar.

Strúktúralismi kom fram í Frakklandi upp úr miðri síðustu öld. Þar kom fram sú hugmynd að menning okkar byggi á ákveðnum strúktúr. Þessar hugmyndir tengdust kenningum í málvísindum. Út frá þeim mátti hugsa sér að myndlist mætti nálgast og lesa eins og nokkurs konar tungumál. Á sama tíma komu fram hugmyndir um „dauða höfundarins“ og afhelgun listaverka. Listaverk áttu ekki lengur að búa yfir ósýnilegum og leyndardómsfullum, helgum kjarna listamannsins, heldur áttu áhorfendur og fræðimenn að greina þætti listaverksins í tengslum við samfélag, menningu og sögu. Strúktúralismi var svolítið eins og lokað kerfi, þar sem ákveðnir þættir voru skilgreindir með því að bera þá saman við aðra þætti innan sömu heildar, og öðluðust þeir merkingu sína út frá því.

Strúktúralismi var afar útbreiddur og hafði mikil áhrif, en í kjölfar hans komu fram póst-strúktúralískar kenningar sem leituðust við að „opna“ þetta lokaða kerfi og skoðuðu sérstaklega hvernig merking verður til og á hverju hún grundvallast.
Þessar strúktúralísku kenningar koma upp í hugann á sýningu Jóhönnu, en list hennar í heild er órofið samspil ótal þátta án upphafs og endis. Það er erfitt að líta á hvert listaverk sem einstakt verk, svo þétt og samtengd er sýningin í heild. Hvert um sig verða listaverkin líkt og tákn innan heildarinnar og athyglin hvarflar í sífellu á þeirra, frekar en að staðnæmast við hvert og eitt fyrir sig. Samtalið og tengingarnar milli listaverkanna verða nær áþreifanleg, og þá helst samspil jákvæðra og neikvæðra forma, ósjálfrátt leitar maður að því hvaða verk myndi passa inn í eða við annað.

Formheimur listar Jóhönnu er að grunninum til abstrakt, málverkin eru blanda geómetrískra og lífrænna forma sem fara frá því að vera þétt, samtengd heild yfir í að fljóta af léttleika á yfirborðinu. Þessi sömu form verða síðan eins og setning á vegg þegar þeim er raðað upp eins og lágmynd í lárétta röð. Skúlptúrarnir eru frekar tvívíðir en þrívíðir, en í þeim birtast óvæntir hlutir; útlínur hesthauss, gervirós, sem koma á óvart. Þannig brotnar upp hin annars tiltölulega lokaða heild. Myndböndin tvö verða líka til þess að skapa tengingu eða inngöngu fyrir áhorfandann, en í þeim birtist tilfinning fyrir tengingu milli manns og hlutar.

Í herbergi inn af sýningunni er að finna litla bók sem ber sama heiti og sýningin, hún er gefin út í Belgíu og skrifuð á ensku. Líkt og myndverk Jóhönnu er textinn ein, samfelld heild sem flæðir fram frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. Hugleiðingar um stað og stund, tengsl milli manneskja, hluta og umhverfis. Þessi texti nær að opna frekar upp myndheim hennar og undirstrika tengingu verkanna við daglegt líf, tilfinningar og umhverfi.

Sýning Jóhönnu er fjölbreytt og hugvitssamlega samansett. Verk hennar vekja forvitni án þess að svara spurningum, þau leiða áhorfandann inn á óþekkt svæði þar sem vegvísarnir eru á framandi tungumáli en sýningin í heild er áfangastaður. Myndverk og textar lifa samhliða lífi án þess að tengjast beint, en textarnir skapa ákveðin hugrenningatengsl sem gæða myndverkin lífi og í heildina er sýningin eftirminnileg og vekur forvitni.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: Hafnarborg

Um samúð

Um samúð

Um samúð

Í Hallgrímskirkju stendur yfir sýning Kristínar Reynisdóttur myndlistarmanns, til 13. maí. Hún ber titilinn Synjun og í sýningarskrá er fjallað um hvernig verk Kristínar vísa í stöðu flóttamanna og þann fjölda fólks sem hefur verið synjað um hæli hérlendis og erlendis. Í anddyri kirkjunnar má sjá krossa úr ólíkum viðartegundum sem vaxið hafa víðs vegar um heiminn en borist hingað til lands, rennda viðarboli í formi lágmynda og mynd af risastóru, neyðarappelsínugulu hjarta, lit sem einnig er á bakhlið viðarkrossanna.

Frá upphafi er óhætt að segja að list og samfélag tengist órjúfanlegum böndum. Á einn eða annan hátt er listin hluti af umhverfi sínu, hvort sem hún er andsvar við því, speglar það, setur fram heimspekilegar vangaveltur, eða er virkur hluti af því. Öldum saman hefur listin verið farvegur samfélagsins fyrir þjáningu, sorg, gleði og reiði. Listaverk eru eins og tímavélar, þau geta gert nokkrar aldir að engu, hinn sammannlegi þáttur er alltaf eins. Andlit aftan úr öldum lifnar við augliti til auglitis á striganum og mannlegar tilfinningar tjáðar í ljóði breytast ekki.

Undanfarna áratugi hafa listamenn í auknum mæli leitast við að virkja list sína innan ramma samfélagsins. Markmiðið er þá iðulega að reyna á einhvern hátt að nýta myndlistina til að auka lífsgæði, eða til að vekja athygli almennings á því sem betur má fara. Myndlist getur til dæmis aukið lífsgæði þegar listamenn leggja áherslu á mannlega og notendavæna þætti innan borgarskipulags, eða fegra umhverfi sitt. Þessi liststarfsemi gengur undir ýmsum nöfnum, á borð við „urban interventions“, eða „project-based community practise“, og fleira. Stundum rennur listin saman við félagsstarfsemi svo varla verður greint á milli. Síðan eru til listamenn eins og Rirkrit Tiravanija sem sérhæfa sig í að gefa fólki að borða – að vísu kannski ekki þeim sem mest þurfa á því að halda, heldur listunnendum sem mæta á opnun eða sýningu. En þannig má vekja athygli á margvíslegum möguleikum listarinnar.

Aðrir listamenn nálgast samfélagsleg málefni á hefðbundnari máta og í sjónrænu formi, eins og Kristín gerir á sýningu sinni, Synjun. Málefni flóttamanna á Íslandi eru sífellt í umræðunni, flestir koma – og fara – án þess að við vitum af því en einstaka mál ná athygli okkar í gegnum fjölmiðla og eru lýsandi dæmi fyrir þann alþjóðlega veruleika sem Ísland er hluti af. Árlega er fjölda fólks synjað um hæli hérlendis og það sent burt, ómögulegt er að ímynda sér hvernig er að standa í slíkum sporum. Hér kemur hin illræmda Dyflinnarregla við sögu en samkvæmt henni má senda þá sem áður teljast hafa sótt um hæli í öðru ríki innan Evrópusambandsins til baka þangað án þess að mál þeirra fái efnislega meðferð. Flóttamenn geta til dæmis lent í því að fingraför þeirra eru tekin á Ítalíu og sett í alþjóðlegan gagnagrunn og teljast þeir þá falla undir þessa reglu. Dyflinnarreglugerðin veitir löndum heimild en skikkar þau ekki til þess að senda fólk til baka, það er valkostur.

Óhætt að segja að aðstæður flóttamanna frá stríðshrjáðum ríkjum séu í brennidepli í samtímanum og aldrei er of oft minnt á nauðsyn þess að sýna náunganum samúð. Kannski má líka túlka sýningu Kristínar í víðara samhengi, sem kveikju að samúð, ekki bara í garð flóttamanna heldur allra, að ógleymdri nauðsyn þess að sýna sjálfum sér samúð.
Vonandi verður Synjun til þess að minna fjölmarga gesti Hallgrímskirkju á mikilvægi samúðarinnar. Hún gæti líka minnt á möguleika myndlistar og lista almennt séð til þess að vera virkt afl í málefnum samtímans. Aðferðir og möguleikar listamanna eru jafn ólíkir og margvíslegir og þeir eru margir.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: HGÓ

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Einkasýning Björns Roth stendur nú yfir í BERG Contemporary við Klapparstíg. Sýning Björns byggir á stórum, expressíonískum olíumálverkum og myndröðum unnum með vatnslitum, verkum þar sem tjáning og tilviljun mætast. Björn Roth, sonur Dieters Roth, á langan feril að baki í myndlistinni. Bæði sem sonur föður síns í samstarfi og sýningarstjórn og í eigin listsköpun.

Eins og fram kemur í texta um Björn sem fylgir sýningunni í BERG, hóf Björn listsköpun sína í tengslum við gjörningalist áttunda og níunda áratugar, en var þegar á níunda áratug orðinn náinn samstarfsmaður föður síns, Dieters. Eftir lát hans árið 1998 hefur Björn stýrt dánarbúinu og unnið áfram að þróun verka sem þeir feðgar sköpuðu saman, í anda þess samruna lífs og listar sem ávallt einkenndi listsköpun Dieters Roth.
Hér sýnir Björn verk sem unnin eru í einveru listamanns en ekki í samstarfi við aðra. Verkin á sýningunni eru unnin á tímabilinu frá 2009 og fram til dagsins í dag. Málverkin eru af öðrum toga en stórar innsetningar Dieters og Björns, þó byggja þau á sameiginlegum grunni.

Listsköpun sjöunda og áttunda áratugarins einkenndist af miklu umróti. Fluxus, gjörningalist og hugmyndalist tröllriðu listheiminum, í takt við umbyltingar í samfélaginu. Segja má að unga kynslóð þessa tíma hafi sameinast um eitt á öllum sviðum samfélagsins: uppreisn. Uppreisn gegn yfirvöldum eins og ´68 kynslóðin sýndi svo eftirminnilega en líka uppreisn gegn hefðbundnum gildum í listsköpun. Fluxus-listamenn lögðu áherslu á að nú gæti allt verið list, listaverk mætti skapa úr hvaða ómerkilega hráefni sem væri og allir mættu kalla sig listamann. Mörk milli listgreina urðu ógreinilegri og ekki síst var hugmyndinni um samruna lífs og listar haldið fagnandi á lofti. Í þessum frjóa jarðvegi urðu til mörg verka Dieters Roth og á áttunda áratugnum hóf Björn Roth þátttöku í framúrstefnulegum og áleitnum gjörningum. Þessi óhefti andi frjálsrar listsköpunar sem sprottin var úr hversdagslífinu yfirgaf aldrei verk Dieters Roth og sameiginleg verk þeirra feðga einkennast meðal annars af því sterka grundvallarviðhorfi að sköpun sé sjálfsagður hluti af lífinu.

Sú tilfinning einkennir einnig verk Björns Roth í BERG. Stór olíumálverk hans eiga rætur sínar að rekja til expressionisma í málverki sem á sér nokkrar birtingarmyndir á tuttugustu öldinni. Hvort sem um var að ræða ljóðrænan expressionisma Kandinsky, slettumálverk Pollock eða hráa bylgju nýja málverksins á áttunda og níunda áratug, bjó ávallt sú hugsun að baki að málverkið væri kjörinn miðill persónulegrar tjáningar, farvegur fyrir tilfinningar listamannsins.

Björn Roth sýnir tvær myndraðir olíumálverka á sýningunni. Þetta eru bæði stór og smærri verk þar sem síbylja línu og og litar myndar óreiðukennda en samtengda heild, formin eru lífræn, gjarnan hringform og litina má tengja við náttúru, leysingar, vatnsflaum. Í verkunum má finna fyrir orkuflæði sem gæti tengst íslenskri náttúru en þetta eru þó ekki náttúrumyndir. Önnur myndröð hefur léttara yfirbragð, hér er olíuliturinn jafnvel notaður áþekkt og vatnslitur og fær að flæða og leka um myndflötinn. Sterkar, hraðar línur skapa teikningu á ljósum grunni. Aðrar olíumyndir minna á kalligrafíu í lausum, stórum og frjálsum pensilstrokum.

Björn sýnir síðan myndraðir unnar með vatnslitum, undir titlunum Taugasallat, Hrákökur, Krapi og Flóð og fyrir utan Flóð er fleiri en ein myndröð undir hverju heiti. Í þessum verkum birtist sá bakgrunnur sem nefndur var áðan bæði í titlum verkanna og í vinnuaðferðum. Titlarnir eru hversdagslegir í anda þeirrar hugmyndar að líf og list séu órjúfanlega tengd, verkin eru líkt og hugleiðing sprottin upp úr hversdagslífinu, upp úr andblæ og stemningu daganna. Myndraðirnar Hrákökur I og II eru lífrænar og sumar líkamlegar, samspil litar og vatns skapar blæbrigði á myndfletinum, hér kemur listamaðurinn af stað ferli sem hann hefur ekki nema að hluta til á valdi sínu.

Ferlislist, list sem leit svo á að þróun sköpunarferlis væri inntak listaverka kom fram upp úr miðri síðustu öld. Sum verka Arte Povera listhreyfingarinnar á Ítalíu einkenndust af slíkri hugsun, þar sem lífrænt ferli er grundvöllur listaverks. Ekki er miðað við endanlega niðurstöðu sem hið eina sanna listaverk, heldur er listaverkið ferli í tíma og rúmi, oft efnafræðilegt ferli á borð við rotnun eða efnafræðilegar umbreytingar. Þetta átti líka við um Fluxus-list Dieters Roth. Þessi ferlishugsun náði að skjóta rótum í listsköpun og birtist í margvíslegum myndum fram í samtímann. Í verkum Björns birtist ferlið annars vegar í efnafræðilegu samspili litar og vatns, en ekki síður, eins og í myndröðinni Flóð, verður til sjónræn frásögn af sköpunarferli þar sem ákveðin stígandi verður í verkinu frá fyrstu mynd til þeirrar síðustu. Ennfremur er vísað til síbreytilegs ferlis náttúrunnar í myndröðunum Blár krapi og Grænn krapi, þar sem litarefni á myndfleti mætast, þykkt og þunnt, gegnsæir litir í samspili við matta svo minnir á áferð krapahröngls.

Titill sýningar Björns kemur frá myndröðum undir samheitinu Taugasallat, eins og til að árétta tengsl tilfinninga og myndverka. Hér sprettur litaflæði frá lífrænum kjarna, af orku og spennu sem kallar fram sprengingu á myndfletinum. Í þessum myndum, eins og í öðrum verkum á sýningunni, birtist samspil einbeittrar sköpunar listamannsins og tilviljunarkennt flæði litarins, sköpun og tilviljun takast á og á einhverjum tímapunkti sleppir listamaðurinn takinu og lífið tekur við.

Sýningin Taugasallat í BERG Contemporary, Klapparstíg 16, stendur til 28. apríl.
Opið þri. – fös. 11-17 og lau. 13-17

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við BERG Contemporary.
Ljósmyndir: Vigfús Birgisson.

Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Það er eitthvað við skammdegið. Bleik, síðbúin sólarupprás, rökkurblámi, gullið síðdegissólarlag og síðan tekur við djúpt vetrarmyrkrið lýst upp af marglitum ljósum. Stemning skapast í borginni og kyrrð í náttúrunni. Samsýningin #CURRENTMOOD sem stendur yfir í galleríinu BERG Contemporary við Klapparstíg fangar þessa hauststemningu, þar sem skærir litir stíga fram úr rökkrinu og virka sterkt á áhorfandann. Þau sem sýna eru Haraldur Jónsson, John Zurier, Kees Visser, Páll Haukur Björnsson og Þorgerður Þórhallsdóttir. Listamennirnir eru af ólíkum kynslóðum en ákveðið abstrakt leiðarstef er í verkum þeirra. Á sýningunni er slegið á strengi sem skapa samhljóm, en að auki vísa verk hvers listamanns um sig í ýmsar áttir og tengjast hræringum í listum frá síðustu öld og til samtímans.

Andlegar víddir

Abstraktlistin er rúmlega aldargömul og innan hennar hafa listamenn fetað fjölbreyttar slóðir, stefnur hafa endurnýjast eða liðið undir lok. 1910 kom út rit Wassilys Kandinsky, Über das Geistige in Der kunst, Um andlegan þátt listarinnar, en þar fjallar hann um sjálfstæða tilvist lita og forma, óháð tengingu við sýnilegan raunveruleika. Litir og form voru líkt og tónlist, hélt Kandinsky fram á byltingarkenndan máta á sínum tíma; fólu í sér andlegar víddir. Með samspili lita og forma, uppbyggingu og hrynjandi á myndfleti, var hægt að vekja upp tilfinningar hjá áhorfandanum, ekki ósvipað og þegar hlustað er á tónlist. Málverkið öðlaðist sjálfstætt líf. Kazimir Malevitch gekk skrefi lengra þegar hann málaði svartan ferning á hvítum grunni árið 1915. Ferningurinn táknaði hinn andlega þátt tilverunnar, þar leitaði Malevitch skjóls frá raunveruleikanum, en í náttúrunni eru engin ferhyrnd form. Hið sama var upp á teningnum í sterkri öldu abstraktlistar um miðja tuttugustu öld. Listamenn leituðust við að tjá eitthvað dýpra og meira en yfirborð málverksins hver á sinn hátt, hvort sem um var að ræða lýríska abstraktlist eða geómetríska harðlínustefnu. Og allar götur síðan birtast abstrakt þættir í verkum listamanna, hvort sem listamaðurinn vinnur beinlínis út frá slíkum vangaveltum um form og liti, eða hann notar eiginleika þeirra til að styðja við verk sín.

Skærir tónar á djúpum grunni

Eitt af því sem var upphafsmönnum abstraktlistar hugleikið var hlutverk listarinnar í samfélaginu. Að þeirra mati átti listin ekki að hafa hversdagslegt notagildi heldur vera andlegt athvarf. Listamennirnir sem hér sýna myndu líklega taka undir þetta sjónarmið. Í dag erum við þó kannski opnari fyrir því að erfitt er að greina milli andlegs og veraldlegs notagildis, í stressuðum heimi ávinnur andlegi þátturinn sér sess. Við leitum í andlega þáttinn og fyrir mörgum er myndlistin kjörinn vettvangur, í henni má finna skjól og hvíld, stíga út úr hversdagslegum raunveruleikanum og upplifa eitthvað sem við eigum ekki endilega orð yfir. Það er einmitt þessi stemning sem ríkir á #CURRENTMOOD, tilfinning fyrir því að stíga út úr skammdegismyrkrinu og upplifa annan heim um stund.

Hæglátur taktur

Hér á sér stað áhugavert samspil listamanna sem lært hafa og þroskast á mismunandi tímum og stöðum, allt frá Kees Visser sem mótaðist sem listamaður á áttunda áratug síðustu aldar, til yngsta listamannsins, Þorgerðar Þórhallsdóttur sem lauk meistaranámi í Malmö á síðasta ári. Þorgerður sýnir þrjú vídeóverk.

Í samhengi skammdegis og staðsetningar í miðbænum minnir sorti myndflatarins á borgarmyrkur, ég hugsaði um regnvott malbik sem glampar á í skini götuljósa en verkin eru þó ekki hvað síst abstrakt. Hæg hreyfing og síbreytilegt ljósflökt eru dáleiðandi, eins og að horft sé á sjónræna möntru. Þorgerður hefur á síðustu árum unnið vídeóverk í bland við innsetningar þar sem ljós, skuggar og hreyfing eru í miðpunkti, íhugul verk og falleg. Hér fær einfeldnin að njóta sín og verk hennar slá hæglátan takt í sýningunni. Þetta samspil myrkurs og ljóss kallast á við ljósmyndir Haralds Jónssonar af ljósbrotum á pappír.

Hvikult ljós

Myndröð Haralds eftir endilöngum vegg gallerísins hverfist um birtu og ber nafnið Litrof. Litsterkir ljósgeislar falla á verk úr hvítum pappír og skapa nýtt verk. Myndirnar eru allt frá því að vera í daufum pastellitum til þess að minna á litsterkt sólarlag, sumar eru líkt og abstraktmálverk en aðrar fanga litróf skammdegisbirtunnar með sterku samspili skærrar birtu og djúpra skugga. Þetta eru hrein abstraktverk en sköpuð eins og af tilviljun, máluð með ljósi, af þeirri næmu, ljóðrænu tilfinningu sem jafnan einkennir verk Haralds, hvort sem það eru skúlptúrar, innsetningar eða ljóð.

Haraldur Jónsson

Ljósbrot hverfullar birtu eru fönguð augnablik, eins og náðarkraftur. Þessi hvikula birta er einnig leiðarstef í vatnslitaverkum Johns Zurier sem bera nöfn er tengjast náttúrunni og eru máluð hér á landi, en fela ekki hvað síst í sér abstrakt þætti.

Vatnslitaverk Johns Zurier

Þrjár litlar vatnslitamyndir draga fram einkenni málarans sem leitast við að draga fram kjarna birtu og forma sem hann upplifir í náttúrunni. Hér notar hann möguleika vatnslitanna til að kalla fram andstæður flæðandi birtu og svartamyrkurs.

Viðmiðunarpunktar

Kees Visser er hollenskur en hefur búið og dvalið reglulega hér á landi síðan á áttunda áratugnum. Bakgrunnur hans í hugmyndalist og naumhyggju kemur fram í málverkum hans, en verkin Y-86 og Y-82, bæði frá árinu 2017 eru í einfaldleika sínum líkt og fastir viðmiðunarpunktar sýningarinnar, gult og dökkt, ljós og myrkur og öll hin verkin lenda einhvers staðar á rófinu þarna á milli.


Verk Kees Visser eru fremst á myndinni.

Verkin eru eintóna en fela í sér áferð, liturinn er þykkur og hrjúfur. Kees Visser hefur um áratuga skeið unnið með einlit málverk í samspili við rými, hann setur þau fram á ótal vegu og hefur líkt vinnuaðferðum sínum við að spila skák, þar sem hver leikur felur í sér endurtekningu en engu að síður er niðurstaðan aldrei eins.

Sígild minni

Páll Haukur lauk meistaranámi við California Institute of the Arts árið 2013. Abstrakt þættir, skuggaspil, málverk og aðferðir innsetninga byggja upp myndverkin sem hann sýnir hér. Hann leitast við að virkja listaverk sín og tengja þau áhorfendum á áþreifanlegan hátt. Lágmyndir hans sem skaga út í rýmið varpa litskugga sem færist til eftir því hvar áhorfandinn er staddur.

Páll Haukur Björnsson

Óvænt innskot í þessi abstrakt verk eru síðan raunverulegir ávextir, epli, sítróna, sem rotna eða eru endurnýjuð að vild. Eigandi slíks verks þarf að taka þátt í viðhaldi þess með því að endurnýja ávöxtinn. Þannig mætast á frjóan hátt sígild minni málaralistar, kyrralíf og abstrakt, og straumar í samtímalistum.


Páll Haukur Björnsson

Páll Haukur notar líka orð í myndum sínum, t.d. í stórri innsetningu á vegg og á gólfi. Hér á listaverkið sér líka lifandi, lífrænan þátt, en að segja hver hann er jaðrar við að spilla upplifun áhorfenda sem eiga eftir að sjá sýninguna. Páll Haukur sýnir í þessum verkum frjóan huga sem krystallast í einfaldleika.

Tengsl abstraktlistamanna og tónlistar voru sterk framan af tuttugustu öld og þessi sýning kallar þau fram í hugann. Hér koma saman listamenn sem eiga uppruna sinn í ólíkum liststefnum, en verkin sem valin eru saman magna upp hljóm og styðja hvert annað, leika saman ljúfan og sterkan skammdegisblús.

 Sýningin #CURRENTMOOD í BERG Contemporary, Klapparstíg 16, stendur til 22. desember.
Opið þri. – fös. 11-17 og lau. 13-17

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við BERG Contemporary.
Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.

UA-76827897-1